Að skemma bílinn sinn

Í gær var ég með bílinn hjá umboðinu og þar var farið yfir allt mögulegt til að sjá að hlutirnir væru í lagi. Það var líka skipt um olíur og bara allt mögulegt. En þetta er ekki bara gert af gæðunum einum hjá þeim. Það þarf líka að borga. Ég beið meðan þetta var unnið, fór inn í bílasöluna og fékk mér ókeypis kaffi og skoðaði bílablöð. Ég varð þó fljótlega leiður á því, hélt mér við kaffið og horfði á fólk skoða bíla, máta sig í sæti og stimamjúka bílasala sem sýndu þolinmæði. Svo gekk hann Veijo framhjá. Ég talaði við Veijo í vor og sýndi honum þá rispu sem hafði komið á listann undir dyrunum hægra megin og hann giskaði á hvað lagfæringin mundi kosta. Hann er nefnilega verkstæðisformaður. Það var ótrúlega ódýrt fannst mér og gladdi það peningapúkann í mér. En núna var það nokkuð meira sem um var að ræða og grunaði mig að þar mundi peningapúkinn ekki verða glaður. Það var nefnilega þannig að ég var að fara frá Vornesi seinni partinn í sumar og í þröngum trjágöngunum mætti ég bíl sem í sátu tvær konur, trúlega aðeins eldri en ég. Það var búin að vera ausandi rigning og vegurinn var mjúkur og ég þorði ekki að fara út í kantinn. Ég vildi sýna þessum konum svolítinn riddaraskap og bakkaði því dágóðan spöl þangað til ég sá færi á að víkja. Eftir speglinum vék ég út i kantinn og allt gekk eins hjá góðum bílstjóra sæmir -þangað til bíllinn stoppaði með dynk. Ég lét eins og ekkert hefði í skorist og konurnar óku framhjá og við brostum og vinkuðum. Þegar þær voru komnar fyrir næstu beygju fór ég út og kveið fyrir að sjá hvað hefði nú skeð. En það var mun minna en ég óttaðist. Það var stimpill á stuðaranum hægra meginn, stimpill á srærð við botninn á kaffibolla. Ég taldi það vel sloppið þar sem ég taldi fyrst að ég hefði fengið beyglu langt upp eftir bílnum að aftan.

En nú stóðum við þarna við bílinn, ég og Veijo (Veijo er finnskt nafn) og hann gaf upp verðið. Veskið ryktist til í vasa mínum þegar ég heyrði upphæðina því þessi litli stimpill átti að kosta mig urmul af peningum. Sjálfsábyrgðin á þessu er nefnilega all há. Svo töluðum við um tryggingar og sjálfsábyrgð og ég þóttist vera glaður þegar ég tók við lyklunum að lokum. Svo þegar ég kom út að bílnum skeði nokkuð skrýtið. Ég virti bílinn fyrir mér, tandur hreinan og vissi að hann væri í góðu standi þrátt fyrir allt. Ég gat ekkert verið að röfla við sjálfan mig út af þessu. Ef ég man rétt er þetta fyrsti skaðinn á bíl hjá mér sem ég þarf að leggja út peninga fyrir, fyrir utan venjulegar bilanir og sjálfsábyrgð á framrúðu einu sinni. Svo ók ég heim á leið og var ótrúlega ánægður.

Í dag var ég að smíða á Sólvöllum. Þetta var einn af þessum dögum þegar allt passar áður en ég máta það. Svoleiðis dagar eru góðir dagar og þá er alveg sérstaklega gaman að smíða. Valdís fór niður á umferðarmiðstöð og keypti handa okkur farmiða til Stokkhólms. Við ætlum nefnilega í leikhús þann 3. desember og sjá My Fair Lady ásamt Rósu og Pétri. Við ætlum líka á Skansinn og virða fyrir okkur jólamarkað eins og við gerðum í fyrra. Við ákváðum þá að gera þetta að erfðavenju. Það er ágætt að rölta þarna um eina dagstund í vetrarjakka og með húfu og vetlinga og enda svo á góðum kaffibolla og vænni köku eða brauðsneið.

Nú er komið mál að sofa fyrir smiðinn sem ætlar líka að hafa góðan dag við smíðar á morgun. Eftir morgundaginn þarf ég svo að fá rafvirkja og þar á eftir verður allt mögulegt skemmtilegt að sýsla á sveitasetrinu. Mig grunar líka að Valdís komi til með að bjóða upp á pönnukökur þegar hallar að helgi og ég hlakka til þess.

