Jólagjöfin stóra

Valgerður dóttir mín var nokkuð á öðru ári og við þriggja manna fjölskyldan bjuggum í Kelahúsinu í Hrísey. Hún var orðin það kná að hún var byrjuð að klifra upp á það sem lægra var og stólar voru orðnir spennandi viðfangsefni. Við Valdís sátum við matarborðið í eldhúsinu en Valgerður var á ferðinni um allt með sín áhugamál. Allt í einu skeði eitthvað. Henni hafði tekist að draga kaffikönnuna með nýju og heitu kaffi fram af eldhúsbekknum og kaffið helltist yfir höfuð hennar. Mín viðbrögð voru snögg og þörfnuðust ekki umhugsunar. Ég vissi að hver sekúnda var afgerandi til að minnka skaðann. Það dýrmætasta í þessum heimi, barnið okkar, mátti bara alls ekki fara illa. Ég þreif hana upp og setti hana undir kranann sem var beint fyrir ofan hana og skrúfaði frá kalda vatninu með höfuð hennar undir bununni. Hún varð ekki þakklát en ég varð næstum undrandi hversu snöggur ég var að aðhafast.
 
Ég minnist þess enn í dag hvernig skelfingin greip mig en það varð ekki stór skaði. Það komu einhverjar blöðrur og til öryggis hringdum við Valdís í Ingveldi, fulltrúa læknisins í eynni. Hún kom, eiginlega mest til að hughreysta okkur foreldrana. Síðar fórum við til læknis með hana. Eins og ég hef þegar sagt; það dýrmætasta í þessum heimi átti líka að fá bestu umhyggjuna.
 
Hún var að nálgast tveggja ára aldurinn og við fjölskyldan vorum á leið frá Hrísey til Akureyrar með flóabátnum Drangi. Hún vildi vera frjáls í farþegarýminu og hún fékk að vera það. Hún gekk á milli fólks, svolítið óörugg á fótunum, studdi sig við hné þeirra sem urðu á vegi hennar, horfði á fólkið og brosti út undir eyru. Allir tóku henni mjög vel, brostu á móti og sögðu gjarnan eitthvað, litu til okkar foreldranna og við vorum hreinlega við það að að springa af monti yfir fallegasta og skemmtilegasta barni í öllum heiminum.
 
 Það var þá.
 
Valgerður er vel miðaldra kona í dag og ég er nokkuð gamall maður þó að ég skilji það ekki sjálfur. Þessi sterka tilfinning að vera ábyrgur fyrir velferð barnsins síns og verndari hefur breytst. Takmarkalaus ást á litla barninu sem jafnan er í sterkri þörf fyrir vernd og leiðsögn verður að kærleika til fullorðinnar manneskju sem er farin að lifa eigin lífi og á egin ábyrgð. Það er orðið langt síðan ég tók Valgerði á kné mér til að róa hrærðar tilfinningar eða lyfta henni í fang mér til að veita henni skjól og öryggi. Það er líka langt siðan ég setti mig á gólfið á fjórum fótum og var hesturinn hennar.
 
Dag einn fyrir meira en ári síðan fékk ég að heyra að það væri mikil alvara á ferðum. Hún var orðin mikið veik og ekkert annað gat bjargað lífi hennar en að fara í líffæraskipti. Það var bara of mikið að barnið manns sem fyrir áratugum var í þörf fyrir alla þá umönnun sem foreldri getur veitt, barn sem svo oft veitti foreldrum sínum svo mikla gleði og stolt, að þetta barn stæði nú frammi fyrir því að verða að skipta út einu af stærstu líffærum líkamans.
 
Næturnar gátu orðið langar þar sem bænir stigu hljóðlátar til himins í von um styrk og hjálp, hugsanir sem helltust yfir í önn dagsins, hugsanir sem alltaf enduðu með því að sjá það besta. Bænirnar sem mamma kenndi mér fyrir einum sjötíu og fimm árum og ég hef notað alla æfi, þær notaði ég nú sem aldrei fyrr.
 
Svo þegar kvöldaði einn daginn fékk ég að heyra að það hefði komið tilkynning frá Gautaborg um að Valgerður ætti að koma innan fárra tíma í líffæraskipti. Flugvél tók á loft í Vestmannaeyjum seint um kvöld og flaug með hana yfir Atlandshafið til annars lands. Um hádegi daginn eftir byrjaði aðgerðin og þegar ég sofnaði um miðnætti var ég í raun ekki búinn að heyra hvernig hefði gengið. Ég reiknaði með svefnlítilli nótt en sannleikurinn er að ég svaf rólegum og góðum svefni alla nóttina. Það vissi á gott fannst mér. Í dag veit ég að á morgun, daginn fyrir aðfangadag á hún að flytjast heim til Íslands á ný með sitt nýja líffæri. Þar með upplifi ég sem nýr og betri kapituli sé hafinn í lífi hennar og allrar fjölskyldu hennar.
 
Ég hef verið svo fjarri á þessu veikindatímabili, en þar sem ég hef nú setið heima hjá mér næst síðasta kvöldið fyrir jól og skrifað þetta, þá hefur mér fundist sem ég sé nærri. Mér hefur inn á milli fundist sem ég væri að skrifa jólasögu þar sem jólin ganga jú brátt í garð. Valgerður er líka búin að segja við mig að hún hafi fengið stóra jólagjöf. Það sagði hún í vídeósamtali frá sjúkrhúsinu í Gautaborg.
 
Ofanritað skrifaði ég á Þorláksmessu.
 
Ég hringdi vídeósamtal til Valgerðar í gær og hitti á matartíma hjá þeim. Það var saltkjöt og baunir í matinn. Það hefur verið erfiðlkeikum bundið fyrir hana að fá matarlystina til baka og það er auðvitað ekki nógu gott. En í byrjun samtalsnins sá ég hana borða baunasúpuna bara af krafti vil ég segja. Og ekki barfa það, við töluðum saman í 57 mínútur og það þarf töluverðan kraft til þess. Mér þótti sem ég sæi batann að störfum. Valgerður, þú hefur verið mikil hetja gegnum þetta allt saman, ég endurtek, mikil hetja. Og þú varst líka örugg með að allt mundi ganga vel. Vonin er góður læknir.
 
Jónatan tengdasonur. Þú hefur verið þolinmóður og tryggur og ég hef veitt því athygli skaltu vita. Ég hef all oft hringt á þessum veikindatíma öllum og heyrt þig álengdar þar sem þú hefur bjástrað við ýmis konar heimilisverk og aðstoð. Þá hef ég oft hugsað; hann er góður maður Jónatan. Það eru einkunnarorð mín til þín kalli minn.
 
Með bestu kveðju til ykkar allra í fjölskyldunni. Til hamingju með stórafmælið Valgerður. Ég elska þig.
RSS 2.0