Dagur 1 nýbygging

Korter yfir sjö í morgun kom Anders á rauða rúgbrauðinu og steig út úr bílnum með kaffibolla í hendinni. Ég spurði hann hvort hann kæmi einn og hann sagði að það væri ekki tilbúið fyrir marga að vinna við svo litla byggingu. Hinir kæmu á morgun. Ég tók þessu vel og treysti því að hann vissi best. Ég spurði hann hvenær límtrésbitinn þyrfti að vera kominn á staðinn og hann svaraði alveg um hæl að hann yrfti að vera kominn í fyrramálið. En vindskeiðarnar? Seinni partinn á morgun. Ja, hvert í þreifandi, og efnið í vindskeiðarnar var ekki komið á staðinn heldur og var þar að auki ómálað. Þarna vorum við nú báðir sekir en svona uppákomur eru ekki til að eyða tíma í að finna sökudólga, heldur til að leysa þær. Ég ætlaði þá að fara með Valdísi til Örebro og koma því í kring að allt efni kæmi á staðinn á réttum tíma. Svo byrjaði Anders að vinna, öruggur, hnitmiðaður og iðinn. Ég ætlaði að taka að mér að gera ákveðna hluti áður en ég færi og nú þurfti ég að vera fljótur og hvað gerir ellilífeyrisþeginn þá. Fer að hlaupa! Nei, alls ekki. En ég jók taktinn eitthvað.



Þarna er Anders að taka saman verkfærin sín. Ég sagði áðan að hann hefði unnið öruggur, hnitmiðaður og iðinn. Það er enginn hamagangur í honum þegar hann vinnur en afköstin alveg ótrúleg. Fólk sem fór framhjá eftir að hann fór hafði orð á því að nú hefði mikið skeð og hvort smiðirnir hefðu verið margir. Ég vil líka segja Anders það til ágætis að hann er afar þægilegur í viðmóti og góður að vinna með. Engin af hugmyndum mínum er svo vitlaus að það hann vilji ekki ræða hana og svo koma niðurstöður.


Í gær tók ég mynd af viðbyggingunni frá ljósastaurnum og svo gerði ég líka núna rétt fyrir myrkur. Klukkan var hálf þrjú þegar Anders fór og þarna sjáum við árangurinn. Mitt hlutverk var að rífa burt gamla panelinn, útvega meira efni og mála vindskeiðar. Lítillega handlangaði ég en ég get ekki tekið á mig mikinn heiður af þessu en við erum himinlifandi yfir afköstum dagsins.


Þarna liggur límtrésbitinn í svörtu plasti og þrettán sekkir af einangrun. Svona lítur út á Sólvöllum í dag. Ég ætla ekki að ljóstra því upp hvernig þetta mun líta út á morgun en ég kem til með að taka enn eina mynd frá ljósastaurnum annað kvöld. Litli vörubíllinn kom nefnilega frá byggingarvöruversluninni rétt eftir hádegi.

Nú er ég ánægður með þessa dagbókarfærslu og ef einhverjir vilja lesa hana þá er það svo velkomið.

Dagur 0 nýbygging

Dagur 0 segi ég. Á morgun verður dagur 1 og svo framvegis. Ég er búinn að rembast eins og rjúpan við staurinn síðan Anders smiður var hér fyrir helgi og við töluðum um framvindu mála á Sólvöllum. Ég ætlaði að vera búinn með meira en það er bara ekki búið og þar við verður að sitja. Það er mikill munur þegar gólfið er ekki lengur falið undir kolsvörtu plasti, en nú er slík veðrátta að það er bara að hneigja sig djúpt og vera þakklátur og glaður. Það er ekki spáð rigningu fyrr en eitthvað smávegis þann 7.september, afmælisdaginn hans Hannesar Guðjóns og Snorra bróður. Og um næstu helgi er spáð allt að 20 stiga hita og mikilli sól. Það verður því mikið hægt að gera frá og með morgundeginum þegar heil víkingasveit smiða mætir á staðinn. Verst að ég er að vinna tvo daga um helgina en hvað ég vildi þó vera heima og gera mikið gagn. En svo verður það að vera og upp úr krafsinu fæ ég fyrir tveimur gluggum með þreföldu gleri. Ég verð að vera jákvæður og gera mig ánægðan með það.


Kristjana á Sólheimum setti fyrir heilmikið heimanám þegar ég var í skóla hjá henni á sláturhúsloftinu á Klaustri. Á einni viku heima lærði ég heil ljóð eins og Gunnarshólma og Skúlaskeið. Síðan naut ég þess í ríkum mæli að fá að standa upp og fara með allt ljóðið í allra áheyrn. Við vorum nokkur sem kepptum svolítið í þessum ljóðalærdómi. Ekki setti Anders smiður mér fyrir á föstudaginn var en hann nefndi að það væri frábært ef ég gæti gert hluti sem hann nefndi. En ég lærði ekki allan Gunnarshólma í þetta skiptið, ég er ekki tilbúinn með síðustu vísuna.


Þessi mynd er tekin frá ljósastaurnum yfir hið alkunna byggingarsvæði á Sólvöllum, þetta byggingarsvæði sem búið er að skrifa meira um en flest önnur mannvirki á sögulegum tíma.


Það er forstofugólfið þarna til vinstri sem ég er ekki búinn með, annars hefði mér tekist að læra Gunnarshólma allan. Ég veit ekki hvort ég fer í það á morgun eða ég læt smiðunum það eftir. Ég á erfitt með að vinna þegar menn eru að hamast í kringum mig. Mér finnst þá sem ég sé ekki alveg frjáls maður og fer bara að snúast kringum sjálfan mig. Það verður nú trúlega best að smiðirnir geri það. Ég get reynt að snúast í kringum þá án þess að vera fyrir þeim eða detta um lappirnar á þeim og kannski get ég sótt þeim vatn að drekka.


En Valdís hefur ekki heldur setið auðum höndum í dag. Þessi mynd er ekki tekin í dag og ég er með svipaða mynd á síðasta eða næst síðasta bloggi. En þessi mynd sýnir þó gott dagsverk hjá henni. Ég nefndi það við hana í morgun að það væri mikil þörf á að taka til í verkfærageymslunni en samt fannst mér að það væri mitt verk. Ég er búin að hugsa um þetta varð henni að orði. Svo var ekki mikið meira sagt um það en hún gekk til verks. Ég spurði jú hvort hún kviði ekki fyrir það fara í þessi ósköp. Tja, hún gerði ekki mikið úr því en ég fann þó að hún hlakkaði ekki til. Hún ruddi hreinlega því mesta eða öllu út úr geymslunni og gekk svo frá öllu aftur. Hún henti sumu, færði sumt í aðra geymslu og sópaði, hagræddi og skipulagði. Núna er alveg óóótrúlega fínt í geymslunni og það er engin hætta á að ég detti um fötur, vírnet eða verkfæri.

---------------------------------------------------

Þetta með skólann, hvernig gátum við nemendurnir á sláturhúsloftinu komist til manns? Enginn leikfimisalur, danskennsla, söngkennsla, tónlistarkennsla, ekkert mötuneyti, engin hjúkrunarfræðingur og engin sálgæsla. Auðvitað hefði þetta þurft að vera, eitthvað eða kannski allt. En í staðinn fyrir leikfimisal höfðum við allt Klaustrið til leikja. Við höfðum líka tildurspraukið. Tildurspraukið var grind af vörubílspalli, gerð úr rörum og hafði á bestu árum ævi sinnar þjónað því hlutverki að halda uppi segli sem kom í stað húss yfir bílpallinn og var jú á öllum vöruflutningabílum sjálfsagt í hálfa öld.

Oftast voru þessar grindur bogamyndaðar ef ég man rétt, en þessi var með vinkilréttum hornum. Svo var þessi grind sett yfir skurð vestan og neðan við sláturhúsið, af nemendunum á sláturhúsloftinu, og var þar með orðin háttvirt tildursprauk. Þarna gátum við hamast linnulaust við að hlaupa á þessu fram og til baka yfir skurðinn og yfir skurðinn og yfir skurðinn aftur. Ég man ekki hvort þetta var í raun nokkur sérstakur leikur, ég held frekar að það hafi bara verið vetvangur fyrir hamagang -og reyndar jafnvægi og lipurð. Tildursprauk væri harðbannað í dag og dæmt stórhættulegt. Ég man aldrei eftir því að neinn meiddi sig á þessu. Hins vegar duttum við oft á hlaðinu á Klaustri og heima og fengum skrámur í lófana eða á hnén og fengum jafnvel hálf illt í skrámurnar.

Það var einn leikur iðkaður á Klaustri sem auðvitað var alveg stórhættulegur en samt varð aldrei slys af því, alla vega svo lengi sem ég kom við sögu í Klausturskóla. En að skrifa um það er of langt mál að þessu sinni.

Laugardagur 28. ágúst

Birt eftir á.

Um sjö leytið í morgun vaknaði ég og horfði upp í loftið svolitla stund. Síðan læddist ég fram og lokaði gætilega. Konan sem hefur staðið út með mig í fimmtíu ár svaf ennþá og ég vildi ekki trufla það. Hún hefur ekki fengið sömu heilsu frá skaparanum og ég og hvers vegna veit ég ekki. Ég er svo himinlifandi yfir minni heilsu og þó að ég hafi þurft nýjan mjaðmalið, þá var það bara eitthvað sem þurfti að gera og svo er ég stálhraustur maður eftir það.

