Það var bellís sem lýsti upp lífið

Ég kom heim úr vinnu rétt fyrir hádegi í gær, fimmtudag, og taldi mig þokkalega á mig kominn þó að ég hefði ekki sofið meira en tæpa fimm tíma. Það voru líka margir í húsinu og það voru óvenju margir ónógir sjálfum sér kvöldið áður þannig að það var mörgu að sinna. Ég var ánægður með sjálfan mig fyrir að vera svo hress, ég segi ekki montinn, en vel ánægður.

Seinni partinn í gær skiptist veður í lofti og ég varð þreyttur. Í gærkvöldi ætlaði ég því einfaldlega að horfa á sjónvarp og slappa vel af. Ég horfði ekkert á sjónvarp en svaf og hraut sessunaut mínum væntanlega til mátulegrar ánægju. Ég undurbjó mig því einfaldlega fyrir að leggja mig í rúmið en vantaði þó eiginlega burði til þess. Mér tókst þó að ljúka því sæmilega af og þegar ég lagðist á koddann um tíu leytið ákvað ég að láta klukkuna ekki hringja þó að rafvirkinn Patrik ætlaði að koma um hálf áttaleytið að morgni til að ljúka hér nokkrum smáverkefnum. Svo sofnaði ég.

Nokkrum sinnum rumskaði ég í nótt og var ekki nógu ánægður með svefninn. Þegar mér fannst morgun vera að nálgast leit ég á klukkuna og sá þá að koma rafvirkjans nálgaðist óðfluga. Klukkan var að ganga átta. Ég dróst lúinn fram úr rúminu og ákvað að líta í tölvuna og vakna yfir nokkrum fyrirsögnum á RÚV.is og Eyjan áður en ég gerði fleira. Fyrirsagnirnar voru um vitlausar ákvarðanir, ósætti, uppsagnir og vandræði. Ég tók ákvörðun um að steinhætta að opna RÚV.is á morgnana því að það væru bara óþægilegar fréttir að hafa þar. Ég var alls ekki í góðu skapi fann ég og ætlaði að bæta það á annan hátt -vera jákvæður.

Þegar ég var búinn að draga upp um mig sokka og buxur og girða niður skyrtuna sá ég að ég mundi fá svolítinn tíma til að undirbúa komu rafvirkjans því að hann kom greinilega ekki á tilsettum tíma. Ég sagði honum líka í gær að það væri í lagi mín vegna. Svo fór ég út með umbúðir til að setja með öðru rusli á kerruna. Það var hrein veðurblíða en þó ekki bjart yfir. Ég komst ekki hjá því að skynja það þrátt fyrir allt. Svo sneri ég mér frá kerrunni til að ganga til baka og þá skeði það.


Þessi bellis, önnur uppskera þessa árs, blasti við mér þarna í grængresinu og smáranum í hinni sönnu haustblíðu. Hvernig dettur nokkrum manni í hug að eyða deginum í fýlu. Svo lítið blóm, aðeins á stærð við lítið auga, tekur völdin og segir að dagurinn sé góður. Svo verður hann góður.

Patrik kom og eitt og annað smávegis komst í lag og það breytti svo miklu hér heima. Gaman. Patrik var ekki alveg á sömu fleygiferðinni og oft áður, en hann vann verk dagsins af iðjusemi. Með hádegismatnum smakkaði hann á harðfiskinum sem Valgerður færði okkur um daginn og hann alla vega fölnaði ekki, en hann sagði heldur ekki að hann væri sérstaklega góður. Svo fékk hann sér aðra smá flís og svo vann hann klárt það sem fyrir lá að gera.

Lars eldri og Lennart litu við í hinni daglegu gönguferð ellilífeyrisþega byggðarlagsins. Lars var með æxli í höfðinu og hluti af því var fjarlægður á sjúkrahúsi í Uppsala í vor. Hann var aftur orðinn stöðugur á göngu og nánast búinn að eindurheimta jafnvægið. Við Lennart skoðuðum útihurðina sem var svolítið föst í karminum. Hann skrapp þá heim og sótti sérstök áhöld og svo lagfærði hann hurðina. Góður kall Lennart og það er ekki í fyrsta skipti sem hann er okkur hjálplegur. Svo töluðum við um Jämtland og sumarhúsið hans þar. Hann fékk stjörnur í augun að vanda þegar talið berst þangað. Þegar allir voru farnir fórum við Valdís út að anda að okkur veðurblíðunni. Valdís fór að slá og ég fór að bera alls konar greinar í gryfju út í skógi.

Ég sagði í bloggi um daginn að "ég gæti það" en ég væri ekki spenntur fyrir því. Það er að segja að vinna fulla vinnu í fjóra mánuði. Stundum verkar það vera afar mikilvægt sem ég inni af hendi í vinnunni og stundum er það bara mátulega mikilvægt. Það var afar mikilvægt sem ég ann af hendi í fyrradag og í gærmorgun, það sem gerði mig svo þreyttan. En nú er það búið og gert og það eru nýjir dagar framundan. Það er einn ákveðinn dagur sem ég verð að fá fyrir okkur sjálf og fá þá frí í vinnu. Það er síðasti vinnudagurinn af þessum fjórum mánuðum. Það er föstudagurinn 30 desember.

Þann dag erum við Valdís búin að vera gift í 50 ár. Þetta ræddum við í dag og þegar ég var í einni ferðinni út í skóg með fangið fullt af greinum datt mér í hug það sem stendur í Heimsljósi um öldruðu hjóninn á Giljum þegar Ólafur Kárason gekk fram á þann bæ sem hann  vissi ekki að væri til. Þegar við hættum úti tók ég fram Heimsljós og las.

"Þegar bóndinn var spurður hve leingi hann hefði búið, leit hann á konu sína og sagði:
Mamma, hvað eru árin orðin mörg?
Við höfum hokrað hérna í rösk fjörutíu ár pabbi minn, sagði konan.
Þá svaraði bóndinn gestinum og sagði:
Og fjörutíu höfum við bollokað árin."

Og ég gat ekki að mér gert að lesa svolítið meira og þá næstum því í bókarlok og það er sama kona sem þar er talað um.

"Þegar börnin hennar gáfu upp öndina eftir erfitt dauðastríð færði hún þau í hvítan hjúp og slétti úr hverri fellíngu með samskonar umhyggju og hún væri að búa til veislu. Hún grét þegar hún stóð yfir moldum þeirra, síðan fór hún aftur heim til þeirra sem lifðu. Önnur kvaddi hún í túngarðshliðinu þegar þau lögðu á stað útí heiminn. Beinunum af Helgu dóttur hennar skolaði upp á eyri rúmu ári eftir að hún hvarf. Gamla konan gekk sjálf á eyrina og tíndi upp beinin, og það voru önnur lítil bein, hún saumaði utanum þau öll og lagði þau í kistustokk og fylgdi þeim til grafar og gekk síðan aftur heim til að elska þá sem lifðu. Í þessu húsi ríkti elskan. Þannig var mannlífið að eilífu stærst, - brosa með barni sínu þegar það hlær, hugga það þegar það grætur, bera það dáið til moldar, en þerra sjálfur tár sín og brosa á nýaleik og taka öllu eftir röð án þess að spyrja fram eða aftur; vera öllum góður.
Þegar ég lít yfir mína umliðnu ævi, sagði gamla konan, þá finnst mér það hafi allt verið einn langur sólskinsmorgunn."

Hvað segir maður svo. Að sjálfsögðu byrja ég sjálfur að vera hljóður. Ég geri ráð fyrir því að skáldið hafi talað út frá því sem hann vissi að hefði verið líf margra. Lífið er sterkt og heldur áfram þó að oft blási á móti. Þegar ég hugsa til gömlu konunnar hef ég hef haft svo gott líf að ég hef ekki leyfi til að vera í morgunfýlu. Þeir sem standa fyrir hinum endalausu neikvæðu fyrirsögnum hafa heldur ekkert leyfi til að haga sér eins og þeir gera.

Þegar ég var að skrifa þetta ætlaði ég að lesa vísdómsorð dagsins í dag í bókinni Kyrrð dagsins. En ég rakst á vísdómsorðin frá 19. september og gat ekki sleppt þeim. Þau minna mig á að ég fann bellis út á lóð í morgun. Þau eru sögð af E. B. White ( 1899 - 1985) og hljóða svo:

"Sólargeisli er lýsir inn í rökkrið, ljúfir tónar, angan úr hálsakoti ungbarns. . . .
Þetta er það sem skiptir máli í lífinu."

