Við vorum bæði á Sólvöllum í dag

Góður hefur dagurinn verið í dag. Valdís var með á Sólvöllum í fyrsta skipti síðan um áramót og fór yfir það sem ég hef gert á þessum tíma. Svo hældi hún mér á hvert reipi og ég mátti gæta mín að velta ekki út úr skónum af monti. Þegar ég er einn fæ ég mér næringu á sem allra einfaldastan og skemmstan máta. Núna sá Valdís um þetta á annan hátt og það voru alvöru kaffitímar sem voru mikið skemmtilegri og nytsamari en þegar ég gleypi smávegis í mig bara til að mæta brýnustu þörfum. Það gekk líka afburða vel að smíða í dag, til dæmis við að klæða með utanhússpanel og að smíða bráðabirgðahurð fyrir verðandi forstofu. Það er gaman að allri smíðavinnu á Sólvöllum og þess vegna er eiginlega allt í lagi þó að það gangi hægt á stundum. En þó er stórt atrið að ég þurfi ekki að rífa eftir mig og því má ég ekki gera neinar vitleysur. Valdís var eiginlega ekkert hress þegar við lögðum af stað og var mér ekki alveg sama, en meðan við vorum á Sólvöllum var eins og hún hresstist öll og allar hreifingar, athafnir og spjall tók á sig nýja mynd. Það var ekki slæmt það.

Eftir svo sem tvær helgar verður gott að taka gott helgarfrí frá smíðavinnunni. Þá verður búið að loka öllu og klæða með panel. Undir panelinn set ég texplötur sem eru á einhvern hátt olíuvarðar og eru gerðar fyrir þetta. Þær gegna tvennu hlutverki; að gera húsið vindhelt og þær einangra líka. Gluggar eru í pöntun og ekkert liggur á með þá. Það er plastdúkur fyrir gluggaopunum. Núna þarf húsið að taka sig og þorna vel áður en byrjað verður að einangra.

Ég vinn þannig að annan hvern mánudag hef ég frí. Undanfarið hef ég tekið sumarfrí hinn mánudaginn þannig að ég hef bara unnið fjóra daga í viku. Núna nálgast að ég hætti í Vornesi og fram að því ætla ég nú að láta mér nægja að hafa bara annan hvern mánudag frían. Annars á ég 27 sumarfrídaga óúttekna. Það er ýmislegt sem ég vil koma í verk áður en ég hætti og ætla ég nú að snúa mér að því.

Ég talaði um það áðan að taka frí frá smíðum eina helgi. Þá helgi ætlum við að skreppa til Stokkhólms og heimsækja Rósu og Pétur. Það er skemmtilegt að koma til þeirra og það er yfir höfuð gaman að koma til Stokkhólms. Í ferðinni ætlum við að færa þeim við í arininn en þið megið alls ekki segja þeim frá því.

Hafið góðan dag

Var það bara tilviljun?

Í morgun leit ég yfir gamlan e-póst og sá meðal annars mail frá honum Val með bráðskemmtilegu efni um skánskan þungavélaunnanda. Ég skrifaði nokkrar línur og sendi þetta svo áfram til dætranna Rósu og Valgerðar og þá skrifaði ég svolítið um hann Val, þann ágætismann. Síðan fór ég á Sólvelli til að smíða eins og ég geri í flestum frístundum og tala oft um. Valdís var eftir heima. Það er vetrarveður og meðan hún er ekki búin að ná sér almennilega eftir lungnabólguna fer hún varlega. Það er frekar kalt að koma á Sólvelli og tekur nokkra stund að fá upp hitann þó fyrsta verkið sé að kveikja upp í kapisunni. Ég var með hálfgert samviskubit yfir að vera ekki heima en við erum þó bæði áhugasöm um að koma byggingar-framkvæmdum áleiðis. Þegar ég var búinn að vera nokkra stund á Sólvöllum hringdi Valdís og sagðist vera á leið í ákveðna verslun með Brynju konu Vals. Það fannst mér gott að heyra. Eftir þessa verslunarferð hringdi Valdís aftur og sagðist hafa haft félagsskap Vals og fjölskyldu og væri búin að hafa þau í kaffi og nú væru þau á leið í bæinn til að líta á ákveðinn markað sem er árlegur viðburður í Örebro og kallast hindesmessumarkaðurinn. Þannig fór það að Valdís hafði góðan félagsskap stóran hluta úr deginum þó að ég væri ekki heima. Ég er þakklátur þeim sem eru góðir við Valdísi. Svo er það þetta að mér var hugsað til Vals í morgun og svo kom öll fjölskyldan í heimsókn til Valdísar. Var það bara tilviljun?

