Gamall er ég ekki

Að ég tali um ónýta mjöðm og aðgerð þar að lútandi getur gengið út í öfgar en ég má nú til með að skjalfesta ögn um þetta. Ég fór upp til sjúkrahússins í Lindesberg fyrir tíu dögum og hitti helling af skemmtilegu og góðu fólki. Sá fyrsti sem ég hitti var bæklunarskurðlæknir sem heitir Sune, lágvaxinn, grannur, líflegur kall, trúlega á sextugs aldri sem væntanlega gerir á mér mjaðmaaðgerð einhvern tíma í október. Hann snaraðist þarna í kringum mig, prufaði hreifanleika á löppunum á mér, sýndi mér röntgenmynd á stórum tölvuskjá, lagðist á hnén á gólfið og tók í vinstri fótinn og hló þegar það brakaði í liðamótum. Hann spurði hvernig ég notaði tíma minn og bara um allt mögulegt. Svo talaði hann um hvað ég gæti ekki gert eftir aðgerð og á hverju ég þyrfti að gæta mín. Og svo kom rúsínan í pylsuendanum. Þú verður að gera þér grein fyrir því, sagði hann, að það er ekki bara vinstri mjöðmin sem er sextíu og sjö ára. Þú ert allur sextíu og sjö ára. Og viti menn. Ég góndi á manninn og hugsaði; hvernig dettur honum í hug að ég sé svona gamall, ég sem er svo langt frá því að vera sextíu og sjö ára. Ég er mikið yngri.

Já, þetta eru nú hugmyndir mínar um sjálfan mig. Sjálfgóður! eða hvað? Sannleikurinn er sá að mér finnst ég vera mikið yngri en ég er þrátt fyrir helti og mér líkar það afar vel. Ég er heima og horfi núna suður yfir Suðurbæjarskóginn sem er farinn að dökkna í kvöldhúminu. Skógurinn er gróskumikill og fallegur og svo oft sem ég er búinn að sitja hér og horfa á hann, þá finnst mér það alltaf jafn gaman.

Blíðviðri

Ég sit við suðurgluggann heima í Örebro og sé að efstu blöðin á lauftrjánum sunnan við húsið bærast ekki. Þá er hægt að tala um logn. Skjannahvítir skýjaklakkar skríða upp fyrir skógarbrúnina frá suðvestri en í suðaustri er einhver óregla á skýjafarinu eins og abstraktmálari hafi verið með pensliinn á fullri ferð upp eftir himnahvolfinu. Hærra uppi hvílir svo grár skýjahjúpur yfir öllu saman, hljóður og kyrr.

Það angar af bakstri þar sem Valdís var að enda við að setja hjónabandssælu í ofninn. Maður verður að eiga eitthvað þegar gestir koma sagði hún. Það er kominn háttatími fyrir mig. Ég var að vinna frá hádegi í gær til hádegis í morgun og svo vinn ég venjulega dagvinnu á morgun. Það verður hellings vinna hjá mér í komandi viku en svo verður meira en viku frí. Þá eigum við von á gestunum sem Valdís vill bjóða upp á hjónabandssælu. Kannski smakka ég aðeins líka en það versta er að ég verð þyngri á mér ef ég borða mikið af kökum. Það væri gaman að vita hvort fleiri kannast við þetta. Og ef ég fæ mér köku stuttu fyrir svefninn hefnist mér gjarnan fyrir með brjóstsviða. Það er því betra að ég geri ekki svoleiðis ef ég á að fara að vinna snemma daginn eftir.

Ég tala býsna oft um vinnu. Mér finnst sem ég hafi mjög fjölbreytta vinnu. Það er vinnan í Vornesi og vinna við smíðar á Sólvöllum. Við skruppum aðeins á Sólvelli í dag til að laga svolítið til og ganga frá hlutum. Ég horfði líka út í skóginn og hugsaði að þar þarf að gera margt og mikið. Það er mikið skemmtileg vinna og vinna sem skilar miklum árangri. Það er áríðandi vinna.


