Finnkampen

Ég leit í gegnum nokkur af bloggum mínum áðan og komst þá að því að ég hafði ekki svarað öllum sem höfðu gert athugasemd. Það var lélegt af mér en nú hef ég bætt úr því.

Ég fékk um daginn flatkökuuppskrift frá honum Jónatan tengdasyni mínum. Hann var þá að tala um að fara að baka flatkökur og ég spurði eitthvað út í flatkökugerð og hann sendi mér þá uppskriftina. Þá áttaði ég mig allt í einu á því að mér fannst sem ég fynndi lykt af flatkökubakstri. Þá tók ég ákvörðun um að það skyldi sko verða af flatkökubakstri. Nú vorum við Valdís að ræða þetta og skipuleggja og ég er ekki í vafa um að í næstu viku mun finnast flatkökulykt á Sólvöllum. Að ég kem inn á þetta núna kemur til af því að ég var áðan að svara fyrirspurn frá Valgerði á gömlu bloggi um það hvort íslensk flatkökugerð væri hafin í Örebrosýslu.

Nú stendur yfir í Gautaborg árleg íþróttakeppni milli finna og svía sem heitir Finnkampen. Ég sat um stund fyrir framan sjónvarpið og fylgdist með. Ég hef lengi haldið að ég væri hættur að vingsa með fótunum þegar fólk er í hástökki, langstökki og svona löguðu, en nú veit að ég er alls ekki hættur því. Svíi var að kasta sleggju og þegar hann riðaði á barmi þess að stíga út úr hringnum eftir kastið reyndi ég svo mikið að hjálpa honum að ég var nærri því að snúa mig úr öklaliði og minna má nú gagn gera. Svo var það stangarstökk og þá reyndi ég líka að hjálpa til og lyfti hægri fæti hátt á loft þar sem ég sat fyrir framan sjónvarpið. Svolítið var það ýkt að ég hafi verið nærri að snúa mig úr öklaliði en alla vega, þá sneri ég vel upp á öklann. Þetta minnti mig á æfingu í frjálsum íþróttum í Hrísey fyrir meira en 40 árum þar sem Þóroddur heitinn Jóhannsson var þjálfari. Það var verið að æfa hástökk og fjöldi ungra manna og kvenna spreitti sig við slána. Ég reyndi að lyfta ekki fætinum en það var eiginlega alveg ómögulegt að ekki gera það. Svo fór ég að fylgjast með þeim öðrum sem voru nærstaddir og það var gaman að sjá. Ég held að nánast hver einasti sem á annað borð horfði á, hafi lyft fætinum þegar ákaft íþróttafólkið spyrnti sér á loft. Þjálfarinn gerði það líka. Þessi æfing átti sér stað á gamla vellinum rétt sunnan við núverandi grunnskóla í Hrísey og jafnvel inn á svæðinu þar sem skólinn stendur.

Ég kom heim úr vinnu um klukkan hálf þrjú í dag. Mitt fyrsta verk heima var að smakka plómumarmelaðið sem Valdís gerði í gær, úr plómum af okkar eigin plómutré. Mér lá á og þess vegna fékk ég mér marmelaði beint ofan á kexköku. En ég hef á tilfinningunni að þetta plómumarmelaði verði allra, allra best ofan á ost á ristuðu brauði. Og ekki verður það slæmt aðeins upphitað með ís um jól og áramót. En nú er veisla að ganga í garð og þar er hvorki um flatkökur eða marmelaði að ræða. Það er nýtt lambakjöt með hrísgrjónum og karrýsósu. Nú vitið þið sem kannski lesið þetta hvernig lykt er heima hjá okkur á þessari stundu.

Plómutíð

Við erum með eitt plómutré á Sólvöllum sem gefur af sér grænar plómur. Þegar blómgunartíminn var í vor vorum við á Íslandi svo að við vissum ekki hvernig blómgunin hefði gengið. Við skoðuðum tréð þegar við komum til baka og það var ekki hægt að sjá að neinar plómur væru á leiðinni. Við endurteknar athuganir þegar leið á sumarið sáum við að það var ekkert annað að gera en sætta sig við að plómuuppskeran mundi bregðast í ár. Þegar leið að mánaðamótum júlí-ágúst merktum við þó að nokkrar plómur fengjum við þó að lokum. Þegar fimm hríseyingar voru hjá okkur í byrjun ágúst gengum við undir krónuna á plómutrénu okkar og sýndum þeim þær örfáar plómur sem væru að verða full þroskaðar.

Eftir hádegi í gær fórum við á Sólvelli til að vera þar í einn og hálfan dag. Þegar við gengum heim að húsinu tókum við eftir því að það lágu margar plómur undir trénu og það gerði okkur forviða. Við nánari athugum komumst við að því að uppskeruspá okkar hafði verið á alröngum rökum reist. Það var hellingur af plómum á trénu og hellingur á jörðinni. Þær höfðu bara verið svo líkar laufblöðunum meðan þær voru að þroskast að við sáum þær alls ekki. Þó var þetta ekki í fyrsta skipti sem við fengum ávexti af þessu tré svo við hefðum átt að geta séð betur.

Plómur beint af trénu eru afar góðar, svo góðar að það er vel hægt að borða yfir sig af þeim og þá skrækir maginn. Alla vega er það mín reynsla. Ég get vel ímyndað mér að sem barn og unglingur hefði ég getað borðað þær án vandræða. Í Vornesi eru nokkur plómutré og sum ár hefur uppskeran verið makalaust mikil og erfitt að láta vera að teygja sig eftir einni og annarri handfylli þegar framhjá var gengið. Eitt árið sligaðist tré þar undan plómuklösunum og klofnaði nánast í herðar niður eins og sagt var um íslenska vopnagarpa á fyrri öldum.


Namm, namm


Það er gaman að tína af trénu og fatan fyllist fljótt.


Á morgun ætlar Valdís að prufa uppskriftir sem við höfum fengið á feisbókinni en ég ætla í vinnuna til að vinna fyrir sykrinum.

Drykkfelldar bjarkir

Í gær tók ég nokkrar myndir af björkum. Ég ætla að birta hér þrjár af þessum myndum og tengja myndunum eitthvað sem mér finnst skemmtilegt. Ég er mikill aðdáandi bjarka en þær hafa þó einn ókost sem ég kem að síðar.



