Enn um að hætta að vinna

Já, í síðasta bloggi talaði ég um hvernig það hefði verið að vakna síðasta reglubundna vinnudaginn minn í Vornesi. Á leiðinni í vinnuna þennan dag hugsaði ég mikið um ýmsa fyrrverandi sjúklinga í Vornesi og einnig vinnufélaga mína. Ég hugsaði um hvernig það var að hætta í þeim störfum sem ég hef hætt í áður. Í þetta skipti var það einhvern veginn allt öðruvísi. Í gær sátum við á því sem við köllum ráðgjafafund sem alltaf er síðasta sameiginlega stundin á fimmtudögum. Akkúrat þegar ráðgjafafundinum lauk komu þær Gunvor og Birgitta forstöðukona. Ég sá að þær vildu ná sambandi við mig. Gunvor er 67 ára og búin að vinna á skrifstofunni í Vornesi í rúmlega 30 ár. Hún er tveimur árum eldri en ég. Hún hefur skammað mig og hún hefur verið mér hjálpleg, til dæmis þegar ég hef þurft að skrifa eitthvað sem þarf að vera skrifað á góðri sænsku. Hún hefur verið fúl út í mig og hún hefur haft svo gaman af að segja mér frá börnum sínum og barnabörnum og sýna mér myndir af þeim. Þar sem ég mætti þeim nú leit Gunvor á mig og sagðist ekki verða í Vornesi á morgun, minn síðasta dag, svo að hún vildi kveðja núna. Birgitta gekk svolítið til baka til að gefa Gunvor eftir stundina. Svo kvöddumst við, Gunvor og ég, en ákváðum að við skildum ekki tapa alveg hvort af öðru. Svo bara stóð Gunvor þarna og horfði á mig og ekkert skeði. Ég skynjaði að hún var ekki tilbúin svo að ég sagði rólega: Gunvor, mér þykir vænt um þig. Ég sá hvernig henni vöknaði um augu á einu svo örstuttu augnabliki og hún sagði: Mér þykir vænt um þig líka. Nú var hún tilbúin að fara. Hún sneri sér við, gekk niður tröppur sem lágu að forstofunni, og svo sá ég á eftir henni ganga yfir hlaðið út að bílnum sínum. Stuttu síðar ók hún af stað áleiðis heim til Fiskibúda, lítið samfélag við sunnanverðan Hjälmaren og jafnframt einhver allra fallegasti staðurinn af mörgum fallegum sem liggja við strönd þessa stöðuvatns. Nú gekk Birgitta fram til að segja það sem hún vildi segja. Það fjallaði um að í tilefni af því að ég væri að hætta og að Gunvor og Ove mundu hætta eftir mánuð, þá ætlaði hún að fara með öllu starfsfólki í Vornesi og borða á einhverjum fínum veitingastað í fallegu umhverfi. Gunvor og Ove eru jafn gömul, tveimur árum eldri en ég, en völdu að vinna til 67 ára aldurs. Við erum sem sagt þrjú þau elstu á þessum vinnustað að hætta með fárra vikna millibili. Það eru miklar breytingar framundan. Þetta allt saman hugleiddi ég á leið i vinnuna og svo var ég frammi í Vornesi. Ég fann mjög vel að þessi dagur var öðruvísi dagur. Það var ekki bara að mér fannst það, ég sá að öllum fannst það. Við lukum við morgunfundinum og fólk gekk til sinna starfa. Svo kom einn og tók utan um mig og spurði hvort hann mætti heimsækja mig í stuguna. Já, auðvitað var hann velkominn. Svo kom annar og spurði hins sama og hann bauð ég líka velkominn. Sá sem tekur við starfinu mínu spurði hvort hann mætti hringja og auðvitað má hann hringja. Svo var komið að hálf tíu kaffinu. Ég gekk frá skrifstofunni minni niður í matsalinn og viti menn; á borðinu voru þrjár stærðar brauðtertur. Við vorum milli fimmtán og tuttugu þarna saman komin og það var dauðaþögn þegar ég var búinn að fá mér af einni brauðtertunni og settist við eitt borðið þar sem autt sæti fannst. Svo stóð upp sá sem tekur við af mér og byrjaði að segja að hann væri enginn ræðumaður. Hann þurfti alls ekki að vera betri ræðumaður en hann var. Hann afhenti mér gjafir sem þetta fólk hafði safnað fyrir með eigin framlögum. Þar á meðal gjafakort á verslun sem selur verkfæri. Þau vita hvað ég er að gera á Sólvöllum. Það var ekki erfitt fyrir mig að skynja að þessi kveðjustund var öðruvísi en áður, og að sjálfsögðu sérstaklega fyrir mig. Ég fann að ég naut meiri virðingar meðal vinnufélaga minna en ég hafði gert mér grein fyrir. Stundin var tilfinningasöm. Ég stóð upp og talaði til þessa fólks og síðustu orð mín til þeirra var að segja þeim hve vænt mér þætti um þau öll.

