Dagur laufsins

Eftir hádegið fórum við Valdís út og ég horfði á eftir henni ganga með hrífu að lóðarmörkunum að norðan á móti Elísabetu og þeim hjónum frá Örebro. Þau eru hérna í næsta húsi, sem er sumarbústaður, jafn mikið og þau eru heima hjá sér í Örebro og þau halda öllu alveg sérstaklega snyrtilegu i kringum sig. Þegar Valdís var komin að lóðamörkunum hjá þeim byrjaði hún að raka. Þá var mér nóg boðið. Ég sem var búinn að ætla í marga daga að taka eitthvað af öllu þessu laufi og bera út í skóg hafði ekki komið því í verk og því var Valdís að raka að hluta sama laufinu hvað eftir annað í haugana. Ég stakk tommustoknum aftur í vasann, sótti tvo hvíta plastpoka sem notaðir eru undir dekk og tók svo með mér stóra álskóflu. Nú skyldi Trassi bæta svolítið fyrir syndir sínar. Svo spurði ég Valdísi hvort hún vildi halda í pokann eða moka. Hún vildi halda í pokann.


Hér var komið að verklokum á suður hluta lóðarinnar. Ég hef nokkrum sinnum tekið myndir af Valdísi við að raka. Ég hef náð myndum af henni þar sem hún virðist vera að taka dansspor með vinstri fæti akkúrat þegar hún er búin að draga hrífuna á leiðarenda. Mér tókst ekki að ná svona mynd í dag en þó held ég að vinstri fóturinn sé að komast í danssporið akkúrat þarna og ég hefði þurft að vera hálfu augnabliki seinni að taka myndina. Þá hefði stíllinn verið fullkominn.


Hálf er ég lúðalegur þarna þar sem ég er að leggja af stað í ferð númer fjórtán út í skóg. Ég sé að ég er orðinn ljóshærður, ljóshærðari en ég var sem stráklingur á Kálfafelli. En hvað laufið varðar, þá setti ég það kringum eftirlætisvini mína út í skógi. Ég var mjög hlutdrægur hvað þetta varðaði og flestir vina minna fengu ekki neitt en 21 beykitré fékk lauf til að njóta skjóls af í vetur. Allra bestu eftirlætisvinir mínir tveir fengu þrjá laufpoka, nokkrir tvo en flestir bara einn. Ég er svolítið misjafnlega ástfanginn af þeim. Svo þarf ég að fara með hrífu og jafna úr þessu laufi og nú þegar dylst næringarríkur hænskaskítur kringum þessi tré og laufinu skal jafnað yfir hann. Það verður yndislegt líf í vor að fylgjast með vextinum sem þessi umönnun mun koma af stað.


Mér sýnist sem ég sé að koma utan úr skógi þarna á miðri mynd með tóma pokana. Ég sagði áðan að ég hefði lagt lúðalegur af stað með fulla pokana og ég sé að þarna kem ég ósköp eitthvað álútur til baka. Ég verð að taka á þessu máli og rétta úr mér og verða reffilegri. Ég vil gjarnan vera ellilífeyrisþegi með stíl og það er þá bara að annast það. Kannski það lagist með laufi og hænsnaskít. -:) En ég er reyndar mjög ánægður með ástand mitt eins og ég tala oft um og á ekki að vera að grínast svona.


Og sjáið bara. Þarna sá ég myndavélina og greikkaði sporið. Núna var bara ein ferð eftir, sú fimmtánda og pokarnir urðu 30 og á að giska fimmtán eru eftir sem bíða einhverja daga. Þarna var ég búinn að fá alveg nóg, laufið var rennandi blautt, og þegar við vorum búin að moka í síðustu pokana sagði Valdís: Nú hita ég kaffi.


Já, hvað er nú þetta? Það er ótrúlegt hvað sumir hlutir verða einfaldir þegar einhver hefur komið með góða uppástungu. Ég man eftir því að í gamla daga hugsaði ég stundum sem svo að hvers vegna í fjáranum gat mér ekki dottið þetta eða hitt í hug. Þessir þríhyrningar eru sagaðir úr tveggja tommu þykkum planka og þeir eru 35 sm langir og 12 sm háir.

Saga þessara kubba er sú að við ræddum um það í gær hvernig best yrði að láta sperrurnar hvíla á límtrésbitanum sem á að lyfta upp í þakið á gamla Sólvallahúsinu í næstu viku. Hvernig litist þér á útbúa þríhyrninga og negla upp í kverkina í toppnum spurði Anders. Og þá kom upp þessi hugsun í kollinum á mér; rosalega var þetta einfalt. Svo útbjó ég þríhyrningana tíu í dag og skrúfaði þá upp í kverkarnar á sperrunum og það sér hvert barn sem lítur á þetta að frágangurinn hefði eiginlega aldrei getað orðið neinn annar. Traustur og alveg pottþéttur frágangur. Svo einfalt er það.

Hefði þetta komið upp fyrir svo sem 30 til 40 árum hefði ég verið líklegur til að svara; já, mér datt það líka í hug. Svoleiðs  barnaskap hef ég lagt af með í dag og það kalla ég að vera orðinn fullorðnari. Mér líður mikið betur með það og ég reikna með að í því þekki margir sjálfan sig. Það er alls ekki slæmt að verða eldri og eiginlega hefur mér bara einu sinni fundist að ég hafi orðið eldri þegar ég hef átt afmæli. Það var þegar ég varð þrítugur.

Eftir nóttina í nótt verður bara einnar klukkustundar munur á tímanum hér í Svíþjóð og á Íslandi.

Að byggja sterkt hús

Það hefur verið leyndarmál um tíma hvernig Sólvallahúsið lítur orðið út og við líklega höldum því bara leyndu enn um sinn. En eins og ég hef oft sagt áður hef ég skrifað og skrifa enn mikið um þessa byggingu eins og um mjög sögulegar byggingarframkvæmdir sé að ræða. En þó að það sé leyndarmál hvernig byggingin lítur út í dag er auðvitað mikið hægt að skrifa. Smiðurinn var hér í dag og það var eins og vant er þegar hann kemur að þá tekur allt verkefnið gríðarlegan sprett og hann gerir á einum degi það sem ég geri á kannski þremur dögum. Svo þegar við leggjum saman verður dagsáfanginn mjög veglegur. Við vorum með myndavélina á ferðinni í dag eins og síðustu daga og ég ætla nú að bregða fyrir mig nokkrum myndum.


Þegar við keyptum Sólvelli var húsið auglýst sem einfaldur sumarbústaður. Það var orð að sönnu en einhvern veginn var þokki yfir öllu þessu húsi og frágangi þess og sjálft húsið reglulega fallegt. En ef sólvellir eiga allt í einu að geta kallast einbýlishús er ekki nóg að bæta við það. Gamla húsið verður þá líka að fá vissar endurbætur og styrkingar. Á laugardaginn var var mér búið að vera ljóst lengi að ég þyrfti að grafa talsverða holu undir eldhúsinu og steypa þar heil mikinn nökkva sem undirstöðu undir súlu sem á að halda undir veglegan límtrésbita sem aftur á að halda uppi stærstum hluta af gamla þakinu. Síðan ætlum við að hækka til lofts í þessum hluta. En nú var komið að þessu verki, það var ekki umflúið en ég get ekki sagt að ég hafi hlakkað til. Á myndinni fyrir ofan, verkið er hafið, þrjár fjalir farnar og það verður ekki aftur snúið.