Þessi mynd tókst alls ekki þó að ég tæki margar en þessi er þó sú besta. Tréð sem teygir sig út yfir veginn og nær alveg yfir hann er björk. Að hún er svona þver að neðan yfir veginum byggist á því að hæð vörubílanna ræður vextinum. Þetta sést mikið skarpara í raunveruleikanum en á myndinni. Þegar komið eftir veginum hinu meginn frá er þetta eins og inngangurinn inn í lítið þorp sem ég stóð inn í þegar ég tók myndina. Þessi björk er farin að gulna dálítið, meira en aðrar sem ég hef séð, þó að það komi ekki fram á myndinni



Þessi björk stendur við strönd Hjälmaren og er all fræg björk. Ég held nefnilega að ég geti fullyrt að allir íslendingar sem hafa heimsótt okkur til Örebro hafi spásserað á litlu bílastæði sem er hinu megin við tréð en sést þó varla á myndinni. Svo liggur vegurinn milli trésins og Hjälmaren, vegurinn sem ég fer til Vorness, og það er mikill ókostur sem gerir það að verkum að það er ekki hægt að vera þarna í því næði sem æskilegt væri. Elsti gesturinn sem hefur stoppað þarna með okkur og rölt um bílastæðið er Sigmann heitinn Tryggvason frá Hrísey. Hvort það var sumarið 1997 eða 1998 getum við Valdís ekki áttað okkur á, en ef það hefur verið 1998 hefur það verið þegar Sigmann var 80 ára. Með honum voru líka Lilja kona hans og móðursystir Valdísar og Jóna Margrét dóttir þeirra. Ég horfði á Sigmann þegar við stöldruðum við þarna og mér sýndist á honum að hann tryði varla á raunveruleikann í það skiptið.

Svo er annað við þetta bílastæði sem alls ekki tengist björkinni. Þetta er á vegarkafla þar sem hámarkshraðinn er 70 km og lögreglan er þar oft og tekur ökuþrjóta. Mér hefur alltaf tekist að vinka þeim á leiðinni hjá og með góða samvisku. Ég er nefnilega allt of nýskur til að borga hraðasektir.




Nú erum við komin á Sólvelli. Bjarkirnar tvær sem eru sín hvoru megin við Valdísi eru hæstu trén í framkantinum á Sólvallaskóginum. Ef þær hefðu aðgang að jafn miklu vatni og björkin við strönd Hjälmar hefur, hefðu þær væntanlega jafn mikið hangandi laufverk og hún. Nú kem ég að ókostinum við bjarkir; þær eru hræðilega drykkfelldar. Sagt er að væn björk taki til sín 600 lítra af vatni á dag. Þetta vatn er bara ekki til á Sólvöllum og það má sjá á grassverðinum framan við Valdísi. Hann er harður og gulur af þurrki. Trúlega yrði önnur þessi björk mun fallegri ef hin færi. Það er hins vegar ekki svo einfalt mál. Hver vill velja hvor þeirra skal falla í valinn? Og hver er svo mikill herra yfir lífinu að hafa leyfi til að taka svona ákvarðanir? Við erum stolt yfir þessum björkum og það er gott að sitja úti og horfa á þær, einnig innan við stofugluggann og dást að þessu sköpunarverki

Blandað efni

Þann 31. desember fyrir rúmlega einu og hálfu ári kostaði sænska krónan rúmlega níu krónur íslenskar. Í dag kostar sænska krónan aftur á móti rúmlega átján krónur íslenskar. Íslensku lífeyrisgreiðslurnar okkar Valdísar hafa sem sagt lækkað um helming að verðgildi ef við þurfum að flytja þessa peninga til Svíþjóðar til þess að lifa. Fjármálaástandið íslenska hefur líka áhrif á velferð okkar hér í öðru landi. Heppinn ég að hafa vinnu þó að ellilífeyrisþegi sé. Jafnvel þó að þessi ástæða væri ekki fyrir hendi mundi ég vilja vinna eitthvað, en minna mætti gagn gera. Það er gott fyrir mig að finna að ég sé gjaldgengur á vinnumarkaði og ég finn vel að svo er. Ef ég dygði ekki í það sem ég er að gera mundi ég finna hressilega fyrir því og það hefur reyndar fólk fengið að upplifa sem er yngra en ég, og hluti vinnu minnar núna orsakast einmitt af því. Hins vegar er galli að Valdís er mikið ein á nóttunni þar sem mest af minni vinnu er kvöld- og næturvinna. Hún hins vegar sannar dugnað íslensku fjallkonunnar og stendur þetta af sér bein í baki. Þessi mikla næturvinna mín orsakast af því að við erum tveir ellilífeyrisþegar sem skiptum á milli okkar að leysa af við öll möguleg tækifæri, bæði nætur og daga, og þessi gamli vinnufélagi minn og góði vinur er orðinn full mettur á að vinna kvöld og nætur. Við svona aðstæður segir íslendingurinn; þá það, við björgum því samt. Þannig blómstrar samvinna mín og fyrrverandi fallhlífahermanns í friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna.

Þetta var eitthvað að brjótast í kollinum á mér áðan og samstundis var ég að skoða gamlar myndir í hinu nánast ægistóra myndasafni sem tölvan okkar heldur utan um. Ég var nefnilega að velta því fyrir mér að þegar ég minnka verulega vinnu mína, eða hætti alveg, þá þarf ég að gera gríðarlegt átak í að koma skipulagi á myndirnar. Ég tók nokkrar stikkprufur og leit á nokkrar myndir bara til þess að sjá að þær væru vel varðveislunnar virði. Bloggið er fyrir mig nokkurs konar dagbók og viti menn; hvílík dagbók er ekki þetta myndasafn. Ég varð svolítið uppnumin. Ég birti hér eina mynd frá 2005 og þrjár myndir frá 2007 sem komu upp af algerri tilviljun.


Það var lágskýjað veður einn júlídag 2005 þegar Rósa og Pétur voru í heimsókn og við skruppum tilo Nora, skammt norðan við Örebro, einn fallegasti staðurinn í Örebrohéraðinu, og þessa mynd tók ég af Rósu, Pétri og Valdísi í þeirri ferð.


Frá járnbrautastöðinni í Örebro 13. apríl 2007 þegar Valgerður og Rósa komu með stærðar kirsuberjatré með sér í lestinni í tilefni að 65 ára afmæli mínu.


Sama dag og síðasta mynd. Hér erum við á Hjälmaregården við sunnanverðan Hjälmaren. Við borðuðum þar mat í tilefni að afmæli mínu, spókuðum okkur í sólinni á bakka vatnsins og borðuðum súkkulaði með kaffinu á eftir.