Guðjón

Að skrifa dagbók

Hún Guðrún frænka mín frá Fagurhólsmýri, sú sem ég leigði herbergi hjá um 1960, ráðlagði mér eindregið að færa dagbók. Það gæti orðið mikils virði fyrir mig síðar taldi hún. Ég hef reynt þetta nokkrum sinnum en alltaf hafa mínar dagbókarfærslur dagað uppi, því miður. En svo velti ég því fyrir mér að ef ég yrði duglegur að blogga yrði það nokkurs konar dagbók fyrir mig. Oft koma þó gloppur í bloggskriftir mínar en að lesa gamalt blogg eftir sjálfan mig minnir mig þá alltaf á margt annað en akkúrat það sem ég skrifa. Núna er ég með síðastliðinn sunnudag í huga og það er komið þriðjudagskvöld.

Á sunnudaginn var fórum við Ingemar, minn gamli vinnufélagi til langs tíma, í heimsókn til hans Kjell sem liggur á Huddinge sjúkrahúsi í Stokkhólmi. Kjell er líka vinnufélagi og var skorinn upp þann 11. nóvember, en það hef ég talað um áður. Við Ingemar skipulögðum ferðina daginn áður og ákváðuum að hann skyldi koma hingað heim upp úr átta um morguninn, og eftir svolítið kaffisamsæti hér heima skyldum við leggja af stað til Stokkhólms á okkar bíl. Ingemar er oft kátur og þá skemmtilega fyndinn. Yfir kaffinu var því hlegið talsvert og tíminn flaug áfram. Svo kvöddum við Valdísi og lögðum af stað. Ingemar þótti notalegt að vera farþegi, setti svolítinn hita á sætið, hreiðraði vel um sig og lék síðan á alls oddi. Að koma til Huddingesjúkrahúss er ekki að koma á neinn smá stað. Einhver hefur sagt að svona stórt sjúkrahús sé jafn fjölmennt og meðalstór bær út á landi. En við kallarnir spjörðum okkur og innan skamms vorum við komnir inn á stofuna til hans Kjell.

Þarna lá hann á sterkum verkjastillandi lyfjum og þegar ég virti hann fyrir mér með hvíta plástursræmu ofan frá viðbeini og langleiðina niður að nafla, datt mér í hug að hann væri í raun sem slasaður maður sem búið væri að sauma saman. Brjóstkassinn hafði verið opnaður og spenntur sundur til að komast að innri líffærum. En einmitt meðan ég var að velta þessu fyrir mér sagði Kjell: þú ert með plástur Guðjón. Jú, ég var með þunna, smá plástursræmu á vísifingri vinstri handar og plásturinn var eiginlega alveg eins á litinn og húðin. Eftir þessu tók hann. Stuttu síðar spurði hann Ingemar hvernig henni Lenu hans liði. Nú varð ég ennþá meira hissa. Í sínu ástandi var hann að veita svona hlutum athygli. En glaður var hann og eftir hálfan annan tíma var hann orðinn afar þreyttur og við gáfum honum frí og héldum af stað í heimsókn til Rósu og Péturs.

Við vorum báðir orðnir kaffiþyrstir og svangir og vissum að við mundum fá bót á þessu þegar við kæmum til þeirra hjóna. Áður en við lögðum af stað frá bílageymslunni í kjallara sjúkrahússins hringdi ég til Rósu til að fá hjá henni númerið á dyrasímanum svo að við gætum opnað útihurðina til stigahússins. Ég át númerið upp eftir Rósu og lagði það á minnið. Svo ókum við af stað. Eftir nokkra kílómetra sagði Ingemar: Þú, Guðjón, þú þarft ekki að muna númerið. Ég hef það skrifað hérna. Svo rétti hann út hendina og ég sá að hann hafði skrifað það í lófann með kúlupenna.

Þegar við komum heim til Rósu og Péturs var kaffið þegar á borðinu og mikið af kjarngóðu brauði og áleggi. Við Ingemar hreinlega þömbuðum kaffið og rifum í okkur brauðið og vorum alveg rosalega fegnir að komast í þetta. Eiginlega hefði okkur átt að verða illt af þessu vegna græðginnar en það var nú öðru nær. Við lékum á alls oddi og Ingemar reytti af sér brandara. Allt í einu sagði hann: Ég er tattúeraður, sjáið þið. Hann rétti út handlegginn og sýndi númerið að dýrasímanum í lófa sér. Svo hlógum við öll.

