Áskorun

Að ég er búin að skrifa fyrirsögn að bloggi er einungis áskorun á sjálfan mig um að lyfta mér upp úr béaðri eymdarstemmingu og gera eins og Laxness sagði eitt sinn í einhverju viðtali: Eigum við ekki að lyfta þessari umræðu upp á svolítið hærra plan. Og fyrst ég nefndi Laxness; ég var ögn stoltur af henni Steinunni frænku minni Sigurðardóttur þegar hún hafði afmælisviðtal við hann og spurði hvað hann gerði fyrst af öllu þegar hann vaknaði á morgnana. Nú, hann svaraði einfaldlega að það væri að opna augun og geyspa. Hún lét hann ekki setja sig út af laginu og hélt þættinum áfram eins og hún hefði bara átt von á þessu svari. En þetta kannast sjálfsagt allir Íslendingar við sem eru um og yfir miðjan aldur.

Í fyrrakvöld var sýnt úr sænskri íshöll þar sem kona reið Íslandshesti, á ís að sjálfsögðu. Hún sagði þetta vera íslensk hefð sem menn kölluðu ísreið. Stundum kunna Svíar meira um Ísland en ég, því að ég man ekki eftir þessu sem neinu sérstöku utan að ég kannast við að menn riðu á ís og get ímyndað mér að í snjóalögum hafi verið mikið betra að ríða á ís en að troðast gegnum djúpa skafla. Í viðtali um íslenska hestinn eftir sýninguna sagði þessi kona að hann væri alls ekki lítill, hann væri stór hestur í litlum líkama og það væri ekkert einfalt að ríða Íslandshestum. Þeir væru hins vegar mjög góðir til reiðar. Raddblær Svía verður hátíðlegur þegar þeir tala um Íslandshestana.

Ég féll nokkuð fyrir framhaldsþætti í sjónvarpi um nokkrar fjölskyldur frá Stokkhólmi sem settust að hvert á sínum stað út á landi í fjórar vikur til að sjá um eitthvað. Tvær tóku að sér að reka á eigin spýtur lítil veitingahús, ein tók að sér að reka bensínstöð út í Stokkhólms skerjagarði og ein tók einfaldlega að sér að sjá um kúabú. Ekkert af þessum fjölskyldum var vön að vinna við það sem þær tóku sér á hendur. Það hefur verið gaman að sjá áhrifn sem börnin urðu fyrir við að mæta þessu algerlega nýja umhverfi og þeim verkefnum sem því tilheyrðu. Allir unnu nefnilega að öllu.

Í gær var lokaþátturinn. Bóndinn sem átti kúabúið kom í heimsókn til fjölskyldunnar sem annaðist búið hans og hann hélt á gæs í annarri hendinni og hafði byssu um öxl. Hann stakk upp á að fjölskyldan matreiddi nú gæsina og svo kæmi hann og borðaði kvöldverð með þeim. Það var samþykkt. En áður en hann fór slaktaði hann gæsinni. Meðan hann var skera, slíta og rífa í sundur, horfði ellefu ára gömul stúlka á þetta með augu á stærð við augu Íslandshests. Hún mótmælti ekki en hún sagði að þetta væri svo hræðilegt. Hún dró hendina niður frá hálsi, yfir bringuna og magann og sagði: Og allt þetta sem rétt áðan var hér inni og verkaði svo frábærilega, það er bara búið, og það er búið að slíta það burt. Já, það voru hugsanir og orð sem svo mörgum eldri hefði aldrei tekist að raða saman. Ég hugsa að hún verði heimspekingur.

Ég gekk fram að sjónvarpi fyrir um hálftíma. Það var verið að segja fréttir og mér finnst búið að vera svo mikið um fréttir en þó bara eins og venjulega. Ég veit að margt hefur tekist vel á mörgum sviðum í Svíþjóð í dag, en allar fréttir hafa samt verið um það sem farið hefur illa og það hefur verið endurtekið hvað eftir annað. Einn þáttur sem er fyrir klukkan sex síðdegis á virkum dögum hefur samt fjallað um hið gagnstæða. Þáttastjórnandinn, Sverker, hlýtur að vera ánægður með þáttinn sinn. Þar eru jákvæðu viðhorfin.

Ég hefði líka getað valið að blogga um leiðindamál en ég vil lýkjast Sverker. Áskorunin á sjálfan mig um að ljúka einu bloggi eftir nokkurra daga hlé var líka sú að hitta það jákvæða. Ég er á öruggum batavegi eftir flensuna og þó að ásláttarvillurnar hafi verið fleiri en venjulega hugsa ég að mér takist að leiðrétta þær flestar. Nú finnst mér sem ég sé búinn að gera eitthvað í dag. Það er hins vegar konan mín sem er búin að gera allt hitt.

Samtíningur þann 20. mars 2012

Í dag er kominn 20. mars, en það var þann 16. mars sem ég vistaði nokkrar myndir inn á bloggið mitt. Það var orðið áliðið kvölds þegar ég gerði það og mál að fara að sofa. Daginn eftir leit ég á þessar myndir og hugsaði sem svo að ég hefði verið með einhverja ofurdellu þegar ég vistaði þær. Hvað ætlaði ég eiginlega að gera við þessar myndir? Nú var ég farinn að ganga of langt með eldivið, tré, skóg og allt það hugsaði ég. Ég var nærri því að henda út þessari síðu með öllum myndunum en lét það þó bíða. Kannski mundi mér detta eitthvað í hug.

Svo núna í kvöld fór ég inn á ríkisútvarpið og las fyrirsagnir. Þar sá ég að það var einhver uppákoma á alþingi. Ég klikkaði á fyrirsögnina og horfði á upptöku frá Alþingi Íslendinga. Þá komst ég að því að hversu vitlaust sem blogg dagsins yrði ef ég nú mundi skrifa texta við þessar myndir, þá yrði það varla verra en uppákoman á þinginu.

Annars fór ég í vinnu í gær, en þar hef ég ekki verið í tæpar fimm vikur. Þó að mér finndist á leiðinni þangað að ég væri alveg dottinn út úr meðferðarstarfinu, þá komst ég að því að ég er alveg heima þar ennþá um leið og ég geng inn úr dyrunum. Og móttakan af þeim innrituðu er alltaf jafn frábær. Meira að segja þeir sem ég hef aldrei hitt áður koma svo forvitnir til að líta á þennann undarlega mann sem flestir hafa heyrt talað um. Eins og venjulega hitti ég margar klókar manneskjur, yngri sem eldri, sem töluðu frá hjarta sínu á þann hátt að það mundi koma mörgum í bobba sem allt í einu kynnu að hafna í slíkri umræðu. Ég segi eins og ég hef sagt áður að heimurinn mundi líta öðruvísi út en hann gerir ef einfaldur sannleikurinn gæti legið jafn létt á vörum allra manna og kvenna.

Svo skeði nokkuð skemmtilegt í morgun. Trönurnar voru mættar á akrana kringum Vornes. Þær höfðu hátt, snemma, og einhver sagði að þær hljóðuðu eins og tropmet og það var ekki fjarri sanni. Þetta er eitt af voreinkennunum sem nú eru um allt í kringum okkur. Á leiðinni heim í morgun sá ég svo trönur og gæsahópa á túnum og vorfiðringurinn gerði lundina glaðari. Mér datt þá í hug að þegar ég var að ljúka strangri vinnutörn um áramótin, þá hefði ég verið orðinn dálítið slitinn. Ég skildi það ekki þá, en ég áttaði mig á því í morgun að lífið var allt í einu svo ótrúlega mikið léttara.

Nú ætlaði ég að skrifa texta með myndum en datt bara sí svona út í allt aðra sálma. Það er kannski best að ég fari að draga mig heim aftur og koma mér að verki.


Ég hef einhvern tíma talað um þetta sem við sjáum á myndinni, en það er sterkasta sönnun þess að elgurinn er stundum alveg inn á gaflli hjá okkur. Hann skítur hér í kring í virðingarskini við okkur. Mikið vildi ég að hann kæmi í þessar heimsóknir sínar að degi til, en þá ætti ég ennþá auðveldara með að fyrirgefa honum eikarplöntuátið. Annars er kannski gróft að birta svona mynd. Ég yrði alla vega ekki glaður ef einhver birti svona mynd af mínum afurðum.


Elgurinn tilheyrir skóginum en hér gefur að líta afrskstur grisjunar okkar í skóginum undanfarið. Eiginlega ekkert þeirra trjáa sem við höfum fellt voru felld vegna stærðarinnar, heldur vegna þess að þau voru eitthvað bjöguð eða uxu of nærri fallegri eða stærri og tígullegri trjám. En alla vega; hér eru einir sjö m3 sem verða til upphitunar eftir meira en ár. Svo eigum við álíka mikið af fyrningum frá í fyrra og hitteðfyrra. Við erum vel sett með við en þurfum líka að fella ögn meira þegar laufgunin verður um garð gengin og við sjáum heilsufar vissra trjáa sem við erum ekki örugg með að svo stöddu. Almennt fara menn með dráttarvélar út í skóg til að sækja viðinn, en skógarbotninn og hjólbörustjórinn hafa mikið betra af því heilsufarslega að nota heiðarlegar hjólbörur til þessa.