Gangi ykkur allt í haginn.

Byggingarvinna og ellilífeyrir

Frímánudagur var hjá mér í dag og margt komst í verk. Það fyrsta var að fara í lungnamyndatöku og það gerðum við bæði. Valdís vegna þess að hún hefur verið með lungnabólgu og hefur ekki náð sér samkvæmt væntingum. Ég fór í myndatöku vegna þess að fyrir sjö mánuðum var í meðferð í Vornesi 43 ára gamall maður. Fyrst var hann í meðferð í einn mánuð og á næstu sex mánuðum var hann fjórum sinnum í endurkomu og var þá þrjá daga hverju sinni. Fyrir fáeinum vikum var hann í síðustu endurkomunni og nokkrum dögum seinna greindist hann með berkla. Þá var sett í gang stóráætlun til að sjá hverja hann hafði hitt og síðan eru allir þeir sem hann hefur umgengist sendir í lungnamyndatöku athugun. Þess vegna fór ég í myndatöku, fékk berklaprufu setta í annan handlegginn og yfirheyrður dálítið. Svo á að líta á berklaprufuna á fimmtudaginn. Ég sé þetta í fyrsta lagi sem góða skoðun og heilsueftirlit. Ef einhver greinist með smit er það pensilínkúr sem gildir og svo er það úr sögunni fyrir utan það að þá er farið að leita uppi þá sem sá smitaði hefur hitt. Þetta getur því orðið langdregið verkefni. En sem mér skilst eru berklarnir ekki bráðsmitandi. Svo ekki meira um það.

Síðan fór ég á Sólvelli og var þar við smíðar í fjóra tíma. Síðan ég hætti að liggja á hnjánum við að grafa holur eða leggja frárennslislagnir eða þá að vinna upp á þaki við hluti sem ég hef aldrei gert áður, þá gengur bara allt á undan áætlun.  Áður gekk allt langt á eftir áætlun. Það var mikið gott að vita ekki fyrirfram hvað verkin mundu taka langan tíma. Ef ég hefði alltaf vitað það hefðum við sennilega aldrei byrjað á viðbyggingu. En nú er það stóránægja hverju sinni sem hverju verkinu á fætur öðru lýkur á undan áætlun.  Einn svona dag hafði ég í dag. Það miðar vel áfram á Sólvöllum.
Klukkan fimm var ég mættur í bankann okkar í Kumla. Við skiptum við banka þar vegna þess að hún Helena nágranni okkar og sú sem seldi okkur bústaðsréttinn vinnur þar. Helena hafði boðið mér að fá ellilífeyris-  og hlutabréfasérfræðing til að líta á fjármál mín. Mikki kallast hann og virtist vita hvað hann talaði um. Hann ætlar að reikna all nákvæmlega út hversu mikið ég fæ hér í Svíþjóð, athuga að ég fái allt sem mér ber og sjá til að skatturinn verði lagður á þannig að ég fái engan eftirskatt. Þetta kostar ekkert annað en þau fastagjöld og vexti sem ég þegar borga til bankans. Gott hjá Helendu að stinga upp á þessu.

Svo aðeins um heilsu mína. Hjúkrunarkona sem ég hitti á sjúkrahúsinu í morgun spurði eftir heilsufari mínu. Ég sagðist vera hraustur utan við slitna mjöðm. Þá sagði þessi ágæta kona að maðurinn hennar væri líka fæddur 1942 eins og ég og hefði mjaðmavandamál. Og nú ætla ég að segja það sem ég má eiginlega ekki segja sagði hún. Hann fór einn dag að taka glukósamín og lagaðist mjög mikið við það. Hún lagði áherslu á "mikið". Ég keypti mánaðar skammt af glukósamíni eftir dvölina á sjúkrahúsinu. Nú hlakka ég til að verða mikið betri og vona að ég geti sofið. Ég nefnilega gefst alltaf upp á að taka vítamín þar sem ég sef þá mikið lausari og hvíldarminni svefni. Það þykir mér benda til að ég fái allt nauðsynlegt í fæðunni. Annars finnst mér heilsa mín vera afar góð miðað við aldur og i dag var ég hlaupandi upp og niður stiga á Sólvöllum. Það var ekkert mál fyrir mig og þar að auki var skítkalt í dag, eða 13 stiga frost. Það vissi ég ekki fyrr en ég hætti því að þá leit ég þá á hitamælinn. Stundum varð ég að vinna án vetlinga í dag og það var ekkert vandamál. Ég er ánægður með þetta og ef ég verð líka betri í mjöðminni verð ég ennþá ánægðari.