Þetta skipti gömlu konuna á Giljum máli og það skiptir okkur öll máli og ætti að minna okkur á hugtakið "gildismat".

Stokkhólmsferð síðustu helgina í september

Við lögðum af stað heim frá Stokkhólmi um  hádegisbil i dag, þriðjudag, og ætluðum að stoppa eftir þriðjung leiðarinnar heim og taka olíu og fá okkur kannski eitthvað að drekka. Þegar við komum á þennan ákveðna stað var Valdís sofnuð og mér fannst ekki spurning um að við héldum áfram á stað þar við yrðum komin tvo þriðju hluta leiðarinnar. Þegar þangað kom ákváðum við í sameiningu að fara bara alla leið og taka olíu í Örebro þegar við værum næstum komin alla leið heim. Þessi síðasta ákvörðun gekk eftir. Síðustu 20 til 30 kílómetrana varð mér mikið hugsað til þess hversu "rosalega" það yrði notalegt að koma heim og fá sér svolítið í svanginn.

Svo þegar heim kom fengum við okkur fiskisúpu, harðfisk, jógúrt og að lokum kaffi og mjólkurkexið gamla ferkantaða frá Íslandi. Valgerður kom nefnilega færandi hendi og okkur datt ekki í hug að taka það upp fyrr en við værum komin heim. Svo vorum við mett og svo voru nokkur atriði sem við þurftum að sinna og nú er ég sestur hér við tölvuna og byrjaður að blogga. Það er eins og fyrri daginn að ég get ekki þagað yfir neinu.


Upp úr klukkan níu á sunnudagsmorgun lögðum við Valdís af stað til Arlanda til að taka á móti Valgerði dóttur okkar sem var að koma í stutta heimsókn til Stokkhólms. Við vorum vel í tíma og gátum fengið okkur bláberjapæ með kaffibolla á flugvellinum áður en fólk frá Íslandi fór að tínast inn í gegnum tollinn. Vert þú með myndavélina sagði Valdís og svo stilltum við okkur innan við innganginn. Og þarna kom Valgerður og mamma hennar hálf hljóp á móti henni og ég smellti af mynd. Svo héldum við með það sama af stað til Stokkhólms.


Þegar við höfðum heilsað upp á fólkið, fengið okkur gott kaffi og góðgæti með því átti að skipta um föt á barnabarninu Hannesi Guðjóni. Hann slapp frá smá stund og það stóð ekki á því að hann byrjaði að atast í afa sínum og reyndi að hræða hann með hestinum sem amma gaf honum um daginn. Afi var auðvitað skíthræddur við hestinn og Hannesi fannst það alveg dásamlega gaman.


Þessi atburður var tekin á filmu og Valgerður móðursystir fylgdist með. Hannes var dálítið á varðbergi móti henni til að byrja með og vildi fá tilfinningu fyrir þessari frænku sinni áður en hann gaf sig nokkuð á hennar vald.


Það var aðeins meiri friður yfir fyrsta fundinum milli Hannesar og ömmu en það var milli Hannesar og afa. Þessar ömmur eru þannig að litlir drengir vilja gjarnan halla sér móti þeim og bara finna fyrir mannlegri hlýju.


Það kvöldaði og Pétur stóð í eldhúsinu og annaðist matargerð með aðstoð hjálpsamra handa. Ég, sjálfur afi, reyndi að vera aðeins með í þessu og lagði á borðið. Svo var að taka mynd. Hannes hjúfrar sig að mömmu með handleggina um háls hennar, mæðgurnar sitja hlið við hlið og Pétur fylgist með þessu fólki sem á rætur að rekja til Hríseyjar. Þegar ég var búinn að taka tvær myndir færði ég diskinn minn og tók mér sæti við endann móti Pétri. Svo borðuðu allir glaðir.


Nóttin milli sunnudags og mánudags var að baki og við fórum í bæinn en Pétur í vinnuna. Hannes var byrjaður að kynnast frænku sinni frá Vestmannaeyjum og svo brugðu þau á leik á gangstéttum Stokkhólms, mamma, Hannes og Valgerður frænka. Afi gamli varð að hálf hlaupa til að geta verið á undan og tekið myndir og amma átti fullt í fangi með kerruna að hafa við þessu fríska fólki. Það var gaman, gaman.


Við komum við á leikvelli þar sem Hannes og fjölskylda eru tíðir gestir. Hannes var eins og heima hjá sér og þarna er hann skipstjóri og stendur framan við brúna og kynnir fleyið sitt fyrir konunum sem eins og áður eiga rætur að rekja til Hríseyjar, eyjarinnar þar sem sænsku síldarhúsin stóðu áður og fiskur var og er dreginn að landi og gerður að gjaldeyri. Sænsku húsin sagði ég, og þarna erum við á sænskri grund og í nánum tengslum við landið sem eitt sinn byggði hús í eyjunni þar sem við öll eitt sinn bjuggum.


Doktorinn frá Hrísey settist á bak fílnum á leikvellinum meðan sonurinn lék sér undir eftirliti ömmu og Valgerðar frænku.


Skömmu síðar vorum við komin að afar blaðfögru kastaníutré og forstöðumaður Visku í Vestmannaeyjum, einnig frá Hrísey, ásældist ávexti kastaníutrésins og hristi greinar þangað til ávextirnir féllu niður. Innan í þessum ávöxtum eru fallegar hnetur og nokkrar þeirra voru settar í plastpoka til að skoða síðar. Svona hnetur eru seldar í Svíþjóð fyrir jólin.


Svo auðvitað komum við í heimsókn til "höfuðstöðva" Pinkpuffin, fyrirtækisins hennar Rósu. Þetta er líka vinnustaður Péturs þegar hann er ekki í Uppsala eða að kenna við háskólann þar, og einmitt þennan dag var hann að vinna þarna. Þeir sitja þarna við tölvu feðgarnir Pétur og Hannes Guðjón. Hannes er ennþá svolítið minni og því í hvarfi við föður sinn. Þrjár mæðgur eru þarna innst í salnum.


Bíddu nú við? Hver er ekki þarna á hlaupum fyrir miðri mynd á miðju Sergilstorgi, aðaltorginu í Stokkhólmi. Heyrðu, það er enginn annar en barnabarnið mitt hann Hannes Guðjón Pétursson. Mikið var hann búinn að hreyfa sig og hlaupa þennan dag þessi drengur. Ég var nú bara svolítið öfundsjúkur.


Það var dags að fá sér sæti og góðan kaffibolla. Við fengum okkur kaffibolla þarna á kaffihúsinu hans Magnúsar Jökulssonar frá Islandi. Við höfðum ekki verið á Rhodos, Kanarí eða Mallorca. Við höfum bara verið á rölti á götum Stokkhólms, heimalands flestra okkar sem vorum þarna saman komin þennan dag. Stundum varð ég ögn latur á göngunni en svo sagði einhver eitthvað eða eitthvað bar fyrir augu sem kom mér í gang að nýju. Þegar ég nú hugsa til gærdagsins þarna á götum Stokkhólms finnst mér sem þetta hafi verið einn virkilegur sólskinsdagur. Ég veit ekki hvernig minningin mundi vera frá Rhodos, Kanarí eða Mallorca, en minningin um þennan Stokkhólmsdag er afar góð.

Ps. Það voru margar myndir að velja úr. Hún Valdís kemur líka til með að setja myndir á Flickrsíðuna sína.

Ja, drengur! þetta lítur út eins og bit

Það var nú meira hvað mig klæjaði í hægri fótinn hérna um daginn, alveg frá ökla og rúmlega hálfa leið upp undir hné. Svo voru þarna rauðir flekkir og flekkurinn sem var utan á öklanum var svolítið sporöskjulaga og ljósari innan við næstum blárauða jaðrana. Sá flekkur fékk mig til að taka þetta svolítið alvarlega. Ef ég lét eftir mér að klóra í þessa flekki nálgaðist það brjálæðisástand svo að það var best að láta það vera.