Svona lítur hrúgan út þegar búið er að stafla saman tuttugu og fjögurra metra hárri ösp. Einar tvær hjólbörur af mjóstu greinunum eru svo á öðrum stað. Annars er kannski venjulegra að nota öspina í eldspýtur en eldivið.


Hvað ætli hann sé nú að spekúlera maðurinn þarna? Jú, ég var að spekúlera í því hvaða tré væri mikilvægast að taka úr kraðakinu sem er þarna fyrir framan mig. Eitthvað varð að láta undan þar.


Þetta beyki verður ekki fellt þar sem það er eftirlætistré gróðursett af okkur sjálfum. Mikið af laufi fyrra árs er ennþá á ungbeykinu. Það fellur ekki af fyrr en nýtt lauf er út sprungið.


Þessa krókusa fann Valdís að húsabaki fyrir fjórum dögum. Þeir eru orðnir margir vorboðarnir og velkomnir eru þeir. Krókusarnir uxu þarna upp í gegnum eikarlauf eins og sjá má.


Það nálgast tími gönguferðanna hjá sumum. Það eru nokkrir kílómetrar sem Valdís leggur að baki þegar hún skeiðar yfir grasflatirnar með sláttuvélina. Við hliðina á henni er alparós.


Ég tók eldhúsbekkinn um daginn, slípaði hann með vél og bar svo á þrjár umferðir af olíu með dags millibili eða svo. Það er fínt að sjá eldhúsið svona. Nú er búið að bera til baka kaffivélina, hraðsuðuketilinn og allt hitt sem þarna verður að vera, en til þess eru eldhúsbekkir.

Að lokum: Á sunnudaginn var fórum við í Blómsturland í Marieberg til að kaupa trjábörk með meiru. Svo fór ég þangað aftur í dag til að kaupa meiri börk. Það var búið að stilla upp svo miklu af runnum, blómum og trjám að ég þurfti mikinn sjálfsaga til að detta ekki í innkaup sem voru bara alls ekki á dagskránni. Það er næstum hægt að verða smá galinn þegar komið er í svona umhverfi.

Bláber 18. mars 2012

Fyrir nokkrum árum kom Rósa með tvo berjarunna, hindber og bláber, og sama ár gáfu þær systur mér kirsuberjatré í 65 ára afmælisgjöf. Þessi bláberjarunni gerði það gott og næstu tvö árin bættum við Valdís við bláberjarunnum og nú eru þeir orðnir sjö talsins. Kulda- og snjóaveturinn í fyrra átu ferfætlingar öll brum af þessum bláberjarunnum þannig að þeir báru engin ber. Þess vegna, og vegna þess að ég ímyndaði mér að ég hefði ekki tíma til að sinna þeim síðastliðið sumar, þá lentu þeir í hálfgerðri óhirðu. Að gera vel fyrir þessa runna var á verkefnalista í dag og það var gert af alúð og því er lokið utan að við þurfum að kaupa nokkra sekki af berki í viðbót til að verja þá fyrir öðrum gróðri. Þessi vinna kallaði fram minningar.


Það var í ágúst árið 2010 sem yngsta barnabarnið, hann nafni minn, var hér í sinni fyrstu heimsókn. Hann var þá tæplega eins árs. Þá var nefnilega bláber að finna á runnunum. Í fyrstu vildi hann ekki sjá að smakka á þessum skrýtnu bláu smá kúlum, en þegar okkur tókst að fá hann til að smakka á fyrsta berinu var ekki að sökum að spyrja, þau voru svo rosalega góð. Svo lærði hann að tína bláber og hann tíndi þau ekki í krukku, hann tíndi þau beint upp í sig. Það var líka meiningin. Á myndinni er hægt að sjá bæði þroskuð og óþroskuð ber. Það tók töluverðan tíma frá því fyrstu berin þroskuðust og þangað til þau síðustu voru tilbúin. Svoleiðis þarf það að vera því að þá er hægt að fara oft í ber. Skórinn minn sem sést þarna á myndinni er til ennþá. Þetta eru mjög sterkir skór en eru nú orðið notaðir í lakari verk eins og til dæmis í dag þegar ég skreið á blautri jörðinni kringum runnana.


Þessi mynd er tekin um svipað leyti og hin fyrri. Við keyptum bekk til að hafa í berjalundinum. Þarna situr elsta barnabarnið, Kristinn, með yngsta barnabarnið á þessum bekk og eru þeir að rækta sín fyrstu kynni ef ég man rétt. Kristinn var eina viku í heimsókn hjá okkur þetta sumar. Við erum búin að gefa þessum bekk nafn og heitir hann nú bláberjabekkurinn. Eftir þá alúð sem við sýndum þessum stað í dag eigum við von á að bláberjabekkurinn dragi fólk til sín í ágúst í sumar.


Kristinn veit nokkuð hvar hluti er að finna á Sólvöllum. Hér er hann búinn að klæða sig í buxur og stígvél sem tilheyra keðjusöginni. Hann er þarna á leið til að fella tré og þessi mynd er frá sömu heimsókn. Göngulagið er ákveðið og líflegt. Hann er sterkur þessi ungi maður og gæti vel tekið afa sinn í bóndabeygju.


Svo fór Kristinn til Íslands en Hannes Guðjón var eftir hjá afa og ömmu ásamt mömmu sinni. Þá var nýbúið að grafa niður nýjan rafmagnskapal á Sólvöllum og afi hreinsaði steina úr sárinu af ofurnatni fyrir fræsáninguna. Hannesi leist ekki alveg á vinnubrögðin og kom hér til hjálpar. Hann tók við mörgum steinum úr hendi afa, rannsakaði þá, og henti sumum í fötuna en fannst að margir þeirra gætu vel verið þarna áfram og henti þeim því í jörðina aftur.

Ég er viss með að birta nokkrar myndir af berjarunnunum okkar þegar við verðum búin að bæta á þeim berki sem vantar.

Verkefni dagsins þann 17. mars 2012

Ég var þreyttur í gærkvöldi þegar ég skrifaði eftirfarandi og svo fannst mér það svo mikið bull að ég lagði það til hliðar. Þegar ég vaknaði úthvíldur í morgun eftir átta tíma svefn sá ég að það var ekki meira bull en svo margt annað sem ég hef birt á blogginu mínu að ég læt það flakka út á netið.

Það var mikilvægt verkefni sem ég hafði skrifað á þennan dag fyrir nokkru og nú er því lokið, mér og okkur báðum til mikillar ánægju. Við borgum ekki holræsagjald enda eigum við frárennsliskerfið sjálf. Það er löglegt vel úr garði gert eins og það mesta á okkar bæ. En þannig er að þegar frárennsli frá klósetti, sturtu, handlaug, vaski og fleiru er búið að fara í gegnum brunninn, pipe-live síurnar og sandsíuna, þá er rúmlega 100 metra langur skurður út í skógi sem tekur við vatninu sem kemur frá þessu kerfi. Stundum verður ekki séð að neitt vatn komi frá því og stundum kemur það nánast í dropatali. Hinu skilar sandsían beint út í jarðveginn eins og lög gera ráð fyrir.

Þar sem lauftré eru báðu megin skurðarins safnast mikið af laufi í hann á haustin. Þetta lauf verður að hreinsa árlega ef vel á að vera. Það hef ég líka gert utan að í fyrra fannst mér sem ég mætti ekki vera að því. Það var því sérstaklega mikilvægt að koma því í verk núna og mjög mikilvægt að gera það áður en froskarnir kæmu á kreik og settust að í skurðinum. Það er svo leiðinlegt að reka þá í gegn með garðhrífunni og þeir hreinlega öskra ef það skeður. Svo eru þeir gengnir yfir móðuna miklu.

Ég byrjaði daginn seint. Við höfðum langan morgunverð og svo las ég blöðin og horfði á fréttir í sjónvarpi. Við fylgdumst með mönnunum sem unnu að björgunarstörfum í erfiðasta fjalllendi í allri Svíþjóð. Ég verð að segja að ég ber stóra virðingu fyrir þeim hvort sem þeir eru Svíar eða Norðmenn. En alla vega; út fór ég um hádegisbil, vel búinn og stígvélaður og með garðhrífu, stunguspaða og greinatöng að vopni. Svo kom Valdís út í dyrnar og spurði hvort hún gæti hjálpað. Þetta er skítverk í meira en ökladjúpri leðju af rotnandi laufi og mér datt ekki í hug að blanda henni inn í það.

Ég sagði skítverk, en þegar ég var byrjaður var það ekki verra verk en svo marg annað. Fimm tíma var ég að komast eftir endilöngum skurðinum og þegar ég var að nálgast staðinn þar sem rörið frá sandsíunni okkar kemur í skurðinn fór ég að finna pönnukökulykt. Það kom mér ekki alveg á óvart, en þó eru ekki pönnukökur ekki neitt daglegt brauð hér á Sólvöllum. Pönnukökur tilheyra þeim dögum þegar eitthvað alveg sérstakt er unnið. Skítverkið í skurðinum er líka alveg sérstakt verk. Þannig er það bara.

