Ýmislegt að bauka við í sveitinni.

Við höfum verið að bauka við eitt og annað hér á Sólvöllum á þessu ári. Sumt er smávægilegt og annað heldur stærra. Í dag bað ég konuna sem ég hitti þegar hún var 17 ára að koma út með myndavélina þar sem það voru tímamót á Sólvöllum. Þetta var líka dagurinn sem fyrsti snjórinn féll. Ég hef fylgst með veðurspánni í sjónvarpi og langtímaspánni á netinu í nokkra daga og það er búið að spá því núna um tíma að það snjói í dag og að það verði hörku frost um helgina, ein 18 stig eða svo. Í dag hækkaði það úr 16 í 18. En aftur að tímamótunum sem ollu því að ég bað Valdísi að koma með myndavélina. Myndin fyrir neðan talar sínu máli.
 
Bíllinn fór í fyrsta skipti inn í nýbyggðan bílskúr. Í vor er leið hætti ég við að byggja bílskúr og ég hætti líka við að leysa af í Vornesi. Ég sagði smiðnum sem hjálpaði mér að ég væri hættur við. Svo ákvað ég aftur að leysa eitthvað af í Vornesi. Síðan ákvað ég líka að byggja bílskurinn en hætti svo við aftur. Þannig gekk það í einhverjar vikur en síðan leysti ég talsvert af í Vornesi og bílskúrinn er fokheldur.
 
Þetta er mikið meira en bílskúr. Þarna verður líka gestaherbergi í endanum sem er nær okkur á myndinni og uppi á loftinu verður geymsla upp á 36 m3. Byggingin er mjög vönduð og alls ekki hægt að kalla svona hús bílskúr. Valdís er því búin að stinga upp á nafnu Bjarg og það var samþykkt meðan hún ennþá hafði það á vörunum. Bak við húsið eru líka fjórir stórir steinar sem gefa nafninu meira gildi.
 
Bíllinn kominn alla leið en það versta var að gólfið blotnaði. (brandari) Hann var svo rosalega drullugur að aftan að ég hellti á hann úr tveimur garðkönnum til að hleypa niður meiri hlutanum af skítnum áður en inn var ekið. Það er nefnilega 600 m malarvegur síðasta spölinn heim að Sólvöllum og malarvegir eru skítavegir fyrir þá sem vilja þvo bílana sína. Þessir malarvegir eru einungis skemmtilegir á þurru og góðu sumri þegar nýbúið er að rykbinda. Síðan er sjarmurinn ekki til að hrópa húrra yfir. Þrátt fyrir þetta er Sólvellir góður staður.
 
Ég þurfti að fylla upp 40 sm hæðarmun frá jörð og upp á gólf til að koma bílnum inn. Hann sagði maðurinn sem kom til að setja upp hurðina fyrir nokkrum dögum að það yrði mikið auðveldara að koma bílnum inn ef ég fyllti í þennan hæðarmun. (líka brandari) Ég lauk því verki í töluverðri rigningu fyrr í dag en þarf þó að bæta vel á uppfyllinguna síðar svo að innkeyrslan verði skemmtileg. Þegar Hannes kom í afmæli ömmu sinnar þótti honum stórskemmtilegt að hafa fjarstýringuna í hendinni og opna og loka. Ég átti líka von á því og skildi hann vel.
 
Þessi bygging hefur næstum verið fjölskylduleyndarmál þar til nú.
 
 
                                                                                    *
 
Svo að alveg óskyldu efni. Þegar Ottó og Svandís frá Hrísey voru hér síðastliðið sumar, okkar gömlu grannar, spurði Ottó hvernig ég hefði þurrkað byggingarefnið sem við sóttum hér inn í skóginn árið 2006 og létum saga. Spurningin var eðlileg og ég spurði mig sjálfur þessarar spurningar þangað til hann Mats sögunarmaður sagði mér hvernig við ættum að gera. Þegar hann var búinn að flytja það heim til okkar aftur eftir sögunina var hér úti alveg óhemju blautur og þungur haugur af borðum og plönkum. Myndin fyrir neðan sýnir svo hvernig þurrkunin fór fram.
 
Og þannig fór þurrkunin fram. Fyrst lögðum við þrjá staura á jörðina og réttum þá vel af til að viðurinn mundi ekki snúast og bogna. Síðan sést hvernig framhaldið var. Eftir þrjá mánuði í góða þurrkasumrinu 2006 var þetta orðinn góður byggingarviður og ég sit nú í öðru herberginu sem við byggðum þá við. Mats sagði ekki að við þýrftum að vanda þetta svona mikið en nokkrum dögum seinna kom hann hér í hlaðið, leit á þurrkskýlið og sagði að hér yrði greinilega vandað til viðbyggingarinnar. Hann segir hlutina í einföldum orðum sá maður. Við fréttum seinna að það hefði verið haft á orði í nágrenninu að þurrkhúsið á Sólvöllum hefði verið vandaðra en gengur og gerist þegar menn þurrka smíðavið heima.


Kommentarer
Björkin.

Mikið er þetta flott og notarlegt fyrir bílinn.knús.

2012-11-28 @ 12:54:36


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0