Dásamlegt - Underbart - Koppången

Ég bætti hér inn á lítið blogg frá því fyrr í kvöld, segi nú frá tónleikunum sem ég sagði fyrr að við ætluðum á.
 
Nú erum við Valdís búin að vera á konsert med einhverjum mesta listamanni í Svíþjóð. Það er merkilegt með þennan mann, hann Kalla frá Orsa, að þegar hann gengur fram á sviðið réttir hann aðeins út hendurnar og þá með gítar, fiðlu eða eitthvað annað hljóðfæri í annarri hendinni. Hann hálf opnar faðminn getur maður sagt. Og nákvæmlega þegar hann gerir þetta, þá verða einfaldlega allir glaðir. Svo verða auðvitað allir ennþá glaðari þegar hann leikur á hljóðfærið. Lagið Underbart setti ég inn á þetta litla blogg áður en við fórum og nákvæmlega lagið Underbart var það fyrsta sem flutt var á tónleikunum. Auðvitað var það mikið betur flutt á tónleikunum að heyra það í tölvunni, eða svo virtist það svo sannarlega.
 
Underbart
 
Þegar tónleikunum virtist lokið gekk Kalli út af sviðinu og það var eins og hann væri hálf reiður. Kannski ímyndaði ég mér það þar sem annar maður sem var í þessum hópi virtist vera hundleiðinlegur móti honum. En örstuttu seinna gekk Kalli hvatlega inn á sviðið með fiðlu og það sást í svipnum að nú skyldum við fá að hlusta á Koppången. Þegar Kalli dró fyrsta tóninn á fiðluna duldist engum að það var Koppången. Oft hef ég heyrt þetta lag flutt en hreinlega aldrei hef ég heyrt Kalla leika af jafn mikilli snilld og þarna í kvöld. Svo smám saman kom hljómsveitin inn og lék með. Það varð þvílík dauðakyrrð í salnum. Það var kyrrð í salnum allan tímann en þarna var kyrrðin samt mikið, mikið dýpri. Þvílíkur endir á tóinleikum. Þakka þér fyrir Kalli frá Orsa að þú ert uppi á sömu tíð og ég. Koppångern samdi bróðir Kalla eftir skíðaferð á útivistarsvæði upp í Dölum sem heitir Koppången.
 
Koppången
 
Eitt er víst að alltaf verður
ákaflega gaman þá.
 
Og það var gaman þá
 
Benny Andersson og Orsa spelmän

Vetrarkoma

 
Ég sagði í bloggi í fyrradag að það hefði verið búið að spá snjókomu og kaldara veðri í nokkra daga. Ég var svolítið í kapphlaupi við vetrarkomuna þar sem ég var ekki búinn að ganga frá drenlögn og fleiru umhverfis nýja húsið Bjarg. Mér tókst að ljúka við vesturhliðina, þá sem keyrt er um inn í bílageymsluna, en hinar eru eftir. Ég fann fyrir svolitlum kvíða vegna þessa og ég vildi ekki að það kæmi frost að grunninum fyrr en þetta væri búið. Það eina sem gæti bjargað mér í klípunni var að það kæmi nægjanlega mikill snjór að húsinu áður en frysti. Það lítur út fyrir að svo verði.
 
Í dag skruppum við Valdís til Fjugesta og þegar við komum til baka ætlaði ég út að vinna að nýbyggingunni. Veðrið var orðið þess eðlis að frekari vinna kringum grunninn var útilokuð. Ég hafði samt nóg að gera en var eitthvað óákveðinn og hringlaði hér innan húss og fékk mér nokkrum sinnum aðeins meira kaffi. Að lokum sagði Valdís að það færi bráðum að skyggja ef ég ætlaði að gera eitthvað úti. Hún spurði einnig hvort það væri ekki rétt fyrir mig að ljúka við að negla panelinn og setja upp þau fáu panelborð sem eftir væri að setja upp. Ég fann um leið og hún lauk setningunni að það væri nú réttast að gera svo. Síðan fékk ég mér ríkulega vatn að drekka og dreif mig af stað.
 
