Lok plómutíðar

Fyrirsögning, Lok plómutíðar, minnir á ákveðna árstíð og það leynir sér ekki hvert stefnir. Þokan liggur yfir og skyggni kannski 150 metrar, hitamælirinn stendur á +11 gráðum og allt er mjög rakt. Það mun hausta í ár líka. Lauffall er þó ekki byrjað en hluti af botngróðrinum í skóginum er byrjaður að sölna. Ég gekk út í skóg í gær og burknarnir sem sums staðar ná upp í bringu eru enn hraustlega grænir og stoltir. Það þótti mér góðs viti.

Sum ár er lítið af plómum og önnur ár er mikið afplómum. Tvö síðsutu ár hafa ólíkar aðstæður verið þess valdandi að það hefur verið lítið af plómum. Í ár er mikið plómuár, það mesta síðan hann Kristinn dóttursonur var hér, klifraði í trénu og plokkaði niður plómurnar fyrir afa og ömmu.


Þessi mynd er tekin fyrir fáeinum vikum en þá eru ljósu plómurnar fallegastar að sjá þar sem þær hanga í klösum á greinunum. Tréð hefur verið að sligast undan byrðinni enda styrkt nú undir haustið með staur. Við erum með nýtt tré sem ber bláar plómur. Það er nágranni trésins með ljósu plómurnar.


Núna urðum við að bjarga okkur sjálf þar sem Kristinn er ekki hér og Valdís hélt á ílátunum en ég klifraði og plokkaði niður. Þetta er reyndar í þriðja skiptið í ár sem við tínum plómur úr trénu okkar og það er eiginlega að verða síðasti möguleikinn að gera það. Bragðið af þeim er aðeins farið að dofna. Samt er gríðarlega mikið eftir á trénu. Við bara ráðum ekki við allt saman.


Það er býsna girnilegt að sjá þetta á eldhúsbekknum.


Svona lítur það út þegar Valdís er búin að gera plómumarmelaði og þetta er bara hluti framleiðslunnar. Gott er það, til dæmis ofan á ostinn á ristaðri brauðsneið. Betra en sætabrauðið. Í dag er svo sultugerðardagur á Sólvöllum. Valdís annast það en ég verð ekki í letistólnum heldur. Lífið heldur áfram með sínum sýslum og daglega brasi og sólin heldur áfram að koma upp á morgnana þó að skammdegið sígi nær og nær. Ef manni tekst þokkalega að spila úr lífinu finnst ljós í skammdeginu líka.


Kommentarer
Þórlaug

Það hlýtur að vera gaman að geta skroppið út og tínt af trjánum sínum og unnið úr því.

Hérna tínum við ber og erum búin að tína mikið af bláberjum sem Jói notar í hafragrautinn allt árið. Í gær fórum við Ólöf svo með Írisi og tíndum hindber af runnum sem hún sýndi okkur. Við ætlum að tína meiri ber í haust, það er svo gott að hverfa út í náttúruna frá amstri dagsins.



Bestu kveðjur til ykkar beggja í sveitinni,



Þórlaug

2011-09-04 @ 01:21:34
Guðjón

Við hlökkuðum svo til í vor að tína öll þau bláber sem við sáum að mundu verða í skóginum bara hér rétt bakvið húsið. En svo kom fröstnótt á óheppilegum tíma í maí og allur aragrúinn af þessum litlu blómum sem áttu að verða bláber urðu frostinu að bráð -engin bláber. Eplatrén eru svo lítil ennþá að það eru bara þrjú epli sem við fáum af þeim á þessu hausti.



Kveðja til ykkar frá Sólvöllum,



Guðjón

2011-09-04 @ 08:57:51
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0