Fatmomakke, Stekenjokk, Stalon

Við vorum að yfirgefa Fatmomakke.
 
Eigum við að fara til Stekenjokk spurði Susanne. Já, það var nú best að hafa það þannig svaraði ég. Ég var orðinn förvitinn í alvöru um þetta hálendissvæði. Stuttu áður hafði ég talið að Stekenjokk væri smá byggðakjarni uppi á hálendi. Susanne settist undir stýri og vissi upp á hár hvert skyldi stefna. Hún hélt í stórum dráttum til norðvesturs, tók einn krók inn í stuttan, þröngan dal sem lá þarna inn í gríðarlegan fjallaklasa. Að lokum, eftir að hafa nokkurn veginn fylgt ánni Saxá, komum við að brekkurótum og litlu síðar vorum við komin upp úr skógarmörkum. Að lokum einnig upp úr eiginlegum gróðrarmörkum. Þar fyrir ofan var bara mosi á stöku stað og einstaka strá og fjallablóm á stangli. Malbikaði vegurinn lá áfram upp á hálendið og upp í óbyggðirnar og byrjaði að liggja suður á bóginn. Við skiltið 876 metar yfir haf stoppuðum við og stigum út.
 
 
 
 
Þarna uppi var landslagið gróðurlitlar ávalar bungur, vegurinn vel malbikaður en við vorum samt alein. Einhvers staðar þarna var málmnáma þar til nýlega, en þess sáust engin merki lengur þaðan sem við vorum. Allt virtist vera afburða vel frágengið. Nokkra kílómetra til vesturs voru norsku landamærin handan við sléttlendi sem lá ögn lægra í landslaginu. Það var suddarigning, það var hrátt í lofti, svolítil gola og frekar kalt, en það var samt eitthvað gott við að koma þarna. Milli okkar og norsku landamæranna voru stórar vinnuvélar og vörubílar sem við heyrðum ekkert til. Þar voru menn að byggja sterkan garð sem átti að halda inni vatni og leir sem fylgir námugrefti, leir sem er mengaður af þungmálmum ef ég þekki rétt, sem ekki má sleppa frítt út í umhverfið.
 
Á leiðinni til baka niður af Stekenjokk hugsaði ég til þess sem ég hafði upplifað þar uppi og þrátt fyrir allt langaði mig þegar að koma þangað aftur. Og ennþá þennan morgun þegar ég lá á grúfu í rúminu mínu langaði mig að gera það. Ég hef aldei farið Kjalveg en samkvæmt myndum sem ég hef séð þaðan virðist mér eitthvað vera sameiginlegt með Kili og Stekenjokk.
 
Á leiðinni til baka fylgdum við aftur ánni Saxá og þá uppgötvuðum við aldeilis ótrúlega fallegt landslag og útsýni. Allt sást í nýju ljósi þegar vegurinn lá niður í móti. Ég var sem upphafinn af öllu saman. Við vorum það bæði. Við komum að vegskilti; Stalon, og við vissum að vegurinn lægi upp á fremur lágt fjall. Þar sem sá vegur byrjaði var annað skilti sem á stóð: þennan veg ferð þú á eigin ábyrgð. Vegurinn er í eigu fyrirtækis og er svo mjór að þar er ómögulegt að mætast. En upp fórum við og mættum engum. Þar uppi sat ung kona með lítinn fallegan hund. Þegar hún var ekki lengur ein stóð hún upp, mætti okkur kurteislega og hélt gangandi af stað áleiðis niður.
 
 
 
 
Þarna uppi stoppuðum við lengi og höfðum fyrir okkur eitthvað fallegasta útsýni sem ég hef nokkru sinni augum litið, nokkuð sem ég ætla ekki að reyna að lýsa. Svo kom upp bíll með húsvagn. Hann stoppaði við hliðina á okkar bíl og bílstjórinn hljóp einn út úr bílnum, gekk hratt að handriði sem við stóðum við, leit hratt niður á dýrðina, gekk hratt inn í bílinn aftur og hvarf á braut. Svo vorum við ein þarna uppi góða stund, röltum um og skoðuðum útsýnið til allra átta.
 
Að lokum héldum við áleiðis í náttstð.
 
 
 
 
 
 Mér fannst ég bra verða að staðfesta að ég hefði verið þarna.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0