Á leiðinni heim eftir matinn komim við við hjá mjög gamalli eik sem var nýlega fallin í valinn. Eikur deyja innan frá ef þær fá að vera svo gamlar. Þessi er ein slíkra. Síðustu árin var bolurinn svo holur að neðan að það hefði verið hægt að koma þar fyrir hægindastól og láta fara vel um sig.

Ég er búinn að nota eitthvað af þessum myndum áður í bloggi hef ég grun um. Látið mig vita ef þið verðið vör við þær í fimmta skiptið.

Síðsumarannir

Sólvallaveru er lokið í bili. Á morgun fer ég í vinnu að vinna fyrir fjárfestingunum og næsta vinna verður grjóthörð vinnuvika. Því reyndi ég, og vissulega við bæði, að hafa helgina á Sólvöllum sannkallaða hvíldarhelgi. En hvíldarhelgi er ekki bara að liggja í leti. Það er nú best að hafa sitt lítið af hverju fyrir stafni og það gerðum við.

Fyrir mig er haustið tregatímabil en samt ekki óþægilegt. Það verður nokkurs konar uppgjör við sjálfan mig, hvernig mér hafi tekist að nýta mér sumarið. Þegar ég lít til baka þá byrjaði sumarið ekki síðar en um miðjan maí og gróðurinn og laufverkið hefur verið í fullum skrúða síðan. Ég ætla alls ekki að byrja á þessu uppgjöri núna en það sem hefurn átt sér stað er að það blés nokkuð einn dag. Þann dag blésu niður þó nokkrar greinar, þá aðallega af stóru Sólvallaeikinni. Þetta er þörf hreinsun en minnir líka á að það er síðsumar og eftir síðsumar kemur haust. Svo vil ég bara geta þess að þegar vetur kemur, kemur mikil fegurð sem er af allt öðrum toga, en það er bara þegar þar að kemur.



Eftir langan og rólegan morgunverð og meira að segja sjónvarpsmessu fórum við af stað og Valdís tíndi saman nokkrar hjólbörur af greinum sem féllu niður í fyrsta síðsumarvindinum. Þar með var hún búin að gera fínt, allt í röð og reglu.



Hestkastanían þarna á myndinni sker sig svo sem ekki vel úr. Stofninn var orðinn mjög greinóttur, var loðinn eins og fótur á rjúpu. Ég sé á myndinni að ég hef farið full hátt en það jafnar sig næsta vor þegar krónan hækkar um sína 70 sentimetra. Það er síðsumarverk að laga svona lagað, það er að segja á flestum trjám sem við höfum. Eikurnar á ekki að meðhöndla svona fyrr en skömmu fyrir vorkomuna. Síðan gekk ég um skóginn til að virða fyrir mér það sem ég hafði grisjað. Litlu klippurnar voru með í för og nú, í staðinn fyrir að grisja eins og ég vann við í gær, snyrti ég margar bjarkir og hlyni. Það er líka þeirra tími fyrir lagfæringu nú á síðsumri.



Svona líta blöð hestkastaníunnar út, engin smásmíði.



Þegar Valdís tíndi upp dauðu greinarnar undir eikinni varfð hún vör við kantarellur. Þær er búið að tína að minnsta kosti tvisvar áður en þetta var uppskeran í dag. Kantarellurnar eru afskaplega góðar í sósu þegar þær hafa verið steiktar.


Nú þegar ég lít yfir þetta og geri þessa litlu samantekt ásamt því að lesa það sem ég bloggaði um í gær, þá komst heil mikið skemmtilegt í verk þó að við tækjum því rólega um helgina. Ég smíðaði líka smávegis en það er aukaatriði. Fyrir mig er bloggið að stórum hluta dagbók og ef einhver vill lesa þessa dagbók er það bara velkomið. Ég er reiðubúinn fyrir stífa vinnuviku, reyndar tvær samhangandi stífar vinnuvikur.

Grisjun

Klukkan er að verða sjö á laugardagskvöldi. Það er glampandi sólskin, vestan andvari og 18 stiga hiti. Í gærkvöldi rigndi eina tólf millimetra og nú er skógurinn bakvið bústaðinn vel á sig kominn, safaríkur og fallegur. Reyndar er hann alltaf fallegur, en þó, til að halda honum þannig þarf að sinna honum. Það hef ég alls ekki gert á þessu ári þar sem ég hef verið við smíðar í bústaðnum og svo í talsvert mikilli vinnu eins og ég hef oft getið í blogginu. Svo hef ég líka verið að afsaka mig með því að ég sé með svo lélega mjöðm að ég geti ekki grisjað. Nú er ég búinn að afsanna það, ég get vel grisjað og prufaði það fyrr í vikunni. Það gekk alls ekki sem verst. Svo fór ég út í skóg í gærkvöldi til að taka myndir og viti menn; það var svona líka flott að ganga þar sem ég hafði grisjað á mikudaginn. Því fór ég aftur af stað síðdegis í dag með klippurnar mínar. Eiginlega fannst mér frekar að ég væri að hreinsa illgresi, en það var þó í fyrsta lagi reyniviður sem ég fjarlægði og svo dálítið af greni. Það lætur kannski hrokafullt að kalla reynivið illgresi, en þegar það þjóta upp reyniviðarplöntur um og yfir heilan metra á ári og vaxa jafnvel með tíu sentimetra millibili, þá nálgast nú að mér finnist sem ég berjist við illgresi. Við svona aðstæður hindrar reyniviðurinn aðrar trjátegundir að ná sér á strik. Ég vil að til dæmis eikur, hlynur, beyki, heggur og birki geti vaxið í friði. Hann kannast við þetta hann Arnold bóndi og nágranni okkar. Hann sagði eitt sinn þegar hann kom við hjá okkur og við töluðum um þetta; reyniviður er bölvað skítatré. Við erum með 6000 fermetra skóg en Arnold 600 hektara svo hann getur þurft að berjast við marga reyniviði. En samt sem áður, reyniviður í blóma á vorin er fallegur og hann er líka fallegur um þessar mundir svo hlaðinn berjum að greinarnar hanga.


Þessi mynd sem ég tók af reynivið bakvið húsið rétt áðan í kvöldsólinni er engin góð mynd, en það má samt greina hangandi greinarnar undan þunga berjanna. Það getur komið upp ein og önnur reyniviðarplanta af þessu eina tré ef afkoman verður sæmileg, ein og önnur planta fyrir mig að grisja síðar meir.

