Sunnudagur til sælu

Við vorum í Suðurbæjarkirkjunni (Sörbykyrkan) undir kvöldið. Kórinn sem Valdís var í áður en við fluttum frá Örebro, Korianderkören, hafði svokallað kórkaffi og við förum oft þangað þegar þessi kór býður upp á glaðan söng. Og það var einmitt glaður söngur þar núna eins og alltaf. Það voru sungin lög frá sjöunda áratugnum og kórinn var að æfa þegar við komum í kirkjuna vel tímanlega. Þá fannst okkur sem þetta yrði ekki eins skemmtilegt sem við höfðum vænst. En svo varð klukkan sex og kórinn steig fram og þá varð fjör.

Í seinni hlutanum voru sungin tvö lög eftir mann sem hét Ted Gärdestad. Lögin hans textar eru mjög falleg en þeim fylgir oft nokkur tregi. Það var nefnilega svo að hann var allt of ungur þegar hann valdi að greiða götu sína inn í eilífðina á mjög afgerandi hátt. Það urðu því ekki fleiri lög sem hann gerði og Svíar segja að það hafi verið mikill skaði fyrir sænskan tónlistarríkidóm. Ég læt hér fylgja eitt lag sem hann syngur sjálfur en ég kann ekki nógu vel að setja svona slóðir inn á bloggið mitt. Ég vona samt að það virki. www.youtube.com/watch?v=_kSdTPigq60

--------------------------------------------------------

Meðan byggingarframkvæmdir stóðu sem hæst hér í fyrrahaust reisti ég geymslutjald einhverja helgina. Þegar Anders smiður kom eftir þessa helgi varð honum að orði að við værum búin að tjalda og svo ekki orð um það meir. Nokkru síðar vorum við Anders að taka saman bæði verkfæri og efni og settum þá undir þennan tjaldhimin. Þá varð Anders að orði eitthvað á þá leið að þetta væri hreinlega eitthvað það allra besta af mínum uppátækjum.

Svo varð það með þetta tjald eins og svo oft með það sem maður er búinn að venja sig við að við hættum að sjá það. Og þó? Jú, tjaldið var reyndar hið mesta lýti á þessari fallegu sveit og smám saman fórum við að skammast okkar fyrir það. Það var dálítið af smíðaefni í því og hann Arnold bóndi lánaði okkur smá horn í einu af hans stóru útihúsum og þar er nú þetta smíðaefni. Hlutverki tjaldsins var þar með lokið. Eftir messu í morgun átti því að rífa tjaldið og stuttu eftir messuna þegar ég var að renna niður ljúfum kaffisopa spurði Valdís kona mín hvort það væri ekki kominn tími til að byrja.

Þar með gengum við fylktu liði með hamra og kúbein móts við blessað tjaldið sem hafði ekkert hlutverk lengur og að einum og hálfum tíma liðnum var þessi bygging jöfnuð við jörðu. Að fjórum tímum liðnum var allt snurfusað, frágengið og hreint og kerran rétt einu sinni enn full af drasli sem fer á endurvinnslustöðina í næstu viku.

Það má kalla þetta enn einn áfangann hjá okkur á Sólvöllum. Nóttin sem leið var einum klukkutíma lengri en aðrar nætur þar sem klukkunni var breytt í nótt. Því gaf ég mér tíma til að liggja um stund undir feldinum og horfa upp í þakið og velta fyrir mér hversu margir vinnutímar væru eftir hér við byggingarvinnu þangað til venjuleg umönnunarvinna tekur við. Ég komst að því að það eru ekki svo rosalegsa margar vinnustundir og það gerir að verkum að við förum að leika okkur aðeins meira. Það eru nýir tímar í sjónmáli.

Hér eru myndirnar hennar Valdísar sem sýna talsvert af því sem skeður á Sólvöllum: http://www.flickr.com/photos/valdisoggudjon/

Svo má ég til með að sýna muninn sem varð á þegar tjaldið hvarf.


Fyrir tjald.


Eftir tjald. Allt annað að sjá þetta. Nú erum við sveitasómi. Kerran stendur þarna fullhlaðin eins og fyrr er sagt. Smá efnislager er lengst til hægri og vinstra megin við hann er girt með hænsnaneti kringum og yfir eikarplöntu sem er jafn gömul honum nafna mínum. Dádýrin átu blöðin af eikarplöntunni fyrsta sumarið og þá var ekki um annað að gera en byggja yfir. Svo mun þurfa að gera næstu árin. Eikarblöð eru sjálfsagt afar bragðgóð. Kannski þau séu góð í salat!


Sólvallahúsið er gott hús, hlýtt og vinalegt bæði utan og innan. Í Sólvallahúsinu líður fólki vel. Aðal vinnan, ekki eina vinnan, en aðal vinnan er að gera sökkul undir gamla hlutann. Það kannski lætur rosalega stórt en um mitt sumar þegar verið var að byggja hjá nágrönnunum datt Íslendingnum nokkuð í hug. Þá féll þungur steinn. Málið varð allt í einu svo einfalt. Ég hef borið þetta undir nokkra fagmenn og meðal annars hann dótturson minn í Noregi. Allir segja að þessi aðferð sé pottþétt. Ég kem auðvitað til með að blogga um það þegar þar að kemur.

Hissa

Ég var nú bara aldeilis stein hissa í morgun þegar ég reiknaði út að ég hefði sofið hátt í tíu tíma. Og það var enginn lélegur svefn það og varla að ég hafði mig upp þegar ég hreinlega varð að fara minna ferða fram á bað um hálf sex leytið. Svo man ég hreinlega ekki eftir því að ég kom til baka svo að fljótt hef ég sofnað. Já, fólki hlýtur að líða mikið betur yfir að geta lesið um þessar athafnir mínar.

Það var annríkis vika þessi vika sem er að renna inn í fortíðina. Ég vann tvö kvöld í Vornesi og það er bara töluvert að vinna tvö kvöld í sömu vikunni, samtals 33 tímar, og svefninn þessar tvær nætur verður of stuttur. Svo var dálítið annað á dagskrá í þessari viku. Ég var að undirbúa hellulagningu sem átti að fara fram í dag og sem fór fram í dag. Það var löngu ákveðið. Ég þurfti að sækja tvær kerrur af hellum inn í Marieberg í Örebro og eina kerru af sandi í Syðri malarnámuna, jafna betur og troða undir hellurnar og eitthvað fleira sem fylgdi þessu eins og öðrum smáverkefnum á Sólvöllum.

