Morgunstund í Östersund

Ég fór frekar snemma á stjá í morgun og byrjaði á því að skoða myndir sem ég hef tekið síðustu dagana. Að fara yfir þessar myndir var upprifjun á því ferðalagi sem við Susanne höfum átt saman síðan 20. júlí þegar við lögðum af stað að heiman áleiðis norður í Jämtland. Nú erum við í Östersund og Östersund er álíka norðarlega og Vestmannaeyjar. Að vera í Östersund segir jú að ég hef komið upp í miðja Svíþjóð því að þessi bær er nokkuð nálægt því að vera í Svíþjóð miðri, bæði frá suðri til norðurs og frá austri til vesturs. Hafi ég draum að skoða megin hluta Svíþjóðar á ég mikið eftir þar sem ég hef á tuttugu og einu ári farið lauslega yfir helminginn af landinu.
 
Það er útsýnisturn á Frösön sem er eyja í Storsjön, en Östersund stendur við Storsjön, fimmta stærsta stöðuvatn í Svíþjóð. Storsjön hefur marga ála og sund sem teygja sig ótrúlega fagurlega um skógi vaxið hnjúkótt landslagið. Á Frösön stendur svo hluti af Östersund. Myndina tók ég í gær þegar við Susanne vorum upp í þessum turni, vorum þar lengi, fengum okkur góðar veitingar og vorum uppnumin af því sem við sáum. Við sáum fjall sem heitir Åreskutan og er skammt norðan við þekkta skíðastaðinn Åre. Åreskutan blasti mjög vel við í 80 km fjarlægð. Minna áberande var Snåsahögarna sem eru inn í Noregi og í 115 km fjarlægð en þeir sáust þó vel þangað til skúraleiðingar drógu inn yfir fjallakeðjuna.
 
 
Þessa mynd tók ég af veröndinni á bústaðnum sem við bjuggum í á Kolåsen upp í fjalllendinu um 30 km fjarlægð frá norsku landamærunum. Kolåsen er 50 til 60 km norðar en Östersund og ég giska því á að hann sé álíka norðarlega og Fljótshlíðin. Bústaðurinn sem við bjuggum í þar er í tæplega 500 metra hæð yfir hafi. og mikill og all hár laufskógur var þar uppi blandaður með stöku greni og furutrjám. Þessi gróður heillar mig gersamlega. Í þessari hæð klæðir skógurinn lægri fjöllin yfir efstu toppana sem mér finnst alveg dásamlegt að sjá. Svo voru önnur fjöll upp í 800 metra hæð og mikið meira og þar eru enn skaflar. Á myndinni má greina blágresið í lággróðrinum.
 
Veðrið hefur leikið við okkur. Við höfum fengið margar útgáfur af veðri en alltaf hefur verið logn. Það hefur verið suddarigning og það hefur verið úrhellisrigning en í fyrsta lagi hefur verið þurrt í lofti og oft glampandi sól, það hefur verið stuttskyrtuveður. Skógar og annar gróður er afar frísklegur og grænn þar sem vætan er meiri en í meðalári.
 
 
Að lokum er hér til gamans ein nærmynd af blágresi tekin nálægt kapellu á Kolåsen sem á vegskilti er kölluð Lappakapellan. Lappakapellan væri efni í heilt blogg. Að dvelja á stað eins og Kolåsen sem er á mörkum óbyggðanna verður fyrst gott ef maður setur sig inn í söguna og aðstæðurnar. Því erum við búin að kaupa bók um þennan stað sem á að vera kominn í pósthauginn sem bíður okkar heima.
 
Nú bíður okkar að borða síðbúinn morgunverð sem við sjáum um sjálf og svo bíður góða veðrið okkar og trúlega sigling með gufubáti á Storsjön.

Að berjast fyrir landið sitt

Við Susanne vorum á leið norður á bóginn frá Orsa í Dölunum til Sveg í Härjedalen þar sem við áttum pantað lítið huggulegt hús til að gista í eina nótt. Susanne er góður bílstjóri, hefur gaman af að keyra bíl og mér er ljúft að láta hana um að keyra. Svo hvíli ég hana inn á milli. Í þessum áfanga er farið um 125 km langan veg sem svo sannarlega liggur óslitið í gegnum skógi vaxið landssvæði. Staður einn sem líklega liggur nokkuð miðja vega á þessari leið heitir Noppikoski. Þetta eru einungis fáein hús mitt í skóginum og að koma þangað er alls ekki að koma út úr skóginum. Þar stoppuðum við vegna þess að þar eru snyrtingar sem eru mikilvægar fyrir þá sem eru á langri ferð.
 
