Fótspor í sandinum

Þegar ég fór í fyrsta skipti frá Falun í Vornes í nístandi desemberkulda og skammdegismyrkri var ég ögn einmana en taldi þó sem eitthvað nýtt væri að eiga sér stað í lífi okkar Valdísar. Mér var mjög vel tekið og skammdegismyrkrið var alls ekki svo svart þessa fyrstu viku, en ég gisti alla vikuna í Vornesi. Það sem setti þó strik í reikninginn var að hún tengdamóðir mín dó annað kvöldið sem ég dvaldi þar. En það sem bjargaði þessari viku var að konan mín var dugleg og við gengum þrátt fyrir allt hvort til sinnar vinnu með 240 kílómetra millibili.

Ég vann á sjúkradeildinni alla þessa viku og kunni því vel. Ég sá þunna steinplötu með smáum texta hanga þar á vegg en ég verð að viðurkenna að það var svo margt sem var að henda að ég lét vera að lesa þennan texta. Eftir all margar vikur í Vornesi varð þó af því að ég las textann og hann er á þesa leið:


Fótspor í sandinum

Nótt eina dreymdi mann nokkurn draum. Hann dreymdi að hann gekk eftir strönd nokkurri ásamt Guði. Á himninum birtust allt í einu atvik úr lífi hans. Hann veitti því athygli að á hverju tímabili í lífi hans sáust tvenn fótspor í sandinum, önnur voru hans en hin voru Guðs.

Þegar síðasti hluti lífs hans birtist leit hann til baka á fótsporin í sandinum. Þá sá hann að oft á lífsferlinum voru bara ein fótspor. Hann veitti því líka athygli að þetta átti sér stað undir einmanalegustu og erfiðustu tímabilum lífs hans.

Þetta olli honum virkilega áhyggjum og hann spurði Guð um þetta. " Herra, þú sagðir mér þegar ég hafði ákveðið að fylgja þér að þú skyldir aldrei yfirgefa mig, heldur vera við hlið mína leiðina alla til enda. En ég hef veitt því athygli að á allra erfiðustu tímabilunum í lífi mínu hafa bara verið ein fótspor. Ég get ekki skilið af hverju þú yfirgafst mig þegar ég þarfnaðist þín mest."

Herran svaraði: "Mitt kæra barn, ég elska þig og mundi aldrei yfirgefa þig á tímum erfiðleika og þjáninga. Þegar þú sást bara ein fótspor - þá bar ég þig."




Þegar ég las þessi síðustu orð var sem eitthvað bærðist í brjósti mér, sem ljósgeisli breiddist út innra með mér, og textinn greip mig sterkum tökum. Ég varð svo undrandi yfir því hvers vegna ég dró svona lengi að lesa hann.


*

Mörgum árum seinna var hann Kalli í meðferð og meðferð hans byrjaði í náttfötum og slopp á sjúkradeildinni. Hann var tvítugur, huggulegur strákur sem var greinilega þreyttur á lífinu eins og það hafði orðið og það var greinilegt að hann hafði einlæga ósk um breytingu. Ég var að vinna kvöld og sat einn á vaktinni, herbergi hjúkrunarfræðinganna, og hafði það stóra rifu á hurðinni að allir gætu séð að ég væri þarna og að það væri í lagi að líta inn til mín. Ég sá hvernig Kalli rölti fram og til baka, gekk út á tröppurnar bakdyramegin, kom inn aftur og hann leit alvarlega út og lét raddkliðinn sem heyrðist innan frá dagstofunni ekki trufla sig. Svo var allt í  einu sem Kalli hefði horfið í einhverja þögn þarna innar á ganginum.

Að lokum heyrði ég hann koma gangandi og ég leit fram að dyrunum. Má ég koma inn? sagði hann lágum rómi þegar hann hafði stungið höfðinu inn um dyragættina. Já Kalli, komdu inn. Þegar hann var kominn inn úr dyrunum sagði hann mér frá því að hann hefði verið að lesa textann á steintöflunni inn á ganginum. Svo lagði hann hendina á brjóst sér og sagði: "Þegar ég las síðustu orðin skeði eitthvað hér inni í brjóstinu á mér. Það var svo skrýtið."

Mér fannst þetta ekkert skrýtið. Við sátum þarna um stund og töluðum um lífið og Kalli var svo sannur og vilji hans til nýs lifs var svo augljós. Þegar ég kom aftur einum tíu dögum seinna til að vinna kvöld í Vornesi sá ég ungan glaðlegan mann sem ég kannsðist við. Hann vildi heilsa og ég leit þarna í andlit Kalla sem nú var laus við náttfötin og sloppinn og var kominn í eigin föt. Augnaráðið var hreint og andlit hans var fullorðnara og hann var sérstaklega kurteis. Það er mikið góðs viti þegar ungt fólk hrífst af frásögninni Fótspor í sandinum.

Johnny Cash í sænskri messu

I gær var sjónvarpsmessa frá bæ einum hér nokkuð fyrir sunnan okkur. Það var ljóst þegar í byrjun messunnar að hún yrði mikið öðruvísi en aðrar messur þó að þær séu líka allar afar mismunandi. Prestur einn sem við höfum áður séð og heyrt annast sjónvarpsmessu var þarna mættur, og mín fyrsta hugsun var að hann mundi líklega taka messuna yfir og syngja sjálfur mest allan tímann eins og hann gerði þegar við sáum hann síðast. Svo hófst messan með söng þessa prests en eitthvað gerði það að verkum að ég byrjaði draga til baka fordóma mína.

Fyrir nokkrum árum voru Árný systir Valdísar og maður hennar, Ágúst, hjá okkur um jól. Þá voru Sólvellir einungis frístundahús. Um þessi jól horfðum við á kvikmyndina um Johnny Cash hér á Sólvöllum og ég man vel að hún hafði mikil áhrif á mig. Þegar myndinni var lokið vorum við öll frekar hljóðlát sem mér fannst vera merki þess að ég var ekki einn um að hafa orðið fyrir sterkum áhrifum. Nú man ég ekki mikið úr þessari kvikmynd og vil gjarnan sjá hana aftur.

Messan í gær var nefnilega tileinkuð Johnny Cash. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að hann hefði verið eins trúaður og fram kom í messunni og textunum sem sungnir voru. Það var mikið flutt af gospelmúsik sem Johnny Cash elskaði og lög eftir hann sjálfan. Presturinn söng einsönginn og á milli lagði hann út af textunum. Þegar í fyrsta gospelsöngnum byrjuðu áhrifin af flutningnum. "Guð, hjálpaðu mér að ganga þann stutta spöl sem ég á eftir / að ganga einsamall er svo þungt / ég kemst það ekki án hjálpar."

Hann talar um að krafturinn sé búinn, að hann sé gamall og þreyttur, maður með erfiða lífsreynslu. Það var þung ævi sem hann átti að baki og erfiðar minningar. En allan tímann hafði hann Guð við hlið sér og fékk kraft til að halda áfram og hann létti margri manneskjunni lífsgönguna. Hann heimsótti fangelsi og söng fyrir fanga, meðal annars í Svíþjóð. Hann tók afstöðu með þeim sem minna máttu sín.

Ég veit varla hvers vegna ég er að skrifa þetta þar sem allir þekkja til þessa manns, en málið er bara það að þetta hafði djúp áhrif á mig. Messunni var varla lokið í gær þegar maður kom í heimsókn og áhrifin dvínuðu þá í spjalli um aðra hluti. Því horfði ég aftur á messuna þegar hún var endursýnd í dag. Það sem eftir stendur er að hafa kynnst lífshlaupi manns sem notaði trúna til að taka sig gegnum erfiðleika og tregablandið líf og hann deildi því til mannkynsins í söngvum sínum. Ég veit það núna. Ég dæmi prestinn ekki lengur, mér er hlýtt til hans.

Johnny Cash

Hús og innansleikjur skrifað þann 25. febrúar 2012

Ég hef ekki skrifað um Sólvallahús í nokkra daga þannig að þetta er að verða mjög lélegt hjá mér. Ef svo hefði haldið áfram hefði tónlistarhúsið Harpa farið að hafa vinninginn þannig að ég set nú í gang. Hér fyrir neðan er teikning af Sólvallahúsi, þessu margumskrifaða húsi. Það var talað um innansleikjurnar hér áður fyrr og svo er kannski enn. Innansleikjurnar tóku oftast nær eða alltaf mikið lengri tíma en til stóð. Það var kannski þess vegna sem sumum smiðum gekk illa að klára innansleikjurnar -að ljúka við húsin sín.


Ég veit ekki hvernig þessi teikning kemur út fyrr en eftir að ég birti bloggið. Ég byrjaði á að teikna húsið á pappír með blýanti og reglustiku eins og gert var í gamla daga. Svo fórum við í heimsókn til Rósu og Péturs og auðvitað Hannesar Guðjóns líka. Við sýndum þeim nú þessa teikningu og óskuðum auðvitað eftir mumsögn sem við líka fengum. Svo spurði Pétur hvort hann ætti ekki bara að teikna þetta í tölvunni, og auðvitað, ekkert sjálfsagðara. Svo teiknaði hann húsið í tölvu með þvílíkri nákvæmni og útlitsteikningin var svo gerð í væntanlegum litum og byggingarfulltrúinn var svona líka hrifinn af þessu. En nú koma nokkrar myndir af innansleikjum.


