Á Sólvöllum

Halló halló!
Stífri vinnuviku er lokið og við erum komin í sveitina. Þegar ég kom frá Vornesi var Valdís tilbúin með allt sem við þurftum að hafa með okkur. En áður en við fórum af stað þurfti ég að færa yfir peninga af lífeyrisgreiðslunum mínum frá lífeyrissjóðum. Það var ekki létt að gera þetta fyrir nokkrum mánuðum. Þá var ég reiður þeim íslendingum sem höfðu spanderað peningum svo í óhófi að tekjurnar okkar Valdísar frá Íslandi höfðu rýrnað um meira en þriðjung. Svoleiðis er bara ekkert grín. En nú er það svo að ég vil ekki láta þessa íslendinga skaða mig á sálinni og því er ég ekki lengur reiður þegar ég flyt peningana. Hins vegar lít ég ekki upp til þeirra. Hér með lýkur fjármálaþætti mínum og ég fer yfir á hollari umfjöllunarefni.

Sumarið er búið að standa yfir frá því í seinni hluta apríl og þegar ég skrifa þetta finnst mér sem ég sé búinn að skrifa það áður. Það verður ekki fyrr en ég skrifa það í fimmta sinn sem ég fer að hiksta í alvöru. Skógar eru óvenju fallegir og þeir virðast safaríkir eftir ríkulega rigningu í mánuðinum. Ég tók saman úrkomu mánaðarins hér á sólvöllum í ágúst og reyndist hún vera 189 mm. Það þýðir að það hafa fallið niður 1550 tonn af vatni á Sólvallalandið í þessum mánuði. Þessir 189 mm á einum mánuði verða ekki mikið ef borið er saman við mestu sólarhringsúrkomu á Íslandi sem féll á Kvískerjum árið 2002, en það voru 293 mm. Í gær rigndi líka 111 mm á Kvískerjum en bara 27 mm á Sólvöllum í Krekklingesókn.

Eftir að við komum hingað dreif Valdís í að ganga frá farangri okkar en ég málaði nokkra lista sem ég ætla að nota á morgun. Síðan fór Valdís að horfa á sjónvarpsþátt sem heitir Dubido. Maður getur spurt sig hvað það þýði og það þýðir bara svipað og þegar steinaldarmaðurinn Fred Flintstone öskraði dúbbiddidú í myndinni Steinaldarmennirnir eða hvað hún nú hét.

En meðan Valdís horfði á þennan þátt fór ég í nauðsynlega hringferð í skóginum. Það verður að hafa eftirlit með því hvernig trjánum gengur að búa sig undir haustið og veturinn. Það er fróðlegt að fylgjast með margumtalaða beykinu sem við ræktum hér í tilraunaskyni. Eiginlega finnst mér sem elsta beykið, það sem nú er búið að ljúka sínu þriðja sumri hér í skóginum, sé komið yfir tilraunatímabilið og sé búið að sanna að það getur vaxið hér. Þetta þriggja sumra beyki óx upp í 65 sm í vor. Meðan á vaxtartímanum stendur er vaxtarsprotinn hálf gegnsær, horgrænn á litinn og lafir þannig að það er næstum sem hann komi kannski til með að leka til jarðar. En svo þegar líður á sumarið fær vaxtarsprotinn á sig lit, trénar og fær börk. Og ekki bara það. Þessir hangandi veiklulegu sprotar rétta úr sét og fara að nálgast að standa beint út fyrir utan einhvern af efstu sprotunum sem hægt og rólega fer að teygja sig mót himni. Núna þegar ég fór hringferðina í skóginum sá ég að efstu sprotarnir höfðu breytst mikið frá því um síðustu helgi. Þeir stóðu nánast beint upp. Nú var þetta farið að líkjast einhverju sem gladdi mig, eða með öðrum orðum; beykin sem við fluttum í hitteðfyrra höfðu hækkað um allt að 65 sentimetra. áður höfðu þau aðallega breikkað.

Nú er farið að líða á kvöld og mál fyrir smið að fara að sofa þar sem ég ætla að smíða mikið um helgina. Svo vinn ég í Vornesi mánudagskvöldið og fram á þriðjudagsmorgun því að dagvinnutímabili mínu í Vornesi er lokið að sinni, eða þangað til næst eins og forstöðukonan orðaði það þegar ég kvaddi í dag. Á miðvikudag kemur rafvirki til okkar á sólvelli og þá þarf ég að vera búinn að gera ákveðna hluti.