Ég sá á Feisbókinni um daginn að fólk talaði um nýtt snýkjudýr sem væri búið að sýna Íslandi þá virðingu að nema þar land. Það var líka talað um að þetta snýkjudýr gæti alls ekki talist saklaust því að því gætu fylgt sjúkdónmar eins og bórelía og heilahimnubólga. Íslenska nafnið er skógarmítill. Hér í landi heitir þetta snýkjudýr fästingur og er hluti af náttúrunni og afar fáir láta fästinginn meina sér aðgöngu að henni. Á tímabili í sumar voru plokkaðir af mér nokkrir skógamítlar á viku hverri. Ég hef sagt að það sé minni hætta á að skógamítill verði fólki að meini en ferð á milli staða á bíl og það er ennþá mín skoðun.

Ef bórelía fær að setjast að í líkamanum án afskipta getur það haft mjög alvarlegar afleiðingar. En það er hægt að vera vakandi fyrir því án þess að setja allt á annan endann. Ég hafði samband við heilsugæslustöðina í Fjugesta vegna flekkjanna og kláðans á hægri fætinum og fékk þar tíma hjá hjúkrunarfræðingi fjórum dögum seinna. Þangað kom ég á þriðjudaginn var og settist á biðstofuna. Systir Anna kom fram á biðstofuna eftir stutta stund og leit á mig og spurði ekki hvort ég væri Guðjón. Hún bara leit á mig og bað mig að gjöra svo vel.

Rauður á fætinum eða hvað? Já, svaraði ég og lyfti upp buxnaskálminni og dró lítillega niður sokkinn. Anna skoðaði þetta með ábyrgum svip og sagði svo: Ja, drengur, þetta lítur út eins og bit. Hvers konar bit? spurði ég. Fästingsbit svaraði systir Anna. En hún sagðist ekki vera nógu viss þannig að það væri best að ég hitti líka Dr Ewu. Svo sendi hún Dr Ewu orðsendingu gegnum tölvuna og svo spjölluðum við saman um daginn og veginn svolitla stund. Hún kallaði mig dreng hugsaði ég. Ég tók því sem hrósi og og var harð ánægður með. Systir Anna gat verið einum tíu árum yngri en ég.

Ég var sestur aftur fram á biðstofuna þegar Dr Ewa kom hress og skærbrosandi fyrir horn og leit á mig. Mín fyrsta hugsun var að mikið væri hún þægileg og hjálpleg þessi pólska kona sem var kannski rúmlega fertug. Svo fórum við inn á stofuna til hennar og þar var það sama sagan; upp með buxnaskálmina og niður með sokkinn. Nú varð Dr Ewa alvarleg litla stund og svo sagði hún að systir Anna væri bæði þrá og eftirtektarsöm og það væru hennar bestu kostir. Þetta getur mjög vel verið bórelía sagði svo Ewa og við gerum ráðstafanir út frá því. Þú færð fúkalyf sem eyðir þessu ef það er bórelía en ef það er ekki bórelía skaðar fúkalyfið þig ekki. Ég sé líka að þú notar engin lyf sagði hún ennfremur. Svo gaf Ewa sér svolítinn tima til að spjalla og spurði meðal annars hvort það væri ekkert fleira sem ég vildi láta hana athuga.

Þetta var eiginlega að verða tilbreyting í hversdagsleikanum. Þessar konur voru svo glaðar og hjálplegar og það var einnig unglingurinn frammi í afgreiðslunni sem tók við 80 krónunum af mér og vísaði mér áfram. Þetta glaðværa og hjálpsama viðmót byrjaði satt best að segja frammi í andyrrinu þegar ég var að koma og mætti miðaldra manni sem var á leiðinni út með aldraða konu í hjólastól. Ég opnaði hurðina upp á fullt og hélt henni þannig til að auðvelda þeim leiðina út. Þá sagði sú aldraða glaðlega að ég gæti líka ýtt á hnappinn þarna, þá mundi hurðin haldast opin. Reyndar vissi ég það en ég er víst meira gamaldags en þessi aldraða kona því að ég nota þessa hnappa ekki svo oft.

"Ég sé líka að þú notar engin lyf" sagði Dr Ewa. Reyndar hef ég fengið fólinsýrutöflur út á resept í meira en tvö ár og ég sagði að reseptið væri gengið úr gildi og hvort hún mundi vilja skrifa nýtt. Hún sagði það enga ástæðu að ég notaði þetta meira, alla vega ekki um sinn, og það var greinilegt að hún kallaði fólinsýru ekki lyf. Hún virtist horfa á mig og dæma mig frískann. Þetta var nú að verða aldeilis meiri dagurinn. Það var næstum að verða lán að skógarmítill hafði bitið mig.

Á leiðinni út og á leiðinni heim var ég að velta þessari heimsókn til læknisins fyrir mér. Ég er 69 ára, vinn fulla vinnu sem stendur og ég held að ég kvarti aldrei vegna heilsu minnar. Mér finnst að meðan ég var hvað haltastur fyrir meira en tveimur árum að ég hafi kvartað minna enn nánasta fólkið mitt. Fólk sem ég hitti og hafði farið í mjaðmaaðgerð gaf rosalegar lýsingar á ástandinu. Mér datt stundum í hug að það væri ennþá allt í lagi með mig. Samt skrifaði læknirinn i skýrsluna eftir að gerðina að það hefði alls ekkert brjósk verið eftir. Stundum dettur mér í hug að hugur minn sé of þungur. Og stundum dettur mér í hug að það sé nú meiri árans vitleysan.

Ég hef val. Sé ég spurður hvernig ég hafi það daginn eftir að ég hef barið með hamri í fingur get ég sagt að verkurinn sé alls ekki horfinn -en ég get líka sagt að ég sé mikið betri en í gær. Það er munur á. Eitt sinn fór Valdís til læknis og fékk lyf við einhverju eins og gengur. Þegar við komum heim lagði hún sig. Meðan hún hvíldi sig hringdi kona og ég sagði henni að við hefðum verið hjá lækni og nú hefði Valdís lagt sig. Fékk hún lyf? sagði konan. Já. Hvað heita töflurnar. Ég vissi það ekki. En veistu hvað þær eru mörg milligrömm? spurði hún þá. Nei, ég vissi það ekki heldur. Það er alveg merkilegt að ég skuli ekki vera meira veikur en ég er. Nei, ég er mikið stoltur af heilsu minni. Ég fékk nýjan mjaðmalið en svo er ég líka eldhress.

Fyrir einhverjum mánuðum lét Ewa taka röntgen af hálsliðunum í mér. Svo fékk ég bréf frá henni um það að hálsliðirnir væri gróflega slitnir. Mér brá og einhverja stund fann ég fyrir einhverju mjög ónotalegu og framtíðin varð myrk. Svo hugsaði ég sem svo að ég hefði alls ekki vitað af þessu utan að ég dofnaði í vinstri handlegg. Átti ég þá að fara að verða veikur í hálsinum bara vegna þess að ég vissi að hálsliðirnir væri slitnir? Neei! Svolítið er ég stirður í hálsinum en dofinn í vinstri handlegg hvarf fyrir mörgum vikum. Hugur minn er ekki þungur.

Skógarmítill hagar sér þannig að hann stingur í húðina þar til hann fær blóð. Síðan festir hann sig við staðinn og hefur það gott. Hann stækkar hratt, það kemur lítill rauður blettur í kringum hann og oft má sjá hvernig hann spriklar með fótunum ef hann fær að vera nógu lengi í friði og stækka. Það klæjar í blettinn. Skógarmítill deyr fullur því að hann er baðaður í spritti áður en hann er fjarlægður með töng. Eftir áramót fer ég í bólusetningu við heilahimnubólgu þannig að ég á ekki að geta smitast af henni gegnum skógarmítla.

Góðar stundir

Ps. Valdís er búin að taka bláber út úr frystinum og hún er búin að taka utan af granatepli. Það verður góður og hollur eftirréttur í kvöld.

Glósubók

Seinni partinn í gær atti sér stað langþráður atburður hér á bæ. Ég tók mér bók í hönd í bókaskáp í nýja herberginu og lagði hana á skrifborð sem er þar inni. Síðan sótti ég eitt blað af ljósritunarpappír, sænsk-sænska orðabók og að lokum penna. Síðan settist ég við skrifborðið og byrjaði að lesa. Þar áður var ég búinn að vera all langa stund í erindum í Fjugesta og svo auðvitað var svolítil vinna við fasteignina líka búin að vera í gangi um miðjan daginn.

