Er þetta ekki stórkostlegt?

Í nótt var ég hjá lækninum góða sem getur læknað hin ótrúlegustu mein og það veldur líka hinum verstu meinum ef við hittum hann ekki. Eftir sjö tíma svefn í nótt varð ég var við það að Valdís fór fram á bað. Ég mátti ekkert vera að svoleiðis því að ég ætlaði að halda áfram að sofa. Ég varð ekki var við það þegar Valdís kom til baka, en eftir tæplega níu tíma svefn sá ég þó að hún var komin. Þá var ég líka orðinn sem nýr maður og þótti sem ég hefði bloggað af erfiðleikum og trega í gærkvöldi. Ekki þarf ég að kvarta undan litlum samvistum með þessum lækni heima hjá Rósu og fjölskyldu heldur þar sem ég svaf næstum álíka lengi fyrstu þrjár næturnar og ég svaf í nótt. Samt tókst magapestinni að slá mig um koll. En svona er lífið. Við getum fengið skilaboð um það þegar best gengur að við séum ekki alls ráðandi.

Það er komið fram yfir hádegi en ég er þó ekki búinn að fara út í morgun en ég er búinn að skima heilmikið út og virða fyrir mér þann heim sem úti fyrir er. Ég þreifaði líka á skorsteininum áður en ég klæddi mig en þá höfðum við ekki kynt í tíu tíma. Hann var ennþá merkjanlega volgur. Svo kveikti ég upp. Strax eftir heimkomuna í gær tók ég nokkrar myndir og ég skoðaði þær í morgun og þær vöktu skemmtilegt hugarflug.



Þannig leit vegurinn heim að Sólvöllum út við heimkomuna í gær, en húsið er hægra megin við mig þaðan sem ég tók myndina og sést ekki. Það þykir kannski ekki öllum að þessi ruðningur sé neitt til að tala um, en fyrstu snjókornin sem byggja hann upp byrjuðu að falla fyrir einum sex vikum síðan og síðan hefur ekki komin einn einasti frostlaus dagur. Á þeim tíma hefur líka vegurinn hækkað upp, því að þó að Mikki sé duglegur við að ryðja þá treðst niður og verður eftir dálítið lag á viku hverri. Það á nokkuð örugglega eftir að snjóa á þennan snjó mis marga sentimetra á viku hverri eitthvað fram í mars. Á þeim tíma má reikna með að hitastigið verði mínus núll til mínus tuttugu stig, það er að segja órofinn frostakafli og venjulega all nokkuð neðan við núllið.



Það eru Kilsfjöllin sem sjást þarna við sjóndeildarhring. Þegar ég tók myndina sáust þau svo ótrúlega skýrt með berum augum að ég hélt reyndar að þau yrðu ennþá skýrari á myndinni. Snjóa og frostakaflinn sem ég talaði um með myndinni fyrir ofan getur með svartsýni virst óyfirstíganlegur. En í raun er er hann hversu náttúrulegur sem helst og kannski eins og það raunverulega á að vera. Undir þessum hálfa meter af snjó sem við sjáum svo langt sem séð verður er mikið að ske. Þar er jörð í hvíld og jörð að undirbúa sig fyrir nýtt sumar. Þar er líka mikið smádýralíf í gangi þó að það verði okkur kannski ekki allt að skapi þegar sumrar á ný. Þar leynist mikið af skógarplöntum sem kviknuðu til lífs í sumar og njóta nú þess að snjóþekjan gefur þeim frostlausan vetur.

Margar svoleiðis plöntur koma til með að verða á vegi okkar Sólvallabúa þegar vorar og maður spyr sig; hvers vegna sáum við ekki þessa plöntu í fyrra? Skógurinn báðu megin við opið niður á sléttunni er laufskógur. það er engin snjór sem liggur á greinunum þar en þegar ég lít yfir tölvuskjáinn og út í sólvallaskóginn er skógurinn þungur af snjó og útsýnið út í hann er mjög stutt. Skógurinn á myndinni fær á sig nógu mikið af norðan- og austanáttum til að snjórinn hreinsist af honum. Sólvallaskógurinn er í skjóli við skóga til norðurs og enn meira til austurs, skóga sem ná út í kílómetra fjarlægð. Þetta er skýringin á veðursældinni á Sólvöllum. Í mestu hitum í maí til ágúst er erfitt að hugsa sér að þetta geti verið aðlaðandi, en þegar það er komið get ég alla vega spurt sjálfan mig hvað sé fallegast, vetur eða sumar.