Þegar ég negldi upp panelinn í haust negldi ég bara annan hvern nagla og ætlaði svo að negla hinn naglann seinna. Því var ekki alveg lokið. Nú byrjaði ég í ákafa að negla en varð fljótlega kalt og varð að fara inn til að bæta á mig fötum. Það virkaði og mér varð aftur hlýtt. Þá áttaði ég mig á þessu með kvíðann. Það fjallaði ekkert um grunninn, það fjallaði um veturinn. Og nú var veturinn kominn, ég búinn að bæta á mig fötum, farinn að vinna á fullu í vetrarveðri, var hlýtt og hljóp kapp í kinn. En hvað þetta var notalegt. Það var ekkert athugavert við veturinn og ég minntist stunda þegar ég hef spurt sjálfan mig hvort sé fallegra, sumar eða vetur. Slíkar spurningar koma þó aðeins upp þegar vetrarveður er sem allra fallegast.
 
Valdís hafði rétt fyrir sér. Það var nú best að ljúka þessari panelvinnu. Ég er alveg með það á hreinu hvað ég ætla að gera í fyrramálið. Ég er líka alveg með það á hreinu að á eftir ætla ég að taka fram síðu nærbuxurnar og leggja þær hjá útifötunum mínum. Ég ætla að láta mér líða vel í vetrarveðrinu á morgun með hamarinn minn og þriggja tommu sauminn. Þegar skyggir verð ég væntanlega búinn með neglingarnar mínar, en hvort heldur, þá ætla ég að leggja nagla og verkfæri til hliðar, fara í sturtu og svo í betri fötin. Annað kvöld förum við Valdís á konsert með honum Kalla frá Orsa og fleiri snillingum. Valdís fékk tvo miða frá Rósu og fjölskyldu í afmlisgjöf og hún ákvað að það yrði ég sem fengi að fara með. Hún er góð við mig hún Valdís.
 
 
 
Þarna nefnilega sést að það vantar eitt panelborð efst uppi. Það er nú komið á sinn stað. Svo vantar tvö á hina hliðina. Þakskeggin verða svo ekki klædd að neðan fyrr en í vor. Þegar Rósa og þau voru hér í heimsókn fyrir einhverjum vikum negldi hún heilmikið af panel, það er að segja seinni naglanum. Þá dundu hamarshöggin ótt og títt hér í sveit.
 
 
Ps.
Þessi mynd er frá góðum sumardegi. Nora og Norakirkja í baksýn.

Ýmislegt að bauka við í sveitinni.

Við höfum verið að bauka við eitt og annað hér á Sólvöllum á þessu ári. Sumt er smávægilegt og annað heldur stærra. Í dag bað ég konuna sem ég hitti þegar hún var 17 ára að koma út með myndavélina þar sem það voru tímamót á Sólvöllum. Þetta var líka dagurinn sem fyrsti snjórinn féll. Ég hef fylgst með veðurspánni í sjónvarpi og langtímaspánni á netinu í nokkra daga og það er búið að spá því núna um tíma að það snjói í dag og að það verði hörku frost um helgina, ein 18 stig eða svo. Í dag hækkaði það úr 16 í 18. En aftur að tímamótunum sem ollu því að ég bað Valdísi að koma með myndavélina. Myndin fyrir neðan talar sínu máli.
 
Bíllinn fór í fyrsta skipti inn í nýbyggðan bílskúr. Í vor er leið hætti ég við að byggja bílskúr og ég hætti líka við að leysa af í Vornesi. Ég sagði smiðnum sem hjálpaði mér að ég væri hættur við. Svo ákvað ég aftur að leysa eitthvað af í Vornesi. Síðan ákvað ég líka að byggja bílskurinn en hætti svo við aftur. Þannig gekk það í einhverjar vikur en síðan leysti ég talsvert af í Vornesi og bílskúrinn er fokheldur.
 
