Verkefni dagsins þann 17. mars 2012

Ég var þreyttur í gærkvöldi þegar ég skrifaði eftirfarandi og svo fannst mér það svo mikið bull að ég lagði það til hliðar. Þegar ég vaknaði úthvíldur í morgun eftir átta tíma svefn sá ég að það var ekki meira bull en svo margt annað sem ég hef birt á blogginu mínu að ég læt það flakka út á netið.

Það var mikilvægt verkefni sem ég hafði skrifað á þennan dag fyrir nokkru og nú er því lokið, mér og okkur báðum til mikillar ánægju. Við borgum ekki holræsagjald enda eigum við frárennsliskerfið sjálf. Það er löglegt vel úr garði gert eins og það mesta á okkar bæ. En þannig er að þegar frárennsli frá klósetti, sturtu, handlaug, vaski og fleiru er búið að fara í gegnum brunninn, pipe-live síurnar og sandsíuna, þá er rúmlega 100 metra langur skurður út í skógi sem tekur við vatninu sem kemur frá þessu kerfi. Stundum verður ekki séð að neitt vatn komi frá því og stundum kemur það nánast í dropatali. Hinu skilar sandsían beint út í jarðveginn eins og lög gera ráð fyrir.

Þar sem lauftré eru báðu megin skurðarins safnast mikið af laufi í hann á haustin. Þetta lauf verður að hreinsa árlega ef vel á að vera. Það hef ég líka gert utan að í fyrra fannst mér sem ég mætti ekki vera að því. Það var því sérstaklega mikilvægt að koma því í verk núna og mjög mikilvægt að gera það áður en froskarnir kæmu á kreik og settust að í skurðinum. Það er svo leiðinlegt að reka þá í gegn með garðhrífunni og þeir hreinlega öskra ef það skeður. Svo eru þeir gengnir yfir móðuna miklu.

Ég byrjaði daginn seint. Við höfðum langan morgunverð og svo las ég blöðin og horfði á fréttir í sjónvarpi. Við fylgdumst með mönnunum sem unnu að björgunarstörfum í erfiðasta fjalllendi í allri Svíþjóð. Ég verð að segja að ég ber stóra virðingu fyrir þeim hvort sem þeir eru Svíar eða Norðmenn. En alla vega; út fór ég um hádegisbil, vel búinn og stígvélaður og með garðhrífu, stunguspaða og greinatöng að vopni. Svo kom Valdís út í dyrnar og spurði hvort hún gæti hjálpað. Þetta er skítverk í meira en ökladjúpri leðju af rotnandi laufi og mér datt ekki í hug að blanda henni inn í það.

Ég sagði skítverk, en þegar ég var byrjaður var það ekki verra verk en svo marg annað. Fimm tíma var ég að komast eftir endilöngum skurðinum og þegar ég var að nálgast staðinn þar sem rörið frá sandsíunni okkar kemur í skurðinn fór ég að finna pönnukökulykt. Það kom mér ekki alveg á óvart, en þó eru ekki pönnukökur ekki neitt daglegt brauð hér á Sólvöllum. Pönnukökur tilheyra þeim dögum þegar eitthvað alveg sérstakt er unnið. Skítverkið í skurðinum er líka alveg sérstakt verk. Þannig er það bara.

Svo skrítið var það að þegar þetta var búið, fötin öll komin í þvottavélina og ég kominn úr sturtunni, þá leit ég út í skóg og fannst sem skógurinn væri mikið þrifalegri en hann var í morgun áður en ég byrjaði. Svo mikil sálræn áhrif hafði það að ljúka þessu. Nú er mér forðað frá því í heilt ár frá og með í dag. Svona nokkuð fylgir því að búa í frjálsræðinu út í sveit. Svona nokkuð eykur líka lífsgæði og heldur ellilífeyrisþeganum í betra formi.

Þannig er það bara.


*


Frá Aftonbladet í gær. Menn á leið upp á Kebnekaise. Það er betra að vera ekki mikið reikullk í spori þarna á rindanum og svo er bara að signa sig og vona að það falli ekki snjóflóð undan fótum manna meðan þeir eru þarna. Þessi atburður minnti mig á Geysisslysið árið 1950. Það var mikið afrek sem menn unnu við það björgunarstarf með tækni þess tíma. Og það var mikið afrek þegar hann Þorsteinn Svanlaugsson, í þeim leiðangri, gekk einn til baka að flakinu aftur og var þá aleinn í tunglsljósi næturinnar, tugi kílómetra frá öllum lifandi verum -lengst inn á hálf endalausum Vatnajökli.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0