Hún Þórlaug stórvinkona okkar er iðin við að koma með innlegg á bloggið mitt. Eftir bloggið mitt í gær sagði hún "Velkomin heim í jólahúsið ykkar". Þetta er hreint ekki fyrsta myndin af þessu húsi hjá mér upp á síðkastið en það er þó sú nýjasta. Undir snjóþekjunni er jörð í hvíld og mikið smádýralíf í gangi og að nýgræðingurinn fær þar skjól sagði ég með myndinni næst fyrir ofan. Það sama má segja um hlutverk þessa húss. Þar inni er hægt að fá hvíld og þó að við Valdís séum kannski ekki beinlínis nein smádýr fáum við þar skjól. Eftir "ofurlitlar" endurbætur á gamla húsinu sem nú er undir miðju þakinu kemur þetta hús ekki til með að láta sig muna um það að skýla okkur þó að frostið fari í 30 stig.

Og svo þegar loftvarmadælan verður komin á austurvegginn verður kyndingin einföld og ódýr og freistar okkar ekki til að taka of mikið af skóginum til að elda upp. Ef við viljum yfirgefa þetta hús í einhverjar vikur að vetri til kemur þessi varmadæla til með að halda góðu lofti inni og þeim hita sem við óskum eftir. Ef hitastigið úti verður of lágt til þess koma rafmagnsofnarnir til með að grípa sjálfkrafa inn í. Svo þegar við komum á flugvöllinn í öðru landi á leiðinni heim sendum við sms heim til varmadælunnar og biðjum um 22 stiga hita. Svo verður gott að koma heim. Er þetta ekki stórkostlegt?



Hún Valdís kona mín er búin að sækja blaðið og segja mér helstu fréttir úr því. Nú er hún að fletta alls konar blöðum sem sem söfnuðust upp meðan við vorum í Stokkhólmi og athuga hvort þar sé nokkuð sem er mikilvægt.

Á Sólvöllum á ný

Dvölinni í Stokkhólmi er lokið og við amma erum tvö á ný í kyrrðinni á Sólvumöllum. Þessi heimsókn þróðaðist á annan veg en óskað var af minni hálfu. Þegar leið að jólamatnum á aðfangadag fór mér að verða kalt og ég bætti á mig fötum. Eftir að hafa borðað ofnsteikta íslenska lærið svo gott sem það var varð mér ennþá kaldara og ég bætti á mig meiri fötum og svo virtist allt í lagi. Um þrjúleytið um nóttina vaknaði ég og var heitt og hjartað sló kröftugum slögum. Snemma dags skreið svo magapestin fram úr fylgsni sínu og eftir það var ekki svo skemmtilegt á köflum. Það er ekkert fyndið, ekki hvað mig áhrærir alla vega, að vera jólagestur og þurfa svo að uppfylla kröfur miskunnalausrar magapestar. Svo er það mál úr sögunni og þrátt fyrir allt tókst þetta jólahald vel.

Þegar við komum heim til fjölskyldunnar okkar í Stokkhólmi nokkrum dögum fyrir jól man ég ekki hvort það var mamman eða pabbinn sem hélt á Hannesi Guðjóni. En alla vega, hann brosti þegar hann sá okkur og rétti svo fram hendurnar. Við áttum að taka hann. Hvað geta amma og afi beðið um meira en að barnabarnið þekki þau eftir þriggja mánaða fjarvistir og vilji þar að auki að þau taki við honum. Nei, þetta voru bestu móttökurnar sem við gátum fengið þó að við fengjum kannski ekki að halda svo lengi á honum í það skiptið.

Litla húsið á Sólvöllum kúrði undir snjóþekjunni og hádegissólin lýsti það upp þegar við komum heim um eittleytið í dag. Ekki svo löngu síðar, eða tveimur tímum, var hún gengin til viðar en húsið hélt áfram að vera um kyrrt. Gamla jólaserían hennar Valdísar sem lýsti upp þakskegg í Hrísey lifði á vesturstafninum eins og við höfðum skilið við hana. Ungu grannarnir, Lars og Stína, höfðu verið hér á eftirlitsferðum og um leið hreinsað snjó upp úr slóðinni heim að húsinu. Það var því ekki svo mikið fyrir mig að hreinsa þegar við komum. Það var ellefu stiga hiti inni og við hækkuðum á ofnum og kveiktum upp í kamínunni. Svo bar ég inn úr bílnum og eftir það var hitinn kominn í þrettán stig. Þetta gekk sem sagt nokkuð vel. Það er spáð mismiklu frosti næstu tíu daga, allt niður í 19 stiga frost. Og næstu tíu daga á daginn að lengja um 17 mínútur en þó bara um eina mínútu á dag fyrstu fimm dagana.

Ég hvíldi mig all lengi eftir heimferðina og Valdís sauð ýsu og kartöflur eins og við höfðum talað um á leiðinni heim. Við ætluðum að stappa ýsuna saman við kartöflur og smjör. Svo þegar til átti að taka varð Valdísi flökurt af lyktinni af ýsunni og tók því fram kalt hangikjöt. Þá varð mér flökurt af hangikjötslyktinni og svo sátum við hvort á móti öðru við matborðið og borðuðum með ólyst á hvors annars mat. Það er mikill flökurleiki í gangi í þessu landi um þessar mundir og mér skilst að svo sé í fleiri löndum. Ég er búinn að aflýsa vinnu á morgun og það telst til meiri háttar tíðinda í Vornesi að Íslendingurinn geti ekki mætt vegna veikinda.