Þetta er mikið meira en bílskúr. Þarna verður líka gestaherbergi í endanum sem er nær okkur á myndinni og uppi á loftinu verður geymsla upp á 36 m3. Byggingin er mjög vönduð og alls ekki hægt að kalla svona hús bílskúr. Valdís er því búin að stinga upp á nafnu Bjarg og það var samþykkt meðan hún ennþá hafði það á vörunum. Bak við húsið eru líka fjórir stórir steinar sem gefa nafninu meira gildi.
 
Bíllinn kominn alla leið en það versta var að gólfið blotnaði. (brandari) Hann var svo rosalega drullugur að aftan að ég hellti á hann úr tveimur garðkönnum til að hleypa niður meiri hlutanum af skítnum áður en inn var ekið. Það er nefnilega 600 m malarvegur síðasta spölinn heim að Sólvöllum og malarvegir eru skítavegir fyrir þá sem vilja þvo bílana sína. Þessir malarvegir eru einungis skemmtilegir á þurru og góðu sumri þegar nýbúið er að rykbinda. Síðan er sjarmurinn ekki til að hrópa húrra yfir. Þrátt fyrir þetta er Sólvellir góður staður.
 
Ég þurfti að fylla upp 40 sm hæðarmun frá jörð og upp á gólf til að koma bílnum inn. Hann sagði maðurinn sem kom til að setja upp hurðina fyrir nokkrum dögum að það yrði mikið auðveldara að koma bílnum inn ef ég fyllti í þennan hæðarmun. (líka brandari) Ég lauk því verki í töluverðri rigningu fyrr í dag en þarf þó að bæta vel á uppfyllinguna síðar svo að innkeyrslan verði skemmtileg. Þegar Hannes kom í afmæli ömmu sinnar þótti honum stórskemmtilegt að hafa fjarstýringuna í hendinni og opna og loka. Ég átti líka von á því og skildi hann vel.
 
Þessi bygging hefur næstum verið fjölskylduleyndarmál þar til nú.
 
 
                                                                                    *
 
Svo að alveg óskyldu efni. Þegar Ottó og Svandís frá Hrísey voru hér síðastliðið sumar, okkar gömlu grannar, spurði Ottó hvernig ég hefði þurrkað byggingarefnið sem við sóttum hér inn í skóginn árið 2006 og létum saga. Spurningin var eðlileg og ég spurði mig sjálfur þessarar spurningar þangað til hann Mats sögunarmaður sagði mér hvernig við ættum að gera. Þegar hann var búinn að flytja það heim til okkar aftur eftir sögunina var hér úti alveg óhemju blautur og þungur haugur af borðum og plönkum. Myndin fyrir neðan sýnir svo hvernig þurrkunin fór fram.
 
Og þannig fór þurrkunin fram. Fyrst lögðum við þrjá staura á jörðina og réttum þá vel af til að viðurinn mundi ekki snúast og bogna. Síðan sést hvernig framhaldið var. Eftir þrjá mánuði í góða þurrkasumrinu 2006 var þetta orðinn góður byggingarviður og ég sit nú í öðru herberginu sem við byggðum þá við. Mats sagði ekki að við þýrftum að vanda þetta svona mikið en nokkrum dögum seinna kom hann hér í hlaðið, leit á þurrkskýlið og sagði að hér yrði greinilega vandað til viðbyggingarinnar. Hann segir hlutina í einföldum orðum sá maður. Við fréttum seinna að það hefði verið haft á orði í nágrenninu að þurrkhúsið á Sólvöllum hefði verið vandaðra en gengur og gerist þegar menn þurrka smíðavið heima.