Eftir veisluna fórum við aftur til Kjell og ræddum um lífið og tilveruna í klukkutíma. Síðan var mál að leggja af stað heim. Hvað eftir annað á leiðinni heim sögðum við að mikið hefði nú verið gott að fá kaffið. Við töluðum líka um það hvað eftir annað að mikið hefði brauðið verið gott. Merkilegt að okkur skyldi ekki verða bumbult af að háma svona í okkur. Takk fyrir kaffið og brauðið Rósa og Pétur.

Um fimmleytið í dag, tæpum tveimur sólarhringum eftir að við komum heim frá Stokkhólmi, hringi Ingemar og var ég þá staddur á Sólvöllum á fullu við að smíða. Eftir smá spjall sagði hann smá hlæjandi; heyrðu, ég get ennþá lesið númerið í lófa mér.

Guðjón

Nýr dagur að kvöldi kominn

Frá 2008.

Það var kominn nýr dagur í morgun og nú er hann að verða liðinn. Það er eins gott að nota dagana vel þegar þeir bara æða áfram. Í gær talaði ég um að skipulagið hefði farið úr skorðum eftir eina nótt í Vornesi og ég hefði þurft að endurstilla áttavitann. Í dag komst allt í fullan gang aftur og nálin í áttavitanum visaði beint fram á við á ný.

Ég svo sem skildi það aldrei almennilega þegar það kom einhver maður frá Akureyri út í Hrísey og svo hringsóluðu bátar um Eyjafjörðinn og skýringin var að maðurinn frá Akureyri vari að stilla kompásinn. Það var kannski eitthvað svipað með mig en ég þurfti bara ekki að fá manninn frá Akureyri, heldur lét ég nægja að stilla sjálfan mig inn á það sem ég var að gera og svo fór allt í fullan gang -samkvæmt minni túlkun á því hugtaki.

Ég fór líka í bankann í Kumla til hennar Helenu. Ég get vel ímyndað mér að margir sem eiga kost á því geri það um þessar mundir að fá lán til að þurfa ekki að flytja peninga frá Íslandi. Helena er þægileg manneskja að hafa með að gera. Þegar við sáum íbúðina sem við nú búum í auglýsta 1999 ræddum við auðvitað við fasteignasalann. Þar hittum við hana Pálu. Pála sagðist þekkja konuna sem væri að selja þessa íbúð og hún hafði samband við hana og svo fengum við að koma þegar í stað til að skoða. Við komum þrjú að útihurðinni  Valdís, ég og Pála og Pála hringdi dyrabjöllunni. Til dyra kom yngri kona og opnaði fyrir okkur. Ég held að hún hafi verið álíka forvitin og við og hún bað okkur að gera svo vel. Þessi kona var Helena sem síðar varð bankafulltrúinn okkar. Það var eiginlega eins og kaupin á íbúðinni væru ákveðin bæði af kaupendum og seljanda á sömu stundu og Helena opnaði hurðina.

Hér hefur nú verið hlaupið fram og til baka í tíma en aftur til nútíðar. Valdís hefur verið á fullu í dag. Í gær talaði ég um að hún fengi konur í heimsókn á morgun. Hún notaði tilefnið og er búin að pússa og laga til og gera alveg með endemum fínt hér heima. Ég veit að hún er búin að leggja alveg hörku vinnu í þetta en Valdís segir að það sé gaman að vanda til þessarar heimsóknar og svo hafa þær rólegan dag á morgun þar sem allt er vel undirbúið.

Við erum búin að horfa á helling af fréttum í kvöld. Það voru auðvitað heil miklar umræður um að norðmenn hefðu ákveðið að kaupa bandarískar orrustuþotur en ekki sænskar. En það hafa líka verið álíka miklar umræður um fjármálaástandið á Íslandi en enginn talaði um að ég hefði farið í bankann til Helenu. Það er ekki sama Jón og séra Jón.

Nú finn ég að Óli lokbrá er farinn að toga í mig enda er klukkan að verða ellefu. Ég bara áttaði mig ekki á að það væri orðið svo framorðið fyrr en ég varð Óla var. Því er bara að segja góða nótt og dreymi ykkur vel.