Þessi súla heldur uppi 25 m2 af húsi og hún er nógu sterk, er líka ætluð til að geta haldið uppi meira en hálfum meter af snjó. Þetta er reiknað út af tæknifræðingi. Það var ekki nóg með að það þyrfti að moka út allt að hálfu tonni af möl og leir og bera út í fötum til að steypa ennþá þyngri klump til að láta súluna hvíla á. Og steypuna bar ég líka inn í fötum. Ég held nefnilega að ég hafi verið jafn lengi að föndra við gólflistana kringum hana. Ég hreinlega þoli ekki lokafráganginn nema allt passi 100 %. Ég vissi að frágangurinn yrði annað hvort 100 % og fínn eða hreinlega ljótur og mundi svo stinga mig í augun um alla framtíð. Nú er ég alveg gríðarlega ánægður með verkið.


Ég hef ekki unnið svo mikið með málma og var ekki viss um hvernig þetta mundi ganga, það er að segja að setja messingramman kringum lúguna niður í kjallara. Mér var alltaf illa við að setja svona lúgu í gólfið en þegar ég var búinn að ganga frá rammanum og setja niðurfellt handfang í miðja lúguna, ja, þá hreinlega varð lúgan hreina húsprýðin. Kjallari er kannski að bera í bakkafullan lækinn. Lofthæðin í því sem ég kalla kjallara er einungis 70 sentimetrar. En það er í byggingarreglugerð að það eigi að vera hægt að komast niður í svona grunna og svo er reyndar hægt að geyma ýmislegt þarna niðri. Núna eru þar einir sex lítrar af plómusultu og við tækifæri ætlum við að kaupa 25 kg poka af kartöflum og setja þarna niður. Þar væri líka hægt að geyma saltkjötsfötu, saltfisk, meira af sultu og bara alls konar matvæli sem eiga að vera til á góðu búi. Súrt slátur í fötu, það væri ekki lélegt.


Þarna setti ég líka annan messingramma í vikunni. Í hálft ár eða svo mættust þarna flísar og parkett og samskeytin voru auðvitað engin fegurðarauki. Svo hættum við svo sem að sjá þau en gleymdum þeim aldrei. Svo þegar messingramminn var frágenginn varð þetta einnig hin mesta húsprýði. Ég þarf að fúgufylla pínulítið núna þegar ramminn er kominn og vissi að það hafði verið pínulítill afgangur af fúgusementinu eftir að Pétur tengdasonur fyllti í fúgurnar í fyrra.

Hvað var það svo sem ég fann hérna úti í geymslu um daginn. Jú, ósköp venjulegan plastbauk undan rjómaís og í plastbauknum var lítill glær plastpoki. Ég kíkti forvitinn niðurn í umbúðirnar og viti menn; þar var fúgusement sem nægir í þetta. Þá þótti mér svo sannarlega vænt um hann Pétur tengdason. Það var hann sem gekk svona vel frá þessu því að hann vissi að ég þyrfti á því að halda seinna. Annars hefði ég þurft að kaupa stóra pakkningu af fúgusementi og svo að geyma afganginn þangað til hann hefði verið orðinn ónýtur af raka.

En hvað um það, það eru margar fleiri innansleikjur sem mér hefur tekist að ljúka og all margar eru eftir enn. Svo þurfum við að fella nokkur tré út í skógi og hann Arnold bóndi ætlar að koma og hjálpa mér við að fella sum þeirra sem er mikilvægt að falli niður á nákvæmlega rétta staði.


Síminn er þarna með á myndinni til að hafa viðmiðun. Þessi klossi hefur verið mikilvægur máti varðandi uppsetningu á gluggaáfellum og býanturinn var alveg mátulega stór til að setja lítið strik á gluggakarmana með hjálp af mátanum. Ég er laginn við að leggja frá mér verkfæri og þurfa svo að leita að þeim. En þessi máti og þessi litli blýantur hafa alltaf verið á sínum vissa stað í ákveðnu plastboxi í ákveðinni skúffu þar sem ég hef alltaf getað gengið að þeim. Má henda þessu núna þar sem búið er að nota það? spurði Valdís í fyrradag. Ég hugsaði mig aðeins um og svaraði því svo til að ég vildi hafa þessa tryggu hluti áfram í þessu ákveðna plastboxi til minningar um að að "regla á hlutunum" er góð dyggð.

Ég talaði áðan um að kaupa kartöflupoka. Það er nefnilega svo að hér ekki langt frá er vegskilti sem á stendur "Lannakartöflur". Aki maður þangað sem skiltið bendir kemur maður að kartöflusjálfsala. Maður tekur 25 kg kartöflusekk og setur 100 kr í þar til gert box. Svona er það búið að vera í mörg ár og hefur fengið að vera í friði. Sala á ferskum eggjum fer fram á sama hátt á öðrum stað. Er þetta ekki dásamlegt?

Valdísi finnst hún ekki geta svo mikið þar sem hún er ekki smiður. En sannleikurinn er sá að þegar ég er búinn að kasta verkfærunum hingað og þangað og finn þau ekki, þá kemur Valdís og gengur hljóðlega að verkfærunum og réttir mér þau. Þá hef ég ekki efni á neinu öðru en að segja takk. Hún prjónar líka mikið og saumar út. Ég get hvorugt. Síðustu daga hefur hún verið að prjóna eitthvað rammflókið og ég skil ekki neitt í neinu. Það er gott að við erum ekki best við að gera sömu hlutina. Það er betra að við erum góð á ólíkum sviðum því að þá er það býsna margt sem við getum gert sameiginlega.

Enn eru all nokkrir dagar eftir af innansleikjum og við erum bæði ákveðinn í því að þeirri vinnu skuli ljúka. Eftir það verður það eins og ég sagði núna nýlega að þetta hús verur meira tilbúið en margt annað sem ég hef tekið mér fyrir hendur um dagana.

Hvað er nú þetta?




Jú, það er auðvelt að svara því. Þetta er vegur sem liggur gegnum beykiskóg. Ekki verður það nú alveg svona glæsilegt á Sólvöllum í tíð okkar Valdísar. En hver veit. Ef mér tekst að veita beykitrjánum okkar þá ástúð sem gerir þeim mögulegt að vaxa eins og í ævintýri, þá getur ýmislegt skeð.

Stemmingin á Sólvöllum kvöldið 21. febrúar 2012

Ég var að líta á tíu daga veðurspána www.smhi.se og þar er gert ráð fyrir að alla þessa tíu daga verði frostlaust yfir daginn en hins vegar að það frjósi á nóttunni, alla vega flestar næturnar. Það er ekki slæm spá svona um 20. febrúar. Svona er það líka búið að vera í nokkra daga. Ef glöggu auga verður litið til skóganna á næstunni verður hægt að greina breytingu. Ég veit ekki í hverju þessi breyting felst en hún verður þrátt fyrir það. Miðað við hitastig er eiginlega kominn tími til að fara með klippurnar með í gönguferðir um landareignina og klippa til eikur sem elgir og dádýr hafa lífnært sig á undanfarna tvo vetur. Litlu eikurnar verða skrýtnar í laginu af þessari beit og það fer nú best á því að hjálpa þeim, annars verða þær hálfgerð bonsaitré næstu árin.

Að öðru leyti veit ég eiginlega ekki hvers vegna ég settist við tölfuna og byrjaði að blogga því að dagurinn hefur ekki haft neina sérstaka viðburði sem eru í frásögur færandi. Ég er heldur ekki búinn að skrifa neina fyrirsögn, geri það á eftir ef ég kem saman einhverjum línum. Þó má geta þess að maður kom hingað í dag frá Örebrosótaranum til að skoða frágang á kamínunni sem við fengum fyrir tæpu ári síðan. Þessi skoðun jafngildir bílaskoðun þannig að ef það kæmi eitthvað fyrir sem tengdist kamínunni óskoðaðri mundu tryggingarnar ekki vera fúsar til að bæta tjón. Við vorum þess fullviss að vegna þess að það var löggiltur fagmaður sem gekk frá henni, þá væri hún þegar löggilt. Svo var það þó ekki og þá var bara að biðja um skoðunina og nú er hún gerð.

Svo þáði skoðunarmaðurinn kaffibolla og það er í fyrsta skipti sem maður frá Örebrosótaranum þiggur kaffi hjá okkur. Hann var líka skoðunarmaður og því ekki svo tiltakanlega skítugur. Hann sagðist vera að leita sér að svipuðu húsi sem hann vildi svo breyta og bæta eftir eigin smekk. Svo sýndum við honum mynd af húsinu okkar eins og það leit út þegar við keyptum það og þá varð hann alveg undrandi yfir hversu fínt og bjart þetta hús væri orðið. Svo spurði hann hvort við værum ættuð frá Örebro eða stöðunum hér í kring. Þá var Valdís fljót að segja að við værum ættuð frá Íslandi.

