GEFÐU MÉR AÐ DREKKA!!! GEEERÐU ÞAÐ!!!

Hafragrauturinn með rjómablandinu er kominn á borðið ásamt tilheyrandi, svo sem tveimur aprikósum, hnefa af rúsínum, banana og hvönn frá honum Bjarna Thor í Hrísey. Allt er þetta vistvænt ræktað þannig að ég ætla að mér verði gott af morgunverðinum að vanda. Eftir eins og hálftíma ek ég úr hlaði með stefnu á Vornes og verð þar til klukkan tíu í fyrramálið eða svo. Ég finn fyrir sterkri löngun til að vera heima og koma betra lagi á allt hér heima. Ég kom heim úr vinnu á sjötta tímanum í gær og var fljótur að drífa mig í heimavinnugallann, vökva, slá hornanna á milli ásamt stígunum í framskóginum, vökva á ný, hreinsa illgresi og auðvitað að gefa honum Brodda.
 
Svo var hann búinn með matinn sinn og kom þá til mín þar sem ég var að setja vatn á garðkönnurnar mínar allar níu talsins. Það tók því tíma að fylla þær og Broddi fylgdi mér þétt í sporinn svo að ég mátti gæta að mér að stíga ekki ofan á hann. Við horfðumst í augu og við töluðum saman en ég skildi hann ekki fyrr en ég var hættur úti og kominn inn. Þá allt í einu áttaði ég mig á því sem Broddi hrópaði til mín aftur og aftur:
 
GEFÐU MÉR AÐ DREKKA!!! GEEERÐU ÞAÐ!!!
 
Og ég hafði ekki skilið neyðaróp vinar míns. Ég hljóp út með vatn og annað egg og samviskubit í huga. Ég taldi víst að hann sem vappaði þarna ennþá mundi taka sig að vatninu sjálfur. Nei! það fyrsta sem ég gerði í morgun var að gá. Seinna eggið var óétið og þar sem eggjadiskurinn og vatnsdiskurinn eru hlið við hlið hefur hann varla komið í vatnið heldur.
 
Þegar ég kom inn til að vera inni fékk ég mér eitthvað kex sem er svo þunnt að það virðist gert úr næstum eingöngu lofti. Ofan á það setti ég ostsneið og heimagerða rabarbarasultu, settist í djúpan stól og byrjaði á sneiðinni. Svo vaknaði ég klukkan ellefu og virðist hafa klárað sneiðina sem ég hafði haldið á. Það var svo í morgun sem ég setti smjörið aftur inn í ísskáp, sem ég lokaði sultukrukkunni og setti líka í ísskápinn. Það sem eftir var af ostinum hafði gulnað á eldhúsbekknum og fór í moltufötuna undir vaskinum.
 
 
Ég fæ gesti um helgina en verð þó mest í vinnu. Það verður líka fleira fólk á ferðinni. Helst mundi ég vilja slá aftur seint í dag, þrífa seinni helminginn af gluggunum, ryksuga, skúra, stálulla eldhúsvasskinn, þrífa eldhúsbekkin svolítið betur og ganga frá blaða og bérfadóti. Eftir að ég kem heim á morgun mun ég taka til hendinni við þetta en það verður bara brot af því sem ég kemst yfir.
 
Á myndinni eru blómin sem ég fékk fyrir smá viðvik um síðsutu helgi. Þau eru farin að lýjast. Á bak við þau er bangsinn, en eigandi hans ætlar að koma í heimsókn, kemur síðdegis á morgun. Við þurfum að skipuleggja hluti sem við þurfum að vinna að seinna í sumar.
 
Það er matur og vatn á tveimur stöðum úti núna og með því bið ég vin minn Brodda um fyrirgefningu. Ég get ekki gefið honum aftur fyrr en á morgun og þá langar mig að fá hjálp við það. Ég á von á að eigandi bangsans muni hjálpa mér.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0