Nóg að sinni, kveðja, Guðjón

Þankar um lífið


Þessi mynd er tekin af Valdísi og Rósu Kára frá Hrísey þar sem þær standa á heimkeyrslunni heim að Vornesi einn svo hlýjan og fallegan snemmsumardag í seinni hluta maí. Nú, þremur mánuðum seinna, lítur þetta svipað út. Nú er ég á ferðinni í Vornesi alla virka daga og suma helgardaga líka í einn mánuð. Ég er í gamla starfinu mínu og það er nokkuð svo skemmtilegt. Ég veit hvað ég er að gera þó að langur tími sé liðinn og allt meðferðarheimilið virkar. Ég mundi samt ekki vilja byrja í gamla starfinu mínu til frambúðar. Sjálfsagt er ég orðinn ofdekraður af að vera ellilífeyrisþegi í eitt og hálft ár með kannski 60 % vinnu að jafnaði. Svo er það orðinn svo stór hluti af lífinu að vera á Sólvöllum að eftir nokkurra daga fjarveru fæ ég heimþrá. Í morgun var mikið veikur maður í Vornesi og hann var sóttur af sjúkrabíl. Hjúkrunarfræðingurinn var í fríi en kom til að annast að allt gengi samkvæmt kröfum. Hún kom beint úr sveit og hafði gengið yfir ný sleginn bala á leið sinni út í bílinn þar heima. Þegar sjúkrabíllinn hafði ekið úr hlaði gekk ég eftir gangi þar sem hjúkrunarfræðingurinn gekk eftir þegar hún kom. Þar lá sterkgræn, rök grastugga á gólfinu sem hafði dottið af skónum hennar þegar hún kom. Þessi grastugga minnti mig á myndina hér fyrir neðan og þar með fór ég að hugsa um Sólvelli, og að hugsa um Sólvelli gerði það að verkum að ég fór að hlakka til næstu helgar. Ég varð himin lifandi glaður yfir að þessi staður finnst fyrir okkur og mér varð hugsað til skemmtilegra verkefna sem við ætlum að vinna við þar um helgina. Þökk sé manninum sem varð veikur og að hjúkrunarfræðingurinn var í fríi svo að hún þurfti að ganga yfir ný slegna blettinn við húsið sitt í sveitinni á leiðinni til Vornes, þá fékk ég upplifa þessi hamingjuaugnablik. Svo hélt vinnan áfram eins og ekkert hefði í skorist.

Þessa mynd hér fyrir ofan tók Valdís á Sólvöllum eftir að hún hafði á skömmum tíma geystist með sláttuvélina yfir 2000 fermetra grasflötinn þar. Hún bar á í vor og grasflötin varð sællega græn um tíma. Síðan tók við hita- og þurrka tímabil og flötin varð brún á köflum af þurrki. Í rigningunum nú í ágúst hefur grasflötin hennar Valdísar orðið fallegri en nokkru sinni síðan við komum til Sólvalla.





Glugginn hér fyrir ofan var ákveðinn seint og síðar meir og löngu eftir að húsið var reist. Þessi gluggi er á norðurstafni og bak við gluggann er væntanlegt svefnherbergi á Sólvöllum. Við ætlum að innrétta herbergið upp í þak og hafa stíl á því samkvæmt okkar skilningi á hugtakinu. Glugginn á að veita birtu inn undir þakið og gefa þægilega birtu í herbergið sem gott verði að vakna við á fallegum morgnum. Þarna á myndinni var ég búinn að sníða gereftin á gluggann. Síðan tók ég þau niður til að mála vandlega og eitt af verkefnum næstu helgar verður að negla gereftin upp til frambúðar.



Og að lokum, hér er unnið af fullum krafti við innréttingu á þessu framtíðar svefnerbergi á Sólvöllum, herberginu sem er innan við stafngluggann á næstu mynd ofan við. Til hægri sést út um austurgluggann móti skóginum. Nú þegar ég er búinn að ganga frá þessari mynd sé ég að hún er líka næsta mynd fyrir neðan. Ég nenni ekki að breyta því og hugga mig bara við það að stóru fjölmiðlarnir gera þetta líka. Þeir nota oft sömu myndirnar hvað eftir annað þegar þeir fjalla um alla mögulega ólíka hluti.
GB

Fyrsta bloggið frá Sólvöllum!!

Þetta er nú alveg magnað að vera að blogga á Sólvöllum. Það vafðist fyrir mér hvort það yfir höfuð ætti að vera tölva hér. Svo þegar möguleikinn var fyrir hendi gat ég ekki staðið á móti því. Fartölvan hans Péturs var orðin of lítil fyrir hann, of gömul eða hvað það nú var og hann spurði hvort við vildum fá hana hingað -og nú er hún hér.

