Nýr dagur að kvöldi kominn

Frá 2008.

Það var kominn nýr dagur í morgun og nú er hann að verða liðinn. Það er eins gott að nota dagana vel þegar þeir bara æða áfram. Í gær talaði ég um að skipulagið hefði farið úr skorðum eftir eina nótt í Vornesi og ég hefði þurft að endurstilla áttavitann. Í dag komst allt í fullan gang aftur og nálin í áttavitanum visaði beint fram á við á ný.

Ég svo sem skildi það aldrei almennilega þegar það kom einhver maður frá Akureyri út í Hrísey og svo hringsóluðu bátar um Eyjafjörðinn og skýringin var að maðurinn frá Akureyri vari að stilla kompásinn. Það var kannski eitthvað svipað með mig en ég þurfti bara ekki að fá manninn frá Akureyri, heldur lét ég nægja að stilla sjálfan mig inn á það sem ég var að gera og svo fór allt í fullan gang -samkvæmt minni túlkun á því hugtaki.

Ég fór líka í bankann í Kumla til hennar Helenu. Ég get vel ímyndað mér að margir sem eiga kost á því geri það um þessar mundir að fá lán til að þurfa ekki að flytja peninga frá Íslandi. Helena er þægileg manneskja að hafa með að gera. Þegar við sáum íbúðina sem við nú búum í auglýsta 1999 ræddum við auðvitað við fasteignasalann. Þar hittum við hana Pálu. Pála sagðist þekkja konuna sem væri að selja þessa íbúð og hún hafði samband við hana og svo fengum við að koma þegar í stað til að skoða. Við komum þrjú að útihurðinni  Valdís, ég og Pála og Pála hringdi dyrabjöllunni. Til dyra kom yngri kona og opnaði fyrir okkur. Ég held að hún hafi verið álíka forvitin og við og hún bað okkur að gera svo vel. Þessi kona var Helena sem síðar varð bankafulltrúinn okkar. Það var eiginlega eins og kaupin á íbúðinni væru ákveðin bæði af kaupendum og seljanda á sömu stundu og Helena opnaði hurðina.

Hér hefur nú verið hlaupið fram og til baka í tíma en aftur til nútíðar. Valdís hefur verið á fullu í dag. Í gær talaði ég um að hún fengi konur í heimsókn á morgun. Hún notaði tilefnið og er búin að pússa og laga til og gera alveg með endemum fínt hér heima. Ég veit að hún er búin að leggja alveg hörku vinnu í þetta en Valdís segir að það sé gaman að vanda til þessarar heimsóknar og svo hafa þær rólegan dag á morgun þar sem allt er vel undirbúið.

Við erum búin að horfa á helling af fréttum í kvöld. Það voru auðvitað heil miklar umræður um að norðmenn hefðu ákveðið að kaupa bandarískar orrustuþotur en ekki sænskar. En það hafa líka verið álíka miklar umræður um fjármálaástandið á Íslandi en enginn talaði um að ég hefði farið í bankann til Helenu. Það er ekki sama Jón og séra Jón.

Nú finn ég að Óli lokbrá er farinn að toga í mig enda er klukkan að verða ellefu. Ég bara áttaði mig ekki á að það væri orðið svo framorðið fyrr en ég varð Óla var. Því er bara að segja góða nótt og dreymi ykkur vel.

Guðjón


Kommentarer
Anonym

Kæru vinir,bara að láta ykkur vita að inn á þessa síðu fer ég reglulega þó ég skrifi ekki oft. Eins og Brynja segir, svo heimilisleg tilfinning og gaman að fylgjast með framkvæmdunum hjá ykkur. Hér er allt hvítt og jólalegt. Er að reyna að komast í jólagírinn, tekst ekki mjög vel. Hafið það gott á aðventunni.

Kær kveðja til Valdísar

Auja í vinnunni og sveitasælunni í Kristnesi

2008-11-21 @ 10:31:41
Anonym

Sæl og bless Auja, gaman, gaman og takk fyrir að þú heyrir af þér. Ég er rétt ófarinn í sveitina en Valdís er rétt búinn að setja kjúklingaréttinn sem hún ætlar að bjóða gestum sínum upp á í dag í ofninn. Kjúklingaréttur sem Valgerður dóttir okkar gaf uppskrift af fyrir mörgum árum og reynist vel enn í dag. Sólin skín yfir Suðurbæjarskóginn og golfvöllinn ykkar Þóris. Skilaðu nú góðri kveðju til hans frá okkur og þú færð líka kveðjur okkar beggja.



Guðjón

2008-11-21 @ 12:20:19


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0