Þessi hellulagning er eitt af þessum frábæru verkefnum sem eru svo skemmtileg fyrir það að það er hægt að ganga nokkur skref til baka, virða fyrir sér og hugsa sem svo: Mikið er þetta nú fínt, og ennfremur; gaman að þetta er búið, og einnig; nú berast ekki óhreinindi inn á nýju parketgólfin. Svo var auðvitað myndavélin á lofti og Valdís tók myndir af mér og ég tók myndir af verkinu fullgerðu. Nú er hellulagningin við aðalinnganginn á Sólvöllum komin í myndabók sögunnar. Kannski virðist það barnalegt að að svona smá verkefni skapi þá lífsgleði sem ég tala um og að ég næstum hoppi af kæti. En ef slíkt smátt nægði til að skapa hamingjustundir fyrir sem flesta væri heimurinn öðru vísi en hann er. Nægjusemi er dyggð og ég þreytist aldrei á að predika þann boðskap.


Ellilífeyrisþegi að störfum. Birtu var farið að bregða þegar verkinu var lokið þannig að það verður að taka nýjar myndir af því á morgun. Miklar lýsingar þetta; "þegar verkinu var lokið".

Það er notalegt kvöld núna eftir góða sturtu og þessa líka góðu hvíld síðastliðna nótt. Ungu nágrannarnir litu inn seinni parttinn í dag og höfðu orð á því að það þær hefðu gengið hratt byggingrframkvæmdirnar hjá okkur. Það er mikið til í því. Það var eins og það væri svolítill tregi í þeim þegar þau töluðu um þetta. Þau eru líka að byggja og það voru þrír og fjórir smiðir hjá þeim seinni helminginn af sumrinu. Nú er viðbyggingin hjá þeim fokheld og þau ætla svo að innrétta sjálf.

Já, það var svolítið þreytuhljóð í þeim. Þau eru bæði í fullri vinnu, eiga tvær dætur, tveggja og fimm ára, og það eru ekki alltaf svefnsamar nætur og ekki svo oft sem þau fara úthvíld í vinnu og þá méð dæturnar á leikskólann fyrst. Við Valdís vorum að ryfja upp hvernig þetta var hjá okkur og þá var oft verið að vinna fram á kvöld. Mikið mundum við vera lélegir smábarnaforeldrar í dag. Við þurfum meira næði á eftirmiðdegi lífsins. Stína nágranni sagði líka þegar þau voru að leggja af stað heim að þau mundu geta sofið oftar út þegar þau kæmust á okkar aldur. Hún virtist hugga sig við það.

Það verður ekki hreinn hvíldardagur hjá okkur á morgun. Eftir langan morgunverð og sjónvarpsmessu frá Gautaborg ætlum við út til að hreinsa upp hingað og þangað. Það er ekki nóg að atast í framkvæmdum og skilja óreiðuna eftir út um allt. Við ætlum að gera svolítið fínt ef allt gengur eftir. Svo er kaffiborð með söng í kirkjunni þar sem við bjuggum áður og við ætlum að skreppa þangað og sýna okkur og sjá aðra.


Næturrölt

Það er næturrölt hér hjá okkur á Sólvöllum. Í mold sem ég flutti frá verðandi stétt og jafnaði í skógarjaðrinum eina 20 metra frá Sólvallahúsinu fann ég í gær stór og djúp spor. Ég varð þungt hugsi og velti fyrir mér hvaða afleiðingar þetta mundi hafa hér í skóginum í vetur. Þar sem ég stóð þarna og horfði á sporin sem ég jú þekkti, þá leit ég við og horfði á eik sem var kannski 120 sm há í fyrradag. Núna var hún bara 100 sm eða svo. Stórir elgir elska nýju eikarsprotana og auðvitað minni elgir líka. Það voru fimm toppar sem elgurinn hafði étið og fyrir vikið kemur hver þeirra til með að fá eina þrjá til fimm sprota að ári Það verða því margir toppsprotar á þessu tré og ef ég vil hlú að því þarf ég að klippa það til í byrjun apríl að ári eða árið þar á eftir.

Í morgun stoppaði ég hann Lars ellilífeyrisþega og veiðimann þegar hann fór hér hjá og sagði honum frá þessu. Já, sagði hann. Ég fór líka heim til hennar Lottu í morgun og ætlaði að tína epli í eina fötu af eplatré sem stendur við húsið. Það var ekki eitt einasta epli eftir á trénu. Skammt undan sá ég elgskú með kálf og í dag er bannað að veiða svo að það var ekkert annað að gera en að biðja þau að bíða til morguns þegar við veiðimenn förum af stað aftur. Þau voru hvort sem er búin með eplin aftrénu. Þannig sagði hann frá. Lotta er dóttir hans og á heima hér rétt hjá. Elgveiðitímabilið stendur nú sem hæst.

Ég er enginn veiðimaður og hef gaman af að sjá þessi dýr fara hjá. En það er bara svo mikið algengara að þau fari hjá á nóttunni. Elgir eru orðnir svo margir að það er farið að valda gríðarlegum skaða í skóginum. Ég verð að viðurkenna að ég vil gjarnan fá frið með eikurnar í svo sem þrjú ár og þá get ég farið að velja hverjar þeirra ég vil hafa. Svo mega elgirnir hafa hinar. Elgskúna mega þeir í veiðifélagi Nalaví ekki skljóta en þeir mega veiða kálfinn. Dádýr sjást ekki hér um þessar mundir þar sem úlfurinn hefur verið á flakki hér. Þegar veiðibráð úlfsins er horfin fer hann líka og svo smám saman koma hin dýrin til baka. Það hlýtur að vera stressandi líf að vera dádýr og héri.

Ég ætlaði hins vegar að forðast stress sjálfur og setja reikningana í greiðslu í tíma. Svo þegar ég tók fram reikningana og fór að raða þeim fyrir framan mig var eins og þeir ætluðu aldrei að taka enda. Ég held nú bara að ég hafi aldrei áður þurft að borga svo marga reikninga í einu og það gerði mig stressaðan. Svo lagði ég saman upphæðirnar á þessum voðans haug og þá varða lífið rólegra á ný. Þeir voru mjög margir en frekar lágir. Nýskupúkinn í mér róaðist við þetta. Svo settist ég við tölvuna og gekk frá greiðslunum. Sælir eru þeir sem eru búnir að borga reikningana sína því að þeir geta sofið vel í nótt.

