Að óttast ókunnar slóðir

Í dag hef ég verið að sýsla hér úti og koma vissum hlutum í það form sem ég vil hafa þá í framvegis. Þetta hefur meðal margs annars falist í því að bora gat í hliðina á það sem hér kallast þriggja hólfa brunnur. Það er að segja brunnurinn sem tekur við kúk og skít frá klósettinu, sturtunni, eldhúsinu og öllu því vatni sem við notum innan húss. Til þess þurfti ég líka að grafa nægjanlega djúpan skurð. Þegar ég boraði fyrsta gatið var það fimm sentimetrum of neðarlega þannig að ódámurinn rann á móti mér í skurðinn þar sem ég lá á hnjánum með borvélina. Og auðvitað þurfti ég að opna brunninn inn í það hólf sem varðveitir ódáminn nákvæmlega eins og hann kemur fyrir þegar hann kemur frá húsinu.
 
Ég þurfti líka að renna til þungu lokinu sem lokar brunninum og fara með höfuðið niður í hann að öxlum eða svo til að geta séð og gengið frá öllu á viðeigandi hátt. Það segir í leiðarvísum að þurfi maður niður í svona brunna, þá skuli maður vera á varðbergi því að það geti verið banvænt gas þar niðri. Þess vegna og einnig af þeirri ástæðu að það lyktar ekkert aðlaðandi undir lokinu, þá hélt ég niðri í mér andanum eins og ég mögulega gat. Ekki freistaði heldur útlitið og ég reyndi að hafa mínar heimsóknir undir brunnlokið sem allra styttstar. Svo gerði rigningarskúr þannig að moldin sem ég hafði mokað upp á skurðbakkann varð að leðju.
 
Þrátt fyrir þetta skítverk var það ýmislegt sem flaug gegnum huga minn sem var algerlega óskylt aðstæðunum. Ég velti til dæmis fyrir mér gagnssemi þess sem ég var að gera og ég velti fyrir mér hvort Íslendingum mundi takast að kjósa sig í átt að nýju Íslandi á morgun eða hvort þeir mundu bara halda áfram að lulla áfram í sama gamla farinu. Kannski er einfaldast að halda áfram í sama farinu vegna þess að það er eitthvað kunnuglegt.
 
Langt gengnir alkohólistar og eiturlyfjaneytendur geta orðið skelfingu lostnir af þeirri hugsun einni að líf án þessara efna sé eitthvað sem þeir alls ekki þekkja til. Þeir gera sér samt grein fyrir því að það yrðu tímar allt annarra lífsgæða og ómældra nýrra og spennandi möguleika -en, líf á ókunnum slóðum. Það er þetta ókunna sem er svo skelfilegt. Því kemur það ósjaldan fyrir að þeir velji aftur flöskuna eða fíkniefnin, alla vega enn um sinn, vegna þess sem þeir þekkja ekki til.
 
 
*     *     *
 
 
Svo einkennilegt sem það nú var þarna í sannkallaðri drullunni í dag, þá datt mér í hug vísdómsorð sem ég hef lesið undanfarna daga. Mér hefur fundist þau segja svo mikið og fá mig til að hugleiða eitthvað mannbætandi. Hins vegar var tímabil þar á undan sem mér fannst ekki svo mikið til þessara vísdómsorða koma. Ég velti fyrir mér hvers vegna en komst ekki að neinum stóra sannleika, en var þó helst á því að það væri eitthvað innra með mér sjálfum sem gerði þetta að verkum.
 
"Óttastu minna og vonaðu meira, borðaðu minna og tyggðu meira, kvartaðu minna og andaðu meira, talaðu minna og segðu meira; elskaðu meira og öll heimsins gæði munu falla þér í skaut."
 
Þetta stendur í Kyrrð dagsins þann 25. júní og er sagt vera sænskur málsháttur. Ég er búinn að lesa þetta hvað eftir annað síðan þann 25. og mér datt í hug áðan að ég ætti að gera þetta að bæði morgun- og kvöldbæn. Endurtaki ég nógu oft með sjálfum mér einhvern jákvæðan og mikilvægan sannleika, þá fer hann að verða hluti af sjálfum mér. Þannig losnaði ég við gömlu fýluna, jafnvel ilskuna, þegar ég borgaði mánaðarreikningana. Þegar ég loasnaði við reikningafýluna byrjuðu líka peningarnir að endast betur. Trúi þeir sem trúa vilja, en sannleikurinn er bara sá að þetta er staðreynd.
 
Þennan las ég svo á Feisbókinni í dag: "Allir eiga til kjánalega dynti, en mesti kjánaskapurinn er að eiga engan."
Nikos Kazantzakis sem uppi var 1883-1957 á að hafa sagt þetta. Ég forvitnaðist um þennan mann á Google og komst að því að hann fæddist á Krít og var meðal annars rithöfundur, ljóðaskáld, leikritahöfundur og heimspekingur. Hann var mjög vel menntaður og auk fyrrnefnds var hann um tíma ráðuneytisstjóri og ráðherra. Á legsteini hans stendur að hann voni ekkert, óttist ekkert og að hann sé frjáls.
 
Ég á til kjánalega dynti og að sjá að mesti kjánaskapurinn væri að eiga engan, gerði það að verkum að ég vildi vita hvort maðurinn gæti staðið undir þessum orðum. Ég komst að því að svo væri og það gerði mig harla glaðan. Það er þegar ég segi eitthvað sem ég hefði átt að láta ósagt sem mér finnst að ég geri mig að mestum kjána. Það fer líka óneitanlega saman við sænska málsháttinn sem segir; "talaðu minna og segðu meira".
 
Ég hafði ekki í huga að skrifa neitt en seinni partinn í dag heyrði ég Valdísi segja í síma að ég væri að skrifa eitthvað. Ég var bara ekkert að skrifa, heldur að laumast á Fb í pásu sem ég tók. Þegar ég heyrði hana segja þetta ákvað ég að skrifa eitthvað þegar liði á kvöldið en þó ekki of seint. Ég þarf að hvíla mig vel og lengi í nótt.
 
Eigið góða helgi.

Að endurheimta jafnvægi og lífsgleði

Að vera sjötugur og óþroskaður er ekkert einfalt mál. Mér bæri kannski að þegja yfir þessu en það hefur sína ókosti. Ef ég bara skrifa um það sem mér tekst vel og það sem er fallegt og það sem er í besta lagi, þá verða skrif mín ótrúverðug og fölsk. Svo væri kannski bara best að skrifa ekki neitt og segja sem allra minnst, þá er minni hætta á að mér verði á í messunni með orðum mínum og þá er minni hætta á að fólk hlæi að mér. En það er nú einu sinni svo að mér er nokkuð sama þó að einhver hlæi að mér eða verði hissa á að mér þyki eitt eða annað. Því ætla ég nú að gera játningu.
 
Í gær greiddi ég reikningana okkar og þeir voru mikið fleiri en ég átti von á -og mikið hærri. Þegar því var lokið var ég reglulega ánægður með mig og ég var ekki einu sinni fúll yfir því að reikningarnir væru hærri en ég hafði haldið. Svo tók ég fram viðeigandi gögn til að gera ákveðna skattaskýrslu til Tryggingastofnunar ríkisins fyrir okkur Valdísi. Þá byrjaði að fara í verra. Sá sjötugi varð barnalegur og þungur á brún.
 
Reyndar var allt við hendina en það er eiginlega ekki alveg einfalt að gera þessa skýrslur með ólíkum nöfnum á tegundum greiðslna sem ekki passa alveg á milli landa. Ég fæ heldur engan ellilífeyri svo að það var ekki til að auka hrifningu mína, en Valdís fær alveg þokkalegan ellilífeyri og mjög góðan ef hrunið hefði ekki orðið og krónan fallið. Mér fannst betra að vinna og fá á að giska sjötíu sinnum meira fyrir það en það sem ég hefði fengið í ellilífeyri frá Íslandi.
 
Hér í landi talar fólk um að það sé mikil skriffinnska. En ef sama fólk vissi hvað mikil skriffinnska er varðandi ellilífeyrinn okkar frá Íslandi, þá mundi það hrista höfuðið. En eitt vil ég þó segja; að þegar tekjur maka höfðu ekki lengur áhrif á ellilífeyri hins makans, þá var stigið stórt framfaraskref hjá hinu unga íslenska lýðveldi. Svona voru hugsanir mínar í gærkvöldi og áður en ég sofnaði hafði ég skrifað niður spurningar sem ég ætlaði að leggja fyrir þann sem svaraði mér hjá tryggingarstofnun þegar ég hringdi þangað að morgni til að fá aðstoð.
 
Það er skemmst frá því að segja að þegar ég spurði í morgun í hvaða línu ég ætti að setja það sem kallast þjónustulífeyrir, þá svaraði maðurinn með svolitlu kokhljóði; "aaaaaah! settu það í einhverja línu". Þá varð þetta óttalega einfalt og bréfið er farið í póst. Valdís sagði líka í gær að ég gerði þetta allt of vandlega.
 
 
*       *       *
 
Tímanlega í morgun héldum við Valdís á Háskólasjúkrahúsið í Örebro. Nú var alvara á ferðum, lyf í æð öðru sinni og geislun í fyrsta skipti. Þessu fylgdu alls konar skiupulagningar, flakk á milli deilda, auka rannsóknir og vinnudagurinn hjá Valdísi varð yfir níu tímar. Við fórum um marga langa ganga strax í byrjun og flökkuðum milli fyrstu og fimmtu hæðar við innskráningu blóðpróf og viðtöl. Að lokum höfnuðum við á biðstofu þar sem við biðum eftir viðtali við lækni sem ákveður lyfjagjöfina.
 
Á biðstofunni voru þegar nokkrar manneskjur, alvarlegar, fölar og mjög þögular. Tvö pör voru þarna og þau voru einnig þögul. Strax á eftir okkur kom einsömul kona sem eftir innskráningu settist í lítinn sófa og horfði beint fram. Einhvern tíma hefur hún eflaust horft á lífið með mikið, mikið líflegra augnaráði og bjartsýni en hún gerði nú. Svo komu inn hjón sem settust skáhalt fyrir aftan okkur og héldu uppi líflegum samræðum, en það hafði ekki áhrif á hina.
 
Ég leit yfir þennan hljóða skara að frátöldu parinu sem hélt uppi samræðunum bakvið okkur og svo leit ég í laumi á konuna sem kom að norðan haustið 1960. Hún bar sig ekki illa og hún var ekki föl. Mér fannst hún reglulega dugleg og ég dáðist að henni á þessari stundu. Hún kom suður til að vinna á Hrafnistu í Reykjavík og ég hitti hana. Ég kastaði út neti mínu og fangaði hana. Við bjuggum okkur hreiður og að hún ennþá býr í sama hreiðri og ég sýnir trygglyndi hennar.
 