Helgarlok

Gestirnir eru farnir og hversdagsleikinn er tekinn við hér á bæ. Hversdagsleikinn er ekki slæmur og þó að gestirnir séu farnir fylgja þeir með inn í þennan hversdagsleika þannig að heimsóknin lifir áfram á vissan hátt. Valdís er búin að eiga afmælið sitt og það var ekki bara að fara út að borða sænskt jólaborð sem afmælishaldið gekk út á. Að fá heimsókn var hluti af afmælishaldinu og þar sem ég var að hlusta á Valdísi tala við gamlan nágranna áðan, þá veit ég að stundin í gær sem ég var úti með Rósu og Pétri, hún var mikill þáttur í afmælishaldinu. Einmitt þá í næðinu sem þau höfðu, Valdís og Hannes Guðjón, þar sem hann sat á hné hennar, þá ræddu þau ýmislegt sem við hin vissum ekkert um. Innileg stund þar sem amma og drengur horfðust  stundum í augu, skoðuðu saman hluti sem voru mikilvægir eða töluðu um eitthvað sem var mikilvægt. Á svona stundum tala tvær manneskjur saman frá hjarta til hjarta. Það eru ekki ónýtar stundir það.
 
Þessi mynd var tekin af þeim við annað tækifæri en við svipaðar aðstæður. Þarna eru þau saman að horfa á barnaefni og hann með Dalahest í annarri hendinni. Þau eru vinir amma og Hannes.
 
Þarna er Rósa á buxum sem við köllum byggareBobb en ég er einfaldlega á sunnudagabuxunum en þó ekki með bindi sem ég þó ber við skriftirnar nú. Þetta var í dag, sunnudag. Þarna ræktaði Rósa matjurtir í viðarhólfum í sumar og ætlar að endurtaka það. Hún fór að hreinsa til í hólfunum í dag vegna þess að hún vildi alls ekki snúa við til Stokkhólms aftur fyrr en hún væri búin að gróðursetja hvítlauk. Hún ætlaði að gera þetta ein en svo fannst mér sem ég gæti bara ekki látið sem það kæmi mér ekki við. Svo hjálpuðumst við að litla stund en hún á allan heiður af því að þarna er nú búið að setja í mold mörg hvítlaukshólf. Síðan ætlar hún líka að sá grænmeti í þetta að vori og vísar konur segja að hvítlaukurinn verji grænmeti fyrir óværu. En þetta hvítlauksspjall var nú bara aukainnskot í allt aðra umræðu. Aftur að afmælisbarninu.
 
Hún lítur ekki illa út þarna kellan mín sem ég hitti þegar hún var 17 ára, saklaus fiskimannsdóttir og forvitin um lífið. Það er mikil ábyrgð að skaða ekki svona stúlkur. Hvernig mér hefur tekist til með það er ekki spurning sem svarað verður á þessum degi. En hitt er víst að hún er ekki 17 ára lengur heldur rúmlega 52 árum meira. Miðað við það sem hún er búin að ganga í gegnum að undanförnu er alveg ljóst að hún lítur vel út á þessari mynd.
 
Eða þá á þessari sem Rósa og Pétur sendu þegar þau komu heim áðan.
 
Það sést vel ef litið er á þessa mynd sem er frá því um 10. ágúst og borið saman við myndina fyrir ofan, að hún hefur nálgast lífið á ný um fjölda skrefa. Samt hefur hún fengið bakslag í batann oftar en einu sinni en nú er hún væntanlega búin að fá hjálp við því sem verður til frambúðar.

Þegar gestirnir okkar voru í þann veginn að leggja af stað í dag vildi Hannes alls ekki fara. Hann var snúinn og var tregur til að kveðja ömmu sína og afa. En duglegur var hann sem ferðamaður á járnbrautarstöðinni með bakpokann sinn og ferðatösku. Hann sér sjálfur um farangur sem hann líka velur sjálfur þegar hann kemur til okkar. Við höfum síðan frétt frá Stokklhólmi að hann hafi verið hinn besti á leiðinni og eitthvað talaði hann um ömmu og afa. Hér með er lokið umræðu um afmælishelgi Valdísar.