Ég er búinn að hafa þrjá daga heima frá vinnu en það hafa svo sem ekki verið neinir letidagar. Ég fæ mína letidaga þegar minn tími kemur. Þá fæ ég mér hatt og staf og geng um eignina milli eika og tígullegra bjarka svo ég nú ekki tali um beykitrén og öll hin trén. Þess á milli get ég tekið hálfan daginn í að blogga um lífið og tilveruna og skreppa svolítið hingað og þangað með Valdísi. Svo þarf ég að taka hann nafna minn mér við hönd og skoða tilveruna. Við getum farið mitt inn í burknaþyrpingarnar og horft upp í háar trjákrónur og dásamað þessi undir lífsins. Það verður margt að tala um.

Myrkrið umlykur húsið og hvort elgskú með kálfinn sinn er nú komin á kreik í skóginum okkar veit ég ekki. Ég veit hins vegar að kyrrðin er alger og ef það væri léttskýjað mundi vera skyggni til að sjá stjörnuþokur út í óravíddinni fyrir ofan okkur. Sólstólar eru teknir inn á haustin en það væri ekki úr vegi að grípa til þeirra einnig á vetrarkvöldum. Að leggja sig í sólstól og horfa á stjörnuhimininn er nokkuð sem mér bara datt í hug rétt núna þegar ég skrifa þetta. Hver veit hvað ég á eftir að gera? Ég veit þó alla vega að ég ætla að fara að hitta vininn minn Óla L og undir ullarfeldinum ætla ég að búa mig undir nýja vinnutörn og vera hress miðað við aldur og fyrri störf.

Að gera hlutina oftar en einu sinni

Það mun hafa verið um miðjan hlýindaveturinn 2006-2007 sem ég gekk nokkur skref til baka og horfði á það sem ég hafði gert og var harla glaður eins og svo oft þegar einhverjum áfanga er lokið. Þeir eru búnir að vera margir og margir eru eftir vona ég því að það er hluti af tilganginum að halda áfram.


Það var þetta sem ég horfði á og var ánægður. Ég var ekki í rónni fyrr en þakrennurnar og niðurföllin voru komin á fyrri útbygginguna hjá okkur. Að láta renna af þaki niður á jörð og ata út veggina, nei, það er ógeðslegt. Ég velti aðeins fyrir mér hvar ég ætti að láta niðurfallsrörið vera og svo ákvað ég að það yrði þarna.

Í fyrra þegar hann Peter gröfumaður kom til að fylla að grunninum á seinni útbyggingunni gekk hann um leið frá rörum fyrir þakvatnið. Þannig framkvæma Svíarnir það. Peter spurði mig með hraði hvort ég vildi láta niðurfallsrörin vera eins og ég hefði gengið frá þeim áður. Já sagði ég svolítið hissa. Allt í lagi sagði Peter og gerði svo eins og ég hafði gert áður og stillti upp plaströrunum sem taka við niðurfallinu. Svo var ekki meira með það.

Nokkru síðar kom Göran blikksmiður til að ganga frá þakrennum og niðurfallsföllum. Guðjón, sagði hann rólega og klóraði sér undir hökunni. Ertu viss um að þú viljir hafa niðurfallsrörin svona. Ég spurði hann hvað hann meinti. Já, veistu það að við látum niðurfallsrörin koma á hvíta hornið. Það er nú sænskt að gera það þannig því að það þykir falla betur að þessum hússtíl. Við gengum bakvið húsið og litum á fráganginn minn. Nei, það var fljótgert hvað mig áhrærði að gera þetta eins og Svíi. Mikill bölvaður klaufi hafði ég verið að athuga ekki hvort þetta væri regla. Hér hafði ég skapað mér aukaverkefni.


Peter stillti rörunum eftir mínum óskum og Göran setti niðurfallsrörin eftir mínum óskum og svo passaði ekki neitt. Þú getur lagað þetta næsta sumar sagði Göran en við björgum því þannig að það geti gengið í vetur. Í gær var ég að undirbúa stétt og hugsaði allan daginn um niðurföllin. Það gat bara ekki gengið lengur en ég hálf kveið fyrir greftinum og kannski líka hversu vel mér gengi að færa stútana. Þegar ég var tilbúinn með stéttarundirbúninginn nokkru fyrir hádegi í dag sótti ég hakann. Svo lagðist ég á hnén við fyrsta hornið, með haka og skóflu, og byrjaði. En bíddu nú við, ég þurfti ekki að grafa nema 30 sm.

Þetta skotgekk þrátt fyrir að hér í Krekklingesókn er ekki hægt að grafa utan að fá upp grjót, grjót, grjót. Ég ákvað að grafa allar fjórar holurnar í snatri og biðja Valdísi svo að koma út og segja álit sitt á einhverju. Þá mundi hún hæla mér fyrir dugnaðinn. En þegar ég var á fjórðu og síðustu holunni kom hún að mér í hamaganginum og spurði hvort ég ætlaði ekki að koma í mat. Æ æ! En hún hældi mér samt. Svo borðuðum við og svo skutumst við til Örebro til að kaupa 15, 30 og 45 gráu beygjur til að fá þessi blessuð rör til að passa saman.


Sannleikurinn er sá að þetta lítur hreinlega langtum betur út. Nú gat ég gengið einu sinni enn aftur á bak og verið ánægður með verkið.


Göran vissi örugglega hvað hann söng. Hefði Peter farið aðeins hægar fram og bent mér á hvernig Svíar gera þetta hefði hann sparað mér að skríða á jörðinni ári seinna. Ef ég hefði skoðað nokkur hús í nágrenninu og séð að allir gerðu þetta svona hefði ég líka sparað mér að slíta hnjánum á smekkbuxunum mínum. Nú er bara eftir að tengja þrjú niðurföll, greftinum er alla vega lokið og fyrsta tilraunin er gerð.


Þarna kemur átta fermetra stétt einhvern næstu daga. Næsta sumar á svo að koma pallur á hluta af stéttinni og snoturt handrið framan við dyrnar. Það á að verða huggulegt við aðalinnganginn á Sólvöllum. Þetta var allt þræl hugsað fyrirfram og það verður ekki neinn tvíverknaður við aðalinnganginn. Stéttirnar að húsabaki koma ekki til framkvæmda fyrr en næsta sumar. Gömlu niðurfallsuppsetningunni er ég viss með að breyta þegar ekkert verður að gera á Sólvöllum (Hvenær verður nú það).