Það var enginn glæsibragur yfir þessari vinnu minni. Ég lagðist á hnén og klippti kringum mig allt sem ég náði til og ég vildi fjarlægja. Svo færði ég mig um set og endurtók þetta. Í hvert skipti sem ég færði mig barði ég klippunum í jörðina ef það skyldu leynast slöngur í óræktinni. Ég veit að þær eru til staðar  og svona aðstæður bjóða upp á að hittast. Þegar ég vann síðast í Vornesi fór ég um kvöldið inn í eldhúsið til að taka til morgunverðinn minn fyrir næsta dag. Þegar ég opnaði hurðina blasti við mér snákur mitt á eldhúsgólfinu og var þó ekki óræktinni fyrir að fara þar. Þetta var svo sem fet langur snákakrakki sem reisti strax upp framhlutann og virtist reiðubúinn til bardaga og gulu flekkirnir aftan við augun urðu sérstaklega áberandi. Þegar ég gekk inn gólfið lagði hann þó á flotta. Svo þegar ég kom við hann með sópnum var eins og hann missti alveg máttinn. Í fægiskúffu bar ég hann út í hæfilega fjarlægð og sleppti honum. Svíarnir segja að það eigi bara að taka snáka í afturendann og bera þá burtu, en ég fann upp þessa fægiskúffuaðferð við svipaðar aðstæður fyrir nokkrum árum og aðhyllist hana frekar. Ég veit líka að það þora ekki allir svíar að taka snák í afturendann þó svo að þeir séu ekki eitraðir. Það eru til bæði höggormar og snákar kringum Sólvelli en þeir eru afar sjaldséðir og líka skíthræddir við fólk.

En nú breytti ég skógarvinnufrásögn minni í hetjusögu af sjálfum mér. Ég verð að segja að ég hafði mikla hvatningu við grisjunina. Meðan ég var þarna í skóginum vissi ég að Valdís var að gera góðan kvöldmat. Ég hafði líka grun um að hún ætlaði að hafa ávexti og ís í eftirrétt. Namm namm. Ég hlakkaði til að koma til baka og kom alveg á réttu augnabliki til að raða í mig. Hún er búinn að ofdekra mig þessi kona. Annars horfir hún mikið á íþróttir um þessar mundir og er vel að sér um afrek sigurvegaranna og hvaðan þeir koma.

Þegar byggingarframkvæmdir verða aukaatriði á Sólvöllum á skógarvinnan að verða meira atriði. Sólvallaskógurinn á að verða vel hirtur laufskógur blandaður stórum furu- og grenitrjám. Ég er búinn að skrifa þetta í nokkrum áföngum. Úti er mikil kyrrð en íþróttafréttir rjúfa kyrrðina hér inni. Hitamælirinn er fallinn niður í 12 stig en spáin fyrir næstu fimm daga er 19 til 21 stigs hiti og vindur á að verða mjög hægur.

Saltfiskur

Kvöldmaturinn á Sólvöllum þetta föstudagskvöld var saltfiskur. Ekki er það neitt sem fæst í fiskiborðum verslana í Svíþjóð. Það verður að komast yfir svona gæðamat á annan hátt. Eins og getið var á bloggi mínu fyrir skömmu voru hríseyingar í heimsókn hjá okkur. Ekki verður því neitað að það kom eitt og annað upp úr ferðatöskum þessa fólks við komuna til okkar sem tilheyrir því besta sem finnst í matvælaframleiðslu Íslandi.


Upp úr einni töskunni kom væn pakning af saltfiski. Valdís tók af þessari pakningu í fyrradag og lagði í bleyti og í kvöld var saltfiskurinn tilbúinn til suðu. Með kartöflum og rófum og tilheyrandi var þessi saltfiskur sannur veislumatur. Saltfiskur framleiddur á Hauganesi, fluttur út til Svíþjóðar í ferðatösku Björgvins Pálssonar í Hrísey ásamt nákvæmri afafvötnunaruppskrift. Alveg fullkomið. Ef einhver í nágrenni við Björgvin les þetta, endilega skila þá þakklæti fyrir matinn til hans og kveðju til hans og Önnu. Á myndinni fyrir ofan má sjá Björgvin ásamt mér og Magnúsi Magnússysi á leið í skógarathugunarferð í Sólvallaskóginum.

Fiskimannsdæturnar

"Sensommar" segja svíarnir og það hefur verið vestan vindur í dag. Ég kom heim úr vinnunni um ellefu leytið í morgun og upp úr hálf eitt var kominn tími til að fara með mágkonu mína, Brynhildi, á lestarstöðina í Örebro. Síðustu heimsókn ársins sem við vitum um er þar með lokið. Þær systur, Valdís og Binna, kvöddust greinilega með trega og það er auðvitað skiljanlegt. Heimsóknin hefur aðallega gengið út á að vera saman og spjalla. Vermlandsferð var þó farin og það bloggaði ég um í fyrradag. Þær systur fóru í bæinn eins og gengur og kíktu til dæmis í búðir. Við vorum á Sólvöllum og ég vann líka hluta af þessum heimsóknartíma. Hvað gerir fólk svo sem þegar það heimsækir hvert annað. Alla vega á okkar bæ gildir þetta mikið að vera saman. Við getum líka skipst á að vera heima og á Sólvöllum.

Hún mágkona mín var ekki alveg afslöppuð vegna þessarar lestarferðar niður til Gautaborgar þar sem Jóhanna dóttir hennar tók á móti henni, en fólk ættað að Norðan lætur sér þó ekki allt fyrir brjósti brenna. Það gerði heldur ekki hún Binna mágkona mín. Það var þess vegna sem hún lét sig hafa það og ferðaðist ein með lest á ókunnum slóðum. Ég læt hér myndir tala.


Hér er Binna að læra hvernig skilti á lestarstöðinni í Örebro virkar og mér sýnist á henni að hún sé að átta sig á að þetta sé ekki svo alvarlegt. Hún hefur gert þetta áður og hún kom líka með lest hingað fyrir viku síðan.



Svo var komið að kveðjustundinni og þær hlógu. Samt hlógu þær nú eiginlega ekki. Það var meira gert fyrir myndavélina og mig. Svo knúsuðust þær og sögðu bless, bless og bless hvað eftir annað og svo var ekki um annað að ræða en stíga um borð. Svo sáum við Valdís inn um glugga hvar hún mágkona mín var komin í sæti. Það erfiðiðastsa við ferðalög er um garð gengið þegar lagt er af stað. Svo var það líka að sjá að þessu sinni. Þakka þér fyrir komuna mágkona mín og velkomin aftur hvort sem það verður 14. desember eða einhvern annan dag (nokkuð sem við notuðum til að gera að gamni okkar í morgun).


