Kvöldkyrrð

Ég sat áðan á bláberjabekknum og gerði ekki neitt. Ég var á leiðinni til að gera eitthvað en þegar ég var að ganga framhjá bekknum saknaði ég þess að hafa ekki setið á honum lengi. Rigning hefur það verið, annríki sem hefur kannski í fyrsta lagi verið í höfðinu á mér en svo skiptir það bara engu máli hvers vegna ekki. Það sem skipti máli var að núna sat ég þar. Svo þegar ég kom inn ætlaði ég að muna hvað ég var að fara að gera en ég var þá búinn að gleyma því. Kannski ætlaði ég bara að gá hvernig einhver planta eða lítið tré hefur vaxið í rigningunni. Erindi mín út í skóg snúast oft um eitthvað svoleiðis.
 
Svo þegar ég var setstur á bekkinn var ég ánægður með lífið. Þeir höfðu talað um bardaga niður í Írak og að rússi hefði verið drepinn í Úkraínu. En ég sleppti því alveg. Ég mun bara gera eins og ég er vanur að biðja fyrir framtíð mannkynsins í morgunbæninni minni í fyrramálið ásamt því að biðja fyrir stjórnmálamönnunum sem okkur finnst að séu að leika sér að eldinunm.
 
Svo horfði ég á bláberin á bláberjarunnum og fannst að það væri best að flytja þá að nýju bláberjarunnunum sem ég gróðursetti í vor. Þar yrði bjartara á þeim og ekki síst eftir að búið yrði að fella bjarkirnar þrjár sem standa í vegi fyrir útfærslu matjurtagarðsins. Svo leit ég upp eftir þessum björkum og fannst synd að fella þær. Þær eru næstum himinháar. Þær eru búnar að vera nágrannar mínir svo lengi. En það var líka fáránlegt að hafa ekki pláss fyrir matjurtirnar fyrir skógi. Svo gerði ég samning. Bara fella tvær bjarkir en ekki þrjár. Eftir það hugsaði ég ekki neitt. Ég lét bara fara vel um mig og var grafkyrr og hljóður eins og trén í kringum mig og það var notalegt.
 
 
Ég fer í vinnu um klukkan hálf tíu í fyrramálið, þriðjudagsmorgun, og kem heim eftir sólarhrings fjarveru frá Sólvöllum. Það sem ég hef gert til undirbúnings gestakomu verður að duga eins og það er. Ég get gert svolítið eftir að ég kem heim á miðvikudag, en svo fer ég aftur af stað um hálftíu leytið á fimmtudag og verð annan sólarhring. Ég fann á leiðinni heim frá bláberjabekknum að ég nennti þessu ekki. Ég veit hins vegar af fleiri ára reynslu að þegar ég verð lagður af stað, þá verð ég mjög sáttur við að vinna. Svo þegar ég kem í Vornes verður það köllun. Ég þarf heldur ekki að vinna eins mikið og í vikunni þar á undan. Það var kannski ekki skynsamlegt en ég lifði það vel af. Ég veit að jasmínan á myndinni verður búin að fella blómin þegar ég kem í Vornes á morgun.
 
 
Ég man svo vel eftir því fyrir mörgum árum að ég stóð álengdar frá þessu angandi blómahafi og ákvað að fá mér svona runna sem ég gerði. Gallinn var bara sá að hann var á þannig stað við innganginn heim til okkar í Örebro að við urðum að klippa hann á hverju ári. Þess vegna bar hann svo lítið af blómum. Nú ætla ég að fá mér svona runna og gróðursetja hann þar sem ekki þarf að klippa hann. Þá mun hann blómstra eins og Vornesjasmínan. Anganin af runnanum í Vornesi var stundum svo mögnuð að mér fannst sem það væri hægt að taka lyktina í krukku og færa Valdísi.
 
Um daginn hitti ég mann sem vann eldhúsinu í Vornesi fyrir einum fimmtán árum. Hann sagðist muna eftir ýmsu varðandi mig en eitt stæði þó upp úr. Þá var runni í bakgarðinum, hinu megin við húsið, sem var í ótrúlega miklu hvítu blómahafi. Ég hafði verið að vinna nótt og fór heim nokkru fyrir hádegi. Svo sagði hann að ég hefði komið einhverjum klukkutímum seinna og með Valdísimeð mér til að taka mynd af henni standandi upp við þetta ótrúlega blómahaf. "Þessu gleymi ég aldrei" sagði maðurinn. Smám saman fór ég að minnast þessa líka. Það eru margar myndirnar í möppunum sem Valdís raðaði samviskusamlega inn í á árunum sem myndir komu á pappír. Í tímans rás mun ég finna þessa mynd. Það verður gaman að því.

Hvað er nú þetta?

Þeir sem geta sagt mér hvað þetta er fá ylliblómasaft sem verðlaun við næstu heimsókn á Sólvelli.
 
Ég kom í hús í Fjugesta í fyrradag og var boðið upp á heimagert ylliblómasaft. Svo leit ég út um gluggana og sá ylli á mörgum stöðum og hann stóð enn í blóma. Má ég koma um helgina og fá ylliblóm spurði ég. Já, ég var svo velkominn og ég skyldi fá uppskrift að saftinu líka. Svo fór ég fyrr en ég hafði reiknað með og sótti 100 ylliblóm til Ingibjargar og Leif. Yllir er til á Íslandi en ég er ekki viss um að fólk noti blómin af honum. Samkvæmt uppskriftinni á að skola blómin og það gerði ég í þessu sigti og tók af því mynd því að ég hafði þá þegar í huga að segja frá þessu.
 
 
Og þeir sem geta sagt mér hvað þetta er fá annað glas af ylliblómasafti við þessa næstu heimsókn á Sólvelli..
 
Saftgerðinni lauk um hálf tíuleytið í kvöld, eða þannig. Þetta á að standa í nokkra daga og þá á að sía gróðurinn úr og eftir verður mildur og mjög bragðgóður drykkur sem er sagður hollur líka. Sneiðarnar í gumsinu eru sítrónusneiðar. Það passar þegar Rósa kemur í næstu viku að fara í síunina og tappa á flöskur og Hannes verður aðstoðarmaður. Það er sem sagt verkefni næstu viku en næsta verkefni mitt núna er að bursta og pissa og fara að sofa eins og hverjum fullorðnum manni sæmir að gera í tíma. (Klukkan er reyndar að verða tólf hjá mér þannig að ég er ekki svo fullorðinn sem ég læt)

Það er líklega ekki sama mold og mold

Ég varð svo montinn þegar ég var búinn að gera rabarbarasultu um daginn að mér fannst ég verða að auka út rabarbaragarðinn. Ég ákvað að bæta við tveimur hnausum og tók mér skófluna í hönd og byrjaði að grafa fyrir þeim. Það má alltaf vona það besta og það gerði ég líka þegar stakk niður spaðanum og það gekk vel. En það var bara ein stunga sem gekk vel, síðan tók við grjót. Ég hef ekki hugmynd um hvað þessir steinar vega en þeir vógu alla vega of mikið fyrir mig. Ég varð mér úti um planka og notaði vogaraflið. Þetta var í rúmlega tuttugu stiga hita í dag en mér fannst hitinn vera upp undir þrjátíu. Þetta er að verða tilbúið eins og sjá má á myndinni en eiginlega eru það pokarnir lengst í burtu sem ég er að hugsa um.
 
Ég gat farið í byggingarvöruverslun og fengið kúaskít fyrir 22 krónur pokann ef ég keypti fjóra í einu. Ég fór hins vegar til hans Ingemars skrúðgarðameistara í Adolfsberg, mannsins sem fékk Íslandsferð í afmælisgjöf frá konunni sinni fyrir nokkrum árum, og þar kostaði pokinn 56 krónur ef ég keypti þrjá í einu. Allir sem þekkja til Ingemars treysta því sem hann segir og það geri ég líka. Ótal sinnum hef ég farið þangað bara til að fá góð ráð og þau gefur hann með glöðu geði. Ég verð líka að kaupa eitthvað hjá honum þó að það sé dýrara.
 
Pernilla afgreiddi mig og ég spurði hana hvers vegna þessi feikna verðmunur væri á kúaskítnum. Hún hugsaði sig fyrst um en svo ypti hún öxlum og sagðist ekki vita það. Svo borgaði ég fyrir þrjá poka. Þegar ég var búinn að borga sagði hún mér frá því að ábyrgur aðili sem ég man ekki hver var hefði gert könnun á gæðum innihalds sekkjanna. Í verslunum sem hún nefndi sagði hún að það hefðu verið þungmálmar og fleiri varasöm efni í innihaldinu en við vorum alla vega ekki á þeim lista sagði hún ennfremur.
 
Ég sá alls ekki eftir verðmuninum þegar ég var búinn að heyra þetta. Ég bloggaði um það um daginn að ég keypti dýrari matvöru ef ég væri viss um að ég væri að kaupa betri vöru. Það er best að gera það sama með jarðveg sem ég framleiði matvöru í. Ég vil ekki hafa þungamálma í rabarbarasultunni sem ég geri. Ég vildi endilega koma þessu á framfæri. Það er búið að bjóða mér að taka skít úr haugum hjá hestamönnum. Ég læt það eiga sig. Ég veit ekkert um hvaða lyf er hugsanlega búið að gefa hestunum.
 
