Elgurinn Hannes

Elgurinn Hannes
Ég var í Kumla í bankanum hjá henni Helenu í dag. Helena er nágranni okkar, býr svo sem 50 metra frá útihurðinni okkar. Hún seldi okkur líka íbúðina á sínum tíma. Í dag er hún fulltrúi okkar í bankanum. Ég þurfti að bíða smá stund og fletti þá upp í landbúnaðarblaði sem lá þar frammi. Þá sá ég fréttina um elginn Hannes. Það var í fyrra þegar Hannes var um mánaðar gamall að hann fannst, yfirgefið elgsbarn, meðal hesta í haga. Fólkið sem fann hann tók hann í fóstur og annaðist hann vel eins og sjá má á myndinni. Hannes er nú ásamt fleiri elgjum á afgirtu svæði við góðar aðstæður þar sem fólk getur komið og klappað elgjum og kelað við þá.

Í blaðagreininni er eftirfarandi sagt um hinn nýfundna Hannes elgskálf: "Yfirgefinn af mömmu sinni leitaði hann öryggis hjá hestunum. Hinar hjartnæmu myndir þar sem Hannes liggur í hálminum og með sínum stóru, brúnu augum horfir inn í myndavélina geta ekki einu sinni skilið hinn mest forherta eftir ósnortinn." Þessar myndir hef ég ekki séð.
GB

Hannes orðinn myndar strákur

Hannes orðinn myndar strákur
Reglulegur prins hann Hannes.

Og Hannes orðinn reglulegur unglingur

Og Hannes orðinn reglulegur unglingur
Hann fer nú að kíkja á elgstelpurnar þessi. Kannski hann sé að skima eftir einni slíkri.

Þetta er alls ekki Hannes

Þetta er alls ekki Hannes
Nei, þetta er sko alls ekki hann Hannes okkar. Þetta er elgur sem ætlaði að fá sér sundsprett í einkasundlaug en skildi of seint að það var ekkert vatn í sundlauginni. Það var mikið umstang við að ná elgnum upp en það tókst að lokum og líklega gerir hann ekki sömu skissu aftur.
GB

Dádýrabarn

Dádýrabarn
Sjáið þið litla kiðið. Fallegar verur og ég hef lesið einhvers staðar að fá dýr gleðji jafn mikið og dádýr.
GB

Er þetta ekki krúttlegt?

Er þetta ekki krúttlegt?
Það er allt fullt af skrifum um broddgelti sem stendur, en það talaði ég líka um í gær eða fyrradag. Hér hefur einhver náð þeim í húfuna sína og það virðist fara vel um þá. Fyrir nokkrum árum var ég að þvo bílinn minn í Vornesi. Það var sterk síðdegissól og hlýtt. Því stillti ég bílnum bak við hús og upp við vegg sem náði upp í svo sem augnhæð. Þar sem ég var að snudda við bílinn varð ég var við einhverja hreyfingu upp á veggnum. Þegar ég gáði að voru þar tveir broddgeltir í lítilli holu, kannski á stærð við húfuna á myndinni, og þeir veltust þarna hvor um annan, struku sér upp við hvor annan, lágu um stund og héldu svo áfram að kela. Þeim virtist alveg nákvæmlega sama þó að ég væri þarna og ekki voru þeir feimnir. Svona er broddgöltum lagið að vera.
GB

Það iðar af broddgöltum

Það iðar af broddgöltum
Haldið þið að það sé, bara stórveisla. líf og fjör í ólátagarði. Ekki veit ég hvaðan þessi mynd er en ég reikna varla með að hún sé af þeim broddgöltum sem hafa vaknað of snemma á þessu vori. Myndin var í blaði í dag og í dag er líka frétt af því að hún Soffía, ung kona, hafi tvo broddgelti í varðveislu sinni sem stendur. Það er varað við því að hafa þá inni í hita því að þeir geti kvefast þegar þeim sé sleppt á ný og út frá því geti þeir fengið lungnabólgu. Það má auðvitað ekki eiga sér stað.
GB

