Drykkfelldar bjarkir

Í gær tók ég nokkrar myndir af björkum. Ég ætla að birta hér þrjár af þessum myndum og tengja myndunum eitthvað sem mér finnst skemmtilegt. Ég er mikill aðdáandi bjarka en þær hafa þó einn ókost sem ég kem að síðar.



Þessi mynd tókst alls ekki þó að ég tæki margar en þessi er þó sú besta. Tréð sem teygir sig út yfir veginn og nær alveg yfir hann er björk. Að hún er svona þver að neðan yfir veginum byggist á því að hæð vörubílanna ræður vextinum. Þetta sést mikið skarpara í raunveruleikanum en á myndinni. Þegar komið eftir veginum hinu meginn frá er þetta eins og inngangurinn inn í lítið þorp sem ég stóð inn í þegar ég tók myndina. Þessi björk er farin að gulna dálítið, meira en aðrar sem ég hef séð, þó að það komi ekki fram á myndinni



Þessi björk stendur við strönd Hjälmaren og er all fræg björk. Ég held nefnilega að ég geti fullyrt að allir íslendingar sem hafa heimsótt okkur til Örebro hafi spásserað á litlu bílastæði sem er hinu megin við tréð en sést þó varla á myndinni. Svo liggur vegurinn milli trésins og Hjälmaren, vegurinn sem ég fer til Vorness, og það er mikill ókostur sem gerir það að verkum að það er ekki hægt að vera þarna í því næði sem æskilegt væri. Elsti gesturinn sem hefur stoppað þarna með okkur og rölt um bílastæðið er Sigmann heitinn Tryggvason frá Hrísey. Hvort það var sumarið 1997 eða 1998 getum við Valdís ekki áttað okkur á, en ef það hefur verið 1998 hefur það verið þegar Sigmann var 80 ára. Með honum voru líka Lilja kona hans og móðursystir Valdísar og Jóna Margrét dóttir þeirra. Ég horfði á Sigmann þegar við stöldruðum við þarna og mér sýndist á honum að hann tryði varla á raunveruleikann í það skiptið.

Svo er annað við þetta bílastæði sem alls ekki tengist björkinni. Þetta er á vegarkafla þar sem hámarkshraðinn er 70 km og lögreglan er þar oft og tekur ökuþrjóta. Mér hefur alltaf tekist að vinka þeim á leiðinni hjá og með góða samvisku. Ég er nefnilega allt of nýskur til að borga hraðasektir.




Nú erum við komin á Sólvelli. Bjarkirnar tvær sem eru sín hvoru megin við Valdísi eru hæstu trén í framkantinum á Sólvallaskóginum. Ef þær hefðu aðgang að jafn miklu vatni og björkin við strönd Hjälmar hefur, hefðu þær væntanlega jafn mikið hangandi laufverk og hún. Nú kem ég að ókostinum við bjarkir; þær eru hræðilega drykkfelldar. Sagt er að væn björk taki til sín 600 lítra af vatni á dag. Þetta vatn er bara ekki til á Sólvöllum og það má sjá á grassverðinum framan við Valdísi. Hann er harður og gulur af þurrki. Trúlega yrði önnur þessi björk mun fallegri ef hin færi. Það er hins vegar ekki svo einfalt mál. Hver vill velja hvor þeirra skal falla í valinn? Og hver er svo mikill herra yfir lífinu að hafa leyfi til að taka svona ákvarðanir? Við erum stolt yfir þessum björkum og það er gott að sitja úti og horfa á þær, einnig innan við stofugluggann og dást að þessu sköpunarverki


Kommentarer
Rósa

hmmm, það þarf sem sagt að senda allar bjarkir í meðferð?



kveðja,



r

2009-08-28 @ 10:36:35
Guðjón

Ég vildi ekki segja það en alla vega ef þær drykkju minna væri einfaldara að fá þær virkileg fallegar. En við getum ekki tekið þær inn í Vornesi.



Kveðja,



pabbi

2009-08-28 @ 11:06:07
URL: http://gudjon.blogg.se/
Valgerður

á þetta ekki við um alla drykkum. nei jurtir að því meira sem er af vatni því fallegri verða þær

2009-08-28 @ 13:05:51
Guðjón

Alla vega í svo röku sumri sem nú hefur verið hefur skógurinn, og þar með talið bjarkirnar, verið fallegri en nokkurt sumar áður síðan við komum til þessa lands.



Kveðja,



pabbi

2009-08-28 @ 16:36:48
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0