Þetta með að Valdís þyrfti að hæla mér er reyndar aulabrandari en samt sem áður hælir hún mér oft og ég reyni að endurgjalda það. Og góður var lambaframparturinn sem hún bauð upp á í kvöldmat.

Umhverfisvænt

Það var síðastliðinn vetur að það mesta var á öðrum endanum hér heima. 40 m2 af gólfi, eða allt gólfið í gamla húsinu lá úti í skafli, bráðabyrgðaeldhúsið var í suðurendanum og svefnherbergið í norðurendanum og ekkert gólf á milli. Í fáeina daga þurftum við að fara út og svo hálfhring kringum húsið til að komast í eldhúsið og jafn marga daga þurfti að fara út til að komast í baðherbergið. Þá var auðveldara en ekki að fá óhreinindi inn um allt og það var ekki vandalaust að forðast skítinn inn í svefnherbergið, í þvottahúsið og á tvö önnur gólf sem þá voru ný.


Bara svo að fólk viti hvað ég er að tala um. Þessi mynd var tekin í byrjun febrúar þegar þeir Johan smiður hinn ungi og Anders smiður voru að enda við að henda út gólfinu. Myndin er tekin úr svefnherbergisdyrunum og dyrnar sem þá voru inn í bráðabyrgðaeldhúsið eru lengst frá til hægri.

Eitt sinn þegar við vorum í verslun á þessum tíma rákumst við af tilviljun á ódýrar mottur sem okkur sýndist vænlegar til að setja hingað og þangað til að forðast óhreinindin. Ég held að við höfum keypt einar fjórar mottur, mottur sem ekki mátti þvo, og svo ætluðum við bara að henda þeim. En þannig var málið að þessar mottur litu bara skínandi vel út þangað til þær voru orðnar alveg rosalega drullugar. Þá sagði Valdís að það hlyti að vera allt í lagi að reyna að þvo þær við lágan hita, það væri þá engu að tapa. Ég var alveg sammála. Við ryksugðum eina mottuna og svo var hún sett í þvottvélina.

Eftir einhverja stund fannsat Valdísi að þvottavélin hagaði sér eitthvað einkennilega. Hún stoppaði vélina og leit inn í hana. Þá lá þar haugur af einhverri virkilega ógeðslegri leðju og í þessari leðju var þvílik ógnar flækja af nokkru sem líktist snæri. Valdís varð skelkuð og hóf nú að tæma þvottavélina og var það heil mikið verk. Síðan losuðum við balann með þessum óþverra út bak við húsið og Valdís þrælaði lengi við að þrífa vélina. Hún var dauð hrædd um að hún væri búin að eyðileggja hana og að frárennsli mundi stíflast. Þessar áhyggjur voru að vísu óþarfar, bæði  þvottavél og frárennsli náðu sér eftir ósköpin.

Bakvið húsið lá viðbjóðslegur haugur. Leðjan sem ég nefndi áðan fannst mér líkjast hundaskít sem hefði verið hrærður út í vatni og leðjan svo gerð þykkri með kartöflumjöli. En eitt var víst að þessi haugur var mikið eitraðri en hundaskíturinn. Ég gekk í kringum viðbjóðinn og hugsaði sem svo að við vissum ekki alltaf hvað við værum að kaupa, og þó að við hefðum reynt að lesa á miðann sem hafði verið aftan á mottunni meðan hún var og hét, þá hefðum við ekki haft minnsta vit á hvað þær upplýsingar þýddu. Það er ekki auðlifað í þessum heimi og það finnst mikið af eiturefnum. Lífið er hættulegt. Ég varð hugsi eftir þetta því að ég vil ekki stuðla að því að eitra þennan heim nema sem allra, allra minnst


Í ágúst bloggaði ég um ullarferð til Stokkhólms og það blogg má finna hér. http://gudjon.blogg.se/2011/august/ullin.html  Í þessari ferð voru kynntar fyrir okkur umhverfisvænar vörur og vörur úr hreinni ull hljóta að vera eins umhverfisvænar og frekast má vera. Við fjárfestum fyrir mikinn pening í þessari ferð og gerðum það vegna þess að við vorum alveg 100 % viss um að varan sem við keyptum væri mjög hrein afurð. Sagan um mottuna hafði mikil áhrif á að þessi kaup voru gerð. Ég ætla ekki að endurtaka það sem finnst í blogginu um þessa ferð í ágúst, en nú ég ætla að kynna þessa vöru svolítið ef einhver skyldi hafa áhuga.


Hér er mynd af einu setti af ullarrúmfötum. Það er yfirdýna úr ull sem er fest með teygjuböndum á rúmið. Þessari yfirdýnu má líkja við tvö teppi sem eru fest saman með röndóttu köntunum. Svo er það koddaver úr alveg sama efni, fyllt með efni sem á að vera jafn umhverfisvænt og ullin. Að lokum er það sængin sem er eiginlega alveg eins útbúin og yfirdýnan utan að hún er 140 sm breið. Þetta lítur býsna mjúklega út eða hvað? Merinoullin er mjúk, það er óhætt að segja. Við notum ekki nein sængurver eða lök en við notum koddaver ef okkur skyldi nú dreyma að við værum að borða veislumat, þá kannski mundi renna munnvatn í koddana og við tímum því ekki.


Hér er svo aðeins meiri nærmynd. Mér finnst alla vega að mjúkleikinn sjáist all vel á myndinni, en kannski er það vegna þess að ég þekki þetta orðið. Ég get lofað að það var spennandi þegar við lögðum okkur í rúmið fyrsta kvöldið. Ég er 92 kíló, en þegar ég lagðist í fyrsta skipti í þennan mjúka feld fannst mér sem ég vegði ekki nema kannski helminginn af því. Það var dásamleg reynsla.

Hver er kosturinn? Jú, það er jafn hiti alla nóttina. Við drögum sængina upp að eyrum, upp að höku eða hnakka þegar við leggjumst útaf og svo er hún þar alla nóttina og hitinn er mátulegur og jafn á öllum líkamanum til næsta morguns. Við sofum í lengri áföngum og jafnvel óslitið alla nóttina. Þó að rúmfötin séu mátulega hlý lofta þau líka vel og skila svita í gegnum sig. Þessi rúmföt eru svo notaleg að það er sannkölluð tilhlökkun að leggja sig á kvöldin, tilhlökkun í viðbót við það að vilja fara að hvíla sig. Okkur verður hlýtt á fótunum á fáeinum mínútum eftir að við leggjum okkur. Þann mánuð sem við erum búin að hafa þessi rúmföt hef ég aldrei orðið syfjaður við akstur úr og í vinnu, en syfjan er mjög lengi búinn að vera ljóður á þessum löngu ferðum mínum áður. Þó tel ég að ég hafi sofið mjög vel á nóttunni áður líka. Seljandinn vill meina að rykmaurar þrífist illa eða ekki í ullarrúmfötum, en vísindin draga það mjög í efa.

