Haust

Fyrstu tvö árin okkar í Örebro, það er að segja 1997 til 1999, bjuggum við í bæjarhluta sem heitir Brickebacken. Í Brickebacken býr mikið af fólki langt sunnan úr álfu og reyndar frá öðrum álfum líka. Sem sagt mikið af útlendingum. Okkur Valdísi fannst stundum sem það væri full mikið af þeim þar sem við sáum okkur eiginlega ekki sem raunverulega útlendinga. Líklega var það svolítið hrokafullt. En hvað sem útlendingum líður þá er Brickebacken mjög grænn og á vorin er þar mikið blómahaf á margs konar blómstrandi runnum og trjám, svo mikið að ég held að enginn annar bæjarhluti í Örebro jafnist að því leyti á við Brickebacken
 
Umhverfis þennan bæjarhluta liggur líka afar skemmtileg gönguleið í gömlum skógi með burknum, klöppum og ýmsum skemmtilegheitum. Á árum okkar þarna gekk ég þessa leið mjög oft og raunar mjög oft eftir að við fluttum þaðan. Á þessum tíma gat ég orðið svo slæmur í vinstri mjöðminni að það kom fyrir að mér fannst sem ég ætlaði ekki að komast til baka heim. Í einni slíkri ferð þegar ég bara varð að setjast niður og hvíla mig dró ég mig að bekk sem ég vissi um, og þar fékk ég mér mjög þráð sæti.
 
Umhverfis þennan bekk var og er mikið burknahaf og í þetta skipti var farið að líða að hausti. Burknarnir voru farnir að gulna mjög og þar sem ég sat þarna á bekknum og reyndi að safna kröftum til að komast heim, horfði ég á burknana og hugleiddi nálægð haustsins. Ég man svo vel að það flaug gegnum huga minn að líf mitt væri líka komið að hausti eins og mér leið þarna. Ég fylltist trega og fannst sem ég sæti þarna mitt á meðal félaga minna og að leið okkar væri sameiginleg.
 
Eftir þetta haust og fylgjandi vetur kom vor á ný. Bæði ég og burnknarnir tókum þátt í þeirri vorkomu og smám saman breyttist þetta með mjöðmina og ég fékk ekki lengur þessi vondu tilfelli en samt var ekki um neinn bata að ræða. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að ég minnist þessarar stundar á bekknum í Brickebacken hvert einasta haust þegar litirnir fara að breytast og burknarnir hér út í skógi verða gulbrúnir. Og þegar útlitið er orðið eins og á meðfylgjandi myndum velti ég því líka fyrir mér hvort ég hafi tekið þátt í sumrinu eins og mér bar að gera. Sú hugsun snertir mig hvert einasta haust.
 
 
 
 Þessar eikur tóku alveg örugglega þátt í sumrinu eins og þeim bar að gera. Hvers vegna önnur er komin með haustliti en hin ekki hefur væntanlega ekkert með það að gera. Ég var að lesa mig til um mismun á eikum en vil þó ekki láta ljós mitt skína í því sambandi. Svolítið eru blöðin ólík milli þessara trjáa, en enn meiri munur er á greinabyggingunni eins og auðvelt er að sjá á myndinni. En það sem þessar eikur eiga mjög sameiginlegt er að margir reyniviðir voru búnir að gera þeim lífið leitt í fjölda ára. Þegar við felldum þessa reyniviði fyrir sjö árum stóðu eftir tveir sárir einstaklingar. Sú til vinstri hafði meðal annars mitti þar sem krónan er mjóst núna. Núna eru þær báðar á leiðinni að verða voldug tré með hvelfdar krónur. Það er mikill áburður djúpt niður í jörð þar sem þær standa og þær munu vaxa vel á komandi árum ef þeim verður ekki illt af þessum næringarríka jarðvegi. Og svo eitt við þessa mynd; rabbarbarabeðið hennar Valdísar er nær okkur fyrir miðri mynd. Loksins tókst okkur að velja rabbafrbaranum góðan stað.
 