Guðjón

Þegar ekkert stenst

Í gærmorgun, þriðjudag, var ég með mikið skipulagt í kollinum. Það var nýr áfangi á Sólvöllum og ég var búinn að skipuleggja næstum hvert handtak í byrjun þessa nýja áfanga. Ég ætlaði nokkuð seint af stað en þegar ég kæmi á Sólvelli, þá skyldu sko verkin alveg fljúga áfram. En fyrst ætlaði ég að kíkja á nokkra reikninga og greiða þá gegnum internet, eða ganga frá þeim til greiðslu á gjalddaga. Svo þegar ég væri búinn að því ætlaði ég að huga að pappírum sem ég ætlaði að hafa með þegar ég færi til að hitta hana Helenu í bankanum á morgun, fimmtudag. Síðan ætlaði ég að leggja af stað á Sólvelli, alveg endilega fyrir hádegi.

Meðan ég var að vasast í þessu þurfti ég að fara á klóið svona eins og gengur og einmitt þá var hringt frá Vornesi. Valdís svaraði og bað um að hringja aftur eftir tvær mínútur. Svo var hringt aftur og erindið var að fá mig til að vinna kvöldið og nóttina. Ég heyrði samstundis hvernig hundraðkallarnir hrundu með hljóðum niður í sparibaukinn minn og runnu svo sem greiðslur þaðan fyrir smíðaviði og veggjaplötum. Að sama skapi heyrði ég hvernig ég stundi innbyrðis; nei, nei, nei, ekki einmitt núna þegar ég er svo viljugur og vel undirbúinn að smíða. Ég svaraði að ég mundi hringja eftir fimm mínútur til að gefa svar, en fann samt strax að ég mundi svara játandi. Ég vildi bara kyngja þessari breytingu áður en ég gerði það. En svo hætti ég við svoleiðis stæla og sagði að auðvitað kæmi ég.

Eftir hádegi lagði ég af stað í Vornes og sjúklingarnir tóku svo vel á móti mér. Auðvitað tóku líka allir aðrir vel á móti mér. Það er gott að vinna sem elilífeyrisþegi. Ég vinn ekki meira en svo að ég kem ferskur og hress í anda á vinnustaðinn og ég finn mig ekki gera neinar sérstakar kröfur og ekki finn ég heldur fyrir að ég þurfi að vinna til neinna afreka heldur. Hlutlaus geng ég því fram til verka og veit upp á hár hvað ég á að gera og hvernig. Þetta virkar rosalega vel. Svo kemur hann Ingemar ellilífeyrisþegi líka líka öðru hvoru til að leysa af og stundum hittumst við þar báðir ellilífeyrisþegarnir. Þá segja margir af starfsfólkinu að nú sé það bara að verða eins og í gamla daga. Í hvert einasta skipti sem ég hef unnið og er að leggja af stað heim spyrja sjúklingarnir; hvenær kemurðu næst. Það er góð kveðja og notaleg að hafa með sér heim á leið. Svo er einn mjög góður kostur við að vinna svolítið sem ellilífeyrisþegi, og það er að það er eiginlega enginn skattur borgaður af fyrstu þúsundköllunum, en fer svo stigvaxandi. Sem sagt; við erum verðlaunaðir fyrir að vinna.

Nú er aftur komið að Sólvöllum. Eftir að hafa komið heim um tíu leytið stoppaði ég svolítið heima en fór svo á Sólvelli og ætlaði nú að byrja þar sem frá var horfið og vinna nákvæmlega eins og ég hafði skipulagt fyrir gærdaginn. En, viti menn, áætlunin stóðst ekki lengur. Ég varð að skipuleggja allt upp á nýtt og byrja svo. Þetta hef ég orðið var við oft áður að þegar ég hef skyndilega farið frá verki sem ég hef skipulagt, þá verð ég að byrja aftur frá grunni. En nú er ég orðinn skipulagður aftur, búinn að smíða dálítið í dag og ég sé fyrir mér hvernig listar og langbönd koma til með að hafna fyrirhafnarítið í réttum lengdum á rétta staði og festast þar.

Valdís fær heimsókn fjögurra kvenna á föstudag og á morgun, fimmtudag, ætlar hún meðal annars að undirbúa sig fyrir þessa heimsókn. Þetta eru sömu konur og koma í heimsókn á Sólvelli á sumrin og þá koma þær snemma og fara seint. Þá fá þær sér morgunkaffi, tína ber eða fara í gönguferð í skóginum, leika sér svolítið, fá sér svo hádegismat og eru þá þreyttar og leggja sig. Svo koma þær i gang aftur og leika sér svolítið meira áður en þær fá sér síðdegiskaffi og fara svo harðánægðar heim. Það er gaman að þessu.

