Það var þannig fyrr á árum

Það var þannig fyrr á árum að ef ég rak nagla í spýtu eða sagaði planka þá skrifaði ég blogg um það. Flestar af mínum mörgu dellum sem ég hef gengið með gegnum lífið hafa smám saman hjaðnað niður á mátulegt stig eða jafnvel horfið alveg. En Sólvalladellan hefur aldrei hjaðnað og má heldur ekki gera það. Svo er ein della til sem ég verð að nefna og það er bloggdellan. Ég vil heldur ekki verða af með hana en þarf kannski ekki að vera svo nákvæmur í frásögnum af gerðum mínum í lífinu sem ég var, en þó get ég sagt að það skemmdi hvorki mig eða aðra. Þannig er því nú varið. Nú vil ég koma því á framfæri að ég er snarlifandi.
 
Þegar við komum á Sólvelli í upphafi var mjög þéttur skógur að baki húsinu og mjög nálægt því. Nú hefur þessi skógur verið grisjaður og á ákveðnu svæði felldur með öllu. Þegar það var gert urðu eftir þessi nöknu tré sem við sjáum á myndinni og þannig er það að þegar þéttur skógur er felldur birtast tré sem eru nakin langt upp eftir stofninum. Nöknu trén á myndinni eru flest aspir og ég kalla þær langskankana. Langskankarnir eru um og yfir tuttugu metra háir og ekki til prýði þegar þeir eru komnir í skógarjaðar. Í fyrra fjarlægði ég börkinn neðst á trjánum allan hringinn. Ég gerði það til að þau skjóti ekki ótal rótum þegar þau verða felld. Í haust eftir lauffall felli ég átta langskanka. Þeir eru nefnilega fleiri en sjást á myndinni en þeir sjást af veröndinni bakvið húsið. Og bara svo að þið vitið; ég læt yfirleitt ekki bera of mikið á þeim þegar ég birti myndir frá Sólvöllum. Hvað skal svo koma í staðinn?
 
 
Fyrir um það bil tíu árum keypti ég ekta hengibjörk, um tveggja metra háa, og gróðursetti þar sem ég taldi að myndi passa en vissi samt ekki hvað ég var að gera. Nú er þó komið í ljós að hengibjörkin er á alveg frábærum stað og henni hefur liðið ákaflega vel gegnum árin. Ég giska á að hún sé nú tíu metra há og falleg er hún alveg með afbrigðum. Fyrir nokkru síðan sátum við á veröndinni að húsabaki, borðuðum morgunverð og horfðum mikið á hengibjörkina. Þá kom ég fram til að ég yrði að setja einar tvær hengibjarkir að baki langskönkunum og ég sá fyrir mér hversu fallegur skógarjaðarinn kemur til með að verða þarna eftir tíu ár. Ég verð svolítið eldri þá en ég trúi að fyrir vikið verði ég bara ennþá glaðari yfir framtakinu. Ég er þegar byrjaður að rækta hlyni og eikur á þessu svæði sem byrja ekki að njóta sín fyrr en langskankarnir hverfa.
 
 
 
Í apríl ætla ég að gróðursetja þessi nýju tré og ég skal taka vel á móti þeim og holurnar eru tilbúnar fyrir þau bæði. Ég get ekki sagt að ég byrji á svona grefti með sérstakri ánægju en þegar ég er kominn vel af stað er ég glaður yfir að hafa heilsu til að geta grafið eins meters breiða holu og næstum hálfs meters djúpa, sérstaklega við þau skilyrði sem eru í skóginum hér.
 
 
Ég lyfti ekki þessum steini upp úr holunni og mér tókst ekki að vega hann upp heldur en á hnjánum tókst mér að velta honum upp og til hliðar. Svo horfiði ég á steininn og var ánægður með heilsu mína. Það var grobb af minni hálfu að stilla skóflunni upp framan við hann.
 
 
Hún Stína fyrrverandi nágranni minn spurði mig einu sinni, þá um tvítugt, hvort ég vissi hvað væri mest af í Krekklingesókn. Nei, ég vissi það ekki. "Grjót", sagði hún þá. Það virðist orð að sönnu en svo vex skógurinn vel í þessu eigi að síður. Það er spurning hvort það yfir höfuð þarf að grafa, og þó. Það er ekki spurning að það mun gera þessi verðandi Sólvallatré mun stærri eftir tíu ár. Söguna um Stínu og grjótið hef ég sagt svo oft að hún fer að verða útvötnuð svo um munar.
 
 
Hér er nærmynd af hluta af hengibjörkinni fallegu. Greinarnar á þessu kvæmi eru afar beinar, mjög mislangar og gefa trénu alveg sérstakan blæ. Þétt lufhafið vex á fjöldamörgum örgrönnum þráðum sem hanga beint niður og eru niður í einn millimeter í þvermál. á þessu tré eru þræðirnir þegar orðnir meira en tveggja metra síðir og verða ennþá lengri. Ég hef þegar pantað sama kvæmi og hæðin verður tveir til tveir og hálfur meter. Ég yrði skaparanum afar þakklátur ef ég fæ að sjá þessi tvö tré þegar þau hafa náð tíu ára aldri. Það sama gildir um allt sem ég hef staðið að hér að hvert ár sem ég fæ að sjá það þróast og vaxa eru mér til mikillar ánægju.
 
Jæja, ekki meira að sinni. En ef einhver hefur verið undrandi yfir þögn minni, þá er það alveg ljóst að ég er snarlifandi. Haldið áfram að njóta sumarsins.
RSS 2.0