 
 
 Þær vita það ekki bjarkirnar tvær sem eru með nakta stofna upp eftir öllu heldur til hægri á myndinni að dagar þeirra eru senn taldir. Fleiri tré þarna eru komin á þennan biðlista. Ung tré með fallegar krónur eru nú tilbúin að taka við af þeim. Það eru bjarkir, beyki, eikur, hlynir og fleiri tré sem við höfum hlúð að og beykið gróðursettum við sjálf. Það felst ekki allt í hæðinni. Ung tré með fallegar krónur er mikið eðlilegri framtíð. Lengra út í skóginum getum við látið náttúruna hafa sinn gang. Það grillir í bláberjabekkinn milli þessarra tveggja bjarka. Hálfgerð felumynd.
 
 
 
Snúran er sjálfri sér lík hvort heldur það er vetur, sumar, vor eða haust utan það að á veturna getur hún verið hrímuð eða hlaðin snjó. Svo getur það verið horfið um miðjan dag og snúran verður aftur eins og hún hefur alltaf verið. Það er augljóslega haust á þessari mynd, sérstaklega hægra megin á myndinni þar sem lauffallið er um garð gengið. Ég var á flakki með myndavélina í gær og reyndi að fanga haustlitina. Hér er árangurinn sem þó stóð eiginlega ekki undir væntingum. Haustmyndirnar verða betri árið sem við verðum 75 ára. Þá verða ungu trén búin að taka yfir með sínar ósködduðu, hvelfdu krónur. Ég held bara að ég sé farinn að hugsa til næsta sumars.

Söfnun fyrir Börn heimsins

 Världens barn - Börn heimsins. Það eru búnir að vera söfnunardagar fyrir Börn heimsins undanfarið hér í landi og í gærkvöldi var mikið söfnunarátak í sjónvarpi. Kirkjan í Fjugesta vildi ekki láta sitt eftir liggja og efndi til kaffisamsætis með meiru í dag. Hafðu það gott kórinn hennar Vasldísar söng til að lífga upp á fólkið og gera það örlátara við söfnunarkörfuna. Sama var gert í fyrra og þá skrifaði ég eftirfarandi. Ég læt það flakka aftur.
 
 

15. október 2011.
Þegar ég leit inn í samkomusalinn sá ég mikið af rosknu fólki sem gæddi sér á kræsingum af kökuhlaðborði. Þetta kom mér á óvart enda er ekki svo algengt að Svíar bjóði upp á kökuhlaðborð. Ég gekk inn að borðinu og virti fyrir mér kræsingarnar. Þar sem ég er nú einn af Kálfafellsbræðrum leist mér hreint alveg rosalega vel á brúnu, vænu súkkulaðiterturnar og líka bláberjapæið sem var við hliðina á könnunni með vanillusósunni. Ég stakk hundraðkalli í tágakörfuna á borðinu, en þarna var verið að safna fyrir fátækt fólk í Afríku. Världens barn.

Meðan ég var að borða af fyrri kökudiskinum var kynntur maður úr sveitinni utan við Fjugesta, en hann hafði unnið við hjálparstörf niður í fátækustu Afríku. Það kom fram að þessi maður var aldraður læknir og hann sýndi fjöldan allan af skyggnum frá starfinu þar. Hann sýndi bæði börn og fullorðna sem höfðu skaðast á augum og mörg andlitin litu vægast sagt alvarlega út. Hann sýndi augnaðgerðir út í guðsgrænni náttúrunni, jafnvel á matarborði eins og Esra læknir notaði á Kálfafelli þegar hann fjarlægði af mér litlafingurinn fyrir meira en sextíu árum. Það sem þessi maður sýndi var svo rosalega alvarlegt að ég var kominn á fremsta hlunn með að byrja að gráta. Ég man ekki hvort það var fimmta eða sjötta hver kona sem fæðir barn sem deyr af barnsförum þarna. Það var að vísu ekki litið svo alverlegum augum vegna þess að það voru konur sem dóu. Það fyllti mælinn endanlega.

