Og að lokum til námunnar í Kristineberg

Hér kemur þriðja bloggið mitt um ferð sem við Susanne fórum upp í Lappland árið 2016, ferð sem ég endurpplifði á svo skemmtilegan hátt liggjndi á grúfu í rúminu mínu morgun einn í vetur, og mér fannst upplifunin svo góð að ég skrifaði hana niður þá þegar.
 
Þarna um morguninn þegar ég hafði hugsað mig í gegnum þetta allt sem ég hef skrifað um í síðustu tveimur bloggum kom að lokum upp í huga mér ferð okkar til Kristineberget. Þangað fórum við frá bæ sem heitir Arvidsjaur og er ennþá norðar en Fatmomakke, Saxnes og Vilhelmina. Þegar við komum til Kristineberget stigum við inn í litla rútu sem síðan ók upp í lágt fjall og þaðan niður í námu. Þar niðri settumst við á bekki í lítilli kapellu sem er á 90 metra dýpi og ung kona sagði sögu frá því þegar starfsmaður á gröfu kom niður í námuna snemma að morgni. Eftir að allt ryk hafði fallið niður eftir síðustu sprengingu skyldi hann nú vinna við það sem sprengt hafði verið kvöldið áður.
 
 
Þegar ennislampi hans lýsti upp í hvelfinguna fyrir framan og ofan hann sá hann mynd þar uppi á bergveggnum, mynd af Jesú. Hvað eftir annað lýsti ennislampinn upp í hvelfinguna og fyrir honum var það bara þannig; það var mynd af Jesú upp í hvelfingunni. Fleiri komu þarna niður sem ennþá höfðu ekki heyrt um myndina en sáu hana samt. Ljósmyndarar tóku sig til og tóku mynd af þessu fyrirbæri og fréttin barst út, út til annarra landa og blöð sýndu mynd af Jesúmyndinni í Kristinebergs námunni og fólk streymdi þangaðí pílagrímsferðir. Þetta var árið 1946 og alheimur enn í hræðilegum sárum og miklum þjáningum eftir aðra heimsstyrjöldina. Fréttin barst út um hinn hrjáða heim og mannkynið eygði ljós í myrkrinu; mynd af Jesú hafði fundist á námuvegg upp í Skandinavíu.
 
 
 
 
Samkvæmt lýsingu konunnar sem sagði okkur frá á þessi atburður að hafa linnað þjáningar margra í heiminum eftir atburði styrjaldarinnar og gefið von um nýja og betri tíma. Það er margt hægt að lesa um Jésúmyndina í Kristineberg (Kristusbilden) og frásagnir eru ólíkar og sumir draga dár að en aðrir eru gætnari. Ég hef hér að leiðarljósi frásögn konunnar sem fylgdi okkur niður í námuna. Hafi þetta gefið mannkyni von eftir skelfilega atburði fyrir meira en 70 árum sé ég það bara af góðu. Ég yfirgaf námuna ekki alveg ósnortinn get ég lofað og það lokkaði fram margar hugsanir. Í dag er hæpið að nokkur finnist á lífi sem eiginlega man eftir þessu en það finnst mikið skráð um það.
 
 
Þegar hér var komið sögu í svefnherberginu á Sólvöllum var klukkan yfir dyrunum að verða tuttugu mínútur yfir átta og ég ennþá liggjandi á grúfu. Við hlið mér var andardráttur að breytast og síðan byrjuðu hreyfingar sem bentu til að nú væri farið að morgna. Morgunferðalaginu mínu upp í Norrland var lokið. Þessi upplifun í mars mánuði í ár af eins og hálfs árs gamalli minningu var svo ótrúlega skýr og ég taldi það ekki hafa verið draum. Ég gekk að tölvunni svo fljótt sem ég gat og skrifaði þetta niður. Síðan eru nú fleiri mánuðir. Við ætlum til Saxnes, Fatmomakke, Stekenjokk, Stora Blåsjön og margra annarra staða í sumar, þarna mitt í hljóðlátu skógi vöxnu víðfeðminu og vera þar saman undir blárri himinhvelfingunni hvort sem skýin verða þar á milli eða ekki. Aldrei er Susanne betri félagi og vinur en þegar við erum saman þarna uppi.
 
 
        Þessa mynd tók ég ófrjálsri hendi á netinu og veit ekki hver ljósmyndarnn er en ég vona að hann fyrirgefi
        mér stuldinn. Efri myndina tók Susanne og þó að sú mynd sé óskýrari en þessi sést myndin á
        kvettavegnum betur þar. Á þessari mynd sést kapellan hins vegar betur. Kapellan er á 90 m dýpi en
        atburðurinn átti sér stað á 107 m dýpi. Jesúmyndin er máluð á vegginn eftir ljósmyndum.
 
Ég á eftir að birta eitt blogg enn sem framhald á þessum þremur bloggum um Lapplandsferðina. Það blogg verður svilítið um mannlífið þar uppi og á vorri jörð.