Við þessar upplýsingar vafðist honum fyrst tunga um tönn og síðan sagði hann að við hlytum þá að hafa verið mjög lengi í Svíþjóð. Og Valdís var á ný fljót að svara og sagði átján ár. Þetta er nú lang besta hrós sem við höfum fengið fyrir sænskukunnáttu okkar, en ég geri þó ekki ráð fyrir að maðurinn hafi gott tungumálaeyra. Það var mikið hrós samt. Annars er það svo að alla vega ég er misdægur á sænskuna. Svo virðist líka sumt fólk vera þannig að það mega ekki vera allra minnstu hnökrar á framburði, þá á fólk erfitt með að skilja. Sótarinn var ekki einn slíkur.

Ég er búinn að vera býsna mikill ellilífeyrisþegi frá áramótum. Það er gott líf og ég er að búa mig undir að það verði enn þá betra. Þegar ég undirbý svo fyrir mig kemur Valdís til með að njóta af því líka. Á að giska í haust þurfum við að fara að koma okkur í kynni við félög eldri borgara. Við fengum helling af pappírum frá svona félögum þegar við urðum 65 ára, en þá vorum við auðvitað svo ung að okkur fannst það of snemmt (mannalæti).

Þó erum við að vissu leyti farin að vera með eldra fólki. Þegar við fórum á revíuna í Fjugesta og eins á tónleika með Evert Taube var flest fólkið þar frá miðjum aldri og eldra. Það má líka segja að þetta fólk bar það með sér að það hafði sína hluti í lagi, að lífið væri í góðum farvegi. Ég veitti þessu athygli í bæði ofannefnd skipti.

Ég leit áðan á fyrirsagnir í blöðum í tölvunni og sá nokkrar forvitnilegar fyrirsagnir. Ég las bara lítillega af því forvitnilega þar sem mér finnst minn tími ekki alveg kominn til að helga mig fróðleik og lestri þó að ég láti slíkt alls ekki alveg framhjá mér fara. Þetta verð ég að lesa seinna hugsa ég oft en hætt er við að ég sé búinn að gleyma mörgum fyrirsögnum sem mér finnst bjóða upp á eitthvað áhugavert að lesa. Það kemur bara nýtt í staðinn.

Konan sem er búin að fylgja mér í meira en hálfa öld er hér fyrir aftan mig og les. Ég er tilbúinn að bara taka af mér inniskóna og bolinn og leggja mig. Nokkrum mínútum síðar verð ég farinn að svífa með félaga Óla Lokbrá í draumalandinu. Það er nú meiri munurinn að vera vinur hans. Það hefur ekki verið svo allt mitt líf en sem betur fer höfum við dregist hvor að öðrum með árunum. Mér finnst sem við tilheyrum fólkinu sem ég talaði um áðan á þann hátt að lífið er í góðum farvegi. Þá verður svefninn góður og þá verður lífið í ennþá betri jarðvegi.

Við kveiktum upp í kamínunni eftir að sótarinn fór í morgun. Síðan fórum við til Örebro þar sem Valdís fór til sjúkranuddara og innkaup voru gerð. Þegar við komum til baka stóð til að kveikja upp aftur en þess þurfti ekki þegar til kom. Það var nógu hlýtt og er ennþá. Það er mikil kyrrð í sveitinni. Ég var að gá að veðri og slökkti útiljósin til að sjá betur. Það er mjög vægt frost en það var ekki stjörnubjart. Ljós lýstu á bæjunum í kring og það var ekki annað að finna en það væri tryggt að vera hér. Síðan gekk ég inn og kveikti útiljósin aftur. Góða nótt.

Ég verð að viðurkenna þann 19. febrúar 2012

Það er sunnudagur í dag og ég verð að viðurkenna að ég hef ekki haldið allan hvíldardaginn heilagan. En þó var það málið hjá mér að gera ekkert fyrir sjónvarpsmessuna annað en að borða morgunverðinn og ég stóð við það. Samt náði ég varla því markmiði en Valdísi tókst það. Ég eldaði hafragrautinn og hafði heldur minna í sleifunum þegar ég mældi haframjölið í pottinn. Ögn minna hafði ég af rúsínum líka en líka eins og ég ákvað fyrir nokkrum dögum þegar baðvogin var nærri því að segja hlass þegar ég steig á hana. Svo var þessi della í pottinum tilbúin. Hafragrautur er ekki fallegur á borði og eiginlega ennþá minna fallegur með rúsínum.

Ég ákvað líka að þvo pottinn fyrir messu svo að borðið liti vel út og því gekk ég að vaskinum með pottinn og losaði allt innihaldið niður í vaskinn og skóf pottinn vel innan með sleifinni. Þegar ég leit niður í vaskinn á eftir áttaði ég mig á því að grauturinn hafði farið dálítið villt. Jahérna, þannig byrjaði sunnudagurinn. Ég hreinsaði úr vaskinum niður í matarúrgangafötuna og svo hófst grautargerð á ný og nú tókst það, en messan var þá byrjuð.

Var þetta merki um elliglöp? Ég velti því aðeins fyrir mér og komst að þeirri niðrstöðu að svo væri ekki. Það eru orðin þó nokkur ár síðan ég tók nýjar nærbuxur úr umbúðum og fór í þær. Síðan tók ég umbúðirnar og kastaði þeim í óhreina þvottinn og nærbuxunum í ruslið. Með öðrum orðum; ég hef ekkert breytst í mörg ár. Hér lýkur óábyrgu blaðri.

*

Ég verð að tala um messuna. Þetta er hreinlega fallegsta messa sem við höfum séð lengi og við erum sammála um það. Stundum hefur mér fundist sem einhverju hljóðfæraglamri og langdregnum einsöng sé ofbeitt í messunum en hér var því ekki til að dreifa. Það var hefðbundinn sálmasöngur sem allir tóku þátt í, en einnig hreint alveg stórkostlegur hljóðfæraleikur með svo ótrúlega fallegum söng sem mjög ungt fólk flutti. Biskup einn sem predikaði í messunni talaði líka um það að tónlistin yrði notuð til að gera áheyrendur opnari fyrir þeim boðskap sem yrði í boði. Davíð konungur talaði líka um það fyrir 3000 árum að spila á hörpu og lýru í sama tilgangi þannig að aðferðin er ekki aldeilis ný af nálinni.

Í predikuninni talaði biskupinn um tvenns konar leiðir til að draga sig undan. Önnur leiðin var að draga sig undan og leggjast í dvala, sofa, til að reyna að gleyma því óþægilega sem finnst innra með okkur manneskjunum. En honum þótti öllu vænlegra að við drögum okklur undan til að fá næði til að hafa hljóðláta umræðu við okkur sjálf um þau óþægindi sem við burðumst með. Og þá vil ég bæta við; ef til vill einnig til að safna kjarki til að afhjúpa eitthvað gott sem við viljum koma til leiðar.

Ekkert er nýtt undir sólinni segjum við stundum þegar við viljum segja eitthvað gáfulegt. Að draga sig undan er ekkert nýtt en biskupinn bara einfaldlega leiddi hugann að þessu á svo ótrúlega mildan og sannan hátt -kom af stað íhugun. Elía spámaður gekk 40 daga í eyðimörkinni og gekk síðan inn í helli þar sem hann var líka einn. Ólíkar náttúruhamfarir dundu yfir sem lauk með eldi, en eftir eldinum heyrðist blíður vindblær hvísla. Síðan barst rödd að eyrum hans sem sagði: "Hvað ert þú hér að gjöra, Elía?" Síðan fékk Elía fyrirskipanir um mikilvæg verkefni sem hann skyldi hrinda í framkvæmd sem hann og gerði.

Sagan segir frá mörgum stórum nöfnum sem tekið hafa sér tíð í eyðimerkurgöngur. Ég nefni bara tvö nöfn; Jesús og Gandí. Þeir drógu sig undan til að hugleiða, alls ekki til að leggjast í dvala og gleyma. En hvað er að marka gamlar skriftir? Ég er orðinn of gamall til að setjast í háskóla til að læra um líkt. Hins vegar varð ég fyrir miklum áhrifum af sjónvarpsþætti sem ég horfði á hér í Svíþjóð af gríðarlegri fróðleiksfíkn. Það fjallaði um borgina Tróju. Í þættinum var sýndur þýskur maður sem gekk um landslag og las sig til í gömlum skriftum. Hann leitaði kennileita og fann. Síðan bað hann menn sína að byrja að grafa. Þeir grófu sig niður á Tróju. Þetta fékk mig til að líta með nýjum og opnum huga á gamlar skriftir.