En eins og mikið er talað um á förnum vegi og í fjölmiðlum er landið frábærilega fallegt um þessar mundir með þessa mismjúku snjóþekju yfir öllu frá suðri til norðurs. Daginn er tekinn að lengja og þar með eru mörg skemmtileg verkefni sem fara í gang hvert af öðru eftir því sem vikurnar líða. Það eru ekki nema rúmir þrír mánuðir þangað til ég fer að fara tíðar ferðir út í skóg til að kíkja á hina ólíku brumhnappa þroskast, ekki síst okkar kæru beykitrjáa. Í apríl leggjum við upp í Íslandsferð, meðal annars til fjölskyldunnar okkar í Vestmannaeyjum þar sem það á að ferma yngsta barnabarnið þar, hana Erlu, þann tíunda apríl.

Nú skal ég ganga snemma til náða og vænti þess að vinur vor Lokbrá verði nærstaddur. Hitinn inni er kominn nokkuð hærra en ætlast var til, eða upp í 26 gráður. Hann lækkar niður í viðunanlegra hitastig fljótlega og kosturinn við þetta er að í fyrramálið verður skorsteinninn ennþá volgur og þannig jafnast hitinn mikið þó að við kyndum ekki í eina átta tíma.

Ég ætlaði að birta myndir með þessum texta en þar sem netið varð svo seigt þegar líða tók á kvöldið læt ég það bíða. við erum með margar skemmtilegar myndir og ég býst líka við að Valdís setji myndir á Flickrsíðuna sína á morgun.

Já, hvað gerir maður?

Hvað gerir afi sem er á sextugasta og níunda aldursári þegar hann finnur að einhver snertir hnéð. Afi lítur niður og sér lítið brosandi andlit og tvær litlar hendur sem teygja sig upp eins langt og litli kroppurinn leyfir. Brosið er ómótstæðilegt og fallegu augun segja; afi, taka. Aldursmunurinn er rúm 67 ár. Jú, afi leggur frá sér það sem hann er að gera og tekur undir litlu handleggina og lyftir upp litlum dreng.

Nafni er bara fimmtán mánaða. Þegar afi hefur lyft honum upp ýtir hann kanski á nefið, eða tekur í annað eyrað eins og hann hafi aldrei séð það fyrr. Gleraugun lætur hann nánast alveg í friði eða fer varlega höndum um þau með litlu fingrunum sínum. Svo tala afi og drengur um lífið litla stund og svo er eitthvað annað sem þarf að skoða eða athuga og drengur þarf því að fara þangað. Oft kemur hann fljótlega aftur og allt endurtekur sig. Stundum leggur hann höfuðið upp að öxl afa og segir; aaaaaaaa.

Hér á bæ hjá Rósu og fjölskyldu gekk málarinn út daginn fyrir Þorláksmessu, kvaddi og óskaði gleðilegra jóla. Hans er von aftur á mánudag. Rafvirkinn gerði sama á Þorláksmessu og hans er líka von aftur eftir jól. Það hefur því verið í ýmsu að snúast við að koma hlutunum í röð og reglu og það var ekki fyrr en núna seinni hluta aðfangadag sem hlutirnir voru komnir í gott horf.

Ég fór tímanlega á aðfangadagsmorgun með rusl í litla endurvinnslu sem er hér stutt fyrir ofan götuna. Hér hefur ekki snjóað svo hættulega mikið en það er kalt. Ég hafði smá andvara á eftir mér á leiðinni þangað og nokkrir litlir hérar voru á rjátli undir eldri Volvó fólksbifreið og virtust vera á heimaslóð þó að þeir væru næstum inn í miðjum Stokkhólmi. Þegar ég gekk til baka og hafði andvarann í fangið beit frostið hressilega í andlitið. Þá voru hérarnir líka orðnir margir og voru mikið að vasast innan um síðustu arssprota runna í lítilli brekku. Það er hætt við að börkur þessara runna hafi orðið aðfangadagsmatur héranna. Líklega varð ég var við tvo bíla á
í ferðinni og eina konu á gangi í þessari morgunferð minni. Rólegur aðfangadagur það í miðbæ Stokkhólms.