Nú er það svo að fiskimannsdæturnar hef ég líka oft kallað Kidda Villadæturnar og þær eru ekki bara Valdís og Binna. Árný Björk býr í Garðabæ og hún hefur líka komið í heimsókn til okkar á árum áður með kallinum sínum. En þetta blogg er bara systrablogg og við verðum að hafa Árnýju mágkonu mína með.



Þessi mynd af henni Árnýju var tekin önnur jólin okkar á Sólvöllum, eða 2004. Þá komu þau í heimsókn um jól Arný og Gústi. Við tókum okkur tima til að grisja skóg og vorum öll fjögur út í skógi að vinna við þetta til að jólamaturinn skyldi ekki allur setjast utan á okkur. Hér greip hún bogasögina og hamaðist við að brytja niður grennri grenistofn.



Það voru jú jól og ekki alltaf verið að grisja skóg. Þessi mynd var tekin af Árnýju við jólatréð heima í Örebro árið 2004. Hún er broshýr þarna hún mágkona mín.



Og á Sólvöllum líðst engin óreiða. Það logar fallega í kamínunni og Árný hreinsar upp öskuna. Síðan má setjast niður og njóta þess að horfa í eldinn. Mig minnir líka að þessi jól hafi verið spilað á Sólvöllum.


Þá er ég búinn að kynna mágkonur mínar þær sem eru systur konu minnar bæði í þessu og fyrri bloggum. Það er orðið dimmt og vestan vindurinn er genginn niður. Ég er orðinn lúinn og er til í að sofa níu tíma í nótt eftir að hafa unnið síðustu nótt. Fimm daga spáin gerði áðan ráð fyrir 18 til 24 stiga hita.  Það er hlýtt þó að það sé "sensommar" og eins og ég hef oft sagt áður þá er skógurinn svo ótrúlega fallegur. Það er nokkuð sem aldrei getur orðið hversdagslegt.

Vermland

Í gær ætlaði ég að birta myndir af tveimur konum, fiskimmannsdætrunum frá Hrísey sem ég kallað þær. En nú var það bara svo að ég gat ekki birt þessar myndir vegna þess að mig vantaði ákveðna snúru. Nú er ég heima í Örebro og er búinn að hlaða inn myndum og kominn í gang á blogginu. Ég er hérna með fimm myndir sem ég ætla að bjóða upp á. Tvær þær fyrstu eru frá í gær en svo koma þrjár myndir frá smáferðalagi sem við fórum upp í Vermland í dag. Við fórum að heimsækja vinnufélaga minn sem býr skammt frá Kristinehamn. Eftir að hafa borðað á því heimili alveg gríðar vel útilátnar brauðsneiðar og spjallað um stund fórum við inn til Kristinehamn og skoðuðum þar mjög fallegan bæ. Kristinehamn er við Vänern norðaustanverðan og úr hluta af bænum er útsýni yfir vatnið. En fyrst myndirnar frá í gær.


Rósa og Pétur keyptu í garðyrkjuverslun bláberjarunna sem nú er að ná sér á strik í Sólvallaskóginum. Ekki man ég hvað þessi runni heitir en hann á þegar fram líða stundir að geta skilað góðri upp skeru. Hér eru þær að tína af þessum runna og gæta þess að ekki eitt einasta ber fari til spillis.


Svona lítur runninn út. Sum berin eru vel þroskuð og önnur verða nú ekki tilbúin fyrr en um mánaðamót ef að líkum lætur. En þau ber sem runninn skilaði ásamt venjulegum bláberjum úr nágrenninu notuðum við í morgun til að bragðbæta morgunkornið.




Hér koma myndir frá Kristinehamn


Hér eru fiskimannsdæturnar Valdís og Binna komnar að vatninu Vänern og hlusta þar hugfangnar á öldugjálfur. Þær telja sig nátengdar hafinu þar sem þær eru fæddar og uppaldar á eyju en í þessu tilfelli láta þær stöðuvatn nægja.


Þar sem útsýnið í Krisinehamn opnast út á Vänern er þetta Picasso listaverk staðsett, kallað Picassoskulpturen. Eftir krókaleiðum komust þær systur upp að þessari stæðilegu súlu. Ég vildi ekki fara frá Kristinehamn fyrr en ég væri búinn að taka mynd af þeim þarna.Næsta umhverfi við listaverkið er mest klappir en þar þrífast þó all stórrt furur. Það er mikið af þráðbeinum og stæðilegum furum í Kristinehamn.


Vänern sem er 5650 ferkm að stærð er stærsta stöðuvatnið í Svíþjóð og þriðja stærsta í Evrópu Hér eru nokkrar fleiri staðreyndir um þetta stóra vatn. Mesta dýpi er 106 metrar og meðaldýpi 27 m. Vatnsmagnið er um 153 rúmkm. Í vatninu eru 22 000 eyjar, hólmar og sker. 800 af þessum eyjum eru meira en einn hektari að stærð. Í vatninu munu leynast um 10 000 skipsflök sem draga að sér kafara. Látum þennan fróðleik um Vänern nægja, sænska stöðuvatnið sem var í dag var heiðrað af nærveru tveggja af þremur fiskimannsdætranna frá Hrísey. Sú þriðja verður vonandi með næst.

Fiskimannsdæturnar

Það fóru systur út í skóg í dag til að tína ber. Ég fór með myndavélina og tók myndir til að geta sett af þeim í bloggið mitt, en þegar til átti að taka var snúran ekki með, snúran til að færa myndirnar af myndavél inn á tölvu. Ég er lélegur í þessari tækni og mér finnst sem hálfa lífið sé farið að ganga út á snúrur. Heima í Örebro er kommóðuskúffa sem er sannkölluð snúruskúffa og þar vildu oft myndast flækjur áður. Valdís kom góðu skipulagi á þessa skúffu þegar hún vafði snúrunum upp í snyrtilegar hankir og brá svo bandi utan um hankirnar. Þar með var hver snúra orðin að snyrtilegu, svolítið aflöngu knippi með kló á öðrum endanum og straumbreyti á hinum og engin flækja finnst í snúruskúffunni lengur. En mér finnst gott að hafa farsíma, myndavél og tölvu og vil ekki vera án. Þó hefur mér oft dottið í hug að það væri gaman að prufa að vera einn í fjallakofa langt frá mannabyggð, án útvarps, sjónvarps og tölvu en hafa þó farsíma til að geta látið vita af mér daglega, að ég sé á lífi. Flestum finnst þetta vitlaus hugmynd en þó er til fólk sem myndi gjarnan vilja reyna þetta líka. Það væri fróðlegt að vita hvaða minningar og hugsanir kæmu upp á yfirborðið á einni viku. Þetta yrði án efa mikil hreinsunarvika.