Nú er mál að linni um þessi efni.
Gangi ykkur allt í haginn. GB

Nýr áfangi

Í dag upplifi ég minn fyrsta dag sem ellilífeyrisþegi. Þó er það ekki alveg rétt. Ég er nefnilega í sumarfríi. Á fyrstu árum mínum í Vornesi safnaði ég upp sumarfrísdögum og þó að ég hafi reynt að eyða þeim aftur eftir að við keyptum Sólvelli, þá átti ég eftir sumarfrísdaga sem duga mér í frí til 30. apríl. Eftir það er ég í raun og veru löglegur.

Áður en ég held áfram vil ég segja að ég kíkti á blogg annarra til að sjá hvað þau skrifa um í sínum bloggum. Og viti menn; það eru margir sem bara segja frá sínu lífi á einfaldan og svo fínan hátt. Mér líkar það vel og vil gjarnan skipa mér í lið með þeim.

Í gærmorgun glaðvaknaði ég klukkan hálf fjögur. Það kom samstundis upp í huga mér að nú væri ég í síðasta skipti á leið í fasta vinnu. Ég fann óvissuna smjúga inn í hugarheim minn og ég fann að hjartslátturinn varð hraðari. Framundan voru ókunnar lendur á ferðalagi mínu gegnum lífið og svo hefur það verið áður og ég þekki til þess að jafnvel þó að ég sé viss um að nýjar, ókunnar lendur séu af hinu jákvæða, þá getur hið nýja vegval samt sem áður valdið mér óöryggi og hræðslu.

Enn aftur að þessu í gærmorgun þegar ég vaknaði aldeilis óþarflega snemma og varð órólegur. Mér varð hugsað til föstudags eins fyrir einum sjö til átta mánuðum. Það var sumar í Svíþjóð og sumarfrístími, á þeim árstíma þegar fólk gengur á stuttermaskyrtu, ljósum buxum og sandölum og er gjarnan berfætt. Þegar sólin er hátt á himni umhádegisbil og allt þetta græna haf drekkur í sig sólarljósið. Eikarnar, lindarnar, aspirnar, askarnir og tígullegar norrænar bjarkir ásamt fleiri trjátegundum teygðu laufkrónur sínar svo ótrúlega hátt mót himninum. Ég sat ásamt þremur öðrum í ákveðnu fundarherbergi á annarri hæð í Vornesi og horfði út um stóran glugga móti spegilsléttu vatninu Geringe sem glitraði milli trjákrónanna. Með mér var hann Tommy, svo góður 34 ára strákur, sem þá var lærlingur og hann vildi verða góður ráðgjafi sem hjálpar fólki sem hefur villst af leið. Þar var líka hún Annette, 54 ára kona sem hafði nýlega skrifast út úr ráðgjafaskóla, og hún hafði líka unnið hjá okkur áður. Annette er sprikklandi glöð manneskja sem hefur hjálpað mörgum sjúklingnum að finna vonina um betra líf. Með okkur var líka hún Helena, 47 ára gömul og fyrrverandi lögregluþjónn. Helena lítur svolítið gamaldags út en það klæðir hana ákaflega vel og ég hef svo oft séð hana ganga móti fólki sem á í erfiðleikum og mæta því á frábæran hátt. Öll þessi þrjú áttu það sameiginlegt að hafa enga ráðningu og enga trygginu um fast starf en þrá þeirra eftir þessu öryggi og að vera nytsamir samborgarar leyndi sér ekki. Við áttum mjög góða stund þarna saman og mér fannst að þau væru öll jafn gömul og væru 34 ára, en það var bara Tommy sem var á þeim aldri. Svo kvöddumst við og ég hélt heim á leið í helgarfrí en þessar tvær afleysingarmanneskjur og einn lærlingur áttu að sjá um húsið það sem eftir væri dags. Ég treysti þeim afar vel. Þegar ég ók út trjágöngin frá Vornesi hugsaði ég sterkt til þeirra, var þakklátur fyrir að þau voru til og fann allt í einu fyrir sterkri þörf fyrir að segja upp starfi mínu og þar með stuðla að því að þetta fólk fengi sitt tækifæri í lífinu. Þetta með að segja upp starfinu hugleiddi ég í fullri alvöru á leiðinni heim.