Ég sagði að þetta hefði verið langþráður atburður og ég meina það. Ég er oft búinn að blogga um það þegar ég sest í Varsam stól í nýja herberginu með bók í hönd og byrja að lesa góðar bækur. Það hafa verið stærstu verðlaunin sem fundist hafa í mínum huga eftir byggingarvinnu undanfarinna ára. Ég er aðeins að byrja að smakka á þessu. En ég held að ég verði að útskýra þetta með Varsam stólinn. Inn í Örebro er verslun sem heitir Varsam. Varsam selur margs konar hjálpartæki svo sem hækjur og stafi. Þar keypti ég göngustafinn sem ég gekk með síðustu mánuðina fyrir mjaðmaaðgerðina.

Varsam selur líka stóla sem eiga vel við eldra fólk og fólk sem hefur til dæmis fengið nýjan mjaðmalið. Stólarnir eru í fyrsta lagi góðir að sitja í og svo eru þeir frekar háir og með háum örmum sem eiga að vera til hjálpar fyrir þá sem meiga ekki og geta ekki reist sig upp úr stól nema styðja sig við góða arma. En nú er það bara svo að ég er alls ekki nógu gamall til að þurfa þetta og ég er svo frískur eftir mjaðmaaðgerðina að Varsam stóll er með öllu óþarfur fyrir mig. Við eigum alveg skínandi góða stóla sem eru góðir fyrir bókalestur. Valdís segir hins vegar að það komi að því að hún vilji stól frá Varsam.

Aftur að bókalestri. Það er langt síðan ég ákvað að lesa þessar bækur á sænsku og um leið að auka sænskukunnáttu mína. Þá á ég við að auka orðaforða minn og svo að hreinlega fá betri tök á málinu. Ég get talað reiprennandi í Vornesi allt sem ég þarf að segja og haft samtöl við fólk án nokkurra hnökra, en ef ég kem í allt annað umhverfi og er með allt öðru fólki kemur fyrir að það verði hnökrar á tjáningaskiptunum. Bjarni Steingrímsson fyrrum leikari og leikstjóri sagði mér forðum tíð að hvorugur okkar gæti átt von á því að komast jafn langt í sænskunni og á okkar gamla móðurmáli.

Það eru allt of margir, hef ég heyrt hjá sæsnkukennurum, sem komast á það stig að geta skilið og geta tjáð sig þannig að það dugi svo sem og verða þar með ánægðir og hætta að æfa nýja tungumálið. Ég hef aldrei sætt mig við það, ég vil halda áfram. Ég vil líka geta skrifað nokkuð óhindrað á sænsku og geta gert mér grein fyrir því hvort það er þokkalega skrifað eður ei. Ef ég er ekki að flýta mér skrifa ég að vísu jafn vel eða betur en margur Svíinn og það er vegna þess að ég hef nánast aldrei stoppað í sænskunámi mínu. Nánast aldrei stoppað er kannski full mikið sagt því að ég hef ekki æft mig af ásettu ráði síðustu tvö til þrjú árin. Samt er ég þó alltaf að læra meðan ég tjái mig við fólkið í þessu landi.

En aftur til bókarinnar um Ayla, Þjóð bjarnarins mikla, sem við lásum löngu áður en við fluttum til Svíþjóðar ásamt öðrum þeim bókum sem þá höfðu verið skrifaðar um Ayla. Í minningunni voru margar lýsingar í þessum bókum sem ég hreifst af. Lýsingar á fólki, atburðum og landslagi. Í minningunni fannst mér sem ég væri með á ferðalagi, ég stæði andspænis manneskju og ég upplifði landslagið þannig að ég mundi geta þekkt það að nýju ef ég sæi það. Svo þegar ég byrjaði að lesa í gær og aftur í dag sýndist mér sem þetta væri í gildi ennþá. Til dæmis þegar höfundurinn lýsir trjánum á gresjunni hinu megin árinnar segir hún eitthvað á þessa leið: "Þau fáu tré sem stóðu þar, snúin og skæld af vindinum, á þann hátt sem þau hefðu stoppað mitt í hreyfingu, gáfu bara frekari dýpt í landslagið og undirstrikuðu áhrifin af tómleika." Ég hefði ef til vill átt að velja bók eftir eitthvert nóbelskáldanna en ég er ekki kominn þangað ennþá. :)

Svo tók ég með blað til að skrifa á og orðabók. Ég er aftur byrjaður að glósa eins og í Skógaskóla haustið 1956. Eftir helgina ætla ég að kaupa mér skrifblokk og skýra hana glósubók. Ný tíð er runnin upp.

Myglustopp

Það er letidagur á Sólvöllum í dag þannig að ég hef ekki einu sinni farið í vinnugalla og þaðan af síður gert nokkurn skapaðan hlut og það er komið hádegi. Við skruppum til Örebro í morgun þar sem Valdís fór til heyrnartækjatæknis (þetta orð varð til bara núna í augnablikinu, fínt orð eða hvað?). Þar átti að fara yfir stillingu á heyrnartækjunum hennar og svo átti hún að fá eitthvað sem hér er kallað slynga og er haft undir púða í stólnum þar sem horft er á sjónvarpið. Svo á Valdís framvegis að geta horft á sjónvarpið og hafa svo hátt sem hún vill án þess að ég heyri nokkuð. Oft er það svo að ég vil ekki horfa á sjónvarp en ég heyri þá gjarnan í því gegn vilja mínum. Við þekkjum fólk sem hefur þennan útbúnað og þar er það maðurinn sem horfir meira á sjónvarp. Þau hjón, sem eru á okkar aldri, eru alsæl með fyrirkomulagið.

Eftir heyrnartæknisheimsóknina fer Valdís í nudd hjá naprapatinum eða hnykkinum Magnúsi og svo ætlar hann að sýsla eitthvað við liðamót og stífa vöðva sem hrjá hana og reyna að liðka svolítið fyrir með daglega vellíðan. Hann er glúrinn þessi maður og ég hef líka verið hjá honum og mér fannst meðan ég var haltur að hann sæi hvað hrjáði mig áður en hann leit upp til að heilsa mér -meira að segja í fyrsta sinn sem ég heimsótti hann. Ég velti fyrir mér hvort hann væri smá göldróttur. En hvað um það, ég fór heim á meðan Valdís fer í þessar heimsóknir en hún er afar þolinmóð við að koma sér með strætisvögnum milli staða í Örebro. Það er nú heill kapítuli út af fyrir sig.

----------------------------------------------

Nú er áliðið dags.

Um daginn notaði ég orðið myglustopp  á FB. Hún Sigga Páls skólasystir mín frá því fyrir rúmlega hálfri öld spurði þá; "hvað er myglustopp Guðjón"? Ég sagðist mundi svara því. Íslenskur maður sem ég þekki ekki en veit hver er, hringdi einu sinni í mig og sagðist lesa með áhuga bloggið mitt sem hann hafði fundið af einhverri tilviljun. Hann sagðist vera að byggja sumarhús og þess vegna hefði hann gaman af því að lesa um byggingarframkvæmdir á Sólvöllum. Einhver sendi e-póst um sama efni og einn og annar hefur heyrt af sér á einhvern hátt og sagt svipað. Málið er einfaldlega að það er til slatti af fólki sem gjarnan les aldeilis hversdagslega og einfalda hluti um daglegt bjástur og hefur gaman af. Þar þekkja margir sjálfa sig. En nú ætla ég reyndar að gefa skýrslu um myglustopp.

Sigga Páls, einfalt er að líta bara á þriðju myndina því hún er af "myglustoppi" einu sér og án langrar orðaflækju minnar.


Á þessari mynd sjáum við upp í þakið á gamla hluta Sólvallahússins. Sperrurnar sem áður voru 12 sm breiðar eru þarna orðnar 22 sm. Steinullin sem við sjáum í þakinu er 175 mm þykk en ofan við hana er masónit. Á milli sjálfrar þakklæðningarinnar og masonitsins er loftrúm sem er 5 sentimetrar. Ætlast er til þess að raki sem stígur til lofts í öllum íbúðarhúsum þrátt fyrir plastdúka og tilheyrandi, viðrist burt í þessu loftrými. Annars gæti hann setst að efst í einangruninni þar sem frost og hiti mætast og myglað og frosið á vetrum og endað í fúa.

