Dagur í sveitinni

Þegar ég vakanaði tíu mínútur yfir átta í morgun var mín fyrsta hugsun hvað ég hefði sofið notalega. Einu sinni var ég á ferðinni og þá helli rigndi. Og hvað hafði ég gert til að fá að njóta svefnsins? Ég vissi það svo sem ekki en í huganum sveif ég svolítið gegnum gærdaginn.
 
Ég hafði lokið ákveðnum frágangi sem ég hafði haft sem íhlaupaverk í alla vega tvær vikur og þegar ég horfði harla glaður yfir það var aðeins að byrja að bregða birtu. Ég ákvað að ganga einn hring í mínum litla skógi og stoppa hjá mörgum grænum vinum mínum þar og spyrja þá hvernig þeim liði. Birkitrén, en þó sérstaklega burknarnir, voru að komast í haustklæðin, en að öðru leyti er bara grænt og fínt. Svo fór ég annan hring og stoppaði hjá öðrum vinum í þeim hring.
 
Eftir það settist ég í góðan stól bakvið húsið móti skóginum og tók upp símann til að skoða spá morgundagsins. Síðan las ég fréttir hingað og þangað að úr heiminum. Ég las um beiðnir Þórólfs og Tegnell og framámanna hingað og þangað út í heimi um að fólk fari varlega. Ég las líka um óeirðir og háværar raddir um að fólki var meinað að gera bara eins og því sýndist. Sumir voru óánægðir yfir að geta ekki drukkið og leikið sér en aðrir voru óánægðir vegna þess að lífsviðurværi þeirra var settur stóllinn fyrir dyrnar. Þá síðarnefndu skildi ég betur.
 
Ég minntist eins dags þegar kórónafaraldurinn var að byrja hér í landi og ég var einn heima. Þann dag virtist ekkert annað komast að í útvarps- og sjónvarpsdagskrám en þessi voði sem virtist koma til með að leggja nútímasamfélög að velli. Ég var búinn að horfa lengi á þetta eftir að Susanne var farin í vinnu og ég fann að það gerði mér ekki gott, mér var farið að líða illa. Því fór ég út í skóg til að ganga endanlega frá nokkrum furum sem ég hafði sótt út undir háspennulínuna og gróðursett hjá mér.
 
Ég gerði það af mikilli alúð og fann mig styðja við lífið en ekki sjúkdóma og dauða. Eftir það hef ég ekki fundið fyrir ótta við kórónaveikina en ég hef talið mér skylt að fylgja ráðum þeirra sem gera sitt besta til að okkur meigi farnast vel. Ég hef líka séð það sem prófstein á það hver ég er og einnig prófstein á það hvort ég hafi til að bera þá ró og þann styrk að geta lifað góðu lífi við takmarkanir.
 
Þarna sat ég enn þegar það var orðið aldimmt og mér leið alveg ágætlega. Ég var einn heima, Susanne var í íbúð sinni í Katrineholm. Okkur finnst það góður siður að hafa það öðru hvoru þannig og stundum hefur það líka verið vegna þess að hún hefur verið að vinna þar. Það var mál að fara inn og finna til mat.
 
Þegar ég fór úr stígvélunum undir útiljósinu urðu sokkarnir eftir í stígvélunum og ég sá að ég var hressilega óhreinn milli tánna. Þá komst ég ekki hjá því að þrífa mig og síðan að borða einfalda máltíð.
 
Þegar ég hafði hraðspólað gegnum fréttirnar leitaði ég uppi sjónvarpsmessu frá nýlega liðinni helgi og byrjaði að horfa. Það voru örfáar manneskjur í kirkjunni og það var í fyrsta lagi fámennur kór sem hafði raðað sér upp með löngu millibili. Svo sungu þau fallega sálma og söngva og sungu fallega. Meira að segja einsöngurinn var fallegur og lesnir textar voru kunnuglegir og fallegir. Það er eins og á AA fundum þar sem sömu textar eru notaðir áratug eftir áratug en það er vegna þess að það virkar fyrir þá sem vilja taka við því.
 
Svo kom værð yfir mig og Óli lokbrá kom til mín og dró í og sleppti á víxl en mér fannst samt að ég væri með og heyrði. Heppinn var ég að bursta tennurnar áður en ég byrjaði að horfa á messuna.
 
Klukkan 23:48 með höfuðið á koddanum sendi ég góða nótt skilaboð til Susanne og hún svaraði um hæl. Hvílík heppni að snillingarnir voru búnir að finna upp messenger.
 
Eftir nokkuð hressilegar skúrir í nótt hefur veðrið verið svipað og í myndinni Hvítur, hvítur dagur. Sem sagt lágskýjað og þoka. Afrek dagsins eru smá en ég er alla vega búinn að kaupa 40 kóló af fuglamat.
 
What do you want to do ?
New mail
 
What do you want to do ?
New mail
RSS 2.0