Blíðviðri

Ég sit við suðurgluggann heima í Örebro og sé að efstu blöðin á lauftrjánum sunnan við húsið bærast ekki. Þá er hægt að tala um logn. Skjannahvítir skýjaklakkar skríða upp fyrir skógarbrúnina frá suðvestri en í suðaustri er einhver óregla á skýjafarinu eins og abstraktmálari hafi verið með pensliinn á fullri ferð upp eftir himnahvolfinu. Hærra uppi hvílir svo grár skýjahjúpur yfir öllu saman, hljóður og kyrr.

Það angar af bakstri þar sem Valdís var að enda við að setja hjónabandssælu í ofninn. Maður verður að eiga eitthvað þegar gestir koma sagði hún. Það er kominn háttatími fyrir mig. Ég var að vinna frá hádegi í gær til hádegis í morgun og svo vinn ég venjulega dagvinnu á morgun. Það verður hellings vinna hjá mér í komandi viku en svo verður meira en viku frí. Þá eigum við von á gestunum sem Valdís vill bjóða upp á hjónabandssælu. Kannski smakka ég aðeins líka en það versta er að ég verð þyngri á mér ef ég borða mikið af kökum. Það væri gaman að vita hvort fleiri kannast við þetta. Og ef ég fæ mér köku stuttu fyrir svefninn hefnist mér gjarnan fyrir með brjóstsviða. Það er því betra að ég geri ekki svoleiðis ef ég á að fara að vinna snemma daginn eftir.

Ég tala býsna oft um vinnu. Mér finnst sem ég hafi mjög fjölbreytta vinnu. Það er vinnan í Vornesi og vinna við smíðar á Sólvöllum. Við skruppum aðeins á Sólvelli í dag til að laga svolítið til og ganga frá hlutum. Ég horfði líka út í skóginn og hugsaði að þar þarf að gera margt og mikið. Það er mikið skemmtileg vinna og vinna sem skilar miklum árangri. Það er áríðandi vinna.


Ef litið er á þessa mynd gefur að líta nakinn, hallandi birkistofn. Þetta birkitré þarf að fara og þá verður þetta sjónarhorn fallegra. Svo eru lítil tré á svæðinu sem eru tilbúin að fylla í skarðið. Næst okkur er gróðursett beykitré. Kringum þetta beykitré þarf ég að setja svo sem tvær hjólbörur af gróðrarmold snemma næsta vor. Kringum beykitréð er bláberjalyng. Og hvað gerum við við bláber á Sólvöllum? Jú, Valdís tínir þau gjarnan og gefur í eftirrétt með ögn af ís eftir kvöldmatinn. Ís eða kannski smá rjómaslettu. Það voru margir svona eftirréttir meðan Rósa og Pétur voru á Sólvöllum.

En nú hljóp ég út úr efninu og fór að tala um eftirréttí úr bláberjum. Það sem ég ætlaði að fara að segja var einfaldlega það að það eru mörg skemmtileg viðfangsefni á Sólvöllum sem geta enst mér, og okkur Valdísi báðum, í mörg ár. Það besta við þessi viðfangsefni er að þau launa fyrir sig með miklu þakklæti og staðurinn verður fallegur og betri og betri að dvelja á. Ósköp er ég feginn að við keyptum Sólvelli.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0