Þarna á biðstofunni fannst mér sem ég hefði aldrei orðið veikur á ævi minni og því gæti ég alls ekki sett mig í spor neins sem þar var. Mín veikindi voru svo óttalega lítilfjörleg. Þarna inni var nefnilega óendanlega mikil alvara og hvernig átti ég, ég sem lék barn í gærkvöldi, að geta sett mig inn í þá alvöru. En það sem ég var þó ánægðastur með var að við Valdís gátum talað saman.
 
Að lokum vorum við kölluð inn til læknisins. Malin heitir hún, mjög ungur læknir. Hún talaði af umhyggju, gætni og skilningi. Ég vissi að Valdís vildi spyrja ákveðinnar spurningar og var farinn að álíta að henni fyndist það ekki viðeigandi. Þegar Malin gaf færi á því spurði ég spurningarinnar og sagði: Er geislunin sjálf erfið eða sársaukafull? Þá svaraði Malin í allt annarri tóntegund: Ja, nei, nei, nei, maður veit alls ekki af því. Ég sá að axlir Valdísar lyftust.
 
Ég yfirgaf Valdísi á sömu biðstofu og við komum inn á í upphafi og  þá beið hún eftir lyfjum í æð. Svo átti hún að fara í geislunina einum tveimur tímum síðar. Eftir á sagði hún að það hefði verið erfiðast að þurfa að halda handleggjunum í ákveðinni stellingu í langan tíma. Ég fór heim og lauk við skattaskýrslurnar til tryggingarstofnunar og fór svo á hreppsskrifstofuna í Fjugesta til að fá fleiri stykki af afritum til að senda með skýrslunum til Íslands. Þegar ég fór út af pósthúsinu eftir að hafa póstlagt þetta allt saman var ég ánægður og hugsaði mér að biðja æðruleysisbænina oft næst þegar ég geri þessar skýrslur, en þær þarf að gera tvisvar á ári. Það mundi fara mér mun betur en ólundin og bægslagangurinn.
 
Ég sótti Valdísi hátt á sjötta tímanum og nú situr hún frammi og horfir og hlustar á músikþátt í sjónvarpinu. Áður var hún búin að horfa á Fjöldasöng á Skansinum, fyrsta þátt ársins. Reyndar er hún að horfa á framhald af þeim þætti í iPadinum. Ég get ekki séð á henni á þessari stundu að dagurinn í dag hafi verið vitund öðru vísi en aðrir dagar. Svona geta fjallkonur tekið hlutunum.
 
Það lágu blöð á nokkrum borðanna á biðstofunni á sjúkrahúsinu, öll með sama texta. Letrið á þessum blöðum var svart utan fyrirsögnin sem var rauð og hljóðaði svo: Að endurheimta jafnvægi og lífsgleði.
 
Jú, sólin skín svo sannarlega handan við hornið.

Bláberjabekkurinn

Það var engin sjónvarpsmessa í morgun, heldur morgunandakt sem send út í fyrra og endursýnd í dag. Þetta var býsna atghyglisvert þótti okkur og talað var við mann sem heitir Thage G Peterson. Thage hefur verið iðnaðarráðherra, dómsmálaráðherra og varnarmálaráðherra fyrir socialdemokrata og hann hefur verið margt annað gegnum lífið. Mér varð á að undrast hvernig hann hefði komist yfir þetta allt. Hans fyrsta vinna var vinnumennska á árun um 1947 til 1951 þegar hann var 14 til 18 ára. Hann var 77 ára þegar þessi andakt var tekin upp, sem er jú enginn aldur, og þá var hann í skóla og las guðfræði. Það er spurning hvort ég ætti að setjast á skólabekk þegar Sólvellir eru þannig tilbúnir að það verði bara dútl eftir ásamt heiðarlegri skógarvörslu. Það lá við að þessi Thage setti grillur í höfuðið á mér. Hann var heilum sjö árum eldri en ég er í dag þegar þátturinn var tekinn upp
 
 
*      *      *
 
 
Stundum hef ég fyrir augunum eitthvað sem ég sé að ég þarf endilega að fara í og lagfæra. Ef það dregst of lengi veldur það óþægindum og svo þegar það hefur verið gert skapar það bara ánægju. Ég fór í svona verk í dag.
 
 
 Eina 25 metra að baki húsinu er bláberjabekkurinn. Ef vel er að gáð sést að grasið ef farið að vaxa upp á milli rimlana á bekknum. Það er léleg hirðusemi og veldur auðvitað angri þangað til úr er bætt. Þarna eiga líka að vera bláberjarunnar í beðum en það er varla hægt að sjá að svo sé. Í morgun eftir morgunverð og morgunandakt fór ég í tilheyrandi vinnuföt og tók til við lagfæringu á svæðinu.
 
 Eftir svo sem einn og hálfan klukkutíma hafði þessi breyting orðið. Það er hægt að merkja vissa hluti þarna. Bláberjarunnarnir eru afar misjafnir enda misgamlir. Aftan við bekkinn er runni sem er að verða meters hár og hlýtur að vera fjögurra ára gamall. Sá hefur aldrei borið ber og ætti því að sendast í sláturhús. Góður bóndi mundi alla vega senda þá á í sláturhús sem ekki fengi lamb ár eftir ár. Hinu megin við bekkinn, beint á móti, eru einu ári yngri runnar sem hafa borið ber einu sinni. Í fyrra voru ber á leiðinni en ein frostnótt í maí eyðilagði þau. Það var ekki lélegum runna um að kenna. Tegundanöfnin er að finna á miðum sem hanga á öllum þessum plöntum þannig að í haust eða að vori er best að fara á stúfana og kaupa nokkrar góðar plöntur.
 
 Það er nefnilega svona sem þetta á að líta út. Hann er tæplega eins árs þessi ungi maður sem er búinn að uppgötva að það vex eitthvað voða gott á þessum runnum. Svona verður það aftur eftir nokkrar vikur og / eitt er víst að aftur verður / afskaplega gaman þá. Við þurfum að kaupa meira af þessu kvæmi. Ég er viss um að Hannes Guðjón er mér alveg sammála um það. Myndin var tekin í hitteðfyrra.
 
 Þegar bláberjasvæðið var komið í gott horf reytti ég frá jarðarberjaplöntum sem við gróðursettum í vor. Þarna á svæðinu vaxa vilt jarðarber (smultron) og við keyptum meira af svoleiðis plöntum. Þegar ég var að reyta þarna kom Valdís í heimsókn og einmitt þá fann ég eitt fullþroskað jarðarber. Auðvitað fékk hún berið, fyrstu uppskeru ársins. Ræktuðu jarðarberin eru í döllum á öðrum stað. Þar er mikið af stórum berjum á leiðinni og á morgun þarf ég að kaupa net til að setja yfir þau til að verja fyrir fuglunum. Það er gaman að hafa fuglana en það gerir líka vissar kröfur.
 
 
 Valdís tók þessa mynd þegar hún kom í heimsóknina í dag og þessi mynd er nefnilega skemmtileg. Á henni sjáum við birkitré, nákvæmlega fyrir miðri mynd, sem er orðið um það bil fjögurra metra hátt. Það eru svona tré sem eiga að taka við af eldri trjánum sem eru með nakta stofna upp í tíu metra hæð. Það eru mörg svona tré á leiðinni sem eiga að taka yfir. Það er að annast vel skóginn sinn að hjálpa til við að gera þetta mögulegt. Í gær klippti ég niður á annað hundrað reyniviði og bar þá í gryfju sem ennþá getur tekið við smátrjánum þegar grisjað er. Í dag klippti ég niður eitthvað á þriðja hundrað reyniviði og aspir. Eftir skil ég eikur, bjarkir og hlyn ásamt smávegis fleiru. Stundum getur mér fundist þetta vonlaust verk en það er það alls ekki. Það er ég búinn að sjá í gær og í dag. Valdís ætlar svo að hjálpa mér til við þetta að ári.
 
Helga Bjarnadóttir var kennari og síðar skólastjóri í Hrísey. Nú á hún heima niður í Varberg. Bára dóttir hennar býr hérna megin við Varberg og hún og maður hennar eru skógarbændur. Við heimsóttum þau í hitteðfyrra og þá reyndi ég að fræðast af skógarbændunum. Maður Báru sagði; láttu birkið taka yfir, þá nærðu valdi á þessu. Það er það sem við erum að gera hér en við leyfum eikinni og hlyninum vera með í því sem tekur yfir. Það mun mörgum Íslendingum þykja skrýtið, en hér er reyniviður hreinlega illgresi. Hann tekur hratt yfir ef ekkert er að gert. Það er í fyrsta lagi honum að kenna og svo greni líka að svo mörg tré eru með nakta stofna upp í tíu metra hæð.

Í Torp og á heilögum stað

 
 
Þetta blogg mitt er tvískipt en þó tengjast báðir hlutarnir hinum.
 
Fyrri hluti
 
 
 
 Það er tilfellið að Torp er merkilegur staður. Í loftlínu er það um einn kílómeter frá Sólvöllum og ég hef minnst á þennan stað í bloggi fyrir ekki svo löngu síðan, þennan stað sem fríkirkjurnar í Svíþjóð eiga og halda þar stóra samkomu í Jónsmessuvikunni. Aðal hátíðahöldin hefjast á föstudeginum í upphafi Jónsmessuhelgarinnar og einmitt núna er þessi staður orðinn að allt að fimmtán þúsund manna samfélagi, eins fjölmennt eða næstum eins fjölmennt og Akureyri. Á myndinni sér yfir meiri hluta húsakynna þar sem staðsettar eru snyrtingar, nauðsynlegar verslanir og þar sem fram fara alls konar messur og samkomur. Á myndinni sér einnig yfir meiri hluta bílastæða sem staðsett eru á túnum sem tilheyra staðnum. En það sem ekki sést nema að litlum hluta eru tjöld, húsbílar og hjólhýsi þeirra sem þarna búa núna og er lengdst til hægri á svæði sem ekki sést fyrir hæð sem ber á milli.
 
Það eru margir morgunverðirnir sem eru að vaxa á víðáttumiklum hafraakrinum þarna milli myndavélarinnar og Torp. Vinstra megin tekur síðan við víðáttumikill repjuakur sem var mjög fallega heiðgulur fyrir nokkrum vikum.
 
 
 
Fólk er um allt á margra hektara svæði ofan við veginn en bílarnir að mestu á vel skipulögðum svæðum neðan við veginn. Alfaraleið liggur þarna í gegn og hámarkshraðinn er lækkaður niður í 30 km þessa helgi. Allir hlíta því og engin vandræði verða.
 
