Einu sinni enn það sem ég ætlaði aldrei að gera aftur

Í gær álpaðist ég til að setja á beina útsendingu í sjónvarpi og þá birtist á skjánum Bjarni nokkur Ben. Hann talaði fjálglega um glundroðann sem ríkti í þjóðfélaginu og að nú yrði að bregðast vel við og gera góða hluti. Í morgun sá ég fyrirsögn í blaði þar sem Sigmundur Davíð segir að "Hættuástand er yfirvofandi". Nú segi ég skoðun mína á þessu sem þeir eru að segja: "Ástandið er orðið nákvæmlega það sem þeir eru búnir að stefna að síðan eftir kosningar, að skapa glundroða, svo mikinn glundroða að fólk viti ekki sitt rjúkandi ráð."

Eftir hádegi í dag var ég utan við vesturvegginn og negldi lista á vegginn sem gera bil milli panels og vindpappa. Þarna negldi ég með þriggjatommu nöglum og velti fyrir mér hvort ég ætti nokkuð vera að því að blogga um þetta þó að ég væri viss i minni sök, að þeir hefðu alltaf ætlað að skapa glundroðann og ég hef nokkrum sinnum bloggað um það áður. Svo tók ég ákvörðun; nei, ég blogga ekki. Og samstundis og ég tók þessa ákvörðun sló ég með miðlungsstórum hamri í þumalfingur vinstri handar svo að ég sá hvernig fremsti köggulinn hreinlega virtist hálf snúast af.

Ég gekk inn til að kæla fingurinn og gekk þá fram hjá Valdísi þar sem hún var að mála gerefti. Hún leit upp en ég þvingaði mig til að láta lífsgleðina umvefja andlit mitt þangað til ég var kominn framhjá henni. Þá fann ég að þjáningarsvipurinn kom aftur til baka. Þegar ég var kominn með fingurinn undir kalda bununa yfir baðhandlauginni og verkurinn dvínaði smám saman þá tók ég nýja ákvörðun; ég skal blogga, ég fékk sársaukafull skilaboð gegnum hamarinn.

Ég veit ekki hvort Valdís merkti nokkuð en alla vega þegar ég var kominn út aftur fór hún inn og skömmu síðar ilmaði svæðið af pönnukökuangan. Nokkru síðar bankaði hún í glugga og bauð upp á kaffi. Því sit ég hér núna og skrifa akkúrat þessi orð sem ég hef nú skrifað. Í framhaldi af því verð ég að segja frá þingsetningunni í Svíþjóð sem fram fór í dag. Ég sá nefnilega frétt frá henni meðan ég gæddi mér á yndislega góðu pönnukökunum hennar Valdísar. Og það var rjómi líka!

Fréttin byrjaði á því að einhverjir tugir skrautklæddra hesta lögðu af stað frá konumgshöllinni að þinghúsinu. Hestunum riðu skrautklæddir riddarar. Fjöldi fólks hafði komið til að horfa á þetta og það horfði á með kyrrlátri virðingu. Kirkjuathöfnin fór fram með virðingu og einnig sjálf þingsetningin. Afskaplega var þetta ólíkt þingsetningunni á Íslandi. Ég leit á nokkur fréttaskot af þeirri athöfn og virðingin þar var minni en 0.



Það er komið kvöld og haustmyrkrið hefur löngu lagst yfir. Mér hefur gengið vel í dag og af og til hef ég verið með hugann við bloggið sem ég byrjaði á fyrr í dag. Ég kaus Vinstri græna í síðustu kosningum. Fyrir því lágu tvær ástæður. Fyrir mér voru Vinstri grænir eini íslenski stjórnarmálaflokkurinn sem gat engan veginn tengst íslenska efnahagshruninu. Þór Sari hefur meira að segja sagt það í sjónvarpsþætti sem ég eitt sinn sá. Í öðru lagi hafði formaður flokksins varað ótal sinnum við því að það sem skeði mundi ske. Í tilefni af þeim varnaðarorðum var hann sagður svartsýnn leiðindapúki. Þetta gerði að verkum að ég treysti Vinstri grænum best fyrir íslensku lífeyrisgreiðslunum okkar Valdísar sem allt í einu höfðu fallið um 50 % að verðgildi og voru þar að auki óflytjanlegar milli landa. Íslenskan ellilífeyri fæ ég engan þar sem ég nenni að vinna.

