Hluti af dagsverki mínu laugardaginn 15. júní.

Það eru líklega níu ár síðan að ég fór að taka eftir því að það var lítil, falleg brkiplanta að byrja að teygja sig upp úr bláberjalýngi beint utan við svefnherbergisgluggann minn. Þar sat ég mjög oft á árunum þar á eftir og bloggaði eins og mér væru engin grið gefin og birkiplantan óx á sama hátt, alveg eins og henni væru engin grið gefin. Ég dáðist að henni fyrir það hversu falleg hún var. Það var bara einn hængur á og það var að hún óx utan í all stóra eik og ég skildi snemma að sá dagur kæmi að ég mundi verða að velja á milli þeirra. Ég gerði það í dag og það var eins og þegar ég skaut vini mína í nautabúinu í Hrísey að mér var þungt fyrir brjósti þangað til því var lokið. Mér var líka þungt fyrir brjósti frá því að ég var búinn að ákveða mig og þangað björkin lá í valnum.
 
 
 
Þarna er hún til hægri á myndinni og hinu megin við hana er eik. Ég giskaði á að björkin væri níu metra há og svo var hún. Þar með giska ég á að eikin bakvið hana sé 14 metra há og eikin vinstra megin sé 17 metra há. myndin virðist segja annað en það er annað mál.
 
 
 
 
Þarna björkin horfin á braut og allt sem því fylgdi og nú blasir öll eikin við sjónum og ekki bara það, hún er komin nær sólinni og það eru eikur mjög fíknar í. Þetta er hluti af útsýninu þegar setið er á veröndinni austan við Sólvallahúsið.
 
 
 
 
Á vorvetrinum á næsta ári eins og sagt er hér þarf ég að snyrta neðstu greinarnar vegna þess að hluti þeirra hangir næstum niður í jörð. Eftir að hafa fengið þá snyrtingu og að komast betur í sólarljósið verður hún mjög tignarleg þessi eik eins og hún hefur reyndar verið í mörg ár. Hún verður glæsileg eins og sjálf íslenska fjallkonan á sólskinsdegi þann 17. júní.
 
 
 
 
Svona eins og til minningar um fallna birkitréð þá birti ég þessa mynd af stubbnum. Árshringirnir eru níu til ellefu millimetrar og svo þykka árshringi hef ég aldrei séð áður. Það kom mér ekki á óvart miðað við vaxtarhraðann sem ég hafði orðið vitni að. Ég tel mig vita skýringu á því. Konan sem áður notði Sólvelli sem sumarbústað í 35 ár losaði þarna vatnið frá uppvaskinu og líklega koppinn sinn líka. Því geri ég ráð fyrir að það hafi verið mikið af næringarefnum djúpt niður í jarðveginn og að það hafi verið mikill og líflegur örverugróður fyrir lystargóða birkiplöntu. Ég reikna líka með að svo sé enn og að eikurnar tvær njóti þessa líka. Viðurinn frá þessu birkitré væri ekki góður til smíða enda lendir hann í eldiviðargeymslunni.
 
 
Lík ég þessari laugardagsskýrslu með fréttum af veðri. Það hefur verið mikið logn í dag og 26 til 27 stiga hiti. Ég held að það sé þokkalegur raki í jörðu eftir rigningu síðustu viku og þá eru skilyrðin fyrir allt grænt upp á það besta. Það gleður mig mikið. Rigningardagar eru fyrir mig góðviðrisdagar.
 
 
 
 
 
 
RSS 2.0