Svo skrítið var það að þegar þetta var búið, fötin öll komin í þvottavélina og ég kominn úr sturtunni, þá leit ég út í skóg og fannst sem skógurinn væri mikið þrifalegri en hann var í morgun áður en ég byrjaði. Svo mikil sálræn áhrif hafði það að ljúka þessu. Nú er mér forðað frá því í heilt ár frá og með í dag. Svona nokkuð fylgir því að búa í frjálsræðinu út í sveit. Svona nokkuð eykur líka lífsgæði og heldur ellilífeyrisþeganum í betra formi.

Þannig er það bara.


*


Frá Aftonbladet í gær. Menn á leið upp á Kebnekaise. Það er betra að vera ekki mikið reikullk í spori þarna á rindanum og svo er bara að signa sig og vona að það falli ekki snjóflóð undan fótum manna meðan þeir eru þarna. Þessi atburður minnti mig á Geysisslysið árið 1950. Það var mikið afrek sem menn unnu við það björgunarstarf með tækni þess tíma. Og það var mikið afrek þegar hann Þorsteinn Svanlaugsson, í þeim leiðangri, gekk einn til baka að flakinu aftur og var þá aleinn í tunglsljósi næturinnar, tugi kílómetra frá öllum lifandi verum -lengst inn á hálf endalausum Vatnajökli.

Að kvöldi þann 15. mars 2012

Í gærmorgun var fyrsti morguninn sem við kveiktum ekki upp í kamínunni. Við kveiktum hins vegar upp í henni undir kvöldið. Þetta, ásamt vaxandi fuglasöng og krókusunum sem Valdís fann í skógarjaðrinum í gær, er vorboði. Hins vegar var ekkert um annað að ræða en að kveikja upp í morgun. Það er kannski ekki hægt að kalla það bakslag, heldur bara það að það var ekki jafn hlýtt í dag og í gær. Það var líka svolítill golukaldi hluta úr deginum í dag. Það er spáð hlýindum.

Svanirnir eru farnir að safnast saman á og við grunnt vatn skammt vestan við Örebro. Að lokum verða þeir þar í tugþúsunda tali áður en þeir dreifast um svæði mjög langt fyrir norðan og norðaustan. Í gær sá ég eina fimmtán svani í oddaflugi hér yfir Sólvöllum á leið til norðurs. Trönur hef ég ekki séð ennþá. Þær koma til með að safnast í tugþúsunda tali við annað vatn all nokkurn spöl sunnan við Örebro áður en þeir dreifast um sænskar sveitir og landshluta til að verpa og koma upp ungum.

Fyrir einum tveimur vikum sá ég græna brumhnappa á víðiplöntu sem er hér út í skógi. Nú hef ég ekki fundið þessa plöntu aftur en hins vegar eru brumin á birkinu farin að fá á sig grænan lit en alls ekki að opnast. Ég er búinn að vera mikið í skóginum síðustu daga og er búinn að stoppa hjá mörgum kunningjum og sjá fyrir mér að þeir dafni vel á þessu sumri.

Eina 20 metra austan við húsið er skítahrúga sem elgurinn hefur skilið eftir sig. Nokkrar litlar eikur þar í nánd hafa tapað vaxtarsprotum síðasta árs. Merkilegt að þær skyldu ekki vera fleiri. Kannski hefur elgurinn orðið fyrir styggð og ekki gefið sér tíma til að taka fleiri eikur. Þetta mikla og virðulega skógardýr getur gert mikinn usla ef það röltir í næði milli smáeikanna. Samt er það svo að ef fólk sér elg á stuttu færi, þá er það mikilfenglegheitin sem eru fyrstu áhrifin en ekki að hann éti ungplöntur.

Vorið er á næsta leyti og við erum með náttúruna við húsvegginn. Þetta eru stórkostlegir tímar og verðmætir. Á morgun heimsækjum við Valdís töfrakonuna í Vingåker með það í huga að gera okkur í besta mögulega stand fyrir vorið og sumarið svo að við getum á besta hátt tekið þátt í veislunni. Við munum gera meira af slíku á næstunni en á morgun er það Vingåker.

Hér eru svo nokkrar línur teknar úr speki Hopi-indíána:

Andaðu að þér ferskum blæ dögunarinnar
svo að hún verði hluti af þér.
Það færir þér styrk.

Þetta passar vel fyrir vorkomuna með björtum morgnum, snemma, sólina sindrandi gegnum laufríkar krónurnar í háum skóginum móti austri. Fuglarnir uppteknir við söng og annir, dögg á jörðu og ilm af jörð og gróðri. Að ganga út á svona morgnum er að vera með í lífinu.

Þriðjudagurinn 13. mars 2012

Ekki er hægt að horfa á sjónvarpið allt kvöldið fannst mér og því stóð ég upp, hálf stirðnaður í stólnum, og hugsaði eitt augnablik hvað ég ætti að gera við kvöldið. Nóg hef ég að lesa, mikið sem ég hef lagt til hliðar til að lesa seinna, en mér fannst ekki taka því að byrja á því núna. Enn er of mikið á verkefnalistanum til að ég geti eingöngu helgað mig ellilífeyrisþeganum sem mig langar að kynnast, eða öllu heldur því lífi sem hann kemur til með að lifa.

Ég heyrði mjög skemmtilega umfjöllun í sjónvarpi í morgun og þá kem ég upp um strákinn Tuma. Að horfa á sjónvarp á morgnana! Það er að vísu ekki daglegt brauð af minni hálfu, en oft er það svo að ef kveikt er á sjónvarpinu fyrir hádegi, þá kemur í ljós að þar býðst upp á mjög athyglisvert efni. Í morgun var viðtal við hann Jan Eliasson sem ég talaði um fyrir stuttu þar sem hann hefði verið ráðinn næst æðsti maður Sameinuðu þjóðanna frá 1. júlí næstkomandi. Við ákváðum strax að horfa á þetta viðtal til enda áður en við snerum okkur að verkefni dagsins.

Fyrirspyrjandinn spurði þennan sjötíu og eins árs gamla mann hvort hann teldi að möguleikar internetsins væru nægjanlega nýttir af Sameinuðu þjóðunum sem baráttutæki til að koma á framfæri hvernig hægt væri að vinna mannkyni til friðar, heilla og framfara. Þessu svaraði Jan á svo frábæran hátt sem gladdi mig svo sannarlega. Hann sagði nefnilega að hann gæti ekki svarað þessu þar sem hann ætti svo margt ólært á þessu sviði.

Mikið var skemmtilegt að heyra þetta. Hann sagði að hann ætti eitthvað ólært og það lá í orðunum að hann ætlaði að læra það. Hann er að vísu fullvinnandi maður en ég meira ellilífeyrisþegi, en mér fannst þetta staðfesta að ég gæti líka lært margt af því sem mér finnst ég eiga eftir að læra -og vil læra.

En ef ég kem mér nú niður á jörðina aftur, þá er það svo að ennþá erum við að vinna í skóginum. Það er ekki nóg að fella tré til að grisja í skógi. Það þarf að búta niður, flytja heim það sem fellt er og ganga frá þeim haug greina sem fellur til. Grisjun sem hófst fyrir alvöru árið 2004 stendur enn yfir. Áfanganum núna ætlum við að ljúka á morgun. Þá á allur viður að vera kominn í stæður heim undir húsi og svo er eftir að kljúfa og raða í geymslu. Það má bíða en þó ekki hversu lengi sem helst. Hann Kjell, fyrrverandi vinnufélagi minn og vinur, sagði þegar hann gekk með mér um Sólvallaskóginn fljótlega eftir að við keyptum, að hér væri svo mikil vinna eftir við grisjun að það væri best að tala ekki um það. Þetta hefur verið mikil og góð vinna og venjulega skemmtileg.

Við fórum líka til Fjugesta í dag, Valdís til að versla en á meðan fór ég á heilsugsæluna til að láta bólusetja mig móti heilahimnubólgu. Festingar (fästing) sem nóg er af í miklum gróðri geta smitað fólk af heilahimnubólgu og bórelíu. Þar sem eitthvað á annað hundrað festingar hafa fest sig í húð minni er í raun tími til kominn að ég láti bólusetja mig. Bórelíu fékk ég líklega í fyrra og ég fékk fúkalyf við því. Það er ekki hægt að bólusetja við bórelíu enda er hún að því ég best veit ekki hættuleg ef hún uppgötvas í tíma. Heilahimnubólga er dálítið annað mál en líka hægt að bólusetja við henni.

Ég sá á FB í fyrra að einhver talaði um að lítil en ægileg ófreskja væri komin til Íslands, sem bæri með sér ógnvekjandi sjúkdóma. Mig minnir að þessi ófreskja hafi verið nefnd skógarmítill og ég taldi það vera það sem við köllum festing. Þetta er svo sem ekki hættulegri ófreskja en svo að það er bara að læra að lifa með henni. Það er svo margt sem er hættulegt. Það er hættulegt að fara á skíðum, að drekka sig fullan, að ferðast á bíl og bara nefndu það. Ekki hikar fólk við að gera þetta allt saman og ekki hikar maður við að fara út í guðsdgræna náttúruna af þvi að þar gætu fundist skógarmítlar.


