Haust

Það eru miklir haustlitir um þessar mundir og mikið er til af laufi til að skarta þessum litum. Eikurnar eru mikið grænar ennþá og beykin eru ekkert farin að láta á sjá. Fleiri tré eru í þessum hópi sem ennþá afneita haustinu og þökk sé þeim. Það mýkir komu þessa árstíma og þó að litir séu fagrir finn ég nú sem endranær fyrir trega yfir að eitt sumar ennþá er að baki.


Þarna á bakvið húsið nær skóginum datt þessari birkiplöntu í hug að festa rætur sínar. Ekki á hún sér mikla framtíð þar sem á þennan stað á að koma gangstétt næsta vor eða sumar. Eins og sjá má heldur hún ennþá græna litnum. Kannski veit hún að mér þykir vænt um litinn hennar og reynir þar með að biðja sér griða þegar að stéttarlagningunni kemur. Þegar ég skrifa þetta dettur mér í hug að ég ætti að flytja þessa litlu birkiplöntu á einhvern góðan stað út í skógi að vori og þakka henni þar með fyrir samveruna.

Í dag meðan birkiplantan streyttist móti haustinu skiptum við Valdís um hjól undir bílnum og nú er hann tilbúinn til vetraraksturs. Skrýtið hvað það er leiðinlegt að koma sér af stað með þessi hjólaskipti en svo þegar verkið er hafið tekur það enga stund. Grannarnir hafa slár út í gamalli hlöðu í seilingarhæð þar sem geyma má eina fjóra ganga af dekkum. Fremri sláin er merkt lengst til vinstri. Þar setndur nafnið "Guðjón". Vinalegir grannar þetta.


Þessi mynd er tekin 2. október. Grasið er álíka grænt ennþá og á leiðinni heim frá Örebro í dag talaði Valdís um að það væri of blautt til að slá. Þar með er vitað hvað hún ætlar sér að gera þegar þornar. Ég tel mig þokkalegt snyrtimenni en sjáið stólinn sem er á hvolfi til hægri á myndinni. Ég er að taka eftir honum núna þegar ég skrifa þetta. Ég þarf líklega að fara að endurraða í mér snyrtigenunum.


Það hefur ekki verið smíðað á Sólvöllum um nokkurra vikna skeið og loks í gær komum við því í verk að fá heim nokkra kassa af ýmsu dóti sem var í geymslu í Örebro. Þar á meðal voru könnurnar hennar Valdísar sem nú eru komnar upp á skáp í nýja herberginu/stofunni. Það er einstaka gripur sem hún er búin að koma fyrir þarna. Skáphurðirnar eru fjórar og ein er spegill. Það kemur reyndar betur út í reynd en það sýnist gera á myndinni. Ef við sitjum beint á móti speglinum blasir hús nágrannanna vel við og allt sem þau aðhafast okkar megin utandyra. Það var ekki meiningin en það bara varð svona þegar til kom. Þegar það koma góðar gardínur fyrir gluggann á móti verður þetta minna áberandi enda erum við ekki í neinni þörf fyrir að fylgjast með hverju fótmáli þeirra.


Svo verð ég nú að vera með á einni mynd. Það var líka sófi með í flutningnum sem við fengum heim í gær. Þegar til átti að taka fundum við bara alls ekki pískinn en það var til áhald sem gat komið í hans stað. Það er sænsk hrífa. Þessi sænska hrífa kom að góðu gagni við að slá rykið úr sófanum áður en við tókum hann inn. Ég barði han í krók og kring þangað hausinn á sænsku hrífunni brotnaði.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0