 
 
Miklum fjölda borða er stillt upp bæði úti og inni þar sem fólk getur setst niður með nestiskrúsirnar sínar eða keypt sér veitingar og snætt þarna í ró og næði. Við Valdís ætluðum að borða heima en það fór þó svo að við fengum okkur hamborgara í boði mínu en Valdís lánaði mér fyrir þeim. Við settumst með þá þarna við borðin og meðan við vorum að borða kom fólk og settist við næsta borð við hliðina á okkur, breiddi dúk á borð og bar svo fram mat. Ég kunni ekki við að taka mynd af þeim en langaði þó til þess.
 
 
 
 Fjær fyrir miðri þessari mynd er sena þar sem maður stjórnaði söng og leikjum þegar við Valdís heimsóttum Torp seinni partinn í dag. Fólk bar börnin sín eða leiddi þau, svona eftir stærð þeirra, og dansaði við þau. Á að giska helmingur kvenna í barneign voru ófrískar þannig að það er lifandi þetta fólk.
 
 
 
 Við vorum ekki fyrr komin á svæðið en Valdís var farin að rekast á kunningja hingað og þangað. Við byrjuðum þó á því að fara í bókabúð þar sem mikið var selt af bókum um andlegheit. Ég kem meira að því síðar.
 
Þarna var engin lögregla. Enginn var drukkinn, enginn virtist lykta af áfengi og enginn sást undir annarlegum áhrifum. Enginn hagaði sér yfir höfuð undarlega eða lá í óreiðu út í móa og enginn gubbaði upp við húsvegg. Það íldi ekki í dekkum og engar svartar rákir voru í malbikinu. Við sáum einungis eina manneskju sem reykti. Allt svæðið var hreinlegt og allt í mikilli röð og reglu. Það var mjög gott að vera þarna og merkja þann friðsama klið sem barst úr öllum áttum.
 
Hvernig getur þetta verið? Er það mögulegt að kristið fólk geti verið til fyrirmyndar?
 
 
*
 
Annar hluti
 
 
Við Valdís fengum miða á Jesús Kristur súperstjarna í jólagjöf frá Rósu og fjölskyldu um síðustu jól. Nú ætla ég að gera játningu: Ég velti því fyrir mér hvort það væri guðlast að fara í leikhús til að sjá þennan söngleik. Fljótlega gat ég að mestu sleppt þessum áhyggjum og við fórum í leikhúsið þann 5. maí. Áður en sýningin hófst tókst mér að lesa í leikskrá að það mætti vel greina á tónlistinni að höfundarnir hefðu oft á tíðum verið undir miklum áhrifum ýmissa efna við gerð verksins. Þá hugsaði ég sem svo að trúlega væri þetta guðlast. Svo hófst sýningin og ég vonaði að Guð sæi mig ekki í fólksfjöldanum þannig að ég slyppi við hvasst augnaráð hans. Þó vissi ég mæta vel að ég slyppi ekki. Svo hófst sýningin.
 
Það var mikill hávaði á sviðinu í byrjun sýningar og fram eftir degi. Eginlega var það eins og allir sem fram komu væru meira og minna mígandi fullir og höguðu sér í samræmi við það. Ég skrúfaði mig til í stólnum og reyndi að halda ró minni. Allt í einu minntist ég texta sem ég las aftan á litlu kveri fyrir all nokkrum árum og þá las ég hann aftur og aftur á all löngu tímabili, en nú hafði ég ekki munað eftir honum í einhver ár. Svo kom hann allt í einu til mín ljóslifandi á þessari sýningu og gerði mér gott. Ég hef alltaf síðan við fórum á sýninguna ætlað að blogga um leikhúsferðina en mig vantaði textann til að geta þýtt hann orðrétt. Ég vissi ekki hvar litli bæklingurinn var niðurkominn hjá okkur, og þó, einhvers staðar í kassa.
 
Þegar ég gekk um bókabúð í Torp í dag rak ég augun í eitthvað kunnuglegt. Allt í einu lá kunnuglegt kver fyrir framan mig og ég greip eitt eintak og leit á baksíðuna. Þar las ég eftirfarandi, það sem ég leitaði að, og það er Richard Foster rithöfundur sem talar: "Ég man enn í dag hinn rigningarsama febrúarmorgun fyrir mörgum árum síðan á einum af flugvöllunum í Washington. Að venju hafði ég tekið með mér eitthvað að lesa til að geta á góðan hátt notað auðar stundir. Í fyrsta skipti í lífi mínu opnaði ég bók Thomas Kelly, Hið innra ljós. . .
. . . þar sem ég sat einsamall á flugvellinum og sá hvernig regnið lamdi rúðurnar. Tár runnu niður kinnar mínar og niður á frakkann. Ég var á heilögum stað, stóllinn sem ég sat á var altari. Ég mundi aldrei framar verða samur maður . . ."
 
Kverið með textanum sem ég ekki hafði fundið í kössunum heima var einmitt Hið innra ljós eftir Thomas Kelly.
 
Þar sem ég sat á leikhúsbekknum og horfði á söngleikinn Jesús Kristur súperstjarna hugsaði ég sem svo að ég skyldi sjá leikhúsið sem heilagan stað eins og Thomas Kelli hafði gert á flugvellinum og stólinn sem ég sat á sem altari. Svo hélt sýningin áfram og ég beið þess vel sáttur sem verða vildi. Svo kom hlé og svo hófst sýningin á ný. Hávaðinn hafði verið svo mikill að mér fannst sem allt leikhúsið hefði haft hátt og áhorfendur líka. Eftir hlé varð allt mun hljóðlátara og það var sem leikarar og söngvarar á sviðinu væru ekki fullir lengur.
 
Í lok sýningarinnar var Jesús krossfestur og hann fór með nákvæmlega sömu orð og sagt er frá í Biblíunni. Síðan dó hann. Meðan krossfestingin var sýnd og meðan dauðastríðið á krossinum stóð yfir var allt dauðakyrrt, ekki bara á sviðinu, heldur var sem enginn drægi andann í öllum heila salnum. Svo sterk áhrif hafði þessi 2000 ára frásögn á sýningargesti. Ég hafði verið á heilögum stað þrátt fyrir allt.
 
 
 

Heimsókn lokið

 Þau komu og þau fóru, þau glöddu og með trega og þakklæti kvöddum við þau. Dísa og Ottó fóru heim í gær eftir rúmlega viku dvöl hjá okkur á Sólvöllum.



Síðustu daga hef ég litið á myndir sem við höfum tekið meðan á heimsókn gömlu grannanna okkar hefur staðið. Eina og eina hef ég vistað á bloggið mitt vegna þess að mér hefur dottið eitthvað í hug þegar ég hef litið á þær, eitthvað sem hefur fengið mig til að hugsa hluti bæði í gamni og alvöru. Myndin hér fyrir ofan hefur hann Pétur tengdasonur greinilega tekið heima hjá þeim í Stokkhólmi þegar við komum þar við á leiðinni frá Arlanda til Sólvalla. Ég fór einn til að taka á móti þeim þar sem Valdís þurfti á sjúkrahúsið í Örebro þann dag og þar að auki hefði þetta ferðalag kannski verið full mikið fyrir hana eins og á stendur.
 
Mér fannst ég verða að nota þessa mynd en ég man ekki hvernig hún barst til mín. Ekki veit ég hvað það eru mörg ár síðan Rósa hafði hitt Dísu og Ottó en þau eru mörg. En alla vega, þarna hittust þau á ný og endurnýjuðu kynnin. Þegar við komum út úr bílnum í götunni utan við heimili þeirra voru þau þar öll úti við og Hannes Guðjón hreifst af gestunum. Svo þegar við Dísa og Ottó vorum farin frá Stokkhólmi fóru Rósa og Pétur með Hannes Guðjón út á leikvöll. Þá spurði Hannes eftir Ottó. Heimsóknin hafði skilið eitthvað eftir hjá honum líka.



Vatnið Hjälmaren er austan við Örebro og sá hluti þess sem er næstur Örebro heitir Hemfjärden. Hemfjärden tengist aðal vatninu með þessu sundi, Ässundet, og gestirnir okkar standa þarna á bryggju við sundið og segjum við ekki bara að þau gæti sundsins á þessari stundu, séu vættir þess.



Svo auðvitað blandaði ég mér í gæsluna og því fékk ég að vera með á þessari mynd. Við hliðina á okkur er stúlka frá fjarlægu landi sem var þarna í unglingabúðum og hún fékk að renna til fiskjar. Hún dró ekki upp neina stórfiska eins og Ottó dró upp úr íshafinu forðum tíð, eða Dísa meðhöndlaði á flökunarborðinu, en fyrir henni, nýfrjálsri í nýju landi, hafa það kannski verið stórfiskar lífs hennar. Við Valdís þekkjum hvað það er að setjast að í nýju landi þó að við gerðum það með frjálsari vilja en stúlkan þarna. Atvikin og upplifanirnar geta þá verið af meiri víðáttu en ella. Ég vona að Dísa og Ottó hafi líka átt sínar upplifanir meðan á þessari heimsókn stóð sem voru stærri en hverdagsleikinn.
 
 
 
Guðjón og Ottó,
tveir af íslensku víkingakyni sem heldur eru farnir að róast niður með sína ljósari kolla eftir því sem árin hafa liðið. Starfsævinni er lokið, eða að mestu alla vega, en svolítið útrásarblóð rennur enn í æðum. Kannski var það þess vegna sem þessir ljósahærðu menn heimsóttu Ässundet í Örebrolén ásamt frúm sínum og tóku völdin á bryggjunni.



Í Örebro er til nokkuð sem nefnist Naturens hus. Á myndinni fylgist Ottó með smáfugli sem leitar ætis í mölinni kringum borðin, eða kannski var það önd. Við sitjum þarna yfir kaffibolla við Naturens hus. Kaffibolli og kannski lítil bolla auka á hugmyndaflugið og eykur selskapsstemminguna. Þessi staður á með notalegheitum að lokka til sín fólk. Meira um það við næstu mynd. Ég, GB, virðist reyna að vera spekingslegur.



Valdís, Svandís og Ottó
að yfirgefa Naturens hus. Það stendur á svæði sem áður voru "ruslahaugar" en hefur af alúð, velvilja og innilegri áhugamennsku verið gert að útivistarsvæði með stígum og smá tjörnum hingað og þangað. Tré sem hafa fallið fá að liggja hvort heldur þau hafa fallið á þurra jörð eða í tjarnirnar. Þannig er reynt að skapa sem eðlilegast umhverfi, svolítið frumskógaumhverfi. Fuglarnir þakka fyrir sig með nærveru sinni og endur má greina í mölinni hægra megin við brúna. Dádýrsspor sáum við á stíg hinu megin við húsið og mikið líf sem gerði ekki vart við sig þegar við vorum þar á göngu okkar hefur hins vegar iðað kringum okkur í ríkulegum gróðrinum og rotnandi trjábolum.