Nokkra kílómetra norðan við Noppikoski sagði Susanne snögglega; nei, þarna er orkuver. Þá var hún þegar komin framhjá skiltinu. Langar þig til að sjá það spurði ég og hún hafði áhuga fyrir því. Endilega sagði ég, en ég veit varla hvers vegna ég fékk allt í einu svo sterkan áhuga fyrir að sjá sænskt raforkuver. Hún sneri við við næsta mögulega tækifæri og svo fórum við inn á þriggja kílómetra langan malarveg sem liggur að uppistöðulóni þar sem stendur á skilti "Nappikoski kraftverk".
 
Það má segja að þegar við komum þangað hafi við orðið þess áskynja að þar væri ekki svo mikið að sjá. Sjálft stöðvarhúsið var einhverjum kílómetrum neðar. Steinsteypta stífluna sáum við varla vegna þess að hún var mikið til hulin undir brú sem liggur yfir árgljúfur sem hefur verið gert að uppistöðulóni. Við röltum yfir brúna eins og af rælni og svo til baka. Þá sá ég nokkuð sem vakti áhuga minn.
 
 
Stuttu neðan við stífluna var dálítill pollur eða tjörn, kannski á stærð við fáein íbúðarhús, og þar eftir tók við uppþornaður árfarvegur þar sem rauðbrúnir steinar lágu næstum eins og einir og yfirgefnir. Þetta vakti upp minningar.
 
Þegar ég var um tvítugt og árin þar á eftir var mikið um fréttir í íslenskum fjölmiðlum um mótmælaaðgerðir i Svíþjóð. Mótmælin þá fólust í því að trufla sem allra mest framkvæmdir við byggingu nýrra orkuvera. Fólk safnaðist saman og njörvaði sig fast við vinnuvélar, stórgrýti og hvaðeina það sem þurfti að hreyfa við þegar vinna hæfist. Fólk raðaði sér og lá þar sem tæki furftu að fara um og gerði sem sag allt sem það mögulega gat til að vera fyrir og trufla.
 
Ekki man ég gerla hvaða áhrif þessar fréttir höfðu á mig en ég er viss um að ég var undrandi. Ég er líka viss um að mér þótti það mikil dirfska að gera þetta og ég held að ég hafi sveiflast milli þess að telja að orkuverin væru mikilvægari, en líka að þetta fólk berðist fyrir mikilvægum málstað sem ég skildi ekki. Þar sem við Susanne stóðum þarna á brúnni fann ég mig knúinn til að segja henni frá þessu, en hún er það mikið yngri að hún man ekki eftir þessu virkjanastríði. Og eitt er víst að við það að segja henni frá þessu og að vera þarna á staðnum og sjá með eigin augum aðstæðurnar, það fékk mig að skilja til fullnustu hvað málið snerist um. Gamla laxveðiáin hafði verið þrrkuð upp.
 
Þetta minnti mig líka á frétt sem ég sá í sjónvarpi fyrir nokkrum árum þar sem sýnt var hvernig eldri menn á vöðlum upp að mitti króuðu laxa af neðan við stíflu við uppistöðulón. Þeir böxuðu við að handsama laxana og setja þá í plastkör með vatni í. Síðan fluttu þeir laxana upp fyrir stífluna, hversu langt man ég ekki, en þar áttu þeir að hrygna og sjá til að það yrðu til seiði ofan mannvirkjana. En þeir vissu líka að flest seiðin sem mundu komast á legg mundu enda líf sitt í túrbínum raforkuversins þannig að þessi vinna þeirra mundi ekki skila svo markverðum árangri. Kannski voru þar á ferðinni einhverjir mannanna sem áratugum áður létu keðja sig fasta við risastórar skurðgröfur vegna þess að þeir vildu að landið ætti áfram fossa og flúðir og að laxinn fengi að halda áfram að hrygna í sænskum ám.
 