Ég hringdi í sölumanninn daginn eftir að við pöntuðum rúmfötin og sagði honum að hann hefði trúlega gefið vissar villandi upplýsingar. Í lok þess samtals sagði hann einfaldlega að hvað sem öllu liði mundum við verða mjög ánægð með kaupin þegar við yrðum farin að nota vöruna. Þar hafði hann rétt. Rúmfötin skulu helst ekki sett í þvottavél. Best er að viðra þau vikulega og við viðrun hreinsar ullin sig. Svo er til nokkuð sem heitir ullarsjampó og það er gott að úða því nokkrum sinnum á ári á rúmftin og ryksuga svo. Það má líka einfaldlega ryksuga án þess að hengja út til viðrunar. Þetta lætur kannski sem lygasaga en það er bara svona sem það er. Ég veit ekki hvort þessi vara er til sölu á Íslandi.

Íslenska ullin skiptist í tog og þel. Ég ímynda mér að þelið sé jafn mjúk ull og sú sem er í þessum rúmfötum. Góða nótt.

Haust

Það eru miklir haustlitir um þessar mundir og mikið er til af laufi til að skarta þessum litum. Eikurnar eru mikið grænar ennþá og beykin eru ekkert farin að láta á sjá. Fleiri tré eru í þessum hópi sem ennþá afneita haustinu og þökk sé þeim. Það mýkir komu þessa árstíma og þó að litir séu fagrir finn ég nú sem endranær fyrir trega yfir að eitt sumar ennþá er að baki.


Þarna á bakvið húsið nær skóginum datt þessari birkiplöntu í hug að festa rætur sínar. Ekki á hún sér mikla framtíð þar sem á þennan stað á að koma gangstétt næsta vor eða sumar. Eins og sjá má heldur hún ennþá græna litnum. Kannski veit hún að mér þykir vænt um litinn hennar og reynir þar með að biðja sér griða þegar að stéttarlagningunni kemur. Þegar ég skrifa þetta dettur mér í hug að ég ætti að flytja þessa litlu birkiplöntu á einhvern góðan stað út í skógi að vori og þakka henni þar með fyrir samveruna.

Í dag meðan birkiplantan streyttist móti haustinu skiptum við Valdís um hjól undir bílnum og nú er hann tilbúinn til vetraraksturs. Skrýtið hvað það er leiðinlegt að koma sér af stað með þessi hjólaskipti en svo þegar verkið er hafið tekur það enga stund. Grannarnir hafa slár út í gamalli hlöðu í seilingarhæð þar sem geyma má eina fjóra ganga af dekkum. Fremri sláin er merkt lengst til vinstri. Þar setndur nafnið "Guðjón". Vinalegir grannar þetta.


Þessi mynd er tekin 2. október. Grasið er álíka grænt ennþá og á leiðinni heim frá Örebro í dag talaði Valdís um að það væri of blautt til að slá. Þar með er vitað hvað hún ætlar sér að gera þegar þornar. Ég tel mig þokkalegt snyrtimenni en sjáið stólinn sem er á hvolfi til hægri á myndinni. Ég er að taka eftir honum núna þegar ég skrifa þetta. Ég þarf líklega að fara að endurraða í mér snyrtigenunum.


Það hefur ekki verið smíðað á Sólvöllum um nokkurra vikna skeið og loks í gær komum við því í verk að fá heim nokkra kassa af ýmsu dóti sem var í geymslu í Örebro. Þar á meðal voru könnurnar hennar Valdísar sem nú eru komnar upp á skáp í nýja herberginu/stofunni. Það er einstaka gripur sem hún er búin að koma fyrir þarna. Skáphurðirnar eru fjórar og ein er spegill. Það kemur reyndar betur út í reynd en það sýnist gera á myndinni. Ef við sitjum beint á móti speglinum blasir hús nágrannanna vel við og allt sem þau aðhafast okkar megin utandyra. Það var ekki meiningin en það bara varð svona þegar til kom. Þegar það koma góðar gardínur fyrir gluggann á móti verður þetta minna áberandi enda erum við ekki í neinni þörf fyrir að fylgjast með hverju fótmáli þeirra.


Svo verð ég nú að vera með á einni mynd. Það var líka sófi með í flutningnum sem við fengum heim í gær. Þegar til átti að taka fundum við bara alls ekki pískinn en það var til áhald sem gat komið í hans stað. Það er sænsk hrífa. Þessi sænska hrífa kom að góðu gagni við að slá rykið úr sófanum áður en við tókum hann inn. Ég barði han í krók og kring þangað hausinn á sænsku hrífunni brotnaði.

Ert þú ellilífeyrisþegi?

Upp úr hálf tíu í gærmorgun lagði ég af stað í vinnu til að vera að vera að heiman í 28 tíma. Þegar ég kom í Vornes byrjaði ég á að hitta hana Annelie hjúkrunarfræðing. Hún gaf mér skýrslu um þá sem höfðu verið skrifaðir inn síðan ég var þar tæpum þremur dögum áður. Þessi skýrsla var mikilvæg fyrir mig þar sem fyrir mér lá að vera að mestu einn með þessu fólki meiri hluta helgarinnar. Hún dvaldi lengst við Jón og lýsti honum fyrir mér. Það er heppni að þú vinnur þessa helgi sagði hún þar sem ég er alveg hand viss um að þið passið vel hvor fyrir annan. Síðan gekk ég inn á reykherbergið á sjúkradeildinni, herbergi sem ég vil þó helst ekki koma inn á.

Þar heilsaði ég bæði kunnugum og ókunnugum mönnum og konum. Maður einn þar inni hafði rólegt og góðlegt yfirbragð og það var ekki um að villast að þar var Jón. Ég gekk til hans, rétti honum hendina og sagði; komdu sæll Jón. Hann stóð upp og heilsaði og spurði: Ert þú ellilífeyrisþegi? Hvernig dettur þér það í hug? Spurði ég á móti. Lít ég út fyrir að vera svo gamall? Hann kímdi og sagði að ég liti ljómandi vel út sem ellilífeyrisþegi. Hann er tveimur árum yngri. Hann langaði að vita hvað ég gerði þarna og nú veit hann það.