Snemma á ferð

Snemma á ferð
Aldeilis snemm á ferð þessi ungafjölskylda. Ég var eftir ábendingu frá Rósu dóttur minni að leita í Dagens nyheter að grein um hvernig maður ætti að annast broddgelti sem vakna of snemma af vetrardvala sínum. Þá sá ég svo ótrúlega ógeðslega frétt frá Ítalíu að ég varð nánast miður mín. Svo hélt ég áfram leitinni og þá rakst ég á mynd af þessari andarfjölskyldu. Þessir andarungar sáust í Stokkhólmi og eru sagðir alveg gríðarlega óvenjulega snemma vors á ferðinni. Þetta eru nefnilega ungar þessa árs sjáið þið til. En greinina um broddgeltina fann ég og þar og ráðlagt er að leggja þurrkaðan hunda- eða kattamat í bleyti og gefa þeim. Svo á að gefa þeim vatn með en ekki mjólk. Þeir geta fengið þarmabólgur af mjólk, en fólk hefur gjarnan viljað gefa þeim mjólk og þá af góðum huga. Þetta um þarmabólguna heyrði ég fyrir mörgum árum. Í Vornesi er mikið af broddgöltum og hann Úve, minn gamli vinnufélagi, veit mikið um fugla og alls konar dýr. Ég lærði því þetta um mjólk og broddgelti af honum. Úve fór á ellilaun fáeinum mánuðum á eftir mér. Ég vil endilega fá hann í heimsókn til að ganga með mér um Sólvallaskóginn og spekúlera þar í mikilvægum málum. Svo mundi hann og hún Karin konan hans fá rjómapönnukökur hjá Valdísi er ég alveg viss um. Þau eiga heima í Vingåker, Úve og Karin, og það er 60 km akstur þaðan til Örebro. En nú er komið að fréttum og ég þangað.
GB

Vorið er komið

Samkvæmt viðmiðun sænsku veðurstofunnar er vorið komið lengst norður eftir Svíþjóð, upp til Söderhamn (Suðurhafnar) sem að vísu er mun sunnar en Ísland. Hiti hefur verið yfir 0 gráðum sjö daga í röð og þá segir veðurstofan að það sé vor. Vorið samkvæmt þessari viðmiðun hefur í ómunatíð komið í apríl.
Vorið er komið
Þessi talgoxe (flotmeisa) er farinn að láta til sín heyra löngu fyrir vorkomuna en kannski það fari líka að snúast við. Þetta er kvengfugl en það er ekki þekking mín á fuglum sem gerir að ég veit það. Það fylgdi í texta með myndinni. Í fyrradag minnti Valdís mig á að konudagurinn er í dag. Í tilefni af því eldaði ég hafragrautinn í morgun en það geri ég svo sem oftar. En nú borðuðum við þó hafragrautinn við  kertaljós en það gerum við ekki alla jafna. Þegar leið á daginn, eftir að Valdís hafði annast kaffiveitingar í kirkjunni og ég verið við smíðar í nokkra tíma, fórum við upp í Kilsbergen og fengum okkur kaffi og brauðsneið í veitingahúsi á útivistarsvæði þar efra. Þar sást reyndar snjór í vegköntum, leifar eftir snjómokstur fyrir líklega tveimur vikum. Þar á næstu slóðum eru skíðabrekkur en þar er notast við vélsnjó. Það lítur út fyrir að við þurfum að fara að grafa fyrir beykitrjánum sem við ætlum að sækja til Södermanland áður en gróður fer að taka of mikið við sér. Við reiknuðum með að gera þetta í apríl. Það er erfitt með langtímaáætlanir um þessar mundir.