Hér er mynd af þessu dýri, mikið stækkuð, og hér fyrir neðan er slóð á björgunaraðgerðir fyrir þá sem verða fyrir biti. Skógarmítillinn stingur höfðinu inn í húðina og festir sig þar. Síðan nærist hann á blóði og stækkar ört. Sumir segja að það sé betra að láta hann stækka svolítið því að þá er betra að ná taki á honum. Ég bið Valdísi að fjarlægja hann strax og ég verð hans var.

Að fjarlægja skógarmítil

Nú ætla ég að snúa mér frá þessu leiðindatali um skógarmítil. Ef ég fer með rangt nafn vil ég gjarnan vita hvað hið rétta, íslenska nafn er. Það er kominn tími til að bursta og pissa og leita svo félagsskapar Óla í draumalandinu undir ullarfeldinum. Fyrst lít ég kannski í bók. Það er þó ekki víst að mér takist að líta í bók því að ég er svo undur snöggur að komast í draumalandið eftir að ég leggst á koddann. Það er góður eiginleiki eða náðargáfa að sofa vel á nóttunni. Alla vega um langt skeið hef ég verið þessarar náðargáfu aðnjótandi. Nýi mjaðmaliðurinn færði mér til baka svefninn og þökk sé þeim sem fundu leið til að bæta lífsgæði svo margra með því að finna upp mjaðmaliði úr málmi. Málmur lætur svo sem ekki vel sem hluti af líkamanum svona á blaði, en gerir svo sannarlega sitt gagn.

Hann Jan Eliasson sagði í morgun að það væru þrjú megin atriði sem gott samfélag byggðist á: friður, framfarir og mannréttindi. Þegar maður vissi það væri hægt að fara að vinna.

Helgi í Stokkhólmi, 11. mars 2012

Eftir hádegi á föstudag lögðum við af stað til Stokkhólms. Meiningin  var að fara þessa ferð á þriðjudaginn var og hitta þá Valgerði um leið, en hún ætlaði þá að koma til Stokkhólms. En það lá þá annað og óvænt fyrir henni þar sem hún var úlnliðsbrotin, með vonda verki og flóknar umbúðir um úlnliðinn og hendina. Hún hélt sig sem sagt heima. Við Valdís frestuðum því ferðinni til helgarinnar.

Við fórum frá Sólvöllum til Örebro, norður gegnum Örebro og þaðan til austurs móti Stokkhólmi. Þessa leið frá Örebro til Stokkhólms fórum við í fyrsta skipti í mars 1997, og þá við sérstakar aðstæður að mér fannst, en það fer ég ekki inn á núna. Ef til vill er ég líka búinn að blogga um það áður þó að ég muni ekki til þess. Það er svo sem ekki mikið um svona ferð að segja á þessum árstíma, en að vori eða sumri til er hver kílómeter nánast upplifun. Einnig má segja að svo sé þegar allt liggur undir nýföllnum, tandurhreinum snjó.

Þegar við vorum komin upp stigana tvo heima hjá Rósu og stóðum á pallinum við dyrnar inn til þeirra, þá heyrðum við til Hannesar og það duldist ekki að hann átti von á gestum. Ég fékk strax að taka hann upp en síðan vildi hann niður á gólfið á ný og svo teygði hann hendina til okkar og benti okkur að koma. Hann ætlaði að sýna okkur eitthvað. Hann vildi sýna okkur leikföngin sín. Svo lékum við okkur að lestinni hans, eimreiðarnar suðuðu, fóru yfir brýr og undir brýr og sannelikurinn er sá að fullorðnir geta alveg fallið fyrir þessu leiktæki.


Það er bara hið skemmtilegasta annríki að bjástra við þetta. Það þarf að breyta teinum, gera við eftir að lítill maður hleypur skyndilega yfir teinana, bæta inn í vögnum og segja vááá þegar eitthvað tekst sérstaklega vel.


En við stoppuðum líka inn á milli og það var þetta með bíllyklana, það var svo gaman að ýta á lítinn silfurlitan hnapp á handfanginu og þá small lykilinn út. Þá hlógum við.


Svo fórum við öll í gönguferð, fundum bát sem Hannes kannaðist við og hann fór beint í brúna og tók höndum um stýrið. Mamma stóð frammi í stafni og steig ölduna en pabbi ljósmyndaði.


Amma beið á bryggjunni og þegar Hannes var búinn að leggja að og láta binda steig hann frá borði og leitaði nýrra ævintýra.


Öðru hvoru þarf maður að slappa af og að hafa þak yfir höfuðið er jú alveg meiri háttar munaður.


Nú er kannski hætta á óhreinindum og þá er bara að galla sig og vera vel búinn í slaginn.


Amma! amma! haltu nú í hendina á mér, þetta verkar svo svakalega hátt.


Eftir mikil hlaup, báta, rólur, rennibrautir, kastala og sandkassa verður maðurn auðvitað þreyttur. Mikið var gott þegar mamma og pabbi buðu upp á ávaxtasafa og pylsu. Namm, namm, og svo var svo gott að hvíla sig. Kinnarnar rauðar og augun frískleg.


Ekki veit ég hvort hann fann á sér að við mundum brátt fara, en alla vega, allt í einu hljóp hann inn í herbergið sitt og sótti leikföng. Við vorum þá að borða morgunverðinn í morgun og hann vildi sýna mér leikföngin sín. Og hvað gerir afi þá? Jú, honum finnst leikföngin alveg sérstaklega athyglisverð. Svo sótti hann fleiri leikföng og sýndi afa, og svo enn fleiri. Afi hafði áhuga á leikföngunum hans og þetta var svo gaman. Hann hljóp hratt og rak aldrei tærnar í þröskuldinn.


Það nálgaðist brottför og afa og ömmu leiddist að yfirgefa Hannes Guðjón og fjölskyldu. Ég fór inn í herbergið hans og horfði á lestarteinana, eimreiðar, málmvagna og fleiri græjur sem allt var tilbúið að fara í ferðir. Ég hugsaði að þetta væru svo skemmtileg leikföng og tók mynd til að geta horft á nokkuð þegar ég kæmi heim sem fullorðnir geta haft gaman af líka -það er bara að geta viðurkennt það. Á þessari mynd er aðeins einföld útfærsla af járnbrautarkerfinu en í fyrradag, þá var sko hægt að segja að járnbrautarkerfið væri flókið. Það var næstum því hægt að villast á því.


Svo vorum við komin út að bíl og settum tösku og fleira dót í farangursrýmið. Það var líklega þá sem Hannes Guðjón sá hvað verða vildi, varð alveg viss. Síðast tók Valdís mynd af okkur hinum þarna á stéttinni en nú tók ég mynd af þeim. Þá sá ég að lítill maður var dapur á svip og hann fékkst alls ekki til að líta upp og brosa, ekki til að tala um. Ég gekk að honum, kyssti hann á kynnina og sagði bless. Hann var hljóður en byrjaði að vinka með hendina við eyra mömmu sinnar. Hann hreyfði hendina lítið og hægt, eins og hann væri eiginlega að vinka í laumi en hann vissi að ég sá það. Svo kvaddi amma hans hann.

Við afi og amma vorum hnuggin þegar við ókum áleiðis suður úr Stokkhólmi og ég var svo fastur við þessa hægu hreyfingu þegar hann nafni minn vinkaði bless en treysti sér ekki til að líta upp. Við hefðum nú getað farið með þeim í aðra gönguferð eins og við fórum í gær og tekið eftir því þegar hann gerði eitthvað nýtt, klappað fyrir honum þegar hann þorði því sem hann hafði ekki gert áður og bara haft með þeim einfalda góða dagstund og komið seinna heim. Svo þegar við vorum komin suður úr Stokkhólmi hringdi Rósa og sagði að Hannes Guðjón hefði spurt hvað eftir annað eftir afa. Stundum kallar hann okkur bæði afa

Í bæ skammt sunnan við Stokkhólm setti ég hraðastillinn á 105 km á 120 km vegi. Þannig ókum við um það bil 100 km vegalengd án nokkurra minnstu hræringa annað en að stýra bílnum eftir veginum. Aftur og aftur sá ég fyrir mér litlu hendina sem vinkaði svo lítið bar á. Ég hugsaði um ábyrgð og að bregðast ekki, ég hugleiddi framtíð lítils drengs og fann fyrir löngun til að hitta hann sem fyrst aftur.

Þegar við komum til Örebro fórum við inn á Maxi hamborgarastað til að kaupa hamborgara í kvöldmatinn. Mér finnst alltaf sem ég sé á öfugum stað þegar ég kem inn á slíka staði. Þegar svo unglingurinn sem afgreiddi okkur setti franskar kartöflur niður í pokann sem við fórum með heim, fannst mér sem tæplega sjötugur kall ætti ekki að gera þetta. Ég sem hafði hugsað svo mikið um þá ábyrgð sem foreldrar og afar og ömmur bera á þessum minnstu ungviðum bar nú út í bíl tvo hamborgara og pappírsumbúðir sem hafa sennilega vegið meira en innihaldið. Hamborgararnir eru nú étnir utan frönsku kartöflurnar mínar sem fóru í ruslið og umbúðirnar bíða þess að fara á endurvinnslustöðina.