Ef litið er á þessa mynd gefur að líta nakinn, hallandi birkistofn. Þetta birkitré þarf að fara og þá verður þetta sjónarhorn fallegra. Svo eru lítil tré á svæðinu sem eru tilbúin að fylla í skarðið. Næst okkur er gróðursett beykitré. Kringum þetta beykitré þarf ég að setja svo sem tvær hjólbörur af gróðrarmold snemma næsta vor. Kringum beykitréð er bláberjalyng. Og hvað gerum við við bláber á Sólvöllum? Jú, Valdís tínir þau gjarnan og gefur í eftirrétt með ögn af ís eftir kvöldmatinn. Ís eða kannski smá rjómaslettu. Það voru margir svona eftirréttir meðan Rósa og Pétur voru á Sólvöllum.

En nú hljóp ég út úr efninu og fór að tala um eftirréttí úr bláberjum. Það sem ég ætlaði að fara að segja var einfaldlega það að það eru mörg skemmtileg viðfangsefni á Sólvöllum sem geta enst mér, og okkur Valdísi báðum, í mörg ár. Það besta við þessi viðfangsefni er að þau launa fyrir sig með miklu þakklæti og staðurinn verður fallegur og betri og betri að dvelja á. Ósköp er ég feginn að við keyptum Sólvelli.

Heimsókn lokið


Rósa og Pétur eru búin að dvelja á Sólvöllum í fimm vikur. Það er líklega lengsta heimsókn sem við höfum haft síðan við komum til Svíþjóðar en þó munum við ekki hvað barnabarnið Kristinn dvaldi lengi hjá okkur fyrsta sumarið okkar í Svíþjóð. En hvað um það. Eftir að hafa haft svo góða gesti í svo langan tíma var það auðvitað þungur missir þegar þau óku heim um miðjan dag í dag. Þau bjuggu á Sólvöllum allan tímann en við Valdís vorum þar flesta daga sem ég var ekki að vinna. Við vorum þar einnig nokkrar nætur. Þau höfðu nýja svefnherbergið alveg fyrir sig en það var ekki fórn af okkar hálfu. Pétur hjálpaði mikið til við ýmsan frágang. Rósa fékk hins vegar all góðan tíma við samningu doktorsritgerðarinnar sinnar, en að hún gæti unnið við hana á Sólvöllum var eiginlega búið að vera í bígerð lengi. Svo var alveg frábært að hafa þau með í að velta fyrir sér ýmsu sem við viljum framkvæma á Sólvöllum. Stundum hefur okkur Valdísi vantað einhvern til að hafa með í ráðagerðum. En sem sagt; nú er þessari heimsókn lokið og í tilefni af því fórum við á tveimur bílum á veitingahús sem heitir Hjälmargården og liggur í litlu þorpi við sunnanverðan Hälmaren. Þarna skildu leiðir. Rósa og Pétur héldu til Stokkhólms en við Valdís héldum ögn þögul heim á leið. Við fórum líka á þennan stað við Valdís, Rósa og Valgerður þegar ég varð 65 ára. Myndin fyrir ofan er tekin eftir matinn þegar við fengum okkur kaffi og litlar kökur á útisvæði eftir góðan fiskrétt sem var þarna í boði í dag.


Ég mátti til með að hafa mynd af mér líka. Við erum búin að borða og flestir aðrir búnir að borða og salurinn að tæmast. Húsnæðið þarna er frábærilega notalegt.


Á rölti kringum veitingahúsið eftir matinn fundum við þessa brú og stilltum þar upp Rósu og Pétri með Hjälmaren í baksýn. Það var hlýtt og svolítill andvari sem gerði útivistina voða notalega.


Eyjar, tangar skógur og vatn. Það er víða fallegt í þessu landi og þessi staður er svo sannarlega einn af slíkum. Ég verð að geta þess líka að þegar Guðný og fjölskylda voru í heimsókn í vor borðuðum við á Hjälmargården, einnig þegar Rósa Kára í Hrísey heimsótti okkur í fyrra. Við eigum von á stórheimsókn eftir rúma viku og þá geri ég ráð fyrir að við skreppum til Hjälmargården.


Pétur hefur langan handlegg sem kemur myndavélinni ótrúlega langt í burtu. Honum tókst vel til þarna og allir gátu verið með. Gaman, gaman.