Það má margt segja um gömlu skriftirnar og margt sem staðfestir þær á vísindalegri hátt en áhorf mitt á fyrrnefndan sjónvarpsþátt. Í morgun var ég fullur af andagift eftir messuna og fann mig reiðubúinn til að skrifa langt, ljóðrænt blogg um andlegheit. En ég hélt ekki hvíldardaginn heilagan og andlegheitin dofnuðu með málningarpensil, skrúfvél, sög og vandað byggingarefni í höndum. Ég get eiginlega ekki sagt því miður því að mér skilaði svo mikið áleiðis í dag. Sá dagur kemur að engar annir koma í veg fyrir að ég haldi hvíldardaginn heilagan og ég vona að Guð í upphæðum gefi mér þann tíma.

*

Við Valdís erum á því að Sólvellir séu að verða meira tilbúið hús en Sólvallagötuhúsið okkar í Hrísey nokkurn tíma varð. Hún hjálpaði mér eftir þörfum í dag, bakaði handa mér pönnukökur og steikti kótilettur. Þess á milli hefur hún setið með prjónana. Nei, reyndar, þar fer ég með rangt mál. Við fórum í stutta gönguferð og þá sagði hún allt í einu: Getum við ekki gengið hér inn í skóginn okkar? Mikið varð ég glaður því að það er svo langt síðan við höfum farið saman inn í skóginn og víst var hægt að ganga einmitt þarna inn í hann.

Ég veit vel að það er konudagurinn í dag.

Evert Taube tónleikar 18. febrúar 2012

Þekkir einhver þetta hér?

Sjösalavals

Þau voru víst ófá lögin sem Sigurður Þórarinsson fann í Svíþjóð og gerði íslenska texta við. En þegar við Valdís komum til Svíþjóðar áttuðum við okkur líka á því að lög sem við héldum að væru ramm íslensk voru reyndar sænsk. En hvað um það, í kvöld vorum við á tónleikum sem haldnir voru í Fjugesta til minningar um Evert Taube sem uppi var frá 1890 til 1976. Hann er höfundur til Vorkvöldsins í Reykjavík eða Sjösalavals og það var eitt þeirra laga sem við fengum að heyra á tónleikunum.

Það var ekki fyrr en við fluttum hingað í sveitina sem við gerðum okkur grein fyrir því hversu dugleg leikfélögin eru í sænsku sveitunum og smástöðunum. Salurinn í Fjugesta var fullsetinn og þá er ég að tala um rétt innan við 200 manns sem koma saman til að hlusta og sjá. Jólarevían var sýnd í einhverjar vikur og dag eftir dag fyllti fólk frá Örebro þennan litla dreifbýlissal. Það væri svipað og Reykvíkingar fylltu 200 manna sal suður í Vogum allt að því vikum saman fyrir jólin þó að sú vegalengd sé heldur lengri.

Ég veit að það eru líka dugleg leikfélög á Íslandi en það kom mér hreinlega á óvart að þetta skyldi vera svona virkt hérna og svo er það vítt og breitt um landið. Hvernig ætli það hafi legið á Taube þegar hann sýslaði við að semja þetta lag með texta.

Skútusöngurinn

Svo var kallinn gleðimaður sem meðal annars bjó í Argentínu og grunur leikur á að hann hafi dregist til fagurra kvenna. Það leikur líka grunur á að konan hans hafi ekki alltaf verið ánægð með það sen hann aðhafðist þegar hann var ekki heima við. Vín, söngur, konur og dans, já hvernig átti Evert Taube að geta bjargað sér úr klóm þess.

Dansinn á Suðurey

Þetta voru skemmtilegir tveir tímar sem við upplifðum þarna með snillingnum. Hugurinn sveif í hæðir hvað eftir annað og ég fékk á tilfinninguna að hugur Taubs hafi líka borist í hæstu hæðir þegar hann samdi svo margt af því sem á boðstólum var. Komi maður á skemmtun hjá leikfélaginu í Fjugesta, Revíunni sem þau kalla sig, þá er á boðstólum matur og drykkur til að taka með sér að langborðum. Svo situr maður bara mitt á meðal ókunnugra og hefur það notalegt og skemmtilegt. Þá verða kvöldin öðru vísi.

Það var líka öðru vísi að koma heim og líta sín eigin húsakyni. Sólvellir eru öðru vísi og hugurinn barst oft í hæðir þegar húsið var hannað. Einhver sagði í sjónvarpinu alveg nýlega að það þyrfti kjark til að vera öðruvísi. Að vera öðruvísi var líka að byggja öðruvísi. Samkvæmt því erum við Valdís öðruvísi.

Að lifa lífið til fulls þann 17. febrúar 2012

Ég veit ekki hvort ég á að nenna að blogga en einmitt þess vegna ætti ég kannski að gera það. Kannski kemur eitthvað út úr því ef ég byrja.

Ég málaði í gær og gekk ágætlega þangað komið var fram undir kvöld. Þá gekk eitthvað á afturfótunum enda var ég að klára úr málningardós og það var líka of heitt inni hjá okkur. En ég málaði þó að ekki gengi allt að óskum. Þegar ég kom fram í morgun byrjaði ég á að gera úttekt á því sem ég hafði gert síðast í gær. Niðurstaðan var eftirfarandi: "Skelfilegt." Inn á milli voru mattir blettir og annars staðar voru blettir þar sem málningin hafði hrúgast upp. Ég reyndi að láta mér ekki fallast hendur og ég reyndi líka að láta þetta ekki hafa áhrif á lundarfar mitt. Samt hafði það áhrif á hvort tveggja.

Svo slípaði ég haugana frá gærdeginum og hreinsaði rykið vandlega burtu. Því næst dæsti ég, hringsnerist og vildi helst ekki mála aftur ef það mundi nú mistakast á ný. Því næst reyndi ég að hugsa jákvætt og fór nokkrum sinnum með æðruleysisbænina. Svo málaði ég prufu og beið eftir því að málningin þornaði. Hvað eftir annað leit ég yfir prufuna til að sjá árangurinn og sýndist sem þetta væri hreina fúskvinnan. Nei nei, sagði Valdís, þetta er fínt. Ég vildi gjarnan trúa því en var alls ekki viss.

Ég fór að fást við annað, fór út að vélsöginni og sagaði þunnan lista sem mig vantaði og tókst sæmilega. Svo tók ég matarúrgangana og fór út að moltukerinu og losaði, hengdi plastpokann um annan úlnliðinn og fór hringferð um skóginn og talaði við sjálfan mig. Einnig litlu eikurnar mínar. Það er ekki að því að spyrja að ef ég geri rétta hluti verður allt betra. Ég vissi að ég ætti að fara einn eða tvo hringi í viðbót en lét þetta nægja. Svo málaði ég meira og ákvað síðan að mála eina umferð til viðbótar á tveimur dyrum á morgun.

*

Þegar ég var kominn hingað með þetta blogg gekk ég fram og hlustaði á mann í sjónvarpinu tala um meinlokur og fullkomnunaráráttu. Eftir það gekk ég að dagsverkinu mínu og leit yfir það. Ég var ánægður. Ég hreinsaði burtu málningarlímbandið sem hlífði parkettinu við dyrnar tvær sem ég ætlaði að mála aftur morgun og þar með var ég búinn að lýsa yfir verklokum. Fullkomnunaráráttan er stundum förunautur minn.

Oft talar fólk um erfiða daga og "meira að segja ég" get fallið fyrir því. Ég einmitt hugsaði það út í skógi í dag að þó að þessi dagur væri ekki eins og ég vildi að hann væri, væri hann ekki erfiður dagur. Ég lít nú á það sem neikvæðni að tala um erfiða daga ef það er bara vegna þess að ég er öfugsnúinn. Hefði ég viljað halda mig við það hefði það verið hrein sjálfsvorkunn -eymd. Minn dagur var reyndar góður og dyrnar og gluggarnir sem ég var að mála eru okkar bæ til fyrirmyndar. Svo las ég um það að hún Linda fegurðardrottning ætti tíu ára edrúafmæli í dag. "Þá byrjaði lífið", sagði Linda. Það er satt Linda, lífið er almennt gott og eymdin tilheyrir því liðna.

*

Ég tók forskot á sæluna áðan og leit á vísdómsorð morgundagsins í Kyrrð dagsins. Richard Jefferies (1848-1887) er höfundur þessara vísdómsorða, en hann var þekktur fyrir að skrifa um breskt sveitalíf. Þessi orð eru eftirfarandi:

Þær stundir sem hugur okkar er fanginn af fegurð lífsins
eru hinar einu sem við lifum til fulls.

Þetta eru góð orð fyrir mig nú í dagslok, fyrir mig sem var langt kominn með að eyðileggja daginn í neikvæðni og fullkomnunaráráttu. Í gær fékk ég kveðju eina 700 kílómetra norðan úr landi. Kveðjan var svohljóðandi: Hafðu góðan morgundag. Ég var heppinn að byrja að skrifa. Það fékk mig til að hugsa og einnig orð mannins sem talaði um fullkomnunaráráttuna. Ég er harðánægður með verkin mín og þessi dagur hefur verið góður þó að ég hafi kannski ekki lifað hann alveg til fulls.



Á morgun eru það svo Evert Taube tónleikar í Fjugesta.