Spáin í textavarpinu var af allt öðrum toga en í gær og ég varð fyrir mestu vonbrigðum. Nú var spáð skúrum í dag og tvo næstu daga. Hvað átti ég að gera núna? Í vangaveltum um það tók ég eftir því að sólin skein svo fallega gegnum hátt laufþykknið austan við húsið og þaðan beint inn um nýja gluggann á austurhliðinni. Það var þó þurrt og gott núna og líklega best að ég drifi mig út og færi að jafna flagið austan við húsið og jafnvel að sá í það. Já, og þessi nýi gluggi, hann var hreina gersemið, gluggi sem hefur verið í umræðunni hér á bæ síðan við keyptum húsið. Nú er komið op á þennan vegg og gamall gluggi hálf fyllir það til bráðabirgða.

Rétt í því sá ég gegnum gardínurnar hvar tvö dádýr fóru í rólegheitum þvert yfir lóðina og stoppuðu þegar þau komu að grjótgarðinum á lóðamörkunum og virtust kroppa í einhvern gróður þar. Ég dró gardínuna gætilega til hliðar til að sjá þau betur, líklega móðir með kið frá því í vor. En þessi litla hreyfing nægði, þau litu snögglega upp og hingað heim að og svo hoppuðu léttilega yfir grarðinn og héldu vestur á gamla túnið.

Nú, þetta var ekki svo lélegur morgun þrátt fyrir allt. Hvað var ég að láta það fara í taugarnar á mér þó að það væri spáð skúrum. Ég fékk mér eitt vatnsglas og dreif mig svo út og tók mér garðhrífu í hönd. Rosalega var mikið af ánamöðkum í moldinni og stórir voru þeir. Svo vantaði mold og ég sótti einar fimmtán hjólbörur af gróðrarmold í haug sem Jónas hafði skilið eftir handa okkur á snyrtilegum stað. Það var sama þar, fullt af ánamöðkum og stórir voru þeir. Ég tók marga þeirra og kastaði út á móti skóginum.

Ég mundi eftir því þegar ég var ungur maður að ég krækti ánamöðkum á öngla. Ég sá fyrir mér hvernig þeir bókstaflega sneru upp á sig og engdust og gerðu allt til að komast undan sem þeim tókst ekki. Það var eins og þeir yrðu loðnir meðan á þessu stóð. Ég mundi alls ekki geta gert svona lagað í dag, gæti bara ekki hugsað mér það. Að pína ánamaðka upp á öngla til að geta upplifað andlegheit á einhverjum árbakka. Nei, þar liggja mörkin. Ég held bara að ég mundi heldur leggjast á árbakkann og horfa á vatnið líða framhjá. Eða að kaupa mér spún og fiska á hann eða fiska ekki. Það gilti þá einu.

Eftir tvo og hálfan tíma var flagið tilbúið til sáningar og ég orðinn svangur. Konan með fimmtíu ára þolinmðina var þá búin að vera á fótum um tíma. Hún spældi egg og steikti bæjonesskinku handa mér á svipstundu og ég bara tók við og át. Það er mikið æðruleysið sem sumt fólk er ríkt af.

Annars nota ég mikið ávexti sem álegg um þessar mundir og það er hluti af minni þátttöku í heilsuverndarátakinu sem hér stendur enn yfir. Valdís segir að ég sé orðinn of magur og ég segi að hún sé mjórri. En ég veit bara að ég er eldhress eins og ég sagði í byrjun og eftir þennan ágæta morgunverð fór ég út og sáði í nýræktina. Ég trúi að Valdís valti yfir hana þegar jörð hefur þornað nægjanlega fyrir það.

Eftir þessa moldarvinnu sneri ég mér að smíðunum og sannleikurinn er sá að ég held að ég hafi ekki smíðað jafn mikið á einum degi síðan smíðar hófust á Sólvöllum í upphafi. Fyrsta skúr dagsins kom ekki fyrr en um hálf níu leytið i kvöld, einmitt þegar ég var að taka saman eftir mig. Þetta hefur verið afkastadagur hjá mér og Valdís gerði bílinn sem nýjan með ærlegum stórþvotti og bóni.

Föstudagur

Klukkan hringdi tæplega hálf sjö og ég hefði virkilega viljað sofa lengur en það var ekki tími til þess þar sem smiðurinn var að koma. Mér fannst sem eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera en svo sofnaði ég aftur í nokkrar mínútur. Þegar ég vaknaði á ný fann ég aftur fyrir þessu að eitthvað passaði ekki. Ég dreif mig fram úr og fór fram í borðkrókinn, dró upp gardínuna og leit út. Jahá, það var þetta. Það var mjög þungbúið og því varla bjart. Ég leit niður í sáninguna frá því á mánudaginn var og moldin var svo rennandi blaut að það var eins og auðséð að ef stigið væri út í hana mundi maður sökkva langleiðina upp að öklum. Neðst niður í láginni voru óvelkomnir pollar og fíngerðir dropar mynduðu þétta hringi á vatninu. Svona yrði þá fyrsti smíðadagurinn. Allt í drullu.

Tíu mínútur yfir sjö kom Anders á rauða rúgbrauðinu sínu. Hann komm beint inn úr opinu á grjótgarðinum, skimaði í kringum sig og drap svo á bílnum. Hann virtist fyrst tala í síma en svo steig hann út úr bílnum. Hægri fóturinn sökk í drullu í slakka sem grafan og vörubíllinn skildu eftir sig á þriðjudaginn var og ekkert tækifæri hafði gefist til að laga. Anders eins og hálf hoppaði upp til að losa fótinn, breytti um stefnu og kom svo heim að húsinu. Svo hittumst við við hornið á herbergisgrunninum.

Þú ert búinn með svona mikið, sagði hann. Nú átti ég um tvennt að velja, að taka hólinu og vera voða ánægður með það eða að segja sannleikann. Ég sagði sannleikann; að dóttursonur minn hefði verið hér og hann ætti heiðurinn af gólfinu og meira til. Síðan spurði Anders hvort það væri ekki best að draga yfirbreiðsluna af og byrja. Ég svaraði ekki um hæl. Við snerumst svolítið hvor um annan, óákveðnir, þangað ég stakk upp á því að við færum inn og fengjum okkur kaffi. Yfir kaffi og ristuðu brauði urðum við sammála um að það væri óráð að draga yfirbreiðsluna bæði af gólfinu og smíðaviðnum og síðan væri komin helgi. En ég ætlaði að saga niður í veggjastoðirnar, talaði hann um, og stalla í þær fyrir langbandinu að ofan. Síðan ætluðum við að koma þrír eftir helgina og reisa húsið. Mikið leit þetta spennandi út. Niðurstaðan varð síðan sú að Þeir kæmu þrír eftir helgi.

Það er búin að vera mikil rigningartíð og spá um þurra daga hefur hefur brugðist dag frá degi. En nú er þó sænska veðurstofan og einhver norsk veðurstofa sammála um að næsta vika verði þurr og jafnvel að þá hlýni verulega á ný. Ég kíki á spár þeirra beggja oft á dag og er að verða alveg ruglaður í þessu. Núna meðan ég hef verið að skrifa þetta var hún Jannike með veðurspá í sjónvarpinu. Hún staðfesti að eftir helgi yrði breyting á þessu óstöðuga veðurfari sem verið hefur og í hönd færi stöðugra og betra veðurfar. Þegar ég heyrði þetta fann ég fyrir því í annað skiptið á þessu ári að mér þætti vænt um þessa konu fyrir góða veðurspá.

Eftir ferð til Fjugesta í morgun og hádegismat var farið að þorna til og verða heldur lystilegra úti. Þá fórum við heimafólkið á stúfana og snerum okkur hvort að sínu verkefninu. Valdís þvoði og bónaði bílinn og ég fór að smíða upp undir þaki á gamla húsinu, að ganga þar frá skordýravörn sem ég líka kalla músavörn. Við viljum ekki hafa geitunga í loftræstingunni milli einangrunar og þaks.

Eftir þvi sem leið á daginn varð ég ánægðari með það sem ég var að gera og sætti mig við að smiðurinn hefði ekki sett sitt í gang í þessari viku eins og áætlun hafði þó gert ráð fyrir. Nýsáða grasfræið fer að spíra og það er samt sem áður mikið í gangi hér. En mér þótti alla vega vænt um að Anders kom. Við skipulögðum svolítið framhaldið og á hvaða hátt ég geri mest gagn fyrir komu þeirra í næstu viku. Mér er hlýtt til þessa manns og það er eins og honum sé í mun að ég geti gert sem mest þó að hann sé verktakinn. Hann er líka ónýskur á góð ráð og hann hlustar á mig.


