Enn um að hætta að vinna

Já, í síðasta bloggi talaði ég um hvernig það hefði verið að vakna síðasta reglubundna vinnudaginn minn í Vornesi. Á leiðinni í vinnuna þennan dag hugsaði ég mikið um ýmsa fyrrverandi sjúklinga í Vornesi og einnig vinnufélaga mína. Ég hugsaði um hvernig það var að hætta í þeim störfum sem ég hef hætt í áður. Í þetta skipti var það einhvern veginn allt öðruvísi. Í gær sátum við á því sem við köllum ráðgjafafund sem alltaf er síðasta sameiginlega stundin á fimmtudögum. Akkúrat þegar ráðgjafafundinum lauk komu þær Gunvor og Birgitta forstöðukona. Ég sá að þær vildu ná sambandi við mig. Gunvor er 67 ára og búin að vinna á skrifstofunni í Vornesi í rúmlega 30 ár. Hún er tveimur árum eldri en ég. Hún hefur skammað mig og hún hefur verið mér hjálpleg, til dæmis þegar ég hef þurft að skrifa eitthvað sem þarf að vera skrifað á góðri sænsku. Hún hefur verið fúl út í mig og hún hefur haft svo gaman af að segja mér frá börnum sínum og barnabörnum og sýna mér myndir af þeim. Þar sem ég mætti þeim nú leit Gunvor á mig og sagðist ekki verða í Vornesi á morgun, minn síðasta dag, svo að hún vildi kveðja núna. Birgitta gekk svolítið til baka til að gefa Gunvor eftir stundina. Svo kvöddumst við, Gunvor og ég, en ákváðum að við skildum ekki tapa alveg hvort af öðru. Svo bara stóð Gunvor þarna og horfði á mig og ekkert skeði. Ég skynjaði að hún var ekki tilbúin svo að ég sagði rólega: Gunvor, mér þykir vænt um þig. Ég sá hvernig henni vöknaði um augu á einu svo örstuttu augnabliki og hún sagði: Mér þykir vænt um þig líka. Nú var hún tilbúin að fara. Hún sneri sér við, gekk niður tröppur sem lágu að forstofunni, og svo sá ég á eftir henni ganga yfir hlaðið út að bílnum sínum. Stuttu síðar ók hún af stað áleiðis heim til Fiskibúda, lítið samfélag við sunnanverðan Hjälmaren og jafnframt einhver allra fallegasti staðurinn af mörgum fallegum sem liggja við strönd þessa stöðuvatns. Nú gekk Birgitta fram til að segja það sem hún vildi segja. Það fjallaði um að í tilefni af því að ég væri að hætta og að Gunvor og Ove mundu hætta eftir mánuð, þá ætlaði hún að fara með öllu starfsfólki í Vornesi og borða á einhverjum fínum veitingastað í fallegu umhverfi. Gunvor og Ove eru jafn gömul, tveimur árum eldri en ég, en völdu að vinna til 67 ára aldurs. Við erum sem sagt þrjú þau elstu á þessum vinnustað að hætta með fárra vikna millibili. Það eru miklar breytingar framundan. Þetta allt saman hugleiddi ég á leið i vinnuna og svo var ég frammi í Vornesi. Ég fann mjög vel að þessi dagur var öðruvísi dagur. Það var ekki bara að mér fannst það, ég sá að öllum fannst það. Við lukum við morgunfundinum og fólk gekk til sinna starfa. Svo kom einn og tók utan um mig og spurði hvort hann mætti heimsækja mig í stuguna. Já, auðvitað var hann velkominn. Svo kom annar og spurði hins sama og hann bauð ég líka velkominn. Sá sem tekur við starfinu mínu spurði hvort hann mætti hringja og auðvitað má hann hringja. Svo var komið að hálf tíu kaffinu. Ég gekk frá skrifstofunni minni niður í matsalinn og viti menn; á borðinu voru þrjár stærðar brauðtertur. Við vorum milli fimmtán og tuttugu þarna saman komin og það var dauðaþögn þegar ég var búinn að fá mér af einni brauðtertunni og settist við eitt borðið þar sem autt sæti fannst. Svo stóð upp sá sem tekur við af mér og byrjaði að segja að hann væri enginn ræðumaður. Hann þurfti alls ekki að vera betri ræðumaður en hann var. Hann afhenti mér gjafir sem þetta fólk hafði safnað fyrir með eigin framlögum. Þar á meðal gjafakort á verslun sem selur verkfæri. Þau vita hvað ég er að gera á Sólvöllum. Það var ekki erfitt fyrir mig að skynja að þessi kveðjustund var öðruvísi en áður, og að sjálfsögðu sérstaklega fyrir mig. Ég fann að ég naut meiri virðingar meðal vinnufélaga minna en ég hafði gert mér grein fyrir. Stundin var tilfinningasöm. Ég stóð upp og talaði til þessa fólks og síðustu orð mín til þeirra var að segja þeim hve vænt mér þætti um þau öll.

Nú er mál að linni um þessi efni.
Gangi ykkur allt í haginn. GB


Kommentarer
Guðjón

Mér sýnist að það sé kominn draugur í bloggið mitt.

GB

2007-03-25 @ 22:21:48
URL: http://www.gudjon.blogg.net
Rosa

Textinn varð bara eitthvað undarlegur þegar þú kópíeraðir hann inn í blogginn. Ég loggaði inn og lagaði. Kveðja, R

2007-03-25 @ 22:47:29
Guðjón

Það var fínt að þú lagaðir þetta Rósa, það leit ömurlega út og var verra en ekki neitt eins og það var. GB

2007-03-27 @ 11:04:27
URL: http://www.gudjon.blogg.net
Valgerður

Þarftu ekki pabbi minn að fara að koma þessari bloggsíðu þinni á framfæri með öðrum bloggurum.

Kv
Valgerður

2007-03-27 @ 12:16:28
Guðjón

Hvað meinarðu með því Valgerður? GB

2007-03-27 @ 17:18:59
URL: http://www.gudjon.blogg.net
Valgerður

Þessar síður sem þú lest inni á mbl.is og víðar eru síður sem komist hafa á framfæri.
Þá hafa menn m.a. haft skoðun á e-u sem verið er að fjalla um í Mogganum og um leið vistast bloggið þeirra sem opinbert.
Einhvern veginn þannig virkar þetta.
Sjáðu t.d. http://eyglohardar.blog.is/blog/eygloh/
Á hennar bloggi komst umfjöllun um verðlaun Visku í almennar fréttir.
VG

2007-03-28 @ 10:40:10
Valgerður

Þú getur líka búið til hjá þér bloggvini það sérðu á öðrum bloggsíðum. Hef séð það hjá stelpunum mínum og svo á bloggsíðum sem maður kíkir inn á. Þannig myndast svo spjallgrundvöllur við ýmsa um ólík málefni.

Kv
Valgerður

2007-03-28 @ 10:46:20
Guðjón

Ég skil, nokkuð að spá í. GB

2007-03-28 @ 11:06:22
URL: http://www.gudjon.blogg.net


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0