Hús og innansleikjur skrifað þann 25. febrúar 2012

Ég hef ekki skrifað um Sólvallahús í nokkra daga þannig að þetta er að verða mjög lélegt hjá mér. Ef svo hefði haldið áfram hefði tónlistarhúsið Harpa farið að hafa vinninginn þannig að ég set nú í gang. Hér fyrir neðan er teikning af Sólvallahúsi, þessu margumskrifaða húsi. Það var talað um innansleikjurnar hér áður fyrr og svo er kannski enn. Innansleikjurnar tóku oftast nær eða alltaf mikið lengri tíma en til stóð. Það var kannski þess vegna sem sumum smiðum gekk illa að klára innansleikjurnar -að ljúka við húsin sín.


Ég veit ekki hvernig þessi teikning kemur út fyrr en eftir að ég birti bloggið. Ég byrjaði á að teikna húsið á pappír með blýanti og reglustiku eins og gert var í gamla daga. Svo fórum við í heimsókn til Rósu og Péturs og auðvitað Hannesar Guðjóns líka. Við sýndum þeim nú þessa teikningu og óskuðum auðvitað eftir mumsögn sem við líka fengum. Svo spurði Pétur hvort hann ætti ekki bara að teikna þetta í tölvunni, og auðvitað, ekkert sjálfsagðara. Svo teiknaði hann húsið í tölvu með þvílíkri nákvæmni og útlitsteikningin var svo gerð í væntanlegum litum og byggingarfulltrúinn var svona líka hrifinn af þessu. En nú koma nokkrar myndir af innansleikjum.


Þessi súla heldur uppi 25 m2 af húsi og hún er nógu sterk, er líka ætluð til að geta haldið uppi meira en hálfum meter af snjó. Þetta er reiknað út af tæknifræðingi. Það var ekki nóg með að það þyrfti að moka út allt að hálfu tonni af möl og leir og bera út í fötum til að steypa ennþá þyngri klump til að láta súluna hvíla á. Og steypuna bar ég líka inn í fötum. Ég held nefnilega að ég hafi verið jafn lengi að föndra við gólflistana kringum hana. Ég hreinlega þoli ekki lokafráganginn nema allt passi 100 %. Ég vissi að frágangurinn yrði annað hvort 100 % og fínn eða hreinlega ljótur og mundi svo stinga mig í augun um alla framtíð. Nú er ég alveg gríðarlega ánægður með verkið.


Ég hef ekki unnið svo mikið með málma og var ekki viss um hvernig þetta mundi ganga, það er að segja að setja messingramman kringum lúguna niður í kjallara. Mér var alltaf illa við að setja svona lúgu í gólfið en þegar ég var búinn að ganga frá rammanum og setja niðurfellt handfang í miðja lúguna, ja, þá hreinlega varð lúgan hreina húsprýðin. Kjallari er kannski að bera í bakkafullan lækinn. Lofthæðin í því sem ég kalla kjallara er einungis 70 sentimetrar. En það er í byggingarreglugerð að það eigi að vera hægt að komast niður í svona grunna og svo er reyndar hægt að geyma ýmislegt þarna niðri. Núna eru þar einir sex lítrar af plómusultu og við tækifæri ætlum við að kaupa 25 kg poka af kartöflum og setja þarna niður. Þar væri líka hægt að geyma saltkjötsfötu, saltfisk, meira af sultu og bara alls konar matvæli sem eiga að vera til á góðu búi. Súrt slátur í fötu, það væri ekki lélegt.


Þarna setti ég líka annan messingramma í vikunni. Í hálft ár eða svo mættust þarna flísar og parkett og samskeytin voru auðvitað engin fegurðarauki. Svo hættum við svo sem að sjá þau en gleymdum þeim aldrei. Svo þegar messingramminn var frágenginn varð þetta einnig hin mesta húsprýði. Ég þarf að fúgufylla pínulítið núna þegar ramminn er kominn og vissi að það hafði verið pínulítill afgangur af fúgusementinu eftir að Pétur tengdasonur fyllti í fúgurnar í fyrra.

