Gleðilegt nýtt ár

Já, þá er nú komið nýtt ár -rétt einu sinni enn. Sem barn reiknaði ég oft út hversu gamall ég yrði árið 2000. Sem barn meina ég þegar ég gat byrjað að reikna svona smá dæmi, en það gat ég býsna snemma. Niðurstaðan var alltaf sú sama, að ég yrði 58 ára gamall þetta ár. En að verða 58 ára var hinu meginn við eilífðina svo að það var ekkert að velta fyrir sér. En nú er þessi aldur kominn að viðbættum sjö árum. Það er gaman að þessu.
Fyrsti vinnudagurinn á þessu ári er að baki. Ég svaf órólega í nótt en síðasta einn og hálfan tímann svaf ég þó eins og steinn. Svo heyrði ég klukkuna hringja og botnaði ekkert í þessum hljóðum þó að ég hafi svo oft heyrt þau áður. Ég var í djúpum svefni. Annars vakna ég oftast rétt áður en klukkan hringir. En þegar ég var búinn að heyra svo sem fimm óhugnanleg píp í klukkunni áttaði ég mig á því hvað var að ske og stoppaði hryllinginn. Svo kom ég í vinnuna og á morgunfund starfsfólksins kl hálf átta. Sumir töluðu ekkert um hvað þeir væru hressir þennan morgun, voru nokkuð orðfáir, en aðrir hældu því hversu morgunhressir þeir væru. Ég leyndi því ekki að ég væri alls ekki sprækur og þeir sem ekki höfðu talað um hressileika sinn voru í sama ástandi og ég. Það kom fram síðar. Einn hafði ekki sofið vegna þess að tunglið var næstum fullt. Annar hafði ekki sofið vegna þess að kettirnir hennar voru breima og einn sagðist hafa verið þreyttur í tvo daga. Svo leið öllum betur þegar sannleikurinn hafði komið fram. Svo er enn einn sannleikur og hann er; að síðustu nóttina eftir frí sofa flestir vinnufélaga minna hálf illa eða illa. Ég er í þessum hópi.
Aðal verkefni mitt í dag, alla vega það mikilvægasta, var að tala við verkstjóra nokkurra fyrirtækja allt norðan úr Dölum niður til Austur-Gautalands og bjóða þeim til eins dags fræðslufundar um starfssemi Vornes. Allir tóku þessu með miklum þökkum og vildu koma -fyrir utan einn sem var afundinn við mig. Ég var ekki lengi að skipa honum í flokk, í hóp þeirra sem hafa eigiðn vandamál. Ég veit nokkuð vel hvað ég syng þar. Ég mundi nú ekki skrifa þetta á sænsku.
Svo læt ég staðar numið þetta ágæta kvöld. Ég er orðinn nokkuð pattaralegur núna, mikið hressari en í morgun, og ætla á eftir að líta á bréfið sem á að koma í staðinn fyrir jólabréfið sem ekki kom út að þessu sinni. Lifið heil og gleðilegt ár.


Kommentarer
Rosa

pabbi minn! þarftu ekki að fara að uppdatera síðuna þína?

2007-01-12 @ 11:46:18


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0