Aftur að systrunum sem fóru út í skóg að tína ber. Konan mín var að sjálfsögðu önnur þeirra og ég hef oft kallað hana fiskimannsdótturina frá Hrísey. Hún var huguð nóg til að fylgja mér til annars lands fyrir meira en 15 árum. Dvölin átti að vera aðeins fáein ár en það fór á annan veg. Ég hef oft orðið undrandi á því að hún tók þátt í þessu með mér. Í fyrsta skipti sem ég varð virkilega undrandi var upp í Falun á fyrstu árum okkar hér, þegar hún var í skóla sem er kenndur við fullorðinsfræðslu og þar lærði hún sænsku. Það var komið að lokum annarinnar og ég fór með Valdísi til skólans þar sem hún þurfti að sækja eitthvað. Hún hitti konur utan við skólan og þær tóku tal saman. Ein þeirra var frá Sri Lanka en ég man ekki hvaðan aðrar voru. Þarna stóðu þær í þyrpingu utan við aðalinnganginn og töluðu saman á sænsku. Ég sat í bílnum, horfði á og var hissa.

Nú eru fiskimannsdæturnar frá Hrísey tvær hérna á Sólvöllum. Binna er í heimsókn. Binna hefur lengi verið tengd Svíþjóð þar sem dóttir hennar hefur búið hér í áratugi. Núna eru dætur hennar í Svíþjóð tvær þannig að hún á meira erindi hingað en áður. Ég spurði hana áðan hvernig henni liði í þessu landi og hún svaraði "bara, bara mjög, mjög vel". Ég held reyndar að hún segi þetta alveg dagsatt hún mágkona mín. Núna sitja þær frammi í stofu hér á Sólvöllum, prjóna og tala rólega saman. Núna vantar bara hana mágkonu mína úr Garðabænum svo að fiskimannsdæturnar frá Hrísey væru hér allar þrjár.

Út við skógarjaðarinn rýkur úr holu. Það er ekki í fyrsta skipti. Í holunni er lambakjöt að grillast, lambakjöt kriddað með pipar og salti og vafið í birkilauf og álpappír. Hvítlaukur mun leynast í því líka. Fiskimanndsóttirin mín frá Hrísey er snillingur í þessari matargerð. Núna er hún að leggja á borð og eftir smá stund á ég að sækja kjötið. Svo verður veisla.

Ég ÆTLA að blogga

Ég kom inn hér á Sólvöllum fyrir stuttu eða milli klukkan sex og sjö og það var byrjað að borða. Ég var alveg ákveðinn í því að blogga þegar við værum búin að borða. Svo vorum við búin að borða og ég gekk að tölvunni en var alveg galtómur. Þegar ég hafði ákveðið að fresta bloggi til seinni tíma vegna þessa tómleika fann ég allt í einu fyrir þráa og hugsaði sem svo að ég gæfi mig ekki svo létt. Svo byrjað ég.

Ég var að vinna í Vornesi í gærkvöldi og nótt og aldrei slíku vant var svoítið vesen á vinum mínum ölkunum þannig að ég fékk ekki nema um fjögurra tíma svefn. Og það er ekki að því að spyrja að ef ég fæ ekki mína átta tíma verð ég haltari og ef ég fæ ekki nema fjögurra tíma svefn verð ég draghaltur. Það hefur ekki alveg verið minn dagur í dag, síðan um hádegi eða svo.

Hún Binna mágkona mín er í heimsókn og þær systur virðast mjög samrýmdar. Nú erum við þrjú á Sólvöllum. Þær horfa á fréttir sem stendur en ég horfi út í skóg milli þess sem ég slæ inn einni setningunni eftir aðra.

Um daginn gaf hún Githa okkur eikarplöntu sem hún sáði fyrir í vor. Þetta var gert í ákveðnum tilgangi og það átti að vera táknrænt að það var sáð fyrir eikinni á þessu ári. Síðan var þessi litla eik gróðursett með miklum greftri og viðhöfn fyrir svo sem þremur vikum meðan Rósa og Pétur dvöldu hjá okkur. Svo þegar gróðursetningunni var lokið horfðum við á verkið með lotningu og vorum ánægð. Eikarplantan var falleg. Svo var ákveðið að setja hænsnanet í kringum plöntuna svona til vonar og vara en netið áttum við ekki. Það skyldi kaupa þegar ég fengi næsta frí frá vinnu. Svo yfirgáfum við Sólvelli og við Valdís komum til baka snögga ferð einum þremur dögum seinna. Fyrsta verkið þegar við komum inn á lóðina var að líta á litlu eikina. En viti menn; það var búið að éta af henni hvert einasta blað. Það varð sorg og svolítið álasaði ég mér fyrir að hafa ekki lagt umsvifalausa áherslu á hænsnanetið. En afhverju í ósköpunum þurftu dádýrin að velja "þessa" eikarplöntu af öllum þeim þúsundum plantna sem finnast bara í Sólvallaskóginum svo ekki sé talað um allt nágrennið.

Githa er ekki við eina fjölina felld. Þegar hún frétti af þessu slysi sagðist hún eiga aðra litla eik sem einnig var sáð fyrir síðastliðið vor. Þessa eik fengum við líka og þegar við komum með hana á Sólvelli eftir hádegið í dag get ég lofað ykkur því að hænsnanetið var með. Nýju plöntuna lagði ég nærri blaðlausu plöntunni og ætlaði í rólegheitum að búa mig undir nýja gróðursetningu. Heltin var farin að aukast eftir því sem leið á daginn og ég ákvað að fara gætilega. Í leiðinni leit ég á þennan blaðlausa fimmtán sentimetra háa stilk sem áður var svo falleg eikarplanta. En hvað? Jú! Möguleikar Skaparans eiga sér engin takmörk. Ég gat ekki betur séð en það væru farin að vaxa ný agnarlítil blöð litlu eikina.