Ég er ekki einn á þessum bæ þó að það meigi kannski stundum halda það eftir skrifum mínum. Þessi kona, konan mín, segir stundum að það sé ekki hægt að hafa bílinn svona. Og í dag tók hún sig til og þvoði og pússaði og pússaði ennþá meira. Bíllin lítur út núna eins og nýr og ég er viss um að það verður betra að keyra hann á eftir. Svoleiðis virðist það oft vera þegar búið er að gera eitthvað átak sem getur lengt lífdaga hans. Þetta átak Valdísar lengir örugglega lífdaga þessa bíls eða gerir hann verðmeiri í endursölu.


Þær verða ekki drullugar rúðurnar eftir þessa yfirferð og nú er bara að muna að fara malarveginn alveg sérstaklega varlega á leið út á malbikaða veginn næst þegar við leggjum land undir fót.

Broddgöltur! æ! æ!


Stuttan spöl út í skóginum ætlum við að gera slóð sem verður sláttuvélatæk. Reyndar er þetta bara ein slík til viðbótar þeim slóðum sem þegar eru tilbúnar. Ég var þarna með járnkarl og ruddist kringum það stóran stein að það var á mörkunum að ég næði honum upp. Svo var ég með járnkarlinn á lofti tilbúinn að láta hann vaða einu sinni enn niður með steininum þegar ég sá þennan litla vin þarna í grasinu einmitt þar sem ég var búinn að traðka. Fyrst var ég viss um að ég væri búinn að traðka á honum og þótti það alveg hræðilegt. Svo þegar ég náði mér eftir fyrsta viðbragðið og gæsahúðin var farin að hjaðna skildi ég að svo var alls ekki. Slíkt finnur maður vel með fætinum og þar að auki hefði broddi brotist um og sjálfsagt gefið frá sér hljóð. Við fylgdumst með honum og það sást vel að hann andaði. Svo í einni eftirlitsferðinni sást vel að hann hafði snúið sér.

Broddgeltir sofa langt fram eftir degi og eru svo á ferli seint á degi og á kvöldin. Í einni eftirlitsferðinni sáum við að broddi var farinn og eftir var svolítið bæli. Ég þekki engan sem ekki hrífst af broddgöltum og ég þekki engan sem á þá fyrir óvini. Þeir annast þrif með því að éta ýmislegt sem við manneskjurnar viljum ekki hafa of mikið af í nágrenni okkar eins og til dæmis litlar slöngur og þeir eru almennt sérstakir og elskulegir.

-----------------------------------------

Svo að allt öðrum málum. Nú er kominn tími fyrir mig að annast síðustu kvöldverkin, þessi á baðherberginu. Ég þarf nefnilega að hátta snemma og vakna snemma. Upp úr sjö í fyrramálið kemur smiðurinn og nú hefst hin mikla byggingarvinna fyrir alvöru. Ég ætlaði að gera heldur meira áður en hann kæmi en það varð breyting á áætlunni klukkan hálf tíu í gærmorgun þegar hún Birgitta forstöðukona í Vornesi hringdi. Hún spurði hvort ég gæti komið og unnið kvöldið. Ég lét tilleiðast og fór svo upp úr hádegi. Þetta varð styttri vinnutími en kvöldin eru yfirleitt þar sem Birgitta hringdi svo seint og fyrirvarinn varð lítill. Og þar sem ég miða vinnulaunin fyrir eitt kvöld við glugga með þreföldu gleri verður þessi gluggi líklega ekki með krækjum þar sem launin nægja ekki. Það verður að hafa það, það hlýtur að vera í lagi að negla einn glugga fastan með þriggjatommu og mála svo yfir naglann. Það væri líkt umhyggju minni fyrir þessari byggingu eða hitt þó heldur.

Barnabarnablogg

Ég dett stundum í það að blogga um umhverfismál og þann heim sem barnabörnin mín fæddust inn í. Ég gæti líka sagt börnin mín, en börnin mín eru fullorðnar konur sem geta tekið þátt í því að gera heiminn vistvænlegri fyrir þau börn sem enn eru varnarlaus gegn þeim að stæðum sem þeim er boðið upp á. Ég hef mikið verið með litla Hannes Guðjón hér á skjánum en nú er kominn tími til að minna á hin líka.


Í ágúst 1983 leit þessi drengur dagsins ljós, hann Kristinn dóttursonur minn Jónatansson. Hann var stundum hjá okkur í Hrísey og við vorum góðir vinnir og spjölluðum margt. Við skoðuðum hvernig öldurnar klöppuðu sandinum í höfninni í Hrísey og hvernig úthafsöldurnar brotnuðu á Saltnestönginni. Hann var hjá okkur þegar hann var fimm ára og mamma og pabbi fóru til Kýpur. Það var skólaferðalag Valgerðar eftir að hún útskrifaðist sem kennari. Við fórum svo með hann suður eftir þá dvöl og borðuðum hamborgara í Staðarskála. Þegar hann var hálfnaður að borða sagði hann skilmerkilega að þetta væri mikið hollur og góður matur. Okkur fannst þetta fyndið, svo fyndið að við munum vel eftir þessu enn í dag. En við vorum líka viss um það að hann væri ekki alinn upp við að hamborgari væri neitt sérstaklega hollur og góður matur. En hann hefur örugglega verið orðinn svangur og þegar hann byrjaði að mettast hefur nú sjálfsagt komið vellíðunartilfinning yfir unga manninn sem olli þessari skilmerkilegu athugasemd.


Tólf árum á eftir Kristni kom svo þessi dama í heiminn, hún Guðdís. Hún var komin á annað ár þegar hún kom til Svíþjóðar til að heimsækja ömmu og afa. Ég bloggaði um það á laugardagskvöldið var hvað ég hefði hugsað þegar ég frétti af því að von væri á öðru barninu í þessari fjölskyldu. Það er að segja; hvernig verður sá heimur sem tekur á móti þessu barni. Við bjuggum í Falun þegar hún og mamma hennar komu í heimsókn. Ég var þá farinn að vinna í Vornesi og kom heim um helgar. Þær voru þá þegar komnar til Falun mæðgurnar þegar ég var á leið heim frá Vornesi. Ég hugsaði mikið um það á leiðinni heim hvernig Guðdís mundi taka mér og ég hlakkaði mikið til að sjá hana. Svo þegar ég birtist í dyrunum heima í Falun horfði hún á mig álengdar eitt andartak og hljóp svo í öryggið hjá mömmu sinni. Ég var eiginlega ekki eins og afi þarna, heldur eins og spenntur strákur. Samt var ég orðinn 54 ára. Pabbinn Jónatan og Kristinn bróðir hennar komu svo nokkrum dögum síðar.


Hér er svo barnabarn númer þrjú, hún Erla. Þegar hún kom á öðru ári í heimsókn til okkar með Guðdísi og mömmu sinni vorum við Valdís flutt til Örebro. Þótt undarlegt sé man ég ekki svo greinilega eftir þeirri heimsókn, en ég man þó vel eftir því að þessar tvær stelpur, önnur eins og hin þriggja ára, voru mjög líflegar og stundum hafði ég hreinlega ekki við þeim. Einhvers staðar í albúmi er til mynd af mér með þær sitt á hvoru hné og á þeirri
mynd virðist ég svo uppgefin að það er eins og andlitið sé að síga niður af höfðinu. Þá hef ég sjálfsagt verið búinn að skríða og hlaupa og leika mér við þær. Þegar ég nú skrifa þetta átta ég mig á því að í einu af mörgum myndaalbúmum eru myndir frá þessari heimsókn og ég þyrfti að skoða þær til að hrista upp í minninu.


Svo eru þau hér öll saman systkinin og Kristinn orðinn unglingur. Ég þekki líka á þessari mynd bæði klæðninguna á veggnum og litinn frá þáverandi íbúð þeirra í Vestmannaeyjum.


Hér er Kristinn enginn unglingur lengur heldur fullorðinn maður og smiður. Og þar að auki svo sterkur að hann mundi leika sér að því að taka afa sinn í bóndabveygju, jafnvel þó að afi spriklaði bara eins og afar geta mest spriklað. Og þarna er Hannes Guðjón, fjórða barnabarnið, að rannsaka frænda sinn.

Ég sagði í gær að ég hefði ekki verið svo þroskaður þegar Kristinn fæddist að ég hefði verið farinn að hugsa um það hvernig heimur tæki á móti honum. Slíkt hugsaði ég hins vegar í öll hin skiptin þegar ég vissi að barnabarnanna væri von. Það er líka í mínu valdi að ráða því hvernig sá heimur sem þau koma til með að lifa í kemur til með að líta út. Ég get ekki slegið slíku frá mér á þeirri forsendu að það muni ekkert um mig einan en það verður bara hjáróma afsökun.

Voðalega varð ég þreyttur

Í gær endaði stóri skurðgröfudagurinn á dagurinn á því að ég benti á nokkur atriði sem ég óskaði eftir að yrðu gerð að lokum. Svo vorum við, gröfumennirnir og ég, komnir út að innkeyrslunni og allir voru ánægðir. Ég var varla ánægður, ég var hreinlega í sjöunda himni og næstum sveif nokkra sentimetra frá jörðu. Svo mikið hafði komist í verk. Allt í einu tókum við eftir því að litla skóflan frá gröfunni var eftir út við skógarjaðarinn. Jæja, sagði Peter, þú tekur hana á morgun Jónas þegar þú sækir tækin. Svo fóru þeir Peter og Jonas og Jonas átti að koma að morgni, flytja burtu eitt bílhlass af grófri möl og grjóti og fara svo með gröfu og bíl til nýrra verkefna. Ég taldi að ég gæti tekið því rólega fram á níunda tímann.