Guðjón

Sunnudagskvöld

Jæja, er ekki komið sunnudagskvöld einu sinni enn. Það er óvenju blautt á þessu hausti og ef rignir hið minnsta myndast pollar um allt þar sem allur jarðvegur er gegnum mettaður. Það er líka þungbúið flesta daga og ekkert hægt að gera innan húss nema kveikja ljós. Nú reynir á að hafa líka sitt innra ljós og láta það loga til að útiloka rökkrið frá að komast inn í sálina. Hversu dimmt sem er úti er það ljósið sem streymir út í myrkrið en ekki myrkrið inn í húsið þegar útihurðin er opnuð. Þannig skal líka vort innra ljós streyma.

Við skruppum á Sólvelli í dag en Valdís hefur ekki verið þar í nokkra daga. Að kveikja upp í kapisunni og horfa á eldinn kvikna í viðnum er athöfn útaf fyrir sig. Það er nauðsynlegt að sitja um stund og horfa á eldinn koma til. Það er eins og það verði betri eldur með því móti. Svo er ekki verra að heyra í kaffikönnunni surra meðan kaffið rennur niður og ekki var það slæmt í dag þegar vöfflulyktin angaði frá vöfflujárninu hennar Valdísar.

Eftir vöfflukaffi smíðaði ég svolítið en Valdís sýslaði við eitt og annað innan húss. Það gengur vel að smíða þessa dagana. Allt passar um leið og það er mátað og allt er við hendina þegar á þarf að halda. Þá er gaman að smíða. Ég reiknaði út efnisþörf næstu daga og núna á eftir ætla ég að gera verðútreikninga og þar á eftir að áætla hvað er skynsamlegt að ráðast í eins og málum er nú háttað. Ekki stendur samt til að leggja upp laupana því að þádofnar líka innra ljósið.

Margir sem ég þekki til ganga ekki heilir til skógar um þessar mundir. En þó að ég sé stundum haltur hef ég ekki yfir miklu að kvarta. Í gær var ég með haltara móti og það dró vissulega úr afköstum mínum. Í dag er ég hins vegar eins og unglamb og hefði eiginlega getað unnið allan daginn með ánægju. Hins vegar er nú sunnudagur og best að virða það. Hann Kjell vinur minn sem ég hef áður nefnt í blogginu var skorinn upp á þriðjudaginn var og það var mjög stór aðgerð. Daginn eftir lék hann á alls oddi en svo dró úr ánægjunni. Önnur dóttir hans hringdi til mín í dag og hin sendi sms. Þunginn hvíldi yfir þeim báðum. Ég ætlaði að heimsækja Kjell á sjúkrahúsið í Stokkhólmi á þriðjudaginn og taka með vinnufélaga sem á heima hér í nágrenni við Örebro. Þær systur vöruðu mig við að hann gæti kannski ekki tekið á móti heimsókn.

Nú er spáð kólnandi og bjartara út vikuna. Þá getur orðið afar fallegt veður en líka hætta á næturfrosti. Maður sem sendi mér e-póst í gær talaði um að hlakka til vorsins. Það var frost heilan sólarhring hér fyrir einum tveimur til þremur vikum. Þá fór ég að hlakka til vorsins. Það verður gaman að sjá hvernig beykitrén koma til eftir veturinn, að mæla vöxt þeirra næsta vor. Það verður líka gaman að ganga um skóginn og líta eftir hvort nýjar tegundir skjóta upp kollinum meðal þess aragrúa smáplantna sem þá koma til með að teygja sig mót vorsólinni. Og það er margt annað að hlakka til og þar að auki koma margir vetrardagarnir til með að verða fallegir með snjóþekju og hrími á trjágreinum.

Hér eru tvær gamlar vetrarmyndir. Sú neðri sýnir allt annað hús en það
sem er að finna á Sólvöllum í dag.