Ég laumaðist til að hlusta á stóran hluta aðfangadagsmessunnar í íslenska útvarpinu. Þar talaði hún Anna Pálsdóttir um fæðingu barns fyrir 2000 árum. Ásama tíma sat hann Hannes Guðjón á gólfinu rétt hjá mér og skoðaði fyrsta hluta af jólagjöfunum sínum. Anna sagði frá för ferðamanns að fæðingarstað Jesú og reynslu hans af því og Hannes Guðjón hélt áfram að sýsla með jólagjafirnar sínar áhyggjulaus af heiminum. Svo sýnir hann ömmu, mömmu og pabba sama hýja viðmótið og hann hefur sýnt mér. Ég er ekki einn um þessi lífsgæði.


Á þessari mynd erum við nafnarnir reyndar að syngja og dansa. Nafni virðist ánægður með söng afa þó að hann sé ekki svo lagviss. Það eru til margar myndir og ekki bara af okkur. Fljótlega koma myndir af fleirum og einnig skýring á því hvers vegna ég hef verið svo hljóður um jólin.

Í Stokkhólmi

Eftir 225 km akstur í hálku vorum við frammi í Celsiusgatan í Stokkhólmi um hálf fimm leytið í eftirmiðdaginn. Ég var dauðþreyttur eftir þennan akstur enda alveg sérstaklega á varðbergi hverja einustu sekúndu. Hann nafni minn tók okkur alveg frábærilega eins og þau öll en það var dálítil eftirvænting hjá okkur varðandi hvort hann þekkti okkur -sem hann og gerði og það gladdi okkur. Eftir þrjá mánuði þekkti nafni okkur. Fyrir mig er orðið áliðið og mikil löngun í félagsskapinn með Óla Lokbrá og mér hálf heyrist að hann sé þegar kominn í félagsskap með Valdísi sem kúrir hér skammt undan.

Sólvallapistill

Um miðjan dag í dag var ég í bloggstemmingu og strax eftir kvöldmatinn vistaði ég nokkrar myndir til að nota í blogg í kvöld. Svo horfði ég á fréttir í sjónvarpi og byrjun á einhverjum grínframhaldsþætti. Síðan gekk ég inn að tölvu og fór inn á bloggið og þá var bara allt horfið úr mínu höfði. Ég leit á myndirnar sem ég hafði vistað og hélt að þá kæmi eitthvað upp. En nei, ég var fullkomlega tómur. Svona er það að góna á þetta sjónvarp. Það gerir mann bara náttúrulausan.

En alla vega; þessi dagur hefur hvað mig áhrærir gengið út á það að undirbúa fjarveru okkar þar sem við ætlum að vera viku í Stokkhólmi um jólin. Valdís hefur hins vegar annast það að tína til það sem við ætlum að hafa með okkur og að pakka því niður. Það er orðið langt síðan við höfum hitt Stokkhólmsfjölskylduna en höfum þó getað fylgst svolítið með Hannesi Guðjóni þar sem Rósa hefur verið dugleg við að senda myndir, jafnvel svolitla filmubúta eins og til dæmis þennan hér þar sem Hannes gerir tilraun til að gera við dótakistuna sína: vídeó.

En við eigum fleiri barnabörn og hér er annar filmubútur sem var tilgengilegur á Facebook í gær. Hann er af henni Erlu dótturdóttur okkar þar sem hún leikur á saxófón við píanóundirleik. http://www.facebook.com/video/video.php?v=1775340626146&comments&ref=mf. Þvílík verðmæti sem unglingar hafa tilgang til nú á tímum. Oft hefur mig langað að taka undir þegar fólk syngur en líklega er mikilvægt að alast upp við svoleiðis. En nú aftur á heimsalóð. Ég held líka að ég sé kominn í gang með bloggið.


Valdís á allan heiður skilinn af þessu eins og öllu öðru jólalegu sem lífgar upp á heimili okkar um þessi jól. Það er alveg merkilegt með þessar stjörnur að þær eru alveg eins þegar við horfum á þær, hvort heldur innan eða utan frá. En svo erum við búin að gera margar tilraunir til að taka myndir af þeim og þá eru þær aldrei eins. Og ég skrökva því ekki, þær eru alveg nákvæmlega eins. Við erum að hugsa um að láta lifa á þeim meðan við erum fjarverandi en það er þó ekki alveg ákveðið.


Að vísu verða Sólvellir ekki alveg utan ábúðar meðan við verðum fjarverandi. Þannig var að ég fór kvöld eitt fyrir nokkru með vasaljós út í viðargeymslu og strax þegar ég kom þar inn fann ég greinilega að ég var ekki einn þar inni. Ég átti um tvennt að velja; að taka til fótanna eða kanna hver nærveran væri. Ég valdi að kanna. Og þá komst ég að því að við höfðum fengið nýjan ábúanda sem kallast skata. Skata er að sumu ekki alveg ólík tjaldinum en þó er hún mikill vargur sem tjaldurinn alls ekki er. Þarna hefur hún svo haldið sig á hverju kvöldi síðan að því er ég best veit því að ég hef kannað það nokkrum sinnum. Hún hallar bara höfði og horfir á mig þegar ég lýsi á hana með vasaljósinu. Enginn sem ég hef talað við hefur heyrt um það áður að skata taki sér vetursetu í húsum.