Sjúklingarnir sjá um morgunverð á laugardögum og sunnudögum. Ég lít alltaf nákvæmlega yfir hvernig þau ganga frá eftir morgunverðinn og sannleikurinn er sá að þau ganga afar vel frá eftir sig. Svo gef ég þeim einkunn. Eftir þessa athugun mína í morgun byrjaði morgunfundurinn þar sem ég þakkaði fyrir morgunverðinn og gaf þeim einkunnina. Ég byrjaði þó á því að segja að það væru aðeins tvö tækifæri þar sem ég leyfði mér að vera alvarlega vondur maður í vinnunni. Það væri á laugardags- og sunnudagsmorgnum þegar ég með refsaugum mínum reyndi að finna ágalla við fráganginn eftir morgunverðinn. Ég vissi að þeim finnst ég ekki vera vondur maður þó að þau séu stundum hrædd við mig. Þess vegna brustu þau í snöggan hlátur þegar ég sagði þetta. Þau fengu "mikið vel viðurkennt" fyrir fráganginn. Síðan byrjaði alvarlegi hluti þessa morgunfundar.

Hvað ætli ég sé svo að segja með þessu? Það er á mörkum þess sem ég má segja um vinnuna mína. Það sem ég er að segja er að ég hef góða vinnu. Annars mundi ég ekki nenna þessu og sérstaklega ekki að aka svo langar leiðir sem ég þarf að gera. Eins og Jón taldi með réttu, þá er ég nú sannnarlega ellilífeyrisþegi. Konan mín er líka svo duglega að taka þátt í þessu með því að vera oft ein heima. En við bíðum betri tíma á nýju ári þegar ég kem til með að vinna mun mikið minna eða hreinlega hætta. Byggingarvinnan er líka komin á rólegra stig og er meira orðin tómstundasmíði.

Mér lá dálítið á þegar vinnunni lauk seint í hádeginu og hún Susanna ráðgjafi leysti mig af og verður í vinnunni þangað til um hádegi á morgun. Við Valdís ætluðum að vera í Fjugesta klukkan hálf þrjú. Ég skilaði henni að safnaðarheiminu í Fjugesta en sjálfur fór ég til að kaupa dísilolíu á bílinn og til að taka út vasapeninga í hraðbanka. Síðan ók ég rólega um Fjugesta svolitla stund til að sjá mig um og svo hélt ég að safnaðarheimilinu þar sem ég gekk inn.

Þegar ég leit inn í samkomusalinn sá ég mikið af rosknu fólki sem gæddi sér á kræsingum af kökuhlaðborði. Þetta kom mér á óvart enda er ekki svo algengt að Svíar bjóði upp á kökuhlaðborð. Ég gekk inn að borðinu og virti fyrir mér kræsingarnar. Þar sem ég er nú einn af Kálfafellsbræðrum leist mér hreint alveg rosalega vel á brúnu súkkulaðiterturnar og bláberjapæið sem var við hliðina á könnunni með vanillusósunni. Ég stakk hundraðkalli í tágakörfuna á borðinu eftir að ég hafði talaði við konu sem var þarna til þjóðnustu reiðubúinn. Fólk var þarna að safna fyrir fátækt fólk í Afríku. Världens barn.

Meðan ég var að borða af fyrri kökudiskinum var kynntur maður úr sveitinni utan við Fjugesta, en hann hafði unnið við hjálparstörf niður í fátækustu Afríku. Það kom fram að þessi maður var aldraður augnlæknir og hann sýndi fjöldan allan af skyggnum frá starfinu þar. Hann sýndi bæði börn og fullorðna sem höfðu skaðast á augum og mörg andlitin litu vægast sagt alvarlega út. Hann sýndi augnaðgerðir út í guðsgrænni náttúrunni, jafnvel á matarborði eins og Esra læknir notaði á Kálfafelli þegar hann fjarlægði af mér litlafingurinn fyrir meira en sextíu árum. Það sem þessi maður sýndi var svo rosalega alvarlegt að ég var kominn á fremsta hlunn með að byrja nað gráta. Ég man ekki hvort það var fimmta eða sjötta hver kona sem fæðir barn sem deyr af barnsförum þarna. Það var að vísu ekki litið svo alverlegum augum vegna þess að það voru konur sem dóu. Það fyllti mælinn endanlega.

Og þarna sat ég og borðaði súkkulaðitertur. Ég fann að ég var byrjaður að svitna af sykrinum, en áður en læknirinn kom að þessu síðasta og svo hrikalega alvarlega, var ég búinn að sækja á annan kökudisk. Þá var ég líka farinn að velta því fyrir mér hvar Valdís eiginlega væri stödd á þessari stundu. Um það leyti sem ég var farinn að finna sykur- og súkkulaðibragðið með allri húðinni lauk þessi góðlátlegi læknir máli sínu, læknir sem hefur mótast af að vinna við hjálparstörf niður í fátækustu Afríku. Þá var það kynnt að "Hafa það gott kórinn" í Fjugesta ætlaði að syngja nokkur lög. Strax þar á eftir lét Valdís veskið sitt detta í kjöltu mína, en hún hafði þekkt mig á baksvipnum konan sú þegar hún kom ásamt kórnum sínum inn í salinn að baki okkur öllum.

Kórinn stillti sér upp og þarna í miðjum kórnum stóð kona ein brosandi og ánægð. Það var fiskimannsdóttirin frá Hrísey sem var svo kvíðin þegar við lögðum af stað frá Sólvöllum til Fjugesta einum klukkutíma fyrr. Ég sá vel að kvíðinn var runninn út í sandinn og eftir var kona sem var laus við allar hömlur og tók lifandi þátt í söngnum. Kórstjórinn og stofnandi kórsins er góðmenni sem býr eina 300 metra hér norðan við okkur, en við þekkjum hann ekkert sem nágranna. Han fer bara hér framhjá öðru hvoru á bláa Renó sendiferðabílnum sínum og hann á stóran hund, svo stóran hund á hann, að hundurinn skellti honum um koll inn í skógi fyrir einhverjum vikum og þess vegna gengur hann við tvær hækjur. En honum þykir vænt um hundinn sinn og hefur því löngu fyrirgefið honum þennan dálítið grófa leik.