En hvað sem öllu líður og hversu veikt eða sterkt minni mitt er um þessa atburði, þá er eitt víst að hugarfar Svía breyttist svo mikið við aðgerðirnar að mönnum dettur ekki í hug í dag að reyna að virkja hvernig sem er og hvar sem er. Samt er til mikið af vatni og fallhæð sem hægt er að virkja og það finnast líka kraftar sem gjarnan vilja virkja.
 
Morguninn eftir heimsóknina til uppistöðulónsins fékk ég sendan hlekk á Feisbókinni frá íslenskri konu sem býr í Svíþjóð, henni Evu, og hafði ekki hugmynd um hvað ég hafði aðhafst eða hugsað daginn áður. Þessi hlekkur leiddi mig svo fram til greinar sem höfundurinn Árni Snær kallar "Í landi hinna klikkuðu karlmanna". Mikið varð ég hissa þegar ég las þessa grein svona alveg í kjölfar upplifana minna og hugleiðinga daginn áður.
 

Ferðast þar sem skógurinn virðist endalaus.
 
 
Þetta var útsýnið meðan ég skrifaði og ég undi glaður við það. Það rigndi og það var notalegt, annars hefði ég verið meira á ferðinni. Ég lærði í brúarvinnu á sjötta áratugnum að regnið er róandi og gefur tilfinningu fyrir að ég hafi allt lífið framundan. Þannig er það líka í dag.

Kvöldþankar frá byggðarlaginu Mattmar, Jämtland í Svíþjóð

Ég sit norður í Jämtland hjá nágrönnum sem ég hef ætlað að heimsækja lengi. Þessir nágrannar eiga hér sumarhús sem líka gæti vel verð heilsárs hús. Að heimskja þetta fólk hingað var komið upp þegar á síðustu árum Valdísar en það bara varð ekki. Ég var líka búinn að vera með það í huga að ferðast norður til héraðs sem heitir Härjedalen. Ég hafði lesið talsvert um þetta hérað og hreifst af ýmsu þar sem mig langað að sjá með eigin augum. Ég bloggaði fyrir sjö árum um áhuga minn fyrir Härjedalen og eiginlega gerði ég heil mikið mál af þessum áhuga mínum. Við Valdís, Rósa og Pétur skoðuðum árið 2007 Härjedlashús á Skansinum í Stokkhólmi. En ég fór aldrei norður þangað.
 
Það var um miðjan vetur sem við Susanne byrjuðum að tala um ferð norður í land. Hún er dálítið kunnug í Jämtland og því byrjaði umræðan fljótlega að snúast um ferð þangað og þá kom þetta upp á ný með að heimsækja nágranna þar sem við erum núna.
 
Ferðin að heiman og hingað upp er um 550 km og meira en helmingur hennar liggur gegnum gríðarleg skógarlönd. Ég hef heyrt sagt að maður sjái ekki skóginn fyrir trjánum en slíkt truflar hvorugt okkar. Við vitum bæði að skógur gerir veðráttu mildari og að búa við gott veður er okkur mikilvægara en að sjá langt til allra átta. En það er líka svo víða sem hægt er að sjá langt til og útsýni yfir skógi vaxin fjöll og fyrnindi er mikið fallegt útsýni.
 
 
Þessi útsýnisturn er rétt hjá stað sem heitir Rättvik og er við norðausturhorn vatnsins Siljan í dölunum. Turninn er 28 metra hár og býður upp á mikilfenglegt útsýni. Ég kom þangað upp í fyrsta skipti sumarið 1996.
 
 
Þessa mynd tók ég frá útsýnisturninum Vidablick á leiðinni upp í Jämtland á mánudaginn var. Fjöllin fjærst við sjóndeildarhring eru í 60 km fjarlægð. Á myndinni sést hluti af bænum Rättvik og smá horn af vatninu Siljan. Allt land sem sést á þessari mynd er grænt og mest af því er skógi vaxið. Þegar ég kom þangað upp í fyrsta skipti árið 1996 varð ég klökkur af að sjá allan þennan gróður. Ég hafði aldrei áður gert mér í hugarlund að svo óslitinn gróður á svo stóru svæði væri til.
 
 
Þessa mynd tók ég einnig frá turninum Vidablick og þarna sjáum við suðurströnd Siljan. Allt land er gróið og grænt og það heillar mig.
 