 
Dísa og Valdís.
 Svo vorum við heima á ný og þá var Dísa vinnufús. Þegar við komum heim frá Ässundet og Naturens hus var hún í sumarstemmingu og greip hrífuna og rakaði lóðina. Við Ottó unnum hins vegar við mælingar sem geta verið nauðsynlegar á öllum sveitasetrum þar sem það mesta á að vera í röð og reglu. Eitt sinn kölluðust þessar konur á yfir Sólvallagötuna þegar þær unnu við lóðarhirðingu heima hjá sér í Hrísey. Stundum enduðu þau samtöl með kaffibolla og kannski lítilli bollu -svona til að auka á selskapinn.
 
 
 
Það var komið að brottför og erillinn á flugvellinum var tekinn við eftir kyrrðina á Sólvöllum. "Æ, við verðum bara hálf hallærisleg á mynd hér", sagði Dísa þegar ég tók upp myndavélina. En þau urðu ekki hallærisleg á myndinni. Að öllum öðrum ólöstuðum voru það kannski engir aðrir sem gátu verið heppilegri gestir á heppilegri tíma en Dísa og Ottó voru þessa daga. Mikið þökkum við ykkur vel fyrir komuna og elskulegheitin, það skulið þið vita.
 
Valdís sefur enn fyrir aftan mig þar sem ég er að skrifa þetta í morgunkyrrðinni og ég finn fyrir trega í sálu minni. Tregi er ekki slæmur. Hann gefur til kynna að eitthvað er einhvers virði þegar huganum er rennt yfir farinn veg. Það er mikið sem er mikils virði ef viljinn til að vera þakklátur er fyrir hendi og aðstæðurnar til að upplifa það eru til staðar.

Dagarnir líða fljótt

Það er nú meira hvað dagarnir líða fljótt um þessar mundir. Það er hreinlega komið miðnætti áður en ég átta mig á því og þá hefur mér ekki tekist að ljúka því sem var á dagskrá hjá mér. Ég ætlaði að gefa smá ferðaskýrslu eftir daginn í gær en þá vorum við Sólvallafólk ásamt gestum á ferð í héraðinu.

Nora (Núra) heitir bær eina 40 kílómetra norðan við Örebro og hann er verðugur að sýna þeim gestum sem koma til okkar. Bærinn er þekktur fyrir gömul hús, falleg vötn, besta rjómaís landsins og friðsæld. Þar eru gamlar lestir sem áhugafólk annast af umhyggju og þar er einnig örlítill hafnarbakki eins og sjá má á myndinni. Íslendingarnir þrír sem standa þarna við þessa litlu fallegu skútu heita Ottó, Svandís og Valdís. Þeim þótti skútan gersemi, byggð úr lökkuðum við og með trénagla í byrðingi. Aftur í skut stóð nafnið Stina og umhirðan virtist sambærileg við móðurumhyggju þegar best lætur. Vatnið sem sést á myndinni heitir Noravatnið (Norasjön) og í því eru bæði eyjar og annes klædd iðjagrænum skógi.



Okkur Valdísi finnst það skylda okkar að fara með gestina fyrir norðurendann á vatninu og taka þar af þeim mynd með Nora í baksýn og endilega kirkjuturninn með. Þarna er jú sama fólk og á fyrri mynd, en síðast tókum við mynd af Rósamundu Káradóttur frá Hrísey á þessum stað. Þó þurfti að færa fólkið aðeins til vinstri núna þar sem trén til hægri á myndinni höfðu hækkað þannig að kirkjuturninn var hættur að sjást frá gamla myndatökustaðnum.

Aðdráttarlinsan var aðeins notuð þegar Valdís tók þessa mynd. Ég hef aldrei séð mynd frá þessum stað þar sem náttúrufegurðin kemur fyllilega í ljós eins og hún er, en ég held þó að þessi sé með þeim betri sem ég hef séð. Skógi vaxnar eyjarnar og skógi vaxnar hæðirnar og ásarnir handan vatnsins gera þetta útsýni alveg ótrúlega fallegt. Um árið 2000 var ég nokkrum sinnum þarna á ferðinni, en þá leitaði ég að sumarbústað eða lóð fyrir hann eins og dauðþyrstur maður leitar eftir vatni.

Ég meira að segja átti það til að fara þegar Valdís var að vinna og tippla um brekkurnar sem eru á bakvið þann sem tekur myndirnar á þessum stað. Í vissum tilfellum var þetta leyndarmál mitt, svo undirlagður var ég af sumarbústaðarsjúkdómnum. Það varð ekki af sem betur fer og Sólvellir eru líka á afar fallegum stað þó að ekkert vatn sé þar fyrir hendi. Dísa og Ottó og ýmsir fleiri hafa staðfest Sólvallafegurðina, okkur finnst það líka og á Sólvöllum erum við ánægð.



*


Svo var 17. júní í dag. Tryggvi og Svanhvít frá Örebro heimsóttu okkur þannig vorum sex samankomin hér á þjóðhátríðardaginn. Tryggvi er lengst til vinstri á myndinni en Svanhvít lengst til hægri á þessari mynd. Valdís bauð upp á kaffi og rausnarlega með því eins og hennar er alltaf von og vísa. Við áttum hér saman hina skemmtilegustu dagstund. Það var engin þjóðhátíðarræða eða þjóðsöngur en dagurinn var góður eigi að síður.


Svo smelltum við einni mynd af Tryggva og Svanhvíti saman. Fyrsta skipti sem ég hafði samband við Tryggva var vorið 1994, en þá skrifaði ég honum bréf frá Svartnesi og fékk bréf til baka. Þá höfðum við aldrei hittst. Síðan hittumst við öll, við Valdís og Tryggvi og Svanhvít í ársbyrjun 1997 þegar við Valdís fluttum frá Falun til Örebro. Áður en við fluttum til Svíþjóðar bað Kristín Aðalsteinsdóttir mig að hafa samband við Tryggva bróður sinn. Ég gerði svo og enn í dag er vinskapur okkar á milli.

 

Að Svanhvít og Tryggvi vildu líta hingað í dag og að Dísa og Ottó vildu dvelja hjá okkur í nokkra daga; þetta er ómetanlegt. Ég þakka svo hjartanlega fyrir að þið öll viljið vera vinir okkar.

Álfar í skóginum

Í gærkvöldi, föstudagskvöldið þann 15. juní ætlaði ég að blogga. Auðvitað settist ég of seint við tölvuna og þegar ég hafði vistað tvær myndir inn á bloggið mitt sofnaði ég í stólnum með fingurna á lyklaborðinu. Ég reif mig upp aftur til að sofna aftur við lyklaborðið og þar með gafst ég upp. Óli Lokbrá hafði sigrað eins og hann gerir ævinlega að lokum og draumaveröldin tók við, draumaveröld sem ég man afar lítið af. Eftir átta tíma svefn vaknaði ég til nýs dags og þá dundi regn mjúklega á þakinu í um það bil 12 stiga hita. Og eins og oftast, þetta regn féll svo undur beint og notalega niður og þó að ég sæi á Feisbókinni að það væru hreint ekki allir sælir með þessa rigningu, þá er mér ómögulegt að agnúast við henni.

Í gær brá ég mér út í skóg eins og ég geri svo oft, iðulega nokkrum sinnum á dag. Ég talaði einhver lifandis ósköp og talaði eins og það væri ómissandi sem ég hafði að segja. Stundum held ég hreinlega ekki aftur af mér þó að ég hafi ætlað mér að gera það og babbla þá allt of mikið. Þegar ég kom móts við stóru mauraþúfuna stoppaði ég og leit í átt til hennar en viti menn; á eftir mér komu tveir álfar. Þarna bara stóðu þeir og horfðu í átt til skógarins hans Arnolds og ég var svo heppinn að hafa myndavélina í vasanum. Nú gat ég fest á mynd það óvænta sem fylgdi mér í skóginum.

Nei, það kom mér að vísu ekki á óvænt að sjá þessa álfa þarna, en það heyrir ekki hversdagsleikanum til að sjá þau Dísu og Ottó á rölti hér út í skógi. Líklega gat ekki verið meiri þörf fyrir komu þeirra í nokkurn annan tíma en núna, en þegar Ottó hringdi fyrst og talaði um að þau kæmu í heimsókna á sumrinu voru engar sérstakar blikur á lofti. Síðar breyttist atburðarásin hér á Sólvöllum en það breytti ekki þeirri ákvörðun þeirra að koma í heimsókn. Nú eru þau hér eins og sólargeislar þó að það rigni. Kannski halda þau að við sofum ennþá í morgunkyrrðinni, kyrrðinni sem ríkir í faðmi regnsins sem fellur á þakið, en ég er búinn að ganga um hægum skrefum og kanna útsýnið út um nokkra glugga á Sólvöllum og draga frá þeim til að hleypa deginum inn.

Svo var bara að byrja á því sem ég ætlaði að byrja á þegar Óli kom í gærkvöldi og tók mig föstum tökum framan við tölvuna. Nú er ég búinn að skrifa litla stund og það er best að ég fari á stjá og láti heyra að Óli sé búinn að sleppa tökunum á mér. Ég get sett grautarpottinn á eldavélina, diska á matarborðið og látið skáphurðina lokast með dálitlum skelli þegar ég verð búinn að setja haframjölið í pottinn. Þá mun fljótt færast líf í Sólvallahúsið og svo held ég áfram með bloggskrif mín einhvern tíma seinna í dag, eða kvöld eftir því sem færi gefst.



*



 

Það er aftur komið kvöld og þar að auki orðið áliðið. Þrumur hafa mullrað um stund í nokkrum fjarska og það er farið að rigna aftur eftir þurran seinni hluta dags. Við erum búin að fara um nágrannabyggðir í dag og sjá eitt og annað huggulegt. Myndin hér fyrir ofan er frá því í gær þegar við Ottó vorum að laga til á óreiðusvæði bakvið aðal viðargeymsluna okkar. Þar var ég búinn að útbúa hluta af verðandi hlaði þannig að við Ottó skipulögðum og staðsettum viðarskýli og svo tókum við að flytja eldivið frá einum stað á annan. Ég hélt að ég væri manna frískastur hvað áhrærir kalla á mínum aldri, en svo kemur þessi maður frá Hrísey og er nokkuð eldri en ég, og ég sé ekki annað en hann hafi slegið mér við. Hann er ekki af baki dottinn þessi fyrrverandi íshafssjómaður.