 
 
Ég er búinn að byggja bráðabyrgðaskýli yfir sambýlinginn minn. Það er spáð nánast linnulausri rigningu næstu daga og eggið verður svo þunnt á diskinum hans ef það rignir mikið á það. Þessi úrkoma á að byrja á morgun. Ég þarf svo að byggja vandaðra húsnæði fyrir hann, húsnæði sem dugir fyrir hann til vetursetu.
 
Ég sé svo til í fyrramálið hvað hefur orðið úr þessari rigningu. Ef spáin gengur eftir er kannski kominn tími á innanhússverk hér á Sólvöllum.

Bjarkir eru drykkfelldar og frekar til vatnsins

Klippt sírena blómstrar ekki árið eftir en hvað er hægt að gera þegar svo er komið að það er ekkert útsýni frá aðalinnganginum. Þannig fer það á hverju ári því að það er vöxtur í öllu á Sólvöllum.
 
 
 
Það er einfaldlega ekkert annað að gera en að klippa. Svo verður útsýnið opið að nýju þegar það er búið. Við áttuðum okkur ekki á þessu þegar við keyptum sírenurunna til að setja vestan við húsið fyrir nokkrum árum. En það skipti ekki máli því að við hefðum keypt hana samt. Við vildum fá hóflegt skjól fyrir vestanátt.
 
Þegar ég var búinn að klippa í dag bar ég vel á með hænsnaskít og svo stóð ég með slönguna í 45 mínútur og vökvaði. Þá fannst mér sem ég væri afar nýtur maður.
 
 
 
Haugurinn er stærri í reynd en hann sýnist vera á myndinni. Þetta verður mikið gott hráefni í moltukerið. Ég var að lesa leiðbeiningabæklinginn yfir að nýju rétt áðan. Það verður greinilega keypt annað moltuker fljótlega því að moldar er þörf. Það er dýrt að kaupa alla þessa mold og þar að auki þarf að flytja hana heim frá verslununum. Svo er spilling í öllum plastpokunum utan af moldinni sem verður að eyða á brennslustöðvum. Geri maður moldina sjálfur veit hver moltuframeliðandi nákvæmlega hvað hann er að nota þegar moldin er tilbúin.
 
 
 
Bjarkirnar þarna við sitt hvorn endann á nýklipptri sírenurunnalengjunni bera þess merki að þær vilja meira vatn. Bjarkir eru drykkfelldar og frekar til vatnsins. Þær skilja ekki eftir vatn handa nágrönnum sínum. Ef það er rétt að þær drekki þrjú til sexhundruð lítra af vatni á dag ef nóg er af því, þá vanta örugglega mikið handa þeim þessum núna. Það er ekkert í því að gera annað en bíða eftir rigningu því að með kranavatni er ekki hægt að fullnægja þessari þörf. Það rigndi einn millimeter áðan og það er eins og lítill dropi í hafið.
 
Á morgun ætla ég að útauka rabarbarabeðið og að slá ásamt því að sinna moltunni. Ég þarf líka að binda upp bláberjarunna. Á morgun er spáð þurru og hálfskýjuðu veðri en rigningu dagana þar á eftir. Það sem við sjáum á þessari mynd þarf ekki að slá en annars staðar er rakari jarðvegur. Það eru margvísleg störfin á Sólvöllum og skemmtileg eru þau.
 
Nú skal borga reikninga því að sælir eru þeir sem hafa borgað reikningana sína. Þeir geta lifað áhyggjulaust í heilan mánuð og þá geta þeir endurnýjað þetta áhyggjuleysi með því að borga aftur.
 
 

Hon er merkileg kona hún Sofia

Ég get alveg boðið fólki upp á að hlæja að mér, sérstaklega ef ég býð upp á það sjálfur. Ég er hins vegar ekki eins ánægður með það ef aðrir nota mig til að fá fólk til að hlæja.
 
Í morgun fór ég á stjá fyrr en ég vildi þar sem ég þurfti að fara með bílinn í skoðun. Ég hefði viljað hvíla mig lengur eftir vinnuvikuna síðustu og mér fannst ég líka eiga það skilið en svona var það bara. Tíminn hjá bifreiðaeftirlitinu var þegar ákveðinn. Ég dreif mig á fætur. Á leiðinni fram á bað fékk ég verk aftan á hægri fótinn á smá punkti rétt ofan við hásinina og ég hugsaði eitthvað á þá leið; kemur þetta nú einu sinni enn. Ég hef orðið var við þetta öðru hvoru á síðustu misserum og svo hef ég bara gleymt því og svo hefur það horfið.
 
Ég snyrti mig til, rakaði og drakk vatn og ákvað að borða vænan morgunverð þegar ég kæmi heim. Svo dreif ég mig af stað og byrjaði á því að  þvo bílinn. Svo var ég kominn að bifreiðaeftirlitinu klukkan hálf tíu, tuttugu mínútum fyrr en ég þurfti. Ég stillti mér upp á bílastæðinu við hliðina á rauðum bíl þar sem kona sat undir stýri og lék sér mikið við pínulítið barn. Ég gekk inn í andyrrið til að slá inn skrásetningarnúmerinu á bílnum og gekk svo til baka. Þá sá ég að fuglar himins höfðu verið yfir rauða bílnum og ekki höfðu þeir skitið á bílinn, þeir höfðu hreinlega drullað á hann á tveimur stöðum, stórum hvítum klessum eins og súrmjólk hefði verið skvett yfir hann. Svo settist ég inn í minn bíl.
 
Verkurinn ofan við hælsinina hvarf ekki, heldur dreifði hann sér upp eftir kálfanum og varð þyngri. Að lokum kom mitt númer upp á stórt ljósaskilti og mér var boðið að aka inn. Þægilegur miðaldra maður tók höndum um minn bíl og vann sitt verk af öryggi og á einhvern þægilega öruggan hátt. Við spjölluðum saman. Maður sem fór inn næst á undan mér drakk kaffi við lítið borð og kona sem fór inn aðeins á undan honum var úti með tvo stóra hunda til að láta þá skíta á grasblett stutt utan við gluggann.
 
Rauðhærð kona með annan vangann nauðrakaðan upp undir mitt höfuð og í einkennisklæðum bifreiðaeftirlitsins gekk í salinn. Hún var mikið tattúeruð, falleg var hún, á að giska 25 ára og ég gerði ráð fyrir að hún væri á skrifstofunni. Hún heilsaði vingjarnlega þegar hún gekk hjá. Svo var minn bíll færður lengra inn eftir skoðunarbandinu og þá kallaði hún næsta bíl inn. Svo gekk hún í að skoða hann af sama öryggi og sá sem skoðaði minn bíl. Hún vann sem sagt ekki á skrifstofunni.
 
Viltu sitja í? spurði skoðunarmaðurinn minn. Ég vildi það og svo keyrði hann all hratt kringum stóru graseyjuna sem hundarnir höfðu skitið á og síðan sagði hann að bíllinn væri í góðu lagi. Þetta var fyrsta skoðun á þessum bíl eftir rúmlega þrjú ár á götunni og 73 000 km akstur. Ég á að koma aftur eftir tvö ár. Svo lagði ég af stað heim.
 
Verkurinn í fætinum náði nú upp undir hné og alveg umhverfis fótlegginn. Þetta var enginn þjáningaverkur en þungur malandi verkur sem ég var orðinn hissa á. Hann náði líka niður undir ylina. Ég var að tína saman gögn til að senda til Tryggingastofnunar ríkisins og verð að viðurkenna að mér var ekkert skemmt við það verk. Ég skrifaði líka bréf vegna atriðis sem ég tel að sé rangt reiknað og ég fann vel að ég var of þreyttur fyrir þetta og þetta var mér allt öfugsnúið. Síðan bar ég fjóra poka út í bíl sem ég ætlaði með á endurvinnsluna í Fjugesta um leið og ég færi á hreppsskrifstofuna til að láta ljósrita slatta af pappír sem ég þurfti að senda til Íslands.
 
Það nálgaðist lokun á heilsugæslunni þegar ég hringdi þangað og hjúkrunarfræðingur sagði mér að koma fljótt svo að ég næði. Bráðamóttökuhjúkrunarkonan ætti að skoða þetta sagði hún. Sú hjúkrunarkona hét Sofia og var trúlega nokkuð innan við þrítugt. Hún lá á hnjánum á gólfinu fyrir framan mig og bar saman fótleggina, þreifaði á báðum samtímis og sagðist ekki sjá neitt athugavert og að þeir væru nánast jafn heitir báðir. Taktu eina ípren og hvíldu þig í kvöld sagði hún og ef þér versnar skaltu fara á bráðamóttöluna á USÖ. Svo fór hún höndum um auma fótinn, stakk fingrunum inn í kálfann neðan frá og upp úr og aftur niður og sagðist ekki finna neitt athugavert.
 