Fatmomakke, Stekenjokk, Stalon

Við vorum að yfirgefa Fatmomakke.
 
Eigum við að fara til Stekenjokk spurði Susanne. Já, það var nú best að hafa það þannig svaraði ég. Ég var orðinn förvitinn í alvöru um þetta hálendissvæði. Stuttu áður hafði ég talið að Stekenjokk væri smá byggðakjarni uppi á hálendi. Susanne settist undir stýri og vissi upp á hár hvert skyldi stefna. Hún hélt í stórum dráttum til norðvesturs, tók einn krók inn í stuttan, þröngan dal sem lá þarna inn í gríðarlegan fjallaklasa. Að lokum, eftir að hafa nokkurn veginn fylgt ánni Saxá, komum við að brekkurótum og litlu síðar vorum við komin upp úr skógarmörkum. Að lokum einnig upp úr eiginlegum gróðrarmörkum. Þar fyrir ofan var bara mosi á stöku stað og einstaka strá og fjallablóm á stangli. Malbikaði vegurinn lá áfram upp á hálendið og upp í óbyggðirnar og byrjaði að liggja suður á bóginn. Við skiltið 876 metar yfir haf stoppuðum við og stigum út.
 
 
 
 
Þarna uppi var landslagið gróðurlitlar ávalar bungur, vegurinn vel malbikaður en við vorum samt alein. Einhvers staðar þarna var málmnáma þar til nýlega, en þess sáust engin merki lengur þaðan sem við vorum. Allt virtist vera afburða vel frágengið. Nokkra kílómetra til vesturs voru norsku landamærin handan við sléttlendi sem lá ögn lægra í landslaginu. Það var suddarigning, það var hrátt í lofti, svolítil gola og frekar kalt, en það var samt eitthvað gott við að koma þarna. Milli okkar og norsku landamæranna voru stórar vinnuvélar og vörubílar sem við heyrðum ekkert til. Þar voru menn að byggja sterkan garð sem átti að halda inni vatni og leir sem fylgir námugrefti, leir sem er mengaður af þungmálmum ef ég þekki rétt, sem ekki má sleppa frítt út í umhverfið.
 
Á leiðinni til baka niður af Stekenjokk hugsaði ég til þess sem ég hafði upplifað þar uppi og þrátt fyrir allt langaði mig þegar að koma þangað aftur. Og ennþá þennan morgun þegar ég lá á grúfu í rúminu mínu langaði mig að gera það. Ég hef aldei farið Kjalveg en samkvæmt myndum sem ég hef séð þaðan virðist mér eitthvað vera sameiginlegt með Kili og Stekenjokk.
 
Á leiðinni til baka fylgdum við aftur ánni Saxá og þá uppgötvuðum við aldeilis ótrúlega fallegt landslag og útsýni. Allt sást í nýju ljósi þegar vegurinn lá niður í móti. Ég var sem upphafinn af öllu saman. Við vorum það bæði. Við komum að vegskilti; Stalon, og við vissum að vegurinn lægi upp á fremur lágt fjall. Þar sem sá vegur byrjaði var annað skilti sem á stóð: þennan veg ferð þú á eigin ábyrgð. Vegurinn er í eigu fyrirtækis og er svo mjór að þar er ómögulegt að mætast. En upp fórum við og mættum engum. Þar uppi sat ung kona með lítinn fallegan hund. Þegar hún var ekki lengur ein stóð hún upp, mætti okkur kurteislega og hélt gangandi af stað áleiðis niður.
 
 
 
 
Þarna uppi stoppuðum við lengi og höfðum fyrir okkur eitthvað fallegasta útsýni sem ég hef nokkru sinni augum litið, nokkuð sem ég ætla ekki að reyna að lýsa. Svo kom upp bíll með húsvagn. Hann stoppaði við hliðina á okkar bíl og bílstjórinn hljóp einn út úr bílnum, gekk hratt að handriði sem við stóðum við, leit hratt niður á dýrðina, gekk hratt inn í bílinn aftur og hvarf á braut. Svo vorum við ein þarna uppi góða stund, röltum um og skoðuðum útsýnið til allra átta.
 
Að lokum héldum við áleiðis í náttstð.
 
 
 
 
 
 Mér fannst ég bra verða að staðfesta að ég hefði verið þarna.

Frá Fjaðrá til Fatmomakke

Klukkan var hálf sjö þegar ég vaknaði morgun einn í vor. Eftir ferð fram eins og við segjum hér á bæ lagði ég mig aftur. Lagði mig á magann eins og mér var kennt af velviljuðu fólki áður en ég fékk nýja mjaðmarliðinn.
 