Afmælisdagurinn hennar Valdísar

 
Dagurinn byrjaði með því að við heyrðum tipplandi fótatak framan úr dagstofunni. Hann Hannes Guðjón nafni minn var kominn á stjá. Ég fór þá á stjá líka og fór fram og reyndi að líkja eftir þessu tipplandi fótataki. Ég náði samstundis athygli hans nafna míns og það hefði verið auðvelt að koma af stað miklum ærslum. Litlu síðar slóst Valdís líka í hópinn og við vorum orðin fimm sem vorum í gangi á Sólvöllum. Þetta var dagurinn hennar Valdísar og allt stefndi í að það yrði góður dagur sem líka gekk eftir. Við borðuðum svolítið óskipulegan morgunverð og svo fórum við út, ég Rósa og Pétur til að gera vissa hluti vetrarklára. Annars átti þetta ekki að verða neinn vinnudagur. Þegar við vorum farin út kom Hannes til ömmu sinnar og vildi sitja hjá henni, spjalla við hana og dunda með dótið sitt sem hann hafði með sér hingað í bakpokanum og litlu ferðatöskunni sinni. Kannski var þetta besta afmælisgjöfin sem amma hans fékk. Það var verst að enginn var þá viðstaddur til að taka myndir.
 
En hún fékk fleiri afmælisgjafir og kort fékk hún og þarna situr hún við handavinnuborðið sitt og skoðar þessa hluti. Þegar ég horfi á þessa mynd er ég minntur á það að ég er ekki fullkominn. Í fyrradag sagði hún við mig að henni þætti vænt um að ég kæmi inn með tágakörfuna sem hún ætti út í geymslu. Þá gæti hún minnkað það sem hún geymdi í borðinu og sett í körfuna sem gæti þá staðið á gólfinu undir glugganum. Karfan er ennþá út í geymslu. Aldrei verð ég fullkominn en ég þarf samt að bæta mig. Hún á það inni hjá mér.
 
Afmælisveislan hennar var haldin á einum af betri stöðunum í Örebro, Karlslunds herragarði. Þar var í dag ársins fyrsta jólaborð og svo var líka fyrir fimm árum síðan þegar hún varð 65 ára. Þann dag var líka þess árs fyrsta jólaborð. Hannes situr þarna næst innst hjá mömmu sinni. Hann var nú ekki búinn að finna sig heima þegar myndin var tekin en nokkru seinna gekk hann afar frjálslega en prúðmannlega um sali. Ég er eitthvað sperrtur og reigður á myndinni en Valdís notalega afslöppuð þrátt fyrir allt sem á undan er gengið.
 
Hún íslenska Eva sem er ósköp góð við Valdísi situr þarna innst, næst er hún Elín dóttir hennar og svo maðurinn hennar hann Sven. Eva heimsótti Valdísi um daginn og þegar hún vissi að við ætluðum að vera þarna í mat fannst henni sem þau ættu að slást í hópinn. Þau sitja því þarna við sama borð og við og voru notalegir félagar við þetta jólaborð. Takk fyrrir samveruna Eva og fjölskylda.
 
Myndavélin okkar réði ekki við krásirnar í Karlslund þar sem hlaðborðið var svo stórt, en huggulegir fiskréttir voru þarna í miklum mæli meðal margs annars.
 
Það var líka gott framboð á eftirréttarborðinu og það var sama þarna, borðið var of stórt fyrir myndavélina. Í tvo tíma dunduðum við við að borða og ég vona og held að Valdís sé ánægð með afmælisveisluna sína. Hún á það skilið. Þakka þér fyrir daginn Valdís.
 
 
 
 
 
Þessi mynd tókst engan veginn en ég læt hana þó fylgja.