Það svo sem sést ekki mikið á þessari mynd en alla vega er ég þarna búinn að moka um 400 kg upp úr þessari holu, bera út í fötu og hella þar í hjólbörur. Það versta var að yfir holunni var gólfbiti sem ekki sést á myndinni. Bitinn sem sést á myndinni er langband sem gengur þvert undir alla gólfbitana. Daginn eftir þegar ég ætlaði að fara að undirbúa steypinguna kom í ljós að ég þurfti að grafa út nokkrar fötur í viðbót. Og hvað gerir maður þá? Jú, grefur það sem á vantar.


Það var kominn sunnudagur og sjónvarpsmessunni var lokið. Þá var ekki beðið boðanna og uppsláttur úr einangrunarplasti hófst, að vísu eftir að hafa grafið út svolítið í viðbót við gröft gærdagins. Svo hófst steypuvinna og járnbending og það var sami háttur hafður á og daginn áður utan það að nú bar ég steypu inn í fötunni. Ég veit ekki hvort ég á að segja að þetta hafi verið gaman en alla vega þótti mér skemmtilegt að geta framkvæmt þetta sjálfur og þurfa ekki að skæla yfir því. Svo vissi ég líka að þetta var þáttur í því að gera Sólvallahúsið þannig úr garði að það verði sterkt einbýlishús og ekki lengur einfaldur sumarbústaður. Rúmlega 400 kg steypuhnallur sem ég gerði þarna er þáttur í því.


Þarna er annar steypuhnallur sem ég gerði fyrir nokkrum vikum og hann er líka þáttur í þessari styrkingu. Á þessari mynd til hægri sést upp í gólfbita sem áður var endabiti en er nú fimm metra inn undir húsinu. Þetta minnir mig á eina af ferðum mínum á Sólvelli áður en við keyptum húsið þegar ég tók með mér hamar og nagla og negldi upp í bitana til að athuga fúa. Niðurstaðan var; enginn fúi. Það sést líka vel þegar unnið er svona við húsið eins og við höfum gert undanfarið; enginn fúi.


Ég var viss um það að þegar ég var búinn að gera tilbúinn þennan seinni steinnökkva, að þá væri öllum slæmum verkum lokið vegna þessara byggingarframkvæmda okkar. En ég komst að því þegar ég var að rífa burtu þakfótinn sem lenti inn í nýju forstofunni að það var engu þægilegra verk en að grafa fyrir og steypa steypuklumpa inn undir húsi.


Og að saga með vinstri hendi 20 sm sperruenda út í horni og saga bæði í fjögurra tommu nagna og stóra skrúfu, það krafði þolinmæði og að taka nokkrar pásur. En nú er það búið líka og um helgina verða bara skemmtileg verk að vinna á Sólvöllum.

En er þá ekki best að halda upp á þetta með því að ljóstra upp leyndarmálinu og þá legg ég til að litið verði á næsta blogg hér fyrir neðan.

Sólvellir í dag, 29. október 2010

Já, hér er leyndarmálið, Sólvellir eins og þeir líta út í dag.


Meiningin hjá okkur var að birta engar myndir fyrr en búið væri að setja gerefti á glugga og hurð, setja hvítu borðin á hornin og ganga frá þakrennuniðurföllunum. En það verður dráttur á að þetta verði allt tilbúið þar sem við erum að kappkosta að einangra og fá hita og þurrk í húsið. Grænu rendurnar við hornin eru bráðabyrgðaniðurföll fyrir þakrennurnar og gera húsið svolítið skrýtið í laginu


Þó að húsið sé rúmlega 2,5 sinnum stærra en það var þegar við keyptum það hefur okkur tekist vel að halda upphaflega stílnum. Sólvellir var lítið fallegt hús og er í dag mikið stærra -en ennþá fallegt hús- sem á eftir að verða ennþá fallegra þegar búið verður að ganga frá atriðunum sem ég taldi upp með fyrri mynd.


Hurðin er búin að vera út í geymslu í eina tvo mánuði en við tímum ekki að setja hana í fyrr en búið er að bera það mesta af byggingarefni inn.


Þarna lét Anders Valdisi eftir að taka mynd af sér. Þann dag settum við meðal annars í sjö glugga og í glugganum til vinstri sést í draugahendi, en það er reyndar hendin á mér þar sem ég styð við gluggann svo að hann falli ekki út. Anders hefur verið að byggja einbýlishús inn í Örebro og sagði okkur þá undarlegu sögu í dag að hann hefði aðeins í örfá skipti hitt húseigendurna að því húsi. Þau hefðu aldrei komið til að gleðjast yfir neinu og einu sinni hefðu þau komið með nokkrar bollur í poka. Hér hjá ykkur er alveg frábært að vinna sagði hann þar sem við vinnum saman og það er góður félagsskapur okkar á milli. Einhvern tíma í dag leit hann á klukkuna og þá var hún meira en hann hafði haldið og þá sagði hann að tíminn liði svo fljótt þegar það væri gaman.


Nú læt ég oft eins og ég sé einn að framkvæma á Sólvöllum. Lausull til einangrunar er hægt að kaupa í byggingarböruverslunum en hér er kona sem tekur steinullarafganga og býr til lausull úr þeim.


Þegar upp var staðið vantaði 40 panelborð utan á húsið. Um leið og ég hafði sótt þau dreif Valdís í því að mála og svo voru þau tilbúin þegar Anders kom til að klæða. Hún er með í þessu öllu saman. Þeir sem hafa komið hingað til að vinna muna líka eftir vöfflunum og íslensku pönnukökunum sem þeir hafa fengið hjá Valdísi. Valdísi, og okkur báðum, þykir mikils um vert að þeir sem koma hingað til að vinna hafi góðar minningar um þennan vinnustað.

Dugnaður eða ... jú víst er það dugnaður

Ég sagði frá því á Facebook í morgun að ég ætlaði að grafa holu fyrir undirstöðu undir gólfinu í gamla hlutanum á Sólvöllum í dag. Hún Þórlaug stórvinkona okkar kom þarna með innlegg og sagði "Dugnaðurinn í þér Guðjón". Ég horfði á þetta innlegg og hugsaði; eða bilun í mér.

En hvað sem því líður færði ég í dag um 400 kg af urð og grjóti undan gólfinu í gamla Sólvallahúsinu í svartri öflugri plastfötu
og helti í hjólbörur sem stóðu utan dyra. Kannski var hægt að segja að verkefnið væri ekki mönnum bjóðandi en samt sem áður er greftrinum lokið. Við erum líka búin að sækja þurra steypublöndu í Bauhaus í Marieberg ásamt steypustyrktarjárni og smá fleiru í verkefnið og á morgun eftir messu verður steypudagur á Sólvöllum. Steypan verður borin inn í fötu úr hjólbörunum þar sem ég bleyti upp í henni og hræri eftir þörfum. Síðan legg ég gólfborðin yfir aftur til bráðabyrgða.

Á miðvikudag kemur svo Anders smiður með Lars félaga sinn með sér og þeir ætla að setja upp trésúlu á sökkulinn sem á að bera uppi límtrésbitann sem þegar liggur uppi á gamla loftinu og bíður uppsetningar. Anders kemur með mann með sér þar sem hann vill ekki láta ellilífeyrisþegann bjástra við þungan bitann. Hann er gætinn með slíkt enda sagði hann eitt sinn; farðu gætilega og ekki vinna þig í hel. Ég get samt ekki fullyrt að ég hafi farið gætilega í dag. En þannig líkur einum áfanganum af öðrum og ég harma ekki þegar þessir erfiðu eru að baki. Síðar koma tímar sem hægt verður að gera skemmtilegra í lífinu en að liggja á hnjánum milli gólfbita og skrapa upp möl og grjót úr djúpri ferkantaðri holu.