Sólvellir eru nú vel undir það búnir utan dyra að farið sé frá í nokkra daga. Ég hef staðið mig vel við að ljúka öllum smáatriðum úti utan pallinn sem á að koma framan við innganginn og handrið sem síðar á að koma á pallinn. Það finnst nokkuð í Svíþjóð sem kallað er smíðagleði (snickarglädje) og er gjarnan sett kringum aðalinngang. Smíðagleðin er gjarnan mikil útsögun af alls konar slaufum og skreytingum og þá fáar línur beinar og svo venjulega málað með hvítu. Á Sólvöllum verður smíðagleðin við aðalinnganginn með beinum línum en máluð með hvítu og það má segja að þessi smíðagleði sé aðeins komin af stað eins og sjá má.

Það er líka að tilstuðlan Valdísar sem gamla serían okkar frá Hrísey er komin yfir útidyrnar. Hún var þó ekki í stiganum við að hengja hana upp en hún fékk mér seríuna og bað um að nú yrði gengið frá henni. Það var um síðustu mánaðamót. Það er bannað að taka eftir því að ein pera í seríunni er biluð. Ég gaf mér ekki tíma til að skipta um hana fyrr en eftir að ég tók myndina eftir að dimmt var orðið í kvöld.


Úr þessari átt sjást stjörnurnar hennar Valdísar sem eru í svefnherbergisglugganum okkar. Það rýkur úr skorsteini en Valdís hefur kynnt með reyniviði í dag. Það er hlýtt í kotinu en það þarf þó að elda æði mikið til að halda hita í gamla hlutanum sem núna er orðinn miðja hússins. Meira um það síðar.


Þessi mynd er framtak Valdísar. Það er fallegt á Sólvöllum hvort heldur er vetur eða sumar. Húsið hefur líka tekist vel. Það er mjög fallegt og staðurinn er sem sagt alveg bráðfallegur í heild.


Valdís tók líka myndina af þessari unglingseik sem stendur að húsabaki. Þegar við keyptum húsið 2003 var þessi eik ósýnileg inn í þyrpingu af greni og reyniviði. Nú er hún orðin alveg bráðfalleg hvort heldur er að sumri eða vetri eins og ung kona sem skartar sínu fegursta. Meðan hún var í prísundinni lifði hún í sárum af ágangi kröfuharðra nágranna sinna. Að bjarga tré á þennan hátt er hluti af því sem ég kalla að hlú að skóginum sínum.


Tjaldið þarna á miðri mynd er farið að tapa hluta af reisn sinni þar sem jafnfallinn snjórinn er orðinn um hálfur metri á dýpt. Eitt af því sem ég aðhafðist í dag var að moka frá því snjó og hreinsa ótúlega mikinn snjó ofan af því. Það er mikilvægt að láta þetta tjald ekki falla undan snjóþyngslum þar sem því er ætlað hlutverk á nýju ári. Um miðjan janúar ætlum við Anders að ráðast á gólfið í gamla hlutanum og hreinlega henda því út. Gólfbitarnir eru 11x11 sentimetrar og einangrunin milli þeirra er aðeins 5 sentimetrar. Síðan ætlum við að setja gólfbita sem eru 4,5 x 19,5 sentimetrar og svo setjum við 195 mm steinull á milli þeirra. Eftir það þarf ekki að bera jafn mikinn eldivið í kamínuna og áður. Síðan tökum við loftið og hækkum það og endurnýjum og setjum 30 sm einangrun í það. Skiljanlega fá þó sperrurnar að lifa áfram.

Meðan á þessu stendur verður tjaldið að standa sig sem efnislager. Eftir þetta verður Sólvallahúsið algerlega sem nýtt, frekar lítið einbýlishús, með öllum kröfum sem gerðar eru til húsa í dag en þó ekki með neinum íburði. Íburðurinn liggur í því landslagi og náttúru sem við höfum í kringum okkur og sem við reynum að hlú að af bestu getu.

Margt fínt hefur drifið að í dag

Það eru þrjú ár síðan við fórum inn í K-rauta byggingarverslun í Örebro og keyptum klósett sem er hengt á vegg. Það kostaði 3400 Skr. Viku seinna gengum við í gegnum verslunina og þá sáum við að klósettið kostaði 2400 Skr. Þá fengum við á tilfinninguna að við hefðum tapað fé. Stuttu síðar var verðið komið upp í 3400 kr á ný. Fólkið í versluninni sagðist ekkert vita um svona lagað fyrr en það dytti á án nokkurs fyrirvara, enda væri eins gott að vita ekki um það. Það mundi gera hverja manneskju vitlausa að þurfa að þegja yfir því þegar fólk væri að kaupa að á morgun yrði verðið þriðjungi lægra.