Ekki sagði ég upp starfi mínu þá þrátt fyrir allt, en þarna í gærmorgun þar sem ég lá órólegur í rúminu og hugsaði um þetta allt saman áttaði ég mig allt í einu á þvi að nú var stundin frammi fyrir okkur öll. Ég var að hætta vegna aldurs þó að ég hefði raunar getað unnið lengur. Annar yngri ráðgjafi tók við mínu starfi og þetta allt saman stuðlaði að því að þau sem mér fannst öll vera svo ung og einn undurfagran sumardag í fyrra, þau höfðu fengið ráðningu. Annette í fullu starfi og Helena og Tommy á hálfu starfi. Allt var eins og það átti að vera og sallarólegur fór ég á fætur og lagði svo af stað í vinnuna.

Það er mikið með þessi tímamót í lífi mínu og margt er ósagt.

Gangi ykkur allt í haginn. GB

Gamli maðurinn

Það er einn og hálfur dagur sem ég á eftir að vinna í Vornesi, á morgun og föstudaginn fram að hádegi. Reyndar veit ég að ég kem ekki til með að vinna neitt á föstudaginn. Ég sagði við hana Birgittu forstöðukonu í gær að ég mundi koma með tertu á föstudaginn og bjóða starfsfólkinu með hálftíu kaffinu. Birgitta rykkti til höfðinu og sagði að sér fyndist það bara della. Nei, sagði ég, og var svolítið að prufa mig fram, það væri lélegt ef það væri ekki terta með í kaffitímanum minn síðasta dag sem fastráðinn í Vornesi. Þá hallaði hún sér fram og sagði í háfum hljóðum að hún mætti ekki segja mér það, en þær í eldhúsinu ætluðu nefnilega að sjá um þetta og hafa það rausnarlegt. Þá vissi ég það. Svo hef ég orðið var við pukur í eldhúsinu. Vinnufélagarnir almennt eru að pukra með eitthvað líka og ég veit nokkuð hvað er í gangi. Í dag hafði ég minn síðasta fyrirlestur og allir sjúklingarnir voru vel meðvitaðir um það. Þegar ég var búinn með fyrirlesturinn óskaði ég þeim góðs gengis það sem eftir lifði dags og enginn stóð upp. Þau bara sátu þegjandi og horfðu vinalega á mig. Á ég að fara að grenja hugsaði ég. Nei, það varð nú ekki af því en ég fór að tala aftur um allt aðra hluti en fyrirlesturinn hafði fjallað um og eftir svolitla stund þakkaði ég þeim fyrir að þau fyndust. Þá klöppuðu þau svo lengi að það virtist aldrei ætla að linna. Svo kom fólk fram sem skrifaðist út fyrir all nokkru en var í reglubundinni endurkomu. Þau afhentu mér kort með góðum óskum, tóku utan um mig, klöppuðu mér á bakið, kreistu mig aðeins meira og þökkuðu mér fyrir að hafa komið inn í líf þeirra. Átti ég virkilega að fara að grenja!? gamli maðurinn. Nei, ég slapp, en ég fékk enn eina staðfestinguna á því að ég hef hitt mikið af góðu fólki í lífinu og stóran hluta af þessu fólki hef ég hitt í Vornesi. Ég er þakklátur. Það er makalaust hversu mikið af góðu fólki finnst meðal alkóhólista og eiturlyfjaneytenda. Óaðlaðandi undir áhrifum en makalaust fínt fólk í góðu standi. Það  er ekki alveg einfalt að hætta í Vornesi og það fylgir því mikill tregi. Hins vegar finn ég líka fyrir mikilli gleði yfir að verða frjáls. Þá er ég aðeins búinn að lýsa því hvernig upplifun það er fyrir ráðgjafa á meðferðarheimili að ganga inn í ellilífeyrisaldurinn.

