Broddabústaður og fleira bauk í sveitinni

Á fimmtudaginn var fékk ég einn vörubílsfarm af mjög góðri gróðrarmold sem ég meðal annars ætla að nota í lítinn kartöflugarð. Sama dag, á fimmtudagskvöldið, sáum við Brodda í fyrsta skipti á sumartímabilinu. Eftir allt mögulegt smávegis á föstudagsmorguninn fór ég út í vinnufötunum sem ég nota í verstu verkefnin hér heima, stígvél einnig, og byrjaði að plokka grjót úr verðandi kartöflugarði, nokkuð sem virtist í ómældu magni af ýmsum stærðum. Eftir að hafa raðað snyrtilega nokkrum hjólbörum af þessum steinum við hliðina á garðinum, jafnað þennan litla garð og gert hann tilbúinn fyrir gróðrarmoldina, fannst mér sem ég hafði unnið nóg af líkamlegu striti þann daginn. Ég breytti til.

Susanne var inni og skipulagði verðandi Norðulandsferð okkar sem við ætlum að fara á fyrri hluta síðsumarsins, meðal annars með því sem kallað er Innlands lestin. Hún vissi að ég hafði ætlað að vinna í kartöflugarðinum. Allt í einu heyrði hún ákveðin hamarshögg dynja úti. Jahá, hefur hann nú byrjað að smíða kartöflugarð líka.

 

Hún kom út með iPadinn sinn sem er með ótrúlega góða myndavél. Ég skal viðurkenna að ég lyfti hamrinum nokkuð hærra en annars þegar ég tók eftir að hún var að taka mynd af mér. Ég var byrjaður að smíða Broddabústaðinn sem ég hef haft í huga í nokkur ár.

Broddahús, af hverju það? Broddgeltir standa höllum fæti. Þeir eru óbreytt dýr síðan ótrúlega margar miljónir ára aftur í tímann. Í áratugi á síðustu öld dóu þeir af eiturefnum sem voru notuð í landbúnaði og umferðin drepur marga. Þeir eru ekki sterkir til dæmis gagnvart þurrkum og þeir eru næmir fyrir sjúkdómum. Jafnvel þó að við trúum að þeir séu vel varðir með broddunum sínum eiga þeir marga óvini í náttúrunni. En flest fólk, trúi ég alla vega, ber virðingu fyrir þessum vinalegu dýrum og þykir skemmtilegt að hafa þau í nábýli við sig. Þess vegna byggja menn hús til að vernda þessa þægilegu dýrategund. Svo einfalt er það.

 

Hugsanlega kem ég til með að setja skilrúm þarna inni. Það ætti að vera pláss fyrir tvo en ég hef ekki nægjanlega þekkingu á því ennþá.

 

Það er að finna mikið úrval af teikningum á netinu, teikningum fyrir broddgaltahús, til og með fjölbýlishús fyrir þá. Ég valdi ekki einföldustu teikninguna og ég ákvað meria að segja að hafa "stromp" á Broddahúsinu okkar. Það er ráðlagt að láta lofta vel um húsið.
 
Ég kem til með að fylla upp að húsinu með mold og kannski að láta mold hylja það alveg. Þess vegna valdi ég teikningu með löngum inngangi. En ég vil fyrst sjá að húsið þjóni hlutverki sínu, líka að ég hafi valið góðan stað fyrir það. Þar sem það á að vera þurrt í húsinu ákvað ég að hækka svolítið undir það. En þá verður haugurinn líka hærri þegar ég fylli að því. Ég valdi þykkan borðvið og við sem hefur vaxið hægt. Þannig borðvið fæ ég hjá litla sögunarverkinu hér í sveitinni. Þetta Broddahús mun væntanlega lifa mig.

Það tók nokkra klukkutíma að smíða þetta og undir það setti ég rúmar hjólbörur af möl. Ég meira að segja notaði hallamál við að slétta mölina. Það var kannski ekki nauðsynlegt en ég geri gjarnan það sem mér finnst skemmtilegt í lífinu.

 

Fjarlægðina frá íbúðarhúsinu reyndum við að velja mátulega og það var mikilvægt að sjá það af veröndinni. Lokið er svolítið snúið en það er í vinnslu að lagfæra það. Broddinn okkar á ekki að búa undir neinu fúskþaki.

Ég skrifaði þetta á sænsku í morgun og hvatti þá sem lesa að hlú að broddgöltunum sínum. Það eru alls ekki svo margir sem vita að það er hægt að búa þeim hús að eiga heima í.

Í fyrradag vann ég meðal annars við kartöflugarðinn og að smíða Broddahús. Í gær var það áframhald við Broddahúsið og síðan að hreinsa skurð sem er bakvið húsið. Það er mikið lauf að hreinsa úr þessum skurði á vorin. Skurðurinn tekur meðal annars við vatni frá sandsíunni sem hreinsar endanlega klóakvatnið frá húsinu. Þetta er mikilvægt og óhjákvæmilegur hluti af því að búa í sveit eins og við gerum.
 
Í dag er það sunnudagur og ég hef gert eins og mig hefur dreymt um lengi; að halda sunnudaginn heilagan. Engin skítug vinnuföt í dag, það var langur morgunverður, síðan sjónvarpsmessa og svo vorum við í ríkulegu miðdegiskaffi á stað sem heitir Tant Grön sem gæti kannski þýtt Græna kelling á íslensku. Svo keyptum við avókadó handa honum Brodda okkar.
 
Eigið gott kvöld.
 

 
 
 
 
RSS 2.0