En sannleikurinn er sá að við höfum líka verið heppin all oft. Um daginn vorum við í versluninni í Fjugesta þar sem pósturinn er afgreiddur og við kaupum alla málningu. Þar gengum við að stafla af eikarparketi og einmitt þá bar að Ing-Marie sem vinnur þarna og hefur oft hjálpað okkur. Við fórum að tala um parketið og að það væri mjög vandað miðað við verð. Já, sagði Ing-Marie, við munum aldrei framar geta haft þetta parket á þessu verði. Þessi framleiðsla er ný og verður mun dýrari framvegis. Við kaupum það sögðum við og við þurfum 50 m2. En þá vantar tvo m2 svaraði hún. En sjáum nú til, við reynum að útvega þá en verðið á þeim tveimur verður kannski ekki það sama.


Í dag fórum við til Fjugesta og sóttum þessa 50 m2 af eikarparketi og fengum allt á verði sem aldrei verður hægt að bjóða upp á aftur. Það var alveg ótrúlega gaman að bera þetta inn í nýbygginguna og stafla því snyrtilega undir suðurgluggann. Fimm plötur voru lausar og ég bara mátti til með að krækja þeim saman og taka af þeim mynd. Ég hef ekki minnsta grun um að Ing-Marie hafi bara sagt þetta um verðið. Við komum þarna svo oft og munum taka eftir því verði sem síðar verður boðið upp á. Núna liggur þar frammi parket sem er mun mikið dýrara. Það er gott að finna minni verslanir þar sem verða svolítil persónuleg kynni.

En nú var það svo að við vorum líka að sækja pakka í póstinn og þegar parketið var komið á kerruna tókum við pakkann. Sendandi sýndi sig vera Guðný systir mín á Skagaströnd. Og nú verð ég að birta fleiri myndir.


Meðal þess sem kom upp úr pakkanum voru þessar ótrúlega fínu kúlur. Það var erfitt að ná mynd af þeim þannig að fínleikinn kæmi almennilega í ljós. Hér gerði ég tilraun með að taka mynd af þeim á bútasaumsteppinu sem Valgerður dóttir okkar saumaði. En svona kúlur eiga jú að hanga þannig að við tókum af þeim aðra mynd.


Þá litu þær svona út. Mikið er það fínt þegar fólk tekur sig til þegar það hefur lokið vinnuferli sínum og gerir svona lagað. Við Valdís vorum alveg undrandi þegar við tókum þetta upp úr pakkanum og virtum fyrir okkur þetta fallega handverk. En hér var ekki staðar numið.


Þessi fallega málaða kanna kom líka upp úr kassanum. Við vissum að Guðný væri góð handavinnukona en hér kom hún okkur alveg á óvart. Ég var með fleiri myndir af könnunni og átti erfitt með að velja milli þeirra þannig að ég læt aðra mynd fylgja.


Hér læt ég þessari myndaseríu lokið en segi bara; mikið er gaman að þessu.

Lifir lengur og líður betur

Um daginn bloggaði ég undir fyrirsögninni "Hvað er sálarró?". Ég skrifaði þar í mjög stuttri umfjöllun um skort á andlegheitum og um andlegheit -út frá mínu sjónarmiði. Í gær lagði ég mig verulega snmemma þar sem ég ætlaði snemma á fætur og svo í vinnu í Vornesi. Ég greip aðra af tveimur bókum af náttbroðinu mínu, báðar um andlegheit. Bókin sem ég valdi var gefin út 2001 og ég opnaði hana af eins mikilli tilviljun og mér var mögulegt. Hún opnaðist á síðu tólf. Þar skrifar maður sem heitir Stefan Einhorn og er professor í öreindalíffræði eftirfarandi orð.

Fyrir fimm árum stóð ég allt í einu frammi fyrir hinu óskiljanlega.
Frá því að hafa verið trúarlega áhugalaus,
ákvað ég að skrifa bók um Guð.
I voru skynsemissamfélagi lokkast maður auðveldlega til að trúa
að innan tíðar höfum við þekkingu á öllu.
Ég trúi að margir vísindamenn hafi gengið í þá gildru.
Ég lít öðru vísi á það.
Ef öll hugsanleg þekking er eins og heil borg
er sú þekking sem við höfum í dag ekki stærri en svo að hún kæmist fyrir
í fataskáp í einu af húsum borgarinnar.
Sannleikurinn er að spurningin um tilvist Guðs
er ennþá ósvarað.
Fræðimenn segja í dag að Guð sé líffræðilegt tákn í heilanum,
en svo er það jú með allar hugsanir okkar og tilfinningar;
allt byggist á lífeðlisfræðilegu ferli í heilanum.
En það segir ekkert um það hvort Guð finnst eða ekki.
Hvað mig áhrærir túi ég að líkindin fyrir að Guð finnst
sé minnst 50 prósent.
Og einum hlut kemmst maður ekki undan,
fólk sem hefur innri andlegheit er hamingjusamara,
lifir lengur og líður betur.
Þess vegna er það eftirsóknarvert
að leita eftir því guðdómlega.
Hvort heldur Guð finnst eða ekki.