Hvað var það svo sem ég fann hérna úti í geymslu um daginn. Jú, ósköp venjulegan plastbauk undan rjómaís og í plastbauknum var lítill glær plastpoki. Ég kíkti forvitinn niðurn í umbúðirnar og viti menn; þar var fúgusement sem nægir í þetta. Þá þótti mér svo sannarlega vænt um hann Pétur tengdason. Það var hann sem gekk svona vel frá þessu því að hann vissi að ég þyrfti á því að halda seinna. Annars hefði ég þurft að kaupa stóra pakkningu af fúgusementi og svo að geyma afganginn þangað til hann hefði verið orðinn ónýtur af raka.

En hvað um það, það eru margar fleiri innansleikjur sem mér hefur tekist að ljúka og all margar eru eftir enn. Svo þurfum við að fella nokkur tré út í skógi og hann Arnold bóndi ætlar að koma og hjálpa mér við að fella sum þeirra sem er mikilvægt að falli niður á nákvæmlega rétta staði.


Síminn er þarna með á myndinni til að hafa viðmiðun. Þessi klossi hefur verið mikilvægur máti varðandi uppsetningu á gluggaáfellum og býanturinn var alveg mátulega stór til að setja lítið strik á gluggakarmana með hjálp af mátanum. Ég er laginn við að leggja frá mér verkfæri og þurfa svo að leita að þeim. En þessi máti og þessi litli blýantur hafa alltaf verið á sínum vissa stað í ákveðnu plastboxi í ákveðinni skúffu þar sem ég hef alltaf getað gengið að þeim. Má henda þessu núna þar sem búið er að nota það? spurði Valdís í fyrradag. Ég hugsaði mig aðeins um og svaraði því svo til að ég vildi hafa þessa tryggu hluti áfram í þessu ákveðna plastboxi til minningar um að að "regla á hlutunum" er góð dyggð.

Ég talaði áðan um að kaupa kartöflupoka. Það er nefnilega svo að hér ekki langt frá er vegskilti sem á stendur "Lannakartöflur". Aki maður þangað sem skiltið bendir kemur maður að kartöflusjálfsala. Maður tekur 25 kg kartöflusekk og setur 100 kr í þar til gert box. Svona er það búið að vera í mörg ár og hefur fengið að vera í friði. Sala á ferskum eggjum fer fram á sama hátt á öðrum stað. Er þetta ekki dásamlegt?

Valdísi finnst hún ekki geta svo mikið þar sem hún er ekki smiður. En sannleikurinn er sá að þegar ég er búinn að kasta verkfærunum hingað og þangað og finn þau ekki, þá kemur Valdís og gengur hljóðlega að verkfærunum og réttir mér þau. Þá hef ég ekki efni á neinu öðru en að segja takk. Hún prjónar líka mikið og saumar út. Ég get hvorugt. Síðustu daga hefur hún verið að prjóna eitthvað rammflókið og ég skil ekki neitt í neinu. Það er gott að við erum ekki best við að gera sömu hlutina. Það er betra að við erum góð á ólíkum sviðum því að þá er það býsna margt sem við getum gert sameiginlega.

Enn eru all nokkrir dagar eftir af innansleikjum og við erum bæði ákveðinn í því að þeirri vinnu skuli ljúka. Eftir það verður það eins og ég sagði núna nýlega að þetta hús verur meira tilbúið en margt annað sem ég hef tekið mér fyrir hendur um dagana.


Kommentarer
Rósa

Þetta er svo flott. Hlakka til að koma og skoða.



Kveðja,



R

2012-02-28 @ 11:23:58
Guðjón

Þið eruð svo velkomin!

2012-02-28 @ 12:20:01
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0