Heilsa heilsa heilsa

Fyrir rúmlega viku fór Valdís í fyrstu lyfjameðferðina við lungnakrabbameini og svo beið hún eftir aukaverkununum en það má næstum segja að þær komu ekki. Í gær fór hún í aðra meðferðina og svo beið hún eftir aukaverkununum en þær nánast komu ekki þá heldur eða alla vega ekki ennþá. Læknirinn var líka búinn að segja að það fengju alls ekki allir neinar aukaverkanir. Ennþá er Valdís ein af þeim. Ég sagði að hún hefði beðið eftir aukaverkununum en ég nefnilega held að hún hafi alls ekki gert það. Það er nefnilega ekki sami áratugur núna og var fyrir 20 til 40 árum þegar rosalegar sögur fóru af þessum aukaverkunum sem ætluðu alveg að fara með fólk. Það gefur auka bjartsýni að þessir fyrstu dagar hafa gengið svona vel.

Á morgun fer ég til Arlanda til að sækja gesti, gömlu nágrannana Dísu og Ottó. Valdís ætlaði með en sú ánægja var tekin frá henni. Það var nefnilega hringt frá sjúkrahúsinu í dag og hún spurð hvort hún gæti ekki komið þangað á morgun, það ætti að teikna á hana eitthvað sem snýst um geislameðferð sem á svo að byrja eftir tæpar tvær vikur. Ég heyrði samtalið og skynjaði vonbrigðin yfir því að geta ekki komið með, en hún sá sér ekki fært að tefja meðferðina með því að afþakka tímann. Dagarnir eru víst ásetnir á þessum deildum. Hún fær að hitta Dísu og Ottó á morgun þó að hún taki ekki á móti þeim á flugvellinum.

Ég hef hugsað heil mikið um heilsu undanfarið. Ég hugsaði líka heil mikið um það fyrir mjaðmaaðgerðina. Ég var ákveðinn í því að gefa mig ekki. Færi ég að hlífa mér, sitja eða liggja mundi ég stirðna, missa vöðva og kraft. Ég hélt því mínu striki. Daginn eftir aðgerðina var ég kominn á hreyfingu og daginn þar á eftir á fulla ferð um gangana. Þeir sem voru skornir upp sama dag og daginn eftir voru alls ekki á sama róli og ég. Þó einn maður sem var skorinn upp daginn á undan mér. Við vorum á svipuðu róli. Hann var eldri en ég en hafði verið íþróttamaður í áratugi og var ennþá mjög virkur í íþróttafélagi. Hún Åsa sjúkraliði sagði að ég hefði ekkert með þetta að gera, það væri gjöf. Ég þráast við að trúa að það sé beggja blands.

Fyrir all nokkrum árum las ég frétt um það að það sem hefði áhrif á meðferð, hvaða nafni sem hún nefndist, það væri að trúa á meðferðina. Það læðist að mér að svo sé það með Valdísi og þess vegna gangi henni betur en ella. Og ekki skemmir það fyrir henni að hún er af víkingakyni, sjómannsdóttir og ein af KiddaVillasystrunum. Það má til með að hafa þetta í svolítið léttu ívafi líka.


Kommentarer
Þórlaug

Það er frábært að heyra hvað meðferðin gengur vel. Ég trúi því líka að hugarfarið skipti máli.

Þið eigið skemmtilega daga í vændum, gömlu grannarnir úr Sólvallagötunni. Kannski skreppið þið á gömlu heimaslóðirnar?



Kærar kveðjur til ykkar allra,



Þórlaug

2012-06-13 @ 12:26:49
Grátbjörkin

Gott að heyra mágur minn.Risaknús til ykkar og gangi ykkur vel.Kveðja frá Gústa.

2012-06-13 @ 12:34:34


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0