Ég þakkaði henni fyrir þægilegar móttökur og hennar mjög svo vingjarnlega hátt á að athuga mig og tala við mig. Ég meinti þetta og hún hafði virkilega unnið fyrir því. Hún varð svolítið hissa og sagði að mikið væri gaman að heyra þetta. Þegar ég gekk fram ganginn fann ég allt í einu að ég gekk allt öðru vísi, að eitthvað hafði gerbreytst. Ég stoppaði -og jú, verkurinn var svo gersamlega horfinn. Ég sneri við og mætti þá Sofia og sagði: Heyrðu, þetta hefur allt verið í höfðinu á mér, verkurinn er horfinn. Ja du! sagði hún, kannski það hafi eitthvað dularfullt hlaupið á þráðinn hjá okkur.
 
Nafnið Sofia þýðir vísdómur á grísku ef ég skil rétt og eitthvað tengist merking þess kristinni dulspeki.
 
Það er hægt að gera eitthvað merkilegt úr flestum dögum. Ég er kominn með skýringu á verknum og brotthvarfi hans. Ég er líka búinn að vera á námskeiði hjá yfirbýflugunni núna í kvöld. Ég hef að vísu ekki hvílt mig eins og Sofia ráðlagði mér en ég ætla að sofa út í fyrramálið bara eins lengi og mig lystir.
 
 
 
 
Björn stórbýfluganbóndi til hægri gefur góð ráð og Agneta yfirbýfluga til vinstri hlustar af athygli.

Dularfullur atburður í Vornesi

Í gærkvöld þegar vinnudeginum var lokið í Vornesi, um ellefu leytið, undirbjó ég mataræði dagsins í dag. Ég fór fram í eldhúsið og fann í búrinu kjötkraft sem er í duftformi og setti kúfaða teskeið í skipakönnu. Síðan setti ég könnuna upp á hillu, svo ofarlega að ég varð að standa á tá til að ná þangað upp. Ég vildi spara tíma þegar dagaði með því að hafa þetta tilbúið. Þarna var ég alveg öruggur um að starfsliðið í eldhúsinu ræki ekki augun í könnuna og fengi engar áhyggjur af því sem væri í gangi.
 
Í dag er einnar viku stífri vinnutörn minni lokið og því skyldi ég í dag byrja aftur með að fasta tvo daga í viku.
 
Þegar morgnaði byrjaði ég með því að fá mér vatn að drekka og síðan gekk ég til minna verka samkvæmt venju. Ég spjallaði lítillega við sjúklinga sem ég hitti hingað og þangað og bauð starfsfólki sem dreif að góðan daginn. Síðan var morgunfundur starfsfólks og ég gaf skýrslu um atburði helgarinnar. Þá hafði ég smá viðtöl og tíminn þaut áfram. Svo var komið að morgunkaffi sem við köllum það. Allir fengu sér brauð með morgunkaffinu en ég, föstumaðurinn, gegg inn í eldhúsið og ætlaði að gípa skipakönnuna af hyllunni.
 
Þar var engin kanna lengur. Ég leitaði og leitaði og á vaskabekknum stóð kannan með kjötkraftinum í. Sáuð þið virkilega könnuna? spurði ég undrandi, og já, ert þú með þetta? spurði eldhúsliðið. Þá hafði ein þeirra uppgötvað könnuna umsvifalaust þegar hún kom í eldhúsið og síðan höfðu staðið yfir miklar vangaveltur í langan tíma. Ein þeirra hafði þefað hikandi úr könnunni og talið að um kjötkraft væri að ræða, en hvað var kjötkraftur að gera í skipakönnu upp undir lofti í eldhúsinu. Málið var dularfullt og ekkert kom út úr rannsókninni. Svo leysti ég það með einni spurningu.
 
Fólk er ekki hissa á mér að gera þetta, að fasta tvo daga vikunnar, en ber virðingu fyrir því. Þegar færi gafst í morgun spurði Lena í eldhúsinu hvernig ég færi að þessu. Lena er sú sem rak augun fyrst í könnuna. Ég gaf henni einföld svör við einföldum hlut. Þegar hún hafði hlustað á mig sagði hún að ég hlyti að hafa meiri karkter en hún því að henni tækist þetta ekki. Það var skrýtið fyrir mig að heyra um þetta með karakter þar sem ég hef alltaf séð Lenu sem konu með sterkan karakter, mikið sterkari en ég tel mig hafa.
 
Ég fasta ekki með hjálp af sterkum karakter. Ég fasta vegna þess að mér líður vel með það að fasta. Ég hef þar að auki losnað við 5,5 kg af hreinum fituklump og hann sat á litlu svæði framan á mér rétt undir bringubeininu. Þó að ég segi sjáfur frá fer mér mun betur að bera ekki þennan velmegunarklump framan á mér. Reyndar hafði ég hann líka á ákveðnum svæðum í andlitinu.
 
Þetta hefur líka fengið mig til að huga mikið betur að því hvað ég legg mér til munns. Ég hef minnst orða matvælasérfræðings sem sagði í sjónvarpi fyrir einhvejum misserum að krafan um ódýran mat væri orðin svo öflug að matvælaframleiðendur framleiddu lélegri mat til að geta staðið undir kröfunni. Ég kaupi góð dekk undir bílinn, læt þjónusta hann sem best verður á kosið og spyr ekki hvað það kosti, ég bara borga. Á ég svo að rýna í fimmtíueyringana eða fimmkallana þegar ég er að kaupa mér að borða.

Ég er farinn að kaupa súpur sem eru framleiddar eins og í venjulegu eldhúsi, með höndunum eins og sagt er á umbúðunum, og í þeim eru sjö til þrettán efni sem öll eru jafn vel þekkt og kartöflur, laukur eða baunir. Þessar súpður kosta 39 kr sænskar skammturinn og ég borða allan skammtinn hjálparlaust. Ég get líka keypt súpur sem kosta níu krónur eða þrettán og eru gerðar úr allt að tuttugu efnum sem ég þekki ekki nema að hluta, svo sem E efnum, litarefnum og einhverjum  sterkjuefnum. Þannig reyni ég að velja öll matvæli.
 
Ég vil gjarnan vera afi enn um skeið og einhvern tíma verð ég kannski langafi. Ég vil standa undir nafni. Ég hef ekkert loforð um árafjölda en ég reyni að taka þá ábyrgð sem í mínu valdi stendur. Afi er mikilvægur hlekkur í fjölskyldumynstrinu. Langafi ábyggilega líka. Mig dreymdi um daginn að ég mundi innan tíðar fá heimsókn fleiri barnabanra en ég hef fengið um skeið.
 
En nú er svo komið að ég er kominn með svefnóra og ætti að hætta áður en ég geri mig að atlægi. Er svo sem búinn að því nú þegar. Nú þarf ég að sofa í tíu tíma samfleytt. Á morgun fer ég með bílinn í bifreiðaskoðunina í Lillån í Örebro. Ég spurði ekki hvað það kostaði, ég bara pantaði tíma og borgaði.

Þar með hallar að nóttu

Það er laugardagskvöld og ég er heima. Á mogurn fer ég aftur í vinnu og verð einn sólarhring í vinnu frá og með hádegi á sunnudag. Á mánudagsmorgun lýkur einhverri stífustu vinnuviku minni í átján og hálfs árs sögu minni á þessum besta vinnustað á öllum vinnuferli mínum. Þar hef ég fundið eitthvað mikilvægt sem ég hef viljað hlú að og ég hef þar af leiðandi helgað mig því, ekki bara sem tekjulind til framfærslu, heldur líka að stórum hluta sem köllun til að verða að liði þar sem liðveislu er þörf.
 
Heima hjá mér var fólk sem tók mér opnum örmum og matur var framreiddur án liðveislu minnar. Ég hins vegar kom við í matvöruversluninni Cityhallen í Vingåker á leiðinni heim. Framan við verslunina sat stúlka bak við snyrtilega tafla af jarðarberjum frá Skáni. Að vera á leiðinni heim í blíðviðri eftir sólarhrings vinnutörn á meðferðarheimilinu og sjá þennan girnilega varning, fékk mig að sjálfsögðu til að kaupa mér slatta af berjum til að verðlauna mig fyrir framlagið til samfélagsins og til að bjóða gestunum mínum upp á eitthvað girnilegt. Ég vissi líka að þau myndu sjá til þess að það yrði góður kvöldmatur þegar þar að kæmi. Svo varð það líka.
 
Á myndinni er hann nafni minn að borða jarðarber í ís, nokkuð sem honum líkaði mjög vel.
 
Svona geta þrjár tegundir af ís fá sænskum mjólkurbúum litið út og fersk og falleg voru jarðarberin. Það er nú einu sinni Jónsmessuhelgi sem Svíar kalla miðsumar og hér er það helgi sambærileg við verslunarmannahelgina á Íslandi.
 
 
Hann vekur talsverða eftirtekt þessi skemmtilegi ábúandi á Sólvöllum. Myndina tók ég núna í kvöld og það er merkilegt hvað hann sækir í að hafa afturendan í diskinum sem honum er skenkt vatnið á. Hann hefur sína siði sem við mundum ekki vilja hafa sem okkar borðsiði. En það er ekkert skrýtið, hann mundi væntanlega alls ekki vilja verða eins og við þó að honum biðist það.
 
 
Myndirnar af Brodda eru líkar frá degi til dags og útsýnið móti vestnorðvestri til Kilsbergen er einnig líkt frá degi til dags. En birtan er fjölbreytileg og gefur þessu útsýni misjöfn blæbrigði. Þessi bælbrigði voru með allra fallegasta móti nú fyrir stundu. Á því augnabliki sem ég er að skrifa þetta eru blæbrigðin allt önnur. Kannski hvorki fallegri eða minna falleg, en allt öðru vísi.
 