 

Ég var í nokkrum vanda staddur þegar ég var setstur við tölvuna fyrir einum hálftíma síðan. Ég ætlaði að segja frá ferðalagi okkar í dag en klukkan rúllaði yfir miðnætti fyrr en varði. Ég enda því bloggið með því að birta mynd af því sem við Ottó höfum verið að gera í gær og í dag umfram ferðalag okkar sem ég nefndi áðan. Þessi mynd sýnir allt aðra hluti en myndin þar fyrir ofan þó að hún sé tekin á sama svæði. Við stútungskallarnir erum búnir að færa margar hjólbörur af eldiviði næsta vetrar frá einum stað til annars og það finnst ákveðið markmið með þessari aðgerð, meðal annars að laga til. Fleira leynist í farangrinum sem sagt verður frá síðar. Stútungskallar sagði ég, en samt kallar sem finna sig yngri en árin segja til um. Það fer vel á því.

Óli er farinn að nálgast fólkið hér í húsinu en ég slepp ennþá. Uppþvottavélin er að frammi í eldhúsi en að öðru leyti er allt kyrrt. Eldingarnar hurfu smám saman í austurátt og þrumurnar með. Konan sem er lögst útaf fyrir aftan mig andar hljóðlátlega og hvíldin fyrir annir morgundagsins virðist vera á næsta leyti. Það er mál að ég leggi mig líka til að ég verði einnig tilbúinn að takast á við þær annir sem morgundagurinn býður mér upp á.

Heilsa heilsa heilsa

Fyrir rúmlega viku fór Valdís í fyrstu lyfjameðferðina við lungnakrabbameini og svo beið hún eftir aukaverkununum en það má næstum segja að þær komu ekki. Í gær fór hún í aðra meðferðina og svo beið hún eftir aukaverkununum en þær nánast komu ekki þá heldur eða alla vega ekki ennþá. Læknirinn var líka búinn að segja að það fengju alls ekki allir neinar aukaverkanir. Ennþá er Valdís ein af þeim. Ég sagði að hún hefði beðið eftir aukaverkununum en ég nefnilega held að hún hafi alls ekki gert það. Það er nefnilega ekki sami áratugur núna og var fyrir 20 til 40 árum þegar rosalegar sögur fóru af þessum aukaverkunum sem ætluðu alveg að fara með fólk. Það gefur auka bjartsýni að þessir fyrstu dagar hafa gengið svona vel.

Á morgun fer ég til Arlanda til að sækja gesti, gömlu nágrannana Dísu og Ottó. Valdís ætlaði með en sú ánægja var tekin frá henni. Það var nefnilega hringt frá sjúkrahúsinu í dag og hún spurð hvort hún gæti ekki komið þangað á morgun, það ætti að teikna á hana eitthvað sem snýst um geislameðferð sem á svo að byrja eftir tæpar tvær vikur. Ég heyrði samtalið og skynjaði vonbrigðin yfir því að geta ekki komið með, en hún sá sér ekki fært að tefja meðferðina með því að afþakka tímann. Dagarnir eru víst ásetnir á þessum deildum. Hún fær að hitta Dísu og Ottó á morgun þó að hún taki ekki á móti þeim á flugvellinum.

Ég hef hugsað heil mikið um heilsu undanfarið. Ég hugsaði líka heil mikið um það fyrir mjaðmaaðgerðina. Ég var ákveðinn í því að gefa mig ekki. Færi ég að hlífa mér, sitja eða liggja mundi ég stirðna, missa vöðva og kraft. Ég hélt því mínu striki. Daginn eftir aðgerðina var ég kominn á hreyfingu og daginn þar á eftir á fulla ferð um gangana. Þeir sem voru skornir upp sama dag og daginn eftir voru alls ekki á sama róli og ég. Þó einn maður sem var skorinn upp daginn á undan mér. Við vorum á svipuðu róli. Hann var eldri en ég en hafði verið íþróttamaður í áratugi og var ennþá mjög virkur í íþróttafélagi. Hún Åsa sjúkraliði sagði að ég hefði ekkert með þetta að gera, það væri gjöf. Ég þráast við að trúa að það sé beggja blands.

Fyrir all nokkrum árum las ég frétt um það að það sem hefði áhrif á meðferð, hvaða nafni sem hún nefndist, það væri að trúa á meðferðina. Það læðist að mér að svo sé það með Valdísi og þess vegna gangi henni betur en ella. Og ekki skemmir það fyrir henni að hún er af víkingakyni, sjómannsdóttir og ein af KiddaVillasystrunum. Það má til með að hafa þetta í svolítið léttu ívafi líka.

Af hverju ertu að þessu?



Fyrsti kafli

Morgunverðurinn í dag var hreint alls ekki fyrir allar aldir. Meðan við borðuðum töluðum við um hvað yrði á dagskránni í dag. Valdís sagðist ætla að þrífa innan bílinn hvað sem raulaði og tautaði. Ég ætlaði að grisja í skóginum á stað sem ég hafði ekki svo mikið sem stigið inn á þótt undarlegt kunni að virðast. Svo ætlaði ég að vinna við hlaðið sem ég er að gera bakvið ákveðna geymslu. Svo fórum við af stað. Þegar ég vissi að Valdís væri í fullum gangi með bílinn sótti ég myndavélina. Hún hrópaði ekkert húrra þegar ég tók fyrstu myndina.


Þegar ég tók aðra myndina spurði hún af hverju ég væri að þessu? "Skammastu þín fyrir að vera að taka mynd af mér sitjandi við að þrífa bílinn." En ég skammaðist mín ekki. Ég gat heldur ekki séð að það væri betra að leggjast á hnén eins og ég hefði þurft að gera ef ég hefði verið að gera þetta.


Svo þegar hún var að ryksuga farangursgeymsluna tók ég mynd af henni án þess að hún sæti á stól. Valdís telur það sitt verk að þrífa bílinn að innan og þegar hún gerir það gerir hún það með glæsibrag. Svo verður bíllinn eins og þegar hann var nýr, nema að það vantar nýbílalyktina í hann þar sem hveitibrauðsdagar hans eru liðnir. Hann er eins og hálfs árs núna. Valdís er hins vegar talsvert eldri en mér sýnist hún ekki hampa háum aldri á þessari mynd.


Litla frímerkið þarna út við skóginn er hlaðið sem ég var að bardúsa við í dag. Það er reyndar stærra en sést á myndinni og stærra en það virðist vera. Það er nauðsynleg að hafa svona í sveitinni. Þarna verður hægt að vinna við eldiviðinn í framtíðinni og geyma eitt og annað sem við viljum ekki hafa á of áberandi stað á Sólvöllum. Bekkinn eða borðið þarna til hægri smíðaði ég árið 2006 þegar við byggðum við í fyrra skiptið. Á endanum nær á myndinni er passlegur staður fyrir vélsögina og svo passar hæðin á borðinu þannig að það er hægt að vinna þarna við að saga stóra planka. Haganlegt borð og búið að gera mjög mikið gagn. Nú er það að verða slitið og lendir sennilega á eldiviðarhaug endurvinnslunar í haust og notast svo við að hita vatn í orkuverinu í Örebro.


Svo ef einhverjum líður betur með að vita það, þá lít ég svona út þegar ég ek hjólbörum. Fuglahólkinn efst á myndinni á trénu sem er nær fékk ég að gjöf frá vinnufélaga þegar við keyptum Sólvelli. Öll ár síðan hefur svartþrösturinn verpt í þennan fuglahólk. Það er orðtæki í Svíþjóð þegar einhver er undrandi, skilur ekki og veit ekki neitt, að hann sé eins og fuglahólkur. Skilji maður það ekki er bara að horfa á fuglahólkinn á myndinni.

 

*

 

Annar kafli

Nýlega bloggaði ég um öfund, í fyrradag held ég. Það kom að hluta til vegna þess að við erum að fá heimsókn, það er að segja á miðvikudag, en þá koma þau Dísa og Ottó, okkar gömlu grannar og samferðafólk frá Hrísey. Ég birti hér aftur hluta af bloggi sem ég birti fyrir nokkrum vikum og var um öfund. Ég nefndi bloggið Dyggðin og öfundsýkin.

 

"Það var 1972 sem þrjár fjölskyldur byrjuðu að byggja við Sólvallagötuna í Hrísey. Það vorum við Valdís og næsta hús neðar í götunni byggðu Rósa og Ásgeir en hinu megin við götuna byggðu Dísa og Ottó. Allar þessar fjölskyldur fluttu inn ári síðar, sumarið 1973, og voru húsin þá nokkuð misjafnlega tilbúin. Einhvern tíma sumarið 1973 þegar ég kom heim eftir vinnu sagði Valdís mér að Ottó og Dísa væru búin að kaupa bíl, Landróver jeppa. Jahá! Það var naumast! Síðar um kvöldið stakk Valdís upp á því að við gengjum yfir til Dísu og Ottós og svo gerðum við. Þetta var á þeim árum þegar fólk gekk gjarnan yfir til nágrannans, bankaði upp á og opnaði sjálft og spurði hvort það væri til kaffi.

Svo gerðum við Valdís þetta kvöld. Þegar við vorum setst inn og byrjuð að spjalla saman spurði Valdís eitthvað út í nýja bílinn þeirra. Öfundin út af þessum bílakaupum gerjaði í mér eins og ígerð í graftarkýli og þegar Valdís byrjaði að tala um bílinn þeirra sagði ég hátt og greinilega: Komum við hingað til að tala um bíla? Ekki man ég hvernig viðbrögðin voru, en þegar við komum heim spurði Valdís mig undrandi hvers vegna ég hefði brugðist svona undarlega við. Ég er viss um að ég sagði Valdísi ekki sannleikann um það mál, en ég gerði mér vel grein fyrir því að vinur minn Ottó ávaxtaði sitt pund betur en mér tókst að gera á þeim árum. Ég þekki til öfundarinnar. Þetta er smá hlægilegt í dag og ég nota þetta í vissa fyrirlestra mína um það sem alkohólistarnir þurfa að venja sig af. Þeir þekkja sig mjög vel í þessu og bresta í hlátur."


Það er býsna þægilegt að segja öðru hvoru sannleikann num sjálfan sig, eða svo finnst mér. Þá hef ég efni á því að segja ýmislegt sem annars virtist kannski ekki vera alveg ekta.

 

Nóg af bloggi í dag. Eftir tvo tíma er þessi dagur, laugardagurinn 9. júlí liðinn. Á morgun er nýr dagur og ný markmið.

Raftækjasaga

Það er eftirmiðdagur, laugardaginn 9. júní á því herrans ári 2012. Við vorum bæði úti við, ég í skógarvinnu en Valdís að þvo bílinn innan. Valdís slapp við regnið en rétt eftir að hún var búin og komin inn byrjaði að rigna drjúgt. Regnið er af þessari skemmtilegu tegund þegar það bara fellur svo ósköp afslappað beint niður í töluverðu magni. Ég er auðvitað dálítið skrýtinn, en mér nefnilega finnst þetta stórgott veður. Það má að vísu ekki standa allt of lengi, en mikið virðist allt verða frjósamt og vellíðandi í veðrinu eins og það er núna. Trjágreinar slúta aðeins meira í regninu og lítil tré hér fyrir utan gluggann minn lúta höfði þrátt fyrir að hafa reynt eftir bestu getu að halda fullri reisn. En svona er það með ungdómarna, þeir standa ekki alltaf af sér það sem þeir fullvöxnu ná að gera. Hitinn lækkaði úr 18 í 15 gráður þegar tók að rigna.