Fimmtudagur 16. febrúar 2012

Ég talað við Pál bróður í síma í dag. Við spurðum hvor annan eftir heilsufari og ræddum svolítið um heilsufar almennt, hvernig við eldumst og hverju við getum búist við með hækkandi aldri. Mér lá við að segja honum frá því sem henti mig í gær en fannst það mundi taka of langan tíma í síma. Hins vegar er bloggið tímalaust þannig lagað að það kostar ekkert og svo getur fólk ráðið hvort það tekur sér tíma til að lesa það eða ekki.

Við Valdís fórum til Örebro um hádegisbilið í gær. Valdís fór til að borða hádegismat með vinkonum sínum fjórum en ég fór með kerruna fulla af rusli á endurvinnslustöðina sunnan við Örebro. Á kerrunni var samansafn tveggja eða þriggja mánaða af umbúðum og alls konar afgöngum varðandi byggingarframkvæmdir. Þegar ég var búinn að losa kerruna fór ég meðal annars í byggingarvöruverslun sem er skammt frá endurvinnslunni og keypti síðustu gólflistana sem þarf að setja í Sólvallahúsið. Svo spjölluðum við saman um stund í byggingarvöruversluninni. Þar voru fáir á ferð.

Nú var það svo að Valdís var alls ekki búin að vera nógu lengi í samkvæminu og ég var svangur þannig að ég fór í næsta bæjarhluta, Brikkebakken, til að kaupa mér pylsu. Inn í þennan Brikkebakken er ég trúlega búinn að koma yfir þúsund sinnum. Ég var í mínum heimi á leiðinni þangað og eftir á að hyggja, þá er ég oft svolitið í öðrum heimi þegar ég er á leið frá byggingarvöruversluninni. Svo kom ég að afleggjara og ók inn í Brikkebakken. En þá skeði nokkuð skrýtið; ég kannaðist ekkert við mig. Nei, bíddu nú við, var ég orðinn eitthvað bilaður. Þessar blokkir áttu alls ekki að vera þarna á hægri hönd, bara alls ekki, og þær áttu ekki að sjást þaðan sem ég var, bara tveggja hæða húsalengjur.

Ég fór inn á kunnuglegt bílastæði til hægri og eftir eina fimmtíu metra fór még út á götuna aftur og tók afleggjarann til baka og svo áfram eftir að ég kom út á aðalveginn. Það var eiginlega ekki fyrr en þar sem áttaði mig almennilega á þessu. Ég hafði farið inn á afleggjara til Brikkebakken sem gerður var fleiri árum eftir að við komum þangað fyrsta sinni. Einum kílómeter seinna kom ég að þeim afleggjara sem ég ætlaði að fara og nú var bensínstöðin á réttum stað og blokkirnar ekki í sjónmáli, alveg eins og það átti að vera.

Ég vaknaði klukkan sex í morgun og fór að velta þessu fyrir mér og það var svolítið óþægilegt. Ég spurði sjálfan mig hvort ég væri að verða elliær. En eftir svolitlar hugleiðingar áttaði ég mig á því að svona hefur komið fyrir mig í mörg, mörg ár, og alveg sérstaklega á vegarspottanum næst byggingarvöruversluninni. Einhvern tíma þegar við Valdís vorum á leið til Akureyrar spurði ég hana allt í einu hvort við hefðum virkilega ekki farið Rauðuvíkurbrekkuna. Hah! hálf hrópaði Valdís, þú keyrðir hana á 120. Já, einmitt! og svo sleppti ég morgunhugleiðingum mínum um þetta.

Ég var kominn á stjá í morgun þegar klukkan hringdi hjá Valdísi. Ég skildi ekkert í því að hún stoppaði ekki klukkuna og að lokum heyrði ég hana segja: Hvernig eiginlega á að stoppa þessa klukku? Ég fór að náttborðinu hjá henni og sá hana halda á pínulitlu útvarði sem líka er hægt að nota sem vekjaraklukku, en sjálf vekjaraklukkan stóð á náttborðinu og bípti nú með ógnar látum. Mér fannst þetta nú orðið fyndið með ellilífeyrisþegana á Sóvlöllum.

Svo borðuðum við morgunverð og héldum tímanlega af stað til Fjugesta þar sem það var æfing hjá Hafðu það gott kórnum hennar Valdísar. Eftir svo sem hálfa leið sáum við fólksbíl sem hafði farið út af veginum og lent með framendann í skurðbarmi og síðan á sverum staur. Það var auðséð að þarna hefði getað farið illa, en þegar við stoppuðum hjá frakkaklæddum manni sem vappaði um á veginum fengum við að heyra að allt væri í lagi og björgunarbíll væri á leiðinni. Hann var bílstjórinn. Í tali og látbragði reyndi hann að sýna að þetta væri ekkert mál en stórskemmdur bíll er talsvert mál.

Pabbi hans sat í bílnum og bílstjóri annars bíls sem líka hafði stoppað talaði við hann inn um framhurðina hægra meginn. Ég hef verið á slysavarna- og almannavananámskeiðum fyrr á árum, en sú vitneskja sem ég fékk þá virtist hafa gefið sig. Eftir á að hyggja var háttarlag mannins sem vappaði á veginum þess eðlis að það hefði túlega verið full ástæða að taka völdin af honum á slysstað. Ég vona bara að maðurinn sem þegar var á tali við föðurinn hafi tekið sér þetta vald.

Þegar ég var búinn að skila Valdísi á æfinguna og fara á litla endurvinnslu í Fjugesta með dagblöð og annað það sem safnast saman innan húss, hringdi ég til íslenskrar konu sem búið hefur í Fjugesta yfir 40 ár. Skömmu síðar var ég mættur á heimili þeirra hjóna. Hún er gift sænskum manni sem hún hitti á Íslandi og bæði eru þau nú ellilífeyrisþegar. Ég varð hissa á því hversu góða íslensku maðurinn talaði þar sem það var svo langt síðan hann bjó þar. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef talað íslensku við Svía og það var svolítið skrýtið. Hins vegar hef ég talaði íslensku við hann Per Ekström frá Álandseyjum en hann býr á Íslandi þannig að einhvern veginn lá öðru vísi við.

Ég vona að ég hafi ekki farið Rauðuvíkurbrekkuna á 120 þó að Valdísi hafi fundist það. Það er alla vega ekki stíll minn í dag að aka þannig. Ég á miklu láni að fagna sem bílstjóri og eiginlega finnst mér sem það sé hreinlega gjöf sem mér hefur hlotnast frekar en að ég sé góður bílstjóri. En það er fleira sem sýnir tölur en hraðamælirinn í bílnum okkar. Í fyrrakvöld var ég að enda í sturtu og dró þá fram baðvogina. Mér varð um og ó þegar ég sá að vísirinn var nær hundraðinu en 95. Nú var komið að vatnaskilum. Í gærmorgun hafði ég sleifina ekki eins fulla og áður þegar ég mældi tvær slíkar af haframjöli í grautinn minn. Ég setti líka helmingi minni rúsínur í grautinn. Saltið er ég hættur við fyrir lifandi löngu.

Svo fékk ég mér pínulitla brauðsneið með kaffinu á eftir í staðinn fyrir heila sneið með miklum osti. Og hvað svo -ég var ekkert svangur eftir morgunverðinn. Sama aðferð í morgun og ekkert hungur. Hins vegar fékk ég kaffibrauð hjá íslenskunni í Fjugesta og það var að vísu ekki alveg laust við sætindi.

Að lokum varðandi þessa skýrslugerð dagsins. Við fórum bæði til rakara í Örebro eftir kóræfinguna, hvort á sína stofu. Ég var fyrr tilbúinn og því fór ég inn á stofuna þar sem Valdís var klippt. Þar fékk ég mér sæti í svörtum, allt of mjúkum sófa og hlustaði konuna mína, fiskimannsdótturina frá Hrísey, ræða ástndið i Sýrlandi við sýrlenska konu sem klippti hana af mikilli gaumgæfni. Að lokum sagði Sýrlenskan við Valdísi að hún geislaði af góðheitum. Það er varla hægt að óska eftir betri stigagjöf -eða hvað?

Þið fáið ekki að vita meira um okkur í dag. Bless, bless.

Bloggskrif þann 13. febrúar 2012

Það var á miðvikudaginn var sem sótarinn kom í sína árlegu heimsókn til að annast að kamínuna okkar. Þar með á hún að verða góð til upphitunar eitt ár áfram og einnig að uppfylla skilyrði brunatryggingarinnar. Ég vann þá um kvöldið og fór seinna til að geta hitt sótarann. Svo kom hann að útihurðinni með kaðalhönk á öxlinni og á endanum á þessari kaðalhönk var bursti og svo nokkrar kúlur sem eiga víst að berjast í skorsteinsveggina og hreinsa af þeim ösku og tjöruskánir.