Þar með hallar að nóttu og gott fyrir vinnandi ellilífeyrisþega að fara að undirbúa samveruna með Óla Lokbrá.

GEFÐU MÉR AÐ DREKKA!!! GEEERÐU ÞAÐ!!!

Hafragrauturinn með rjómablandinu er kominn á borðið ásamt tilheyrandi, svo sem tveimur aprikósum, hnefa af rúsínum, banana og hvönn frá honum Bjarna Thor í Hrísey. Allt er þetta vistvænt ræktað þannig að ég ætla að mér verði gott af morgunverðinum að vanda. Eftir eins og hálftíma ek ég úr hlaði með stefnu á Vornes og verð þar til klukkan tíu í fyrramálið eða svo. Ég finn fyrir sterkri löngun til að vera heima og koma betra lagi á allt hér heima. Ég kom heim úr vinnu á sjötta tímanum í gær og var fljótur að drífa mig í heimavinnugallann, vökva, slá hornanna á milli ásamt stígunum í framskóginum, vökva á ný, hreinsa illgresi og auðvitað að gefa honum Brodda.
 
Svo var hann búinn með matinn sinn og kom þá til mín þar sem ég var að setja vatn á garðkönnurnar mínar allar níu talsins. Það tók því tíma að fylla þær og Broddi fylgdi mér þétt í sporinn svo að ég mátti gæta að mér að stíga ekki ofan á hann. Við horfðumst í augu og við töluðum saman en ég skildi hann ekki fyrr en ég var hættur úti og kominn inn. Þá allt í einu áttaði ég mig á því sem Broddi hrópaði til mín aftur og aftur:
 
GEFÐU MÉR AÐ DREKKA!!! GEEERÐU ÞAÐ!!!
 
Og ég hafði ekki skilið neyðaróp vinar míns. Ég hljóp út með vatn og annað egg og samviskubit í huga. Ég taldi víst að hann sem vappaði þarna ennþá mundi taka sig að vatninu sjálfur. Nei! það fyrsta sem ég gerði í morgun var að gá. Seinna eggið var óétið og þar sem eggjadiskurinn og vatnsdiskurinn eru hlið við hlið hefur hann varla komið í vatnið heldur.
 
Þegar ég kom inn til að vera inni fékk ég mér eitthvað kex sem er svo þunnt að það virðist gert úr næstum eingöngu lofti. Ofan á það setti ég ostsneið og heimagerða rabarbarasultu, settist í djúpan stól og byrjaði á sneiðinni. Svo vaknaði ég klukkan ellefu og virðist hafa klárað sneiðina sem ég hafði haldið á. Það var svo í morgun sem ég setti smjörið aftur inn í ísskáp, sem ég lokaði sultukrukkunni og setti líka í ísskápinn. Það sem eftir var af ostinum hafði gulnað á eldhúsbekknum og fór í moltufötuna undir vaskinum.
 
 
Ég fæ gesti um helgina en verð þó mest í vinnu. Það verður líka fleira fólk á ferðinni. Helst mundi ég vilja slá aftur seint í dag, þrífa seinni helminginn af gluggunum, ryksuga, skúra, stálulla eldhúsvasskinn, þrífa eldhúsbekkin svolítið betur og ganga frá blaða og bérfadóti. Eftir að ég kem heim á morgun mun ég taka til hendinni við þetta en það verður bara brot af því sem ég kemst yfir.
 
Á myndinni eru blómin sem ég fékk fyrir smá viðvik um síðsutu helgi. Þau eru farin að lýjast. Á bak við þau er bangsinn, en eigandi hans ætlar að koma í heimsókn, kemur síðdegis á morgun. Við þurfum að skipuleggja hluti sem við þurfum að vinna að seinna í sumar.
 
Það er matur og vatn á tveimur stöðum úti núna og með því bið ég vin minn Brodda um fyrirgefningu. Ég get ekki gefið honum aftur fyrr en á morgun og þá langar mig að fá hjálp við það. Ég á von á að eigandi bangsans muni hjálpa mér.

Að blogga af gömlum vana

Allt í einu varð svo mikil vinna hjá mér að í kvöld gaf ég mér bara stuttan tíma til að skoða allan gróðurinn sem þrífst svo vel umhverfis mig þessa dagana. Raunar ætti ég að segja sem þrífst alltaf vel í kringum mig. En ég hef haft marga daga til að vera innan um allt þetta undanfarið og fljótlega fæ ég góðan tíma á ný. Ég er ekki viss um að allir skilji mig að að ég skuli vinna eins og ég geri, ekki voðalega mikið en býsna mikið. En ég skil heldur ekki þá vinnufélaga mína sem horfðu á heimsmeistsrakeppni í fótbolta til klukkan þrjú í nótt og voru svo þreyttir þegar þeir mættu í vinnu klukkan átta í morgun að þeir gengu á dyrastafi. Ég er búinn að eiga frábæra daga hér heima undanfarnar þrjár vikur og ég fæ út úr lífi mínu á minn hátt, á þann hátt sem fótboltafólkið kannski skilur ekki. Svona er nú þetta allt saman.
 
Ég er ekki að blogga núna af andagift. Ég er eiginlega að blogga af gömlum vana, skyldurækni gagnvart blogginu mínu. Þetta blogg er númer 1168 ef það verður blogg sem ég birti. Ég hef ekki bloggað síðustu þrjá dagana og ég varð svolítið hissa þegar ég sá það. Nún er málið að ég ætla að leggja mig um klukkan níu og þá er mér ekki til stunnar boðið. Það er frumskilyrði ef ég á að koma skaðlaus út úr vinnutörnum eins og í þessari viku að ég sofi mjög vel. Þá þoli ég það mesta. Og til að fá svolítið extra út úr deginum annað en að hitta systkini mín í Vornesi, þá fór ég í smá gönguferð meðfram skógarjaðrinum og út í skóginn og það svíkur aldrei.
 
 
Til dæmis þetta finnst mér ótrúlega fallegt. Þrátt fyrir að svo margt er griðarlegt, stórt og voldugt í heimi hér, þá var líka til tími til að gera nokkuð sem er svo meistaralegt og innilega fíngert sem þessir drjúpandi blómaklasar. Bara að taka eftir að þetta er til er að gera eitthvað gott með líf sitt.
 
 
Ég setst líka öðru hvoru á bláberjabekkinn þarna og horfi heim að húsinu mínu, læt hugann reika og er stundum hissa á því að ég er staddur einmitt þarna á bekknum.
 
 
Svo þegar ég var að sækja tvær efstu myndirnar rakst ég á myndir frá sultugerðarkvöldinu, það er að segja í fyrrakvöld ef ég man rétt. Þarna er töfrasprotinn að vinna sitt verk í rabarbarasultupottinum.
 
 
Eftir sultugerðina fékk ég mér verðlaunasneið, ristsða brauðsneið með osti og rabarbarasultu sem leit út eins og krem. Ég átti von á meira bragði en hvað um það; sultan mín er góð. Vel væri hún brúkleg í tertu sem gott væri að borða á bláberjabekknum.
 
Nú er að bursta og pissa.

Ekki svo vitlaust að vera til þegar dagarnir eru góðir

Klukkan hálf átta var ég utan við aðalinnganginn með sóp í hendi og baukaði við að fá steinmjölið til að fara niður í fúgurnar á milli gangstéttarhellanna. Þá var ég búinn að vera úti og taka góðan daginn myndina mína og birta hana. Veðrið var indælt, mér fannst ég vera úthvíldur og það var almennt gott að vera þarna. Svo kom Ívar nágranni röltandi norðan veginn með hendur aftan við bak og bauð glaðlega góðan dag. Fáein orð fóru okkur ámilli og svo héldum við báðir áfram, ég með sópinn og hann á leið til annarra nágranna. Allt virtist vera í góðu lagi og það var almennt gott að vera til
 
Svo lagði ég af stað til Volvó í Örebro til að fá nýju sumardekkin sett á felgurnar. Nýskupúkinn í mér gerði vart við sig, vældi svolítið innan í mér, en það var ekkert að fást um. Ég gat fengið helmingi ódýrari dekk en ég hafði beðið um verð á góðum dekkjum og þrátt fyrir verðið þá valdi ég þau dekk. Þannig var það bara. Svo þegar ég hitti þetta vingjarnlega fólk þarna útfrá hugsaði ég ekki meira um peninga. Meðan ég beið hitti ég Nikulás bílasalann minn og sagði honum meðal annars hvað dekkin kostuðu. Já sagði hann, það er alveg ótrúlegt hvað gúmmí getur orðið dýrt.
 