Þýðingin er mín og skyggða letrið nota ég til að leggja áherslu á þær línur. Mér þótti í gærkvöldi, og þykir enn, fróðlegt að sjá hvað prófessorinn í öreindalíffræði segir um andlegheitin, en hans skoðun, eða ég vil heldur segja vitneskja, styrkir það sem ég sagði í blogginu mínu um sálarró.

Kannski hugsar einhver sem svo að Guðjón sé alveg að klikka í einhverri trúardellu og andlegheitarugli. Sannleikurinn er þó sá að það eina sem hefur breytst hjá mér á þessu sviði til fjölda ára er að ég þegi minna yfir því nú en áður.

Ég endaði daginn í Vornesi í dag með því að hafa grúppu um 7. sporið í 12 spora prógramminu. Ég sagði þeim frá Stefan og þessum texta með áherslu á skyggðu línunum. Þau hlustuðu hljóð, kinkuðu kolli og voru að lokum mjög ánægð með skoðun og þekkingu þessa lærða manns; "Og einum hlut kemst maður ekki undan . . .". Þau eru mjög móttækileg fyrir svona málum í Vornesi enda er þetta líka boðskapur 12 spora prógrammsins.

Nú bíður draumalandið mín og koddinn svo mjúkur og hreinn.

Ekki hægt að hugsa það til enda

"Fyrsta sjálfsvígssprengjuárásin á sænskri grundu var fordæmd við föstudagsbænir í stærstu mosku Stokkhólms í dag."

Þetta las ég á ruv.is áðan og það fékk mig einu sinni enn til að hugsa eftirfarandi: Ef þessi maður hefði komist niður í neðanjarðarlestarstöð fulla af fólki og náð að sprengja allt sem hann hafði meðferðis, ja, það er bara ekki hægt að hugsa þá hugsun til enda. Þvílík skelfileg aðkoma það hefði orðið.

Eiginlega fannst mér þegar ég hafði skrifað þetta að það væri spurning hvort það væri í lagi að skrifa það. Ef það hefur virkilega staðið til þá segi ég bara: Þakka þér fyrir góði Guð að það tókst ekki.

Konungur skógarins

Í gær var vinna í Vornesi. Ég lagði af stað um klukkan hálf sjö í gærmorgun og það var sannur vetrarmorgun. Víða var frostþoka sem gaf möguleika á hvínandi hálku og ástæðu til mikillar gætni. Það er merkilegt þetta með Vornes. Þegar ég ek inn skógargöngin heim að staðnum ek ég á vit tilveru sem er mjög svo bundin við þröngt svæði, bundin við húsakynni sem eru umgirt af rótgrónum trjágróðri og runnum sem fólk með græna fingur og hugsjón skipulagði og hlúði að fyrir áratugum og svo að lokum er þessi tilvera bundin þeirri sérstöku starfssemi sem þar fer fram.

Mér dettur oft í hug þegar hringt er til mín, oft með stuttum fyrirvara, og ég er spurður hvort ég geti komið, hvort ég sé ekki dottinn út úr þeirri formgerð sem þar hefur ríkt í fimmtán ár. En þegar ég hef gengið að ákveðnum skáp, pikkað inn leyniorðið sem opnar skápinn og tekið fram lyklana sem ég þarf að hafa og símann sem ég á að hafa í vasanum, þá er ég á heimaslóð. Stuttu eftir að ég kom þangað í morgun gekk fram miðaldra maður sem ég hafði aldrei hitt áður og hann vildi heilsa. Ég hef oft heyrt um þig sagði hann, ég veit að þú ert þjóðsagnapersónan sem tengist Vornesi. Jahá. Ég hef heyrt þetta áður. Ég er nefnilega talinn hafa þá eiginleika að sjá í gegnum fólk og vita þegar að lýgur. Þess vegna lítur fólki mjög illan sem hefur logið í mín eyru.

Einhvern tíma sagði ég að ef nákomnir væru fluga á vegg þegar ég er að vinna þarna þá mundu þeir ekki þekkja mig, ekki fyrr en ég væri aftur á leið út skógargöngin á leiðinni heim. Og það var um klukkan fjögur síðdegis í gær sem ég var á leiðinni heim. Hitamælirinn í bílnum sýndi þá fimm stiga frost en frostið jókst eftir þvi sem mig bar lengra vestur á bóginn móti Örebrosvæðinu. Þegar ég var kominn svo sem þriðjung leiðarinnar heim var ég í frostþoku þegar ég sá lítið dádýr hlaupa út á veginn mjög óþægilega nálægt bílnum. Ég vissi að það var enginn alveg fyrir aftan mig enda bremsaði ég allt hvað af tók og dádýrið slapp og gerði sér greinilega enga grein fyrir því að það hefði verið í lífshættu.