Drottnignar

Ég held bara að ég fari að heita Björkvin, svo mikið eru bjarkir í huga mér um þessar mundir.




Á mánudaginn var féllu tvær bjarkir sem tóku vatn frá þeirri sem gulanði í mesta hitanum og lengsta þurrkakaflanum í fyrrasumar. Skyldi henni líða betur á komandi sumri? Það kemur í ljós. Birki er ennþá ráðandi í skógarjaðrinum næst Sólvallahúsinu. Bjarkirnar sem féllu á mánudaginn var sjást ekki á myndinni. Það er um sæmilega auðugan garð að gresja.

Það er ekki einu sinni spáð frostnótt næstu tíu dagana og hita almennt 4 til 12 stig. Það eru góðir tímar núna.

Með báða fæturna á jörðunni 8. mars 2012

Nú er ég búinn að vera ákveðinn í því síðan seint í fyrrakvöld að í næsta bloggi ætli ég að vera með báða fæturna á jörðinni. Nú er ég kominn að þessu næsta bloggi. Það sem ég meina þegar ég segi með báða fæturna á jörðinni er að í síðustu tveimur bloggum hefur það fjallað um lífið og tilveruna og svolítið um andlegu hliðina. Þó að lífið og tilveran sé að vísu hluti af hversdagsleikanum, þá ætla ég nú að tala um hin daglegu verk sem við höfum verið að sinna upp á síðkastið hér á Sólvöllum. Dagurinn í dag byrjaði á því að Valdís fór á söngæfingu hjá Hafðu það gott kórnum í Fjugesta. Síðan fór ég í endurvinnsluna eins og svo oft á fimmtudögum og svo í Colorama þar sem yfirleitt er hægt að fá góða aðstoð.

Ég var nefnilega afar ákveðinn í að slípa eikarplöturnar á eldhúsbekknum í dag og bera svo á olíu. Allt sem til þurfti var til utan eitthvað áhald til að slípa með. Ég hreinlega nennti ekki að gera það með höndunum. Nú, Emil í Colorama var ekkert á því að selja mér neina slípivél. Hann vildi leigja mér hana. Og nú er eldhúsbekkurinn svo ótrúlega fínn að ég tek til baka það sem ég var farinn að hugsa; að það hefði verið vitleysa að hafa eik í bekkplötunni í staðinn fyrir harðplast. Bekkplöturnar eru bara svo ómótstæðilega fínar núna.

En nú fer ég út í aðra sálma til að viðra verkefni síðustu daga.


Það var um það samið fyrir mörgum vikum að hann Arnold bóndi kæmi til að aðstoða okkur við að fella tré sem sum voru heim undir húsi og máttu hreint ekki falla nema á nákvæmlega réttan stað. Svo kom hann á mánudaginn var. Ég hef oft talað um Arnold en við höfum enga almennilega mynd af honum. Hér er hann þó að fella mjóan ask sem er búinn að vera dauður síðan í fyrrahaust. Það voru engar kúnstir með askinn og það var bara að beina honum í rétta átt með annarri hendi. Það kom eitthvað sníkjudýr undir börkinn á askinum í fyrra og það uppgötvaði höggspætan. Hún fletti berkinum af á stuttum tíma og át snýkjudýrið með góðri lyst. Nú var þessi askur orðinn svo þurr og léttur að það hefði verið hægt að bera hann beint inn og kynda með honum þegar í dag. Annars þarf viðurinn að þorna á annað ár ef gott á að vera.


Það er fljótlegt að fella tré en þegar að því kemur að hreinsa greinarnar af, þá byrjar vinnan. Þessi mynd er ekki af trénu á fyrstu mynd, þetta er af stórri ösp.


Á einu grenitré eru alveg feykilega margar greinar. Þetta grenitré var fellt af því að það var líka snýkjudýr í því eins og askinum áðan.


Valdís var dugleg við að taka myndir en hér er hún búin að setja upp vinnuvetlingana og safnar greinum í hauga. Mér sýnist hún vera að taka dansspor þarna konan.


Svona lítur 18 metra hátt birkitré út þegar búið er að hreinsa af því greinar og brytja niður í hæfilega langa eldiviðarbúta.


Það eru nokkur kílówött í hverrjum svona bút af birkitré. Þetta verður góður eldiviður veturinn 2013 til 2014


Svona lítur 24 metra há ösp út þegar búið er að fella hana og hreinsa. Það er svolítið villandi að það stendur björk nákvæmlega við endann sem fjær er. Þar er Valdís við hreinsunarstörf.


Og þegar búið er að lima niður öspina lítur hún svona út. Það verða margar ferðir með hjólbörurnar áður en þetta tré verður komið heim undir hús.


Allt amstur og slit eða hvað? Það var gaman að sjá þessa mynd á sínum tíma og er enn. Fólkið í Hafa það gott kórnum fór út að borða skömmu fyrir jól. Ég var að vinna það kvöld, svo vel hittist á, og þá þurfti Valdís ekki að vera ein heima. Hún virðist ánægð með lífið þarna sýnist mér og það er mikið vel. Kórstarfið er henni mikils virði.

Þegar hann Arnold var hér á mánudaginn barst söngur í tal. Ég syng ekki sagði Arnold og eins gott að ég reyni ekki að gera það sagði hann. Þá mundu allir fara út. Ég sagði þá að við værum bræður í þessu og ég talaði um að það væri líklega mikið atriði hvað fólk ælist upp við. Ég sagði frá því að í bernsku hefði útvarpið verið heima til að hlusta á fréttir, veður og útvarpsmessuna. Svo var slökkt á því. Við vorum að fá okkur kaffi og vöfflur eftir að hafa fellt trén þegar þetta barst í tal. Arnold leit á mig og sagði: Og við heima þurftum að stelast til að hlusta á fótboltaleiki því að þar var útvarp bara notað fyrir fréttir og veður. Svo var slökkt á því. Hann sagði að afi sinn hefði aldrei kynnst rafmagni og pabbi hans hefði verið eitthvað á eftir tímanum þegar um nýjungar eins og útvarp var að ræða. Þarna kynntumst við Arnold betur en fyrr.

Að lifa lífinu þann 6.mars 2012

Þegar nokkur tré hafa blásið um koll á litlu svæði liggja þau dálítið þvers og kruss. Ég var að búta svona tré niður í eldiviðarlengdir í dag og úr því urðu gríðarlega margir bútar dreifðir út um allt á litlu svæði. Valdís var með sem öryggisventill ef eitthvað kæmi fyrir mig. Svo tíndi hún upp í hjólbörur og hún tíndu líka minni bútana saman í hrúgur. Inn á milli velti ég því fyrir mér hvort það væri að vera bjáni og einfeldningur að lifa svona lífi. En ef svo, þá er bara gaman að vera bjáni. Það er þriðji dagurinn sem við erum að sýsla við þetta í tandurhreinu vorvetrarloftinu.

Eftir að hafa hreinsað af greinar og brytjað niður tré á því svæði sem við höfðum sett okkur sem markmið í dag, fengum við okkur síðbúinn hádegisverð og fórum síðan inn í Marieberg. Við skiptum liði. Valdís tók að sér að annast innkaupin en ég fyllti bílinn af hráolíu og ætlaði svo að þvo hann. Þegar ég kom að þvottastöðinni var ungur maður þar inni að yfirfara búnaðinn þannig að það varð enginn þvottur í það skiptið. Ég fór þá inn í stóra verslunarmiðstöðvarhúsið í Marieberg þar sem ég vissi að Valdís var. Ég tók stefnu á apótekið þar sem ég reiknaði út að hún væri þar á þeirri stundu. Þegar ég kom svo langt að ég sá innganginn að apótekinu hægði ég ferðina og leit í kringum mig.

Allt í einu sá ég hvar hún kom út úr símabúðinni, létt á fæti, og svo hratt gekk hún að ég bara hugsaði að hvað hefði eiginlega komið fyrir þessa konu. Svo frísklega hafði ég ekki séð hana ganga síðan . . . . . ja, ég veit bara ekki hvenær. Nú fór ég í hálfgerðan feluleik til að geta fylgst lengur með þessu, njósnaði um hana, en ég sá rétt, hún gekk fislétt þvert yfir breiðan gang og hálfgert innitorg og stoppaði svo við hraðbanka. Jú, það var Valdís sem var í fötunum hennar, það var enginn umskiptingur.

Ég hugsaði hvort það gæti virkilega verið aukin útivera og hreyfing undanfarna daga sem ylli þessu og hvort það gæti virkilega virkað svona fljótt. Eitthvað var það alla vega. Svo núna í kvöld giskaði Valdís á að ferðin til töfrakonunnar með nálarnar í Vingåker á föstudaginn var hefði gert muninn. Kannski, að hluta, en ég vil samt trúa á að útiveran og holl samvera með náttúrunni eigi ríkan þátt í þessu. Ég finn líka að ég er sjálfur farinn að bregðast öðru vísi við eftir skammdegið. Þegar við svo komum heim frá Marieberg fór ég út og sótti átta hjólbörur af eldiviði, þungum aski, og það var svo notalegt að verða móður og draga útiloftið djúpt niður í lungun og finna það streyma út í líkamann. Ég vildi ekki hætta og hætti ekki fyrr en það var orðið aldimmt.