 
En ég svo sem veit það ekki. Þetta er reynar enginn gúmmíhaugur beinlínis, þetta er vönduð vara og háþróuð, og ef það heitir Continental skilst mér að það kosti. Svo borgaði ég með glöðu geði og lagði af stað til annarra verkefna í Örebro. Ég ók niður hraðbrautina móti Gautaborg og niður til Marieberg. En bíddu nú við! Hvaða bíll er þetta sem þau létu mig hafa til baka á Volvó. Ég vissi að ég hafði verið á góðum dekkjum en núna vissi ég hvernig ennþá betri dekk voru. Það var eins og ég væri ekki á sama bíl. Ég var mjög ánægður. Rallýbílstjórar hafa sagt mér að það séu dekkin sem gefa okkur samband við vegin og þess vegna skipti þau öllu máli. Ég hlýt að vera sammála. Í næstu viku kem ég til með að vinna all mikið og fyrir þá vinnu fæ ég greitt það sem ég gæti keypt næstum tvo ganga af gæðadekkjum. Ég verð orðinn gamall maður þegar ég þarf að kaupa dekk næt.
 
 
 
 
Ég byrjað daginn við aðalinnganginn og vesturvegginn og þar byrjaði ég svo aftur þegar ég kom heim. Ég að vísu gat ekki neitað mér um að heimskja plöntur og tré inn á milli og vökva þyrsta berjarunna. Svo fór ég að vinna sunnanvið húsið og svo austan við og verkin runnu ljúflega gegnum hendur mínar og inn á milli var ég með garðkönnur á lofti.
 
 
Broddi hafði birst undan veröndinni allt í einu og byrjaði á þvi að skoða undirskálina sína eftir krókótta ferð að henni. Þá var ég ekki búinn að skammta honum kvöldverð en gerði það um leið og ég varð hans var. Svo baukuðum við þarna hljóðir báðir tveir og skiptum okkur ekki hvor af öðrum. Samt vorum við óneitanlega félagar. Við búum sama stað. Það eina sem styggði hann var ef ég talaði við hann, þá rölti hann burtu. Að hugsa sér, hann þoldi ekki að hlusta á mig.
 
Svo gáði ég á klukkuna. En heyrðu! korter í níu að kvöldi og ég þurfti endilega að vökva meira. Svo gerði ég það og ennþá var kyrrðin sú sama og ennþá var dagurinn notalegur. Ég hafði litið á textavrp nokkru fyrr og þar voru óvenju ljótar fréttir. Það var ekkert að hafa og ég hef ekki litið mneira á sjónvarp og ekki kveik tá útvarpi. Bara ef allir gætu lifað jafn einföldu lífi í sátt og samlyndi eins og við Broddi; ja!, þá væri ekki margt að í heimi hér. Og þrátt fyrir einfaldleikann á sambýli okkar vorum við báðir  ánægðir.
 
 
 
Á morgun ætla ég á Kvarntorpshauginn. Þar uppi er mikilfenglegt útsýni og þar er kaffihús. Ég er búinn að lofa að halda tal í bæ í Södermanland á laugardag og ég hef ekkert gert til að undirbúa það. Því ætla ég upp á þennan skógi vaxna haug til að fá innblástur og skrifa nokkra minnispunkta á blað. Þessir punktar eru þegar á stjái í kollinum á mér en ég þarf að koma skipulagi á þá. Ég ætla að fá mér kaffi á Kvarntorpshaugnum og bestu brauðsneiðina sem boðið verður upp á. Svo reikna ég með að ég fái mér ábót og hver veit nema að það laumist tertubiti á brauðdiskinn minn með kaffiábótinni. Ég ælta ekki að vera nýskur á morgun, ég ætla að halda mér smá veislu og reyna að láta hugsanirnar þeysa um huga minn á jafn hljóðlátan og einfaldan hátt og sambandið milli okkar Brodda var þegar kvölda tók.
 

Eiginlega þarf ég við tækifæri að gefa skýringu á Kvarntorpshaugnum. Merkilegt fyrirbæri.

Spoons máltíðir og fleira

Ég heyrði um daginn að það væri hægt að kaupa tilbúna matrétti, Spoons, sem væru taldir mjög vandaðir og reyndar ótrúlega ódýrir líka. Ég var í Fjugesta fyrir nokkrum dögum og leitaði að þeim í matvöruverslununum tveimur þar en fólk þar vissi ekkert um þetta. Í morgun leitað i ég þessa í tölvunni og fann, en ég fann engar upplýsingar um í hvaða verslunum ég gæti keypt réttina en ég var lóðsaður inn á netfang þar sem ég gat leitað allra mögulegra upplýsinga.
 
Ég ákvað að senda meil og þar sagði ég að ég hefði áhuga fyrir að prufa framleiðsluna þeirra og spurði í hvaða verslunum í Örebvro ég gæti keypt matinn. Svo var komið undir kvöld og ég hafði ekki fengið svar þannig að ég las yfir meilið sem ég hafði sent og varð þess áskynja að mér hafði orðið aðeins á í messunni. Ég ætlaði að skrifa: ég hef áhuga fyrir að "pröva" framleiðsluna ykkar, en mér varð á að skrifa: ég hef áhuga fyrir að "röva" framleiðsluna ykkar. En þar var all mikill munur á. Að "röva" þýðir nefnilega að ræna. Ég sagði sem sagt að ég hefði áhuga fyrir að ræna framleiðslunni þeirra. Það var ekki von á að ég fengi svar við svona bulli. Ég sendi þeiðréttingu og baðst velvirðingar á mistökunum og vonast eftir svari á morgun.
 
 
*          *          *
 
Fyrir meira en tveimur árum lagði ég gangstéttarhellur utan vi aðalinnganginn og á útivistarsvæði undir vesturvegeggnum á Sólvallahúsinu, alls um 20 m2 eða 162 hellur. Í þá daga var margt að hugsa hér á Sólvöllum og ég fyllti ekki strax í fúgurnar. Og fyrst ég gerði það ekki strax hætti ég að taka eftir að ég hafði ekki fúgufyllt fyrr en margs konar jurtir voru farnar að vaxa upp um samskeytin. Meira að segja birkiplöntur glímdu við lífið á þennan hátt. Um tíma reyndi ég að horfa hátt þegar ég gekk út og inn um aðalinnganginn en gróðurinn milli hellanna angraði mig samt bara meira og meira frá viku til viku. Þetta var mér til skammar.
 
Í fyrradag ákvað ég að nú yrði ekki lengur við unað og ég breytti áætlun sem ég hafði gert daginn áður, skrifaði hana upp á nýtt og setti fúgufyllingu inn í staðinn fyreir að slá lóðina. En hvernig í áranum skyldi ég ná gróðrinum burtu? Það hafði ég lengi hugsað um en ekki komist að neinni góðri niðurstöðu. Nú þegar verkið skyldi hefjast gekk ég að ákveðinni skúffu, dótaskúffunni, og leit í hana hreinlega í leit að hugmynd.
 
 
Valdís keypti stöku sinnum hluti sem ég vissi ekki almennilega til hvers hún keypti. Til dæmis þetta græna sem liggur þarna á einni gangstéttarhellunni í veröndinni undir vesturveggnum. Þetta græna apparat lá í dótaskúffunni þegar ég opðnaði hana í gærmorgun. Ég tók þetta upp, velti fyrir mér og næstum hristi höfuðið en vonaði það besta. Svo athugaði ég hvort það væri hægt að opna þetta apparat á einhvern hátt. Ég tók á því og reyndi. Það opðnaðist og svo gat ég lokkað fram úr þessu ýmis tæki og tól sem áttu að geta hjálpað til við eitt og annað.
 
 
Þetta tennta blað vinstara megin sem líkist pínulítilli sög -það vakti áhuga minn. Ég fór út og prufaði og það var nákvæmlega áhaldið sem mig vantaði, þykktin á blaðinu passleg og tennurnar eins og skapaðar til að hreinsa upp gróður milli gangstéttarhellna. Eitthvað á annað hundrað metra af samskeytum millii gangstéttarhellna hef ég nú hreinsað með þessu á síðustu tveimur dögum. Þegar ég var búinn að losa um gróðurinn og ruslið á milli þeirra beitti ég ryksugunni á afraksturinn. Samskeytin á hellunum urðu hrein eins og ég hefði lagt þær á í dag. Alveg er þetta frábært og það liggur við að mér finnist sem ég hafi notið aðstoðar við verkið. Þetta var hörku vinna en alls ekki leiðinleg og árangurinn alveg frábær. Þökk sé Valdísi fyrir að kaupa þetta skrýtna græna apparat.
 
 
Svo er bara að vera iðinn við að hreyfa við þessum fúgusandi á næstu dögum og sprauta á hann vatni inn á milli. Nú er ég mikið ánægður með að gott verk er í höfn og ég ætla að halda upp á það með granatepli í Tyrkjajógúrt. Gangstéttarhellurnar undir vesturveggnum eru mér ekki lengur til skammar.

Býflugur

Ég var á býflugnanámskeiði í kvöld. Það er alveg makalaust hvað þær eru margar þessar flugur. Eruð þið þreytt? spurði yfirbýflugan Agneta þegar við vorum búin að fá okkur kaffisopa í lok námskeiðsins. Já, við vorum öll þreytt og mér finnst núna eftir að ég er búinn að vera svolitla stund heima að ég sé eins og með flugu í höfðinu.
 
Svona getur það litið út ínni í býflugnakúpunni. Það er ein og önnur fluga þarna og það mætti ætla að þarna sé allt skipulagslaust en því fer fjarri. Ekki ætla ég að reyna að útskýra það en eitt er víst að þegar eitthvað vantar eða ef eitthvað fer úrskeiðis þarna inni, þá er gengið til verka og þá eru það engar tilviljanir sem ráða för.
 
