Morgunstund í Östersund

Ég fór frekar snemma á stjá í morgun og byrjaði á því að skoða myndir sem ég hef tekið síðustu dagana. Að fara yfir þessar myndir var upprifjun á því ferðalagi sem við Susanne höfum átt saman síðan 20. júlí þegar við lögðum af stað að heiman áleiðis norður í Jämtland. Nú erum við í Östersund og Östersund er álíka norðarlega og Vestmannaeyjar. Að vera í Östersund segir jú að ég hef komið upp í miðja Svíþjóð því að þessi bær er nokkuð nálægt því að vera í Svíþjóð miðri, bæði frá suðri til norðurs og frá austri til vesturs. Hafi ég draum að skoða megin hluta Svíþjóðar á ég mikið eftir þar sem ég hef á tuttugu og einu ári farið lauslega yfir helminginn af landinu.
 
Það er útsýnisturn á Frösön sem er eyja í Storsjön, en Östersund stendur við Storsjön, fimmta stærsta stöðuvatn í Svíþjóð. Storsjön hefur marga ála og sund sem teygja sig ótrúlega fagurlega um skógi vaxið hnjúkótt landslagið. Á Frösön stendur svo hluti af Östersund. Myndina tók ég í gær þegar við Susanne vorum upp í þessum turni, vorum þar lengi, fengum okkur góðar veitingar og vorum uppnumin af því sem við sáum. Við sáum fjall sem heitir Åreskutan og er skammt norðan við þekkta skíðastaðinn Åre. Åreskutan blasti mjög vel við í 80 km fjarlægð. Minna áberande var Snåsahögarna sem eru inn í Noregi og í 115 km fjarlægð en þeir sáust þó vel þangað til skúraleiðingar drógu inn yfir fjallakeðjuna.
 
 
Þessa mynd tók ég af veröndinni á bústaðnum sem við bjuggum í á Kolåsen upp í fjalllendinu um 30 km fjarlægð frá norsku landamærunum. Kolåsen er 50 til 60 km norðar en Östersund og ég giska því á að hann sé álíka norðarlega og Fljótshlíðin. Bústaðurinn sem við bjuggum í þar er í tæplega 500 metra hæð yfir hafi. og mikill og all hár laufskógur var þar uppi blandaður með stöku greni og furutrjám. Þessi gróður heillar mig gersamlega. Í þessari hæð klæðir skógurinn lægri fjöllin yfir efstu toppana sem mér finnst alveg dásamlegt að sjá. Svo voru önnur fjöll upp í 800 metra hæð og mikið meira og þar eru enn skaflar. Á myndinni má greina blágresið í lággróðrinum.
 
Veðrið hefur leikið við okkur. Við höfum fengið margar útgáfur af veðri en alltaf hefur verið logn. Það hefur verið suddarigning og það hefur verið úrhellisrigning en í fyrsta lagi hefur verið þurrt í lofti og oft glampandi sól, það hefur verið stuttskyrtuveður. Skógar og annar gróður er afar frísklegur og grænn þar sem vætan er meiri en í meðalári.
 
 
Að lokum er hér til gamans ein nærmynd af blágresi tekin nálægt kapellu á Kolåsen sem á vegskilti er kölluð Lappakapellan. Lappakapellan væri efni í heilt blogg. Að dvelja á stað eins og Kolåsen sem er á mörkum óbyggðanna verður fyrst gott ef maður setur sig inn í söguna og aðstæðurnar. Því erum við búin að kaupa bók um þennan stað sem á að vera kominn í pósthauginn sem bíður okkar heima.
 
Nú bíður okkar að borða síðbúinn morgunverð sem við sjáum um sjálf og svo bíður góða veðrið okkar og trúlega sigling með gufubáti á Storsjön.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0