Ég verð að nefna mann einn sem stóð næstum lengst fram til hægri í kórnum. Hann er trúlega ellilífeyrisþegi, einir tveir metrar á hæð, breiður yfir herðarnar, vöðvamikill og dálitið þykkur undir belti. Mjög sterkan bassa hefur þessi maður og þegar hann beitti bassanum getur maður svo sannarlega sagt að salurinn fylltist af rödd hans. Síðasta lagði sem þau sungu var "Rússnesk vísa", sett saman af fjórum eða fimm vísum. "Hej!" var sungið kröftuglega undir lok hverrar vísu. Þá varð þessi stóri maður svo svifléttur þar sem hann dansaði og það var sem einungis tærnar snertu gólfið fislétt. Söngur getur greinilega gert kraftaverk. Ég sá það bæði á konunni minni og bassamanninum mikla. Þar sem þessi stund í safnaðarheimilinu í Fjugesta spilaði á tilfinningar mínar kom ég aftur við hjá tágakörfunni á tertuborðinu. Ég setti í hana peninga sem eiga að geta gefið fleiri en einni móður sem fæðir barn niður í fátækustu Afríku hreint vatn til að þvo sér upp úr. Þar með eiga þær meiri möguleika á að halda lífi.

Sjónvarpsmessan

Sjónvarpsmessan í morgun var fín, reglulega góð. Það var eins og venjulega þegar sjónvarpsmessan hefur verið góð að allar mögulegar hugsanir fóru af stað og ég skal viðurkenna að helst hefði ég viljað setjast við tölvuna strax eftir messuna og byrja bloggið sem ég er nú að byrja á hátt í sex tímum seinna. Ég ætla að gera tilraun til að komast inn í andagiftina sem ég fann mig í um það leyti sem messunni var að ljúka.

Snemma í messunni las unglingur ritningarorð, ljóshærð stúlka með uppsett hár og á þessum ljósbláu, þröngu gallabuxum sem táningar klæðast. Og þó að hún væri ung og væri á gallabuxum fór henni vel að gera þetta. Hún minnti mig á hana Guðdísi dótturdóttur mína, en ég hafði verið að skoða myndir af henni skömmu áður en ég fór að horfa á messuna. Stuttu síðar í messunni var sunginn sálmurinn Ó stóri Guð, sálmurinn sem hefur verið þýddur á fleiri tungumál en nokkur annar sálmur svo þekkt sé. En svo skrýtið sem það nú er hefur okkur Valdísi ekki tekist að sjá að þessi sálmur hafi verið þýddur á íslensku eða að hann sé sunginn þar. Hafi ég rangt fyrir mér vil ég gjarnan vita það.

Ég hef nefnt þennan sálm eða lofsöng áður í blogginu mínu, en höfundur textans er prestur að nafni Carl Moberg og það var mikið þrumuveður sem hann upplifði á eyjunni Oknö austan við suður Svíþjóð sem gaf honum innblásturinn að þessum fallega texta árið 1885. Lagið er sænskt þjóðlag. Hér má heyra sálminn http://www.youtube.com/watch?v=gPwIiR7nUx0&feature=related

Nítján ára þeldökk kona steig fram og sagði sögu sína. Faðir hennar kom til hennar fyrir þremur árum síðan í landi sem hún ekki nefndi. Hann spurði hana hvort hún mundi vilja flytja með sér til lands sem héti Svíþjóð. Henni var brugðið við þessa spurningu og spurningin setti hana í mikinn vanda. Stærsti vandinn var að hún kunni ekki eitt einasta orði í tungumáli þessa lands. Hún sneri sér til prestsins síns og spurði hann hvað hún ætti að gera í þessu máli. Hann ráðlagði henni að spyrja Guð og hún spurði Guð en hún sagði ekki hvernig samskipti hennar við hann um þetta mál fóru fram. En hún fékk svar og svarið var að hún skyldi fara. Þetta er besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífi mínu sagði hún að lokum og það var ekki annað að heyra á máli hennar en að sænskan væri hennar móðurmál.

Þegar þarna var komið hugsaði ég til sjálfs mín og langra andvökunótta á Laugarnesvegi 47 áður en ég fór fyrst til Svíþjóðar. Sálarástand Valdísar var svipað en við ræddum það ekki mikið þá. Ég ræddi þetta alls ekki og gekk með áhyggjur mínar í hljóði og vissi vel að ef við nýttum okkur ekki það tilboð sem við höfðum fengið, fengjum við slíkt tilboð aldrei framar. Við vorum of fullorðin til að tilboð um vinnu í öðru landi bærist oftar en einu sinni. Við skruppum í heimsókn að Kálfafelli rúmum mánuði áður en ég lagði af stað út. Í þeirri ferð komum við við hjá henni Steinunni föðursystur minni á heimili aldraða í Vík. Hún spurði hvort ég kviði ekki fyrir. Nei, svaraði ég, ég kveið ekki fyrir. Ég held að hún hafi verið ein um að spyrja mig um þetta og auðvitað hefði heldur ekki verið rétt af mér að bera áhyggjur mínar upp við gamla konuna sem þá var orðin ekkja. Ég held varla að hún hafi trúað mér.

Undir messunni varð mér hugsað til Fríðu systur minnar þegar hún fór á lýðháskóla í Svíþjóð fyrir meira en fjörutíu árum síðan. Og það var ekki nóg fyrir hana að koma til Arlanda flugvallar í Svíþjóð. Það var engin einföld leið að taka sig þaðan til lýðháskólans langt vestur í Värmland. Ef ég man rétt fór Jón Sveinsson út með haustskipinu og mömmu hans barst bréf með vorskipinu þar sem hann segir frá því að hann hafi komist alla leið til Kaupmannahafnar. Það má ætla að margir í þessum sporum hafi upplifað sínar andvökunætur.

Í predikun sinni talaði presturinn um það að hann hafi á ungum árum vantað eitthvað æðra og sterkara til að sækja kraft til. Og hann gaf gott dæmi um að þessi kraftur finnst um allt og nefndi nokkrar stórar og stæltar furur sem stóðu við heimili hans á þessum árum. Á erfiðum stundum gekk hann út og horfði á þessi stæltu tré sem lifðu af vinda og kalda vetur og stóðu af sér raunirnar. Svo tóku þau á móti sól og sumri þegar þar að kom og rauðbrúnn börkurinn endurkastaði sólargeislunum og háar krónurnar vörpuðu skuggum á landið í kring. Fyrir honum var þetta eitthvað svo stórt að raunir hans urðu litlar. Það er hægt að finna andlegheitin á margan hátt og ég mun nota mér þessi orði prestsins í fyrirlestur á þriðjudaginn kemur.