 
Þetta kannski segir ekki svo mikið meira en fyrri myndin og þó; svona lítur innréttingin út í býflugnabúi. Það er langt frá því að þarna sé um dýraníð að ræða. Þarna er bara búið að útbúa kjörheimili fyrir þessar flugur og þær geta farið út og inn að vild. Þær eru líka algerlega meinlausar vil ég segja og það er ekki nema býfluga lendi í einhverri klemmu eða áreiti sem þær stinga.
 
 
Við sjáum þarna aftan á yfirbýfluguna sem er þessi þarna með svart barð á hattinum sínum. Björn stórbýflugnabóndi er að taka upp rammana úr einni kúpu og segja okkur hvað geti verið að eða hvað þurfi að varast.
 
 
Þegar ég kom heim gekk ég beint að alparósinni og hún er hreinlega engu líka núna. Þetta er blómlegasti dagurinn hjá henni. Ég held að blómadýrðin á henni getir ekki orðið meiri. Og inn í þessu blómahafi var mikið um að vera. Það var ábyggilega meiri háttar veisla þar fyrir stórar og loðnar hunangsflugur.
 
 
Svo horfði ég norður eftir veginum og síðan suður eftir en enginn var á ferð sem ég gat beðið að taka mynd af mér með alparósinni minni þannig að ég prufaði að gera það sjálfur. Ég skoðaði og sá þar afar alvarlegan mann, bara yfirþyrmandi alvarlegan og ég henti myndinni. Hvernig átti ég að fá sjálfan mig til að brosa í myndatöku hjá sjálfum mér.
 
Ég fann að ég hafði skógarmýtil aftan á lærinu og fór að hugsa um hvernig ég ætti að ná honum. Ég mundi nú leysa það fyrst ég gat leyst vandamálið þegar ég hafði skógarmýtil aftan á rasskinninni um daginn. Ég sá sjálfan mig í anda þegar ég bakkaði boginn í baki og nærbuxurnar á hælunum upp að speglinum á skáphurðinni inn í herbergi með sprittblauta bómull í annarri hendinni og flísatöng í hinni. Síðan lagði ég mig allan fram um að hitta með físatöngina yfir kvikindið, svo kleip ég og ég hafði mýtilinn á valdi mínu. Hann var ekki lengur fastur í húð minni. En ég get látið ykkur vita að áður en ég bakkaði með rassinn upp að speglinum, þá dró ég niður rúllugardýnurnar. Í gær hafði ég þrjá fasta á mér og  náði þeim öllum.
 
Þegar ég hugsaði um þetta fékk ég aðeins léttara yfirbragð. Annars finnst mér sem hiti dagsins sé fastur Í andliti mínu á þessari mynd. Ég veit að hitinn í dag fór yfir 25 stig. Í gær var ég á endurvinnslunni í Fjugesta og þá stóð mælirinn í 28 stigum. Eldra par kom á bíl og lagði bílnum neðan við rampinn. Roskinn maður gekk síðan þungum skrefum upp rampinn með eitthvað frekar létt í poka. Þegar hann kom á móts við mig heilsaði ég og sagði að notalegt væri góða veðrið. Maðurinn stundi upp að svo væri. Ég sá hins vegar að honum fannst annað. Hann var sveittur og virtist eiga fremur erfitt. Áður en hann var alveg kominn framhjá sagði hann: en það er nauðsynlegt að vera með einhvers konar hatt á höfðinu. Svo henti hann pokanum í einn gámanna og gekk heldur léttari skrefum niður rampinn, hvarf inn í bíl hjá kellu og þau hurfu á braut. Satt best að segja var hann ekki yfir sig hrifinn. Það vr auðvelt að sjá.

Alparós -og stórfrétt um íslensk skólamál

 
Ég var á leiðinni heim frá Vornesi seinni partinn í dag þegar Auður hringdi og spurði hvort ég væri heima ef þau skyldu koma við. Ég hélt það nú, eftir klukkutíma, og hugsaði mér gott til góðarinnar. Mig vantaði fólk heim til að geta tekið mynd af einhverjum við alparósina. Mig vantaði viðmiðun. Þessi alparós er nefnilega mjög stór og þó að ég segi það er það ekki eins áþreifanlegt og mynd sem hefur viðmiðun.
 
Nei, nei, sagði Auður, það ert þú sem átt að standa við alparósina en ekki við. Svo stóðum við Þórir báðir við hana og Auður tók mynd. Þarna er alparósin mín búin að  fá viðmiðun.
 
 
Svo auðvitað fékk ég líka að taka mynd af þeim. Þau voru svo alvarleg á fyrstu myndinni en þá talaði ég um hversu vel það sæist á þeim að þau væru ástfangin og því talar þessi næsta mynd sínu máli. Tvær alparósir standa hjá Sólvallaalparósinni.
 
 
Það verður nú að vera ein nærmynd líka.
 
 
Svo suðar alveg ótrúlega mikið inni í þessu blómahafi. Það gekk ekki alveg einfaldlega fyrir sig að ná mynd af almennilegri hunangsflugu í blómi. Það eru engar býflugur sem eru þarna á ferðinni, það eru heiðarlegar og vel vaxnar hunanfgsflugur.
 
Ég ætlaði að finna upptöku með Ellý og Vilhjálmi Vilhjálms þar sem þau syngja alparósina en það varð ekkert lag á því hjá mér þannig að ég valdi þennan karlakórssöng   >  Alparós  <
 
 
Nokkra klukkutíma um miðjan daginn var ég í Vornesi og hitti mikið af góðu, hæfileikaríku og hámenntuðu fólki. Það var fín blanda af þessu öllu og meiru til. Ég hitti þarna konu, grunnskólakennara, sem ég hitti í fyrsta skipti fyrir einum 17 eða 18 árum. Fyrir nokkrum árum settist hún á skólabekk á ný og lærði skólastjórnun, ég held í ein þrjú ár. Ég veit ekki alveg hvað ég á að kalla þann starfa sem hún hefur í dag en ég vel að segja að hún sé námsstjóri á forskólastigi í sveitarfélagi sem hefur rúmlega 16000 íbúa.
 
Þessi kona var á ferðalagi á Íslandi í fyrra og kynnti sér þá íslenska skólakerfið. Hún hafði verið í einhvers konar kynnisferð. Hún hafði það um íslenska skólakerfið að segja að það sé það allra besta sem hún hafi kynnst. Hún taldi tvímælalaust að Svíar gætu hreinlega tekið upp íslenska kerfið og það myndi verða til mikils ábata fyrir sænskt samfálag. Mér dettur ekki í hug að reyna að skýra mál hennar á nokkurn hátt, ég bara segi frá sannfæringu þessar konu og það er þannig að þegar hún talar um þessi mál, þá er ég hlustandi og fyrir mér er hún manneskjan sem hefur þekkinguna.
 
Hún taldi sig líka vita skýringuna á því hvers vegna íslenska menntakerfið væri svo með afbrigðum gott. Það væri vegna þess að þegar íslenska efnahagshrunið hefði gengið yfir árið 2008, þá hefði verið óhjákvæmilegt að endurskipuleggja það allt. Það hefði líka verið gert og með þessum ágætum. Hún sagðist mjög gjarnan vilja stuðla að því að norðurlöndin sameinuðust um að taka upp þessa góðu íslensku afurð efnahagshrunsins og nota hana til að vinna að framförum í menntakerfi hinna norðurlandanna.
 
Ég reyni hér að forðast að nota nokkur fagorð sem ég er ekki maður til að nota en ég held að ég hafi útskýrt nokkurn veginn þann boðskap sem þessi kona bar á borð fyrir mig. Mér þætti fróðlegt að heyra frá íslensku skólafólki um þetta. Ég skal viðurkenna að ég varð yfir mig stoltur af að heyra þetta. Mér fannast alveg frábært að heyra manneskju sem ekki er Íslendingur segja að eitthvað sé best á Íslandi. Ég horfði á hana, hlustaði og hugsaði; þú ert alveg frábær að færa mér þennan boðskap.

Gróðrarsumar

 
 
 
 
Ætli þð hafi ekki verið árið 2006 sem við Valdís fórum í skrúðgarðaverslunina Vexuset eins og það hét þá og var í vesturbænum í Örebro og sóttum þetta tré. Það var pantað fyrir okkur því að við vorum dálítið sein á sumrinu með innkaupin. Þá var þetta planta í potti sem var mjög meðfærileg að halda á út um venjulegar dyr. Ég giska á einn og hálfur til tveir metrar. En sem planta var þetta tré mjög fallegt og fólk sem við mættum í dyrunum og við þær sagði "wow" og sneri ser við til að horfa á eftir okkur. Okkur þótti það svo sem ekkert leiðinleg.
 