Ég byrja á þvi að fara upp á þak sagði hann inn um rifu á hurðinni og svo fór hann upp stigann sem ég stillti upp við skorsteininn daginn áður. Litlu síðar fengum við að berja þennan mann almennilega augum og það leyndi sér ekki að hann var sótari. Eiginlega grunaði okkur eftir á að hann hefði strokið sóti á kinnarnar áður en hann fór til vinnu um morguninn. Grannarnir sögðu líka að sami sótari hefði verið hjá þeim klukkan sex um morguninn og þá þegar hefði hann verið orðinn svartur af sóti. Hendurnar voru einnig sótsvartar og það var hægt að ætla að hann væri þeldökkur. Hann hafði prjónahúfu á höfði í staðinn fyrir bátinn sem þeir hafa oftast.

Svo lauk hann verki sínu með því að kafa með hendurnar upp að olnbogum inn í kamínuna sóta hana innan. Svo fór hann, við kveiktum upp og ég lagði svo af stað í vinnu. Þessi leið sem ég er búinn að fara eitthvað yfir þrjú þúsund sinnum var sjálfri sér lík með sama þunna lag af snjó í einhverjar vikur. Stórgatan sem ég ek eftir gegnum Vingåker liggur bókstaflega eftir endilöngum bænum og einu umferðarljósin sem fyrirfinnast í Vingåker eru á miðri Stórgötunni við bensínstöðina. Ungur maður ýtti á hnapp og rauðu ljósin stoppuðu mig og aðra sem áttu þar leið um.

Nokkrar stokkendur notuðu sér tækifærið og fóru líka yfir á þessu rauða ljósi, en á meðan þær vögguðu þarna kom grænt ljós á umferðina. Fólk stoppaði samt fyrir þessum fríða hópi en einn sem kom á móti virtist þó ekki ætla að gefa sig og það munaði líklega undir tuttugu sentimetrum að hann tæki einn stegginn með framhjólinu. Þegar allur hópurinn var kominn inn á planið hjá bensínstöðinni OK/Q8 gátu allir haldið áfram á ný. Þetta var tilbreytingin sem stóð upp úr á ferðalaginu þennan daginn.

Þegar ég átti eftir timmtán kílómetra hringdi Ove og spurði hvar ég væri. Hann sagðist þurfa að biðja mig að taka grúppuna sem hann ætlaði sjálfur að taka. Þá tek ég hana bara sagði ég og svo kom ég fáeinum mínútum áður en grúppan átti að byrja, renndi mér úr vetrarjakkanum, hengdi upp húfuna og fór á inniskóna. Svo byrjaði grúppan með fólki sem ég hafið hitt að hluta en nöfnin á öðrum vissi ég ekki þannig að ég varð að hafa eyrun opin þegar við tókum eina umferð til að kynna okkur. Þeim finnst ég ótrúlega góður við að muna nöfn og það er gott ef ég er góður við að muna eitthvað.

Þetta er eina vinnan sem mér finnst ég kunna almennilega. Ég var enginn atvinnusmiður en þokkalegur við að bauka fyrir sjálfan mig. Ég held hins vegar að ég hafi verið sæmilegur bústjóri í nautabúinu. Sveitarstjórastarfið hefið ég átt að gefa einhverjum öðrum kost á að vinna. En ráðgjafastarfið finnst mér eiginlega hafa leikið í höndunum á mér. Það má þá segja að það var gott að ég fann sjálfan mig að lokum. Ég er ekki kvíðinn fyrir nóttina þó að einhver sé lélegur að kvöldi og ég tel mig finna fyrir öryggi og ró hjá sjúklingunum þegar ég vinn kvöld. Annað finnst mér fara eftir þessu.

Í gær, sunnudag, vann ég aftur kvöld og þá mætti ég samkvæmt venju um hádegi. Ég sá að pípulagningamenn höfðu verið á ferðinni og rör og verkfæri lágu við veggi á tveimur stöðum. Svo var ekkert meira með það. Einn sjúklingur á sjúkradeildinni hafði herbergi á annarri hæð og bjó þar einn, en það finnst orðrómur um draugagang á þeirri hæð. Um átta leytið um kvöldið spurði hann mig hvort ég mundi ekki sofa þar uppi líka. Nei svaraði ég að bragði og sá hvernig hann snöggfölnaði upp um leið og hann heyrði mig segja þetta. Þá ligg ég einhvers staðar annars staðar á dýnu í nótt varð honum að orði og hann lagði áherslu á það sem hann sagði. Jú, ég sagði honum að ég mundi vissulega sofa þar líka en ég vildi bara sjá hversu mikil alvara lá á bakvið þetta.

Um miðnætti var ég að ganga frá mér í háttinn og fór á klósettið. Svo halaði ég niður og var kominn í dyrnar þegar það var eins og skotið af byssu rétt fyrir aftan mig. Mér, þessum yfirvegaða manni, varð nú á að taka næsta skref æði mikið hraðar og lengra en ég var vanur og svo var skotið aftur. Það lá við að ég færi að trúa á draugaganginn sjálfur þó að ég ætti von á því að draugagangur sýndi sig á allt annan hátt en þennan. Svo lækkuðu skothvellirnir þarna inn á klósettinu og urðu líkari drunum. Eftir nokkrar sekúndur renndi mig grun í hvað hér lægi að baki. Pípararnir!!! Ég fór inn á herbergið og opnaði fyrir kranann þar og þá kom vatnið í gusum og miklir loftpúðar á milli. Hvellirnir þar voru bara ekki eins ótrúlega miklir og í klósettkassanum.

Ég sagði frá þessu á morgunfundi starfsfólks í morgun, mánudagsmorgun, þegar ég gaf skýrslu eftir helgina. Ég dró ekki úr og vakti þetta mikla kátínu. Maðurinn verður ekki látinn búa þarna uppi lengur. Hann var rólegur og yfirvegaður í morgun þegar hann lýsti fyrir mér hvað hann hefði upplifað þarna uppi áður, en það ætla ég að hafa fyrir okkur tvo. Draugaorðsporið hvílir á þessari hæð alltaf öðru hvoru og svo deyr það út á milli. Það er gott að krydda lífið með einhverju óvenjulegu vissar stundir.

Valdís er með kór sínum að æfa slatta af gömlu tjúttlögunum og svo ætla þau að syngja fyrir dansi í apríl. Það verður öðru vísi ball en þegar pabbi hennar lék á munnhörpu á böllum og dansaði spilandi á munnhörpuna við dætur sínar. Á laugardaginn förum við á Evert Taube tónleika í höfuðstöðvunum Fjugesta. Við höfum fengið gott tilboð í þriggja daga ferjuferð til Helsingfors í vor. Það mál er í athugun. Í gær var sjónvarpsþáttur sem heitir Så skall det låta (Þnnig skal það hljóma). Það voru snillingar í þessum þætti sem gerðu hann alveg sérstakan í sinni röð. Hann verður endursýndur miðvikudaginn 15. febrúar kl. 12,20 að íslenskum tíma sem er fínn tími fyrir ellilífeyrisþega sem hafa erlendar stöðvar. Það er gott að opna fyrir sjónvarpið eftir grjónagraut og slátur.

Nú er mál að linni. Bless, bless.

Týndur dagur?

Mánudagurinn 6. febrúar er senn liðinn og ekki síðan í örófi lífs míns hefur mér tekist að gera svo mikið af alls ekki neitt í heilan dag. Mér auðnaðist ekki einu sinni að taka mér bók í hönd sem er þó að gera eitthvað við tímann. Við skruppum inn í Marieberg og ég talaði við Ford menn meðan Valdís fór í búð og keypti til heimilisins. Ég hefði þurft að hringja tvö símtöl sem ég kom ekki í verk. En þegar ég nefni símann man ég þó eftir því að ég talaði símleiðis við Tryggingarstofnun ríkisins og skrifaði svo áætlun fyrir Valdísi yfir tekjur þessa árs sem senda á tryggingarstofnun.

Svo hékk ég yfir sjónvarpinu og góndi á efni sem best hefði verið fyrir mig að sleppa að hálfu og til dæmis skrifa línurnar sem ég er að skrifa núna. Eftir mjaðmaaðgerðina vann ég ekkert eða framkvæmdi yfir höfuð. En ég gerði þó heil mikið á þeim góða tíma. Ég fór í gönguferðir, hvíldi mig með góðri samvisku, fór aftur í gönguferð og lét mér batna með undraverðum hraða. Þá vann ég  sem sagt að því að lækna mig. Svo las ég dálítið, sofnaði frá bókinni, vaknaði aftur, fékk mér vatn að drekka og gerði æfingarnar samviskulsamlega sem mér voru ráðlagðar af góðu fólki á sjúkrahúsinu í Lindesberg.

Ég las nefnilega gömul blogg hér um daginn og þá rakst ég á þetta. Þá rakst ég líka á að bloggin mín eru fjársjóður fyrir mig að grípa til síðar meir frekar en að horfa í vegginn hálf gapandi. Að vísu er ég svo sem ekkert með samviskubit eftir þennan dag, en ég hef þó fengið að upplifa það að það þarf aðgát gagnvart sjálfum sér að verða ellilífeyrisþegi og verða sjálfur herra yfir tíma sínum. Annars er ég að fara í vinnu á miðvikudag og vinn þá kvöldið og annan dag vinn ég svo viku seinna. Ég mun fara frekar seint af stað vegna þess að sótarinn kemur undir hádegi á miðvikudag og ég vil hitta hann. Mér finnst alltaf gaman að hitta sótara í úníformi.