En klukkan sjö í morgun bankaði Jonas upp á og við áttum nokkur orðaskipti, síðan fór hann að losa vörubílinn. Þar fór sú morgunstundin varð mér hugsað en fann mig hressan og taldi best að byrja sem fyrst á einhverju gagnlegu. Það rigndi all mikið í nótt þannig að það var spurning hvað ég ætti að gera en nóg lá fyrir. Svo kom Jonas til baka og nú ætlaði hann að taka gröfuna á bílinn en fyrst var að sækja skófluna. Mér leist ekkert vel á það vegna mikillar bleytu en það var ekkert annað að gera. Svo koma hann á gröfunni alveg heim að húsi og síðan stefndi hann á skóginn. Ég sá mér til skelfingar hvernig beltin sukku í og nú kom hann að viðkvæmum stað sem ég gekk frá nýlega og nýgresið var orðið svo fallegt.

Svo kom vinstra beltið inn yfir drenskurðinn sem var grafinn og fylltur aftur fyrir mánuði og þá fóru nú að gerast hlutir. Beltið sökk eina 20 til 25 sentimetra niður í fagurgræna jörðina og svo sökk hitt beltið líka. Eftir það þurfti hann að keyra áfram eina tvo eða þrjá metra og ég var steinhættur að draga andann, annars hefði ég öskrað. Annars var ekki til neins að öskra svo að það var eins gott að ég var stopp. Þegar hann var búinn að krækja klónni í skófluna og lyfta henni upp sökk grafan aðeins meira og svo ók hann aftur á bak. Eftir voru tveir gríðarlega ljótir skurðir og vatnið og drullan huldu grængresið. Jonas sléttaði aðeins úr þessu með skóflunni en hér með sá ég hvað lá fyrir mér næstu þrjá til fjóra tímana í jarðvinnu. Svo að bíða í þrjár vikur til að sjá aftur þann græna árangur sem aðeins tíminn getur gefið. Það var ekki við neinn að sakast eftir það sem hafði skeð. Það hafði bara rignt í nótt.

Við Jonas kvöddumst svo með virktum og töldum ekki útilokað að við mundum hittast einhvern tima síðar í lífinu. Ekki var ég reiður, en mér var allur máttur þrotinn eftir þetta og svo rosalega þreyttur varð ég að mér var algerlega fyrirmunað að gera nokkuð. Og ég var svekktur og nálægt sjálfsvorkunn. Þá stakk ég upp á því að við færum í bæinn en ég sagði Valdísi alls ekki ástæðuna og hef ekki sagt henni það ennþá. Ég rakaði mig, þvoði hárið, skipti um föt og svo lögðum við af stað. Skömmu áður en við komum inn til Örebro varð mér hugsað til þess að þreytan og svekkelsið hafði horfið. Hvað nú! Ég varð hreinlega stein hissa og velti fyrir mér hvenær það hefði átt sér stað. Ekki veit ég í hvaða beygju á leiðinni þessi breyting varð en ég bara veit að mér leið mikið, mikið betur. Ég hafði fengið máttinn til baka og það er hversu mikilvægt sem helst og nú ætla ég að sofa í níu tíma og ég veit að Jonas kemur ekki til með að banka upp á í fyrramálið.

Ps. Ég vann heil mikið í nýrækt eftir að við komum heim og það var stórgaman og ekki þreytandi. Valdís bauð fram aðstoð sína en ég hvatti hana til að taka því rólega.

Gömul skrif

Það var föstudagsmorgun og ég var búinn að vera tæpan sólarhring í Vornesi. Ég var þá búinn að vinna fyrir því sem ég kalla stundum "einn glugga með þreföldu gleri". Klukkan var orðinn hálf tíu og það var komið morgunkaffi sem það er kallað og þá mætir allt starfsfólkið og fær sér það sem var kallað hálf tíukaffið í Hrísey i den. Ég var að útbúa mér te í bolla þegar ég sá kunnuglegan, hæglátan mann koma inn í húsið og virða fyrir sér aðstæður, eða kannski öllu frekar að gá hvort hann þekkti ekki einhvern. Ég ímyndaði mér að hann væri tæplega fimmtugur og greinilega var hann finnskur. Ég heilsaði og sagði honum að við hefðum örugglega hittst áður en ég kæmi ekki fyrir mig neinu nafni. Ég fæ að segja það oft nú til dags.

Jú, við höfum hittst áður sagði hann, ég var hér innskrifaður fyrir tveimur árum og kem núna í tilefni af því. Ég heiti Seppo, sagði hann, og nafnið staðfesti að hann var finnskur (þó ekki hans eiginlega nafn). Af því að líf mitt breyttist hér fyrir tveimur árum langaði mig til að koma og virða staðinn fyrir mér og athuga líka hvort ég kannaðist ekki við einhvern. Það á að vera minn háttur á að halda upp á tveggja ára afmækið mitt.

Svo bauð ég honum kaffi sem hann þáði og við settumst niður. Fyrir honum voru þetta stór tímamót og það var það virkilega. Okkur finnst það líka sem vinnum við þetta. Ég ákvað því að gefa honum tíma eins og hann óskaði og bara taka því rólega með honum. Ég mundi koma heldur seinna heim en það var þess virði. Þetta var heldur alls ekki í fyrsta skipti á vinnuferli mínum í Vornesi sem eitthvað svipað átti sér stað.

Hann sagði mér að ég hefði verið orðinn ellilífeyrisþegi þegar hann var í meðferð og það kom mér heldur ekki á óvart. En hann sagði einnig að ég hefði unnið all mikið á þeim tíma. Við töluðum mikið saman sagði hann og svo taldi hann upp ákveðna hluti sem við hefðum rætt. Hann byrjaði nú að koma mér kunnuglega fyrir og ég minntist vissra hluta sem hann talaði um. Hann hafði verið áhyggjufullur vegna þess að hann hafði lítið eigið fyrirtæki og var hræddur um að fá engin verkefni þegar hann kæmi til baka, að hann yrði kominn á kaldan klaka eftir að hafa ekki verið viðstaddur í heilan mánuð. Ég hafði reynt að sannfæra hann, eins og marga aðra, um að frumskilyrðið fyrir vinnu fyrir fyrirtækið hans væri að hann næði tökum á sínum málum. Ef ekki, skipti engu máli þó að hann fengi verkefni, hann mundi ekki geta annast þau. Hann hafði að lokum farið að trúa á þau rök. Nú var hann undirverktaki hjá einu af stærstu byggingarfyrirtækjum í Svíþjóð og hafði alltaf jafna vinnu og hann virtist hafa fest sig vel í sessi.

Ég spurði hann hvort það væri ekki þreytandi að standa innan við glugga í glampandi sólskini og slípa sparsl. Nei, svaraði hann, það er bara gaman og þar að auki fer slípunin eftir því hvernig ég sparsla. Ég fann greinilega á mér að ég hefði líka spurt hann þessarar spurningar þegar hann var innskrifaður í Vornesi.

Þegar Seppo stóð upp og hugsaði sér til hreyfings voru liðnar einar 45 mínútur. Hann var merkjanlega ánægður með þessa heimsókn sína sem var hans háttur á að halda upp á mikilvægan tveggja ára afmælisdag. Ég var líka ánægður með að hafa getað orðið honum að liði og ég er þess full viss að hann á eftir að segja öðrum frá þessari heimsókn sinni til Vornes og láta vel af henni.

Þessi fundur okkar Seppo réði því sem ég hugleiddi á leiðinni heim úr vinnunni þennan dag. Ég fann mig hafa haft mikilvægt hlutverk síðustu sextán til sautján árin og hafa haft heil mikil áhrif á þeim vetvangi. 21. ágúst bloggaði ég og nefndi bloggið því afar háfleyga nafni "Afkastageta jarðarinnar - andlegt fyrirbæri í alheimi". Þegar ég var að enda við það blogg hugsaði ég út í þessi "Gömlu skrif" sem ég sendi út núna. Kannski ég ætti að nota ellilífeyrisárin mín í að hafa áhrif sem gera framtíð barnabarnanna minna öruggari.

Athafnadagur

Eiginlega var það langþráður dagur á Sólvöllum í dag. Hann Peter kom með gröfuna sína til að ganga endanlega frá svæðum hingað og þangað, bæði að húsabaki og framan við. Það er nefnilega að verða síðustu forvöð að sá grasfræi og það er ekkert gaman að standa í framkvæmdum ef allt er á öðrum endanum og svæði byrja jafnvel að gróa upp meðan þau eru ennþá ófrágengin.


Þetta er að húsabaki og þar á ekki að vera urð og grjót, burt með skítinn. Að vísu voru þetta svo stórir steinar að þeir hafa sjálfsagt getað verið álfasteinar. En það eru þá fleiri slíkir eftir. Ég get ekki gert að því að ég hef gaman af að fylgjast með svona framkvæmdum og mér er eiginlega óskiljanlegt hvernig svo lítil vél getur losað um og lyft svo stórum steini sem þeim sem þarna er kominn í skófluna.