Gangi ykkur allt í haginn. GB

Öðruvísi

Ég hef undanfarið litið á blogg bæði á Dagens nyheter og Morgunblaðinu og sé að þar blogga menn um pólitík og heimspekilega hluti og hvað það nú heitir allt saman. Við Valdís bloggum í fyrsta lagi um okkur sjálf. Kannski við séum bara svona ári montin. Nei, það var nú bara della að skrifa svona en ég eyði því nú samt ekki.

Ég vann heilan sólarhring í Vornesi um þessa helgi eins og fram er komið áður. Ég uppgötvaði að það er þræl gaman að vinna um helgar. Ég vissi það áður en var bara búinn að gleyma því. Það geta að vísu komið fyrir hlutir sem ekkert er gaman að en þannig er það á ölum sviðum. Einhvern tíma nefndi ég það þegar það rigndi svo mikið að holurnar sem ég hafði grafið á Sólvöllum háf fylltust aftur af aur og leðju. Það var heldur ekki svo mikið gman að því. En aftur um Vornes. Það er mikið af veiku fólki í húsinu núna og þetta fólk á það sameiginlegt að vera allt alkohólistar og eða eiturlyfjaneytendur. En það á fleira sameiginlegt. Það vill heils hugar breyta lífi sínu og verða að betra fólki, þetta er þakklátt fólk, samvinnuþýtt og auðvelt að þykja vænt um. Öll þessi atriði, og mörg fleiri mætti nefna, eru óvenju sterk um þessa helgi. Þess vegna var svo gaman að vinna frá hádegi í gær fram að hádegi í dag.

Það er skrýtið að hafa ekkert gert á Sólvölllum um helgina og jaðrar við samviskubit. En um næstu helgi getum við verið það og um þá helgi byrjar helgi sem stendur bara hversu lengi sem helst. Þó að ég ætli að vinna eitthvað eftir að ellialdurinn byrjar verður það ekki ráðandi í framtíðinni. Hingað til hefur það verið ráðandi að stunda vinnuna en nú á það að verða ráðandi að stunda svo margt sem hefur verið látið bíða síns tíma. Nú er þessi tími að ganga í garð.

Ég má til með að segja frá draumi sem fjallar um að hafa nógan tíma. Mig dreymdi að við Valdís vorum á Arlanda flugvelli og hvað við gerðum þar vissi ég ekki almennilega. En svo mikið er víst að ég vissi að Valdís sat inni í hinum stóru byggingum á vissum stað og drakk kaffi og las en ég var á rölti úti við og leitaði að bílnum okkar. Við vorum orðin mun aldraðri en við erum í dag og okkur lá ekkert á. Ég hafði á tilfinningunni að við værum um áttrætt. Ég fann fyrir mikilli innri ró og amstur heimsins olli mér ekki minnstu áhyggjum. Það ríkti mikill friður innra með mér. Ég vissi ekki hverrar sortar bíllinn okkar var, ekki hvernig hann var á litinn eða í útliti. Ég hafði heldur ekki minnstu hugmynd um hvar á þessum víðáttumiklu bílastæðum bíllinn var eða á hvaða hæð ef hann væri inn í bílastæðahúsi. Ég hafði ekki minnstu áhyggjur af þessu. Ég vissi að Valdís mundi bíða þangað ég kæmi til baka og í hendinni hafði ég lyklakippu. Það var svo einfalt að bara ganga með þessa lyklakippu um bílastæðin og þrýsta öðru hvoru á ákveðinn hnapp á einum lyklinum þangað til það myndi klikka í bíl. Þá væri bíllinn okkar fundinn og vandamálið leyst. Svo hélt ég áfram röltinu en velti því fyrir mér að það væri dálítið skrýtið að ég skyldi ennþá halda ökuskýrteininu mínu. Með þetta vaknaði ég og fann þá fyrir sömu innri ró og ég hafði haft í draumnum.