Þetta regn, eins og svo mörg önnur, gefur kost á því að fara inn, hita kaffi, skrifa svolítið, fá sér svo kaffi með ilmandi ristuðu brauið með til dæmis osti og svolítilli sultu. En hvað ætla ég svo að skrifa? Mér hefur verið efst í huga frá því í gær þetta með eldavélina og viftuna. Helmingurinn af eldavélinni virkaði ekki lengur og við fengum rafvirkja, Robban, sem var að vinna í næsta húsi til að mæla hvort straumurinn kæmi óhindrað inn á vélina. Svo hringdi ég í Patrik, yfirmann Robban, og hann kom og leit á eldavélina. Svo sagði hann að það væri eitthvað að sem væri utan hans þekkingar.

Fyrst hann var nú hérna báðum við hann að líta á viftuna þar sem húnn hafði hætt að virka áður en eldavélin bilaði. Svo skoðaði hann viftuna og allt í einu var hún í góðu lagi. Um kvöldið var viftan ekki lengur í lagi. Við töluðum við ratækjaþjónustu og lýstum sjúkdómi eldavélarinnar. Sá sagði, eins og reyndar Patrik hafði líka sagt, að þetta væri of gömul vél til að láta gera við hana. Bara að fá mann til að líta á vélina kostaði drjúgan skilding og hann sagðist vilja okkur vel þegar hann ráðlegið okkur að kaupa nýja vél. Svo gerðum við og skoðuðum viftur líka.

Við keyptum eldavélina á seinni part viku og borguðum út í hönd. Fimmtudag í næstu viku átti að koma með hana og taka þá gömlu til að skila í endurvinnslu. Um helgina þarna á milli var Valdís að aðhafast eitthvað við eldavélina og hefur líklega rekið sig í takka þar sem allt í einu kviknaði á annarri biluðu hellunni. Svo prufaði hún hina helluna og hún var einnig í lagi. Svo prufuðum við þetta aftur og aftur og vélin var einfaldlega í góðu lagi. Við fórum þá í verslunina og spurðum hvort við gætum rift kaupunum. Það var í lagi og við fengum peningana til baka. Svo báðum við þá að panta fyrir okkur viftu sem við höfðum áður valið. Hún á að koma á þriðjudaginn kemur.

Svo gerðum við matvælainnkaup eftir ferðina í raftækjaverslunina og þegar ég var að leggja frá mér innkaupapoka á eldhúsbekkinn rak ég mig í takka á viftunni. Hún fór í gang og gekk eðlilega. Svo prufuðum við á hraða eitt, tvö og þrjú og allt virkaði eins og í skemmtilegri sögu. Svo prufuðum við aftur og aftur og aftur og viftan var í lagi. Svo fór að rigna og við það brá birtu inni og ég kveikti á ljósinu á viftunni og þá hætti hún að virka. Svo prufuðum við þetta aftur og aftur og aftur og það var bara þannig að þegar kveikt var á viftuljósinu, þá virkaði ekki viftan en þegar slökkt var á því, þá fékk hún gleði sína á ný. Það fer að verða vandræðalegt að koma inn í þessa raftækjaverslun ef við hættum nú líka við viftukaupin.

Það er hætt að rigna, við búin að fá okkur kaffi og ég búin að skrifa barnalega raftækjasögu. Þar sem ég er bara sjötugur vona ég að mér verði fyrirgefið það. Ég ætla út og sinna þörfum verkefnum.

Mikið væri þá allt einfalt

Hér skulum við sitja og láta tónlistina
leika við hlustir: ljúf kyrrðin og kvöldið
fallast í faðma og hljóma saman.

Það var William Shakespeare (1564-1616) sem komst að þessari niðurstöðu í "The Merchant of Venice". Líklega væri hægt að gera lífið einfalt, mikið, mikið einfalt, og hafa það mikið, mikið betra en stærsti hluti hins vestræna heims hefur það í allsnægtum sínum. Ekki fyrir svo löngu las ég það einhvers staðar að öfundin væri stærsta orsök ógæfu. Eftir að hafa lesið einhverja frétt núna seinni partinn í dag taldi ég mig komast að því að peningagræðgin væri orsök gríðarlega mikillar ógæfu og meiningarleysis og fengi fólk til að gera ótrúlegustu hluti -bara ef peningarnir rynnu óhindrað í gullkistuna.

Þó að ég sé ekki fullkominn held ég að ég líði hvorki af öfundsýki eða græðgi. Hins vegar hef ég haft öfundsýkina að förunaut og slatta af græðginni líka.

"Ljúf kyrrðin og kvöldið fallast í faðma og hljóma saman."

Núna ætla ég að leggja mig og reyna að biðja kvöldbæn áður en ég sofna.

Tárabjörk var það


Ég sagði í bloggi gærdagsins að þruma sem dúndraði hér í gær væri sú mesta sem ég hefði orðið vitni að. Ég stend enn við það en hef þó kannski einu sinni áður orðið vitni að svipuðum hamagangi. Það var á Kálfafelli í miklu óveðri fyrir meira en 60 árum. Þá laust niður eldingu í fjárhús skammt frá bænum og drap þar fé. Óljóst minnir mig að þá hafi húsið orðið fyrir einhverjum áhrifum sem ég lýsti í blogginu í gær, það er að segja að það væri eins og húsið væri lamið utan með einhverju gríðarlega þungu. Atvikið á Kálfafelli var um nótt en pabbi var kominn á stjá. Þegar svo stærsta þruman gekk yfir minnir mig að pabba hafi sagt langdregið; jæææja. Þá skildi ég að málið væri alvarlegt. Það var svo að morgni sem féð fannst dautt í fjárhúsinu. En nú að myndinni. Mér þætti öllu þægilegra að sendir væru niður ósköp venjulegir regndropar í staðinn fyrir þetta grimma hagl. En ég skil ekki allt í þessum heimi og samt heldur jörðin áfram að snúast.


Laufsían skilaði út haglinu þarna rétt við hliðina á kryddjurtunum hennar Rósu.


Dúkurinn er kominn á borðið og út með matinn nú.


*



Ég talaði um grátbjörk um daginn en það var ekki rétt. Þessi tegund heitir tárabjörk og það er mér sárara en tárum taki að fara með ósatt mál. Nú er það leiðrétt. Það er hægt að sjá á myndinni ef vel er að gáð hvernig þessi björk leitast við að vaxa í eina átt í staðinn fyrir að vaxa upp á við. Til að fá hana heldur hærri höfum við bundið hana í næsta tré og það er gert samkvæmt ráðleggingu. Svo sést þarna í bláberjabekkinn þar sem hann kúrir í ró og næði umvafinn gróðri og bíður eftir að einhver komi og setjist.


Þessa tárabjörk fann ég á netinu en kann ekki skil á ljósmyndara. Mér finnst þessi kannski ekki sérstaklega falleg en hún er all mikilfengleg. Ég fann myndir af tárabjörkum sem höfðu fallegri vöxt, en ég réði ekki við að stækka þær, þær urðu bara á stærð við frímerki. Mér verður örugglega farið að vaxa skegg þegar tárabjörkin okkar verður komin í þessa stærð.

Nú er mál að líta á þjóðhátíðardaginn.

Nú er komið kvöld á Sólvöllum

Klukkan er hálf fimm á þessum sumardegi og það er hálf rokkið inni. Þar til fyrir nokkrum dögum vantaði rigningu til að hlýindi og blíðviðri gætu komið að notum fyrir náttúruna og ég er þakklátur fyrir rigninguna þó að sólin hverfi á meðan. Margir vilja bara hafa sól á sumrin en það er alls ekki svo einfalt. Beggja bland gerir allt mikið fallegra og betra að njóta af. Sólþurrkuð jörð, gulnaður gróður og ryk er ekki beinlínis eins og það á að vera.

En nú er það svo að fyrir örfáum mínútum dundi hagl niður þó að hitinn væri ein 12 til 15 stig. Haglið spýttist út af þakinu og eina tvo til þrjá metra út frá húsinu. Svo var haglið gengið yfir og drjúgt regn hélt áfram, það drjúgt að það mátti vel greina nið þess á þakinu þó að vel sé einangrað á Sólvöllum. Samkvæmt tölvuspá sænsku veðurstofunnar er þetta skíðasta skúrin þangað til um næstu helgi, en þá á að rigna mikið. Ég held að nú sé jörðin orðin hæfilega mett og ég er sannfærður um að í næstu viku verður landið mun fallegra en það var fyrir rigningu. Eins og er, er ég best geymdur innan við gluggann þar sem ég bauka við lyklaborðið. Klukkan er farin að halla í sex síðdegis.


*

Valdís fór í gær í fyrstu lyfjameðferðina gegn krabbameini. Hvað mundi það bjóða upp á af nýrri lífsreynslu? Það eiginlega vissum við ekki, en þrátt fyrir að orðsporið sem fer af þessum meðferðum sé ekki til að hrífast af, þá höfðu læknar og hjúkrunarfólk jákvæð orð um það. Hins vegar sögðu þau að það væri einstklingsbundið hvernig fólki reiddi af í lyfjameðferðinni. Ég reyndi að segja við Valdísi að aukaverkanirnar mundu trúlega að hluta til verða eins og hún tryði sjálf. Ég held að hún hafi líka farið með því hugarfari. Ég fór með henni inn á sjúkrahúsið og var um stund á stofunni sem hún var lögð inn á. Svo kom hjúkrunarfræðingur, maður nálægt fertugu að nafni Jari. Jari er svo finnskt nafn að það getur enginn borið það sem ekki er finni. Svo hafði hann líka sagt sjálfur hef ég eftir Valdísi. Jari er maður sérstaklega þægilegur í fasi og framkomu, og hann lýsti því hvað hann mundi gera og það fólst í því að setja nál í handlegginn á Valdísi og láta síðan fjóra poka af tveimur sortum af vökvum renna inn um þessa nál. Síðan ætlaði hann að gefa henni sprautur með efnum sem skyldu gera lífið léttara fyrir henni eftir á. Með þetta yfirgaf ég sjúkrahúsið og við ákváðum tíma þegar ég skyldi sækja hana því að hún átti bara að vera þarna meðan lyfin rynnu inn í líkamann gegnum nálina í arminum.