Svo þegar búið var að hreinsa burt stórgrýtið kom Jónas með heilt bílhlass af gróðrarmold. Fínt skal það nefnilega verða. Þetta er stækkun í eina átt á svæði sem Peter jafnaði fyrr í sumar og svo stækkaði sama svæði ennþá meira í aðra átt, inn í skóginn..


Þegar lítið hús er gert að þokkalegu einbýlishúsi verður hallinn við framhliðina að vera réttur. Það má ekki renna upp að húsinu þó að það geri hressilegt skýfall sem reikna má að geri nokkrum sinnum á ári. Það gerði nefnilega gríðarlegt skýfall fyrir nokkrum árum og þá var atgangurinn slíkur að það mátti næstum segja að vatnið vissi ekki sitt rjúkandi ráð og fór að renna inn undir húsið. Nú er ekkert slíkt mögulegt lengur. Þegar ég tók myndina hafði Peter flautað sem þýddi að Jónas ætti að færa bílinn eina færu áfram. Því hleypur hann þarna eins og hann hafi gert eitthvað af sér sem alls ekki var.


Þegar búið var að fjarlægja malarurð sem er undir grassverðinum framan við húsið var gróðrarmoldinni jafnað yfir. Jónas var nefnilega búinn að sækja annað hlass og það þriðja er þarna við hliðina á gröfunni.


Nú þegar þessir atgangsmenn voru farnir heim byrjaði handavinna okkar heimafólks. Þó að ég sé óttalegur durtur í samvinnu var Valdís með í þessari handavinnu.


Ég sáði þó grasfræinu -þar lágu mörkin.


Svo valtaði hún líka þangað til hún fór inn og útbjó mat. Við náðum að sá í og ganga frá 135 fermetrum framan við húsið en við geymum til morguns að ganga frá 260 fermetrum bakvið húsið. Á morgun á að rigna og það er gott fyrir fræið en getur líka komið í veg fyrir að við getum lokið vinnunni að húsabaki. Það verður mjög myndarlegt á Sólvöllum þegar þetta fer allt að grænka svo ég tali nú ekki um þegar farið verður að slá svæðið. Og svo ég tali nú ekki enn frekar um þegar hús með fallegri framhlið og rauðum panel verður risið á grunninum.

Afkastageta jarðarinnar - andlegt fyrirbæri í alheimi

Eftir tveggja nátta vinnuviku í Vornesi var ég ákveðinn í því að sofa bara eins lengi og ég gæti þennan laugardagsmorgun. Ég held líka að ég hafi sofið næstum til klukkan átta í morgun og eitthvað dormaði ég eftir það. Ég vissi að það væri blautt á og ég mundi ekki byrja neina smíðavinnu fyrr en það hefði þornað til. Síðan fór ég að kíkja á veðurspár um níyleytið og viti menn, spárnar spáðu úrkomulausu veðri fram á mánudagskvöld. Svo hélt rólegur morgun áfram og það hélt áfram að þorna til úti. Upp úr klukkan ellefu hafði ég mig út og við mér tók lágskýjaður himinn, logn og 20 stiga hiti. Mikið var notalegt að vera umvafinn þessu blíðviðri ásamt dásamlegri angan af náttúrunni.

Tveggja ára hlynur sem er eina átta metra bakvið húsið er gulbrúnn efstu timmtán sentimetrana í toppinn. Haustlitur, eða hvað? Nei, það er nýi vöxturinn sem er gulbrúnn og svo er það algengt með hlyninn. Síðan verða blöðin græn. Það er bullandi vöxtur á mörgu hér úti í skóginum. Ég fór einn hring í gærkvöldi til að kanna ástandið. Meira að segja beykið sem ennþá verður að teljast á tilraunastiginu hér er að vaxa ennþá. Þetta er einstaklingsbundið með flestar tegundir en ég held að allt birki sé ennþá í góðum vexti. Ég vona bara að þessi tré gefi sér samt nægan tíma til að búa sig undir veturinn. Ef ekki, verður síðasti vöxturinn til einskis og verður bara kal að vori.

Hér æðir maður sko ekki út, setur undir sig hausinn og byrjar að hamast með hamar og sög. Nei. Fyrst er það fundur með náttúrunni og hlýjar hugsanir til þessara mörgu einstaklinga sem virðast þrífast alveg ágætlega hérna bakvið húsið okkar. Hún Birgitta Folenius er í kórnum með henni Valdísi. Hún er líka blaðamaður og þessi hlýlega, þægilega kona skrifaði alvarlega grein í Örebroblaðið í dag og fjallar þessi grein um afkastagetu jarðarinnar. Þá er átt við hversu mikið jörðin getur endurnýjað á ein ári. Í dag, þann 21. ágúst 2010, höfum við jarðarbúar þegar notað alla ársframleiðslugetu jarðarinnar fyrir þetta ár. Árið 1961 notuðum við jarðarbúar aðeins helming af ársframleiðslugetunni en árið 1986 notuðum við í fyrsta skipti alla framleiðslugetu ársins á einu ári. Eftir það höfum við verið að nota framleiðslugetuna fyrirfram. Hvergi kom fram í greininni hversu lengi er hægt að nota þessi verðmæti fyrirfram, en það er ljóst að því eru takmörk sett. Það er löngu vitað að ef allir jarðarbúar væru jafn miklir neytendur og við Vesturlandabúar þá þyrftum við fleiri en eina jörð, jafnvel nokkrar.

Birgitta er enginn sérfræðingur á þessu sviði það best ég veit, en sem góður blaðamaður veit hún nokkuð hverjir hafa góða þekkingu á þessum málum og hún notar þá þekkingu í grein sína. Þegar Rósa og Pétur sögðu okkur frá því að nýtt barnabarn væri í vændum varð ég mjög hrærður, en meðan á símtalinu stóð varð mér hugsað til þess hvers konar veröld mundi taka móti þessu barni. Fyrsta skipti sem ég hugsaði svona var þegar við vissum að Guðdísar væri von og síðar þegar við vissum um Erlu. Þegar við fréttum að fyrsta barnabarnið væri í vændum var ég ekki nógu þroskaður til að láta mér detta þetta í hug. Það jákvæða í þessu öllu saman er þó það að það er hægt að snúa þessari þóun við með grænna líferni.

Það er bullandi vöxtur í sænskum efnahag og ég segi aftur -bullandi vöxtur. Fólkið sem er við stjórnvölinn er samviskusamt og hefur vit á að fara eftir leikreglunum og þá fer vel. En það er eitt sem ekki gengur upp og það er þetta: Ríkisstjórnin bendir á að fólk þarf að vera bjartsýnt og fjárfesta til að hjólin snúist og þess meiri neysla, þess hraðar snúast hagvaxstarhjólin. Þarna lokast hringurinn og í ár lokaðist hann á heimsmælikvarða í dag, þann 21. ágúst, hringurinn sem alls ekki mátti lokast fyrr en í fyrsta lagi um áramót. Ég er nú búinn að ákveða hver hlýtur atkvæðið mitt við kosningarnar í haust. Þeir sem ekki sjá í gegnum þetta fá ekki að vita hvaða flokkur verður hamingjusamur af atkvæðinu mínu.

Sannleikurinn er sá að þegar ég kemst af stað varðandi þetta málefni er erfitt fyrir mig að stopa. Ég elska barnabörnin mín og ef mér er sama um þetta er ég drullusokkur og elska þau ekki í raun. Ég vil endilega vera með í því að breyta þessari þróun og þó að ég einn hafi alls ekki merkjanleg áhrif með aðgerðum mínum, þá hafa athafnir mínar áhrif út á við. Ég upplifði það í vinnunni í gær að það sem ég geri hefur áhrif út á við. Kannski ég bloggi um það næst. Að lokum: Barnabörnin mín mega aldrei verða veik vegna ofneyslu minnar og andvaraleysis.

Ég var ekki viss um að ég ætti nokkuð að blogga í kvöld

Ég vaknað í Vornesi í morgun, fyrr en ég þurfti, en upp úr hálf sex fór ég á stjá. Ég vissi að það yrði talsverður erill og svo var það líka í gærkvöldi. En þrátt fyrir eril er morgunverðurinn frumskilyrði, hvort heldur ég er í Vornesi eða heima. Og aldrei fyrsta kaffibollann fyrr en að loknum morgunverði. Það er mikilvægt. Meðan ég var að úða í mig morgunverðinum kom hún Agneta, ung kona sem þykir alveg gríðarlega gaman að vinna í stóreldhúsi. En það var ekki allt með felldu því að hún ruddist með hljóðum upp stiga sem konurnar í eldhúsinu nota þegar þær koma í vinnu. Það eru þrjár slöngur í stiganum æpti hún og ég sem hef aldrei verið hrædd við slöngur vað alveg brjáluð núna. Ég fór niður og alveg rétt; fyrsti snákurinn var í þriðju tröppu. Húsvörðurinn getur séð um þetta sagði ég við Agnetu en stuttu síðar kom Katarína í eldhúsinu og sagðist hafa hent út þremur slöngum. Þar með var það mál afgreitt.