Fréttir frá Íslandi

Það voru fréttir um íslensku efnahagsmálin í morgunsjónvarpinu þennan morgun, miðvikudaginn 12. nóvember. Talað var um að íslenskur almenningur treysti ekki ríkjandi stjórnvöldum og það var talað um að erlendar lánastofnanir treysti ekki íslenskum stjórnvöldum. Ég verð nú að viðurkenna að ég skil ekki nokkurn skapaðan hlut í því hvað íslensk stjórnvöld eru að gera, hef ekki heldur skilið það síðan ósköpin hófust. Hér um slóðir segja menn af sér eftir að hafa skitið á sig eða að þeim er sagt upp. Það var skrýtið að kynnast því í byrjun en leiðin til að halda trausti er væntanlega fólgin í því að vera ekki að fást við það sem maður ekki er fær um.

Guðjón

Att blogga på svenska


Bakom de stora rutorna på andra planet där till vänster satt vi i dag, jag och han Hans. Vi drack kaffe och åt riktiga tårtor, bruna, stora, mycket kaloririka och välsmakande. Vi hade utsikt över Våghustorget och en busshållsplats var direkt under fönstret där många människor kom och gick. Jag behövde hålla lite tal i kväll hos Nordiska föreningen i Örebro och jag fick Hans att hjälpa mig med lite grammatik och avanserade ord. Sen pratade vi om allt möjligt. Plötsligt sade hans att han tittade ibland på min bloggsida och att han kände igen mycket av bilderna från stugan. Jaha, det visste jag inte att svenskar tittade på mitt blogg men visst var de välkomna att göra det. Och så pratade han om andra sm hade pratat om detta. Men inte förstår jag ett dugg av det du skriver sade Hans. Jag sade då att jag borde också blogga på svenska och det tyckte han också. Plötsligt sa han att han hade sett  jag skrev om att jag hade tur att få jobba lite nu under de svåra ekonomiska tiderna i Island. Då förstod jag att han förstod i alla fall något av det jag skrev om. Nu får jag vara försiktig efterledes först svenskarna förstår vad jag bloggar på isländska. Jag får inte prata skit om dem, men det gör jag faktiskt inte. Men detta var lite roligt att höra och nu har jag bloggat på svenska så Hans kan förstå mig och andra de som tittar på mina bloggsidor.

För dem som inte känner till i Örebro är bilden ovan av Krämaren som ligger i centrala Örebro. Ett köpcentrum är på de första våningarna men höghus med lägenheter där ovanpå. Bilden nedan är däremot tagen från Svampen och utöver Hjälmaren. Svampen är ett vattentorn i Örebro. På bilden ser man endast en liten del av Hjälmaren.

Ha det bra Hans och ni andra. Islänningar får läsa detta också.

Gudjon

Sex ára -eða sextíu og sex ára

Ég hef unnið tvö kvöld í Vornesi þessa viku. Að vinna kvöld þýðir að ég er í Vornesi um hádegi og kem heim aftur á tímabilinu hálf ellefu til tólf daginn eftir. Fyrir þetta fæ ég dágóðan gjaldmiðil sem dugir fyrir helling af einangrun, fyrir vinnu rafvirkja með tilheyrandi rörum, leiðslum og rofadósum með meiru, eða þá fyrir slatta af krossviðar- og gipsónettplötum. Í dag var ég óvenju seint heima eftir að hafa unnið kvöld, eða klukkan að verða eitt.

Nú í nokkrar vikur höfum við talað um að við þyrftum að kaupa nýja síu í uppþvottavélina og einnig körfuna sem hnífapörin eru sett í þar sem báðar eru úr sér gengnar. Einnig vantar okkur hillu í ískápshurðina sem brotnaði strax eftir að við keyptum ísskápin fyrir fáeinum árum. Hilluna reyndar notum við en það er nú best að fá nýja meðan þessi tegund finnst í verslunum. Svo ætluðum við í sömu verslunarferð að koma við í tölvuverslun til að spyrjast fyrir um skrítin hljóð sem eru farin að gera vart við sig í tölvunni. Þessu hefur verið slegið á frest viku eftir viku vegna þess að Sólvellir hafa alltaf legið í fyrirrúmi. Ég hef alltaf orðið svo glaður þegar Valdís hefur sagt að við gætum svo sem gert þetta aðeins seinna og svo hafa vikurnar liðið.