*

Ég tek mér tíma flesta daga til að hugleiða eitthvað og finn mér þá oft eitthvað stutt að lesa til að beina huganum inn á einhverja braut. Ég nota oft það sem ég kalla vísdómsorð. Sjálfsagt eru ekki öll vísdómsorð byggð á neinum sérstökum vísdómi, en þó eru mörg þeirra sögð af miklum rithöfundum, heimspekingum, hugsuðum, fólki sem hefur afkastað einhverju um dagana og hvað það getur nú heitið allt saman. Það má segja að mörgum þessara vísdómsorða er það sameiginlegt að þau tala um kyrrð, að vera hljóður, að hlusta frekar en tala, að taka eftir náttúrunni og almennt að vera eftirtektarsamur. Eins og svo oft áður ætla ég að nota hér vísdómsorð úr Kyrrð dagsins.

Þar sé ég að Cicero, rómverskur ræðusnillingur, rithöfundur og pólitíkus, sem var uppi 106 - 43 F.KR sagði þetta: "Indælast í lífinu er hið kyrrlátasta . . . lífshamingjan felst í hugarró."

Jane Austen, breskur rithöfundur, sem var uppi 1775 - 1817, sagði: "Ekkert er eins hressandi og endurnærandi og að sitja í forsælu á fögrum degi og horfa á grænan gróðurinn."

Thomas Edison, uppfinningamaður, var uppi 1847 - 1931. Hann sagði: "Menn hafa hugsað skýrast í einveru en skjátlast mest í öngþveiti."

Hér eru afar ólíkar manneskjur sem voru uppi á ólíkum tímum og náðu ólíkum aldri, manneskjur sem þurftu að umgangast fólk mikið, en þær eiga það þó sameiginlegt að sjá stærstu verðmætin í einveru, hugarró, kyrrð og náttúru. Ég gæti tekið svo ótrúlega mörg fleiri dæmi sem byggja á því sama. Þetta fólk hafði ekki þotur, farsíma, iPad eða sjónvarp og þá spurning hvort það sé marktækt í þessu samhengi. Því tókst samt að lifa og það án þess að geta keypt þunglyndislyf í apótekinu.

Ég tel mig umgangast mikið af fólki en finna mig líka í því sama og þetta fólk sem allt er þekkt fyrir sín ævistörf. Ég er ekki þekktur fyrir mitt ævistarf en get upplifað það sama. Ég sagði í upphafi að ég hefði velt því fyrir mér hvort ég væri bjáni og einfeldningur. Miðað við ofansagt tel ég mig ekki vera það. Ef til vill er ég hundleiðinlegur en Valdís kvartar þó ekki nema bara þegar eitthvað fer úrskeiðis milli okkar. Svo drögum við allt svoleiðis til baka.

Eitthvað að hugsa um þann 5. mars 2012

Síðdegið þennan dag hefur ekki alveg verið minn dagur og ég hef reynt að sporna við þessu en ekki tekist það almennilega. Að skrifa hefur ekki verið alveg það sem hefur hentað mér en einmitt þess vagna skora ég á sjálfan mig og legg hér með fingurna á lyklaborðið.

Í gær þegar ég las texta dagsins í bókinni Kyrrð dagsins hreifst ég af honum. Ekki nægði það samt til þess að gera síðdegið í dag leikandi létt, en textinn er á þessa leið:

Leyndardómur framtíðarinnar er hér í nútíðinni.
Ef þú bætir hana, batnar það sem á eftir kemur.
Sérhver dagur, einn og sjálfur,
færir með sér heila eilífð.
Paulo Coelho, úr "The alcemist." (Gullgerðarmaðurinn)

Að hlakka til morgundagsins er mikið hnoss. Að hafa góðar minningar um gærdaginn er líka mikið hnoss. Það var inn á Vogi og síðar austur á Sogni sem ég kynntist í alvöru hugtakinu "að lifa einn dag í einu", að lifa í núinu. Ég fann líka að það var auðvelt að gera þetta að frasa og svo ekkert meira þó að það kannski geti líka fært mig að markinu. Notaði ég frasann beinlínis í því skini að ná þessu marki, þá kannski væri það til hjálpar, en ef ég notaði hann bara til að sýnast, þá mundi það skipta sköpuðu utan að sumir myndu vissulega brosa að ofnotkun minni á frasanum.

Ég átti mér vissulega þann draum að fara nú að gera daginn í dag svo góðan að ég mundi eiga góðar minningar um hann daginn eftir, og því mundi líka fylgja sá vinningur að geta hlakkað til morgundagsins. Ég vissi að lengst fram í bók sem nefnd er Tuttugu og fjögurra stunda bókin fannst mjög fallegur texti, orðskviður úr Sanskrít. Ég varð mér því úti um bókina og opnaði hana næstum því með titrandi hendi og las þennan texta sem fjallar um að gæta þessa dags. Orðskviðunum lýkur á þessum línum:

Því að gærdagurinn er draumur
og morgundagurinn hugboð
en þessi dagur í dag
sé honum vel varið
umbreytir hverjum gærdegi
í verðmæta minningu
og hverjum morgundegi
í vonarbjarma.

Gæt þú því vel
þessa dags.

Svo varð ég bara klökkur af að lesa þessa gömlu visku og las textann aftur og aftur - dag eftir dag. Þessu marki skyldi ég ná. Það skeði ekki daginn eftir og ekki heldur daginn þar á eftir, en síðar meir, hægt og sígandi, minnkaði kvíðinn fyrir morgundeginum og óttinn út af gærdeginum gaf sig. Jafnvægi komst á. En svo koma svona dagpartar þegar ég næ því ekki að gæta þessa dags, afar sjaldan heilir dagar. En hvað um það, ég hélt mínu striki í dag og við Valdís hjálpuðumst að við að afgreina tvær all stórar bjarkir sem voru felldar í dag. Svo eftir það sagaði ég stofnana í hæfilegar eldiviðarlengdir og tíndi síðan saman í huggulegan bing. Ég hefði líka getað sagt við Valdísi að þetta væri ómögulegur dagur og ég ætlaði ekki að gera neitt annað en að eiga svolítið bágt. En mér fannst betra að "gæta þessa" dags og ef ég gæti það ekki sjálfur, gæti enginn gert það fyrir mig.

Nú er þessi dagur liðinn, akkúrat á þessu augnabliki. Það er miðnætti. Ég sé núna að ég hefði átt að setjast mikið fyrr við tölvuna og byrja að skrifa það sem byrjaði að koma upp í huga mér í gær þegar ég las textann í Kyrrð dagsins. Svo hefur þetta verið að koma upp öðru hvoru í allan dag að "Sérhver dagur, einn og sjálfur, færir með sér heila eilífð". Já, þeir eru verðmætir þessir dagar.

*

Talandi um bókina The alcemist, Gullgerðarmanninn, þá las ég hana fyrir all nokkrum árum og notaði hana einnig til að auka sænska orðaforðann minn. Ég las hana sem sagt mjög nákvæmlega og rýndi í orðin. Alls ekki mundi ég þó eftir þessum ofannefnda texta, en óljóst man ég eftir öðrum texta sem hnippti við mér og ég veit fleirum sem hafa lesið bókina. Ég man þetta auðvitað ekki orðrétt, en það fjallaði um að fjárhirðirinn og gullgerðarmaðurinn riðu hestum í útjaðri eyðimerkur og voru þá að nálgast ófriðarsvæði. Þá sáu þeir allt í einu tvo hermenn koma flengríðandi á hestum og fjárhirðinum varð þá að orði að nú dræpu hermennirnir þá. Gullgerðarmanninum varð þá að orði að þeir mundu einhvern tíma deyja hvort sem væri og þessi dagur væri líklega ekki verri til þess en hver annar dagur.

Nái maður að hugsa þannig hefur maður komið langt í æðruleysi.

Vorverk 4. mars 2012

Í gær, laugardag, fórum við Valdís út í skóg. Ég hafði mótorsögina með mér en Valdís kom með til að gæta mín sem hún gerir alltaf þegar ég felli tré. Það er eiginlega síðustu forvöð að fella þau tré sem á að fella áður en birkið fer að draga safann upp í stofnana. Við felldum svo sem ekki mörg tré en við byrjuðum líka á því að hreinsa greinar af trjám sem fuku í vindunum um áramótin. Einnig að brytja þau niður í hæfilega langa eldiviðarbúta. Svo verða hjólbörurnar teknar í gagnið og ferðirnar farnar svo lengi sem þarf þangað til allur viðurinn verður kominn á athafnasvæði Valdísar þar sem hún klýfur, klýfur og klýfur, þangað til hver einasti kubbur verður tilbúinn til þurrkunar. Málið var bara að byrja þetta verk í gær, því að þegar verk er hafið er eins og það kalli á að því verði haldið áfram. Hann Arnold bóndi kemur líka á morgun, mánudag, til að fella með mér tré sem verða að falla mjög nákvæmlega á fyrirfram ákveðna staði.