Ég kynntist þessu í fyrsta skipti hér í Svíþjóð enda var ég ekki vanur að vinna við hús þar sem innréttað var alla leið upp að sperrum. Smiðurinn sem hjálpaði okkur í fyrra var jafnframt vinnunni hjá okkur að skipta um þak á húsi þar sem þakklæðningin var orðin svo fúin að það fannst hvergi naglhald. Þar var ekkert loftrúm til að annast rakann. Endanleg einangrun í þakinu hjá okkur var 30 sm sem gerir að verkum að þetta er ennþá mikilvægara en áður þegar einangrun var kannski 1/3 af því sem notað er í dag..


Út undir þakskeggi á langveggjunum er loftrás eins og allir smiðir þekkja, bæði íslenskir og sænskir. En þegar byggt er eins og við gerum hér á Sólvöllum að hafa hallandi loft sem fylgir þakinu, þá þarf líka að vera öndunarmöguleiki upp að mæni eins og áður er sagt. Um daginn var ég að ganga frá myglustoppum og þá byrjaði ég á að taka burtu þakpönnurnar og bora göt sem voru 90 mm í þvermál. Masónitið sem við sáum innan frá á fyrstu myndinni sjáum við hér utan frá í gegnum götin. Nú er þessi þáttur tilbúinn og þá er að framkæma þann næsta.


Hér er búið að festa myglustopp ufir annað gatið sem við sáum áðan. Myglustoppið húsar frá að neðan en lokar vel að ofan með hjálp af kítti þannig að vatn skal ekki geta runnið inn um opið. Gataplata er á myglustoppinu neðanverðu. Hún nær út fyrir gatið og hindrar mýs og skordýr að komast inn undir klæðninguna á þakinu.


Svo þegar verkinu er lokið er bara að horfa á og vera glaður yfir góðum verklokum og plokka svo þakpönnurnar á að nýju. Þó að ég hafi aldrei séð þetta á Íslandi hefur það kannski verið notað í 20 ár eða meira. Ég er líka viss um að þetta finnst undir einhverju öðru nafni, en ég bara þýddi beint sænska heitið "mögelstopp", það á að koma í veg fyrir myglu og fúa.


Á þessari mynd gefur svo að líta ellilífeyrisþega sem er að böglast upp á þaki við að setja upp myglustopp. Það er eins og ég sé hræddur en sannleikurinn var samt sá að ég var orðinn full kaldur við myglustoppavinnuna mína um daginn. Skórnir sem ég er á þarna eru nú hreinlega bestu þakskór sem ég hef eignast. Þegar við innréttuðum upp í risið í vetur var svo þykkur snjór á þakinu að það kom ekki til umræðu að gera þetta þá. Síðan er þetta búið að liggja svolítið á mér og ág átti von á að ég ætti erfiðara með að gera þetta en raun varð á. Það er nú meiri vitleysan þegar ég er að láta mér detta í hug að ég sé að eldast. En hvað um það, Sólvallahúsið er vel undirbúið til að taka á móti vetri


Bara svo að þið vitið þá er ég ekki einn um að gera eitthvað á Sólvöllum í Krekklingesókn og því nota ég aftur þessa mynd þegar Valdís var að mála á fullu fyrir einum tveimur vikum. Nú situr hún frammi og horfir á sjónvarp með nýju græjunum sínum og það er svo lágt í sjónvarpinu að ég bara heyri óminn frá því. Ja, flest er nú til.

Gaman væri að heyra frá einhverjum hvað myglustoppin mín raunverulega heita á íslensku og hvort þau séu ekki hversu venjuleg sem helst á byggingum. Ef þessi lýsing gæti orðið einhverjum að gagni væri það jú alveg frábært.

Frá Kóreu til Afganistan

Undir kvöldið í gær horfði ég á glefsur úr minningarathöfn um þá sem dóu í árásinni á tvíburaturnana í New York. Þetta var afar falleg og löng athöfn og miklu kostað til. Margir grétu innilega þegar Paul Simon spilaði á gítar og söng og grátandi fólkið var sýnt í nærmynd. Alvörugefnir fyrrverandi og núverandi ráðamenn gengu prúðbúnir um marmarann og voru súmmaðir inn.

Ég varð snortinn af ýmsu sem ég sá þessa stuttu stund sem ég horfði á sjónvarpið. Svo talaði ég um það við Valdísi að það þyrfti að minnast margra sem hefðu dáið í Kóreu, Víetnam, Írak, Afganistan og í öllum stríðunum sem Bandaríkjamenn hefðu háð þar á milli. Til hvers voru öll þau stríð og voru þau öll réttlætanleg? Ég hef alla vega mínar hugmyndir um það.

Stuttu eftir að ég sagði þetta kom glefsa úr viðtali sem fram fór á sama tíma í sjónvarpssal SVT1. Þar var talað við Mona Salin og sænskan rithöfund sem heitir Jan Guillou. Og viti menn; Jan hélt nákvæmlega því sama fram og ég og hann hafði sínar hugmyndir um það líka.

Ég man vel eftir því fyrsta af þessum stríðum sem ég nefndi, Kóreustríðinu, og mikið var ég hræddur þegar pabbi og Sigmundur frá Núpum ræddu um það og spáðu í hvort þetta stríð mundi leiða til þriðju heimstyrjaldarinnar. Þeir áttuðu sig ekki á því að ég, smá strákur, var með stór eyru þar sem ég lék mér í kringum þá þegar þeir unnu við að slá upp steypumótum fyrir súrheysturni heima á Kálfafelli. Það var langt á milli Kálfafells og Kóreu en hræddur var ég samt og dreymdi vonda drauma á nóttunni. Hvernig voru þá draumar barnanna í Kóreu og kringum vígvelli allra styrjalda síðan.

Í dagsins önn

Þann 21. ágúst talaði ég um hann Arne sem gekk frá frárennslinu hjá okkur árið 2006. Þá var hann 62 ára og við 64 ára. Tilefnið til þess að ég nefndi hann þarna um daginn var að frárennslið hætti allt í einu að virka. Þegar Arne var hjá okkur 2006 hafði hann erfiðleika með hjartað. Það var eins og það væri allt í lagi meðan hann var upp í gröfunni sinni en þegar hann þurfti að gera eitthvað með skóflu eða járnkalli á jörðu niðri varð annað uppi á teningnum. Einhverjum árum eftir að hann vann þetta hjá okkur vantaði okkur mold og Arne færði okkur mold. Hann kom aðeins inn hjá okkur og maðurinn leit mikið betur út en áður. Skýringin á því var sú að hann hafði fengið hjártaáfall og í framhaldi af því var hann látinn fara í hjartaaðgerð sem gerbreytti heilsu hans. Hann er nú búinn að vera ellilífeyrisþegi á þriðja ár.

Nú var það svo að ég leitaði til Arne þegar frárennslið hætti að virka og leitaði ráða hjá honum. Hann sagði að hann skyldi bara koma í heimsókn og líta á þetta með mér. Ég var þá búinn að grafa holur sem gerðu okkur mögulegt að rannsaka málið svolítið. Ég sagði honum einnig að við þyrftum knnski á líttilli gröfu að halda, lítilli vegna þess að við vildum ekki skemma umhverfið með stóru tæki. Arne sagðist skyldi sjá um það. Hann ætlaði bara að fara í sumarhúsið sitt sem er sunnan við Gautaborg og vera þar í eina viku. Svo skyldi hann koma. Eitthvað hefur gert það að verkum að mér hefur alltaf verið hlýtt til þessa manns, allt frá því að við hittumst fyrsta sinni.

Vikan leið og ekkert heyrðist frá Arne. Við höfðum fullt að gera þannig að við rákum ekki á eftir. Svo leið önnur vika og ekkert heyrðist frá honum þá vikuna heldur. Haustrigningarnar byrjuðu að ganga yfir ein af annarri og jörðin varð mjúk af bleytu og áfram liðu dagarnir. Hátt í þrjár vikur voru nú liðnar og þá hringdi Valdís til mín í vinnuna og sagði að Arne hefði komið. Hann hafði litið í holurnar sem ég gróf og sagðist svo koma daginn eftir þegar ég yrði heima. Þegar hann kom daginn eftir og við gengum út að holunum var komið talsvert vatn í þær eftir rigningu næturinnar.