Ég horfði á klukkutíma dagskrá í sjónvarpinu milli klukkan átta og níu og þar var höfuðpersónan Lasse Berghagen sem eitt sinn leiddi Fjöldasöng á Skansinum. Lasse er að nokkru úr Dölunum, frá Svärdsjö þar sem við Valdís bjuggum í árdaga, og því spunnust Dalirnir dálítið inn í þessa dagskrá. Þarna sat ég með hálf vot augu og var inn á milli kominn upp í Dali. Ég sá fyrir mér lág skógi vaxin fjöllin kringum Borlänge, gekk í huganum eftir Holmgatan og Åsgatan í Falun, ók veginn til Svärdsjö þar sem akurlöndin mæta vatnasvæðunum á hægri hönd og skógi vaxnir ásar og hnjúkar taka við á vinstri hönd. Rétt þegar komið er til Svärdsjö er svo sumarbústaður Lassa til vinstri með útsýni yfir eitt af þessum mörgu vötnum sem gefa Dölunum ógleymanlega fegurð. Ég kom einnig við á vissum stöðum við Siljan og það var bara að nefna það. Það var af nógu að taka.

Ég vona bara að skaparinn láti okkur þetta eftir þegar ég hef gert hér heima hjá okkur það sem þarf að gera. Sjónvarpsþátturinn var góður og mér fannsta hann sem svolítil umbun eftir þennan dag. Ég get ekki neitað því að mér finnst umbunin oft vera á ferðinni en að ég þurfi líka að vinna fyrir henni. Ég veit til dæmis að þegar búið verður að breyta loftinu í gamla Sólvallahúsinu, sem stefnt er að með vinnu dagsins, þá mun ég glaður líta þar til lofts og finnast sem ég eigi þetta með réttu. Ég vann fyrir því og það var ekki svo erfitt þegar umbunin hefur skilað sér. Ég hlustaði líka á hann Bjartmar systurson minn syngja á www.bjartmar.is eftir að sjónvarpsþættinum áðurnefnda lauk. Ég veit að það var barátta fyrir hann að komast þangað en sú barátta skilaði sér. Hann vann fyrir því.

Að lokum. Ég er giftur konu sem heldur vel í mér lífinu. Hún bakaði lummur úr afganginum af grjónagrautnum frá í gær og mikið voru þær góðar eftir gröftinn. Þær kúrðu líka ljúflega í maganum á leiðinni til og frá Örebro þegar við skruppum eftir steypunni. Nú heyri ég að Óli Lokbrá er kominn í félagsskap aftan við mig og ég ætla að koma mér í þann félagsskap einnig. Þakka þér líka fyrir lambakótiletturnar í kvöld Valdís mín.

Grautur úr grjónum með hýði

Við smíðuðum í dag ég og Anders. Hann kom klukkan hálf átta í morgun og þá hafði ég verið í gangi svolitla stund. Við unnum saman stóran hluta úr deginum en það er ekki svo oft sem við gerum það. Við erum gjarnan hvor við sitt verkið en réttum hvor öðrum hjálparhönd eftir þörfum. Hann vinnur hratt þessi maður eins og ég hef oft sagt og í dag hef ég þurft að halda í við hann. Svo fór hann um klukkan þrjú og þá var eins og vindurinn færi úr mér. En ekki datt mér í hug að hætta nánast um miðjan dag. Ég fór því að sinna hálfgerðu leiðinda verkefni, en það var að saga burtu gömlu þakbrúnina sem lenti inn í nýju forstofunni. Svona þarf að gera þegar byggt er þvert á eldri byggingu. Það væri sjálfsagt betra að gera þetta um leið og nýja þakið er byggt og klætt en á þeim tíma sem verið er að byggja nýtt þak er erfitt að gefa sér tíma til að sýsla við svona dót.

Svo sagaði ég við vondar aðstæður, boraði og sagaði meira, hjó sundur gamlan þakpappa, braut borinn, hjó brotið burt með sporjárni, hjó í borinn og sporjárnið hætti að bíta, sagaði meira, braut annan bor, en hvað sem öllu líður komst ég áleiðis og sá fram á að þetta tæki enda. Eftir góðan áfanga þarna tók ég fötu, losaði poka af hænskaskít í hana og tók ausu eins og þá sem notuð var í mjölið í kaupfélaginu í Hrísey í gamla daga. Svo hélt út í skóg. Síðan gaf ég hverju beykitré eina og hálfa svona ausu af skítnum og dreifði honum við útjaðra trjákrónanna þar sem tré taka upp mest af næringu sinni. Þetta gerði ég einmitt núna vegna þess að ég vildi enda daginn á einhverju virkilega notalegu. Hænsnaskítur lyktar kannski ekki svo sérstaklega notalega en við hverja ausu sem ég fyllti fékk ég tilfinningu fyrir því að þessi tré muni þakka vel fyrir sig að vori.

Þegar ég var búinn að þessu fór ég inn og færði mig úr vinnugallanum. Þegar ég var sestur niður leit ég út og hafði orð á því að það væri of bjart til að hætta. Þá varð Valdísi að orði hvort ég væri eitthvað bilaður. Þú sem ert búinn að vera að síðan hálf átta í morgun sagði hún. Já, einmitt. Og ég reiknaði út að ég hefði verið að í tíu tíma með smá pásum. Ég er ekki að monta mig með því að segja þetta, en hins vegar er ég að þakka fyrir þá heilsu sem ég hef með því að skrifa það niður.

Á morgun eftir rólegan morgunverð byrja ég á öðru verkefni sem ég gjarnan vildi losna við, en það er að opna gólfið stutt frá eldhúsinnréttingunni. Þar undir ætla ég að grafa drjúga holu og steypa síðan í holuna vænan steypunökkva. Hann á að verða undirstaða undir súlu sem á að halda uppi öðrum enda á límtrésbita sem á að koma undir stærstan hluta af þakinu yfir gamla húsinu. Þessi aðgerð er liður í því að gera gamla húsið líka sem nýtt.

Ertu eitthvað bilaður sagði Valdís í dag. Um daginn sýndist henni að ég væri eitthvað slæptur og þá sauð hún kjötsúðu með aragrúa af grænmeti í. Svona matur gerir mig frískan. Hún er nösk á að vita hvenær mest þörf er á þessu. Við töluðum um það í hádeginu í dag við Valdís og smiðurinn hvernig maður geti best haldið heilsu á efri árum. Niðurstaðan var að halda sig ekki of mikið í sófanum og gera flest það sem fólk þarf að gera og borða svo fjölbreyttan mat. Meðan við töluðum um þetta vorum við að borða grjónagrautinn sem Valdís sauð úr hrísgrjónum með hýði. Anders leist svo vel á þetta að hann ýtti nestisfötunni sinni til hliðar og borðaði grautinn með okkur. Svona grautur er hollur grautur.

Það eru komnir svefnórar í mig og þá ætti ég að hafa vit á því að þagga niður í mér. En svefnórar eru nefnilega þannig að maður hefur ekki vit á því að þegja. Ég nefndi tvö verkefni sem ég gjarnan vildi losna við að gera. Samt eru þau eiginlega skemmtileg líka því að það er svo rosalega gaman þegar þau eru búin.

Haustvindar

Í dag hefur verið þessi kaldi haustvindur, kaldur þó að hitamælirinn væri nálægt tíu gráðum. Var einhvers staðar laus endi eða horn á plasti slóst það til með hljóðum sem minna á haust. En það er bara að muna að það er ekki nema hálft ár þangað til ég fer í ferðir út í skóg á ný til að fylgjast með brumum og nýlaufi, þessu vorlaufi sem er svo viðkvæmt og hrokkið þegar það opnast mót hækkandi sól og nýju vaxtarskeiði. Sérstaklega falleg eru beykilaufin og að auki virðast þau svo viðkvæm en sannleikurinn er þó sá að þau spjara sig aðdáunarlega vel, jafnvel þó að á móti blási. Karin Boye bar oft saman líf manneskjunnar og líf trésins og í einni af sínum ljóðlínum segir hún "og lífið sýður bakvið börkinn". Þessi ljóðlína er trúlega á níræðis aldri en að vori mun lífið þó sjóða bakvið börkinn á ný.