Svo þegar útiloftið var byrjað að streyma út í líkamann þarna í gær vildum við halda áfram. Ég tók góða sög og tröppu og sagaði all margar neðstu greinarnar af eikum hér næst húsinu. Við ræddum um hvert tré fyrir sig og ég byrjaði ekki að saga fyrr en við vorum sammála. Svo fór ég allt í einu að hugsa út í það að ég hefði átt mína drauma um skógarlendur allt frá bernsku, en að ég mundi upplifa það að laga til eikartré heima hjá mér, það var alveg örugglega aldrei með í draumunum. Í gær var það hins vegar staðreynd. Ég tel að ég hafi álitið að eikur væru suðlægari tré en svo að þau gætu vaxið hér.

Og svo kom sunnudagur með Vasagöngu sem ekki er spurningin um að horfa á, það er bara að horfa á. Svo var það sjónvarpsmessan og þá var Vasagangan komin svo vel á veg að það var svo sem ekkert sérstakt fyrr en þeir fyrstu færu að nálgast strikið í Mora. Þó að það sé þessi ótrúlegi fjöldi sem tekur þátt í þessari 90 km löngu göngu finnst mér það afrek að ljúka henni. Einn maður sem talað var við er búinn að taka þátt í Vasagöngunni 54 sinnum. Honum lá ekkert á. Það eru svo margir þátttakendur sem ekki eru að keppa. Markmiðið er bara að vera með.

Að þessum dagskrárliðum loknum tók ég klippur og sög og hélt út í skóg en Valdís tók að sér að þrífa bílinn innan. Hún lítur á það sem sitt verk, enda líklega eins gott. Ég heimsótti einar 70 eikur af stærðinni 1,5 metrar til 3 metrar. Ég spjallaði svolítið við þær og snyrti margar þeirra. Það er réttur tími til að snyrta eikur núna, ef nokkuð þá full snemmt. Þær sem voru minni verða að vaxa eitt ár og meira til að fá að njóta þess að verða snyrtar og teknar í viðtal. Eftir fáein ár kemur svo ásteningartíminn, það er að segja þegar lélegri einstaklingarnir og þeir sem standa of þétt eða á öfugum stað verða fjarlægðir en úrvalið fær að lifa í rýmra plássi.

Það er kominn nýr ábúandi á Sólvelli. Það er fasani. Hann spígsporar hér fram og til baka á hverjum degi, en hann fer all hratt yfir þannig að við höfum ekki náð mynd af honum. Fasani er fjölkvænisfugl og hver veit hvað verður úr þessu. Við höfum hengt mikið af tólgarboltum fylltum með einhverju fuglakorni í tré hér næst húsinu. Árangurinn er mikilll fuglasöngur sem er af okkur vel þeginn. Svartur köttur lámast mikið hér í kring og hann er ekki eins vel þeginn gestkomandi. Helst mundi ég vilja gefa honum eitthvað svo ógeðslegt að éta að hann kæmi aldrei aftur. Ég meina þó ekki að eitra fyrir hann. Ég er oft búinn að hvæsa ógnandi að honum og þá hleypur hann burtu með ógnar hraða, en hann er fljótur að gleyma og kemur jafnan aftur.

Þetta er ekki fasaninn okkar, ég fann þessa mynd á wikipedia og ljósmyndarinn var ekki nafngreindur. Þetta stél á hananum hlytur að vera um hálfur metri á lengd. Ég bara verð, áður en mars er liðinn, að smíða slatta af fuglahólkum til að hengja upp í tré hér í kringum okkur. Ekki fyrir fasana, heldur fyrir þá fugla sem hafa verið að éta tólgarboltana sem við höfum hengt út.


Þarna næstum á miðri mynd gefur að líta fasanann okkar á leið yfir á lóð grannanna. Hann er örugglega að leita að stelpum sem hann ætlar að búa með á landinu okkar.


Fyrst að saga svolítð frá stofninum.


Síðan upp við stofninn en þó ekki of nærri. Þessi eik verður orðin mjög tígulleg eftir 60 ár. Ég hlakka til.


Þetta beyki sem var flutt úr skógi nálægt Vingåker fyrir fjórum árum en nú á hæð við tvær og hálfa Valdísi grunar mig. Það verður gaman að fylgjast með laufkomunni í vor. Þá fellur gamla laufið sem ekki er þegar fallið.


Við vorum búin að sækja eik inn í skóg frekar seint að vori fyrir fjórum árum, eins og á fyrri mynd, og gróðursetja þarna. Í byrjun júlí sáum við að hún var hreinlega með allt of grannan stofn og mundi aldrei standa sig á þessum stað. Um miðnætti þetta júlíkvöld rifum við hana upp og sóttum aðra mikið sterkari og skiptum um tré. Að gera þetta um miðnætti var vegna þess að við vildum ekki láta nokkurn mann sjá að við værum að flytja eikartré um mitt sumar. Það var bara fáránlegt. Seinna sagði ég nágranna í næstnæsta húsi norðan við frá þessu. Hann hafði þá gert þetta líka, móti öllu sem á að vera hægt. Svo hlógum við að þessu. Tré nágrannans, tréð sem við fórum með aftur út í skóg og tréð sem við sóttum þangað þetta júlíkvöld -þau lifa öll og virðast hraust.

Góðar fréttir 3. mars 2012

Upp úr hádegi í dag, laugardag, sá ég á textavarpinu að þriggja ára drengur hefði hrapað ofan í klettasprungu niður á Skáni. Fólk komst ekki niður til hans þar sem sprungan var svo þröng og ekki sást heldur niður til hans þar sem sprungan var djúp, en það heyrðist til hans. Foreldrar sex ára gamallar stúlku buðu aðstoð sína, en stúlkan er vön klifri. Þegar reynt var að láta hana síga niður var sprungan líka of þröng fyrir hana. Ég gekk að textavarpinu og tölvunni með tíu mínútna millibili eða svo til að athuga hvernig gengi því að mér fannst þetta ástand hræðilegt, hreinlega óbærilegt.

Ferðamaður sem kom á staðinn til að krifra sá að eitthvað mikið var að gerast og spurði hvort hann gæti hjálpað. Hann er 184 sm á hæð og vegur 66 kóló þannig að ekki er sverum kropp fyrir að fara. Þegar hann var látinn síga niður með höfuðið á undan komst hann ekki niður frekar en sex ára stúlkan. Mikil örvænting! Hvað er hægt að gera!?! Sótari kom með myndavél sem notuð er í skorsteina og með henni var hægt að sjá til drengsins. Honum var sendur matur og drykkur og ofni var rennt niður til að reyna að hlýja honum. Rétt um klukkan fjögur í eftirmiðdaginn komu svo fréttir um að drengnum hefði verið bjargað og mér stór létti. Björgunarmenn hreinlega grétu. Ég gat nú farið að snúa mér að því sem var á dagskránni hjá mér í dag.

Svo var önnur frétt í dag sem hafði mikil áhrif á mig. Reyndar heyrðum við um það mál þegar í gær, en í dag hefur verið mikil umræða um það og ég skil það vel. Sú frétt var um það að sænskur maður að nafni Jan Eliasson hefði verið ráðin sem nánasti samstarfsmaður framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Það er einfaldast að segja það að ég varð afar stoltur vegna þessa. Þessi gæðalegi maður sem hefur starfað mikið við málamiðlanir og samninga, starfað mikið við skipulagningu hjálparstarfs og fleira, hann hefur einhvern veginn alltaf eitthvað gott að segja þegar hann er til viðtals í fjölmiðlum.

Hefur alltaf eitthvað gott að segja, segi ég. Það eru miklir harmleikir sem hann hefur fengist við gegnum áratugina, en það er eins og ég segi, hann hefur mitt í öllum harminum eitthvað gott að segja. Hann kemur oft í viðtöl þegar stórsafnanir standa yfir vegna náttúruhamfara og fátæktar og Jan Eliasson, sem hefur augum litið svo voðalega mikla eymd, hefur alltaf eitthvað gott fram að færa. Þegar hann tók við sem utanríkisráðherra í stjórn Socialdemokrata seint á kjörtímabili, þá klappaði allt ráðuneytið fyrir honum og fólk virtist gleðjast mikið yfir þeim nýja verkstjórnanda sem þá gekk inn í húsnæði ráðuneytisins. Já, ég er stoltur yfir þessum manni sem er einu ári eldri en ég.

Þetta fékk mig til að hugsa til manns sem að hluta hefur hefur unnið við sömu störf og Jan Eliasson, það er að segja við hjálparstörf. Sá maður heitir Karl-Axel Elmquist. Hann skrifaði eftirfarandi Texta.