Við spígsporuðum þarna og skeggræddum og skipulögðum framhaldið. Báðum var okkur ljóst án þess að ræða það að þarna yrði engri gröfu beitt fyrr en næstsa sumar. Þetta yrði allt að gerast með skóflu. Arne leit á mig meðan við vorum þarna úti og sagði með hluttekningu að hann hefði ekki líkamlega burði til að hjálpa mér við það. Ég sagði sem var að mér hefði aldrei dottið það í hug, ég hefði bara viljað leita ráða hjá honum sem reynds manns í faginu. Svo fórum við inn til að líta á teikninguna sem ég gerði af sandsíunni eða sandbeddanum á sínum tíma þegar umsóknin var send inn til umhverfisnefndarinnar.

Meðan við sátum frammi við matborðið tók ég eftir því að Arne var svolítið álútur og ég spurði hvernig vikan hefði verið í sumarhúsinu. Hann svaraði því til að það hefði ekki orðið nein vika í sumarhúsinu þar sem sonurinn, sem er rúmlega þrítugur, hefði verið svo veikur. Nú, hvað hafði komið fyrir hann? Jú, svaraði Arne, hann var skorinn upp vegna heilaæxlis snemma í vor og síðan hefur hann búið hjá okkur gömlu. Hann getur fengið flog og má alls ekki vera einn. Hann er búinn að vera í gríðarlega mikilli geislameðferð og mótstöðuaflið er mjög lágt. Svo fékk hann kvef sem hann varð mjög veikur af í hálfan mánuð þannig að það varð ekkert sumarhús.

Þetta var nú bara einum of mikið og ég tók upp annað umræðuefni og spurði hann hvort hann ynni mikið ennþá. Hann sagðist vinna talsvert en ekki eins mikið eftir að hann varð ellilífeyrisþegi. Ég spurði hann hvort hann ætti gröfuna ennþá og hann sagði svo vera. Hins vegar sagði hann að hún væri ónothæf eftir að hafa farið á hvolf ofan í skurð. Ja hérna. Hann sagðist hafa verið að dýpka skurð í Hakkvads Via og bóndinn hefði gert kröfu til að hann setti efnið hinu megin við skurðinn og þar að auki yfir hestagriðingu sem var þar. Venjulega setjum við efnið sömu megin við skurðinn og grafan er sagði Arne og svo var það þessi girðing. Skurðbakkinn gaf sig og grafan fór á hvolf. Ég hefði ekki átt að hlýða kallinum. Hann gat sjálfur tekið sig út úr gröfunni en hún var mikið skemmd.

Það var því ekki von að Arne hefði komið á tilsettum tíma og það var ekki við neinn að sakast. Í gær var ég á kafi í skurðgrefti með skóflu og járnkall og planka til að vega upp steina. Svo kom Valdís og setti sig á plankann meðan ég hlóð undir steininn og svo var bara að lyfta aftur. Svo var steinninn brátt á bakkanum. Þannig leið gærdagurinn og ég var eiginlega orðinn mikið hissa á hvað ég hélt lengi út. Ég vonaði að klukkan hefði stoppað og tíminn með. Svo kallaði Valdís út og spurði hvort ég ætlaði ekki að fara að hætta, klukkan væri hálf átta. Það lá við að ég reiddist yfir því að vita hvað klukkan væri orðin mikið. Svo fór ég inn. Mér var oft hugsað til Arne meðan á þessari jarðvegsvinnu stóð. Það var mikið sem á hann hafði verið lagt að undanförnu.

Ég lagði mig full seint í gær eða rétt fyrir hálf tólf. Svo svaf ég í einum dúr til klukkan sjö í morgun. Þá vaknaði ég til að velta mér á hina hliðina og svaf til klukkan átta. Þá leit ég á allar tilgengilegar veðurspár og þær gerðu ráð fyrir því að það færi að rigna upp úr hádegi. Ég ákvað að byrja eftir sjónvarpsmessuna. Valdís sagði að ég hefði hrotið miskunnarlaust í nótt, engum kæfisvefni, en þessum jöfnu malandi hrotum sem geta farið með allar meðalmanneskjur á taugum sem á þurfa að hlýða. Það finnast eyrnatappar á heimilinu og það hjálpar vissulega.

Svo byrjaði sjónvarpsmessan sem var kynnt sem norræn messa og var sjónvarpað frá Sundsvall. Það voru sálmar, og meira að segja var líka dansað. Hvít kona og hálfdökkur maður dönsuðu, fólk af ólíkum þjóðernum var með í tónlist og þetta var í fyrsta skipti sem mér fannst dans við messu bara allt í lagi. Erkibiskupinn sem gaf okkur Valdísi oblátuna í Uppsaladómkirkju um næst síðustu jól predikaði. Hann talaði alvarlega, ekki af svartýni, en hann flutti hins vegar fagnaðarboðskap af alvöru. Hann talaði um hið mannlega samfélag þar sem válegir hlutir ske og hann talaði um að fulltrúar hins góða verði fyrir áföllunum ekki minna en aðrir. En Guð er nálægur sagði hann. Hann sagði að Jesús hefði gefið loforð; að hann yrði að eilífu með öllum sem tækju móti skírninni í hans nafni. Svo var Faðir vorið sungið og það var líka í fyrsta skipti sem mér fannst það fallegt.

Ég stóð upp áður em messunni var lokið þar sem mér lá á í skurðgröftinn áður en rigningin hæfist. Ég þurfti að þurrka mér undir vinstra auganu og það hægra var líka eitthvað vott bakvið augnlokin. Ég fékk mér vatn að drekka, skipti um föt og svipti upp útihurðinni -það var byrjað að rigna. Þá fór ég í regnjakka og dreif mig síðan ákveðið niður í skurðinn til að skrapa í drullunni. Ég vonaði að Jesús væri með mér þó að ég hefði farið frá messunni áður en hún var búin. Ekki kom hann með skóflu en mér fannst þetta allt í lagi þrátt fyrir að allt væri blautt og drullugt og lyktandi ögn af klóaki. Verkið sóttist sæmilega og að lokum horfði ég á rennslið koma undan sanddýnunni eins og það á að gera. Síðan breytti ég heilu röri í framrærslurör með því að bora á það gríðar mörg göt og ég sá vatnið frá dýnunni renna inn í þetta drenrör. Síðan fyllti ég yfir með möluðu grjóti og allt byrjaði að líta vel út.

Verkið er hálfnað og það verður aðveg dásamlegt þegar því verður lokið. Heil mikil vinna en með jákvæðu hugarfari er þetta bara nauðsynleg vinna sem tekur enda. Samt alls ekki neitt eftirsóknarvert. Ánægður er ég með að hafa heilsu til að gera svona hluti. Ég fæ tvo frídaga um næstu helgi og vissulega vona ég að það verði þurrt. Þegar ég hætti klukkan fjögur bauð Valdís upp á síðdegiskaffi sem bara gat kallast veisla. Og gúllasið sem hún bauð upp á í kvöldmat var líka veisla. Mínar raunir voru litar miðað við það sem Arne stóð í og ég verð að segja að messan fylgdi mér allan daginn.


Fyrstu föturnar af mulningnum komnar á rörið og mörg göt eru komin á það. Síðan er bara að hreinsa af næsta meter og koma með nýjar fötur af mulningi. Síðan gekk að sturta beint úr hjólbörunum. Sandbeddinn er vinstra megin. Ástæðan fyrir öllu saman var að þegar verið var að koma frárennslinu frá nýja húsgrunninum út í skurð í fyrrahaust grófu þeir í sundur rör. Þeir spurðu mig hvort ég vissi hvaða rör þetta væri. Ég sagðist ekki vita það og engum datt í hug framræslurörið frá sandbeddanum. Svo var það nú samt. Þeir settu venjulegt frárennslisrör (drenrör) í staðinn og enginn gáði að því hvort rörið sem þeir grófu burt væri með vatnsraufum.


Sjáið bara hvað fínt það varð. Fimm metrar eru búnir og fjórir eru eftir. Nei, þetta lítur ekki sóðalega út.

Ps. Það sem ég sagði um messuna og áhrif hennar var ekkert grín heldur full alvara. Og svo; ég veit að það var minna skrifað um byggingu Hörpunnar en framkvæmdir okkar á Sólvöllum.