Þegar ég hafði dregið ullarfeldinn upp að hnakka og ég fann ylinn umvefja mig var ég allt í einu staddur við Fjaðrá vestan við Kirkjubæjarklaustur og árið var 1956. Þar var ég í hópi brúarvinnumanna að byggja fyrstu brúna yfir Fjaðrá stuttu neðan við hin þekktu Fjaðrárgljúfur. Fjórtán ára gamall var ég. Það var sunnudagur og yngri menn í brúarvinnuhópnum höfðu ákveðið kvöldið áður að ganga austur að Kirkjubæjarklaustri. En ég sem var lang yngstur valdi að fara ekki með. Þeir gengu austur á bóginn og upp með Hunkubökkum þar sem Ragnheiður og Hörður bjuggu upp í brekkunum með börnum sínum. Síðan héldu þeir austur á bóginn eftir fjallabrúnunum.
 
Sjálfur gekk ég upp með Fjaðrá. Ég gekk upp eina brekkuna af annarri þar til ég sá í Heiðarsel. Ég hafði aldrei komið þangað en vissi að það væri að finna á þessum slóðum. Þegar ég sá í Heiðarsel í nokkurri fjrlægð varð ég gersamlega hugfanginn af öllum þeim gróðri sem við mér blasti. Það var eins og endalaust grasi gróið land væri til norðurs, til austurs og vesturs og dágóðan spöl til baka. Aldrei hafði ég séð neitt því um líkt, ég sem var vanur við mjóar grasræmurnar meðfram fjallsrótunum í Fljótshverfinu. Síðan settist ég í grasið og var einn með kyrrðinni. Eflaust hefur einn og annar spói látið til sín heyra og eflaust hafa einhverjir fuglar verið á sveimi. Ég held að það hljóti að hafa verið kindur svolítið hingað og þangað til að njóta af gjöfulum gróðrinum. Svo sneri ég til baka og var í tjaldbúðunum löngu áður en Klausturverjar komu úr sinni ferð.
 
Síðan ég upplifði þetta eru liðin rúmlega sextíu ár. Það væri gaman að endurtaka þessa gönguferð svo löngu seinna og sjá hversu vel minningin hefur varðveitt upplifunina. Kannski er raunveruleikinn allt öðru vísi, kannski stenst þetta nokkuð eða alveg. En svo sterk var þessi upplifuni frá því að ég var 14 ára að ég minnist gönguferðarinnar oft enn í dag eins og til dæmis þennan vormorgun.
 
Það var sem sagt fyrir klukkan sjö þennan morgun sem dagurinn byrjaði með þessu ferðalagi sem var fyrir mér svo ótrúlega ljóslifandi. Síðan velti ég fyrir mér að það byrjaði snemma áráttan hjá mér að njóta þess að vera einn í félagsskap tilverunnar. Ég þekkti þetta líka svo vel úr Kálfafellsheiðinni, heiðinni heima. Í þessum hugsunum minum var ég allt í einu kominn til Fatmomakke upp í sænska Norrland, um það bil 650 km í beinni línu til norðurs frá Sólvöllum. Fatmomakke var kirkjustaður Sama frá því upp úr 1700 eða svo og langt fram á síðustu öld. Kirkjustaður og ráðstefnustaður væri sagt í dag. Fólk kom þangað vor og haust til að gifta sig, skíra, jarða og ráða ráðum sínum. Við Susanne gengum inn á svæðið eftir snyrtilegum malarstíg í dásamlegu sænsku sumarveðri. Við höfðum hljótt um okkur eins og nánast allir sem við urðum vör við þarna. Við héldumst hönd í hönd og töluðum saman í hálfum hljóðum. Susannes hönd fór vel í minni og það virtist vera gagnkvæmt.
 
 
 
Við komum að húsi sem ég get ímyndað mér að hefði kallast þinghús á Íslandi hér á árum áður. Rúðuglerið hleypti inn birtu en allt útsýni varð dálítið snúið og úr lagi fært gegnum þetta gamla gler. Á veggjum voru rammar með textum sem voru um sögu hússins og staðarins. Ég man mjög lítið af því sem þar stendur en á þeirri stundu sem við vorum þarna inni vorum við samofin Fatmomakke. Það var upplifun.
 
 
 
 
Við héldum síðan áfram eftir bugðóttum stígnum sem nú lá upp dálítinn halla og umhverfis var mikill fjöldi af Lappatjöldum, það var heilt þorp.
 
 
 
 
Við komum í kirkjuna og stoppuðum þar all lengi. Það var stillt og hljótt þar inni og einhvers konar virðing meðal allra sem stigu inn yfir þröskuldinn. Einn maður kom þó á töluverðri ferð og opnaði dyrnar til hálfs, kom inn með efri hluta líkamans, signdi sig og hvarf álíka hratt og hann kom. Annars var kyrrð og friður. Við héldum áfram stíginn þar til hann mætti sjálfum sér. Við höfðum gengið í all stóran hring og héldum þar með til baka út af svæðinu. Við vorum sammála um að koma hér aftur að ári eða árum. Við vorum undir sterkum áhrifum af hljóðlátum niði sögunnar.
 
 
                                                                                                          Framhald kemur síðar
 
Hún er einföld og stílhrein kirkjan í Fatmomakke.
 
 
Einn af textunum í þinghúsinu í Fatmómakke.
 
 
RSS 2.0