Lúmska Covid

Ég veit ekki nákvæmlega hvernær það byrjaði að vera alveg sjálfsagt að fara varlega vegna kóróna veikinnar, en ég geri ráð fyrir einhvern tíma í febrúar 2020. Einhvern tíma nálægt mánaðamótunum mars-apríl birtust æðstu menn heilsugæslu landsins á skjánum og alls ekki í fyrsta skipti. Þeir töluðu mjög alvarlega til þjóðarinnar um þá vá sem nú væri orðin rammasta alvara -Covid-19.
 
Það sem snerti mig í fyrsta lagi var að fólk yfir sjötugu átti hreinlega að "halda sig heima" og kannski síst af öllu að láta sjá sig í matvöruverslunum. Fólki var bent á að panta mat og sækja síðan eða láta koma með heim. Við Susanne pöntuðum þegar í stað en nú var svo mikil aðsókn í þetta að við þurftum að bíða í fjóra eða fimm daga.
 
Sannleikurinn var sá að það vantaði hreinlega í matinn hjá okkur og það bara urðum við að leysa. Ég sagði henni að að ég mundi fara eldsnemma morguninn eftir í kaupfélagið í Fjugesta og kaupa í matinn sem dygði þar til við mundum sækja pöntunina  og svo gerði ég.
 
Þegar ég kom í kaupfélagið var allt öðru vísi umhorfs þar en ég átti von á. Um verslunina rásuðu ungir menn, menn sem eiginlega litu ekki eins út eins og ungir menn byggðalagsins og virtust einna helst vera að kaupa eitthvað með morgunverðinum. Þeir komu beint á móti, rákust gjarnan í öxl mér og voru hreinlega óþægilegir. Ég flýtti mér að kaupa sem allra minnst, snaraðist út og hélt heim á leið með lélega samvisku.
 
 
 
Um þetta leyti blésu um koll tvö all stór grenitré í skóginum hjá mér. Það er óhirða að taka ekki höndum um tré þegar svona kemur fyrir. Ég fór með keðjusögina út í skóg og hreinsaði greinar af rtjánum og brytjaði þau niður í lengdir. Daginn eftir skyldi ég sækja þau.
 
Daginn eftir fór ég út í skóg með hjólbörurnar, fyllti þær vel og hélt heim á leið. Nokkru áður en ég kom til baka að viðargeymslunni var ég orðinn mjög móður og þegar ég kom á leiðarenda stóð ég bara á öndinni. Þetta var EKKI líkt mér, ég þekkti mig ekki. Mér varð hugsað að ég væri orðinn of gamall fyrir svona en var samt hissa á því hvað það hefði þá borið snöggt að. Ég velti einnig fyrir mér hjartaáfalli.
 
Ég yfirgaf hjólbörurnar, ég held án þess að tæma þær, gekk inn og sagði Susanne að ég ætlaði að leggja mig, ég væri orðinn of gamall fyrir svona átök. Ég gekk inn að rúminu og lagði mig, athugaði hvort ég hefði hita og hugsaði að ég hefði hvorki hósta eða höfuðverk og þetta þrennt var talið merki um Covid-19. Ég hafði ekkert þeirra.
 
Svo man ég ekkert meira þennan dag og næstu dagar á eftir eru fyrir mér eins og þeir hafi aldrei verið til. Eftir á að hyggja fannst mér sem það hefði verið fólk hér í heimsókn þegar ég kom inn og sagðist ætla að leggja mig en svo var ekki. Við Susanne munum alls ekki hvað okkur fór á milli um þetta og erum heldur ekki alveg viss hvort hún var heima en teljum þó að svo hafi verið, en engir gestir alla vega. Þessar vikurnar var hún að vinna í Kareineholm þar sem hún á íbúð en var heima alltaf öðru hvoru.
 
Að þetta væri kóróna fannst mér sem fráleitt þar til frá leið. Ég taldi mig bara hafa ofkeyrt mig. En grunsemdirnar læddust að mér smám saman og þegar ég hafði möguleika að taka próf síðastliðið haust lét ég athuga það. Konan sem tók prófið kallaði mig upp um tíu mínútum seinna og tilkynnti mér að ég væri með mótefni gegn kóróna en hefði einfaldlega haft heppnina mé mér. Mótefnið var farð að veikjast.
 
Ég hef kannski enga ástæðu til að segja frá þessu yfir höfuð en geri það samt. Eftir að ég fékk að vita um mótefnið fór ég nokkurn veginn jafn varlega og áður. Þetta virtist svo rosalega alvarlegt. Ég var mikið einn heima um þær mundir sem atvikið með hjólbörurnar átti sér stað og þar að auki leyndi því mjög vel að ekki væri allt í lagi, eða öllu heldur -vissi það ekki. Kórónan á sér margar lúmskar hliðar.
 
Viðurinn komst í hús að lokum og smiðurinn Anders sem svo oft hefur unnið hjá mér fékk þannan við til upphitunar heima hjá sér.
 
Ég ætla að láta bólusetja mig, tel að það sé betri kostur af tveimur þó að mér sé ekkert vel við það.
RSS 2.0