Þegar helgin má ekki taka enda

Síðasta helgi var helgi sem ég eiginlega vonaði að ekki mundi taka enda. Samt gerði hún það. Í gærmorgun hélt ég til vinnu og Susanne sem hafði verið hér um helgina fór með mér til að taka lest heim tíl sín frá Vingåker. Þegar hún yfirgaf bílinn í Vingåker var helginni formlega lokið. Síðan hélt áfram mikill annríkisdagur hjá mér í Vornesi. Ég var að lengi frameftir og fékk að lokum tæplega fimm tíma svefn. Þegar ég vaknaði rúmlega fimm í morgun var ég ótrúlega hress og var fljótur í gang. Ég gekk milli húsa, læsti upp dyrum og hitti árrisult fólk sem stóð með kaffibollana sína á dyrapöllum. Svo hringdi síminn í vasa mínum og einn ráðgjafi til viðbótar var veikur. Þá fór mig að gruna og grunurinn varð að veruleika. Ég fór ekki heim klukkan tíu eins og til stóð, ég fór heim í hádeginu.
 
Þegar ég kæmi heim ætlaði ég að skipta snarlega um föt og fara svo út til að hlaða eldiviði í bílinn, eldiviði sem ég ætlaði með til Stokkhólms á föstudag. Þegar ég kom inn fannst mér samt rétt að setjast aðeins í annan hægindastólinn í stofunni og ég lagði jakkann minn og vetrarjakkann í hinn hægindastólinn. Svo fannst mér rétt að fá mér eitthvað þannig að ég hitaði mér kakó og fékk mér hrökkbrauð með osti. Þegar ég var búinn að því var ég ekki tilbúinn að fara út þannig að ég fékk mér tvær sveskjur svona til að bæta meltinguna. Nokkru síðar fékk ég mér líka tvær gráfíkjur og settist svo enn einu sinni í hægindastólinn. Það var einhvers staðar þar sem ég fór að verða óánægður með mig. Ég kom mér ekki að verki.
 
Það var ekki fyrr en á sjöunda timanum sem ég kom mér út, hálf óánægður, og gerði farangursrýmið í bílnum tilbúið til að hlaða viðarsekkjunum inn í hann. Hleðslunni hafði ég þá þegar frestað til morguns. Síðan sótti ég póstinn og þegar ég kom inn með hann lágu jakkinn minn og vetrarjakkinn ennþá í hinum hægindastólum og gerðu mig enn þá óánægðari. Þegar ég var búinn að borða heilan disk af gulri baunasúðu vissi ég að nú væri kominn tími til fyrir mig að vera fullorðinn. Ég fór inn í svefnherbergið mitt og skoðaði kaktusana.
 
Það gerði ég til að sjá eitthvað fínt og til að hætta að velta mér upp úr óánægju minni. Ég hafði verið í vinnunni og gert heilmikið gagn og ég mundi líka fá vel borgað fyrir það. Ég var þreyttur og það var allt í lagi og það var líka allt í lagi að koma heim og gera ekki neitt.
 
Ég horfði á kaktusinn og var undrandi yfir þessari blómadýrð sem var á leiðinni. Þessi kaktus blómstraði líka snemma í vetur og ég átti ekki von á neinum blómum aftur fyrr en næsta vetur. Ég minntist orða Susanne um helgina fyrir tveimur vikum þegar hún stóð hjá þessum kaktusum og bað mig að koma þangað inn. Þegar ég kom þangað sagði hún með mildri röddu að kaktusunum þætti vænt um að fá vatn öðru hvoru, ekki að ég skvetti bara á þá nokkrum dropum, heldur að ég helti gætilega á þá vatni öðru hvoru og talaði við þá um leið. Svo gæti ég alltaf öðru hvoru þar inn á milli talað við þá og þá liði þeim betur. Hefurðu gert þetta áður spurði ég og hún sagðist hafa gert það í fyrstu heimsókn sinni á Sólvelli skömmu fyrir jól.
 
Ég horfði á blómknappa sem þá voru rétt að myndast og hugsaði að það væri þess vegna sem þeir væru að blómstra aftur núna. Svo kom hún enn einu sinni um síðustu helgi og vökvaði kaktusana og líklega hefur hún talað við þá um leið þó að ég yrði þess ekki var. Það er orðið langt síðan önnur kona talaði við þessa kaktusa og síðan hefur enginn talað við þá og ég hef hvað eftir annað verið á leiðinni með að henda þeim.
 
Nú í kvöld sat ég þarna á rúmstokknum og horfði á þessi fíngerðu blóm sem þegar voru komin og önnur sem voru alveg að springa út. Í þessum hugleiðingum var ekki auðvelt að vera í óánægjukasti eða einhverri fýlu og ég sneri mér að kaktusinum við hliðina, kaktusinum á hinum sólbekknum.
 
Hann var ekki kominn jafn langt en hann var vissulega á leiðinni og þarna voru svo ótrúlega fallegir blómknappar. Ég sótti myndavélina og ákvað að gera nú eitthvað verulega gott úr þessu kvöldi. Þegar ég skoðaði myndirnar fannst mér þær betri en ég átti von á og þó sérstaklega þessi. Svo byrjaði ég að skrifa þó að jakkinn minn og vetrarjakkinn lægju ennþá í hægindastólnum og nú næstum við hliðina á mér. Ég sá ekki eftir því að hafa unnið mig þreyttan og ég sá ekki ekki eftir því að hafa allt í einu í morgun lofað að vinna á mánudaginn líka og fram á þriðjudagsmorgun. Ég hef allan morgundaginn til að hlaða viðnum í bílinn og áður en ég fer í vinnu á mánudaginn verð ég búinn að koma viðnum til skila í Stokkhólmi, búinn að heimsækja Hannes og fjölskyldu og taka Susanne með mér til að kynna hana fyrir  fólki.
 
Ætli ég að ná mynd af Susanne verð ég helst að gera það henni að övörum. Þessa mynd tók ég af henni á sunnudaginn var, henni alveg að óvörum, eftir að við vorum búin að vera í pönnukökukaffi hjá Auði og Þóri. Þá var hún líka búin að biðja mig að koma einu sinni enn að kaktusunum til að biðja mig að taka eftir því að þeir væru þakklátir fyrir að hellt væri með gætni á þá vatni og talað við þá um leið. Hún er þarna að búa sig undir að skrifa verkefni um heimahjúkrun, nám sem reynir oft á, enda er hún í fulli strarfi við að hjúkra fólki í heimahúsum um leið. Meðan ég er að skrifa þetta er hún á fullri ferð milli húsa í Västerås til að búa fólk undir nóttina. Ég segi oft að það er mikil náðargjöf fyrir þá sem þurfa á því að halda að það er til fólk sem vill gera þetta og ekki síst þegar það er gert af mikilli hlýju.
 
Þegar Susanne kom í hús til 91 árs gamallar konu um daginn var sú kona að horfa á þátt með Jerry Williams þar sem hann söng með miklum tilþrifum rokklag frá sjötta áratugnum. Mikið væri gaman að rokka núna sagði gamla konan og dillaði sér í stólnum. Susanne lagði frá sér vetrarjakkann og svo dönsuðu þær. Þannig getur heimahjúkrunin gert líka, að dansa við gamla konu til að gleðja hana.
RSS 2.0