Ég hef ferðast mikið um aðra hluta heimsins.
Hitt fólk í stríði. Fólk sem sveltir.
Manneskjur sem eru pyntaðar. Manneskjur sem hafa flúið að heiman.
Það er erfitt, sérstaklega þar sem ég hef það svo gott heima í Svíþjóð.
Mér finnst það óréttlátt.
Á hótelherberginu mínu legg ég mig oft
endilangur á magann á rúmið.
Hugsa um konu mína og börn
og um þá sem ég hef hitt þann daginn.
Mér þykir það svo rangt. Ég skil ekki Guð.
Ég er glaður yfir börnunum mínum og vinunum heima.
En ég verð miður mín þegar ég hugsa um flóttafólkið sem ég hef hitt.
Ég kreppi hnefana. Gleði og sorg blandast.
Einmitt þá verð ég að "hitta" Guð minn.
Ég kem ekki til með að skilja hann. Ég fæ nú ekkert svar.
Samt verð ég að finna að hann er nálægur.
Að ég samt sem áður verð að fá að trúa á hann. Þegja með honum.
Liggja endilangur á maganum. Á rúminu.
Stundum á gólfinu.
Þá legg ég sjálfan mig í hendur hans.
Þá finnst mér að hann taki í hönd mína og reisi mig upp.
Svo segir hann:"Þú skilur ekki. Stríddu samt alltaf móti öllu vondu sem þú sérð.
Ekki tapa kjarkinum. Ég finnst jú þrátt fyrir allt."

*

Í gær las ég ótrúlega fallega frásögn konu sem varð veik snemma á meðgöngutíma og fæddi barnið löngu fyrir tímann. Barnið lifir og hún var svo þakklát fyrir þá hjálp sem hún hafði fengið á þriggja mánaða tímabili. Hún hvatti fólk til að safna fjármunum svo hægt yrði að bæta aðstöðu þeirra sem lenda í slíkum erfiðleikum. Í fyrradag las ég fallega grein ungrar konu um það hvernig frásögnin hans Eiríks Inga hefði breytt lífsviðhorfi hennar.

Í staðinn fyrir að segja frá litla drengnum sem bjargaðist úr klettasprungu og að hann Jan Eliasson hefði verið ráðin sem hægri hönd framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, þá hefði ég getað sagt fréttir um ósætti, morð, slys og ófarir.

Ps. Eitt sinn heyrði ég nítján ára gamla konu segja að flest fólk væri trúað. Hins vega skammaðist fólk sín svo mikið fyrir það, að það gæti ekki viðurkennt það. Það er svo oft klókt unga fólkið þegar það kemur að sársaukamörkum í lífi sínu. Svo var það með þessa konu.

Nálastungudagurinn 2. mars 2012

Það er hundlágt á  mér risið núna. Eftir fjöldan allan af nálum hingað og þangað um líkamann nokkru eftir hádegi í dag get ég ekki sagt að ég sé allur á nálum þetta kvöld. Ég hef bara áhuga á einu og það er að leggja mig undir ullarfeldinn og fara að sofa. Ég sé þetta sem svo að töfrakonan sem við Valdís heimsóttum í Vingåker í dag hafi gert eitthvað mikilvægt fyrir mig með kunnáttu sinni. Hún er hversu hversdagsleg sem helst þessi kona en hún býr nú greinilega yfir einhverju skal ég segja ykkur.

Ég ætlaði að horfa á sjónvarp og slappa þannig vel af en í fyrsta lagi sofnaði ég og í öðru lagi fannst mér sem ég yrði fljótt mettur af dagskránni. Kannski er það bara hroki í mér að segja það en það verður þá bara að hafa það. Ég heyri að Valdís er farin að horfa á þátt með Skavlan og ég sé hann fyrir mér skrúfa sig til í stólnum og þar kom hrokinn upp í mér aftur. Ég vona bara að hrokinn sé ekki svo mikill að Óli vinur minn Lokbrá neiti að vera nálægur þegar ég legg mig á koddann.

Það skemmtilegasta sem ég upplifi á þessun augnabliki er hugsunin um það hversu nýr maður ég verði þegar ég vakna í fyrramálið eftir nálastungumeðferð og djúpan, læknandi svefn. Ekki það að mér finnst ég vera hinn hraustasti maður miðað við aldur, en hver veit; kannski verð ég ennþá léttari á fæti í fyrramálið. Og kannski leika orðin þá við hvern sinn fingur í huga mér og bloggsíðurnar fyllast hver af annarri. Valdís þurfti á nálastungunum að halda en ég fyrir mitt leyti tók þetta sem viðhaldsatriði svipað og þegar maður lætur yfirfara og smyrja bílinn sinn án þess þó að hann sé bilaður.

Þetta blogg er eiginlega sjálfskönnun. Það getur vel verið að mér finnist það óttalega vitlaust við yfirlestur á morgun. Við sjáum til. Ég kemst ekki að því nema gera tilraunina.

Andi kyrrðar

Í morgun var Valdís á kóræfingu í Fjugesta en ég tók að vanda ruslakassana með og fór á litlu endurvinnslustöðina. Dagblöð í einum kassanum, plastumbúðir í einum, pappaumbúðir í einum og samansafn í einum. Betur er ekki hægt að gera nema þá aðeins með því að láta sem minnstar umbúðir koma inn á heimilið. Það eru orðin mörg árin síðan fólk fór með tómu mjólkurflöskurnar með víða stútnum í mjólkurbúðina og skilaði þeim og fékk mjólk á nýjum flöskum. Eða þá að það var farið með mjólkurbrúsann og svo mældi búðarfólkið í lítratali í brúsana.

Alveg rétt, svo var ég líka mjólkurpóstur árið 1956. Það var á Síðunni vestan við Klaustur, við Fjaðrá hjá Holti, þar sem við unnum við að byggja brú yfir ána. Ég var sendur að Hunkubökkum á hverjum morgni ef ég man rétt og þetta var all nokkur gönguferð og mikið á fótinn því að þá var bærinn langt upp í brekkunni fyrir ofan núverandi bæjarstæði. Svo fékk ég mjólk og kökur hjá henni Ragnheiði frænku minni og Herði bónda og svo spjölluðum við saman um stund, stundum all lengi. Svo tók ég áfylltan mjólkurbrúsann og lagði af stað að Fjaðrá og þá hallaði undan fæti.

Valmundur brúarsmiður og verktaki talaði eitthvað um að ég væri stundum lengi í mjólkurferðunum en mér var nokkuð sama. Mér fannst gaman að tala við Hunkubakkahjónin þó að ég væri bara 14 ára stráklingur og svo fannst mér líka að ég mokaði svo mikilli möl í hrærivélina að mér væri þetta leifilegt. Við vorum þrír um að moka í vélina þegar steypt var og við mokuðum fyrst í hjólbörur til að mæla malarmagnið. Svo sturtaði ég úr hjólbörunum í hrærivélarskúffuna.

Hundmjór var ég og slánalegur og ekki sterkur. Svo kom Valmundur og sagði mér að ég yrði að moka meiru en hinir mokstursmennirnir því að þeir væru svo gamlir. Svo reyndi ég að gera það og dreymdi allan tímann um matar- og kaffitíma og borðaði alveg gríðarlega mikið loksins þegar Bjarni Bárðar flautaði í mat og kaffi. Svo horfði ég af mikilli öfund á strákana sem voru þremur og fjórum árum eldri en ég, en þeir fengu að aka tilbúinni steypunni í hjólbörum og sturta í mótin. Þar er þessi steypa enn þann dag í dag. Svitadroparnir sem láku af mér eru hins vegar löngu gufaðir upp. Þessir hjólbörustrákar urðu síðar prestar, bændur og aðstoðarmenn ráðherra svo eitthvað sé nefnt.

Nú held ég að það sé alveg ljóst að ég hafi ekið útaf veginum því að ég ætlaði alls ekki að fara að skrifa um eitthvað sem skeði á miðri síðustu öld. En nú er það bara búið og það bara kom alveg af sjálfu sér svona eins og þegar menn keyra útaf veginum því að ekki stendur það til, það bara skeður. Ég veit varla hvað ég ætlaði að skrifa, það gleymdist í þessari brúarvinnu og ég held að það hafi gufað upp með svitadropunum.

Ég veit hins vegar að á morgun ætlum við Valdís að skreppa til Vingåker og hitta töfrakonuna. Hún ætlar að nudda okkur og setja í okkur einhvern helling af nálum. Síðan fáum við okkur væntanlega kaffi og og eitthvað hollt með því á Vingåkerskaffi og svo höldum við heim eins og nýjar manneskjur. Þá verðum við líka komin svo nálætgt Vornesi að ég skrepp þangað meðan Valdís liggur á bekknum hjá töfrakonunni, lítandi út eins og broddgöltur með nálar standandi út í allar áttir. Ég þarf að skila tímum sem ég vann síðasta mánuð til hennar Lenu á skrifstofunni. Ég fær ekki útborgað þann 27. ef ég skila ekki af mér tímunum. Svo þegar ég kem til baka frá Vornesi verður meðferðinni á Valdísi væntanlega lokið og þá verður það mitt að komast í hlutverk broddgaltarins.

Nú er kominn tími fyrir mig að leggjast á koddann. Ég heyri að Óli Lokbrá er mættur hjá konunni sem sefur í hinum helmingnum af rúminu. Ég finn fyrir pínulítilli afbrýðissemi þegar ég heyri þetta en ég veit að hann kemur til mín líka þegar ég er kominn í rétta stellingu. Síðan við komum heim frá Fjugesta um hádegisbil hefur andi kyrrðar ríkt á heimilinu og kyrrðin mun einnig ríkja í félagsskapnum með Óla.
RSS 2.0