Eftir súpudisk og flatbrauð fór ég í smekkbuxurnar og svo hófst verkið. Nýju plöntuna setti ég eina fimmtán sentimetra til hliðar við þá fyrri. Síðan rak ég niður fjóra litla staura og gekk síðan frá hænsnanetinu umhverfis plönturnar og einnig yfir. Svo fullvissaði ég mig um það öðru sinni að það væru farin að vaxa ný agnarlítil blöð á fyrri eikarstilkinn. Hun er á lífi. Í haust eða að vori getum við síðan valið um hvor plantan fær að vera á þessum stað, en hin sem verður tekin burt, verður sett niður ein hvers staðar annars staðar í Sólvallalandinu. Þrátt fyrir ótal sjálfsánar eikarplöntur í landinu okkar verður eikunum frá henni Githu sýnd sérstök virðing. Við vitum með vissu hvaða ár þær eru fæddar.

Kvöldhúmið er að leggja faðm sinn yfir skóginn. Laufblöðin á eikum og björkum utan við gluggann bærast varla. Reyniviður aðeins lengra burtu er svo hlaðinn rauðum berjum að greinarnar hníga undan klösunum. Lengra burtu er haf af öllum mögulegum tegundum og þar hefur rökkrið setst að.

Þá er ég búinn að gera það sem ég hélt að mér tækist ekki að þessu sinni; ég er búinn að blogga. Eftir að hafa staðið í hvíldarstöðu við hátt skrifborðið er mér farið að líða betur í fætinum. Ég er líka búinn að fá mér verkjatöflu. Í nótt ætla ég að vera eina níu tíma í draumalandinu með honum Óla lokbrá.

Hríseyingar í Örebro 4

Heimsókninni sem við öfum haft í heila viku lauk í morgun þegar hríseyingarnir fimm fóru með lestinni til Stokkhólms upp úr klukkan níu. Eftir á að hyggja fannst mikið meiri dýpt í þessari heimsókn en látið var í veðri vaka meðan á henni tóð. Ég skal þó viðurkenna að ég renndi huganum til liðins tíma án þess að taka það upp í umræðunni okkar á milli og gerði mér grein fyrir því að allt þetta fólk hafði á sinn hátt og misjafnlega mikið haft áhrif á mig og þann sem ég er í dag. Þannig er það með þetta óskrifaða lögmál. Við Valdís bjuggum í Hrísey í 30 ár. Þó að Anna Björg og Magnús hafi flutt þaðan nokkuð snemma á þessu tímabili hafa þau samt alltaf hríseyingar í huga mínum, svo ég tali ekki um Sigurhönnu og Friðbjörn sem eru bara nýflutt þaðan.




Þessar konur, Sigurhanna og Anna Björg, voru að verða unglingar þegar ég flutti til Hríseyjar. Eftir að ég fór að vinna hjá honum Björgvin pabba þeirra var oft drukkið morgun- og síðdegiskaffi þar heima. Það var ekki ósjaldan að þær sáu til þess að kaffið og brauðið væri til staðar þegar ég settist þar glorhungraður að matborðinu. Mikið var langt frá því þá að mig óraði fyrir því að ég ætti eftir að eiga þessa daga með þeim hér úti í Svíþjóð. Takk fyrir alla þessa kaffibolla og brauðsneiðar fyrir nærri hálfri öld stúlkur mínar.




Ég hafði trassað allt of lengi að skipta um hnífa í sláttuvélinni fyrir Valdísi. Eftir áminningu frá henni keypti ég nýja hnífa og sláttuvélinni veltum við á hliðina. Ekki var um annað að ræða en að Björgvin tæki þátt í þessu. Kambur undir vélinni sem hnífarnir eru festir við var all snúinn og undinn og ekki var um annað að ræða en taka hann undan og rétta eitthvað af. Ég ætlaði að fara bakvið húsið og leggja þennan kamb á planka sem þar var og slá hann til. En Björgvin var á öðru máli. Þetta hér er hreinn járnsmíðabekkur, sagði hann, og gekk að gamla flaggstangarfætinum. Svo hélt ég við og Björgvin hamraði járnið. Ekki var nú laust við að ég kannaðist við taktana og rólega yfirvegunina frá því forðum daga. Sláttuvélin varð sem ný við þessa lagfæringu.




Hvað gerir fólk svo í einnar viku heimsókn í Svíþjóð. Það var ekki laust við að okkur Valdísi þætti sem smekkur okkar og þeirra færi vel saman. Það var einfaldleiki og rólegheit sem réði ríkjum. Þarna völdum við að vera í skugganum bakvið Sólvallahúsið og Valdís smellti þessari mynd af okkur. En heyrðu mig Friðbjörn, hvað varð af þér þegar þessi mynd var tekin? Ég vissi ekki betur en þú hefðir verið þarna líka.

Valdís var byrjuð á matargerð og frampartur umlukinn birkilaufi og álpappír hvíldi á grillkolum í holu við skógarjaðarinn. Svo var spjallað og góða veðrið faðmaði okkur að sér. Lyktin úr grillholunni minnti okkur öðru hvoru á að brátt yrði matur.




Sigurhanna og Björgvin fóru út undir stóru Sólvallaeikina og tíndu sveppi í sósuna sem Valdís var að undirbúa. Ég veit að Björgvin er vanur og góður berjatínslumaður, en að sjá hann tína sveppi úti í Svíþjóð, ja, ég segi nú bara ekki meir.



Friðbjörn og Magnús slöppuðu af áður en Friðbjörn brúnaði kartöflurnar fyrir Valdísi.



Á hverjum degi notfærði ég mér að vanur byggingarmeistarinn Björgvin Pálsson var á staðnum og ráðgaðist við hann um komandi aðgerðir á Sólvöllum. Í gær, síðasta daginn á Sólvöllum, spurði ég hann hvort hann vildi ekki leggja sig. Það var af og frá að hann vildi leggja sig en ég sagðist samt ætla að sækja teppi sem væri í bílnum. Ég sá á honum að það var algerlega fjarri honum að vilja leggja sig. En þegar ég hafði slengt teppinu þarna á jörðina og vildi fá hann til að líta með mér inn undir húsið og spá í lagfæringu á gamla gólfinu var hann boðinn og búinn. Hinu fólkinu þótti við ögn hlægilegir liggjani þarna við húsvegginn og það voru teknar af okkur margar myndir.



Svíþjóð herfur virkilega skartað sínu fegursta þetta sumar eins og þetta land gerir ævinlega. Það þarf eiginlega ekki annað en snúa sér við, þá tekur við annað fallegt sjónarhorn. Þegar við Valdís fluttum hingað fyrir fimmtán og hálfu áru datt mér ekki í hug að ég gæti orðið svo ástfanginn af einu landi. Það sem við ferðuðumst saman þessa viku, við og hríseyingarnir,  voru bara fáein hundruð kílómetrar en ómótstæðilegu sjónarhornin voru þó óendanlega mörg. Við þökkum ykkur innilega fyrir heimsóknina hríseyingar. Og Valdís mín, þakka þér svo mikið fyrir kvöldmatinn í gær, hann var svo góður.