Morgunstund

Það er afskaplega rólegur dagur hér í Örebro. Það er í rauninni ótrúlegt þar sem ég sit við suðurgluggann í úthverfi borgar á stærð við Reykjavík að ég heyri ekki minnsta hljóð frá umferð eða neinum athöfnum fyrir utan ég heyrði aðeins í vörubíl sem kom á svæðið áðan vegna byggingarframkvæmda stutt hérna vestan við okkur. Samt er það svo að þegar við komum í sveitina, á Sólvelli, þá verður kyrrðin fullkomnari og náttúran byrjar strax við úitveggina.

Í gær heimsótti ég hann Kjell á sjúkrahúsið í Eskilstuna. Fyrir honum er það í frásögur færandi að hann er farinn að ganga yfir hundrað metra með aðstoð göngugrindar. Það er ekki svo langt síðan hann hafði það markmið að ganga tíu metra í einum áfanga með þessari grind. Þar áður hafði hann ekki gengið einn einasta meter síðan í byrjun desember. Hans sjúkrasaga er mikið lengri en svo en ég ætla ekki að rekja hana hér. Kjell er sextíu ára og mér finnst hann mikið yngri en ég. Þrátt fyrir helti mína er ég þakklátur þegar ég hitti þennan mann.

Ég hitti marga í Eskilstuna í gær. Meðal annars mann sem hefur oft verið hjá okkur í Vornesi en ekki fundið beinu brautina. Þegar hann sá mig hafði hann orð á því að ég væri með staf. Ég sagði honum að ég hefði fengið stafinn í tilefni af því að ég hefði orðið fimmtugur í vor og hann væri virðingartákn fyrir mig. Ha! sagði maðurinn snöggt, ert þú ekki að verða sjötugur? Glöggur hann, eða hitt þó heldur, að sjá ekki að ég á næstum þrjú ár í það að verða sjötugur. Ég fyrirgaf honum strax þar sem hann hefur ekki enn fundið beinu brautina.

Þetta minnti mig á atvik norður í Hrísey fyrir einum fjörutíu árum. Ég gæti hafa verið tuttugu og sjö eða átta ára. Tveir strákar voru að leika sér þar sem ég fór um og annar spurði mig hvað klukkan væri. Þegar ég hafði svarað því sagði hann við félaga sinn; klukkan er fimm, við verðum að fara heim. Hvernig veistu það sagði vinurinn. Kallinn sagði það svaraði hann og benti á mig. Og mér finnst ég ekki vera orðinn kall ennþá.

Vestan gola bærir mjúklega við laufskrúðinu sunnan við gluggann og í Suðurbæjarbrekkunni. Sólin sendir geisla sína niður um stóra glugga á skýjafarinu og stundum dragast stórir skuggar yfir skóginn. Nú fer ég að borða síðbúinn morgunverð og eftir nokkra stund legg ég af stað upp í Lindesberg þar sem bæklunarlæknir ætlar að skoða á mér mjöðmina með uppskurð fyrir augum. Ég minnist orðið oft á þessa slitnu mjöðm mína sem segir jú að hún hefur mikil áhrif á líf mitt. Það verður ekkert líf í sveitinni í dag. Seinni partinn koma Rósa og Pétur í heimsókn til okkar í Örebro. Dvöl þeirra á Sólvöllum fer að styttast að þessu sinni. Það verður mikil breyting þegar þau fara aftur til heimahaganna í Stokkhólmi. Í byrjun ágúst koma svo fimm gamlir grannar frá Hrísey í heimsókn og dvelja hjá okkur í viku.

Það er kominn 10. júlí

Já, það er kominn 10. júlí og þó að það þurfi trúlega að slá lóðina á Sólvöllum um mánaðamótin október-nóvember þá sígur á þetta sumar. Í gær var rigningardagur frá morgni til kvölds. Það var drjúg rigning en ekkert úrhelli. Ef það hefði verið úrhelli hefði rigning gærdagsins getað komið á einum klukkutíma. Það eru til skráðar lýsingar af svoleiðis rigningu á Sólvöllum. Víða í Svíþjóð hafa komið svoleiðis rigningar undanfarna daga og þá hafa mörg frárennsliskerfin ekki haft undan og þá hafa orðið flóð með mismunandi afleiðingum. Eitt er þó sameiginlegt með þessum afleiðingum öllum; þær hafa verið blautar. Nú sit ég heima og horfi suður í Suðurbæjarskóginn og dáist að hversu veltigrænn hann er. Blaðríkar greinarnar hníga undan safaríkum, nánast óendanlegum blaðaklösunum. Það hafa ekki verið allt of langir hlýindakaflar þetta sumar og það hefur ringt all oft og það skilar sér í frískara laufblaðahafi.

