Á gömlum slóðum í Falun, Svärdsjö og Svartnes

Min bernskuspor í Svíþjóð voru stigin upp í Dölum og ég þreytist aldrei á að geta þess að ég hef saknað Dalanna alla tíð síðan við Valdís fluttum þaðan árið 1997. En þannig er það bara og verður ekki aftur tekið, en Dalirnir finnas ætíð fyrir mig að heimsækja þó að ég geri það ekki nógu oft. Ég var á þessum slóðum nú síðustu daga og ég ætla að fara í gegnum það sem við Susanne gerðum þar þriðjudaginn 1. september.
 
 
Við fórum þokkalega tímanlega heiman að frá honum Uno sem býr bókstaflega mitt í skóginum utan við Borlänge sem er skammt sunnan við Falun. Uno kom að sjálfsögðu með okkur.
 
 
 
Sem fyrsti áfangi var skíastökkpallurinn í Falun sem er mikið mannvirki og getur gengt fleiru en að vera skíðastökkpallur. Þaðan er einnig mikið útsýni yfir Falun og stórt svæði þar í kring. Hér sjáum við á að giska til suðurs.
 
 
Og hér meira mót suðaustri.
 
 
 
Hér sjáum við yfir vatnið Runn með öllum sínum eyjum og annesjum, allt skógi vaxið og erfitt að ná góðri mynd af.
 
 
 
Frá Falun héldum við upp til Svärdsjö og á myndinni stend ég framan við gamla bústaðinn okkar Valdísar.
 
 
 
Hér stöndum við Uno á tröppunum við sóknarhúsið sem stendur örstutt frá Svärdsjökirkju. Þar voru AA fundirnir haldnir á árum áður og eru kannski enn í dag.
 
 
 
Upp í Svartnesi tók ég fyrstu myndina af gamla kaupfélagshúsinu þar sem engin verslun er rekin lengur. Ekki veit ég til hvers þetta hús er notað í dag, en eitt er víst; því er afar vel við haldið.
 
 
 
Kirkjan í Svartnesi.
 
 
 
Húsið í Svartnesi sem alla vega við Íslendingarnir kölluðum Stóra. Í þessu húsi svaf ég nokkrar vikur og þar var gott að vera utan að þegar timburbílarnir fóru þar um snemma á morgnana, þá var erfitt að sofa.
 
 
 
Við sóttum heim gamla vinnustaðinn minn þar sem meðferðarheimilið Saga Svartnes var til húsa þar til fyrir tæplega tuttugu árum. Margt er þar svipað og annað gerbreytt, en það er alla vega létt að þekkja sig á staðnum. Stóllinn sem nú stendur innan við gamla aðalinnganginn í dag var þar ekki áður, en mér þótti gaman að setjast þar og fá mynd af mér.
 
Í mörg ár var reynt að nota þessi húsakynni í Svartnesi fyrir allt mögulegt. Ég á auðvelt að minnast enn í dag dagsins þegar við Gísli Stefánsson ókum heim þaðan 16. júní 1996 eftir síðasta vinnudaginn okkar þar. Það var sorgardagur og að góðu meðferðarheimili var lokað var svo sannarlega sorglegt. Ég hef komið þangað í all nokkur skipti síðan meðferðarheimilinu var lokað og alltaf fundið fyrir þessari sorg. Ég kom þangað fyrir tveimur árum og viti menn; Svartnes hafði fengið nýtt hlutverk. Og þegar við komum þangað núna hafði þetta hlutverk haldið áfram að þróast fram á við. IOGT rekur þar starfssemi sem miðar að því að hjálpa fólki sem kerfið á erfitt með að finna stað. Það er að segja fólk sem hefur hafnað á milli stólanna. Þetta fólk fær að búa í Svartnesi við mannsæmandi skilyrði þar til farvegur er fundinn fyrir það. Því finnst mér í dag að Svartnes sinni á ný göfugu hlutverki.
 
 
 
Ég kem aldrei í Svartnes án þess að heimsækja mann sem ég ber mikla virðingu fyrir. Hann heitir Asbjörn. Þarna stendur hann fyrir miðri mynd og ræðir við samferðafólkið mitt.
 
 
 
Asbjörn er 91 árs gamall. Hann hefur lífsglampa í augunum og er góður viðræðu. Á stríðsárunum barðist hann sem ungur maður móti Þjóðverjum. Sá dagur kom sem hann hafði komist í svo mikla ónáð hjá þjóðverjum að það var einungis eitt fyrir hann að gera ef hann vildi halda lífi; að flýja yfir Kjöl til Svíþjóðar eins og margir Norðmenn neyddust til að gera. Asbjörn kom til Svartnes þar sem honum var vel tekið og hann fór aldrei heim til Noregs aftur. En ann telur sig samt Norðnmann og Norðmaður vill hann vera.
 
 
 
Þetta skilti er við útidyrnar hjá Asbjörn. Í Svartnesi hitti hann Ingrid og þau urðu ástfangin. Ingrid dó fyrir all nokkrum árum en Asbjörn býr ennþá í húsinu sem þau byggðu og heldur öllu í góðu standi. Komdu inn, sagði hann, en þegar hann vissi að við værum þrjú saman dreif hann sig í skóna og kom út og talaði við okkur dágóða stund, beinn í baki og glaður í lund. Haltu áfram að koma við hjá mér þegar þú ert á ferð sagði hann við mig þegar við kvöddum hann. Það ætla ég að gera. Ég ber mikla virðingu fyrir þessum manni.
 
Eftir heimsóknina til Asbjörn héldum við heim á leið til Uno. Á leiðinni heim sagði hann að það hefði þurft að koma Íslendingur til að sýna sér hluti sem hann hefði aldrei séð áður.
RSS 2.0