Á leiðinni heim frá Vornesi í dag var ég í huganum að undirbúa smíðavinnu næstu daga á Sólvöllum. Ég sá fyrir mér einangrunina í þakinu sem á að ná alveg upp í mæni. Ég er búinn að setja þessa einangrun upp í þakið fyrir utan alveg upp við mæninn þar sem það vantar um 40 sm sitt hvoru megin við mæninn. Ég ákvað að byrja á þessari einangrun upp við mæninn þegar við kæmum á Sólvelli í dag og þegar hún væri kominn upp væri komin einangrun á alla fleti herbergisins og þar með yrði mikið auðveldara og ódýrara að halda uppi nægum hita í herberginu svo að þar yrði gott að vinna og einnig að viðir færu að þorna og setja sig. Svo hugsaði ég út hvernig ég ynni við langbönd sem eiga að koma innan á útveggjastoðir og neðan á sperrur sem veggja- og þakplötur eiga síðan að festast á. Síðan sá ég fyrir mér fallega málaðar veggjaplötur og hvernig ég mundi setja upp loftplöturnar sem við ætlum að kaupa málaðar og tilbúnar í verslun. Þær eru hvítmálaðar með viðarmunstri, munstri eins og við sjáum á vel söguðum greni- eða furuplanka sem er þurrkaður og vel með farinn. Að lokum sá ég fyrir mér að rúmið væri komið inn í herbergið, ég lægi þar á bakinu einn sunnudagsmorgun og horfði upp í þetta fallega, súðarlaga loft, upplýst af birtunni sem læðist svo hljóðlega inn um gluggann hátt uppi á norðurstafninum. Ég upplifði hámark lífsgæðanna sem voru verðlaun fyrir margar vinnustundir, daga, vikur, mánuði og ár sem þessi bygging hefur tekið tíma minn og okkar beggja. Ég ætlaði að liggja lengi á bakinu og horfa upp í þakið þennan morgun og bara njóta.

Nú var ég kominn áleiðis veginn sem liggur síðasta spölinn frá Vornesi og liggur beint til norðurs til Örebro. Þar er lítið samfélag, kannski á stærð við Kirkjubæjarklaustur, sem heitir Ekeby og vegurinn liggur við jaðar þorpsins. Þar er hámarkshraði 70 km og þar er hraðamyndavél. Það var þarna sem ég var farinn að slappa svo notalega af í nýja svefnherberginu og virða fyrir mér loftið og ég hafði ekki hugmynd um á hvaða hraða ég fór framhjá Ekeby og hraðamyndavélinni. Mér brá og ég snar hægði á ferðinni en var þá þegar kominn framhjá. Það var eins og ég reiknaði með að myndavélin mundi fyrirgefa mér ef ég hægði á þó að það væri kominn 90 km vegur. En alla vega; ég sá ekkert leyftur frá myndavél en það var túlega ekki mér að þakka heldur því að hún var alls ekki í gangi.

Að lokum var ég kominn heim eftir sólarhrings fjarveru. Ég kom upp stigann og heilsaði Valdísi. Umsvifalaust að því loknu lagði Valdís fyrir mig áætlun fyrir þennan dag. Hún hljóðaði upp á að við færum fyrst í verslunina varðandi uppþvottavélina og ísskápinn og lykjum erindum okkar þar. Að því búnu færum við inn í miðbæ í Örebro þar sem Valdís ætlaði að skipta einhverri bók í bókaverslun. Að því búnu færum við í tölvuverslun og reyndum að fræðast um hvað gengi að tölvunni. Síðan færum við heim og tækjum því rólega til morguns og færum þá á Sólvelli.

Ég féll næstum saman. Eftir alla mína skipulagsvinnu á leiðinni heim og draumana um gott líf á Sólvöllum þegar allt væri komið í kring og tilbúið, þá átti bara að eyðileggja þennan dag. Ég fann hvernig ég á einu andartaki varð að sex ára strák sem hafði orðið fyrir meiri háttar vonbrigðum með eitthvað spennandi sem hann átti von á. Ég fann hvernig ég hljóðnaði (sem sex ára strákurinn hefði kannski ekki gert) en reyndi þó að líta hress út og reyndi líka að vera jákvæður þegar ég samþykkti að það væri best að gera svo. Ég var kominn í fýlu. Svo barðist ég við sjálfan mig og reyndi að verða fullorðinn aftur en fann hvernig það stóð mér alveg upp í hálsinn. Eftir að hafa litið í Morgunblaðið í tölvunni og séð að það gekk hægt að rétta við íslenska fjárhaginn og eftir að hafa athugað gengi íslensku krónunnar sem ekkert hafði lagast, þá lögðum við af stað. Ég fann hvernig fullorðins árin smám saman komu til mín á ný, enda vann ég að því fullum hálsi, og það gekk alveg ágætlega að ljúka þeim verslunarerindum sem fyrir lágu. Í tölvuversluninni fengum við að vita að það væri allt lí lagi með harða diskinní tölvunni og þar með virtist peningaveskinu líða betur í jakkavasa mínum. Ég fór að hlakka til að koma heim og var ákveðinn í að blogga um þetta. Ég var líka ákveðinn í að fá mér svolítið julmust (ákveðinn gosdrykkur, öðru vísi gosdrykkur, sem er seldur yfir há vetrarmánuðina). Einnig var ég ákveðinn í að leggja mig í sófann og slappa af. Ég er nefnilega alltaf þreyttur þegar ég hef unnið þessar tveggja kvölda vikur sem ég reyndar geri oft í seinni tíð. Svo ætlaðið ég að hlusta á hana Sófíu Källgren syngja. Sófía er alveg sérstök söngkona sem ég er eiginlega svolítið skotinn í þó að hún sé meira en 30 árum yngri en ég. Ég var alveg ákveðinn í að hafa afskaplega gott og endurnærandi kvöld heima.