Svo sá ég enga ástæðu til að blogga í kvöld og ég er líka svefnlitill og fer í vinnu aftur á morgun. Það eru margir gluggarnir sem ég vinn mér inn þennan mánuð. En samt fór ég að skrifa það sem hér stendur ofan þannig að ég er fallinn og þá er best að falla bara hressilega.

Í fyrradag undirbjó ég smíðaverkefni hér heima og þó að ég væri latur við heimkomuna um hádegið í dag ákvað ég að smíða. Meðan við vorum að borða talaði Valdís um að ég ætti bara að hvíla mig í dag og þar með fékk ég ástæðu til að vorkenna mér svolítið. Svo byrjaði ég smíðarnar.


Einu sinni leit þetta svona út. Þegar verið er byggja við hús verða "salirnir" í því nýja að passa við "salina" í því gamla. Því getur þurft að rífa veggi, opna inn í húsið, slægja, brambolta, færa glugga og dyr og setja svo saman aftur.


Meðan verkefnið mitt stóð yfir í dag leit þetta svona út á tímabili. Þegar þessi mynd var tekin stóð yfir bæði slæging og brambolt. Kommóða sem tóð innan dyra var fyrir og því tók ég skúffurnar úr og dró fram kommóðuna. Ég get alveg talið upp það sem er í skúffunum sem við sjáum þarna inn um opinn vegginn en ég sleppi því ef enginn spyr sérstaklega eftir því. En það er óhætt að segja að þetta lítur ekkert stórskemmtileg út og ég var ekki alveg nógur sjálfum mér í dag og átti erfitt með að finna verkfæri. Þá fór Valdís af stað og fann þau þar sem ég hafði leitað. Mér þótti það hálf hart en tókst að vera ekki með neinar útskýringar.


Svo þegar leið á daginn kom meira skipulag á framkvæmdirnar og ég varð meira og meira viss um að ég hefði lokað öllum mögulegum músaleiðum inn í gólf, veggi svo ég tali ekki um þessa dásamlegu einangrun sem er svo gott að hafa aðgang að í vetrarhörkum. Ég fer aldrei ofan af því að ég er kraftaverkamaður á þessu sviði. Annars var sagt frá því í sumar að það væru komnar rafmagnsgildrur sem án undantekninga steindræpu mýs. Við förum nú innan tíðar í verslunina Nágrannabæinn í Örebro og leitum að þessum gildrum. Annars get ég sagt núna eins og svo oft áður að ég veit svo sem ekki hvort ég hef nokkurn rétt á að útrýma lífi bara af því að það hentar mér ekki. En alla vega; ef ég geri það vil ég gera það hreinlega.


En aftur að byggingarvinnunni. Nú passar þetta dyraop að nýju forstofunni og að fatahenginu sem á að koma á vegginn fram í verðandi forstofu á bakvið hurðina hægra megin. Það passar einnig að skápunum sem eiga að koma við hinn forstofuvegginn, það er að segja vinstra meginn þar sem hægt er að greina stigann úti fyrir. Mér fannst ósköp ókræsilegt að fara í þetta en nú er slægingin og bramboltið að baki. Eftir á að hyggja þá var nú bara gaman að þessu eins og flestu sem ég legg fyrir mig í dag. Þegar ég var búinn að borða heilsubuffið hennar Valdísar, skrúfa plötu fyrir dyraopið og taka saman verkfærin fór að rigna all líflega og svo er enn. Mikið verður gott að ganga móts við Ól Lokbrá eftir athafnirnar í baðherberginu (bursta og pissa), tauta svolítið upp úr svefni og safna svo kröftum fyrir næsta sólarhring í Vornesi. Eftir þennan komandi sólarhring þar hægist mjög um varðandi vinnu og ég verð meira sjálfstæður ellilífeyrisþegi með öllum réttindum sem því fylgir.

Rósa og Hannes Guðjón eru farin heim

Eftir rúmlega vikudvöl á Sólvöllum fóru þau heim í morgun, Rósa og Hannes Guðjón. Ósköp leið þessi vika fljótt og mikið var gaman að vera amma og afi. Myndavélin var óspart á lofti og í þessum myndum er skráð mikið af sögu þessar heimsóknar. Mér bárust líka myndir frá Vestmannaeyjum um helgina og þar sá ég svo ekki verður um villst að Hannes Guðjón á frændfólk á Íslandi. Hér ætla ég að birta nokkrar af myndunum frá heimsókninni.


Amma ætlaði að fara að slá og kringum sárið eftir gröftinn fyrir nýjum rafmagnskapli um daginn voru steinar á strjálningi. Afi og nafni gengu í það að tína upp þessa steina. Þegar afi lagðist á hnén varð hann jú minni og öllu viðráðanlegri fyrir lítinn mann að umgangast. Drengurinn tók steinana gjarnan úr hendi afa, efnagreindi þá svolítið og skoðaði og kastaði þeim síðan í fötuna. Einstaka stein tók hann aftur upp úr fötunni og kastaði út í grasið á ný. Afi tók þessa steina upp aftur og svo urðu nýjar umræður um þá. Þetta verk var afar áhugavert fyrir drenginn eins og myndin sýnir og svo vel tókst til með hreinsunina að þessir leiðindasmellir heyrðust aldrei sem annars heyrast þegar sláttuvélahnífarnir verða bitlaustir á óvelkomnum steinum.


Ellefu mánaða drengurinn Hannes á líka sláttuvél eins og amma. Það heyrast smellir í henni þegar hún er dregin og eins og sjá má á myndinni er Hannes á fullri ferð með sláttuvelina sína á iðjagrænu Sólvallatúninu.


Stundum fannst Hannesi óskaplega gaman að fá okkur til að gera skrítna hluti og svo hló hann mikið. Þá hlógum við líka og öllum fannst gaman. Þekkið þið kannski svona gamansemi líka þegar glöð smábörn eru annars vegar? Ég hef grun um það.


Að hjálpa til með uppþvottavélina var með allra skemmtilegustu verkefnum á Sólvöllum. Þarna teygir Hannes hendina inn í uppþvottavélina og kannar með gaffli hvort allt sé í lagi þarna inni.


Þarna skoða Hannes og mamma lítinn hlyn, þetta tré með stóru blöðunum sem þola vind á einhvern undraverðan hátt. Það var mikið fyrir hann að skoða í sveitinni þessa daga og athyglin beindist líka að afar mörgu og blæbrigðum í málfari hans fjölgaði.


Í gær bauð amma upp á pönnukökur sem við fórum með út í skóg á svolítinn friðarstað sem búið er að gera þar. Pönnukökur og aðrar kökur er bannvara á Sólvöllum og hefur verið um all nokkuð skeið. En einstaka sinnum verður fólk að bregða út af svoleiðis. Mér dettur í hug að Hannes sé þarna að segja við ömmu að nú sé kominn tími fyrir nýjan gómsætan bita í lítinn munn.


Og hvað ert þú að þvælast þarna afi. Komdu bara og borðaðu pönnukökur. Ekki hefur hann kannski hugsað nákvæmlega þetta en hann hefur alla vega hugann við ferðir mínar þegar ég tók þessa mynd. Athyglisgáfan fer vaxandi og þessa viku á Sólvöllum æfðist hann í að ganga í grasi


Á þessari mynd er Hannes tveggja mánaða. Í það skipti fannst mér þegar ég tók við honum í fyrsta sinn að mikið yrði ég að fara gætilega með svona lítið barn á örmum mínum. Þegar hann var tæplega níu mánaða sat hann á móti ömmu sinni á hnjám hennar, horfði framan í hana og þau sungu saman. Hann hélt í hendur hennar, hrekklaus, góður, alvarlegur í bragði og sveiflaði þeim til og söng a-a-a-a  a-a-a-a  a-a-a-a en samtímis söng amma gamlar barnavísur. Það varð ekki annað séð á honum en þessi stund væri honum hreinlega heilög.

Í kyrrð og veðurblíðu í vikunni fór mamma hans með hann í kerru um nágrennið. Þau voru á leið inn í skóg góðan spöl í burtu og þá heyrði ég að hann söng ja ja ja ja og ennþá meira ja ja ja ja. Þá sem oftar hugsaði ég hvað það væri mikilvægt að aldrei svíkja, aldrei hrekkja, að aldrei fara illa að ráðum sínum í nærveru barnssálarinnar, hvergi nokkurs staðar í veröldinni. Og ekki bara í nærveru barnssálarinnar, heldur aldrei, hreinlega aldrei. Smávaxið barnabarnið slær á góða strengi í brjóstum afa og ömmu.

Enn ein Sólvallaskýrsla

Sum hús eru stór og mikil og framtíðarhlutverk þeirra eru stór, eiga jafnvel að breyta ásýnd heils lands. Í þessu sambandi hef ég stundum nefnt tónlistarhús. En svo eru líka til lítil og lág hús sem hafa líka mikilvæg framtíðarhlutverk. Svo mikilvægt er eitt slíkt hús að það er verið að byggja við það. Þarna er ég auðvitað að tala um Sólvelli í Krekklingesókn. Ég hef sagt áður og segi enn að það er kannski skrifað meira um Sólvallahúsið en tónlistarhúsið. Það er mikil unun að vinna að því að Sólvallahúsið stækki og geti þar með annað sínu mikilvæga framtíðarhlutverki. Það er þess vegna sem ég blogga svo mikið um þennan stað og þessa byggingu og merkilegt er það er lesið af ótrúlega mörgum. Það er oft vinsælt að lesa um það sem er hversdagslegt.