Gangi ykkur allt í haginn

Bylta

Í nokkrar vikur hef ég haft óþægindi undir herðablöðunum og oft hringinn í kringum mig og kenndi ég um að hryggjarliðir væu orðnir fastir saman. Þetta getur valdið býsna miklum óþægindum og hefur oft skeð áður og hef ég þá farið til hnykkis til að fá þetta lagað. Ég hafði þráast við all lengi að þessu sinni sem oftar og vonast til að þetta lagaðist af sjálfu sér sem það gerir sjaldnast. Í fyrrinótt dreymdi mig svo að ég var innan um fullt af fólki hingað og þangað og ég hef ekki hugmynd um hvar. Maður einn, sem ég held að hafi verið Guðni á Maríubakka, ætlaði að hjálpa mér að losa um festuna að þessu sinni. Ég fann strax á mér í draumnum að honum mundi ekki takast það sem og gekk eftir. Svo var ekkert meira með það og ég vaknaði af draumnum og fór í vinnuna. Óþægindin eltu mig allan daginn en ekki kom ég því í verk að hringja í hnykkinn. Það var þó jákvætt að ég var alveg óvenju góður í verri mjöðminni.

Ég fór snemma af stað úr vinnunni þar sem ég þurfti að sinna erindi fyrir Vornes niður í miðbæ hér í Örebro. Að því erindi loknu fór ég inn í stóra matvöruverslun þarna í miðbænum til að kaupa brokkólí. Ég geri það oft að kaupa holl matvæli þegar mér er eitthvað misdægurt. Þegar ég hafði fundið fallegt brokkólí á ótrúlega lágu verði tók ég stefnuna að afgreiðslukössunum með ákveðnu göngulagi gamals skaftfellsks smalamanns. Svo þegar ég gekk fyrir horn á hillusamstæðu steig ég víst ofan á illa farið lík af rauðu vínberi sem lá þar í safapolli af sjálfu sér á gólfinu. Breyttist þá mitt knálega göngulag með leifturhraði í einhverjar óskiljanlegar sveiflur sem hugsanlega líktust polkasveiflu drukkins Dalakarls á Jónsmessunótt. Síðan var sem ég lægi láréttur í loftinu í svo sem meters hæð eitt sugnablik, en að því loknu skall ég niður á gólfið og kom niður á annan olnbogann og verri mjöðmina. Maður einn sem var nálægur gekk að mér og horfði niður á mig, að því er virtist frá mér séð úr gríðarlegri hæð, og spurði hvort allt væri í lagi. Ég svaraði því játandi og stóð upp með mitt brokkólí sem ég hafði aldrei sleppt í danssveiflunni og tók þá eftir því að maðurinn var alls ekki svo hár sem hann virtist vera meðan ég lá flatur á gólfinu. En nú tók ég eftir nokkru. Það hafði losnað um hryggjarliðina og strengurinn sem hafði legið hringinn í kringum mig undir neðstu rifbeinunum var horfinn. Mér leið mikið betur þrátt fyrir að mjöðmin hefði versnað á ný. Svo sótti ég starfsfólk sem tók að sér að hreinsa gólfið og átti von á að það mundi vorkenna mér svolítið sem það gerði alls ekki. Þannig fór það að það sem Guðna á Maríubakka tókst ekki að laga nóttina áður lagaðist þegar ég kom niður á olnbogann. Ég var vel klæddur svo að olnboginn slapp óskaðaður. Tíminn hjá hnykki kostar allt að 500 kr sænskar (5000 ísl) svo að ég datt á góðum launum.

Nú er spáð heldur meiri vetri og ætla ég að vera í byggingarvinnu á Sólvöllum um helgina en hafa stutta vinnudaga þar. Valdís ætlar að vera heima og láta sér batna lungnabólgan en hún er nú á batavegi. Svo heldur lífið áfram og dagurinn lengist um sitt hænufet dag hvern eins og á fyrri árum.