Að koma í afmæli til hennar ömmu

Ég skimaði í kringum mig á járnbrautarstöðinni í Kumla klukkan að verða hálf sex í kvöld því að ég vissi ekki hvort gestirnir sem voru að koma í afmælið til hennar ömmu voru framarlega eða aftarlega í lestinni. Ég var búinn að kveikja á myndavélinni og búinn að stilla flassið eins og ég vildi hafa það. Ég vissi af fyrri móttökum þarna á járnbrautarstöðinni að ég þyrfti að vera snöggur ef mér ætti að takast að ná mynd. Svo sá ég þau þarna, Rósu, Pétur og Hannes og um sama leyti sá Hannes mig og tók á rás með bakpokann sinn og ferðatöskuna sína. Nú varð ég að vera snöggur með myndavélina. Afi, afi, afi kallaði hann.

Svo um leið og ég ýtti á hnappinn á myndavélinni þá byrjaði ferðataskan að vagga á öllum hlaupunum og þá auðvitað leit hann við til að sjá hverju fram yndi. Þar með mistókst þessi mynd. Og þó. Þar sem ég vissi um framvinduna þarna er myndin alls ekki svo slæm fyrir mig. Eftir að við höfðum heilsast fór hann að tala um ömmu. Hann ætlaði vissulega að fara alla leið til hennar. Svo ákváðum við að stilla svolítið upp til að taka aðra mynd.
 
Hann talaði um ömmu og lífið var mikið spennandi. Og nákvæmlega þegar ég ýtti á hnappinn öðru sinni leit hann við til að segja pabba sínum frá einhverju mikilvægu. Þar með varð sú mynd ekki eins og ég ætlaðist til.
 
 Ég gerði þriðju tilraunina og þá tókst mér alla vega að ná mynd af andlitinu og eftir að hafa fixað myndina svolítið varð ég nokkuð ánægður.
 
Svo settumst við inn í bílinn og þegar pabbi hans ætlaði að setjast hjá honum afturí bað hann pabba sinn að setjast í farþegasætið frammí og afi ætti að sitja hjá honum. Mamma átti að aka bílnum. Þessi litli maður gerði sér tæplega grein fyrir því að hann var að koma í afmælið hennar ömmu sinnar en hann gerði sér góða grein fyrir því að hann var að koma í heimsókn til hennar líka. Þó að það væri dimmt áttaði hann sig á því á leiðinni að hann var á leið heim til ömmu og þegar Rósa beygði inn á afleggjarann að Sólvöllum og húsunum þar í kring benti hann út og sagði amma, amma. Það var skammdegiskvöld en við hliðina á mér sat sólargeisli.
 
Vegna þess að amma á afmæli á morgun er gamla jólaserían sem var búin að þjóna í fjölda ára heima hjá okkur í Hrísey komin upp. Það ríkir nú mikil kyrrð á Sólvöllum þar sem allir eru komnir í bólin sín. Fyrir aftan mig heyri ég svefnhljóð en það er líka hluti af kyrrðinni. Kannski sjáumst við hér aftur ná morgun í lok vel heppnaðs afmælisdags. Við stefnum á góðan afmælisdag og góða hlegi

Hressar kerlingar

Ég var uppi klukkan hálf sex í morgun og bjó mig undir að fara í Vornes til að vinna hálfan dag. Ég var með hálf lélega samvisku vegna þess að Valdís átti von á gestum í hádegismat í dag. Það voru konurnar fjórar sem hún hittir yfir hádegisverði einu sinni í mánuði. Það var Valdísar að taka á móti þeim í þessum mánuði. Hún sauð rófur og palsternaka í gærkvöldi, svolítið af lambakjöti einnig, og svo skárum við niður alveg helling af alls konar grænmeti. Hún ætlaði að bjóða konunum upp á það sem við hér heima köllum allsherjarsúpu. Það er kjötsúpa sem er þó að mestu grænmeti en með svolitlu kjöti til að fá ærlegt matarbragð af súpunni. Þessi súpa er gríðarlega matarmikil og að sama skapi góð. Ég leit yfir þetta í morgun og svo lagði ég af stað um hálfsjö leytið. Mér fannst sem pottarnir yrðu of þungir fyrir Valdísi.
 