Þegar vandað er til viðbyggingar við hús verður gamla húsið að svara ákveðnum kröfum. Þess vegna er ég að styrkja og bæta síðustu veggina á gamla Sólvallahúsinu. Kristinn dóttursonur hjálpaði mér líka við þetta þá viku sem hann var hér um daginn. Það má greinilega sjá að hlutinn til vinstri lítur mikið betur út en hlutinn til hægri, sá sem lendir inn í forstogfunni. Þann hluta er ég að vinna við núna og meðal annars að færa dyraopið hálfan meter til hægri.


Svona getur styrktur veggur litið út, en þetta er nærmynd af sama vegg og sýndur er hér fyrir ofan. Þarna er búið að negla tommu þykkt efni á bita og stoðir og þar sem húsið er búið að standa án þessarar styrkingar í 40 ár ætti það að duga núna. Ég var líka áður búinn að þétta stöplana undir húsinu um helming. Þetta verður sterkt og gott hús og ekki er fúinn í því. Önnur skoðunareferð mín á Sólvelli áður en við keyptum húsið var með hamar og nokkra nagla í vasanum. Síðan skreið ég meðfram húsinu og negldi upp í burðarbitana og komst þá að því að það fannst ekki fúi í því. Ekki veit ég hvað nágrönnunum þótti um þetta háttarlag mitt og hafa þeir aldrei nefnt það.


Ég er svo sjálfselskur að ég vil helst ekki láta nokkurn annan einangra. Ég mæli nákvæmlega, sker nákvæmlega og legg svo mottuna í af mikilli alúð. Síðan hugsa ég að mikið eigi þessi einangrun eftir að halda góðum hita í þessu húsi. Að lokum strýk ég yfir af nærgætni áður en ég fer í næstu mottu. Ég gæli við einangrunina. Ef þetta er ekki að njóta þess að byggja, hvað er það þá? Og gluggarnir eru nýir með þreföldu gleri og að vinna eina nótt í Vornesi þýðir einn glugga til. Svo lækkar Anders Borg fjármálaráðherra, hann með taglið, skattinn sem ég greiði af vinnunni minni svo að við höfum betri efni á að byggja. Hann ætlar líka að greiða helminginn af vinnu smiðsins eins og ég hef oft sagt áður og hann er meira að segja búinn að greiða helminginn af fyrsta reikningnum.


Ég vildi helst kaupa almennilegan tjörupappa til að nota sem vindpappa en hann Bengt í byggingarvöruversluninni bara hló að mér og sagði að ég yrði að aðlaga mig breyttum tímum. Svo þegar við Kristinn settum þennan undarlega vindpappa, eða vinddúk, á austurvegginn um daginn, kom í ljós að þetta er þrælsterkur dúkur. Það er því aðeins einn galli sem ég sé við hann og hann er sá að ég trúi því ekki að þessi dúkur sé jafn músheldur og heiðarlegur tjörupappi. En ég er ákveðinn í að skjóta músunum ref fyrir rass og halda þeim utan dyra með öðrum leiðum.


Þetta er austurveggurinn sem við Kristinn unnum í sameiningu um daginn. Við sjáum þarna reyndar í gegnum húsið og út í skógana í vestri. Það er eitthvað einkennilegt við gluggann þarna og ástæðan er að þetta er bráðabyrgðagluggi, gamall gluggi frá vesturhliðinni. Glugginn sem á að koma þarna verður 30 sm síðari. Það er búið að vera í umræðu síðan við keyptum Sólvelli að setja glugga þarna móti skóginum og rétti glugginn kemur á allra næstu vikum. Panelklæðningin verður ekki sett upp fyrr en nýja húsið verður líka tilbúið fyrir klæðningu.


Þetta er engin góð mynd hjá mér en það má þó greina skóginn sem er í tíu til timmtán metra fjarlægð frá húsinu að austan. Ég segi aftur að þetta er bráðabyrgðagluggi og endanlegi glugginn verður 30 sm síðari. Þetta verður eitt frábærasta málverk allra tíma og vert að gera því betri skil síðar. Það var að kvölda í gær þegar ég tók þessa mynd. Valdís er þarna að lesa læknasögu en Rósa og Hannes Guðjón spjalla saman, mamman gegnum síma.

Smiðurinn dóttursonur minn og systur hans

Afi, má ég hjálpa við bygginguna, spurði Kristinn dóttursonur okkar sama daginn og hann kom til okkar um daginn. Svo tók það okkur nokkra daga að læra hvor á annan, ég gamaldags í mínum hæga jafna gangi en hann í meiri hröðum skorpum og hlaðinn nýjum, ferskum hugmyndum.


Hér í landi eru notuð hugtök eins og að það rjúki undan skósólunum þegar menn vinna hratt og þegar menn vinna ennþá hraðar er sagt að skósólarnir séu farnir að brenna. Svoleiðis tala menn til dæmis í byggingarvöruversluninni okkar þegar mest er að gera þar og þar lærði ég þessi hugtök. Mér sýnist á honum dóttursyni mínum þarna að eftir myndinni að dæma sé hann að nálgast efri mörkin. Ég man líka eftir því þegar hann var þarna niður í grunninum og sveiflaði sér yfir veggina að það var mikil ferð á honum.


Það leið heldur ekki á löngu þar til árangurinn sást. Þetta er alveg hans eigið verk og ég kom ekki nálægt því að öðru leyti en því að ég hélt undir eitthvað af plönkunum frá stæðunni og inn á grunninn. Sennilega hefur það bara orðið til þess að hann hefur gengið hægar til að ég skyldi geta haft við honum. Hann er afar duglegur maður hann dóttursonur minn.


Snemma morguninn eftir að Kristinn kom heim, það er að segja á mánudaginn var, hringdi hann til að segja okkur fréttir. Hann var ráðinn til vinnu í Noregi í einhverja mánuði og átti að vera þar ákveðinn tíma og vera svo í fríi annan ákveðinn tíma. Svo skilst mér að hann hafi farið með systur sínar austur í sveitir skömmu eftir það símtal og þar tók hann af þeim myndir. Hér eru þær Guðdís til vinstri og Erla til hægri og það fer varla milli mála að þær eru staddar í Reynisfjöru. Fallegar stelpur þær dótturdætur okkar Valdísar. Það er ekki svo langt síðan þær voru litlar stelpur á ferð hjá okkur hér í Örebro. Líklega var það 1997. Svo sjáum við hér mynd af táningum sem eru á leiðinni að verða fullorðnar konur.

Reyndar eru þær búnar að vera oftar á ferðinni. Til dæmis þegar við vorum öll saman fjölskyldan í sumarhúsi í beykiskógunum niður á Hallandsási. Þá áttu þær gula kjóla og þeir voru í mínum augum alveg eins á litinn og gulu blómin á rapsakrinum sunnan við húsið.


Hér er svo önnur mynd af þeim systrum, listræn mynd. Ég geri ráð fyrir að hún sé líka tekin í Reynisfjöru. Alla vega er það Atlantshafið sem er í bakgrunninum.

Þakka þér fyrir komuna Kristinn og fyrir myndirnar af systrum þínum. Kannski hittumst við í einhverri Noregsaferða þinna.

Frændur á Sólvöllum

Þeir hittust hér á Sólvöllum systrasynirnir Kristinn Jónatansson og Hannes Guðjón. Það munar á þeim rúmum 26 árum og heil mikið bæði í lengd og þyngd. Samt kom þeim skínandi vel saman. Það er mikið bloggefni sem hefur verið á ferðinni í kollinum á mér en eitt og annað hefur valdið því að hefur ekki orðið að veruleika. En nú er ég sestur niður eftir heitan og rakann dag, dálítið sveittur og líka ánægður yfir að enn einum áfanga er náð í byggingarframkvæmdum okkar. Áfangar mínir þurfa ekki að vera stórir til að vera ánægjulegir. En aftur að þeim frændum.


Fyrir nokkrum árum keyptu Rósa og Pétur berjaplöntur og gróðursettu eina 20 metra út í skógi bakvið húsið. Síðan hefur verið að bætast við þessar plöntur, eða runna, og nú er komin lítil, fín grasflöt milli þeirra. Á þessa grasflöt er svo kominn bekkur þar sem hægt er að sitja mitt í háum og lágum gróðri og ræða heimspeki og hversdagslega hluti. Það er einmitt það sem frændurnir Kristinn og Hannes eru að gera þarna. En svo uppgötvaði Hannes nokkuð alveg rosalega spennandi.


Hann sá bláber á runna frá því í vor. Þetta eru einhver amerísk bláber og verða á stærði við lítil vínber. Nú varð lífið verulega spennandi.


Eitt af öðru hurfu berin af runnanum og upp í munninn á litla manninum. Namm, namm, hvað þetta var gott. Við notum þessa mynd sem skjámynd og í þeirri stærð sést berið sem hann er að taka svo vel og það sést einnig að hann er með ber í munninum. Þetta var stuttu eftir að hann og mamma hans komu á Sólvelli á laugardaginn var og það var sem það væri afar mikilvægt að borgarbarnið hefði aðgang að þessari grænu og gjöfulu náttúru.