Gangi ykkur allt í haginn. GB

Kominn í gang á ný

Hún Rósa dóttir mín minnti mig á að blogga eftir langa þögn. Hún talaði líka um að ég gæti talað um eitthvað annað en magaveikina sem ég gerði að helstu frétt í síðustu viku. Nú er ég eldhress og get bara ekki fundið neitt við heilsu mína sem ég get kvartað yfir. Þá það. Annars eru ekki allir frískir því að ég kem til með að vinna um helgina frá hádegi á laugardag til hádegis á sunnudag. Og eins og alltaf er það yngra fólkið sem verður lasið. Reyndar er ég elstur af vinnufélögum mínum svo að það er kannski ekki undarlegt að þeir sem veikjast séu yngri. Konan sem átti að vinna er 48 ára og mér finnst hún vera MIKIÐ yngri en ég. Svo er einn 35 ára og hann er nú bara barnið mitt.

Þetta er væntanlega síðasta helgin sem ég vinn í Vornesi þar sem ég hætti þar á föstudag í næstu viku. Þá byrja ég sumarfrí sem stendur til 30. apríl og .þann 30. apríl líkur starfssamningi mínum þar. Þá hoppa ég út í lífið til að mæta nýjum ævintýrum í nýjum áfanga í lífi mínu. Ellilífeyrisþegi. Ef hringt verður til mín frá Vornesi og talað um neyðarástand vegna veikinda eða einhverra ófyrirsjáanlegra hluta í starfsmannamálum veit ég að ég mun eiga erfitt með að segja nei. Þá á ég við að taka fyrlestur, grúppu, samöl eða eitthvað í þeim dúr. En að fara þangað til að vinna nætur; nei, það er ekki freistandi og það vil ég láta yngra fólkið annast. Svo ekki meira um það.

Vegna þessarar helgarvinnu minnar í Vornesi verður engin vinna á Sólvöllum um helgina. Þá er eiginlega langt gengið. En við fórum á Sólvelli í dag ásamt svolitlum útúrkrókum. Við litum yfir vetvang nú þegar allur snjór er horfinn og farið er að þorna svolítið til. Við verðum að nota fyrstu dagana í ellilífeyri til að laga ærlega til í kringum húsið og á allri lóðinni. Allt mögulegt sem viðkemur byggingarframkvædum liggur í óreiðu hingað og þangað og mest af því bíður bara eftir að verða flutt á haugana. Svo er mikið að brotnum greinum um alla lóð sem taka verður höndum um. Vindarnir sem blésu í vetur, sérstaklega áður en kólnaði, sáu að vanda um að brjóta niður veikburða greinar. Það er bara nauðsynlegt viðhald sem annars þyrfti að vinna úr stiga.

Nú er það svo að klukkan á eftir fjórar mínútur í átta. Kl. átta byrjar menningarviðburður vikunnar í sjónvarpinu, Så skall det låta. Ég má ekki missa af þessu  og læt því staðar numið að sinni.