Klukkan hálf tíu eftir morgunfund sem ég hélt í Vornesi kom ég inn á sjúkradeildina og hringdi heim. Ég mátti til með að heyra hvernig gengi. Þá heyrði ég að Valdís var önnum kafin og hún sagðist vera að setja grænmetið í stóra súpupottinn. Hún sagði bara að við mundum heyrast seinna. Þar með var því samtali lokið. Annelie hjúkrunarfræðingur hafði heyrt hvað ég var að hringja og spurði hvernig Valdis hefði það. Hún mátti ekkert vera að því að tala við mig svaraði ég henni. Ja, það er góðs viti varð henni að orði. Mér líkaði vel að heyra það.
 
Næst hringdi ég stutt eftir klukkan ellefu. Þá svaraði mikið spræk Valdís og sagði að þær hefðu verið að koma. Voða gaman. Nú ætluðu þær að fá sér kaffi og köku með. Hún lék á alls oddi og ég áleit það vera vegna þess að nú var súpan tilbúinn, fimm lítra potturinn fullur af allsherjarsúpu. Ég hlakkaði til að koma heim. Ég heyrði gegnum símann hvernig konurnar léku á alls oddi líka. Það var greinilega fjör á Sólvöllum.
 
Korter yfir eitt hringdi ég enn einu sinni heim og sagði að ég væri lagður af stað og bannaði konunum að fara heim fyrr en ég væri kominn heim. Þær ætluðu að hlýða því. Þegar ég kom heim upp úr klukkan tvö kom ég inn í mjög þægilegan selskap hér heima. Þær voru að fá sér kaffi og smákökur með. Ég hitaði mér súpu og borðaði hrikalega mikið. Þær voru oft búnar að koma hingað undanfarin ár þessar sjötugu konur en ég gat ekki munað að það hafi áður verið svo mild og góð stemming meðal þeirra við þessi tækifæri.
 
Um þrjú leytið bjuggu þær sig til heimferðar. Þær þökkuðu aftur og aftur fyrir þennan góða mat. Ég rölti með þeim út fyrir húsið og þá sneru þær sér að mér til að segja mér hvað maturinn hefði verið góður hjá Valdísi. Þær röðuðu sér fyrir framan mig til að leggja áhreslu á þetta. Já, ég sagði að Valdís væri góð heim að sækja og það færi enginn svangur frá henni. Nei, þær héldu nú ekki, voru mér aldeilis sammála. Svo röltu þær aðeins um kring hér úti og settust svo inn í bílinn. Heimsókninni var lokið. Ég fann á Valdísi að hún var líka ánægð með daginn og sinn þátt í öllu saman. Þrátt fyrir að hún hefði verið gestgjafinn var hún að mér fannst mikið hressari en oft áður.
 
Þessum konum þykir skemmtilegt að koma á Sólvelli. Þær koma mikið fyrr á deginum hingað en þegar þær hittast hjá þeim sem eiga heima inn í Örebro. Húsið, kyrrðin og umhverfið fer vel í þær. Það var bara ein þeirra sem lagði sig í dag meðan á heimsókninni stóð. Á sumardögum er eiginlega hægt að segja að þær leiki sér svolítið úti við og þá þurfa fleiri að leggja sig. Þegar það er berjatíð tína þær ber i eftirréttinn.
 
Þannig var dagurinn í dag. Gestgjafinn hefur nú lagt sig og les í bók. Ég er ekki lengur með samviskubit yfir að hafa farið í Vornes að vinna. Ég ætla að lokum að telja upp það sem ég man af grænmetinu sem var í allsherjarsúpunni: Rófur, palsternaka, sætar kartöflur, hvítkál, blómkál, brokkólí, rauðlaukur, púrrulaukur og grænkál. Kannski var það eitthvað fleira. Ég kalla þetta allt grænmeti. Það verður allsherjarsúpa á morgun líka. Namm, namm. Á morgun er svo kóræfing hjá Valdísi.
RSS 2.0