 
Þessi mynd er líka tekin frá útsýnisturni sem er upp í Jämtland, stutt frá þar sem við dveljum núna, langt norðan við Rättvik og Vidablick. Fjall eitt sem ég get ekki bent á á þessari mynd en sést vel frá turninum með berum augum er í 91 km fjarlægð. Hér erum við komin það langt norður að skógurinn vex ekki lengur yfir hæstu fjallatoppana, en mörg þeirra eru um og yfir 1000 metra. Að öðru leyti er allt skógi vaxið sem ekki er byggðir eða akurlönd.
 
 
Þar sem ég sit núna og skrifa þetta hef ég þetta útsýni frá suðurglugga. Á föstudagsmorgun förum við norðvestur á bóginn þar sem land liggur hærra. Mig grunar að þar fái ég að sjá skóga sem líkjast þeim skógum sem mig dreymdi oft um að ættu að klæða Ísland. Við sjáum hvað setur, hvort ég get birt myndir af því. Skógi vaxið land er gott land og fer vel með íbúana sína.

Bloggið sem ekki varð af

Það var föstudagurinn 3. júlí og ég var í vinnu rétt einu sinni. Veðrið var eins gott og það bara getur best orðið á fallegustu sumardögum. Stærstur hluti sjúklinganna var á AA fundi inn í Vingåker en hinir, þeir sem voru á náttfötum og slopp, horfðu á mynd tengda meðferðinni. Ég tók myndavélina og gekk frá einum glugganum til annars og mér fannst sem ég væri löngu búinn að taka margar myndir frá öllum þeim sjónarhornum sem Vornes ætti í fórum sínum. Það var síðdegi, eitthvað það fallegasta sem þetta sumar hafði boðið upp á og nú var ég ákveðinn í að taka myndir fyrir blogg þar sem ég ætlaði að lofsyngja sumarið. Það ætlaði ég að gera þegar ég kæmi heim daginn eftir, á laugardegi.
 
Svo kom ég heim daginn eftir, fannst ég vera þreyttur og vorkenndi mér, vökvaði mikið, hreinsaði illgresi og fór snemma að sofa. Daginn eftir hélt helgarvinnan áfram. Nú sit ég í Vornesi á miðvikudagskvöldi og aldrei slíku vant er ég að vinna venjulega dagvinnu í fjóra daga. Því gisti ég hér. Susanne er á mínum bíl í Katrineholm hjá vinum, ættingjum og gömlum nágrönnum frá því fyrir löngu. Við spöruðum annan bílinn og ég er bíllaus, enda eins gott því að annars hefði ég farið á flakk og ekið eitthvað og farið mikið lengra en ég hefði ætlað mér fyrir brottför. Ég er bra þannig ef ég fer einn út að aka.
 
 
Ég reyndar tók myndir þarna á föstudaginn í síðustu viku og á leiðinni heim var ég eins og beintengdur við sænska sumarið og orðin og setningarnar flæddu fram í huga mér. Ég fann að það væri mikilvægt að skrifa það niður strax og ég kæmi heim en ég gerði það ekki. Nú er ég að reyna að komast í sömu stemmingu og ég var í þá. Komast í sömu stemmingu og finna sömu orðin en það er ekki svo einfalt
 
Vornesmyndin hér fyrir ofan er svipuð svo mörgum slíkum sem ég hef notað gegnum árin. Árin hér eru orðin nítján og hálft og það var svo sannarlege ekki meiningin. Stundum er ég að tala um að hætta alveg og stundum held ég að ég meini það en oftast er það bara í nefinu á mér. Ég fæ uppörvanir frá ýmsum um að hætta ekki að vinna og jafnvel viðvaranir frá öðrum um að það væri varsamt fyrir mig að hætta. Í gær fékk ég að heyra um konu norður í landi sem var 89 ára. Hún sér um tuttugu ungneyti og sinnir þeim þrisvar á dag. Þar fyrir utan sér hún um mat fyrir nokkrar manneskjur og svo er hún eldhress. Fyrr má nú aldeilis fyrr vera. En hvað um það, hér er ég enn og mun verða eitthvað um skeið. Ég kem samt ekki til með að vinna rúmlega hálfa vinnu á þessu ári eins og því síðasta.  Ég vil hafa tíma til að blogga ásamt hinu öllu sem ég þarf að gera og er ótakmarkað.
 
