Gönguleiðin er fundin

Við Susanne fórum í gönguferð í gær, svolíti öðru vísi gönguferð. Það er þekkt hér á bæ og meðal þeirra sem hér koma til að stoppa að það vanti skemmtilega gönguleið, helst þar sem hægt er að fara ákveðinn hring. Ekki bara þar sem gengin er ákveðin leið ákveðna vegalengd og svo sama leið til baka. Vissulega er ákveðinn 2,8 km hringur sem fólk gengur hér en hann liggur eftir vegum sem eru að hluta malbikaðir. Þetta er fínn hringur en verður tilbreytingarlítill eftir svo sem hundrað fyrstu ferðirnar.
 
En aftur að gönguferðinni í gær. Við gengum veg örstutt stutt hérna heiman að sem liggur gegnum akurland að skógarjaðri austan við Sólvelli, og eftir þeim vegi örstuttan spöl inn í skóginn. Þar beygðum við af leið til hægri, gengum á plönkum yfir skurð sem er við veginn og að því er virtist bara inn í hreinan frumskóg. Eftir eina hundrað metra komum við að vegi sem ég hef heyrt um og kallast Munkastígurinn. Það er kannski skrítið að ég segi það, en þó að þetta sé kannski tæpan kílómeter héðan að heiman, þá hef ég aldrei komið þangað áður. Það var eiginlega fögnuður fyrir mig að koma inn á þennan veg. Myndina tók ég þegar við vorum ný komin inn á Munkastíginn.
 
Vegurinn er örlítið keyrður og þá af þeim sem eiga skóg þarna en hann er alveg frábær gönguleið. Það eru margar mjúkar beygjur á honum og það er svo skemmtilegt með beygjur á vegum í skógi að hver beygja kallar á að fara að henni og sjá hvað tekur við. Og hvað tekur svo við? Jú, vegarspotti að næstu beygju.
 
Vegaspotti að næstu beygju er ekki alveg rétt orðað hjá mér og ég kvarta aldrei yfir því að sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Að vera í skógi er notalegt og Susanne finnst það sama. Á þessari mynd sjáum við að skógarjaðri þar sem skógur hefur verið felldur fyrir nokkrum árum. Þar hefur ekki verið gróðursett á ný, náttúran hefur fengið að sjá fyrir því og nýju trén eru í fyrsta lagi furur. Naktir stofnarnir í skógrjaðrinum bakvið mig segja að þeir voru til skamms tíma mitt inn í skógi. Gamall skógarjaðar er hins vegar grænn niður undir jörð.
 
 
Hér sjáum við inn í vel hirtan nytjaskóg og þá sést langt inn í skóginn. Á slíkum svæðu má reikna með berjum af ýmsu tagi.
 
Hér er minna vel hirtur skógur, lélegt berjaland og illt yfirferðar. Hins vegar er sá skógur meira ekta og er forvitnilegur á margan hátt. Hvað ætli leynist þarna á bakvið er spurning sem oft vaknar á svona stöðum.
 
Þarna erum við á heimleið og við sjáum að næstu beygju eins og annars staðar á þessum vegi. Við fórum í gönguferð eftir Munkastígnum í dag líka og hann var álíka forvitnilegur í dag og í gær. Svona leið er róandi, bætir manninn hjá þeim sem þykir vænt um skóginn svo ég tali nú ekki um heilsufarið. Við ætlum að ganga Munkastíginn á morgun líka, rannsaka hann betur og það er nefnilega svo að það liggja frumlegir stígar út frá honum og ég er viss um að innan skamms verðum við búin að finna leið til að fara hring þarna í stað þess að ganga sömu leiðina fram og til baka.
 
Og bara svo að þið vitið sem hafið gist Sólvelli og allir hinir líka; leiðir liggja til allra átta.
 
RSS 2.0