Gangi ykkur allt í haginn. GB

Fallinn í valinn

Ég hefði átt að láta það vera að monta mig af því hversu hraustur ég væri og hraustari en þeir yngstu á mínum vinnustað. Hver haldið þið að verðlaunin fyrir þetta mont hafi verið? Ég er heima á öðrum degi og er með vetrarælupestina. Reyndar leitaði innihaldið í hina áttina en mér sýnist að best sé að lýsa sjúkdómsástandi mínu ekkert frekar. Ég fór í vinnu á þriðjudaginn en hefði ekki átt að gera það. Ég var lélegur til heilsunnar þá með innvortis óþægindi á byrjunarstigi og lélegur launþegi þann dag, en það voru bara þrír aðrir veikir og einn var langt upp í landi og ekki um margt að velja. Ég var greinilega frískastur allra veikra í Vornesi þennan dag.

Og talandi um veikindi, þá geta þau orðið svo mikið alvarlegri en þetta. Um tíuleytið í gærmorgun hringdi hann Kjell vinnufélagi  minn. Ég vissi að hann hafði verið kallaður skyndilega í læknisviðtal eftir rannsókn sem fram fór nýlega og var hann nú að koma þaðan. Ég er með magakrabba sagði Kjell. Nú ber þess að geta að hann var ekki einn þessara veiku sem ég hef þegar talað um þar sem hann var í venjulegu fríi eftir að hafa verið á næturvakt. Kjell var búinn að tala mikið um hvað læknirinn vildi honum og grunaði hann sterklega um hvað var að ræða. Svo var það staðfest. Og hvað gat ég sagt þegar svona boðskapur gekk inn í eyra mitt gegnum símann? Ég sagði að ég hefði haldið að hann hefði þegar gengið í gegnum sinn hreinsunareld. Fyrir um tveimur árum var nefnilega ristillinn fjarlægður og það tók Kjell langan tíma að koma til heilsu á ný eftir það, og eftir að hafa líka verið lengi lélegur áður en þessi stóra aðgerð var framkvæmd. Ég er oft þakklátur fyrir heilsu mína og er það svo sannarlega núna þrátt fyrir smá helti við viss tækifæri. Kjell er einhver besti vinur minn í þessu landi. Hann var skráður í Íslandsferð seinna í mánuðinum en er nú búinn að afpanta þá ferð. Hann er vongóður og hefur fengið vitneskju um að horfur séu góðar, en létt er það ekki hvernig sem á það er litið.

Ég sit við suðurglugga og horfi móti Suðurbæjarbrekkunni sem er skógi vaxin. Það er þoka og ég sé aðeins daufar útlínur furu- og grenitoppanna upp á brekkubrúnunni. Niður á sléttunni undir brekkunni sést skógurinn betur. Þar er mest birki en ein og ein smávaxin fura stingur upp toppnum inn á milli. Birkið er þegar farið að vakna af vetrarsvefninum. Á hverju það sést get ég ekki svarað en það er breyting í gangi alla vega. Veðurspáin gerir ráð fyrir tíu stiga hita um helgi og enn meiri hita í næstu viku. Þar með mun lífið ganga móti vordögum og vexti með óstöðvandi krafti. Það krefur vinnu á Sólvöllum, ekki bara við byggingarframkvæmdir, heldur í skóginum líka. Ef draumurinn á að rætast um vel hirtan laufskóg á Sólvöllum verður að sinna því. Eftir nokkur ár vil ég geta setið ásamt Valdísi í tréstólum undir bústnum krónum lauftrjáa sem ég er meðvitaður um að við höfum hjálpað til að verða til. Það gerum við með því að útrýma villigróðri og með því að grisja. Að baki Sólvallaskóginum er nokkuð gamall greniskógur blandaður einstaka furu. Þess vegna getum við fellt grenitrén í okkar skógi og með því sleppt enn meiri birtu inn í laufskóginn. Ég vona að það geti átt sér stað fljótlega eftir næstu áramót og svo skal saga þessi grenitré niður í borð og planka sem síðan verða notuð til að byggja gestastuguna  ?ef Guð lofar. Og meðan engin öllur teikn eru á lofti höldum við okkar striki.

Gangi ykkur allt í haginn. GB

Ég get ekki láðið það vera......