Þetta er hestkastanía og er orðin talsvert hærri en húsið. Að vísu er það svolítið falskt að myndin er tekin hérna megin frá. Hæðarmunurinn er ekki eins mikill og ætla mætti samkvæmt myndinni, en það er verulega mikið hærra en húsið sem er 4,2 metrar þarna við suðurgaflinn. Ekkert ár hefur brugðist hjá þessu tré, það hefur vaxið mikið öll árin. Fyrstu árin vorum við líka dugleg að vökva það. Þegar það var gróðursett þarna var aldrei meiningin að byggja húsið fimm metra í átt að trénu. Kastaníutré verða afar breið, en það verður kannski ekki mitt áhyggjuefni hvernig fara eigi að þegar það fer að vaxa inn yfir húsið. Þó veit maður aldrei. Mig grunar að það ráð verði tekið að stytta einhverjar greinar og láta það svo vaxa inn yfir þakið þar til ekki verði undankomu auðið að grípa til sorglegra aðgerða. En þá verða líka einhverjir aðrir verðandi risar stignir fram á Sólvallalóðinni get ég ímyndað mér, verðandi arftakar. Næsta sumar verður kastanían farin að vaxa inn yfir veröndina.
 
 
Þetta er stóra Sólvallaalparósin. Hún er í miklum blóma núna. Þegar ég tók þessa mynd í gær hafði ég stóru Sólvallaeikina skammt frá mér til vinstri. Það verður margt stórt á Sólvöllum þessar vikurnar þegar það skiptast á heitir sólardagar og hlýir rigningardagar. Nú er klukkan hálf tíu að kvöldi og það er talsverð rigning og fjórtán stiga hiti eftir 22 stiga heitan sólskinsdag. Á sunnudag og dagana þar á eftir á dagshitinn að verða 22 til 27 stig. Það mun vaxa svo að augað eygir það eins og sagt var um landbúnaðarguð ásanna.
 
 
Í dag meðan sólin skein suðaði flugnamergðin svo í þessum blómum að ég hef líkt því við þotuhljóð í fjarska. Ekki alveg það sama en ég hef ekkert annað á þessari stundu sem getur sagt það betur. Hins vegar er of lítið af flugum eins og ég hef ábyggilega sagt áður og það rekur á eftir mér með býflugnaræktina. Þá mun mikið frjógvast á Sólvöllum og nágrenni, epli, plómur og margs konar ber munu þá vaxa sem aldrei fyrr. Það er hægt að hafa áhrif til góðs. Ég þarf að klippa alparósina mikið um mánaðamótin mars apríl næstkomandi. Mikil snjóalög fyrir fáeinum árum brutu hana mikið og hún er mjög ójöfn í sköpulagi. Þar verð ég að fá liðveislu reynds fólks og þá mun fara vel.
 
 
Beykið þarna fyrir miðri mynd var pínulítið tré eða stór planta þegar ég kom með þar frá lýðháskólanum við Vingåker árið 2006.  Það er ártal sem ég veit upp á hár. Ég get ekki mælt hæðina nema fá hjálp, en í dag mældi ég breiddina sem reyndist tæpir fimm metrar. Mikið hef ég gaman að svona þróun -það er lífið. Ég hef gaman af að horfa á þetta tré af veröndinni móti skóginum og einnig út um gluggann sem Valdís sat svo oft við. Ég hef líka gaman af að fara út i skóg og horfa heim með þetta tré í forgrunni.
 
Ég er sjálfsagt mesti einfeldningur en mín skemmtilegheit eru alltf nærri mér og kosta lítið.
 
 
Ég átti erindi heim til þessara granna í dag, en þau búa í neðsta húsinu í brekkunni við hliðina á veginum hingað upp. Þau heita Annie og Lennart. Það er líka grænt kringum þau eins og sjá má út um gluggana á sólhúsinu þeirra. Lennart hefur stundum smíðað með mér þegar mér hefur legið á eða þegar ég hef ekki getað gert hlutina einn. Þau eiga bústað upp í Jämtland skammt frá bæ sem heitir Östersund og þangað eru um 600 km. Í dag, eins og oft áður, skoruðu þau á mig að koma í heimsókn í bústaðinn þeirra seinna í sumar. Þau eru með heilt gestahús með öllum nauðsynjum og ég má bara koma og vera og láta fara vel um mig. Já, það er nokkuð að hugsa um.
 
Ef þið klikkið á hlekkinn hér fyrir neðan "Sólvellir" munið þið sjá niður á Sólvelli á gerfihnattamynd. Klikkið líka á "flygfoto" upp í horninu til hægri þegar kortið er komið á skjáinn og þá birtist sjálf myndin. Sólvellir eru undir pílunni með tölunni 3. Lennart og Annie eiga heima undir pílunni lengst til vinstri af þeim fjórum pílum sem sjást.
 

Gestirnir mínir ásamt ýmsu öðru

 
Leif og Ingibjörg Sik. Ingibjörg er íslensk, er Pétursdóttir frá Siglufirði. Ég hef nefnt þessi hjón áður en það skemmir ekki að gera það aftur. Þau heimsóttu mig á Sólvelli í dag. Ég hef fengið hjá þeim margan kaffisopann og heimabakað kaffibrauð sem þau luma á, ég held alltaf. Ég held að það sé Ingibjörg sem annast að það sé til kaffibrauð í frystiskápnum. Leif er duglegur við kaffið og að bera fram veitingarnar þegar ég kem til þeirra. Það var kominn tími til að ég bæri á borð fyrir þau og það var frekar íslenskt borð sem ég bauð upp á.
 
Sem ungur maður var Leif til sjós og þá meðal annars meö ungum íslenskum manni og þeir urðu vinir. Eftir að þeir hættu til sjós hafði Íslendingurinn samband við Leif og stakk upp á að hann kæmi til Íslands. Svo gerði Leif og þá hitti hann Ingibjörgu og eftir það var ekki aftur snúið. Það er ekki hægt að kalla þetta ástarsögu hjá mér en þó er það nú svo að fleiri áratugum seinna deila þau ennþá lífinu með hvort öðru og hafa búið í meira en fjörutíu ár í Fjugesta.
 
Leif talar reiprennandi íslensku og hann er mjög fróður um Ísland og getur frætt mig um margt sem ég veit ekki um föðurland mitt. Frænka Ingibjargar fann bloggið mitt og áttaði sig á því hvar ég bý, hafði samband við mig og gaf mér upp símanúmerið hjá þeim. Þannig geta hlutirnir gengið fyrir sig.
 
 
*          *          *
 
 
 
Ætli það séu ekki þrír dagar síðan ég startaði þessari verksmiðju inn í skógi eina 20 metra að baki húsinu. Það er kannski ekki í frásögur færandi en mér þykir þó að það sé gott framtak hjá mér að hafa gert það. Þetta er moltukerið mitt. Ég veit ekki hvernig moltukerin líta út á Íslandi en ég veti að þau eru í notkun þar. Öllu rusli sem sett er í ruslatunnurnar í sveitarfélaginu er brennt í Fjugesta. Ég get ekki séð ástæu til að vera að flytja matrafgangana mína þangað þegar ég get gert gagn úr þeim hér heima. Umhverfisvænna hlýtur það að vera.
 
 
Hlynurinn er farinn að fella fræin og vegurinn er þakinn af þeim. Þau eru auðvitað yfir allt en sjást ekki svo vel í skóginum eða á grænni lóðinni. Frábær náttúran að sjá um sitt. Fuglarnir éta reyniberin og skíta þeim svo út um allt og þess vegna má segja að reyniviður sé að vissu leyti illgresi. Hlynurinn er hins vegar útbúinn með fræum sem fljúga og það nálgast nú stundum að mér geti fundist hann líka vera illgresi, en málið er bara að hann er svo fallegur með sínum stóru blöðum, blöðum sem geta verið á stærð við tvær hendur sem lagðar eru hlið við hlíð. Vænghaf þessa fræs er 8,5 sentimetrar.
 
 
 
 
Ég gaf honum Brodda í kvöld, egg frá vistvænu hænsnabúi. Broddi hefur ekki látið sjá sig í marga daga og ég veit ekki hvort hann kemur til að éta eggið frá mér. Ég svo sem kann skýringu á því. Hann varð fyrir smá slysi hér heima, nokkuð sem er of langt mál að blogga um seint að kvöldi. Ég er líka búinn að vita lengi að hann heldur framhjá mér. Hann stillir sér fyrir framan nágranna minn þegar hann situr á kantinum á veröndinni heima hjá sér. Svo horfast þeir í augu og tala blíðlega saman. Þetta hefur nágranninn sjálfur sagt mér. Þó að mér mislíki þetta, þá þykir mér vænt um Brodda og ég verð bara að sætta mig við það sem er í gangi :)
 
Ps. Núna liður mér mikið betur. Klukkan er 23,40 og út í kvöldrökkrinu er Broddi að éta vistvæna eggið frá mér. Honum er allt fyrirgefið á þessari stundu.

Enn einn dagur í lífi ellilífeyrisþega

Í kvöld var ég í rúmlega þrjá klukkutíma á námskeiði fyrir býflugnaræktendur. Um það leyti sem við komum þangað byrjaði að rigna, en það var ekki vel þegið af Agnetu býflugnabónda og námskeiðshaldara. Hún ætlaði að láta okkur vinna í býkúbunum sínum en í smá golu og rigningu var það ekki til umræðu. Við fengum þess í stað fræðslu innanhúss. Af minni hálfu var rigningin hins vegar vel þegin. Ég hugsa eins mikið um að gróðurinn hér á Sólvöllum hafi rakan jarðveg og líði vel eins og Agnetu er annt um að býflugurnar hennar hafi hlýju þessa allra síðustu daga sem haustsánu repjuakrarnir eru gulir og gefa af sér hunang.
 