Með bestu kveðju til hugsanlegra lesenda frá Valdísi og Guðjóni

Óveðursdagur

Klukkan er orðin hálf fimm og það er að sjálfsögðu komið svarta myrkur. Í dag er hið versta veður í Suður-Svíþjóð og átti líka að verða það hjá okkur hér á Örebrosvæðinu. En veðurguðinn áttaði sig auðvitað á því að Sólvellir eru ennþá í byggingu og eigendurnir eru ennþá svolítið óöruggir gagnvart fellibyljum. Ég var einn á Sólvöllum í gær og fór heldur ekki þangað fyrr en á fjórða tímanum. Kl 10 í gærmorgun fór ég að hjálpa honum Tryggva Þór og henni Svanhvíti að flytja. Áður en því lauk laumaðist ég í burtu og fór á Sólvelli til að klæða rúmlega helminginn af vesturveggnum með panel. Ég þorði alls ekki að hafa vegginn óklæddan ef veðrið skyldi verða virkilega vont. Ég var búinn að undirbúa verkið með því að sníða allan panelinn á lengdina og svo grunnmálaði ég endana þar sem ég geri ekki ráð fyrir að setja gerefti og horn upp á næstunni. Þið vitið þessi hvítu gerefti og horn sem gera rauðu stugurnar svo endemis fallegar. Það er ekkert afdrep á Sólvöllum þar sem hægt er að mála annars staðar en í sjálfri stugunni. Það var því ekkert um annað að gera en að hlíta því. Og svo pjattaður sem ég get verið notaði ég alla mína pjatthæfileika til að ekki skyldi einn einasti dropi lenda á gólfi eða mublum og það tókst, ekki einn dropi lendi á öfugum stað. Enn sem sagt; panell á vesturvegginn fór upp í gær og gerði húsið reiðubúið fyrir hið versta veður. Svo varð það líka mikið, mikið fallegra við þessa framkvæmd.

Í dag fórum við svo á Sólvelli til að sjá hvernig eignum okkar þar liði. Húsið stóð sig með prýði og ekkert dót var á ferðinni í vindgusunum. En eitt tré féll meðan við vorum þar. Það var selja sem var nálægt húsinu eða nokkra metra bakvið eldiviðargeymsluna fyrir þá sem til þekkja. Nokkrir aumingjar féllu í Sólvallaskóginum í hvassviðri fyrir fáeinum dögum. Þ e a s léleg tré sem þörf var að fjarlægja en ekki hefur unnist tími til. Þessi tré verða öll að eldiviði. Þá féll líka stórt grenitré um daginn, grenitré sem getur orðið að einum fimm gólfbitum og nokkrum útveggjastoðum í gestastuguna sem á að byggja eftir tvö ár. Ég vildi ekki fara í eftirlitsferð inn í skóginn í dag þar sem það var all hvasst en samt ekki svo hvasst sem hafði verið spáð. Menn hafa kálað sér á að gera svoleiðis. Kannski er núna fallið meira af byggingarefni en við vitum um. Ef svo er verður að taka höndum um það, fá það sagað, þurrka fram eftir sumri og koma því svo í geymslu hjá einhverjum af þessum vingjarnlegu bændum sem við höfum fyrir nágranna. Þessir bændur hafa alveg gríðar stór húsakynni margir hverjir sem þeir nota ekki að fullu.

Af hverju fellur svo mikið af skógi. Jú, jarðvegur er alveg gegndrepa af vatni eftir allar þær rigningar sem yfir hafa gengið í margar vikur. Svo er jarðvegur líka ófrosinn í allri sunnanverðri Svíþjóð. Hvort tveggja er afbrigðilegt miðað við árstíma og svo koma óvenju miklir stormar og hvernig á þessi fljótandi skógur að standa þetta af sér?