Já, ég get ekki látið það vera að tala aðeins um Sólvelli. Í gær nefnilega lokaði ég því síðasta sem hægt var að loka af útveggjum á því mikla setri. Svo þegar það var búið gekk ég um kring og ætlaði að byrja á því að innrétta. En þá áttaði ég mig á því að ég hafði ekki hugmynd um hvað ég ætti að gera. Fótunum hafði bara verið kippt undan mér svo fullkomlega að ég gat hreint ekki hugsað. Að lokum smíðaði ég þó tvær tröppur svo að auðveldara væri að ganga um tvennar nýjar dyr. Aðrar dyrnar er aðalinngangur inn í nýja forstofu og hinar dyrnar eru á bakhliðinni á nýja svefnherberginu. Sú síðarnefnda er nefnd svalahurð hér í landi.

Í dag var ég einn á Sólvöllum og reyndi að koma skipulagi á huga minn og byrjaði að skipuleggja innréttingarvinnu. Nú komst lag á mig og ég tók til rækilega og það var eiginlega byrjunin á að innrétta. Svo gerði ég fyrsta innkaupalistann vegna framhaldsins og nú varð allt í einu alveg stórkostlega fínt að lifa. Vegna kulda síðastliðið vor seinkaði framkvæmdum um einn mánuð miðað við áætlaðan tíma. Svo þegar ég hóf byggingarframkvæmdir og gröfumaður kom til að ganga frá rotþró með viðeigandi útbúnaði byrjaði samdægurs að rigna. Það var viðloða skýfall í fleiri klukkutíma og hvað eftir annað. Gröfumanninum tókst með naumindum að bjarga gröfunni út úr miklu leðjufeni og hvarf hann þar með á braut en drulluslóðin sem hann skildi eftir sig á veginum sást í nokkra daga þrátt fyrir úrkomuna. Þar með seinkaði byrjun byggingarframkvæmda einn mánuð til. Svo hef ég verið tveimur mánuðum lengur en til stóð að gera húsið fokhelt og því er ég í byrjun mars að ljúka því sem ég ætlaði að ljúka við í byrjun nóvember. Á þessu skýfallatímabili komu Rósa og Pétur í heimsókn. Við sváfum öll á Sólvöllum og að kvöldi einnar næturinnar leiftraði hininninn af eldingum og gluggarúðurnar titruðu í þrumugnýnum. Regnið helltist niður að hætti Nóaflóðs, þakrennur gátu ekki tekið við vatnsflaumnun svo að það fossaði yfir þær. Þetta hélt áfram í áföngum stóran hluta næturinnar en að morgni var orðið þurtt. Þá fór ég sæmilega tímanlega út til að huga að ástandinu. Kom þá í ljós að lækur hafði runnið undir húsið frá norðurendanum og kom undan húsinu við suðaustur hornið og skildi þessi lækur eftir sig á að giska tíu senimetra djúpan farveg. Heppinn var ég að sjá þetta ekki áður en við lögðumst til svefns því að ég hefði ekkert getað aðhafst eins og ástandið var og þá hefði ég heldur ekki sofið svo undur rótt.

Lífið er bjart og býður upp á góðar stundir. Ég skal láta vera að þessu sinni að tala um ellilífeyristímann sem ég er á leið inn í. En samkvæmt öllum veðurfræðingum sem láta heyra til sín núna er vorið á hraðri leið upp eftir landinu og vorfuglarnir eru komnir til suðlægustu héraðanna. Áðan var verið að spá um tíu stiga hita um næstu helgi. Læt ég þar með staðar numið.

Gangi ykkur allt í haginn. GB

Lag er nú á!

Góðan daginn, góðan daginn, hvað haldið þið að hafi skeð? Ég sem ráðlegg fólki að horfa á Vasagönguna leggja af stað, sjálfur ÉG bara SVAF byrjunina af mér og nú hlakka ég bara að sjá sigurvegarann fá krans um hálsinn í Mora.

Gangi ykkur allt í haginn. GB

Hvað skeður nú?

Núna ætla ég að spara stutt blogg. Ég nefnilega skrifaði heil mikið (eða svoleiðis) á bloggið mitt í gær en það vildi ekki koma fram á gudjon.blogg. Það hefur komið fyrir þegar ég spara nýtt, að þá kemur upp eitthvað gamalt sem ég hélt að væri týnt.