Ég horfði ekki á neinar furur á erfiðum stundum en ég hugsaði oft með mér að í kvöld setst sólin að vanda en hún muni líka koma upp á morgun og þá verði ég enn á lífi. Það var styrkur í því. Árin í Svíþjóð áttu ekki að verða svo mörg en þau hafa orðið fleiri en okkur óraði fyrir og þær eru margar stæltu fururnar sem hafa orðið á vegi okkar og hafa með mætti sínum fyllt okkur af aðdáun þegar vindar blása og háar krónurnar sveiflast í viltum dansi. Við sjáum ekki eftir ákvörðun okkar frekar en þeldökka stúlkan í messunni þó að ákvörðuninni hafi fylgt margar hliðar.

Andagiftin sem ég fann fyrir eftir messuna kom ekki til baka þegar ég leitaði hennar undir kvöldið. Það er þannig með andagiftina að hún kemur að eigin köllun en hún kemur ekki eftir annarra kröfum. Hún er auðmjúkari en svo.

Syndaselur

Í meira en ár hefur eiginlega allur kraftur verið settur í að gera einfalda sumarbústaðinn sem við keyptum 2003 að einbýlishúsi. Ekki er þeirri vinnu lokið, en það er ekkert lengur sem hreinlega "verður" að gera í dag eða alla vega sem allra, allra fyrst. Húsið er orðið mjög vel íbúðahæft og mjög gott hús að auki. Allan tímann sem þetta hefur staðið yfir hef ég líka verið í all mikilli vinnu á mínum gamla vinnustað, þeim vinnustað sem ég ætlaði að hætta að vinna á í mars 2007.

Það er svo notalegt að kúra aðeins lengur í rúminu á morgnana þegar ég get gert það með góðri samvisku og geta áhyggjulaust talið plöturnar í loftinu eða horft einu sinni enn og einu sinni enn á hvernig ég munstraði þær fyrir þremur og hálfu ári. Þá er ég að tala um það sem fyrst var byggt út og átti að verða eina og síðasta stækkunin á Sólvallahúsinu. Það var einmitt þetta sem ég gerði í morgun, alveg áhyggjulaust, og um leið hvíldi ég mig og bjó mig þannig undir að vera í mikilli vinnu í næstu viku.

Ég ætlaði svo sem ekki að liggja í leti allan daginn, gleymdu því bara. Svo fórum við seint á fætur og tókum langan, langan tíma í morgunverðinn. Það var ekki fyrr en um ellefu leytið sem ég fór út, skipti um annan kjálkann á betri hjólbörunum, tók mér haka í hönd og skóflu og byrjaði að grafa burtu jarðveg framan við aðalinnganginn og hreinsa þannig ofan af þykku malarlagi sem er skammt undir grassverðinum á allri lóðinni í kringum húsið. Ég var með þessu að undirbúa að helluleggja stétt framan við forstofuna. Svo borðaði ég léttan hádegisverð.

Það fór auðvitað eins og genjulega þegar maður tekur sér haka og skóflu í hönd hér í Krekklingesókn að grjótið sló á móti hakanum í fjórða hvert skipti sem ég barði jörðina með honum. Ég valdi að fjarlægja þessa miðlungs stóru steina til að þeir mundu ekki seinna fara að stinga kollinum upp í hellurnar og lyfta þeim. Þegar ég var kominn bara lítillega af stað með þetta verk fann ég að ég hafði tekið því nokkuð rólega allra síðustu vikurnar. Mér fannst þetta erfitt og ég varð móður. Oj, hvað ég var linur af mér. Ég studdi mig fram á hakann og reyndi að finna afsökun fyrir linkunni og svo hélt ég áfram svolitla stund og svo stoppaði ég aftur.

Ég setti mér markmið til að ljúka við áður en Annelie og Kjell kæmu, en þau eru miðaldra hjón sem við hittum æði oft. Svo komu þau um hálf tvö leytið og þá hafði ég ástæðu til að skipta um föt og fá mér af nýju jólakökunni sem Valdís bauð upp á. Kjell hafði ekki séð húsið all lengi þannig að ég var eins og sperrtur hani við að sýna honum og útskýra allt mögulegt. Kannski átti ég von á hrósi í staðinn og það vantaði ekki á það þegar Kjell barði allt þetta nýja augum.

Sannleikurinn er sá að þegar ég byrjaði aftur eftir þessa heimsókn, þá hafði mér aukist Ásmegin. Nú gekk mér vel að grafa og ég þeytti hakanum hátt á loft til að koma honum djúpt niður með grjótinu sem ég hreinsaði burtu og ég varð ekki lengur móður. Í morgun vissi ég ekki hvort ég mundi ljúka þessum áfanga í dag, en honum er einfaldlega lokið. Ég náði líka að taka inn alla málningu sem ekki má frjósa og koma henni í skáp í þvottahúsinu. Það er nefnilega spáð frosti í nótt.

Eftir kvöldmatinn vappaði ég fram og til baka hér innan dyra og stoppaði oft við eldhúsbekkinn. Þar geymdi Valdís í dunk næstum því heila jólakökuna sem við fengum okkur af í dag. Jólakakan dró og hún dró og að lokum hellti ég kaffi í bolla og gerði það þannig að það heyrðist vel hvað ég var að gera. Svo þegar ég fékk mér af jólakökunni fór ég hljóðlega og lét sem ég væri bara að fá mér svona smá sopa af kaffinu þarna við eldhúsbekkinn. Ég áttaði mig fljótt á því að þetta líktist feluleiknum fyrir meira en 20 árum þegar það voru mikið alvarlegri hlutir en jólakaka sem ég var að laumast með.

Ég færði mig að matarborðinu og borðaði þar jólakökuna næstum því við hliðina á Valdísi þar sem hún horfði á sjónvarp. Ég var með hálf vonda samvisku og svo stóð Valdís upp vegna þess að rjómaísinn í frystinum dró hana til sín. Svo syndguðum við bæði og ég olli syndinni eins og höggormurinn í Eden forðum. Ég var það snemma á ferðinni með jólakökuna að ég mun væntanlega ekki fá brjóstsviða þegar ég legg mig í kvöld í kærkomið rúmið til að hvíla mig fyrir athafnir morgundagsins. Ég fer þó ekki í vinnu fyrr en á mánudag.
RSS 2.0