Örlítið fannst mér hún föl þegar ég kom til baka, en að öðru leyti var þetta sú sama Valdís og ég hafði skilið þar eftir. Í gærkvöldi fannst mér hún vera hressari en undanfarið og í dag finnst mér það sama. Ég held bara að mér finnist það líka sagði hún fyrr í dag. Það kemur að því að hjálparlyfin hætti að virka og hvað þá skeður er óráðin gáta, en ógleðilyf hefur hún nú fengið frá apóteki. Ég ætlaði að gefa skýrslu í gær eftir heimkomuna, en ég var svo rosalega þreyttur þegar við komum heim að það var af og frá að ég gæti sett saman óbrenglaða setningu. Valdís sofnaði í stól eftir heimkomuna en ég fann mér eitthvað að bardúsa við sem mér fannst ekki meiga bíða. Svo hringsnerist ég eitthvað kringum sjálfan mig en Valdís var eldhress þegar leið á kvöldið. Hins vegar vildi ég bara leggja mig og sofna. Var það kannski bara aumingja ég sem fékk aukaverkanirnar. Við vissum alls ekki hvað þessi dagur bæri í skauti sér og kannski var það bara eins og Valdís sagði; að það varð spennufall þegar við komum heim. Þar með tel ég mig vera búinn að gefa skýrsluna um gang mála eftir fyrstu meðferðina af mörgum sem Valdís mun ganga í gegnum á næstu mörgum vikum.


*


Í dag fór ég í byggingsrvöruverslunina þar sem við erum í stórum dráttum búin að kaupa eitt stykki hús. Ég hitti Bengt á skrifstofunni hans og talið barst að krabbameini. Sjáðu hann Bert bróður sem er að vinna þarna hinu meginn við glerið! sagði Bengt. Þegar hann gat náð sér upp úr þessum sjúkdómi, lifrarkrabbanum, eins og hann hefur verið veikur af öllu mögulegu í 20 ár, þá getur allt skeð. Tæplega fimmtug frænka sambýliskonu minnar, hélt hann áfram, fór í lyfjameðferð á föstudaginn í síðustu viku. Í gær og í dag er hún að mála hús að utan.

Svo gekk ég yfir til Bert þar sem hann reiknaði út efnispöntun fyrir kúnna. Ég sýndi honum mynd sem ég hafði líka verið að sýna Bengt bróður hans. Og einu sinni enn barst talið að veikindum. Ég er búinn að ná mér sagði hann og konan mín er búin að ná sér eftir brjóstakrabbamein. Það er allt hægt sagði Bert, en ef maður fer í þunglyndi, ja þá verður það erfitt. Svo hristi hann höfuðið og lagði áherslu á; ja, þá verður það erfitt. Bengt og Bert eru bræður og það er Bert sem á byggingavöruverslunina. Það eru margir sem vilja vel og vilja hjálpa og þessar jákvæðu frásagnir eru mikils virði. Valdís er með breitt bak þegar á reynir og hún virkjar þennan velvilja.


*


Nú er komið kvöld á Sólvöllum. Nákvæmlega þegar ég byrjaði að segja frá því fyrr í dag að Valdís hefði farið í fyrstu meðferðina jókst úrkoman mjög og gríðarlegt haglél gekk yfir. Enn, nokkrum klukkustundum síðar, eru haglskaflar til dæmis við þakrennuniðurföllin. Samt hefur hitinn aldrei farið niður fyrir tíu stig. Þegar þetta haglél stóð sem allra hæst var sem elding kæmi niður hér rétt við gluggana. Nánast samstundis byrjaði að dynja ein af þeim mestu þrumum sem ég hef nokkru sinni heyrt. Svo var eins og þrjú eða fjögur högg dyndu á húsinu. Þau líktust þeim höggum sem heyrðust við jarðskjálfta í Hrísey í gamla daga, nema að þessi högg fóru ekki í gegnum húsið eins og jarðskjálftahöggin. Það var eins og þau dyndu bara á sökklinum, eins og húsið yrði fyrir mikilli áreynslu. Þegar stytti upp gekk ég kringum húsið til að athuga hvort merki sæjust eftir eldingu. Þegar ég sá ekkert slíkt leitaði ég á næstu trjátoppum en varð einskis var.

Það er afar kyrrt úti eftir hamaganginn síðdegis og það er almennt kyrrt á Sólvöllum. Við erum sammála um að skógurinn lítur út fyrir að vera hraustur, safaríkur og tandurhreinn eftir þessa úrkomu. Það er spáð 16 stiga hita og nokkurri sól næstu dagana. Á morgun er þjóðhátíðardagur.

Þriðjudagurinn 5. júní 2012 heyrir fljótlega sögunni til.

Vornesdagurinn og fjöldasöngurinn

Vornesdagurinn var i dag. Það er fyrsti laugardagurinn í juní ár hvert sem Vornesvinir kalla gjarnan Vornesdaginn. Þennan dag er Vornes opið öllum sem hafa verið innskrifaðir á meðferðarheimilið, eru nánir einhverjum sem hefur verið þar eða hreinlega þykir Vornes vert heimsóknarinnar. Það eru fá skilyrðin fyrir að fá að koma en eitt óskrifað skilyrði hefur alltaf verið uppfyllt; það er að vera ekki undir áhrifum ef maður vill heimsækja Vornes þennan dag.

Þegar ég ók inn trjágöngin í dag renndi ég í huganum yfir fyrstu komu mína þangað einn kaldan og dimman dag í desember 1995. Í huganum upplifði ég eitt stórt og spennandi vintýri, ég var hugaður og framagjarn og feginn að fá aðeins hvíld frá Valdísi sem ég hafði skilið eftir eina upp í Falun í 240 kílómetra fjarlægð. Þegar ég síðan gekk upp tröppurnar í Vornesi í lok ferðar var ég beinn í baki, hvatur í spori og heilsaði danska ráðgjafanum Jette, sem vann sunnudaginn sem ég kom þangað, yfirlætislegur og drjúgur og spurði hvort ég fengi ekki eitthvað að rífa í mig eftir fjögurra tíma ferð frá Falun.


Það voru þessi trjágöng sem ég talaði um í stykkinu hér ofan við, síðasti spölurinn heim að Vornesi. Kannski hefur einhvern rennt grun í það, en ég vil nú afhjúpa það sem ég sagði þar; það eina sem er satt í því stykki er að það var dimman og kaldan sunnudag snemma í desember. Allt hitt var skrök. Hið sanna er að ég var að halda á vit einhvers sem ég gerði mér enga grein fyrir hvað var og þar sem ég þekkti engan. Ég var óöruggur en eftirvæntingarfullur og framagirni hafði alls ekkert rúm í hugskoti mínu. Fyrst ætlaði ég að fara svo tímanlega af stað frá Falun að ég mundi fá bjartan dag alla leiðina, en mér var svo þungt að skilja Valdísi eftir eina að það dróst og dróst á langinn að ég færi af stað, enda lenti ég í desembermyrkrinu eftir um það bil hálfa leið. Það sem ég huggaði mig við var það að Valdís hefði fengið góða vini á vinnustaðnum þar sem hún var búin að vinna nokkra mánuði, virkileg tryggðatröll sem hún hafði kynnst.

Þessa daga var óvenju kalt og það hafði áhrif á mig. Þegar ég að lokum gekk upp tröppurnar í Vornesi voru skref mín hæg og frekar þreytuleg og mér var léttir að því hversu vel Jette tók á móti mér. Ég hafði sterkt á tilfinningunni að nýtt tímabil væri að hefjast í lífi okkar Valdísar. Þó að maðurinn sem hringdi til mín þremur dögum áður segði að það væri enga vinnu að hafa þarna, þá gerði ég mér vel grein fyrir því að mér hefði aldrei verið boðið að koma í Vornes til að dvelja þar í eina viku bara til að hringla eitthvað með mig. Þú hlýtur að vera svangur sagði Jette og smurði handa mér brauð og hitaði kaffi. Eftir þetta kaffi kynnti hún staðinn svolítið fyrir mér og á þeirri stundu var það víðs fjarri í huga mér að ég mundi verða bundinn honum næstu 17 árin.

Dvöl mín í Vornesi í dag var tregablandin á köflum. Ég tók mig inn í stóra herbergið þar sem starfsfólk heldur morgunfundi sína og sat þar um stund í einrúmi og hef sjálfur setið þar einhver þúsund morgunfundi. Síðan fór ég út á svalirnar norðan á húsinu og horfði yfir hlaðið og næsta umhverfi. Í húsinu þarna tilhægri hef ég sofið nokkur hundruð eða kannski mörg hundruð nætur, en það var í öðru húsi þar sem ég gisti fjórar fyrstu næturnar sem ég dvaldi í Vornesi. Það var annað kvöld mitt á staðnum þegar kona sem vann kvöldið kom út í húsið til mín og sagði að það væri sími til mín, ég ætti að hringja heim. Þegar Valdís kom í síman sagði hún mér frá því að mamma sín lægi trúlega banaleguna. Seinna um kvöldið þegar ég hringdi aftur heim var hún dáin. Ég spurði Valdísi hvort ég ætti ekki að koma heim að morgni en hún kvað nei við. Það væri í lagi með sig.

Þannig var nú fyrsta vinnuvika mín í Vornesi, en sannleikurinn var sá að ég var þar ekki bara til að vera, ég var í vinnu. Ég átti ekki von á því. Í dag hitti ég þrjá fyrrverandi sjúklinga sem voru þar í meðferð árið 1999, eða fyrir þrettán árum. Þau minntu mig öll á eitthvað sem ég hafði sagt og ég varð svolítið hissa. Ég átti ekki von á því að ég hefði árið 1999 talað til sjúklinga minna þeim vísu orðum sem þau sögðu mér frá í dag. Maður um fertugt sagði líka að frásögn sem ég hefði notað í fyrirlestur fyrir fáeinum árum hefði snert hann svo mjög að það hefði breytt sýn hans á lífið. Hann mundi bara eina setningu og ég velti fyrir mér hvaða frásögn þetta hefði getað verið. Það var ekki fyrr en á leiðinni heim sem ég áttaði mig á því að þetta var úr mínu eigin lífi og ég bjó til aðrar persónur til að klæða söguna í. Ég hef aldrei áður á Vornesdeginum verið minntur svo  mikið á það hvernig ég hef unnið gegnum árin.

Svo var komið að heimferðinni.

 

Við frá Vornesi vorum á jólahlaðborði í Vingåker fyrir all nokkrum árum og um níu leytið um kvöldið vorum við Ingemar á leið heim. Ingemar beið þá eftir stórri hjartaaðgerð. Hann á heima skammt sunnan við Örebro. Hann fór á undan og ók varlega og ég hélt mig í hæfilegri fjarlægð á eftir honum. Þegar við komum á þennan beina vegarkafla kom vörubíll á móti okkur. Rétt áður en Ingemar mætti vörubílnum sá ég í ljósgeislanum frá honum hvernig dádýr hentist yfir veginn og síðan aftur til baka augnabliki síðar. Vörubíllinn stoppaði og Ingemar stoppaði. Á veginum lá hjörtur, ekki dádýr, og stundi þungan í dauðateygjunum. Bíll Ingemars var töluvert mikið skemmdur. Dýrið hafði kastast frá vörubílnum og fram fyrir bílinn hjá Ingemar.