Nú er komið kvöld hjá sumum, sérstaklega þeim sem þurfa að sofa minnst átta tíma. Tannburstun gengur því í garð eftir nokkrar mínútur og svo er að tappa af líkamanum, athuga hvort útihurðin sé ekki örugglega læst, slökkva á hlutum og sinna þessum atriðum sem eru búin að vera hluti af venjulegu kvöldi í fjölda ára.
GB

Skógarsóley

Skógarsóley
Skógarsóley (vitsippa) er farin að brosa mót sól sunnar í Svíþjóð. Vonandi dregst það nokkuð að hún sýni sig á Sólvöllum í Lekebergshreppi. En það er aldrei að vita, hverju getur maður ekki átt von á um þessar mundir. Broddgeltirnir eru farnir að vakna af vetrardvala vegna hlýinda en eiga erfitt uppdráttar þar sem maðkar og skordýr sem þeir lifa á eru ekki komin á ról þrátt fyrir allt. Fólk er því beðið að veita þeim athygli og hjálpa þeim þar sem þeir sýna sig. Broddgeltir eru komnir til okkar á Sólvöllum en þeir sýndu sig þar í fyrsta skipti seinni partinn í fyrrasumar. Við verðum á verði og ef svangur broddgöltur heilsar upp á okkur komum við til með að veita okkur upplýsinga um hvernig við eigum að bregðast við. Upplýsingar um það er að finna á vefsíðu sænska sjónvarpsins. Ég ætla að leita uppi góða mynd af broddgelti og setja hér fyrir neðan.
GB

Sætur

Sætur
Sjáið þið bara hvað ég er sætur. Já, þeir eru virkilega notalegir og svo gera þeir gagn skinnin. Þeir éta snigla sem getur orðið of mikið af og þeir eru ekki vinir höggorma skulið þið bara vita.
GB

Á leið í leikhús

Á leið í leikhús
Hér er nú mynd af fiskimannsdótturinni frá Hrísey og bóndasyninum úr Fljótshverfinu þar sem þau eru á leið í leikhús í Stokkhólmi. Einhvers staðar hér fyrir neðan segi ég frá því að þessi ferð standi fyrir dyrum og hér er hún orðin að veruleika. Söngleikurinn Singing in the rain var fínn fyrir okkur. Við sátum á öðrum bekk og það rigndi mikið á sviðinu eins og þessi söngleikur gerir ráð fyrir. Svo stappaði og dansaði fólkið í vatnsaganum og gerði greinilega sitt til þess að þeir sem fremstir sátu fengju svolitlar gusur á sig. Við þurftum að þurrka af gleraugunum okkar, svo vel tókst þeim til. Við gistum eina nótt hjá Rósu og Pétri og fórum svolítið á bæjarrölt í morgun. Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá bæjarröltinu.
GB

Þetta fannst ókunnum manni svo gaman

Þetta fannst ókunnum manni svo gaman
Við fórum inn á járnbrautarstöðina í Stokkhólmi í morgun til að taka lestarmiðana okkar. Við fáum lestarmiða á niðursettu verði sem ellilífeyrisþegar ef við pöntum eða tökum miðana minna en 24 tímum fyrir brottför. Rósa vék sér að miðaldra manni, þægilegum á að líta, og spurði hvort hann vildi taka mynd af okkur. Það fannst honumm skemmtilegt og hann meira að segja vildi ekki yfirgefa okkur fyrr en hann vissi að myndin hefði tekist vel.
GB

Svo tók Rósa mynd líka

Rósa vildi bæta um betur, teygði út arminn og náði mynd af okkur öllum.
Svo tók Rósa mynd líka

Í kulturhuset

Við fórum inn í Kulturhuset (Menningarhúsið) til að hressa okkur á kaffisopa og Rósa tók heimildarmynd af okkur.
Í kulturhuset

Kósóvóalbanir

Valdís tók myndir úr Kulturhuset yfir Sergilstorg, aðaltorgið í Stokkhólmi, og á þessari mynd sjáum við bíla
Kósóvóalbanir
sem glaðir Kósóvóalbanir aka í og fagna yfirlýstu sjálfstæði.
GB

Að haga sér illa

Fyrir mann á mínu aldri er það nú bara að haga sér hálf inna að grípa svona víkingahjálm í búð, fara
Að haga sér illa
úr í dyr og láta taka mynd af mér. Búðareigandinn reyndar hálf hló að mér. Barnabörnin bara meiga alls ekki sjá að ég geti hagað mér svona illa í Stokkhólmi. Verslunin Åhléns er í baksýn.
GB

Nýr maður fór heim

Og eins og fram hefur komið á fyrri myndum hér fyrir ofan er ég bara kominn með nýja húfu. Við drifum