Já, víst er hann góður

Klukkan tíu í morgun ók ég úr hlaði í Vornesi og var þá búinn að vinna löngu helgina eins og kallað er og vera einn með húsið það sem samsvarar næstum viku vinnu utan það að kona var í eldhúsinu hluta dagsins og sá liðinu fyrir mat. Ég vissi að ég yrði þreyttur þegar ég kæmi heim og ekki síst vegna þess að nóttin varð afar stutt hjá mér. Það var nefnilega svo að þegar ég var lagstur á koddann rétt fyrir miðnætti í gær, búinn að slökkva ljósið og Óli Lokbrá var búinn að fylla herbergið með nærveru sinni, að ég heyrði talsvert högg. Það var barið í húsið með planka eða einhverju slíku. Svo heyrði ég annað högg og svo heyrði ég högg áfram. Það var verið að brjótast inn í húsið!

Nú er ég byrjaður að skrifa sannann reyfara. Ekki langaði mig til þess en það var ekki um annað að ræða, ég klæddi mig aftur. Ég fór þó í skóna án þess að fara í sokka. Einhver fullur eða bilaður bófi mundi varla fara að skoða á mér lappirnar. Ég fór út að næsta glugga og leit út. Engin hreyfing. Svo gekk ég að næsta glugga og svo að þar næsta og ennþá engin hreyfing. Svo fór ég gætilega niður stigann án þess að kveikja ljósið og leit út um enn aðra glugga á hæðinni fyrir neðan. Engin hreyfing.

Svo var ég kominn inn á sjúkradeildina eftir að fara eftir endilöngu stóru húsi og þegar ég kom inn á ganginn þar kom maður á sextugs aldri eftir ganginum. Hann var innskrifaður og alls ekki bófinn sem ég leitað að. Við heilsuðumst og hann virtist ögn hissa á að sjá mig. Svo fór hann inn í reykherbergið. Ég fór inn á vaktherbergið og út að glugga þar. Það var dimmt fyrir utan gluggann svo að ég sá lítið. Því lagði ég ennið að rúðunni til að sjá betur. Rétt í því kviknaði útiljós sem var rétt við gluggann. Sko, nú var bófinn ekki langt undan en ég sá hann samt ekki þó að ljósið hefði kviknað. Það var þá sem hárin risu á höfðinu á mér.

Nú heyrði ég meiri umferð frammi á ganginum svo að ég hélt þangað. Þar var herbergisfélagi mannsins á sextugs aldrinum kominn á stjá líka. Hann var liðlega þrítugur sá og var svolítið hissa að sjá mig á þessum tíma, klukkan að verða hálf eitt að nóttu. Hann hélt líka inn í reykherbergið og ég á eftir þó að mér líkaði ekki að vera þar inni. Af hverju ert þú á ferðinni á þessum tíma spurði sá yngri. Ég sagðist bara hafa viljað fara eina aukaferð um húsið áður en ég leggði mig. Svo spurði ég hvað hefði vakið þá á þessum tíma. Þeir vissu það ekki. Svo voru hljóð alls ekki rædd.

Ég gekk eftir endilangri sjúkradeildinni og upp á næstu hæð fyrir ofan. Ég kveikti engin ljós til að vera minna áberandi í þessum leitarleiðangri mínum. Að lokum taldi ég mig búinn að grandskoða allt og búinn að fara út og fullvissa mig um að það væri enginn náælgt húsinu. Ég hafði nú ekki heyrt hljóðin í hálftíma eða svo. Ég talaði aðeins meira við mennina sem voru ennþá í reykherberginu og lagði svo af stað í áttina að herbergi mínu sem var á allt öðrum stað í húsinu.

Ég smeygði mér undir mjúka og góða sængina og fann að ég var orðinn verulega þreyttur og það féll á mig höfgi með það sama. Þá reif smá vindhviða  í opna gluggafagið þannig að ég rumskaði aftur. Rétt á eftir var aftur barið í húsið. Ég byrjaði nú að renna grun í hvað væri hér á ferðinni. Nokkru síðar tók væg vindhviða í gluggann aftur og í sama mund var barið í húsið. Vinnupallarnir!

Verið er að leggja nýjar þakhellur á húsin í Vornesi og um átta metra háir vinnupallar umlykja sjúkradeildina. Ég vissi að þeir voru svo sem fimm sentimetra frá þakrennunum þannig að þeir gátu auðveldlega slegist í rennurnar í vægum vindi. Ein vindhviða enn og ein vindhviða enn sönnuðu þessa kenningu og ég varð þess full viss að það væri enginn brjálæðingur að reyna að komast inn i hús í Vornesi. Í morgun sögðu sjúklingarnir á sjúkradeildinni að það hefði verið einhver hávaði frá þakinu að ónáða þá um nóttina. Ljósið kviknaði vegna þess að rofinn er tímastilltur og er ennþá stilltur á bjartasta sumartímann.

Þegar ég kom heim átti ég sem sagt von á því að ég mundi verða þreyttur og ekki hafa mig í neitt. En nei! Ég fann ekki svo mikið fyrir þreytu. Svo fórum við Valdís í búð og ég keypti líka þrjú borð hjá honum Mats sögunarmanni. Ég ætlaði að smíða flatan stiga á þakið því að ég þarf að vinna smávegis þar uppi. Ég er orðinn upp úr því vaxinn að vera með æfingar á þaki og vel öryggið fram yfir karlmennskuna.

Svo fór að rigna og það rigndi drjúgt en eins og svo oft áður féll regnið svo mildilega niður að það var aðeins notalegt að fylgjast með því. Þá vaknaði hjá mér þessi ótrúlega notalega tilfinning. Það rignir of mikið til að ég geti gert það sem ég ætlaði að gera. Hvað geri ég þá? Guð er góður að senda mér regn. Ég geri ekki neitt.

Það eru fimm tímar síðan það fór að rigna og ég er búinn að fara oft út í dyr til að fylgjast með þessari dásamlegu rigningu og það rignir enn. Ég hef hugsað til stórrigninga í brúarvinnunni fyrir meira en hálfri öld þegar það urðu svonefndar inniteppur og maður skiptist á við að lesa, sofna, fá sér mjólkurkex og mjólk, lesa, sofna aftur og líða alveg dásamlega undir tjaldhimninum með róandi regnið yfir sér. Já, víst var Guð góður að senda mér rigninguna.

Svo er Valdís búin að taka bláber úr frystinum og hræra púðursykri út í ögn af Tyrkjajógúrt. Ég veit að bráum verða bláber í Tyrkjajógúrt. Það er gott að vera heima.


Þegar við vinnum kvöld/nótt í Vornesi sofum við hægra megin í háa húsinu á annarri hæð. Sjúkradeildin er nánast í hvarfi við stórt linditré sem er nokkru til hægri við háa húsið. Fjær á myndinni er vatnið Geringe og yfir það sér yfir víðáttumikla skóga í átt til Austur-Gautalands. Ég mundi ekki svo skömmu eftir að þessa nótt í Vornesi blogga um atburði næturinnar á sænsku.

Takið eftir hvað trén gnæfa mikið yfir húsin og til og með yfir húsið sem er tvær hæðir og hátt ris. Ég hélt einu sinni að svona stór tré stækkuðu ekki svo mikið lengur en á þeim tæpu 16 árum sem ég hef verið viðriðinn þennan stað hafa þau stækkað gríðar mikið.

Lok plómutíðar

Fyrirsögning, Lok plómutíðar, minnir á ákveðna árstíð og það leynir sér ekki hvert stefnir. Þokan liggur yfir og skyggni kannski 150 metrar, hitamælirinn stendur á +11 gráðum og allt er mjög rakt. Það mun hausta í ár líka. Lauffall er þó ekki byrjað en hluti af botngróðrinum í skóginum er byrjaður að sölna. Ég gekk út í skóg í gær og burknarnir sem sums staðar ná upp í bringu eru enn hraustlega grænir og stoltir. Það þótti mér góðs viti.

Sum ár er lítið af plómum og önnur ár er mikið afplómum. Tvö síðsutu ár hafa ólíkar aðstæður verið þess valdandi að það hefur verið lítið af plómum. Í ár er mikið plómuár, það mesta síðan hann Kristinn dóttursonur var hér, klifraði í trénu og plokkaði niður plómurnar fyrir afa og ömmu.


