Guðný systir mín

Við Guðný vorum að leika okkur í gamla skólanum sem lengi stóð í hlaðinu á Kálfafelli löngu eftir að hætt var að nota hann. Af einhverjum ástæðum stóð ég upp á bekk í norðvestur horni skólastofunnar og við hlið mér stóð mjór en dálítið hár kolaofn. Guðný stóð á miðju gólfi beint fyrir framan mig. Allt í einu missti ég jafnvægið, greip um ofninn og svo féllum við báðir í gólfið. Þar missti ég stærri hluta litla fingurs vinstri handar. Þetta er fyrsta minning um okkur saman sem ég get fundið í huga mér. Ég var sex ára og hún á tíunda ári.
 
Það var Guðný sem fyrst allra útskýrði fyrir mér að jörðin, heimili okkar allra, væri hnöttur sem svifi um í endalausum geimi. Ég varð skelfingu lostinn yfir þessum fréttum, var undirstaðan virkilega svo ótraust? Hún var ekki að hræða mig, hún var bara að leiðrétta misskilning minn á tilverunni.
 
Oft vorum við systkinin á Kálfafelli í sendiferðum. Sækja hesta, fara með kýrnar og sækja kýrnar, opna hlið fyrir fé hér og þar eða þá að loka hliðum, fara með skilaboð á næstu bæi eða fá eitthvað lánað. Mér fannst mjög notalegt að hálf hlaupa í þessum ferðum, eða skokka. Mér leið vel þegar ég skokkaði og mér fannst sem ég gæti skokkað endalaust án þess að mæðast eða þreytast. Það var eins og að vera tengdur bæði jörð og alheimi og þá fékk ég þann kraft sem til þurfti.
 
Einhvern tíma ræddum við Guðný undur og gátur tilverunnar. Þá allt í einu sagði hún að ef maður skokkaði mátulega hratt og létt, þá yrði maður ekki þreyttur. Þá man ég vel að ég varð hissa, mikið hissa. Var hún virkilega svona líka!?
 
Það sem ég er að segja eru minningar, ekki frásögn byggð á skráðum staðreyndum. Því sem ég hef sagt hér get ég ekki raðað niður í tímaröð og minningar eru heldur ekki öruggar, þær eru það sem lifir með okkur en tíminn hliðrar til.
 
Ég var kominn í Skógaskóla og Guðný var orðin mun meiri heimsmanneskja en ég. Hún var í Húsmæðraskólanum á Varmalandi 1956 til 1957. Eitt sinn eftir Varmaland hafði hún samband við mig frá Reykjavík og þá var ég í Skógaskóla. Hún talaði um að ég hlyti að vera í þörf fyrir þokkaleg föt til að vera í við betri tilfelli. Það varð úr að ég sendi henni mál af mér og hún sendi mér svo grá jakkaföt.
 
Ég mátaði fötin með hjálp einhvers og sendi þau svo til baka með skilaboðum um hvað þyrfti að fara betur. Með þessari hjálp hennar eignaðist ég mín fyrstu virkilegu jakkaföt. Ég er enn í dag þakklátur henni fyrir þetta, fyrir það að hún áttaði sig á þessu og fyrir hjálpina. Nokkru síðar þurfti ég að koma fram fyrir skólans hönd, og þakka þér bara fyrir Guðný systir mín og allar góðar vættir, að þá hafði ég eignast þessi jakkaföt.
 
Síðar varð langt á milli okkar, ég í Hrísey og hún á suðvestur horninu og síðar á Flateyri. Ég veit að hún óskaði þess innilega að fá heimsókn síns fólks til Flateyrar, en þær heimsóknir urðu örfáar. Þegar hún síðar fluttist til Skagastrandar árið 1974 jókst samgangurinn. Þau voru afar góð heim að sækja Guðný og Sveinn Garðarsson maður hennar. Sveinn lést árið 2019.
 
