Að skokka um Kálfafellslandið

Um gönguferð um Kálfafellsland, bernskuslóðirnar, um miðjan september í ár. Önnur af tveimur. Fyrir mig voru þessasr gönguferðir svolítið eins og að hitta sjálfan mig og að minnast þess hver ég var sem stráklingur þegar ég naut þess, gjarnan aleinn, að skokka um Kálfafellslandið og líkaði vel einveran.
 
 
"Ég hafði eitt sinn einn draum" söng maður að nafni Kornelíus á sínum tíma og hann söng líka um að hann trúði að draumurinn væri sannur. Ég hef haft marga drauma gegnum árin og einn draumur sem oft heimsótti mig var að innarlega í þessum hvammi, sem er í Kálfafellslandi, myndi ég byggja lítið snoturt hús. Í þessu litla snotra húsi mundi alltaf ríkja kyrrð og friður á svona friðsömum stað, og til að komast í snertingu við hringiðu heimsins yrði ég að yfirgefa hvamminn og hella mér inn í hringiðuna. Svo þegar ég yrði þreyttur á henni eða líkaði ekki við hana gæti ég dregið mig til baka í hvamminn minn og lifað friðsömu lífi. Eigi ég að vera alveg sannur í því sem ég segi þá skal ég viðurkenna að draumurinn kom og fór langt fram eftir ævi, en reyndar trúði ég varla að hann yrði að veruleika. Þegar ég leit yfir hvamminn á gönguferð minni nú á septemberdögum skal ég viðurkenna að mér fannst draumurinn enn í gildi og vera jafn fallegur og fyrrum.
 
 
Þegar ég yfirgaf hvamm draumahússins kom ég í nokkrum skrefum yfir í þennan hvamm sem varla er þó hvammur, enda segir nafnið á honum að þetta sé hagi en ekki hvammur. Straumhljóðið í ánni er sterkt, voldugur niður. Samt er þessi niður afar lágur miðað við hávaða heimsins. Að vera þarna á göngu í haustblíðunni, þá virðist vera friður í heiminum. Að muna eftir að hafa séð tófuför í sandinum fyrir 65 árum, að hafa horft á hraunkantinn með skuggunum undir brekkurótinni og trúað að þar væri ævintýri að finna, allt gaf hugmyndafluginu lausan tauminn. Svo þegar þangað var komið voru litlu skútarnir svipaðir því sem þeir höfðu alltaf verið en burknablöðin sem teygðu sig í átt að birtunni höfðu stækkað eilítið síðan síðast. Svo hélt gangan áfram.
 
 
Eftir því sem lengra dregur inn með ánni eykst niðurinn en hávaði heimsins fjarlægist að sama skapi. Kannski var ég tíu ára og ef svo, þá eru 65 ár síðan. Eitthvað ár fram eða til baka skiptir ekki máli. Ég gekk sem oftar inn með ánni og kom að lambá sem var þar með aldeilis nýfæddu lambi sínu. Lambið var svo fallegt að ég bara mátti til með að taka það í fangið. Svo settist ég með það í grasið og kannski var það einmitt í hallanum sem við sjáum þarna á myndinni. Lambið var svo undur fallegt og ég strauk yfir fíngerðu hárin undir auganu sem að mér sneri. En! en! allt í einu buldi í jörðinni og mamman kom æðandi og stangaði mig um koll svo ég kútveltist í grasinu. Sárt var það og sár var ég líka vegna þess að mamman skildi bara alls ekki að ég vildi vera góður við lambið hennar.
 
 
Það var oft takmarkið fyrrum að koma að þessum fossi, sitja þar og hlusta á þungan niðinn og skynja kraftinn, vilja næstum falla með vatninu, reyna að horfa á sama punktinn sem þó var aldrei sá sami, og bara vera til.
 
Og enn einu sinni hafði ég komið að gamla takmarkinu, að fossinum í heiðinni, og upplifað einmitt það sama og áður. Eftir dágóða stund við fossinn gekk ég heim á leið og hafði upplifað hreina helgistund með sjálfum mér, með náttúrunni og þeim kröftum sem höfðu verið með mér á þessum slóðum alveg frá því að ég man eftir að ég fékk að vera einn á svona ferðum.
 
 
Ég hélt athyglinni vakandi og horfði yfir lautir og hóla, gil og grónar flatir. Það hafði orðið breyting í heiðinni. Þarna um miðjan september var ekki lengur grænt en allt var svo vel gróið. Gömlu grýttu svæðin, moldarbreiðurnar og gömlu rofin sem blésu upp frá ári til árs, allt var þetta grasi gróið. Ég anaði að grænir fingur Stefáns bróður míns hefði verið þar að verki og breytt vörn í sókn. Ég ekki bara anaði, ég vissi.
 
Hvað er verðmætamat? Hvað eru ríkar upplifanir? Þetta hugsaði ég mikið um á leiðinni til baka. Ég skokkaði ekki eins og ég gerði fyrir 65 árum. Ég ýmist rölti eða gekk frísklega.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0