Þar með er ég búinn að skrifa dagbók þessa dags. Ég er líka búinn að bursta tennurnar en á eftir að fara minna erinda fram og ég ætla líka að líta einu sinni enn eftir kamínunni vegna þess að við kveiktum frekar seint upp í henni í kvöld. Hvaða bók ég tek mér svo í hönd þegar ég legg mig á koddann er ég ekki búinn að ákveða ennþá, hvort það verða Brotin egg eða rauð bók sem liggur í náttborðsskúffunni minni með 2000 ára gömlum vísdómi.

"Fátækir menn þrá auðævi, ríkir menn himnaríki, en vitrir menn þrá friðsæld." Svo sagði Swami Rama (1873-1906) og ég vitnaði í þetta í bloggi í fyrra. Svo rakst ég aftur á þessi vísdómsorð á Facebook í dag. Ég sagði í fyrra að ég ætti mér þann draum að tilheyra því síðastnefnda og ætli himnaríkið fylgi því ekki líka. Ég sagði þá og segi enn að það er ekki sama að vera gáfaður og vitur. Nú held ég að ég setji spurningarmerkið aftan við fyrirsögnina því að ég er farinn að halda að þetta sé alls ekki týndur dagur eftir allt saman.

Að koðna niður af inniveru og aðgerðarleysi

Ég horfði út um glugga svolitla stund í morgun og sá að það blés ögn frískt um greinarnar á birkitrjánum vestan við húsið. Hins vegar hafði frostið gengið niður frá rúmum 20 stigum niður í 10 til 12 stiga frost. Samt hugsaði ég sem svo að það mundi vera svo skítkalt í nepjunni að ég skyldi bara halda mig innan dyra í dag. Svo hélt ég mig innan dyra fram yfir hádegi, kláraði blogg um smá samkomu nokkurra Íslendinga í Örebro í gær og svo gerði ég tilraunir sem ég hafði um tíma hugsað mér að gera varðandi upphitun á húsinu.

Að lokum var húsið eiginlega orðið of heitt og ég ráfaði fram og til baka hér inni og fann hvernig ég koðnaði niður í sljóu aðgerðarleysi. Svo fór ég út í póstkassa til að sækja blaðið og sá þá að það voru tveir ruslapokar komnir út fyrir dyrnar. Já, alveg rétt, ég varð auðvitað að fara með þá á sinn stað líka. Því fór ég með annan pokann beint út í ruslatunnu og sótti síðan blaðið.

Kominn heim með blaðið tók ég hinn ruslapokann, það var að segja þann með lífræna ruslinu, og fór með hann í moltukassann út i skógi. Já, það var vissulega kominn tími til að heimsækja skóginn. Á leiðinni út að moltukassanum sá ég lítið tré sem ég fór að spekúlera eitthvað í, en hélt svo áfram með ruslapokann og svo skyldi ég til baka og skoða þetta litla tré. Þá gekk ég fram hjá nokkrum eins og hálfs til þriggja metra háum eikum og hugsaði sem svo að elgirnir hefðu látið allar eikur í friði í vetur og sennilega mundu þær sleppa eftir þetta og vaxa vel í sumar.

Enn varð ég að taka mig af stað á ný með ruslapokann og nú reyndi ég að ganga hugsunarlaust framhjá öllum trjám en þó varð ég að líta upp með stofninum á furunni sem var svo ógnar mjó þegar við rýmdum kringum hana fyrir nokkrum árum. Ég var ekki í vafa um að hún hefði launað ríkulega fyrir frelsið sem við gáfum henni því að núna var hún gild sem tré, en þegar við komum hingað var hún óeðlilega mjó en há. Loks kom ég að moltukassanum og þurfti að slá með heygaffli í lokið til að brjóta klakann sem hélt því föstu. Svo var ég laus við ruslið.

Ég gekk til baka með tóman pokann í hendinni og skoðaði tréð sem ég ætlaði að skoða. Það var rúmlega mannhæðar hár hlynur sem ég hafði tekið þar sem hann var fyrir mér í fyrra og gróðursetti hann þarna í háfgerðum flýti. Hann leit vel út og hafði marga vel þroskaða brumhnappa. Svo sá ég eik sem þyrfti að snyrta svolítið þegar tími kemur fyrir það, snemma í apríl eða svo. Svo sá ég tvön greni sem stóðu of nærri hvort öðru og þar að auki nálægt einu beykitrénu. Þó að við ætlum að leggja allan okkar kraft í að vernda laufskóginn, þá fannst mér að annað grenið þarna ætti að fá að standa enn  um sinn. Þau höfðu bæði vaxið svo ótrúlega mikið í fyrrasumar.

Þannig hélt það áfram og ég fór fram og til baka um allan skóginn. Allan skóginn! sem er 6000 m2. Ég sá margt sem þarf að sinna til að hlú að bestu einstaklingunum. Komi ég því í verk er það er ekki spurning að skógurinn verður orðinn mun betur hirtur laufskógur þegar við verðum 75 ára. Svo segi ég að "ég" komi í verk. Stundum grípur Þráinn Valdísi traustu taki og hún fer um með greinaklippurnar og ræðst með ótrúlegri elju á reyniviðinnn sem vex eins og illgresi á vissum svæðum. Þá munar um það.

Þannig var það þegar ég ákvað að fara út og koðna ekki niður af inniverunni. Ég fann svo fljótt eftir að ég kom út í skóginn hvernig súrefnið settist að í höfðinu á mér og kom ímyndunaraflinu af stað og áhuganum á því að vera til. Næst þarf ég að taka greinaklippurnar með mér þegar ég fer út í skóg og grisja þar sem tré vaxa hlið við hlið. Svo þarf ég að taka með mér snæri og binda í tré sem hafa vaxið of nálægt öðru tré og rétta þau af. Tré sem vaxa út á hlið eru ekki svo sérstaklega tignarleg.

Svo talaði ég um eikurnar sem elgirnir hefa ekki étið ofan af í vetur eins og þeir hefa gert undanfarna tvo vetur. Ef það stenst út þennan vetur verða það kannski tvö eða þrjúhundruð eikur sem eru að verða mannhæðar háar eða meira. Eftir tvö eða þrjú ár verður svo hægt að fara að velja hverjar þeirra eru best staðsettar eða best vaxnar til að verða valdar til ásetnings. Svo þegar við Valdís höldum upp á 75 ára afmælin okkar með því að hafa opið hús allt sumarið, þá verður hægt að fara út í skóg með gesti og halla sér upp að mörgum af þessum eikum, taka spjall saman og hvílast.

Ávöxtur af vinnu

Stundum hefur það verið föndur, stundum hörku vinna en afar sjaldan leiðinlegt, bara aldrei. Það er búið að taka langan tíma og stundum hef ég þurft að lagfæra vitleysurnar mínar en mér er orðið alveg sama þó að mér gangi hægt. Ég get ekki sagt að mér hafi verið sama um það í byrjun en ég er kominn yfir það. Einhvern tíma verður samt að koma að því að við sjáum afrakstur erfiðisins og það er komið að því. Að vísu hefði ég kannski átt að birta þetta blogg um miðjan mánuðinn þar sem smá verkefni eru eftir eins og ég sagði í bloggi í gær, en sannleikurinn er sá að þeir sem skoða þessar myndir mundu varla sjá muninn.

Þegar komið er inn úr forstofunni og svo farið strax til hægri er komið inn í þetta herbergi. Þar gnæfa þeir yfir öllu öðru Lómanúpur og Öræfajökull og virðast kunna vel við sig hér í Krekklingesókn. Þetta herbergi er 20 m2 og er hugsað sem betri stofa en þar er einnig rúm ef einhver skyldi vilja fá gistingu á Sólvöllum. Einhvern tíma á árinu er meiningin að í staðinn fyrir þetta rúm komi góður svefnsófi sem sé boðlegur fyrir hvern sem er. Það eru engar gardínur þarna -ekki ennþá alla vega- en í staðinn virðist vera hægt að lýsa rúllugardínurnar skemmtilega upp samkvæmt myndinni. Næsta mynd tengist þessu.


Gereftin eru mjög falleg og sérstaklega verða þau það þegar búið verður að renna síðustu málningu yfir þau. Svíar eru mikið gardínufólk en þeir segja samt að það sé spurning hvort það megi fela svona fallega gluggaumgjörð bakvið gardínur.


Jú, rúmið er þarna, ekki spurning.


Og svo er líka hægt að fara út aftur þegar manni fer að leiðast í herberginu.


Kannski ég eigi eftir að sitja við þetta skrifborð og skrifa forsetanum. Kaktusarnir hennar Valdísar á kommóðunni til hægri eru í óða önn að springa út.