Gangi ykkur allt í haginn. GB

Vor í lofti

Það er full mikið að segja að það sé vor í lofti en það er alla vega veruleg breyting á veðri. Veðurfræðingur orðaði það þó þannig í gær eða fyrradag að það væri breyting í þá átt. Snjór er farinn að sjatna og þegar ég kom á Sóvelli eftir hádegi var þar jafnfallinn 20 sm snjór. Gömlu þakpönnurnar voru orðnar mikið veðraðar og héldu vel í snjóinn en þær nýju eru hálf glansandi og hálar. Snjórinn hafði því að mestu runnið af þakinu og lá í grjóthörðum, blautum og þungum haugum kringum húsið en lá þó ekki upp að veggjunum. Ég ætlaði að fara að moka þessu burtu en þegar ég var búinn að moka vel frá dyrunum nennti ég ekki meiru og þótti vinnan með hamarinn og sögina mikið meira áríðandi. Annars þetta með snjóinn, þá er ég feginn að hann rennur niður. Ef það skyldi snjóa meira yrði þakið óþarflega þungt þó að það sé traustlega byggt. Ég þarf samt að styrkja gamla þakið betur með fleiri stífum milli skammbita og sperra. Þá þarf ég að skríða fram og til baka uppi í risinu og verð þá gjarnan haltur. Einn góðan veðurdag kem ég samt til með að drífa mig þangað upp og gera þetta og kemst þá að því að það klárast ef ég byrja.

Menningarviðburður kvöldsins var Så skall det låta og þar var meðal annars hún Sanna Nielssen. Hún er nú meiri snillingurinn hún Sanna. Þessi 22gja ára kona syngur sig auðveldlega inn í hjörtu fólks og hún á auðvelt með að leggja mig að velli og gera mig að aðdáanda, öllu heldur okkur Valdísi bæði. Við höfum tvisvar hlustað á hana á jólatónleikum hér í Örebro og það sést svo vel að hún er ekki hrokafull yfir velgengni sinni. Það er frábært að svona fólk finnst meðal okkar.

Vetrarælupestin (eins og sagt er hér) er búin að ná hámarki og er víst á niðurleið. Hins vegar er flensan ekki búin að ná hámarki eftir því sem mér skilst. Valdís er bólusett en ekki ég. Það var ekki nægjanlegt bóluefni til að bólusetja alla. En ég segi bara sjö, níu, þrettán og er ekki sérstaklega hræddur við flensufaraldurinn. Ég er ekki sérlega næmur fyrir umgangspestum. Sérstklega yngri vinnufélagar mínir eru hins vegar næmir fyrir bæði vetrarælupest og flensu og ófáar aukagrúppur og fyrirlestra hef ég fengið í minn hlut vegna þessa. Ég sem er elstur í mínum hópi. Þar með verð ég aðeins að skrifa um heilsu. Mér finnst að á síðustu mánuðum hafi ég orðið frískari en lengi, lengi áður og hvað getur valdið því? Ég er mikið úti að vinna á Sólvöllum í alls konar veðrum og það hlýtur að vera mjög hollt. En við breyttum líka mataræðinu fyrir nokkrum mánuðum. Við erum farin að borða mat sem líkist mjög því sem við borðuðum fyrir svo sem 20 til 50 árum síðan. Svínakjötið höfum við því sem næst alveg hætt að borða, en við erum í staðinn dugleg við að borða lambakjötið sem við kaupum í Ali Baba. Grænmetisátið hefur líka breytst og nú borðum við mikið af grænum baunum, rauðkáli og rauðbeðum, nokkuð sem var nær eina grænmetið fyrr á árum. Svo nota ég líka glukósamín en heilsa mín hafði breytst löngu áður en ég byrjaði á því.

Nú hætti ég þessum þönkum og það er komið mál til að ég stingi upp í mig tannburstanum. Ég þegi alla vega á meðan hann er upp í mér.

Gangi ykkur allt í haginn. GB
RSS 2.0