Ég fór út í framanverðan skóginn í dag og þar gekk ég á þykku lagi af laufi. Mest áberandi var laufið af hlyninum, þessi blöð sem verða á stærð við undirskálar. Laufið í skógarbotninum eykst frá ári til árs eftir að við grisjuðum grenið svo um munaði og lauftrén gripu tækifærið svo sannarlega og byrjuðu að vaxa um allt juku þar að auki vaxtarhraðann. Næsta vor og sumar hverfur þetta lauf og sameinast jarðveginum sem það óx upp af árið áður. Þegar ég gekk þarna í laufinu í dag velti ég því fyrir mér að jarðvegurinn hlýtur að verða meira frjór frá ári til árs þegar hann fær árlega allt þetta lauf sem rotnar og verður að nýrri næringu. Ég varð ögn skáldlegur í þessum hugleiðingum og hefði kannski átt að setjast við tölvuna þá en ég valdi smíðarnar. Núna er ég kominn of langt frá upplifuninni til að geta komist í þá snertingu við hana sem ég ætlaði

Fram á lóðinni var Valdís og rakaði þykku lagi af laufi í stóra hauga. Ég er búinn að segja henni að ég taki höndum um þetta lauf. Ég ætla nefnilega að fara með það út í skóg og jafna því kringum eftirlætistrén mín þar. Og áður en ég geri það ætla ég að setja hænsnaskít kringum þessi tré sem laufið á svo að leggjast yfir. Það verða þakklát tré að vori sem fá svo að njóta þessara kræsinga.

Við höfum verið eitthvað hljóðlát í dag en komið lítið í gang núna undir kvöldið. Við höfum ekki verið önug og ekki í fýlu og ekki kastað skít hvort á annað. Ég held hins vegar að þetta sé hausttregi sem þessi áþreifanlegi haustvindur setur í gang. Svo tók Valdís grjónagrautinn sem gekk af í gær og setti út í hann svolítið af spelthveiti. Síðan hafnaði þessi grautur í rapsolíu á pönnu og úr urðu þessar fínu lummur. Ég held að það hafi verið þá sem hausttreginn gaf sig. Svo fór ég aftur út að smíða en skynjaði skömmu síðar að kvöldrökkrið sest fyrr og fyrr að fyrir hvern dag sem líður, en ég var svo ánægður með afrakstur dagsins að það hafði ekki svo mikil áhrif á mig.

Á miðvikudag fer ég í vinnu um hádegi og verð fram á fimmtudagsmorgun. Þetta var ákveðið í mars síðastliðnum og núna seinni partinn í dag fékk ég hugmynd. Ég hringdi í Vornes og var pínulítið að vona að þetta væri fyrnt og ég þyrfti ekki að koma. En nei, það var alls ekki fyrnt, ég á að koma. Þá það. Einhver leti greip mig en ég veit að sem vant er verður það allt í lagi þegar ég er farinn af stað. Hins vegar er mér ekkert vel við það, 68 ára gömlum manninum, að skilja Valdísi eina eftir þegar dagurinn er orðinn svona stuttur. En hún er dugleg fiskimannsdóttirin og bifast ekki þó að ég skreppi að heiman næturlangt.

Nú er komið mál fyrir ellilífeyrisþegann að fara til fundar við Óla Lokbrá. Á morgun kemur rafvirkinn og hann verður hér væntanlega um hálfátta leytið. Þá vil ég vera orðinn sprækur því að ég vil ekki sýna mig hrukkóttan í andliti og með stóra poka undir augum. Valdís flettir bók hérna bakvið mig, að öðru leyti er hljótt. ég held bara að haustvindurinn sé genginn niður.

Þokkalegt skal það verða

Það eru nokkrar vikur síðan. Það var kominn pappi á þakið á viðbyggingunum á Sólvöllum og vindpappi utan á veggina. Ég var í verðandi forstofu að smíða upp undir þaki og missti eitthvað verkfæri niður á botninn undir húsinu. Gólfbitarnir í forstofunni voru óklæddir en á þá var ég búinn að hlaða mörgum sekkjum af steinull. Ég brölti niður á milli sekkjanna og fór niður á milli bitanna niður á botninn undir húsinu. Þegar ég kom þangað niður var þar þurrt og kyrrt og ótrúlega notalegt. Ég hálf lá á hliðinni og virti þurra og hreina hleðslusteinana í grunninum fyrir mér og minntist orða Anders smiðs eftir einn heitasta dag sumarsins og þegar hann var var búinn að hlaða upp 150 steinum í grunninn; þú ættir nú að útbúa múrblöndu í fötu og fylla í stærstu holurnar svo að þetta líti þokkalega út áður en við lokum gólfinu.

Daginn eftir var álíka heitt og sólin sendi heita geisla sína niður í grunninn þar sem ég vann við að fylla í stærstu holurnar með múrblöndu. Þegar ég var búinn að því voru all margar minni holur eftir og nú fannst mér þetta skemmtilegt verk svo að ég blandaði í aðra fötu og fyllti í holur þangað eitt af mestu þrumuveðrum sem við höfum upplifað hér í Svíþjóð dundi yfir.

Anders hafði sagt; svo að þetta líti þokkaþega út áður en við lokum gólfinu. Nú lá ég þarna á hliðinni nokkrum vikum seinna og minntist þessara orða hans og ég minntist líka heimsóknar árið 2002 í fyrsta bústaðshús mömmu og pabba í Kálfafellskoti í Vestur-Skaftafellssýslu. Þau byggðu það hús á fyrstu búskaparárum sínum um 1930, um það bil 70 árum áður en ég kom í þessa heimsókn. Þau fluttu svo þaðan að Kálfafelli árið 1942 eftir að hafa búið þarna í nokkur ár og það var árið sem ég fæddist.

Það vakti athygli okkar sem tókum þátt í þessari heimsókn að húsið hafði greinilega verið byggt af alúð. Við komum niður í steinsteyptan geymslukjallara sem er undir húsinu og þar urðum við undrandi. Þessi 70 ára kjallari var svo ótrúlega þurr og þrifalegur. Þeir hlutu að hafa drenað frá kjallaranum niður í hallann sem er nokkra metra sunnan við húsið. Sem steypumót höfðu verið notaðar bárujárnsplötur og það þarf ekki mörg orð um það að ef bárujárnsplötur mætast ekki alveg hárrétt eða halla misjafnlega verður það mjög áberandi í steinsteypunni. Þarna örlaði ekki á neinu slíku. Allt var jafnt og beint og steypuáferðin ótrúlega falleg. Þetta unnu þeir pabbi og Jón Sigurðsson á Maríubakka var eflaust yfirsmiður. Þórarinn móðurbróðir minn á Seljalandi var með í þessari húsbyggingu líka. Verkið sem þeir skiluðu þarna til framtíðarinnar var unnið af vandvirkni og alúð og það leyndi sér ekki enn svo löngu seinna.