Klukkan er fimm. Valdís lagði sig og sefur. Hún er búin að vera lasin um skeið og var hjá lækni í vikunni. Hún greindist með lungnabólgu þrátt fyrir að hún er hitalaus. Hún fékk pensilín og nú vonum við bara að batinn komi með stormhraða. Það er hljótt og það er rótt hér heima. Í gær skrifaði ég út af netinu umsóknareyðublöð fyrir ellilífeyrisumsóknir. Ég ætla að líta á þau í kvöld. Það eru tímamót hjá mér. Ég hlakka til að þurfa ekki að keyra 126 km á dag úr og í vinnu. Ég hlakka líka til að geta ráðið tíma mínum meira sjálfur og ég hlakka til að geta gert allt mögulegt sem ekki er hægt er að gera með fullri vinnu. Ég hlakka til að geta setst niður og velt vöngum yfir svo mörgu og svo hlakka ég mikið til að geta klárað viðbygginguna á Sólvöllum. Svona get ég haldið áfram. Þrátt fyrir þetta allt er ég líka á varðbergi. Eitthvað mun koma mér á óvart á hinum nýja og óþekkta vegi. Þetta heldur þó ekki fyrir mér vöku en ég veit af því. Það var spennandi að flytja til Svíþjóðar á sínum tíma en það var líka að hætta sér inn á óþekktar lendur. Það kom líka í ljós að það lentu björg í götu okkar. En nú er gatan greið og svo mun það líka verða með ellilífeyrisgötuna. Ég vil gjarnan vinna eitthvað áfram en aksturinn sem ég gat um er ekki réttlætanlegur lengur. En ég mun sakna sjúklinganna mikið. Ég veit að ég mun geta fengið eitthvað að gera nær heimaslóð en ég læt það koma seinna. Nú er mál að linni. Betra væri að skrifa minna en jafnara. Já, það verður auðvitað ein af ellilífeyrisumbótunum. GB

Gleðilegt nýtt ár

Já, þá er nú komið nýtt ár -rétt einu sinni enn. Sem barn reiknaði ég oft út hversu gamall ég yrði árið 2000. Sem barn meina ég þegar ég gat byrjað að reikna svona smá dæmi, en það gat ég býsna snemma. Niðurstaðan var alltaf sú sama, að ég yrði 58 ára gamall þetta ár. En að verða 58 ára var hinu meginn við eilífðina svo að það var ekkert að velta fyrir sér. En nú er þessi aldur kominn að viðbættum sjö árum. Það er gaman að þessu.
Fyrsti vinnudagurinn á þessu ári er að baki. Ég svaf órólega í nótt en síðasta einn og hálfan tímann svaf ég þó eins og steinn. Svo heyrði ég klukkuna hringja og botnaði ekkert í þessum hljóðum þó að ég hafi svo oft heyrt þau áður. Ég var í djúpum svefni. Annars vakna ég oftast rétt áður en klukkan hringir. En þegar ég var búinn að heyra svo sem fimm óhugnanleg píp í klukkunni áttaði ég mig á því hvað var að ske og stoppaði hryllinginn. Svo kom ég í vinnuna og á morgunfund starfsfólksins kl hálf átta. Sumir töluðu ekkert um hvað þeir væru hressir þennan morgun, voru nokkuð orðfáir, en aðrir hældu því hversu morgunhressir þeir væru. Ég leyndi því ekki að ég væri alls ekki sprækur og þeir sem ekki höfðu talað um hressileika sinn voru í sama ástandi og ég. Það kom fram síðar. Einn hafði ekki sofið vegna þess að tunglið var næstum fullt. Annar hafði ekki sofið vegna þess að kettirnir hennar voru breima og einn sagðist hafa verið þreyttur í tvo daga. Svo leið öllum betur þegar sannleikurinn hafði komið fram. Svo er enn einn sannleikur og hann er; að síðustu nóttina eftir frí sofa flestir vinnufélaga minna hálf illa eða illa. Ég er í þessum hópi.
Aðal verkefni mitt í dag, alla vega það mikilvægasta, var að tala við verkstjóra nokkurra fyrirtækja allt norðan úr Dölum niður til Austur-Gautalands og bjóða þeim til eins dags fræðslufundar um starfssemi Vornes. Allir tóku þessu með miklum þökkum og vildu koma -fyrir utan einn sem var afundinn við mig. Ég var ekki lengi að skipa honum í flokk, í hóp þeirra sem hafa eigiðn vandamál. Ég veit nokkuð vel hvað ég syng þar. Ég mundi nú ekki skrifa þetta á sænsku.
Svo læt ég staðar numið þetta ágæta kvöld. Ég er orðinn nokkuð pattaralegur núna, mikið hressari en í morgun, og ætla á eftir að líta á bréfið sem á að koma í staðinn fyrir jólabréfið sem ekki kom út að þessu sinni. Lifið heil og gleðilegt ár.
RSS 2.0