Meðan ég var þarna var mér einmitt hugsað til þessa að óskir um veðurfar eru mismunandi eftir því hvað fólk er að fást við. Á þessu námskeiði eru þrjár manneskjur sem eru grónir býflugnabændur, að sjálfsögðu Agneta og svo tveir menn sem eru hennni til stuðnings. Í augnaráði þeirra allra er vel hægt að greina glóð býflugnaræktandans. Þau brenna fyrir þessu áhugamáli sínu. Ég hins vegar spyr mig hvort ég hafi nóg af þessum brennandi áhuga sem býflugnaræktanda og hvort ég sé reiðubúinn að fórna í það þeim tíma sem til þarf. Eftir því sem þau segja er hversu einfalt sem helst að smitast af þessu. Ef vel gengi hjá mér gæti þetta líka verið smá efnahagsleg viðbót við ellilífeyrinn, en það er annað sem í mínum huga vegur meira, en það er að það þurfa að vera flugur í ríkum mæli til að annast frjógvun á þeim ávaxta og berjarunnum sem ég hef verið að grafa fyrir og gróðursetja hér heima. Alltaf öðru hvoru bregst nefnilega frjóvgunin og í fyrsta lagi vegna þess að það vantar bý og aðrar flugur sem eru góðar í sínu fagi.
 
 
 
Annars hef ég haldið áfram illgresishreinsun minni í dag þar sem frá var horfið í gær jafnframt því sem ég hef verið í almennri snyrtingu þar sem skógur og grasflatir mætast. Það er nokkuð sem mig hefur langað að fara í nokkur síðustu árin en fundið mig of upptekinn af öðru. Ég var mjög ánægður í dag þegar ég var að hreinsa innan um gömlu bláberjarunnana við bláberjabekkinn. Ég elti hvað eftir annað langar, sterkar og hvítar rætur einhverrar hraðvaxinnar jurtar sem ég þekki ekki og gaf mig ekki fyrr en mér fannst sem ég væri kominn fyrir endan á þeim. Í dag fannst mér sem ég hefði allan tíma í heiminum til að gera þetta þar sem engin önnur mikilvægari verkefni biðu mín. Ég var svo sæll með þetta og að allt er að taka svo miklum breytingum í rétta átt. Sólvellir eru farnir að bera vott um gott hugarfar og hirðusemi, ekki bara húsin, heldur umhverfið líka. Þegar ég hef reist mig upp í gær og í dag og litið yfir verkin mín hef ég hugsað  -"loksins".
 
Klukkan er farin að halla í tólf, kvöldrökkrið er sest að og hæglát og ljúf rigningin hnígur góðlátlega til jarðar. Stóru blöðin á hlyninum fá greinarnar til að svigna undan þunga vætunnar en birkikrónurnar virðast bara vera safaríkar og glaðar. Hvernig trén að baki húsinu hafa það sé ég ekki fyrir rökkrinu, en einhvern veginn dylst mér samt ekki að þar ríkir líka velsæld. Hæglátt regnið á að halda áfram fram undir morguntímana, lognið er nú algert og hitinn er ellefu stig. Það heyrist vætuhljóð undan skónum þegar stigið er til jarðar. Á morgun á að verða nokkuð hlýrra og svo hlýnandi áfram með skúrum inn á milli. Fyrir mig er veðurfarið og útlitið hreinlega eins og allra best verður á kosið. Síðan koma hlýir dagar á rakann jarðveginn og allt verður fallegra en nokkru sinni áður á þessu sumri. Mér þykir líklegt að ég kveiki upp í kamínunni í fyrramálið þegar ég stíg undan ullarfeldinum mínum.

Dagur í lífi ellilífeyrisþega

Dagur illgresisins sagði ég á feisbókinni í morgun. Eiginlega er þetta öfugmæli því að þó að ég væri að hreinsa illgresi vítt og breitt á Sólvallalóðinni, þá var dagurinn góður, enginn illgresisdagur. Dagur í lífi ellilífeyrisþega hefði ég frekar átt að segja.
 
Ég lá á hnjánum sunnan við hús og hreinsaði kringum rifsberjarunna. Eitthvað fékk mig allt í einu til að líta upp og ég leit inn í skóg. Þar með stóð ég upp og gekk inn í skóg. Ég horfði á tignarlega trjátoppa, góndi upp þangað mig fór hálfpartinn að svima. Hálsinn er orðinn eitthvað stirðari en á yngri árum. Ég sá tvö lítil tré sem ég ætti að setja band á til að rétta þau. Ég lagði á minnið að kaupa gamaldags snæri þegar ég kæmi við í versluninni Nágrannabænum í Fjugesta seinna í dag. Svo kom ég heim á lóð og byrjaði þá að reita á allt öðrum stað.
 
Svo tók ég mótororfið og sló burtu hávaxið gras kringum stubbinn af stóru, gömlu Sólvallabjörkinni sem við felldum fyrir all mörgum árum. Svo reitti ég þar sem ég hafði farið frá þegar ég fór inn í skóg. Svolítið var ég óskipulagður en ég var bara eins og mér fannst best að vera. Það er merkilegt hvað margt getur komið upp í hugann þegar ég þarf ekki að einbeita mér. Allt í einu datt mér í hug frétt frá því fyrr nokkrum vikum. Þar sagði að traust til sænskra stjórnmálamanna væri mikið og vaxandi. Það hefði ekki verið eins mikið og nú síðan á áttunda áratugnum.
 
Eiginlega af gefnu tilefni datt mér líka í hug umræðuþáttur frá því fyrir einhverjum misserum. Þar voru meðal annars sagnfræðingar með í umræðunni. Þeir sögðu að framfarir og velgengni í sænsku samfélagi hefði gegnum aldirnar alltaf verið mestar um og eftir mikið aðstreymi fólks frá öðrum löndum. Í framhaldi af því datt mér í hug ræða skólastjóra upp í Falun fyrir einum átján árum þegar Valdís var að ljúka sænskunámskeiði, sænskunámskeiði sem eingöngu var fyrir innflytjendur.
 
Allir sem höfðu verið á námskeiðinu komu með eitthvað matarkyns með sér á skólaslitin, eitthvað sem var einkennandi fyrir þeirra land. Það var afar skrautlegt hlaðborð og skólastjórinn sagði að svona væri það þegar ólíkir menningarheimar legðu sitt af mörkum í sátt og samlyndi, þá yrði fjölbreytnin mikil og gæði samfélagsins tæki líka framförum. Hann sagði þetta á sinn hátt sem ég get ekki farið rétt með svo löngu seinna, en ég hreifst af frjálslyndi hans og víðsýni.
 
 
 
Svo fór ég til Fjugesta og kom pakka í póst. Ég fór líka í kaupfélagið en gleymdi að kaupa rjómann þannig að það verður rjómalaus hafragrautur á morgun. Það er þó bót í máli að ég fékk vistvænu apríkósurnar sem mig hefur vantað síðan í síðustu viku. Ég hef haldið því fram í mörg ár að það þurfi ekki alltaf allt að vera til. Það verður því í lagi með rjómalausan hafragraut í eina tvo daga eða fram að næstu verslunarferð. Snærið fékkst hins vegar ekki í Nágrannabænum og konan sem var mér til góðrar aðstoðar vissi hreinlega ekki hvað gamaldags snæri er. Ég veit að það fæst í K-rauta í Marieberg. Trén verða því að bíða eftir stuðningi í einhverja daga.
 
Svo eftir heimkomuna fór ég aftur út á lóð, nú norðan við húsið. Þá datt mér allt í einu í hug hann Hallgrímur Indriðason skógfræðingur á Akureyri. Mér fannst svo gott að koma við í gróðrastöðinni Kjarna þegar ég skrapp til Akureyrar í gamla daga. Hallgrímur, þessi mikli gæðamaður, tók mér alltaf jafn vel og allt fólk sem ég hitti þarna fannst mér þægilegt fólk. Ég var nefnilega alveg viss um það að þeir sem ynnu við skógrækt og annan gróður væru alveg sérstakar gæðamanneskjur. Stuttu áður en við Valdís fluttum út heimsótti ég Hallgrím og Kristínu konu hans á þeirra fallega heimili í því frábæra umhverfi sem Fjaran á Akureyri er.
 
Ég nefndi þetta þá við þau. Þau hlógu ekki að mér en brostu kankvíslega ef ég man rétt. Hallgrímur hafði aldrei velt þessu fyrir sér og ég fékk ekki neina sérstaka staðfestingu á þessari skoðun minni. Þegar ég var í Skógum kom  fólk frá gróðrarstöðinni á Tumastöðum til að aðstoða við gróðursetningu í Skógum og mér fannst líka að þar hitti ég sérstakt fólk, ég sem þá var nánast barn. Það var kannski þess vegna sem mér var boðin vinna á Tumastöðum eftir síðasta veturinn minn í Skógum. Ég afþakkaði en þó með miklum trega.
 
Já, það var mikið meira í dag sem flaug um hugann en heimurinn kemst af þó að ég sé ekki að setja það allt á blað.
 
 
Ps. Þess má líka geta að þegar við Hallgrímur töluðums við sagði hann gjarnan "Guðjón minn".
RSS 2.0