Við Valdís erum heima en förum eftir morgunverð á Sólvelli til Rósu og Péturs. Það er 25 km leið þangað svo að það er ekki tiltökumál að keyra það morgna og kvölds en þó alls ekki umhverfisvænt, jafnvel ekki á etanolbíl eins og okkar. Í dag verður sett í ein innihurð og þá verður auðveldara fyrir okkur að sofa þar öll fjögur eftirleiðis. Það er nú meiri höllin sem þetta lágreista hús undir skógarjaðrinum er að verða. Talandi um skógarjaðar, þá þarf að fella nokkrar bjarkir og tvo reyniviði bakvið húsið svo að þar verði dálítil grasflöt sem ver okkur fyrir skordýrum, músum og slöngum. Það hafa ekki verið felld nein tré á Sólvöllum á þessu ári. Ég hef ekki gefið mér tíma í svoleiðis og þar að auki leyfir mjöðmin það ekki. Talandi um mjöðmina, þá kom pósturinn að vanda í gærmorgun. Valdís fór niður og sótti póstinn og þegar hún horfði á hann sagði hún; jæja, nú er það bréf frá Lindesberg. Ég fann hvernig eins og heitur bursti með nokkuð stífum, fíngerðum hárum dróst fyrst niður allt höfuðið og síðan niður efri hluta líkamans. Svo stakk gamalkunnur verkurinn til í innanverðu lærinu og í hnénu og þá fann ég fyrir ánægju yfir að bréfið frá Lindesberg var loksins komið.

Og hvað með bréf frá Lindesberg sem er 40 km norðan við Örebro. Jú, það er nefnilega svo að þar er sjúkrahús sem hefur sérhæft sig í mjaðmaaðgerðum og fólk frá Örebro er gjarnan sent þangað í þessar aðgerðir. Því vissi ég hvað var að nálgast þegar bréf barst þaðan því að ég vissi þegar að ég ætti að fara þangað í þessa aðgerð. Ég á að koma þangað í skoðun í næstu viku var boðskapur bréfsins. Að öðru leyti er ég alls ekki vanur að fá bréf frá Lindesberg. Ég hélt reyndar að ég væri búinn að aðlaga mig því fullkomlega að þessi aðgerð væri framundan, en þegar ég fann fyrir fyrrnefndum bursta renna niður eftir líkamanum og skilja ekki eftir svo sem fingurgóms stóran blett, jú, þá vissi ég að ég var ekki alveg tilbúinn. En verkurinn stakk til á alveg réttum tíma, kannski var því stjórnað einhvers staðar frá, og þá komst ég áfram í aðlöguninni. Ég hef ekki gefið eftir undan þessum mjaðmasjúkdómi mínum hingað til og oft látið mig hafa það, en það er orðið langt síðan ég hef verið frjáls maður. Það verður gott að verða frjáls aftur, frjáls eins og ég fann mig vera á Kálfafelli fyrir 60 árum þegar við fórum í fyrsta skipti í stuttbuxurnar á vorin.

Það er farið að rigna á ný og mér finnst það allt í lagi. Samt veit ég að meiri hluta svía, sem eru svo margir í sumarfríi núna, finnst það alls ekki í lagi. Ég er í fríi þessa viku og það er margt á Sólvöllum sem kemst í stand og gefur rólegri daga síðar. Valdís er að borða síðbúinn morgunverðinn og ég ætla að slást í hópinn. Síðan förum við í sveitina.