En nú aftur til sólvalla. Það var komið að því að við Anders færum í að klæða gólfið. Það var einhvern veginn óskrifuð ákvörðun að ég yrði búinn að ganga frá öllu þannig að það væri bara eftir að klæða gólfið þegar hann kæmi. Þegar ég gekk til verks horfði ég yfir vetvanginn og hikandi hugsaði ég um hversu löngum tíma ég ætti að eyða í að skríða þarna niðri. Ég ákvað að taka þann tima sem þyrfti og svo sótti ég myndavélina til að geta síðar séð hvað ég hefði verið að gera. Svo sótti ég verkfæri; handkúst, stóra plastfötu undir rusl og garðhrífu með styttu skafti. Síðan vann ég þetta verk af vandvirkni og alúð. Ekki einn boginn nagli fékk liggja eftir, ekki tréflísar, steinullarlagðar eða þakpappabitar sem lágu lítið hingað og þangað.


Eftir nokkra klukkutíma var þetta var árangurinn. Ég byrjaði á að jafna úr sandinum sem við settum ofan á drenlagið í sumar og síðan jafnaði ég einangrandi leirkúlum yfir botninn þannig að hann yrði hæstur á miðjunni. Síðan lagði ég plastdúk yfir og og síðan leirkúlur ofan á plastið og þá mest út við sökkulinn. Að hafa plastið hæst á miðjunni er gert með það fyrir augum að "ef" svo skyldi fara að einhvern tíma komi vatn inn í grunninn á það að renna út af plastinu, niður með sökklunum og niður í drenlagið undir öllu saman. Inni í svona grunnum, ef þeir eru vel gerðir, verður aldrei frost, þeir verða vel þurrir og það heldur byggingunni þurri og sparar kyndingarkostnað. Aðferðin er ævagömul og hefur þróast með nýjum efnum en eiginlega er kunnáttan alveg sú sama og áður. Hæðin þarna er 70 til 75 sm en hefði verið höfð einni steinahæð meiri ef við hefðum getað lagt frárennslisrörið frá grunninum út á lægra svæði en við höfum.

Ég hefði getað gert þetta á einhverjum klukkutíma, látið ruslið eiga sig, ekki sópað af syllunum meðfram veggjunum og bara hent borðinu upp á einhverja sylluna og sleppt svo leirkúlunum og plastinu. En nú er það svo að ég vil að eftir 70 ár geti einhver farið inn undir húsið og hugsað; hér hefur fólk sem ekki lifir lengur unnið af vandvirkni og alúð. Það er nefnilega skilyrði að það sé hægt að komast undir húsið og ég er búinn að leysa það mál en ennþá bara í huganum. Framkvæmdin bíður trúlega vors.

Þannig byggir maður hús. Maður sullar ekki með gauragangi upp húsi sem á að vera mannabústaður, margir segja hús með sál. Maður gefur því alúð og hlýju og þá verður gott að búa í því. Maður á að njóta þess að byggja hús og þá verður maður ónýskur á handtökin. Að hugsa sér, ef það væri hægt að gera það alls staðar í heiminum að njóta þess að byggja í stað þess að það sé grundvallarskilyrðið að einhver eða einhverjir verði skuggalega ríkir á því að byggja hratt -og jafnvel illa. Ég get heldur ekki neitað því að mér finnst það skipta máli að eftir minn dag geti fólk séð á húsinu að það hafi verið byggt með þessari hugsun. Þessi hugsun heitir dyggð og gefur lífinu gildi.

Grunnurinn í Kálfafellskoti er hugsaður og gerður á sama hátt þó að hann sé steyptur en ekki hlaðinn úr eingangrandi steinum og auðvitað fleiri grunnar á Íslandi. En ég man ekki eftir því að slíkir grunnar hafi nkkuð sérstakt nafn og ekki heldur að þeir hafi öðlast svo þróaða byggingaraðferð. Hér heita þeir torpargrunnar. Torp er ákveðinn byggingarstíll. Sólvellir er ekki torp, stíllin er ekki sá rétti til þess, en Sólvellir geta hins vegar staðið á torpargrunni.

Allir sem lögðu hönd á plóginn við að byggja húsið í Kálfafellskoti eru framliðnir. En ég get séð þá í anda, pabba og Þórarinn á Seljalandi, þegar þeir tóku burtu bárujárnsplöturnar af steinsteypugrunninum og sáu að verkið hafi tekist vel. Ég efast ekki um að þá urðu þeir ánægðir þó að þeir hafi nú kannski ekki beinlínis hrópað upp að mikið væri þeir glaðir. Ég býst ekki við að það hafi verið stíllinn í harðri lífsbaráttunni á Íslandi um 1930. Hins vegar get ég ímyndað mér að þair hafi lagt hönd á veggina og haft orð á því að þetta hafi tekist vel.


Anders dró mig uppi. Ég setti til þess gerðar masonítplötur sem heita trossbotn milli bitanna og einangraði með 20 sm ull og vann botninn undir öllu saman á eftir mér. Anders kom svo með gólfplöturnar og festi niður. Plöturnar eru þungar og Anders er sterkur. Honum finnst kannski að ég gangi full langt með alúðina en hann virðir það. Hann sagði líka á sínum tíma; "svo að þetta líti þokkalega út áður en við lokum gólfinu".

Ef þú værir hundurinn minn

Eftir rökkurbyrjun í gær gekk ég með járnkallinn út að efnisstæðu sem liggur á lágum búkkum sunnan við húsið. Yfir þessu byggingarefni hefur verið segl undanfarið sem áður var tjald á brauðfótum sem þoldi ekki sænska sumarveðráttu og féll um koll í vestan stinningsgolu. Seglið sem síðan lá yfir efninu sleppti vatni í gegnum sig og var engan veginn í lagi. Ég ákvað að byggja duglega yfir efnið. Með járnkallinum gerið ég fjórar holur í beinni línu innan um efnið, rak mannhæðarháa staura niður í holurnar og setti svo slá ofan á staurualínuna sem skyldi verða nýr tjaldmænir. Að þessu loknu fór ég inn að borða og þar með var komið myrkur.

Klukkan sjö í morgun gekk ég út að þessu nýja framkvæmdasvæði mínu og ætlað að halda byggingunni áfram. Þá féllust mér algerlega hendur og ég varð bara alveg rosalega þreyttur. Hvern fjáran sjálfan var ég að gera með þetta blessað tjald. Bara bull og vitleysa og mikið nær að ég sneri mér bara að húsamíðinni. Ég var bara einn millimeter frá því að ganga á staurana með járnkallinn aftur og nú til að losa þá upp áður en nokkur sæi til mín. En þá sá ég fyrir mér gereftin sem Valdís hafði málað í vikunni og voru inni í nýju viðbyggingunni. Ég var búinn að ákveða að bera þau út um helgina þar sem við Anders smiður vorum aftur búnir að ákveða að setja gólfin í herbergið og forstofuna á mánudag eða þriðjudag. Hvar átti ég að setja gereftin? Kannski bara að kasta þeim út á bera jörðina og láta svo rigna á þau. Ég hélt áfram við tjaldið.

Ég vann við þetta af miklum þráa og elju en losnaði ekki við þreytuna. Hins vegar var ég svo þrár að verkinu miðaði vel áfram og þegar ákveðin grind mundi verða komin upp skyldi ég verðlauna mig með því að fara inn og borða alveg gríðarlega mikinn og góðan morgunverð. Og svo varð. Eftir morgunverðinn varð ég ennþá þreyttari og settist í djúpa stólinn minn og slappaði af. Ég nálgaðist að hrotubylgjulengdina og svo hvarf þreytan.

Sannleikurinn var held ég sá að þegar ég kom út í morgun fannst mér þetta bara svo fáránlegt að mér féll allur ketill í eld. En eftir morgunverðinn og hvíldina var ég svo himinlifandi yfir framkvæmdinni að ég réði varla við dugnaðinn. Mér gekk rífandi vel og Valdís sem var komin út og tíndi rusl á kerruna sá sér ekki annað fært en taka myndir af þessum ánægða byggingariðnaðarmanni á fullu. Þá auðvitað kom montið upp í mér og ég sló tíu aukahögg á ákveðinn nagla til að hún skyldi örugglega ná af mér mynd í ákveðinni stöðu. Nú var gaman.