Rósa og Pétur sem voru búin að vera hér í tæpa viku fóru heim seinni partinn í dag og nú sitjum við hér tvö við Valdís. Það er búið að gera mikið hér þessa daga. Þau koma ekki til að liggja í sólinni. Það hafa staðið yfir smíðar og panell var rifinn af heilum húsgafli sem var orðinn innanhúss og einangrun var fjarlægð af hluta af loftinu yfir gamla húsinu.
Þegar við byggðum í Sólvallagötunni í Hrísey einangraði ég útveggina með þremur tommum og loftið með fimm tommum. Það var mikið í þá daga. Á Sólvöllum einangrum við þrisvar sinnum meira og þá verðum við líka að útbúa undirbúa sérstaka loftganga utan við einangrunina. Á þessari mynd er unnið að því.


Það þarf líka að hugsa og ræða málin inn á milli og hvíla handlegginn.


Og það þarf að mæla sníða og saga og allt passaði.


Svo var gamli panellinn rifinn af gamla húsgaflinum. Það er að sjá að Rósa eigi von á að fá ryk í augun og er því við öllu búin.


Pétur tók völdin inni og sendi út eina borðið eftir annað.


Þar vorum við Rósa og höfðum varla undan að naglhreinsa.



Svo var farið að kíkja inn á gamla loftið og huga að einangrunni þar, og ekki bara einangrun fannst þar uppi. Þar var hellingur af listum, borðum, stólum og vissum verkfærum og allt þetta var búið að hvíla þarna uppi í 40 ár. Fyrst réðist Pétur á góðgætið en svo fannst mér að ég yrði að sýna minn dugnað líka á loftinu.


Einangrun og bylgjupappi hrúgaðist upp á gólfinu fyrir neðan og þessi einangrun var ekki öll falleg. Litlar sætar mýs voru búnar að hreiðra þar um sig í 40 ár og það skildi eftir sín spor. Nú gengur mikið af smíðavinnu á Sólvöllum út á að gera múshelt -ef það er þá hægt.


Ljósmyndarinn Valdís vatt sér í eldhúsið og tók fram báðar pönnukökupönnurnar og setti í gang pönnukökubakstur og bauð svo upp á pönnukökur í eftirrétt.


Regnskúr hafði myndað perlur á birkikvistinum kringum veröndina.


Og útsýnið var sjálfu sér líkt þegar við settumst út á veröndina og úðuðum í okkur pönnukökum.

Rósa og Pétur eru farin og nú er bara að hlú að minningunni um góða daga.

GB

Bloggs er þörf

Þvílík stund, ég er að prufa nýja útgáfu af blogginu í fyrsta skipti. Ég hef rembst eins og rjúpan við staurinn en ekki komist neitt áfram. Það lengsta sem ég komst var að mynd af Rósunum tveimur var án allra skýringa á blogginu mínu og nefndist myndin einhverju nafni sem átti ekkert skylt við hana. En nóg um bloggafsakanir núna. Hún Rósa dóttir mín er á ferðinni og þá leystist þetta allt saman.

Sá sem er á myndinni hér fyrir ofan er nágranni okkar á Sólvöllum. Það er broddgölturinn Broddi. Maður með hund var á ferðinni á götunni og Brodda líkaði ekki við hundinn sem fór að gelta eins og bjálfi þegar hann varð Brodda var. Þá reisti Broddi allt sitt nálakerfi og reyndi að láta lítið á sér kræla utan á grjótveggnum. Svo fór maðurinn með hundinn og Broddi fagnaði frelsinu og fór af stað að leita sér fæðu.


En áður en hann fór kíkti hann aðeins á Valdísi sem nú var komin á vetvang og það var Broddi mikið sáttari við en geltandi hundinn. Svo þegar þau höfðu fengið smávegis augnkontakt yfirgaf hann felustað sinn og hélt áfram ferðinni meðfram grjótgarðinum.

Núna ætla ég að prufa að vista þetta blogg og ef það tekst verð ég alveg makalaust ánægður. Við erum heima og eftir eina tvo tíma fara Rósa og Pétur með lest til Stokkhólms en við Valdís förum sem leið liggur á Sólvelli á etanolfordinum okkar. Framvegis verður hægt að blogga á Sólvöllum.

GB

Mynd af Rósum



Rósa Guðjónsdóttir kom í heimsókn þegar Rósa Káradóttir var hér, en um það er talað hér neðar í blogginu. Rósa Guðjóns var oft kölluð Rósa litla en Rósa Kára Rósa stóra. Ég sendi Rósu litlu sms og sagði þar að það væri fallega gert af henni að koma og hitta Rósu stóru. Rósa litla svaraði um hæl á þessa leið: Hún Rósa hefur alltaf verið góð við mig og svo er hún stórskemmtileg. Hér fylgir svo mynd af þeim nöfnum sem var tekin þegar Rósa litla kom til að hitta Rósu stóru síðari hluta maí. Myndin er að sjálfsögðu tekin á Sólvöllum.
RSS 2.0