Það er loft á Sólvöllum og þarna þarf að smíða lágt handrið. Þetta loft er geymsla þangað við verðum búin að leysa geymnsluþörfina. Það mál er í vinnslu verður ekki gert að bloggefni enn um sinn. Loftið yfir eldhúsinu er það eina sem hægt er að sjá í dag af gamla húsinu, því sem við keyptum á sínum tíma.


Þarna er svo Valdís að lesa Norðurslóð og við hliðina á henni er handavinnan hennar. Handavinnan sem hún er að vinna við núna liggur á handavinnuborðinu undir lampanum til vinstri á myndinni. Hægra megin sjáum við fram í forstofuna og beint fram til hægri eru dyrnar að herberginu þar sem við vorum áðan.


Valdís er enn að lesa Norðurslóð enda bað ég hana að hætta því ekki fyrr en ég væri búinnn að taka nóg af myndum. Hægra megin á myndinni, í hvíta skápnum, er engla og postulínsskósafnið hennar. Hægra megin við sjónvarpið er mynd af Kálfafelli og vetrarmynd af Hrísey tekin af Kaldbak er vinstra megin yfir sjónvarpinu. Það sem síst virðist eiga heima á þessum vegg er sjónvarpið.


*




Fyrir rúmu ári síðan komu þeir Johan hinn ungi smiður og Anders smiður og réðust með mér á gólfið í gamla húsinu og við hentum því út á lóð. Þarna sjáum við endann sem Valdís situr við á myndinni fyrir ofan og hér gefur að líta þá lofthæð sem var í gamla Sólvallahúsinu. Núna erum við að hita upp húsið með efninu sem þarna var kastað út með miklu hraði.


Þarna er Andres á fullri ferð og ég get lofað að dagana þarna á eftir var ekki fínt á Sólvöllum. Það kom sér vel þá að konan mín er engin hengilmæna. Hún tók þessu með miklum dugnaði og ósjaldan angaði byggingarsvæðið að vöfflum eða pönnukökum.


Svo er hér að lokum ein mynd af hálfunnu loftinu. Þetta er liðin tíð og á morgun koma gestir upp úr klukkan níu. Svo koma aðrir gestir í hádeginu. Við getum boðið þessu fólki í hús sem við erum stolt af. Allir iðnaðarmenn sem að þessu komu voru mjög duglegir. Það seinlega og skítverkin reyndi ég að vinna meðan þeir voru fjraverandi og svo komu þeir þegar hægt var að ganga hreint til verks og þá rauk úr skósólunum eins og menn segja gjarnan hér þegar hraustlega er unnið. Lokafrágangur, fínsmíði og föndur varð svo mitt að lokum þannig að mín vinna við þetta hús hefur ekki bara verið skítverk, langt í frá.

Skref fyrir skref

Ætlarðu ekki bara að hafa hvítan dag á morgun sagði Valdís í gærkvöld. Í fyrstu lét ég lítið yfir því en svo fór ég að hugsa að þetta væri hreint ekki svo vitlaust sem hún sagði. Og það er árangur þessara orða að ég er að skrifa þessi fyrstu orð í bloggið og klukkan er um níu að morgni. Ég byrjaði daginn á því að opna rauða bók sem er í náttborðskúffunni minni og lesa þar rúmlega eina síðu. Orðin á þessari síðu eru skrifuð fyrir tæpum 2000 árum og fjalla í stórum dráttum um að rækta það besta sem finnst í manneskjunni og meðal annars í mér. Síðan leit ég yfir fyrirsagnir íslensku blaðanna og sá þar meðal annars að það hefði orðið sprenging við lögreglustöð niður í Málmey. Því næst leit ég yfir bankann minn og sá að allt er í röð og reglu, allir reikningar greiddir og lífið er frítt framundan í heilan mánuð. Þar með getum við helgað okkur einhverju öðru en áhyggjum af því sem mölur og ryð fá eytt.

Eftir morgunverð og nokkrar umræður um það hvernig við skyldum verja deginum fór ég að vinna við glugga í staðinn fyrir að hafa hvítan dag. Mér fannst þrátt fyrir allt best að taka daginn í að ljúka þannig við gluggavinnuna sem hófst 3. janúar að það væri hægt að þrífa húsið og fá fallegan blæ á heimilið aftur. Það væri ekkert gamana að hafa hvítan dag einum degi of snemma. Glaður byrjaði ég verkið en ég get ekki sagt að dagurinn hafi liðið í neinu gleðirusi. Ég var hreinlega þvergirðingslegur, tæplega sjötgugur AA-maðurinn, og innihald textans sem ég las í byrjun dags virtist hafa blásið út í veður og vind.

Þegar vinnunni við gluggana var lokið og við byrjuðum að laga til, þá bara skeði eitthvað. Það varð allt í einu svo óttalega gaman að upplifa þessa breytingu. Þegar ég var búinn að bera áhöld og efni út úr forstofunni og Valdís var búin að ryksuga hana vandlega og þurrka af sólbekkjunum leit hún eiginlega mikið betur út en ég hafði látið mig dreyma um og Valdís var sama sinnis. Þá allt í einu mundi ég eftir textanum frá því í morgun og varð undrandi yfir því hversu ég hafði steingleymt honum.

Ég hef svo oft talað um hvað það sé gaman að ganga nokkur skref tilbaka og líta yfir unnið verk. Á myndunum hér fyrir neðan er hægt fyrir þá sem lesa þetta og vilja vera með, að gera það með því að líta á myndirnar. Þær eru allar úr forstofunni.


Í byrjun september fór ég að vinna fulla vinnu og lagði þá alveg niður innivinnu á Sólvöllum. Þannig voru því forstofugluggarnir búnir að vera í fjóra mánuði þegar ég byrjaði innréttingavinnuna á ný. Það voru ekki einu sinni komnar áfellur á forstofuugluggana en þó á aðra glugga í húsinu. Þetta er hættulegt ástand þar sem það er hægt að verða blindur á svona lagað.


Þegar áfellurnar voru komnar upp varð þessi líka breytingin í forstofunni. Það var líka fljótlegra að setja þær upp en ég hafði reiknað með og ekki skemmdi það fyrir. Enn um sinn var þó hægt að geyma drasl í gluggasyllunum:).


Annar áfanginn var að setja upp gereftin. Þau voru eins og áfellurnar búin að vera geymd grunnmáluð og í fallegum búntum upp á lofti. Enn drasl í gluggasyllunum.


En nú er alveg bannað að geyma drasl í gluggasyllunum! Þriðju umferð er nefnilega lokið. Það eru komnir sólbekkir! Þarna sjáum við út um glugga móti suðvestri. Þetta var fyrir mig skemmtilegasti áfanginn þar sem endanlega útlitið var nú komið fram í dagsljósið.


Og hér er forstofan móti norðvestri og alveg jafn gaman að skoða gluggana þar líka. Fyrir neðan er svo aftur fyrsta myndin til að sjá þær saman, fyrir og eftir breytingu. Hér er ekki búið að taka til og þurrka af.


Áður en vinnan í forstofunni hófst var snjódýptin tveir sentimetrar og þegar henni var lokið var snjódýptin líka tveir sentimetrar.

Hvers vegna standa svo sjötugar manneskjur í svona byggingarveseni? Það mál er hreinlega ekki á dagskrá ennþá. Nágranni sem býr einn kílómeter hér norðan við hefur stundum stoppað til að spjalla þegar hann er á sínum reglubundnu gönguferðum hér framhjá. Hann sagðist fylgjast vel með og þótti við ólöt að vera að byggja á okkar aldri. En hann var meira hissa á manninum sem ætlaði að byggja einbýlishús í sveitinni inn við Örebro því að hann var orðinn sjötugur. Þetta var mikið hól fyrir okkur þar sem sá maður er bara einu ári eldri en við. Hans hús með tvöföldum bílskúr reis á nokkrum vikum, enda byggt á allt annan hátt og á öðrum forsendum en Sólvallahúsið.



Svo má ég til með að birta eina mynd enn.


Meðan ég lauk í dag síðustu verkunum við þá 13 glugga og fimm dyraumbúnaði sem ég hef unnið við frá áramótum, einhvern veginn ekki of hress, týnandi tommustokk, blýanti, vinkli og mistakast við að kveikja upp í kamínunni, þá gekk konan á myndinni að eldhúsbekknum og bakaði tvær jólakökur og slatta af spesíum. Lyktin var alveg undursamleg. Og ekki versnaði lyktin þegar hún byrjaði að steikja íshafsýsuna sem lá þarna í hvarfi á fati við hliðina á eldavélinni. Svo þegar hún var búin að því gekk hún í tiltektina með mér og þess vagna varð forstofan svo fín sem hún varð þegar kvöldaði.

Nú eru þrjú atriði eftir við Sólvallahúsið innanvert. Það er ein mnálningarumferð á alla gluggana 13, að setja nokkra metra af gólflistum og smíða snoturt lágt handrið á loftskörina. Þetta er ég búinn að ákveða að verði búið um miðjan mánuðinn utan handriðið og þá verður hægt að halda lokahóf.
RSS 2.0