Undir hádegi á morgun verður þetta fínt en þá verður búið að taka til. Síðan förum við með aðra kerru í endurvinnsluna og kaupum svo plötur á gólfin.


Myndin er af ellilífeyrisþega

Um hádegi fórum við inn til Örebro. Valdís ætlaði að hitta nokkrar vinkonur á kaffihúsi en ég ætlaði hins vegar í endurvinnsluna og losa kerruna og eftir það að fara í tvær byggingavöruverslanir. Mér finnst alveg arfaleiðinlegt að fara í fata- og gjafavöruverslanir með Valdísi en einn í byggingarvöruverslunum er ég nokkuð góður með mig, alla vega ef ég á erindi þangað. Ég reyni hins vegar að æfa svona verslunarferðir með Valdísi og ég viðurkenni fúslega að ef ég nyti ekki hennar atgervis væri lítið keypt af jólagjöfum á þessum bæ.

En nú var ég kominn í endurvinnsluna. Ég er því mjög fylgjandi að sortera vel og ég segi aftur: sortera vel. Ég byrjaði upp á rampi þar sem aðgangur er að fjölda mörgum gámum fyrir hinar ólíku tegundir. Síðan færði ég mig að hólfi fyrir grjót, steypu, gólf- og veggflísar og svo framvegis sem er neðan við rampinn.

Við þetta hólf var ungt par og það var greinilegt að þau höfðu kastað hlutum hingað og þangað af ástæðu sem ég ekki skildi. Konan var með álskóflu upp í kerrunni og reyndi að moka múrsteinum, grjóti og sementsafgöngum af kerrunni og inn í þetta hólf. Henni var um megn að nota skófluna og kastaði inn á milli hinu og þessu með höndunum. Maðurinn var við hliðina á kerrunni og rembdist við að brjóta harðnaða múrblöndu úr svörtum, stórum bala. Honum sóttist verkið illa og það var greinilegt að það fór í skapið í honum. Smám saman birtust tvær múrskeiðar og fleiri verkfæri í múrbrotunum sem féllu að lokum úr balanum og þá hófst barátta hans við að brjóta sem mest af harðri múrblöndunni af verkfærunum. Skap hans virtist fara versnandi og svipurinn var mjög óvingjarnlegur þegar hann af og til gjóaði augum til mín. Ég færði mig ögn nær og hélt svo áfram að bíða.

Hinu megin við þetta par sá ég upp á rampinn þar sem fólk gekk í rólegheitum milli gáma og kastaði í þá viðeigandi drasli og afgangsefni ýmis konar. Það var mikill munur á aðförunum í rólegheitunum þar uppi og aðförum parsins. Að lokum rauk maðurinn upp í kerruna og sveiflaði skóflunni gríðarlega til höggs og keyrði svo niður í hauginn á kerrunni. Ekkert fékk hann á skófluna með þessari aðferð og að lokum fann hann upp á því að ryðja beint aftur af kerrunni með því að ýta á skófluna með maganum og ryðjast svo áfram. Því síðasta mokaði hann til beggja hliða út af kerrunni.

Nú var mér farið að blöskra gersamlega og svo virtist líka með konuna. Ég gat ekki annað en hugleitt hamingju hennar í sambandinu. Hún var nú byrjuð að draga til baka plastdræsur, rafmagnsrör og fleira úr haugnum sem maðurinn var búin að slefa út úr kerrunni. Þau höfðu auga á mér og maðurinn var ljótur. Mig langaði að blanda mér í þetta og segja þeim að sortering þeirra væri engum sæmandi. Það var þá sem ég fékk snögga löngun; að ganga fram til mannsins og segja honum að ef hann væri hundurinn minn mundi ég skjóta hann. Einhvern veginn greip þetta mig og ég varð svo stein hissa. Svona hundahugmynd hefur aldrei áður orðið til í mínu höfði. Hins vegar voru allar þessar aðfarir skötuhjúanna viðbjóðslegar og afskaplega óvistvænar, eða öllu heldur ætti ég að segja aðferðir mannsins.

Að lokum gekk maðurinn um all stórt svæði og tíndi saman alls konar drasl sem þau, eða hann, höfðu þeytt í kringum sig og tróð í stóra fötu, drasl sem hann fékk sig þó ekki til að skilja eftir. Svo sveiflaði hann fötunni til að kasta henni inn í básinn en leit snöggt til mín, hætti við og setti fötuna á kerruna. Ég sá þau svo fara aðra ferð upp á rampinn.

Hér með hef ég gert syndajátningu, það greip mig ljót hugsun í dag en ég skellihló að henni þó að ég væri einn í bílnum.

Einu sinni enn það sem ég ætlaði aldrei að gera aftur

Í gær álpaðist ég til að setja á beina útsendingu í sjónvarpi og þá birtist á skjánum Bjarni nokkur Ben. Hann talaði fjálglega um glundroðann sem ríkti í þjóðfélaginu og að nú yrði að bregðast vel við og gera góða hluti. Í morgun sá ég fyrirsögn í blaði þar sem Sigmundur Davíð segir að "Hættuástand er yfirvofandi". Nú segi ég skoðun mína á þessu sem þeir eru að segja: "Ástandið er orðið nákvæmlega það sem þeir eru búnir að stefna að síðan eftir kosningar, að skapa glundroða, svo mikinn glundroða að fólk viti ekki sitt rjúkandi ráð."

Eftir hádegi í dag var ég utan við vesturvegginn og negldi lista á vegginn sem gera bil milli panels og vindpappa. Þarna negldi ég með þriggjatommu nöglum og velti fyrir mér hvort ég ætti nokkuð vera að því að blogga um þetta þó að ég væri viss i minni sök, að þeir hefðu alltaf ætlað að skapa glundroðann og ég hef nokkrum sinnum bloggað um það áður. Svo tók ég ákvörðun; nei, ég blogga ekki. Og samstundis og ég tók þessa ákvörðun sló ég með miðlungsstórum hamri í þumalfingur vinstri handar svo að ég sá hvernig fremsti köggulinn hreinlega virtist hálf snúast af.

Ég gekk inn til að kæla fingurinn og gekk þá fram hjá Valdísi þar sem hún var að mála gerefti. Hún leit upp en ég þvingaði mig til að láta lífsgleðina umvefja andlit mitt þangað til ég var kominn framhjá henni. Þá fann ég að þjáningarsvipurinn kom aftur til baka. Þegar ég var kominn með fingurinn undir kalda bununa yfir baðhandlauginni og verkurinn dvínaði smám saman þá tók ég nýja ákvörðun; ég skal blogga, ég fékk sársaukafull skilaboð gegnum hamarinn.

Ég veit ekki hvort Valdís merkti nokkuð en alla vega þegar ég var kominn út aftur fór hún inn og skömmu síðar ilmaði svæðið af pönnukökuangan. Nokkru síðar bankaði hún í glugga og bauð upp á kaffi. Því sit ég hér núna og skrifa akkúrat þessi orð sem ég hef nú skrifað. Í framhaldi af því verð ég að segja frá þingsetningunni í Svíþjóð sem fram fór í dag. Ég sá nefnilega frétt frá henni meðan ég gæddi mér á yndislega góðu pönnukökunum hennar Valdísar. Og það var rjómi líka!