Nýr maður fór heim
okkur inn í Åhléns og þær mæðgur hjálpuðu mér við að velja mér nýja húfu. Mér veitir ekki af því að hlú að því sem í höfðinu finnst og eftirleiðis ætla ég að vera duglegur við að hafa nýju húfuna mína á höfðinu.
GB

Härjedalen, Ljungdalen, Stokkhólmur

Hér um daginn var Valdís að blaða í bréfum sem hafa borist. Tvö þessara bréfa voru ferðatilboð til sænskra ellilífeyrisþega. Það tilboðið sem var meira forvitnilegt var til Härjedalen á því feikn víðáttumikla svæði í norður Svþíþjóð sem við eigum eftir að skoða. Um þessar óravíddir þarna fyrir norðan hef ég bloggað áður. Ég vildi enn einu sinni sjá eitthvað um Härjedalen, en ég hef oft áður flett upp á einhverju um þennan landshluta. Á rölti okkar um Skansinn í Stokkhólmi stuttu fyrir jól skoðuðum við flest öll bæjarhús sem tilheyrðu góðum sveitabæ í Härjedalen fyrr á öldum. Í einum slíkum bæ voru margir vænir trjástofnar.

Nú skrifaði ég nafnið inn í leitarforritið Google og fékk fram margar forvitnilegar staðreyndir. Landshlutinn Härjedalen er um 13 000 ferkm og íbúarnir eru um 11 000. Hver íbúi hefur því nokkuð á annan ferkílómeter til að hrærast á. Þessi landshluti er sá strjálbylasti og líka sá hæsti í allri Svíþjóð. 80 % lands í Härjedalen liggur í meira en 500 metra hæð. Ef við lítum á myndina hér fyrir neðan þá er hún frá stað norðarlega í Härjedalen sem heitir Ljungdalen.
Härjedalen, Ljungdalen
Nú reiknaði ég svolítið út. Ljungdalen liggur nær 500 km norðan við Örebro eða svo sem 435 km sunnan við heimskautsbaug og mér sýnist eina 85 km sunnan við Vestmannaeyjar. Leiðréttið mig ef þetta er langt frá lagi. Og Ljungdalen liggur í 570 metra hæð yfir sjávarmáli. Það er staðreynd. Ef við lítum á myndina sjáum við að þar er skógur, skógur og meiri skógur. Á stórum svæðum má líka sjá hvar skógur hefur verið felldur. Snjór er væntanlega all mikill en sést ekki á skógarsvæðunum.

Eitt sinn var á göngu í Stokkhólmi ungur maður frá Härjedalen. Þar sem hann beið til að komast yfir götu vék sér að honum al ókunnur maður, ávarpaði hann og spurði undarlegra spurninga. Ungi maðurinn frá Härjedalen lét ekki að sér hæða og svaraði ákveðið og snaggaralega. Að lokum sagði sá ókunni: Þú ert einmitt maðurinn sem ég leita að. Ungi maðurinn frá Härjedalen sem í dag er ögn eldri en við Valdís heitir Roland Cedermark. Róland Hefur gefið út fjölmargar plötur og geisladiska og hann spilar á harmonikku og syngur tregablandið um Härjedalen og Härjedalens blomma. Härjedalens blomma er vitsippa eða skógarsóley.

Þá vitið þið nú þetta allt saman en nú kemur að því sem þið vitið ekki. Í fyrramálið förum við Valdís til Stokkhólms með lest og förum í leikhús og sjáum Singing in the rain. Gaman gaman. Rósa og Pétur ætla að koma á lestarstöðina og svo ætlum við að fara beina leið á tacostað og borða. Svo er það leikhús og svo reikna ég með að við bara spjöllum saman í ró og næði fram á kvöld. Hvað við svo gerum fyrri partinn á sunnudag veit ég ekki ennþá en við förum alla vega ekki til Härjedalen. Það gerum við að sumri til. Við komum heim snemma á sunnudagskvöld og svo tekur hverdagsleikinn við. Ég vinn á mánudaginn kemur en svo verða það Sólvellir það sem eftir er vikunnar. Þar eru allir dagar góðir dagar.
GB
RSS 2.0