Hann hafði farið út úr bílnum og svo settist hann þversum í bílstjórasætið með fæturna á malbikinu. Hann hélt hendi fyrir brjóst sér og marg endurtók; mér er svo illt í hjartanu, mér er svo illt í hjartanu. Að undanskildum sjúklingum í Vornesi held ég að mig hafi aldrei langað jafn mikið að taka fullorðinn karlmann á hné mér og veita honum öryggi. Ég hef að vísu aldrei tekið sjúklingana á hné mér en ég hef oft veitt þeim öryggi. Þegar við komum heim að húsi Ingemars síðar um kvöldið fylgdi ég honum heim að dyrum. Hann lagði hendur yfir herðar mér og þakkaði mér fyrir daginn. Svo sagði hann enn einu sinni að hann bara skildi ekki hvaðan hjörturinn hefði komið. Þetta var í þá daga og ferð mín í dag heim á Sólvelli hélt áfram.

 

Ég var kominn heim í Lekebergshrepp og var á hinu miklu matarframleiðslusvæði sem Krekklingedalurinn er. Bæði var ég með hugann heima við en einnig svífandi í minningum sem dagurinn hafði vakið upp. Ég hafði ef til vill ekki gert mér grein fyrir því fyrr hversu ríkt lífið hafði verið síðan ákvörðunin hafði verið tekin eftir símasamtalið við Ingólf Margeirsson haustið 1993.

 

Og áfram höldum við eftir Krekklingedalnum og komum til Torp þar sem vegurinn liggur um hlaðið milli mikilla bygginga sem þar eru. Fríkirkjurnar í Svíþjóð eiga Torp og þar eru ýmsar uppákomur á sumrin. Sú stærsta er í Jónsmessuvikunni þegar um 15000 manns hittast þar. Torp er innan við tvo kólómetra frá Sólvöllum. Fólk hér í kring segir að það sé ótrúlegt hversu vel þessar stórsamkomur fari fram. Það sé ekkert fyllerí, enginn hraðakstur, engin slagsmál eða læti og engin lögregla vaki þar yfir fóksfjöldanum. Arnold bóndi segir að einstska sinnum fari lögreglubíll um hlaðið í Torp þegar þessar stórsamkomur standa yfir, en það sé bara til að sýna sig og vinka fólki. Þeir stoppi þar aldrei. Kannski að það finnist góð fyrirmynd í háttarlagi þessa kristna fólks þegar það kemur saman. Nokkuð að hugleiða. Nú yfirgefum við Torp eitt augnablik en komum þar við aftur seinna í kvöld.

 

Hér sjáum við heim á Sólvallasvæðið. Sólvellir sjást þó ekki því þeir eru á bakvið drjúgmikinn skóg sem við sjáum þarna til hægri á myndinni. Valdís var búin að ákveða að taka því rólega í dag þar sem hún ætlaði að vera þátttakandi í ævintýri frá klukkan sex síðdegis og fram undir klukkan níu. Hafðu það gott kórinn átti nefnilega að syngja fyrir fjöldasöng í Torp. Fyrst átti að æfa í einn klukkutíma og svo átti fjöldasöngurinn að taka tvo tíma.

 

*

 

 

Þannig leit það út á einni af senunum í Torp í kvöld. Valdís er þarna til vinstri og er greinilega að syngja. Það var svo sem enginn fjöldi á þessum fjöldasöng, við giskum á 150 manns. Nú erum við búin að eiga það lengi heima á Sólvöllum að á samkomum hér í nágrenninu erum við farin að þekkja dálítið af fólki. Það var áberandi þarna að það fólk sem kom til  að taka þátt í samkomunni var yfirvegað og virtist einfaldlega í góðum málum. Það var mikil prúðmennska, snyrtilegt fólk og þægilegt. Tveir tímararnir urðu næstum tveir og hálfur tími.

Í gær hugsaði ég sem svo að ég gæti gert ýmislegt þarft heima ef ég færi ekki í Vornes. Fjöldasöngurinn var ekkert að tala um, þangað skyldi ég fara. Í morgun hugsaði ég sem svo að ég gæti gert ýmisleg þarft hér heima í dag. Ég fór í Vornes og ég fór á fjöldasöng og ég bara get ekki sagt annað en dagurinn hefur verið mjög ríkur dagur.

Ég læt svo fylgja tvær myndir í lokin sem sýna hvað það er sem Valdís er þátttakandi í hér í Lekebergshreppi.


Þessir kallar taka sér tíma til að vera undirleikarar Hafðu það gott kórsins.
Kórstjórinn Anders og upphafsmaður kórsins er lengst til hægri.


Svo tekur fólk þátt í svolitlu sprelli inn  á milli. Annars eru svona samkomur vandaðar
og sprellið gerir þær bara ennþá vandaðri.

Dagurinn 2. júní 2012 er liðinn í aldanna skaut.

Hver er skatturinn?

Stundum er ég að segja hluti sem fólki kemur ekkert við og hluti sem flest fólk hefur bara útaf fyrir sig. Samt er ég að hugsa um að ljóstra því upp hvað ég hef í laun ef ég vinn flesta daga mánaðarins samkvæmt vinnuskema í Vornesi. Þá segi ég flesta daga því að mér finnst að ellilífeyrisþegi eigi ekki að þurfa að vinna alveg fulla vinnu þó að hann sé að vinna. Þessi mánaðarlaun eru 25000 sænskar krónur og þá er ég að tala um útborguð laun. Eftir að ég varð ellilífeyrisþegi miða ég alltf við útborgunina, það er það sem við höfum til afnota. Ég er hæst ánægður með þessa útborgun fyrir vinnu í tæpan mánuð. Ástæðan til að ég segi þetta er, að fólk er stundum að spurja mig hversu mikinn skatt við borgum í þessu landi. Það er ekki alveg einfalt að svara því, en ég ætla þó að segja að skattur fyrir fólk upp að 65 ára aldri er 32 % og það er enginn persónuafsláttur. En þetta segir ekki alla söguna. Hér eftir kalla ég 25000 sænskar krónur ein mánaðarlaun

Þegar við Valdís seldum íbúðina í Örebro seldum við með verulegum ágóða. Við áttum því að borga
það sem samsvarar níu mánaðarlaunum í skatt af söluhagnaðinum. En af því að við notuðum talsverða peninga til að byggja við Sólvelli lækkaði þessi upphæð um helming.

Af því að við réðum iðnaðarmenn til að hjálpa okkur við að byggja við Sólvelli, þá borgaði ríkið það sem samsvaraði fjórum mánaðarlaunum mínum á tveimur árum af vinnulaunum iðnaðarmannanna. Það er þannig hér að ef fólk byggir við eða endurbætir húsnæði sitt, þá greiðir ríkið helming launanna upp að tveimur mánaðarlaunum á verkkaupa á ári, en þó ekki meira en það sem nemur þeim skatti sem verkkaupinn greiðir. Þar sem við Valdís erum tvö verða þetta tvö mánaðarlaun á hvort okkar, getur orðið samtals fjögur mánaðarlaun. Þetta er gert til að auka atvinnu og verslun í landinu.

Árið 1996 þegar ég fékk fasta vinnu í Vornesi áttum við heima í Falun. Það þýddi að ég tók vinnu í öðru léni. Þess vegna greiddi ríkið okkur tæplega ein mánaðarlaun í reiðufé vegna óþægindana sem við urðum fyrir. Svo kom vörubíll og tveir kallar og þeir tóku búslóðina okkar upp í Falun og báru út í bíl og sögðu svo bless. Eldsnemma morguninn eftir komu þeir að íbúðinni okkar í Örebro og báru búslóðina inn. Svo þágu þeir kaffi hjá okkur, sögðu bless og fóru. Flutningurinn var okkur að kostnaðarlausu, ríkið greiddi.

Allt þetta sem ég hef nefnt hér, lækkunin á skattinum af söluhagnaðinum, helmingurinn af launum iðnaðarmannanna, ávísunun sem við fengum fyrir að flytja í annað lén, kostnaðurinn við búslóðarflutninginn, að meiga vinna án þess að fá minni ellilaun og svo ótal margt annað sem ég hef ekki dregið upp hér, það er eitthvað sem fólk fær fyrir að borga og hafa borgað skatt. Já, hvað fær maður fyrir að borga skattinn sinn? Við fáum það mikið að ég hef í mörg ár glaður borgað skattinn minn.

Ég talaði við Íslending í haust, ellilífeyrisþega, og hann sagðist hafa misst áhugann á að vinna vegna þess að ellilaunin hans lækkuðu svo mikið við það. Þegar ég sagði honum ofanritað og að ellilaunin mín frá sænsku tryggingarstofnunni lækkuðu ekkert hversu mikið sem ég ynni, svaraði hann því til að þannig væri það í landi þar sem hugsað væri um hag borgaranna. Hins vegar, ég sem ellilífeyrisþegi hér borga þar að auki minni skatt af vinnulaunum mínum.

Hvernig er svo hugsað um hag borgaranna í hverju landi? þetta sem viðmælandi minn í símanum talaði um. Það byggist á því hverja fólkið í lýðræðislandi hefur kosið til að stjórna á undanförnum áratugum.

Svona nokkuð er ekkert sem kemur bara með því að veifa hendi, það kemur á löngum tíma, byggist upp á mörgum áratugum. Í fjölda áratuga hefur sama stjórnmálaafl farið nokkuð óslitið með völd í Svíþjóð. Þetta stjórnmálaafl hlýtur því að hafa átt verulegan þátt í því að byggja grunninn að því hvernig hugsað er í dag um hinn almenna borgara af stjórnvöldum. Það eru hins vegar núverandi stjórnvöld sem komu því á að greiða niður helming vinnulauna upp að vissu marki þegar fólk byggir við eða endurbætir hýbýli sín. Núverandi stjórnvöld hafa líka lækkað skatta.

Samkvæmt þessu hafa Íslendingar í sínum lýðræðislegu kosningum undanfarna áratugi ekki kosið fólk til valda sem hugsar um hag hins almenna borgara. Eða hvað?

Margir eltast við hamingjuna eins og viðutan maður sem leitar að hattinum sínum, en heldur þó á honum í hendinni eða er með hann á höfðinu. James Sharp (1613-1679). Já, fólk má ekki vera viðutan þegar það gengur að kjörborðinu.

Ég er ekkert hér að höfða til forsetaksninga. Þær hafa ekkert með þetta að gera.
RSS 2.0