Fréttin byrjaði á því að einhverjir tugir skrautklæddra hesta lögðu af stað frá konumgshöllinni að þinghúsinu. Hestunum riðu skrautklæddir riddarar. Fjöldi fólks hafði komið til að horfa á þetta og það horfði á með kyrrlátri virðingu. Kirkjuathöfnin fór fram með virðingu og einnig sjálf þingsetningin. Afskaplega var þetta ólíkt þingsetningunni á Íslandi. Ég leit á nokkur fréttaskot af þeirri athöfn og virðingin þar var minni en 0.



Það er komið kvöld og haustmyrkrið hefur löngu lagst yfir. Mér hefur gengið vel í dag og af og til hef ég verið með hugann við bloggið sem ég byrjaði á fyrr í dag. Ég kaus Vinstri græna í síðustu kosningum. Fyrir því lágu tvær ástæður. Fyrir mér voru Vinstri grænir eini íslenski stjórnarmálaflokkurinn sem gat engan veginn tengst íslenska efnahagshruninu. Þór Sari hefur meira að segja sagt það í sjónvarpsþætti sem ég eitt sinn sá. Í öðru lagi hafði formaður flokksins varað ótal sinnum við því að það sem skeði mundi ske. Í tilefni af þeim varnaðarorðum var hann sagður svartsýnn leiðindapúki. Þetta gerði að verkum að ég treysti Vinstri grænum best fyrir íslensku lífeyrisgreiðslunum okkar Valdísar sem allt í einu höfðu fallið um 50 % að verðgildi og voru þar að auki óflytjanlegar milli landa. Íslenskan ellilífeyri fæ ég engan þar sem ég nenni að vinna.

Ný ríkisstjórn tók við völdum á Íslandi, stjórn sem hvorki Bjarni Ben eða Sigmundur Davíð voru aðilar að. Að þessari nýju ríkisstjórn mundi nú takast að að auka virðingu fyrir íslenskum stjórnmálum og háttvirtu Alþingi var Sigmundi og Bjarna ofviða hugsun. Þess vegna völdu þeir að eyðileggja allt sem hægt var að eyðileggja með málþófi og karpi og með ótrúlegri þrautsegju tókst þeim það. Sjálfsagt hefur líka verkstjórn Samfylkingarinnar verið ábótavant fyrst þeim tókst þetta, enda Samfylkingin alls ekki saklaus frá efnahagshruninu.

Kannski er ég bara kommatittur fyrst ég hef þessar skoðanir. Nei, svo er það alls ekki. Ég hef oft bloggað um ágæti hægri ríkisstjórnarinnar í Svíþjóð sem nýtur verkstjórnar Moderatarna sem eru lengst til hægri í sænskum stjórnmálum. En þessir sænsku hægri menn eru nefnilega heiðarlegir. Ég segi og skrifa "heiðarlegir", harð duglegir og heiðarlegir. Það er málið og því njóta þeir virðingar. Þeim hefur líka tekist að byggja upp þjóðfélag sem hefur staðið betur af sér boðaföll fjármálahrunsins en flest önnur lönd og náð sér fyrst á strik aftur. Svoleiðis hægri menn get ég vel kosið.

En ég kaus samt Umhverfisflokkinn við sænsku þingkosningarnar í haust. Yngsta barnabarnið mitt er eins árs. Þegar ég horfi á þetta litla barn hugsa ég mikið um hvernig best er hægt að stuðla að heimi sem verður honum hreinn og góður. Því kaus ég Umhverfisflokkinn og ég vil að hann fái áhrifavald í ríkisstjórn sem er byggð upp af duglegum og heiðarlegum mönnum og konum. Svo mikill kommi er ég.

Mikið erum við heppin að þurfa ekki dag út og dag inn að hlusta á málflutning óheiðarlegra niðurbrotsafla.

Óli er nefnilega góður

Upp úr klukkan fimm í gærmorgun fór ég að bæra á mér, teygja úr mér í bólinu og búa mig hugarfarslega undir að dagur væri að hefjast. Ég nennti ekki í vinnuna í Vornesi en vissi að ég yrði viljugri þegar ég kæmi mér á ról. Þegar ég svo lagði af stað var alls ekki full bjart en það birti að fullu á leiðinni. Hálf átta var ég frammi í Vornesi og hitti þar marga alkohólista og finnska ellilífeyrisþegann Jorma sem vann fyrri hluta helgarinnar. Mér var vel tekið af öllum.

Síðan hófst 16 klukkutíma vinnudagur fylgjandi af stuttum nætursvefni og svo í gang aftur klukkan hálf sex í morgun. Þetta eru sleitulausir dagar, aleinn með alla innskrifaða sem um þessa helgi voru 23. Kona kom í eldhúsið um tíuleytið og var í fimm klukkutíma. Ekki vantar góðan matt í Vornesi og sjúklingarnir eru þakklátir og nánast hrærðir yfir öllum þeim góða mat sem þeir fá. Ég þrífst vel með þessu fólki og þau eru mörg fallegu gullkornin sem hrjóta af vörum þeirra þegar þau eru að stíga fyrstu sporin móti nýju lífi.

Af þessu sést að það er bara fyrir mig að koma mér í gang og svo verður dagurinn góður. Hins vegar verð ég að viðurkenna að þegar ég er á leiðinni heim eftir svona vinnutörn, milli klukkan tíu og ellefu fyrir hádegi, að þá verð ég þreyttur. Svo var það líka í dag og eftir svolitla hressingu við heimkomuna var alveg makalaust notalegt að hníga svolitla stund niður í mjúkan stólinn í stofunni. Ég veit að ég er kannski ekki svo líflegur eða skemmtilegur að fá mig heim en það verður víst bara að hafa það.

Eftir einhvern hálftíma í stólnum var ekki til setunnar boðið og við fórum út til ólíkra verka. Ég hélt áfram að smíða gerefti á hurðir og glugga, gerefti sem ég var langt kominn með áður en ég fór í Vornes en Valdís tók til hrífunnar og fór að raka lauf. Ég get lofað að það er nóg af laufblöðum á grasflötunum hér núna. Síðan fór Valdís að grunnmála það sem kom tilbúið úr handavinnunni minni. Ég er auðvitað svo sérvitur að gereftin verða að vera svolítið öðru vísi en fólk almennt gerir þau, vera svolítið betri. Anders smiður neitar því heldur ekki að með því að vinna þau sem ég geri býður upp á mjög vandaðan frágang. Það er líka heila málið.

Mamma er enn í eldhúsinu / eitthvað að fást við mat. Meðan ég seig dýpra og dýpra niður í stólinn eftir heimkomuna var Valdís eitthvað að sýsla við eldhúsbekinn. Svo eftir að hún byrjaði að mála þreif hún af sér vetlingana kannski tvisvar sinnum og skaust inn. Svo fór að berast matarlykt út í haustblíðuna og ég þekkti lyktina. Mmmmmm kjötsúpa. Ég hlakkaði til. Að lokum var farið að kólna frá þeim 15 stiga hita sem hafði verið um há daginn og það var bara að taka saman og hætta. Svo var veisla -þvílík veisla.

Hugsið ykkur kjötsúpu með hvítkáli, blómkáli, brokkólíi, gulrófum, palsternökkum (rófum), grænkáli, lauk, sætkartöflum, grænmetisteningi, salti, pipar og nokkrum lambakjötsbitum. Ég er þegar farinn að hlakka til að borða vislumatinn á morgun líka. Ég var "botnlaus" og á fjórða skammti varð ég hræddur um að ég væri að borða yfir mig og hætti á miðjum diski. Mikið held ég að ég verði hraustur af þessu. Þakka þér kærlega fyrir matinn Valdís. Ég er alveg viss um það að þó að fólk hafi hóstað beint í andlitið á mér í Vornesi kem ég ekki til með að verða veikur eftir að hafa borðað svona hollan mat. Við vitum líka að svona matur er ekki fitandi.