Hríseyingar í Örebro 3

Dagurinn í dag er sá heitasti síðan hríseyingarnir mættu hér í Örebro, yfir 30 stig núna síðdegis. En fyrst til gærdagsins. Þá fórum við til bæjar 70 km norðvestan við Örebro sem heitir Grythyttan. Þar er skóli sem heitir Måltidens hus (Hús máltíðarinnar). Þar hafa margir af færustu matreiðslumönnum og konum landsins lært sitt fag og því töldum við að við gætum fengið þar eitthvað við okkar hæfi. Ef miðað er við verð má segja að það hafi gengið eftir.


Hér á myndinni má sjá tvo smiði sem eru mættir til hádegisverðar í Húsi máltíðarinnar. Valdís var á lofti með myndavélina og staðfesti þessa stund í sögu staðarins.


Hér má hins vegar sjá Magnús, Sigurhönnu, Valdísi, Friðbjörn, Björgvin og Önnu Björgu en Guðjón fyrrum smiður í Hrísey stóð bakvið myndavélina. Mums á diskunum og fólkið í ferðaskapi.


Hér var stillt upp til myndatöku við vatnið að baki skólanum. Síðan röltum við um og skoðuðum útihús og ytri aðstöðu skólans og yfirgáfum svæðið mett og ánægð.


Við gátum ekki yfirgefið Grythyttan án þess að skoða til dæmis kirkjuna. Hún er klædd tréflísum sem svíarnir kalla spón. Kirkjan er samkvæmt heimildum byggð árið 1632 og segja má við fyrstu sýn að þessar flísar séu óteljandi. Það er margt í þessari kirkju sem ber handbragði síns tíma gott vitni. Á myndinni má sjá björgvin íhuga flísaklæðninguna og Guðjón og Magnús fylgjast með.



Í dag, fimmtudag, var ferðinni heitið til Södermanland. Eins og alltaf þegar íslendingar eru á ferðinni var borðaður hádegismatur á Hjälmargården í þorpinu Läppe. Þar er enginn matreiðsluskóli en þar var maturinn mjög góður samt og starfsfólk, húsnæði og umhverfi, allt hjálpast að til að gera máltíð á Hjälmaregården góða og notalega.


Eftir matinn stilltum við okkur upp og vinaleg og hjálpleg matreiðslukona á staðnum var nú aldeilis tilbúin að taka mynd af okkur. Bakvið okkur má sjá vatnið Hjälmaren. Hjälmaren er Svíþjóðar fjórða stærsta vatn, 63 km langur og um 20 km breiður, 485 ferkm. Mesta dýpi er 22 m en meðaldýpi 6,05 m. Læt ég hér með nægja umfjöllun um Hjälmaren.


Umhverfis Hjälmargården eru all nokkrar byggingar. Til dæmis þetta gamla stokkhús. Hér sjáum við Björgvin huga að hvernig mönnum hafi tekist upp fyrir hugsanlega 200 árum við að taka þykkt á þessi miklu tré sem húsið er byggt úr. Nákvæmt sgði Björgvin.


Það má segja að þetta hafi verið lokaatriði þarna við Hjälmaren að horfa norðaustur yfir vatnið, frá skógi vöxnum suðurbakkanum nokkru austan við Hjälmargården móti skógi vöxnum eyjum og nesjum sem prýða þetta svæði.

Hríseyingar í Örebro 2

Hér verður að birta smá skýrslu um heimsókn hríseyinga til Örebro og Sólvalla. Fyrst veðurskýrsla. Logn, þurrt, sólarlítið og hiti á bilinu 20 til 25 stig. Í dag, þriðjudag var,var mest dvalist í miðbæ Örebro en þaðan hef ég engar myndir svo skrítið sem það er. Hins vegar eru til myndir frá gærdeginum hér á Sólvöllum og því vel ég að gefa skýrslu um gærdaginn. Fyrst má geta þess að Valdís kokkaði í okkur öll og bakaði pönnukökur eins og hennar er von og vísa við mikilvæg tilfelli. Það var farið í skógarferð og kíkt á mauraþúfu sem bara verður stærri og stærri og það var kíkt á tré sem nýtast til ólíkra hluta. Ekki var heldur verra að það voru ber út um allt sem freistuðu og snotrir grenikönglar freistuðu líka.


Á þessari mynd má sjá Friðbjörn sem gaf hraustlega í en Anna björg sá berjaþúfu og gaf sig ekki, þessi ber skyldi hún tína og bíðiði bara þangað til ég er tilbúin tilkynnti hún. Þá gaf Friðbjörn í aftur svo að ekki náðust frekari myndir af honum í þesari skógarferð.


Valdís, Lóa, Friðbjörn, Anna Björg, Magnús og Björgvin. Þarna var Valdís búin að bjóða upp á pönnukökurnar svo ekki var um annað að ræða en fara í aðra könnunarferð um um önnur órannsökuð svæði. En viti menn. Á meðan á þessari gönguferð stóð hafði fleira fólk komið á Sólvelli. Þar var á ferðinni kunnugt fólk sem sá að bíll var heima við og húsið var opið. Því hlytum við að vera nærri sem raun varð á.


Þarna til hægri á myndinni, hægra megin við Valdísi, má sjá Þóri fyrrverandi héraðslækni okkar meðan við bjuggum í Hrísey og hana Auði hans. Þau eru nú í sinni árlegu heimsókn til Örebro og eru þarna með gestum sem dvelja hjá þeim í Örebro. Þar með var þetta orðið sannkallað íslendingamót á Sólvöllum, alls tólf manns. Svona er fínt að hafa þetta öðru hvoru.

Hríseyingar í Örebro 1

Lestin frá Stokkhólmi kom klukkan fimm í dag til Örebro. Mynd af henni er hér fyrir neðan þegar hún renndi í hlað.


Frá borði stigu hressir Hríseyingar þar sem Björgvin Pálsson með vökulu auga kom auga á mig í mannþrönginni. Það eru ár og dagar síðan við Björgvin rákum fírtommurnar í takt í sperrur og grindverk.  Á myndinni fyrir neðan sjáum við frá vinstri Lóu, Önnu Björgu, Magnús, Friðbjörn og Björgvin. Strákarnir til hægri á myndinni voru að flækjast fyrir. Frekari skýrslur verða birtar við tækifæri.

RSS 2.0