Þau bjuggu á tveimur stöðum á Skagaströnd og Guðný sá um að skapa fallegar lóðir, svo fallegar að af bar. Okkur leið vel þegar við skokkuðum í Kálfafellslandinu og fundum okkur í beinni tengingu við tilveruna. Þannig er ég líka viss um að henni leið þegar hún með sínum grænu fingrum mótaði og hlúði að lóðunum sínum á Skagaströnd.
 
Ég var fluttur til Svíþjóðar og viti menn, ég heimsótti hana aldrei til Flateyrar en hún heimsótti mig til Svíþjóðar ásamt Sveini manni sínum og dætrunum Birnu og Sigríði Björk. Mikið þótti mér vænt um þá heimsókn og þykir enn.
 
 
 
Á áttræðis aldri fór að bera á minnisleysi hjá Guðnýju. Þrátt fyrir allar góðar tilraunir versnaði sjúkdómurinn ár frá ári. Ég heimsótti hana í fyrrasumar og systir mín sem forðum útskýrði fyrir mér að jörðin væri ekki flöt, heldur hnöttur -ég var ekki viss um hvort hún þekkti mig. Við sátum góða stund við rúmgott borð á heimilinu þar sem hún bjó síðustu árin. Við sátum bæði við sama hornið, ég fyrir endanum og hún við langhliðina. Nokkrum sinnum nefndi ég hver ég væri og ég spurði hana líka gætilega hvort hún þekkti mig. Í öll skiptin svaraði hún með því að benda á litlafingurinn. Hún var með á sinn hátt. Óhappið í gamla skólnum á Kálfafelli árið 1948, sjötíu og þremur árum áður, tengdi okkur ennþá saman. Ef til vill eitthvað fleira, eða margt fleira, en þetta var áþreifanlegt
 
 
 
Árið 2017 heimsótti ég Guðnýju og Svein mann hennar og var þar líklega í þrjár nætur. Jónatan tengdasonur minn frá Vestmannaeyjum var á ferð á Norðurlandi og var kominn á Skagaströnd til að taka mig með suður yfir heiðar á ný. Það kom óvænt á Guðnýju og Svein að ég væri allt í einu að fara. Líklega hafði ég ekki komið því skírt á framfæri hvenær ég héldi suður á ný. Ég sneri mér við í útidyrunum eftir að hafa kvatt og leit til baka. Þar stóð þessi fjölskylda sem við sjáum á myndinni og ég bara varð að taka mynd.
 
Sorgin smaug langt inn í hjartað. Ég sá ekki betur en hann Sveinn mágur minn væri sorgmæddur líka. Hún systir mín lengst til hægri bar trúlega sínar sorgir einnig. Ég get spurt sjálfan mig; hvers vegna gaf ég þeim ekki  nokkra daga til viðbótar af lífi mínu. Kannski eru slíkar gerðir höfuðtilgangur þess.
 
Um miðjan janúar síðastliðinn varð Guðný fyrir áfalli og fljótlega virtist sem það yrði erfitt fyrir hana að ná sér upp úr því. Að lokum varð það þannig að ég bara beið eftir skilaboðum um að hún hefði kvatt. Það var aðfaranótt 20. janúar sem ég vaknaði af sérkennilegum draumi klukkan rúmlega hálf fimm að íslenskum tíma. Mín fyrsta hugsun var að nú væri Guðný systir mín dáin.
 
Og mikið rétt, þá var hún komin inn í land friðarins, hún var farin heim.
 
Stefán frændi minn á Skagaströnd og frænkur mínar Birna og Sigríður Björk, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra og fjölskyldna ykkar.
 
 
 
Guðjón og Guðný á Kálfafelli sitjandi á hverfisteininum fyrir um það bil 70 árum. Sessurnar voru kindagærur. Góðar sessur á þeim árum.
 
Útför Guðnýjar fer fram frá Hólaneskirkju á Skagaströnd í dag
föstudaginn 4. febrúar.
RSS 2.0