Smíðavinna

Við hérna strákarnir, afi og dóttursonur, höfum hamast við að smíða í dag þannig að það hefur rokið úr skósólunum okkar, svo mikil hefur ferðin verið á okkur. Það hefur heil mikið skeð í vikunni og ég ætlaði að gera þessu svolítil skil núna en mér gengur ekki vel með myndir. Ég ætlaði nefnilega að kynna dóttursoninn Kristinn en myndirnar leika ekki í höndunum á mér í kvöld og það eru villur í textunum. Kannski ég þurfi að fara að hvíla mig eftir vinnuviku í Vornesi og smíðar heima. Ég held að Óli sé farinn að kasta sandi í augun á mér, svo óþolinmóður bíður hann eftir að fara að vagga mér inn í drumalandið. Ég læt því nægja að birta tvær myndir af smiðnum okkar.


Þessi mynd var tekin fyrir fimm árum og það er heldur betur að sjá að það sé mikið að gera. Hér er Kristinn með keðjusögina og gengur vasklega móts við tré sem hann ætlar að fara að fella


Og á þessari mynd frá sama tíma er hann að hverfa inn í skóginn þar sem hann tók hann heldur betur til hendinni. Göngulagið er vasklegt. Betra blogg þegar mér gengur betur við hlutina.

Nú er það bara þrældómur

Ég kallaði síðasta blogg "Skuldsettur maður er ófrjáls maður". Síðar í blogginu sagði ég að skuldlaus maður væri ófrjðáls maður. Það var auðvitað rangt og á báðum stöðum átti að standa að skuldsettur maður væri ófrjáls maður. Skiptir kannski litlu máli enda hafa flestir sjálfsagt skilið að svo átti að vera. Það nerfnilegas lásu margir þetta blogg.

Í morgun kom ég heim úr vinnu eftir sólarhring og á morgun fer ég aftur í vinnu í sólarhring. Ég er hálfgert að vorkenna mér þessa dagana því að ég er líka að reyna að vinna hér heima. Hér er staddur smiður sem ég er búinn að nefna nýlega, barnabarnið elsta, og þegar hann tekur sig til hreinlega rýkur af honum. Hann er líka að heilsa upp á vinahóp sem hann eignaðist þegar hann vann hér fyrir fimm árum. Svo á það líka að vera og þegar maður hefur eignast vinahóp á maður alls ekki að sleppa af honum ef mögulegt er að halda kynnunum. Það kenndi Vilborg Harðardóttir blaðamaður mér fyrir einum 35 árum. Þegar hún sagði þetta og útskýrði það var það svo ótrúlega satt og ég hef aldrei gleymt því en kannski ekki haft í heiðri sem skyldi.

En eins og sagt var fer ég í vinnu á morgun. Það er talsverð vinna fyrir mig fram að 20. ágúst en eftir það verður það nú hálfgert ellilífeyrisþegalíf hjá mér. Ég var að kíkja á íslensku krónuna áðan og hún er enn í sömu eymdinni þannig að ellilífeyririnn okkar frá Íslandi er greiddur með afar þunnum, hálf glærum seðlum. En ég er ákveðinn í að bera höfuðið hátt og vera stoltur ellilífeyrisþegi sem byggir hús og veitir öðrum vinnu sem síðan greiða skatta til Anders Borg. Í staðinn greiðir Anders Borg smiðnum og gröfumanninum helminginn af vinnulaununum þeirra og veit þar með að mér er hlýtt til hans. Hann er líka fjármálaráðherra sem greiðir í tagl (eða stert). Þetta þýðir að ég borga engan skatt af því sem ég vinn fyrir í Vornesi á þessu ári og því get ég sagt með stórum stöfum HAHAHA. Svo lengi sem ég borga skatt borgar Anders helminginn af vinnulaununum.

Nú er mál að drekka eins og eitt stórt glas af björnberjasafti og bursta svo og pissa. Óli Lokbrá er líka vinur minn. Ég á marga vini. Hann syngur fyrir mig vögguljóð og hann veit að ég sofna afar fljótt þegar ég er lagstur á koddann. Ég man stundum varla eftir því að ég hafi lagst á koddann. Það er mikill munur að vera með nýjan mjaðmalið úr títan. Hann fékk ég líka frá Anders Borg og ég borgaði bara 400 sænskar krónur sem er rétt fyrir sendingarkostnaðinum.

Svo er enginn þrældómur á mér. Ég var bara að plata. Ég segi eins og svo oft áður að að það flesta sem ég geri er skemmtilegt.

Skuldsettur maður er ófrjáls maður

Sænskur efnahagur er á uppleið. Hvert fyrirtækið af öðru er rekið með miklum ágóða í ársfjórðungsuppgjörum og þegar ég segi með miklum ágóða er ekki verið að tala um einhver hundruð þúsunda, heldur ótrúlega marga miljarða. Þetta er heldur ekki fyrsti ársfjórðungurinn sem vel gengur. BNP hefur hækkað meira en spár gerðu ráð fyrir og gert er ráð fyrir að farið verði að hækka vexti til að stemma stigu við verðbólgu. Slíkur er hraðinn á velferðinni.

Það eru kosningar í haust og ég er ekki alveg ráðinn í því hvaða flokkur fær mitt atkvæði. Þó að sænsku, hægri ríkisstjórninni hafi gengið margt vel og breytt ýmsu, hefur hún ekki breytt Svíþjóð svo mikið, enda er landið svo gamalgróið jafnaðarmannaland að þær undirstöður gefa sig ekki á einu kjörtímabili. Ég hef fram til þessa látið atkvæðið mitt renna til vinstri flokka og þó að ég kysi sænsku Moderatana núna væri það ekki vegna þess að ég væri allt í einu svo mikill hægri maður, heldur vegna þess að ég mæti það sem þeir hefðu gert á kjörtímabilinu.

Ég hef hlustað nokkuð á pólitíska umræðu og mér finnst þessir ungu hægri menn vera rökfastir, samviskusamir og sjálfum sér samkvæmir. Og ég segi aftur samviskusamir. Ég hlustaði líka einu sinni á Göran Persson jafnaðarmann segja eftir að bankahrun hafði orðið í Svíþjóð um 1990 þegar hægri menn settu inngjöfina of kröftulega í botn og hann síðar við miklar óvinsældir stýrði kassanum, skar niður og sparaði heiftarlega, að skuldsettur maður væri ófrjáls maður. Hann sagði einnig að hann gæti ekki hugsað sér að þurfa að fara til Bandaríkjanna, krjúpa á kné fyrir framan 25 ára bankastráka og biðja þá að bjarga Svíþjóð ef landið sigldi í strand. Svo hélt hann áfram með skurðarhnífinn.

Það voru fleiri en ég sem hlustaði á þetta tal Göran. Hann fékk eftir það mikla virðingu eftir að hann hafði verið hataður ríkulega og virðinguna fékk hann mikið eftir að hafa sagt þessi frægu orð. Síðar, mörgum árum seinna, skeði eitthvað og Göran féll úr hnakknum. Kannski var hann bara bestur meðan neyðin var mest. Jafnaðarmannaflokkurinn er ekki í góðu standi núna og því vill fólk ekki kjósa hann. Það bara skeði eitthvað. Samt komst landið upp úr bankahruninu undir hans stjórn og komst til mestu velgengni sem nokkru sinni hafði ríkt hér. Svo kom alheimshrunið en það varð aldrei meira en svo að við Valdís fundum aldrei fyrir því. Samt misstu margir vinnu. Bankahrunið gamla var tiltölulega nýlega afstaðið þegar við Valdís komum til Svíþjóðar og landið var þá enn í miklum sárum. Hlutirnir ske á ekki lengri tíma en svo.

Ég ætla að halda áfram að hlusta og reyna að gera mér hlutlausa mynd. Ég ætla ekki að fara út að hjóla þó að andstæðingar mínir í pólitík séu á skjánum. Vinur minn hér í landi var að hlusta á pólitíska umræðu í sjónvarpi og flokksforingjanum hans gekk alls ekki vel í þættinum. Hann varð því svo spenntur að hann gat ekki hlustað lengur og fór fram í eldhús að vaska upp. En ég á enga andstæðinga í pólitík í landi hér en ég vissi bara ekki hvernig ég ætti að segja þetta öðru vísi. Ég segi einu sinni enn að hægri strákarnir í ríkisstjórninni eru samviskusamir þó að hægri mönnum tækist að klúðra um 1990. Ég segi "strákarnir" þar sem þeir Reinfelt og Borg eru afgerandi áberandi í þessari ríkisstjórn en það eru líka klárar konur með í ríkisstjórn, ég gleymi því ekki. Tveimur framámönnum í stjórnmálum á hægri vængnum hefur orðið fótaskortur nýlega. Þeir eru báðir hættir. Ég kalla það siðferði.

Það verður fróðlegt fyrir mig að vita hver fær atkvæðið mitt í haust en það er ekki víst að nokkur lifandi manneskja fái að vita það.
RSS 2.0