Ný ríkisstjórn tók við völdum á Íslandi, stjórn sem hvorki Bjarni Ben eða Sigmundur Davíð voru aðilar að. Að þessari nýju ríkisstjórn mundi nú takast að að auka virðingu fyrir íslenskum stjórnmálum og háttvirtu Alþingi var Sigmundi og Bjarna ofviða hugsun. Þess vegna völdu þeir að eyðileggja allt sem hægt var að eyðileggja með málþófi og karpi og með ótrúlegri þrautsegju tókst þeim það. Sjálfsagt hefur líka verkstjórn Samfylkingarinnar verið ábótavant fyrst þeim tókst þetta, enda Samfylkingin alls ekki saklaus frá efnahagshruninu.

Kannski er ég bara kommatittur fyrst ég hef þessar skoðanir. Nei, svo er það alls ekki. Ég hef oft bloggað um ágæti hægri ríkisstjórnarinnar í Svíþjóð sem nýtur verkstjórnar Moderatarna sem eru lengst til hægri í sænskum stjórnmálum. En þessir sænsku hægri menn eru nefnilega heiðarlegir. Ég segi og skrifa "heiðarlegir", harð duglegir og heiðarlegir. Það er málið og því njóta þeir virðingar. Þeim hefur líka tekist að byggja upp þjóðfélag sem hefur staðið betur af sér boðaföll fjármálahrunsins en flest önnur lönd og náð sér fyrst á strik aftur. Svoleiðis hægri menn get ég vel kosið.

En ég kaus samt Umhverfisflokkinn við sænsku þingkosningarnar í haust. Yngsta barnabarnið mitt er eins árs. Þegar ég horfi á þetta litla barn hugsa ég mikið um hvernig best er hægt að stuðla að heimi sem verður honum hreinn og góður. Því kaus ég Umhverfisflokkinn og ég vil að hann fái áhrifavald í ríkisstjórn sem er byggð upp af duglegum og heiðarlegum mönnum og konum. Svo mikill kommi er ég.

Mikið erum við heppin að þurfa ekki dag út og dag inn að hlusta á málflutning óheiðarlegra niðurbrotsafla.


Kommentarer
Þórlaug

Sammála Guðjón og ég lokaði fyrir umræðurnar og mótmælin í sjónvarpinu í gærkvöldi og veit að það gerðu margir aðrir. Hvað eru líka varaþingmenn og ég tala nú ekki um þingmenn að þvælast á Austurvelli og mótmæla, ég held þeim væri nær að vera inni á þingi og vinna sína vinnu svo við þurfum ekki að eyða peningum þjóðarinnar í að borga varaþingmanninum þeirra laun á meðan þeir reyna að afla sér vinsælda með því að mótmæla.

Fussumsvei.



Afsakaðu rausið, bestu kveðjur,



Þórlaug

2010-10-05 @ 23:17:19
Þórlaug

P.s. Ég vona að fingurinn sé ekki mjög slæmur

2010-10-05 @ 23:18:20
Hrafn Karlsson

Algjörlega sammála um stjórnmálin hér heima, þetta er allt í algjörri ringulreið.

2010-10-06 @ 15:12:42
Dísa gamli nágranni

Mér finnst nú slæmt að það skulu vera vinstri menn sem þurfa að beita niðurskurðarhnífnum eins harkalega og boðað er. Eiginlega þyrfti ríkisstjórn Íslands að að einbeita sér að bönkunum, hvernig hægt væri að ná þar út peningum til að setja upp í holurnar og götin sem munu myndast við þessar harkalegu aðgerðir.Kærar kveðjur úr Sólvallagötunni

2010-10-11 @ 22:33:50


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0