Ekki veikur

Klukkan er að nálgast hálf níu á þessu sunnudagskvöldi og ég held bara að ég verði að blogga. Valdís var líka að segja mér áðan að einhver hefði verið að tala um að það væru nú ár og dagar síðan ég bloggaði síðast. Fólk getur farið að halda að ég sé veikur. En veikur er ég nú ekki og ef veikur þá minna veikur en ég var fyrir svo sem viku. Ég er nefnilega minna haltur núna en ég var fyrir nokkrum dögum. Ég er nokkuð duglegur við að tala um það þegar ég verð minna haltur en ég er mjög tregur til að tala um þegar ég verð meira haltur á ný. Fyrir um tveimur vikum keypti ég göngustaf, alveg sérstakan göngustaf. Hann er gerður úr einhvers konar rörum sem hafa munstur sem minnir á marmara. Rörbútarnir eru fimm og er þeim stungið upp í hvern annan og innan í þeim er teygja sem heldur þeim all sterklega saman. Ef ég nú vil setja stafinn minn í tösku eða láta fara virkilega lítið fyrir honum, þá tek ég fyrst neðsta hlutann og dreg niður úr þeim næsta og legg síðan þennan neðsta hluta við hliðina á stafnum. Eiginlega get ég sagt að ég dragi og snúi hann úr liði. Síðan dreg ég niður næsta hluta og geri það sama, legg hann líka við hliðina á því sem eftir er af stafnum. Þannig held ég áfram þangað til stafurinn er orðinn að smá hlut sem kemst fyrir í smá poka eða tösku. Þetta er mesti munur og ég hefði getað byrjað fyrr að nota staf segir Valdís en það er nú svo að ég, eins og aðrir, þarf að verða tilbúinn fyrir breytinguna áður en hún gengur í garð.

Ég kom heim nokkru eftir hádegi í dag eftir all stranga vinnuviku í Vornesi. Ég vann þrjú kvöld og nætur í vikunni og samtals fara í þetta 72 tímar ef ég reikna tímann í hvert skipti frá því ég fer að heiman og þangað til ég kem heim aftur. Svo ber þess að geta að ég get sofið allt upp að sex tímum á hverri nóttu svo lengi sem sjúklingarnir ekki hringja vegna einhvers sem bjátar á. Þeir hafa bara vakið mig einu sinni á síðustu þremur árum svo ég get ekki kvartað. Ég fæ líka svolítið greitt fyrir að sofa þessa klukkutíma. Sjúklingarnir kunna vel við mig með stafinn og mitt annars góða samband við þá varð jafn vel heldur betra eftir að ég fékk mér þetta eldri manna tákn.

Ég ímynda mér að ég verði kallaður í mjaðmaaðgerð á bilinu september - nóvember. Það verður nú meiri munurinn. Allir mögulegir eru að segja mér frá einhverjum sem þeir þekkja og hafa farið í þessa aðgerð og orðið að hálfgerðum unglingum á eftir. Hugsið ykkur mig á sextugasta og áttunda aldursári verða að ungum manni samkvæmt öllum þessum frásögnum. Af hverju þá að gera þetta ekki fyrir löngu síðan? Jú, meðal annars sama ástæða og þetta með göngustafinn; maður verður að vera tilbúinn sjálfur.

Hún Pernilla var í eldhúsinu í Vornesi í dag. Í fjölda ára vann hún sem sjúkraliði en hefur nú unnið í fáein ár í Vornesi við allt mögulegt. Pernilla hefur verið viðstödd margar mjaðmaaðgerðir. Hún lýsti því fyrir mér í dag hvernig svona aðgerð fer fram. Það hafa líka tveir hjúkrunarfræðingar gert sem hafa aðstoðað við margar mjaðmaaðgerðir. Sjúkraþjálfarinn sem ég geng til hefur líka lýst þessu fyrir mér. Ég fer að verða fær um að gera þetta sjálfur. Ég ætla ekki að fara hér nákvæmlega út í lýsingar þessa fólks en get þó sagt að það er meðal annars farið svolítið líkt að og ég nefndi með göngustafinn minn þegar hann er brotinn saman og þannig er komist að liðnum. Sjúkraþjálfarinn lauk lýsignu sinni með því að segja: þeir saga, fræsa, meitla, hamra, slípa og steypa og það sprautast og þýtur um loftið. Virkileg verkstæðisvinna sagði hann. Og eftir svona aðgerð fer ég á ný að iðka mínar gönguferðir, spengilegur kall með hnitmiðuðum, örum hreyfingum, beinn í baki og með hressu augnaráði.

RSS 2.0