Þessi mynd er tekin fyrir fáeinum vikum en þá eru ljósu plómurnar fallegastar að sjá þar sem þær hanga í klösum á greinunum. Tréð hefur verið að sligast undan byrðinni enda styrkt nú undir haustið með staur. Við erum með nýtt tré sem ber bláar plómur. Það er nágranni trésins með ljósu plómurnar.


Núna urðum við að bjarga okkur sjálf þar sem Kristinn er ekki hér og Valdís hélt á ílátunum en ég klifraði og plokkaði niður. Þetta er reyndar í þriðja skiptið í ár sem við tínum plómur úr trénu okkar og það er eiginlega að verða síðasti möguleikinn að gera það. Bragðið af þeim er aðeins farið að dofna. Samt er gríðarlega mikið eftir á trénu. Við bara ráðum ekki við allt saman.


Það er býsna girnilegt að sjá þetta á eldhúsbekknum.


Svona lítur það út þegar Valdís er búin að gera plómumarmelaði og þetta er bara hluti framleiðslunnar. Gott er það, til dæmis ofan á ostinn á ristaðri brauðsneið. Betra en sætabrauðið. Í dag er svo sultugerðardagur á Sólvöllum. Valdís annast það en ég verð ekki í letistólnum heldur. Lífið heldur áfram með sínum sýslum og daglega brasi og sólin heldur áfram að koma upp á morgnana þó að skammdegið sígi nær og nær. Ef manni tekst þokkalega að spila úr lífinu finnst ljós í skammdeginu líka.

Ég hef sem sagt ekki hætt að vinna ennþá

Þegar ég ók heim frá Vornesi einn marsdag árið 2007 fannst mér lífið leika við mig þar sem ég sat bakvið stýrið. Ég var hættur að vinna og ég hlakkaði til ellilífeyrisáranna. Svo var ég hreinn ellilífeyrisþegi í nokkrar vikur og leið afar vel með það. Svo hringdi síminn og Ove dagskrárstjóri, hann sem tók við starfinu mínu, spurði hvort ég gæti komið í vinnu. Ég fór og næstu mánuðina var ég öðru hvoru í vinnu í Vornesi en ekkert í sjálfu sér meira en ég hafði hugsað mér. Síðan varð efnahagshrun á Íslandi og lífeyrisgreiðslur okkar Valdísar þaðan féllu að verðgildi um helming miðað við sænsku krónuna. Eftir það fór ég að vinna á ný í svo sem 65 % starfi og hef gert síðan. Það varð líka allt í einu þessi ógnar þörf fyrir mig í Vornesi á þeim tíma. Ég hætti sem sagt aldrei.

Þrátt fyrir svo mikla vinnu "eftir að ég hætti" varð aksturinn ekki lengur svo afgerandi sem áður hafði verið, enda hef ég oftast unnið nætur þannig að ég hef farið í vinnu í björtu og komið heim í björtu og það munar miklu á ísköldum og snjóugum desemberdegi. Hver nótt sem ég vinn er líka á við rúmlega tvo venjulega dagvinnudaga. Oft þegar ég hef séð til dagskrárstjórans á hans þeytingi varðandi vinnuna hef ég notið þess að vera ekki í sporunum hans. Ef það koma ekki upp óvæntir atburðir á meðferðarheimili sem Vornesi, þá veit ég ekki hvar það óvænta ætti frekar að ske. Það mesta af þessu lendir á dagskrárstjóranum.

Fyrir nokkrum vikum þegar ég var að vinna kom Ove til mín og spurði mig hvort ég væri fáanlegur til að leysa hann af í tvær og hálfa viku. Mín fyrsta hugsun var; ne-hei! aldrei! Svo horfði ég á Ove og sá hvernig hann skrúfaði sig í stólnum og beið eftir svari. Kærastan hans á foreldra í Bandaríkjunum og ég vissi að hún hafði boðið honum þangað og þau áttu að fá alla nauðsynleg aðstöðu hjá foreldrum hennar. Hver mundi ekki vilja þiggja svoleiðis? Hins vegar er ég svo lítill framagosi að dagskrárstjórastaða freistaði mín ekki.

Svo hugsaði ég sem svo að á þessum stutta tíma mundi auðvitað ekkert sérstakt ske sem þyrfti sérstaklega að takast á við svo að þetta yrði leikur einn. Það er í lagi Ove, svaraði ég, og hann spratt upp úr stólnum og fór að sinna sínu. Síðan fór hann til USA og ég í stólinn hans. En svo bara fór það svo að það sem ekki átti að ske, það skeði. Upp kom leiðinda mál og ég varð að takast á við það. Það voru símahringingar fram og til baka, reiðir foreldrar, síðan leiðir foreldrar og að lokum alveg ringlaðir foreldrar. Það var símafundur og umræður og svo bara allt í einu; málið var svo farsællega leyst og allir voru sáttir og ánægðir eftir því sem aðstæður leyfðu.

Ég hugsaði mikið um þetta á leiðinni heim úr vinnu þann dag og líka eftir að ég kom heim og ég var ánægður með sjálfan mig. Eiginlega fannst mér sem ég hefði ekki hætt 2007 og þetta hefði bara verið beint framhald á venjulegri vinnu minni eins og hún var þá. Ég virtist kunna vinnuna mína. Mér fannst líka sem ég hefði tekið þetta af meiri yfirvegun en ég tók hlutina áður.

Svo minntist ég sjónvarpsviðtals við mann nálægt áttræðu, mann sem hafði leitt stórt fyrirtæki og í staðinn fyrir að verða ellilífeyrisþegi í fullu starfi tók hann að sér nýja vinnu í næstum fullu starfi. Hann lifði mjög litríku og ánægjulegu lífi.

"Ég get þetta ekki" eru sorgarorð á hvaða tungumáli sem er. Þetta las ég á Facebook stuttu eftir atvikið sem ég nefndi áðan og er úr bókinni "Vegur til farsældar". Ég geri ráð fyrir að einhver vitur og þekktur maður hafi sagt þetta en ég veit ekki hver eða hvenær. Ég á bók sem heitir "Kyrrð dagsins" og daginn sem fyrrgreint mál leystist í Vornesi segir texti dagsins í þeirri bók: Fátækir menn þrá auðævi, ríkir menn himnaríki en vitrir menn þrá friðsæld. Þessi orð eru höfð eftir manni sem hét Swami Rama og lifði frá 1873 til 1906, indverskur maður.

"Ég get það" en ég er ekki gríðarlega spenntur yfir því að gera það -en ég ætla samt að vinna næstum fulla vinnu síðustu fjóra mánuði ársins. Ég blessunarlega þrái ekki auðævi og ég er ekki ríkur og ég vil sannarlega skipa mér í hóp þeirra sem þrá friðsæld. Hversu vitran ég tel mig vera ætla ég að hafa fyrir sjálfan mig en ég vil gera greinarmun á vitur og gáfaður. Ef ég vinn þessa fjóra mánuði skapa ég betri aðstæður til að lifa friðsælu lífi eftir það og í leiðinni get ég kannski stuðlað að því að barn fái heim pabba eða mömmu, að kona fái heim manninn sinn, eða maður konuna sína. Að velja friðsæla veginn er besta leiðin inn í himnaríkið. Svo á ég svo duglega konu að hún leggur á sig að vera ein heima meðan ég er í vinnu. Ég haga mér dálítið eins og ég hafi loforð um að lifa áfram í áratugi en ég er bara lítill maður og tek því sem mér verður gefið og reyni að spila úr því á minn besta hátt.

Íslenska kreppan teygir sig langt út fyrir landsteinana fyrir suma. Væri ég yngri maður í fullri vinnu fynndi ég ekki fyrir henni. Ég hef möguleika á að takast á við kreppuáhrifin og geri það og því lifum við ekki í kreppu að öðru leyti en því að við verðum vör við umræðuna. Að skrifa þetta hefur verið einskonar sálkönnun fyrir mig. Ég er búinn að taka langan tíma í það og breyta því mikið á leiðinni. Ég hef svo sem enga ástæðu til að birta það en það er alla vega blogg sem inniheldur engin leyndarmál og ekkert sem ég skammast mín fyrir.

---------------------------------------

Ps. Annar indverskur maður að nafni Swami Rama var uppi á árunum 1925 1996. Báðir virðast þeir hafa verið hugsuðir og fræðimenn -vitrir menn. Sá fyrri varð ekki nema 33 ára.
RSS 2.0