Söfnun fyrir Börn heimsins

 Världens barn - Börn heimsins. Það eru búnir að vera söfnunardagar fyrir Börn heimsins undanfarið hér í landi og í gærkvöldi var mikið söfnunarátak í sjónvarpi. Kirkjan í Fjugesta vildi ekki láta sitt eftir liggja og efndi til kaffisamsætis með meiru í dag. Hafðu það gott kórinn hennar Vasldísar söng til að lífga upp á fólkið og gera það örlátara við söfnunarkörfuna. Sama var gert í fyrra og þá skrifaði ég eftirfarandi. Ég læt það flakka aftur.
 
 

15. október 2011.
Þegar ég leit inn í samkomusalinn sá ég mikið af rosknu fólki sem gæddi sér á kræsingum af kökuhlaðborði. Þetta kom mér á óvart enda er ekki svo algengt að Svíar bjóði upp á kökuhlaðborð. Ég gekk inn að borðinu og virti fyrir mér kræsingarnar. Þar sem ég er nú einn af Kálfafellsbræðrum leist mér hreint alveg rosalega vel á brúnu, vænu súkkulaðiterturnar og líka bláberjapæið sem var við hliðina á könnunni með vanillusósunni. Ég stakk hundraðkalli í tágakörfuna á borðinu, en þarna var verið að safna fyrir fátækt fólk í Afríku. Världens barn.

Meðan ég var að borða af fyrri kökudiskinum var kynntur maður úr sveitinni utan við Fjugesta, en hann hafði unnið við hjálparstörf niður í fátækustu Afríku. Það kom fram að þessi maður var aldraður læknir og hann sýndi fjöldan allan af skyggnum frá starfinu þar. Hann sýndi bæði börn og fullorðna sem höfðu skaðast á augum og mörg andlitin litu vægast sagt alvarlega út. Hann sýndi augnaðgerðir út í guðsgrænni náttúrunni, jafnvel á matarborði eins og Esra læknir notaði á Kálfafelli þegar hann fjarlægði af mér litlafingurinn fyrir meira en sextíu árum. Það sem þessi maður sýndi var svo rosalega alvarlegt að ég var kominn á fremsta hlunn með að byrja að gráta. Ég man ekki hvort það var fimmta eða sjötta hver kona sem fæðir barn sem deyr af barnsförum þarna. Það var að vísu ekki litið svo alverlegum augum vegna þess að það voru konur sem dóu. Það fyllti mælinn endanlega.

Og þarna sat ég og borðaði súkkulaðitertur. Ég fann að ég var byrjaður að svitna af sykrinum, en áður en læknirinn kom að þessu síðasta og svo hrikalega alvarlega, var ég búinn að sækja á annan kökudisk. Um það leyti sem ég var farinn að finna sykur- og súkkulaðibragðið með allri húðinni lauk þessi góðlátlegi læknir máli sínu, læknir sem hefur mótast af að vinna við hjálparstörf niður í fátækustu Afríku. Þá var það kynnt að "Hafa það gott kórinn" í Fjugesta ætlaði að syngja nokkur lög.

Kórinn stillti sér upp og þarna í miðjum kórnum stóð kona ein brosandi og ánægð. Það var fiskimannsdóttirin frá Hrísey sem var svo kvíðin þegar við lögðum af stað frá Sólvöllum til Fjugesta einum klukkutíma fyrr. Ég sá vel að kvíðinn var runninn út í sandinn og eftir var kona sem var laus við hömlur og tók lifandi þátt í söngnum. Kórstjórinn og stofnandi kórsins er góðmenni sem býr eina 300 metra hér norðan við okkur, en við þekkjum hann ekkert sem nágranna. Hann fer bara hér framhjá öðru hvoru á bláa Renó sendiferðabílnum sínum og hann á stóran hund.

Ég verð að nefna mann einn sem stóð næstum lengst fram til hægri í kórnum. Hann er ellilífeyrisþegi kominn vel á níræðis aldur, einir tveir metrar á hæð, breiður yfir herðarnar, vöðvamikill og dálitið þykkur undir belti. Mjög sterkan bassa hefur þessi maður og þegar hann beitir bassanum getur maður svo sannarlega sagt að salurinn fyllist af rödd hans. Síðasta lagði sem þau sungu var "Rússnesk vísa", sett saman af fjórum eða fimm vísum. "Hej!" var sungið kröftuglega undir lok hverrar vísu. Þá varð þessi stóri maður svo svifléttur þar sem hann hreinlega dansaði og það var sem einungis tærnar snertu gólfið fislétt. Söngur getur greinilega gert kraftaverk. Ég sá það bæði á konunni minni og bassamanninum mikla. Þar sem þessi stund í safnaðarheimilinu í Fjugesta spilaði á tilfinningar mínar kom ég aftur við hjá tágakörfunni á tertuborðinu. Ég setti í hana peninga sem eiga að geta gefið fleiri en einni móður sem fæðir barn niður í fátækustu Afríku hreint vatn til að þvo sér upp úr. Þar með eiga þær meiri möguleika á að halda lífi.
 
 Þannig leit það út í fyrra og það var svipað í dag. Bassamaðurinn mikli var þó ekki með þar sem hann var að syngja með öðrum kór inn í Örebro. Valdís virtist ekki kvíðinn á leiðinni og ekkert erindi var haldið sem kom í stað erindis læknisins í fyrra. Ég hafði þó vænst þess. Kökurnar voru hins vegar góðar, mjög góðar, þó að það væri ekki eins mikið af vænum brúnum tertum sem Kálfafellsbróðir er svo hrifinn af. Hér eru nokkrar myndir frá í dag.
 
Þarna er Hafðu það gott kórinn í Fjugesta styrktur af Hafðu það gott kórnum í Kumla sem er til Vinstri. Myndavélin okkar ræður ekki alveg við þetta en þessa myndatöku en verður að duga.
 
 
 
Svo er ekki hægt annað en láta hann Anders kórstjóra koma með á mynd, en hann leikur þarna á píanóið. Það er mikils virði fyrir byggðalög að svona eldheitir áhugamenn eru tilbúnir til að hjálpa fólki að gera góða hluti.
 
 
 
Íslendingarnir Svanhvít Gróa Ingólfsdóttir og Tryggvi þór Aðalsteinsson. Í horninu lengst í burtu er kona að selja tonnbólumiða. Vinningarnir voru bækur. Ég keypti fjóra miða og fékk þrjá vinninga.
 
 
 
Næst þarna á myndinni er hún Ingibjörg Sik, Ingibjörg Pétursdóttir frá Siglufirði og hægra megin við hana er Leif maður hennar. Kökudiskurinn minn er þarna hjá kaffikönnunni og bókunum.


Kommentarer
Þórlaug

Sæll Guðjón.
Mikið er ég glöð að þú ert byrjaður að blogga aftur, ég er búin að sakna blogganna þinna.

Kærar kveðjur til Valdísar,

Þórlaug

Svar: Góðan daginn Þórlaug.Margt verra er hægt að leggja fyrir sig en að blogga, reyndar er það bara hollt. Nú er sunnudagsmorgun og hafragrautur á næsta leyti og svo sjónvarpsmessa.

Með bestu kveðju til ykkar frá Valdísi og Guðjóni
Gudjon

2012-10-14 @ 01:01:22


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0