 
Þetta er sumarmynd frá Vornesi. Þegar ég hofri núna á þessa mynd nálgast ég svolítið steminguna sem ég komst í snertingu við á leiðinni heim á laugardaginn var. Ég hélt á fyrstu árunum í Svíþjóð að sænska sumarið kæmi upp í vana en það gerir það ekki. Sænska sumarið er ennþá jafn mikið kraftaverk og það var fyrstu árin. Að vera á ferðinni á sólríkum sumardegi í veðri eins og var þegar þessi mynd var tekin, það er að vera með um mikið. Það var meira en hlýtt þá, það var á bilinu að vera milli hlýtt og heitt. Að vera umvafinn þessum hita, baðaður í geislum sólarinnar, njóta alls þessa græna laufhafs og gróðurs, horfa yfir akurlönd, sjá skógarjaðra nálgast álengdar, koma inn í djúpan skóg og síðan út á akurlöndin aftur, innan um trjáþyrpingar og gömul, stök eðaltré með ótrúlegar krónur, það er að vera með í einhverju. Á laugardaginn var, var það fyrir mér eins og að vera í faðmi einhvers, umvafinn örmum hlýjunnar og umhyggjunnar og bara að fá að vera með og hvíla. Landið sem ég bý í vefur mig oft örmum sínum og vaggar mér í svefn þegar ég er þreyttur. Þá þykir mér mikið vænt um þetta land.
 
 
Þegar ég kom heim var mitt fyrsta verk að ganga upp á pallinn og taka mynd af skóginum bakvið húsið. Ég ætlaði að bera þá mynd saman við myndirnar frá Södermanland, þær fyrir ofan. Skógarnir í Södermanland og í Krekklingesókn eru ekki eins. Ég hef oft veitt því athygli.
 
 
Svo gekk ég fáeinum skrefum lengra og tók aðra mynd. Stundum finnst mér skógarnir í Södermanland vera fallegri en skógarnir í Krekklingesókn en ég get samt ekki almennilega viðurkennt það. Ég segi bar að Sólvallaskógurinn sé alveg að því kominn að verða fallegastur. Ég hef dekrað við hann, grisjað hann, verið góður við hann og leyst hann úr viðjum óræktar og hann er á leiðinni með að endurgjalda stritið.
 
 
Svo sneri ég mér að illgresinu. Ég vökvaði fyrst og lagðist svo á hnén og sleit og sleit burtu óvelkominn gróður. Það er í þriðja sinn síðan í vor sem ég geri það og ég hefði þurft að gera það eins og einu sinni í viðbót fyrr á sumrinu.
 
 
Svo þegar ég var búinn að hreinsa vökvaði ég aftur og sáði fyrir grænmeti sem er fljótt að skila sér á diskana. Þegar ég byrja á þessu á ég erfitt með að hætta. Það er nefnilega ekki svo leiðinlegt að hreinsa illgresi sem ég held að það sé áður en ég byrja.
 
 
Susanne segir hins vegar að það sé alveg hræðilegt að hreinsa illgresi. En hún er uppfinningarík þegar kemur að því að bera fram léttan kvöldverð. Sumt sem er á borðinu kemur frá grænmetisbeðunum. Meðan við borðuðum brosti skógarjaðarinn við okkur og það var friðsælt kvöld á Sólvöllum.
 
Bloggið sem ég ætlaði að skrifa þá er ég að skrifa núna og orðin eru ekki þau sömu, uppröðunin er ekki sú sama og meiningin hefur einhvern veginn þynnst út. En svona er það þegar ég skrifa ekki á réttu augnabliki það sem hugurinn býr yfir. Jörðin heldur samt áfram að snúast.
 
 
Milli þess sem ég skrifaði þetta fór ég í gönguferð, tvo hringi hér um svæðið, og þá lá leiðin út gegnum þessi trjágöng.
 
 
Og á meðan ég var að skrifa þetta sat ég við glugga á gömlu skrifstofunni minni, þeirri sem ég hafði þrjú síðustu árin sem fullvinnandi maður hér í Vornesi. Útsýnið frá þessum glugga er það sem myndin sýnir. Sá sem hefur þessa skrifstofu í dag er í sumarfríi og mun kannski aldrei vita að ég fékk stólinn hans lánaðan. Frá og með næstu helgi mun ég ekki koma hér í þrjár og hálfa viku. Ég ætla að leika mér. Við Susanne ætlum upp í norðlægari hluta Svíþjóðar og hafa það gott þar.
RSS 2.0