Smiðurinn dóttursonur minn og systur hans

Afi, má ég hjálpa við bygginguna, spurði Kristinn dóttursonur okkar sama daginn og hann kom til okkar um daginn. Svo tók það okkur nokkra daga að læra hvor á annan, ég gamaldags í mínum hæga jafna gangi en hann í meiri hröðum skorpum og hlaðinn nýjum, ferskum hugmyndum.


Hér í landi eru notuð hugtök eins og að það rjúki undan skósólunum þegar menn vinna hratt og þegar menn vinna ennþá hraðar er sagt að skósólarnir séu farnir að brenna. Svoleiðis tala menn til dæmis í byggingarvöruversluninni okkar þegar mest er að gera þar og þar lærði ég þessi hugtök. Mér sýnist á honum dóttursyni mínum þarna að eftir myndinni að dæma sé hann að nálgast efri mörkin. Ég man líka eftir því þegar hann var þarna niður í grunninum og sveiflaði sér yfir veggina að það var mikil ferð á honum.


Það leið heldur ekki á löngu þar til árangurinn sást. Þetta er alveg hans eigið verk og ég kom ekki nálægt því að öðru leyti en því að ég hélt undir eitthvað af plönkunum frá stæðunni og inn á grunninn. Sennilega hefur það bara orðið til þess að hann hefur gengið hægar til að ég skyldi geta haft við honum. Hann er afar duglegur maður hann dóttursonur minn.


Snemma morguninn eftir að Kristinn kom heim, það er að segja á mánudaginn var, hringdi hann til að segja okkur fréttir. Hann var ráðinn til vinnu í Noregi í einhverja mánuði og átti að vera þar ákveðinn tíma og vera svo í fríi annan ákveðinn tíma. Svo skilst mér að hann hafi farið með systur sínar austur í sveitir skömmu eftir það símtal og þar tók hann af þeim myndir. Hér eru þær Guðdís til vinstri og Erla til hægri og það fer varla milli mála að þær eru staddar í Reynisfjöru. Fallegar stelpur þær dótturdætur okkar Valdísar. Það er ekki svo langt síðan þær voru litlar stelpur á ferð hjá okkur hér í Örebro. Líklega var það 1997. Svo sjáum við hér mynd af táningum sem eru á leiðinni að verða fullorðnar konur.

Reyndar eru þær búnar að vera oftar á ferðinni. Til dæmis þegar við vorum öll saman fjölskyldan í sumarhúsi í beykiskógunum niður á Hallandsási. Þá áttu þær gula kjóla og þeir voru í mínum augum alveg eins á litinn og gulu blómin á rapsakrinum sunnan við húsið.


Hér er svo önnur mynd af þeim systrum, listræn mynd. Ég geri ráð fyrir að hún sé líka tekin í Reynisfjöru. Alla vega er það Atlantshafið sem er í bakgrunninum.

Þakka þér fyrir komuna Kristinn og fyrir myndirnar af systrum þínum. Kannski hittumst við í einhverri Noregsaferða þinna.


Kommentarer
Valgerður

Ég verð alltaf sannfærðari og sannfærðari um að það sé mikill listamaður á ferð þar sem Kristinn fer. Ekki aðeins er hann góður smiður heldur er hann einnig mikill myndasmiður.

VG

2010-08-15 @ 15:22:31


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0