Ég ætlaði bara að sjá textavarpið -en viti menn

Susanne svaf á vinnustað í nótt, aðfaranótt fimmtudags, og kemur til með að gera það næstu nótt líka. Ég hringi ekkert í fyrramálið sagði hún í síma áður en hún lagði sig um klukkan ellefu i gærkvöld. Jú, ég bað hana endilega að hringja og svo hringdi hún klukkan hálf sjö. Þá var ég steinsofandi. Ég tók mér tíma til að hugsa um hlutina hér heima og varð allt í einu svartsýnn. Það var of margt ógert og ég hafði aldrei gert vissa hluti vetrarklára úti þó að ég héldi það í haust.
 
Svo tók ég mig upp og byrjaði með viss heimilisverk, þá til dæmis að setja í ílát morgunkornið sem ég bakaði í gærkvöld. Svo borðaði ég morgunverð þar sem uppistaðan var þetta morgunkorn. Svo byrjaði ég í svefnherberginu þar sem ég hef verið að endurskipulega margt sem við höfum ákveðið saman, en einhvern veginn hef ég gert það í mjög lágum gír. Þetta hef ég talað um áður.
 
Svo inn á milli verka vildi ég sjá textavarpið en ég hafði ekki litið á fréttir í heila tvo daga. Ég komst ekki hjá því áður en ég var búinn að klika á takkann textavarp, að sjá það sem þá stundina var á skjánum. Mynd af manni fékk mig til að setja hljóðið á og athuga hvað hann var að tala um. Í ljós kom að hann er starfsmannastjóri hjá stórri fyrirtækjakeðju í Svíþjóð. Hann nefndi ýmsar orsakir þess að margir ættu erfitt með að fá vinnu en málið væri að þá væri oft gengið framhjá góðum starfsmönnum.
 
Þó að ég væri farinn að hlusta á þennan þátt sem var bein útsending frá ráðstefnusal einhvers staðar í landinu, þá var ég líka með hugann inni í svefnherberginu þannig að ég greip ekki nærri allt sem þessi maður talaði um. En tvö atriði eru þó nokkurn veginn ljóslifandi fyrir hugskotssjónum mínum.
 
Maður sem við getum nefnt Kennet var talinn eitthvað undarlegur. Hann barðist um á vinnumarkaðinum nánast í tugi ára en allt endaði með vonbrigðum og hann var við það að gefast upp. Hann sat einhvern tíma í matsal fyrirtækis og hélt á dagblaði. Dagblaðið var upp og niður í höndunum á honum og fólk hvíslaði hvert að öðru að hann vildi láta sem hann kynni að lesa. Við þessar aðstæður var auðvitað erfitt að fá vinnu. Kennet var greinilega heimskur.
 
Síðar kom í ljós að Kennet var lesblindur, eða þannig, en hann nefnilega gat lesið upp og niður og því hélt hann á blaðinu öfugu þegar hann las. Fyrir okkur flest var það öfugt en fyrir Kennet var það rétt. Hann var ekki lesblindur en las öðruvísi en flestir aðrir. Þá var farið að taka öðruvísi á málum og Kennet komst fljótlega í ábyrgðarstöðu. Síðar kom hann fram í sænska þinginu og lýsti baráttu sinni og þeim þjáningum sem hann gekk í gegnum. Enginn hafði komist óhrærður frá þeirri lýsingu og maðurinn sem hafði fyrirlesturinn í morgun átti að tala í þinginu á eftir Kennet. En þegar Kennet hafði lokið mnáli sínu og fyrirlesarinn átti að taka til máls, þá hafði hann ekkert að segja. Kennet hafði sagt allt á svo áhrifaríkann hátt að allir voru orðlausir.
 
Í fyrirlestrinum í morgun talaði fyrirlesarinn líka um unga Sómalan sem vann við kassa í stórverslun. Sómalinn talaði lélega sænsku og það var ekki litið hýrum augum. En eitt var öruggt; kassinn hjá honum var alltaf réttur, réttari en hjá öllum öðrum.
 
Þessir menn voru báðir hæfileikamenn. Fólk þurfti bara að skilja mannin sem átti erfitt með lestur og svo þurfti að hvetja Sómalann til að fara í skóla og læra betri sænsku. Einfalt eða hvað þegar öllu er á bottninn hvolft. Þannig er það með fjölda fólks.
 
Það var margt annað sem þessi maður sagði frá en eins og ég sagði var ég með hugann við annað. Dæmin tvö sem ég hef nefnt eru kannski ekki nákvæmlega hárrétt í lýsingu minni en ég held að það skakki ekki svo miklu. Það er hættulegt fyrir mig að kveikja á sjónvarpi á morgnana því að þá er oft svo gott efni á skjánum. Það er alla vega hættulegt ef ég ætla að gera annað.
 
Ha ha, herbergið er tilbúið. Svartsýnin í morgun var ímyndun.
RSS 2.0