Og þarna sat ég og borðaði súkkulaðitertur. Ég fann að ég var byrjaður að svitna af sykrinum, en áður en læknirinn kom að þessu síðasta og svo hrikalega alvarlega, var ég búinn að sækja á annan kökudisk. Um það leyti sem ég var farinn að finna sykur- og súkkulaðibragðið með allri húðinni lauk þessi góðlátlegi læknir máli sínu, læknir sem hefur mótast af að vinna við hjálparstörf niður í fátækustu Afríku. Þá var það kynnt að "Hafa það gott kórinn" í Fjugesta ætlaði að syngja nokkur lög.

Kórinn stillti sér upp og þarna í miðjum kórnum stóð kona ein brosandi og ánægð. Það var fiskimannsdóttirin frá Hrísey sem var svo kvíðin þegar við lögðum af stað frá Sólvöllum til Fjugesta einum klukkutíma fyrr. Ég sá vel að kvíðinn var runninn út í sandinn og eftir var kona sem var laus við hömlur og tók lifandi þátt í söngnum. Kórstjórinn og stofnandi kórsins er góðmenni sem býr eina 300 metra hér norðan við okkur, en við þekkjum hann ekkert sem nágranna. Hann fer bara hér framhjá öðru hvoru á bláa Renó sendiferðabílnum sínum og hann á stóran hund.

Ég verð að nefna mann einn sem stóð næstum lengst fram til hægri í kórnum. Hann er ellilífeyrisþegi kominn vel á níræðis aldur, einir tveir metrar á hæð, breiður yfir herðarnar, vöðvamikill og dálitið þykkur undir belti. Mjög sterkan bassa hefur þessi maður og þegar hann beitir bassanum getur maður svo sannarlega sagt að salurinn fyllist af rödd hans. Síðasta lagði sem þau sungu var "Rússnesk vísa", sett saman af fjórum eða fimm vísum. "Hej!" var sungið kröftuglega undir lok hverrar vísu. Þá varð þessi stóri maður svo svifléttur þar sem hann hreinlega dansaði og það var sem einungis tærnar snertu gólfið fislétt. Söngur getur greinilega gert kraftaverk. Ég sá það bæði á konunni minni og bassamanninum mikla. Þar sem þessi stund í safnaðarheimilinu í Fjugesta spilaði á tilfinningar mínar kom ég aftur við hjá tágakörfunni á tertuborðinu. Ég setti í hana peninga sem eiga að geta gefið fleiri en einni móður sem fæðir barn niður í fátækustu Afríku hreint vatn til að þvo sér upp úr. Þar með eiga þær meiri möguleika á að halda lífi.
 
 Þannig leit það út í fyrra og það var svipað í dag. Bassamaðurinn mikli var þó ekki með þar sem hann var að syngja með öðrum kór inn í Örebro. Valdís virtist ekki kvíðinn á leiðinni og ekkert erindi var haldið sem kom í stað erindis læknisins í fyrra. Ég hafði þó vænst þess. Kökurnar voru hins vegar góðar, mjög góðar, þó að það væri ekki eins mikið af vænum brúnum tertum sem Kálfafellsbróðir er svo hrifinn af. Hér eru nokkrar myndir frá í dag.
 
Þarna er Hafðu það gott kórinn í Fjugesta styrktur af Hafðu það gott kórnum í Kumla sem er til Vinstri. Myndavélin okkar ræður ekki alveg við þetta en þessa myndatöku en verður að duga.
 
 
 
Svo er ekki hægt annað en láta hann Anders kórstjóra koma með á mynd, en hann leikur þarna á píanóið. Það er mikils virði fyrir byggðalög að svona eldheitir áhugamenn eru tilbúnir til að hjálpa fólki að gera góða hluti.
 
 
 
Íslendingarnir Svanhvít Gróa Ingólfsdóttir og Tryggvi þór Aðalsteinsson. Í horninu lengst í burtu er kona að selja tonnbólumiða. Vinningarnir voru bækur. Ég keypti fjóra miða og fékk þrjá vinninga.
 
 
 
Næst þarna á myndinni er hún Ingibjörg Sik, Ingibjörg Pétursdóttir frá Siglufirði og hægra megin við hana er Leif maður hennar. Kökudiskurinn minn er þarna hjá kaffikönnunni og bókunum.
RSS 2.0