Nú er ég búinn að blogga og ég er aftur orðinn sextíu og sex ára. Það er best þannig. Hafið öll góða helgi, þið sem hugsanlega lesið þetta.

Með bestu kveðju,

Guðjón

Einangra, einangra og einangra

Það er bara eitthvað farið að ske á Sólvöllum. Reyndar er alltaf eitthvað að ske þar en þetta markmið að fara að koma svefnherberginu í stand, markmiðið næst ekki nema að unnið sé við það. Það var í sumar sem þau Rósa og Pétur komu og þá var tekinn sprettur í herberginu. Þá var unnið við hluti sem var eiginlega ómögulegt að framkvæma nema að fá þessa aðstoð. Svo fór ég að vinna við allt aðra hluti, það er að segja geymslu upp í risi, sem tók yfir tvo mánuði að fullgera. En nú er vinnan við svefnherbergið í fullum gangi og frá því á föstudag tókst mér að koma fyrir milli sjö og átta sekkjum af einangrun.

Við ætlum að halda risinu inni, það er að segja að klæða alveg upp í mæni, og því einangra ég milli sperranna einnig alveg upp í mæni, 17 sm þykkt og svo koma að minnsta kosti 10 sm neðan á það. Þeir taka sig vel út þarna burðarviðirnir úr Sólvallaskóginum.

Á myndinni hér af norðurgaflinum vantar helminginn af einangruninni í sum bilin. Í veggjunum verður líka vandað til einangrunarinnar, 22 sm, sem koma skulu í veg fyrir gigtveiki og hrörnun. Mikið gott hús Sólvallahúsið. En nú er stopp í bili. Ég vinn tvö kvöld í þessari viku sem þýðir að ég vinn tvo daga frá hádegi og kem ekki heim fyrr en kl 10 til 11 daginn eftir. Þar með fáum við peninga fyrir meiri einangrun sem er að sjálfsögðu gott mál en það verður minni byggingarvinna.

Í gær var ég út í skógi að losa ösku frá kamínunni. Á leiðinni til baka hitti ég nágranna sem á alls ekki að vera á ferðinni á þessum árstíma. Það var broddgöltur, alveg gríðarlega stór. Broddi var laslegur og virtist skjögra og hafði eiginlega ekki kraft til að flýja. Stór var hann með afbrigðum og minnti mig á afar stóra broddgaltarmömmu sem var é ferðinni hjá okkur í sumar með einn af ungunum sínum. Ég fór heim og við Valdís tókum til mat handa brodda, eða broddu, og fórum svo út í skóg á ný með vatn og mat. Nú fékk brodda mat sinn á pappafati og vatn með. Við buðum upp á túnfisk. Ekki tók hún til matar síns enda við þarna að glápa á. Við fórum því heim en löngu eftir að dimmt var orðið fór ég með vasaljós en þá var enginn broddgöltur sjáanlegur. Nóg er af fylgsnum í greinahrúgum þarna, en slíkt meta broddgeltir vel til að liggja í dvala yfir vetrartímann. Vonandi sjáum við óvenju stóran broddgölt á rölti á vel hirtri grasflötinni hennar Valdísar næsta sumar.

Ég er á brókinni, nýkominn úr sturtu, búinn að bursta og pissa og blogga og nú er mál að leggja sig.

Góða nótt
RSS 2.0