Klukkan er að nálgast tíu að kvöldi og ég er ánægður með vinnutörnina í Vornesi í gær og í morgun og ég er líka ánægður með það sem við komum í verk heima í dag. Einhvern tíma á morgun kemur smiðurinn og þá verður eitt og annað tilbúið til að geta tekið góða vinnutörn. Við erum að byggja bara svo að það gleymist ekki. Um miðjan dag hélt ég að ég mundi verða sofnaður fram á borðið um þetta leyti eða siginn langt niður í hægindastólinn. En nei, lífið ólgar hér á Sólvöllum. Nú veit ég að ef ég fer ekki að leggja mig fer Óli Lokbrá að kasta sandi í augun á mér. Hins vegar veit ég þegar ég legg mig að hann kastar aldrei neinum sandi. Hann bara platar mig svolítið. Óli er nefnilega góður og notar enga hrekki. Hann lokkar og ég reyni að taka hann til fyrirmyndar.

Gott fólk

Í nokkrum fráttaþáttum seinni partinn í dag voru fréttir frá eggjakasti við Austurvöll. Í skemmtiþætti eftir aðalfréttirnar var sýnt myndband með Ómari Ragnarssyni þegar hann var ungur maður og söng og tvistaði á bryggju í Reykjavík og mér er ómögulegt að muna hvað þetta agtriði er kallað. Þetta er í annað skipti sem við sjáum þetta gamla skemmtiatriði Ómars í sjónvarpi hér þannig að Svíarnir virðast hrifnir af því. Sem sagt; tvö íslensk atriði á sjónvarpsskjáum hér í dag.

Það er enn verið að byggja á Sólvöllum þó að ég hafi farið lágt með það undanfarið. Ég hef ekki mátt vara að því að skrifa um þetta stórverkefni þar sem ég hef verið að vinna svo mikið að því sjálfur ásamt fagmönnum. Það er ekki sjaldan sem sagt er að fagmenn í byggingariðnaði séu óttalegir fúskarar og skilji eftir sig lélega vinnu. Ég verð nú að ganga í vörn fyrir þessa menn, alla vega þá sem við Valdís hittum vegna okkar framkvæmda. Anders smið hef ég oft talað um og ítreka bara að hann er harðduglegur, hugmyndaríkur, með góða þekkingu, smekklegur og heilmikill arkitekt. Hann er líka prúðmenni og mjög góður í allri samvinnu og vill svo gjarnan að ég geti gert sem mest sjálfur ef ég vil og nenni.

Það barst í tal á mánudaginn var þegar hér hittust þrír aðkomumenn að hann hefði verið að hlaða grunninn hjá okkur í sumar í 32 stiga hita í skugga og einhvern tíma meðan á verkinu stóð hefði hann haldið að hann væri að verða veikur, hann varð svo einkennilegur. Þá hefði hann sest niður og drukkið mikið af vatni og litlu siðar hvarf af honum þetta einkennilega. Ekki höfðum við hugmynd um að honum hefði orðið ómótt meðan á þessu verki stóð en hitt fór ekki framhjá okkur að það var mikill hiti þennan dag og hann vann með ólíkindum ötullega. Ég man líka eftir vatnspásunni þó að mig grunaði ekkert.

Ég held að ég ætti að láta einhverjum öðrum eftir að vinna blikksmíðavinnuna sagði Anders um daginn, þú hefur blikksmið er það ekki? Ég hringdi umsvifalaust í blikksmiðinn hér í nágrenninu en hann gat ekki komið fyrr en eftir að minnsat kosti þrjár vikur. Þá hringdi Anders í annan blikksmið og þeir voru greinilega kunnugir. Sá kom daginn eftir, á fimmtudaginn var, og mældi þakrennur, niðurföll gafla og kverkarnar þar sem forstofuþakið mætir aðalhúsinu. Daginn eftir kom hann með allt tilheyrandi og hóf vinnuna. Ég sagðist vera hér ef hann þyrfti handlang en hann sagðist vera allra bestur ef hann ynni einn og í næði.

Það gat ekki dulist okkur Valdísi að þessi maður, Göran, vann sitt verk af miklum dugnaði, hann var mjög vandvirkur og hann gekk léttstígur og glaður til verks. Um tíuleytið fór ég inn og fékk mér kaffi og brauðsneið og bauð honum með. Hann afþakkaði kurteislega og sagðist þurfa að vera búinn með þetta um þrjúleytið. Svo drukkum við Valdís okkar kaffi einsömul. Strax eftir hádegið fór ég til Fjugesta og vonaði að Göran mundi gefa sér tíma til að fara aðeins í nestiskrúsina á meðan en treysti því þó ekki. Ég hringdi því til Valdísar og bað hana að smyrja nokkrar brauðsneiðar ríkulega og hita kaffi.

Þegar ég kom til baka sagði ég Göran að það væri smurt brauð og nýtt kaffi á borðinu þannig að það tæki hann sáralítinn tíma að fá sér aðeins hressingu. Þá sneri þessi góði fagmaður sér að mér og sagðist vera svo rosalega stressaður að hann bara treysti sér alls ekki til að gera þetta þó að hann svo gjarnan vildi. Ég hef líka svo gaman af að spjalla við fólk, sagði hann, að ég veit af reynslunni að kaffitíminn verður lengri en ég mundi vilja. Svo vann hann áfram af sömu elju en það var erfitt að sjá að hann væri svona stressaður.

Tuttugu mínútum eftir áætlun var Göran búinn með sitt verk og þá byrjaði hann að tína saman smá blikkbúta og dót sem hann hafði dreift kringum húsið. Ég sagðist taka þetta og hann skyldi alls ekki hafa áhyggjur af því. En ég geri þetta alltaf og losa fólk við að fara með það í endurvinsluna sagði hann. Svo kláraði hann þetta og að því loknu gaf hann sér tíma til að spjalla í fáeinar mínútur. Við erum nokkrir sem hjálpum hver öðrum og við Anders erum í þeim hópi. Ég mátti alls ekki vera að því að taka þetta að mér en þegar Anders hringir og þarf einhvers með, þá er ég ekki frjáls maður fyrr en því er lokið. Þannig er samstarfið í hópnum og svo fæ ég aðstoð hinna þegar ég er í neyð.

Það var bráð skemmtilegt að tala við þennan mann og hann sagðist vera 63 ára og ætla að vinna eftir ellilífeyrisaldurinn en minnka þó við sig. Svo þegar hann fékk að vita hvað ég ynni við sagðist hann vita heil mikið um mig bara við að heyra það. Síðan spjölluðum við um það en það verður bara okkar á milli. Þegar panell verður kominn á húsið á ég að láta hann vita og þá kemur hann til að setja niðurfallsrörin og ákveðna blikkkanta á vindskeiðarnar á göflunum. Þetta er blikksmiðavinna hér í landi. Þá ætla ég að biðja Göran blikksmið að koma þegar hann getur fengið sér kaffi og við getum látið eftir okkur að spjalla mikið meira saman. Hann nefndi þetta líka áður en hann fór

Allir sem hafa komið hingað til að vinna við þetta hús eru afbragðsmenn. Valdísi finnst það líka og bakar gjarnan vöfflur eða pönukökur til að verðlauna þá fyrir góð dagsverk. Þeir meta það mikils og borða af veitingum Valdísar af góðri lyst. Göran mátti bara ekki vera að því. Hann átti að hitta viðskiptavin á réttum tíma og hann var búinn að lofa konunni seinni einhverju, líka á réttum tíma, og þetta að svíkja konuna var honum þyngra í skauti en að mæta of seint á fundinn með viðskiptavininum.

Það er til mikið af góður fólki.

RSS 2.0