Þegar ég var kominn langleiðina heim stóð allt í einu stór elgskú á veginum en hélt svo áfram þegar ég var nánast stoppaður. Ég lét bílinn aðeins síga áfram og var varkár þar sem það eru oft fleiri dýr á ferðinni ef vart verður við eitt. Bíll kom á móti og stoppaði. Ég varð einskis var og svo gaf ég hóflega í og bíllinn jók ferðina. Einmitt þá kom elgskálfur út á veginn eða það virtist sem hann hefði verið á ferðinni við hliðina á bílnum en svo tók hann á rás og hljóp fram fyrir bílinn. Þá nauðbremsaði ég aftur og nú gáði ég ekki aftur fyrir mig. Innan við einn meter fyrir framan bílinn slapp kálfurinn yfir veginn. Sá sem kom á móti hefur sjálfsagt séð kálfinn meira en ég þar sem hann lýsti á hann.

Þegar nú elgir voru úr sögunni leit á ég á hitamælinn og þá stóð hann í 20 stiga frosti. Ég fór í síðu nærbuxunum í Vornes en fór svo úr þeim þegar ég var kominn fram því að það er vont að sitja með fólki í grúppu og vera allt of heitt. Svo fannst mér ekki nógu kalt til að fara í þær aftur áður en ég lagði af stað heim. Að hugsa sér ef eitthvað kæmi fyrir og ég þyrfti að fara út úr bílnum, þá yrði ég ekki svo mannalegur þegar kuldinn færi að sverfa að. Ég ætla að muna þetta á föstudaginn kemur, en þá fer ég væntanlega aftur í Vornes.

Elgurinn er sagður konungur skógarins og þá hlýtur glæsileg elgskú að vera drottning skógarins.

Að uppgötva heiminn

Það er skrýtið hvernig eitthvað sem maður heyrir eða sér setur í gang hugsun sem síðan leiðir hugann að einhverju öðru og að lokum getur hugurinn verið kominn að einhverju sem er með öllu óskylt því sem var í gangi í upphafi. Ég leit í orðabók og komst að því að þetta væri kallað hugmyndatengsl en var þó ekki alveg ánægður með niðurstöðuna en annað virtist ekki að hafa.

Í gærkvöldi horfði ég öðru hvoru á langan sjónvarpsþátt sem nefndist Sænskar hetjur. Þar var fólki sem hafði sýnt hugdirfsku við viðsjárverðar aðstæður veitt verðlaun. Það út af fyrir sig væri efni til að blogga um þó að ég láti það kyrrt liggja. En eitthvað í þættinum fékk mig til að hugsa um hann Hannes Guðjón nafna minn sem er fimmtán mánaða þegar hann fyrir stuttu horfði á hann pabba sinn ýta á hnappinn á ryksugunni án þess að hún færi í gang. Minn maður tók þá í klóna á rafmagnsleiðslunni og gekk með hana að næstu innstungu og vildi setja í samband. Ég get ímyndað mér að foreldrunum hafi þótt skemmtilegt að vera með um þetta þar sem það er skemmtilegt að sjá þegar börn eru að uppgötva heiminn.

Þar með fór ég að hugsa um það þegar fjölskyldan flutti frá Uppsala til Stokkhólms í september og allt var meira og minna á rúi og stúi og strákur notfærði sér aðstæðurnar og fór í feluleik, en þá var hann einmitt rétt orðinn eins árs. Já, einmitt. Ég mundi allt í einu eftir þvi að ég átti myndir af honum í þessum feluleik, myndir sem ég hafði ætlað að sýna á bloggsíðunni minni en svo hafði ég bara gleymt öllu saman. Ég vistaði því myndirnar inn á bloggsíðuna í gær og hugsaði mér að gera svo mat úr því þegar ég kæmi heim frá vinnunni í dag.


Það var svo gaman að geta látið sig hverfa bakvið stólinn þarna á myndinni og bíða eftir þvi að við færum að kalla á hann og koma þá fram hinu megin við stólinn og sjá viðbrögð okkar.


Og svo þegar verið var að búa hann í háttinn kom hann allt í einu hlaupandi og byrjaði aftur á leiknum bakvið stólinn og það var alveg rosalega gaman fyrir hann að gera okkur alveg stein hissa.


Svo var það hvíti skápurinn sem ekki var settur alveg út í hornið. Þar gat hann líka látið sig hverfa og beið svo eftir því að við undruðumst yfir því hvar hann væri. Svo var alveg rosa gaman þegar hann kíkti fram og sýndi sig og ég veit ekki alveg hvort hann eða við höfðum meira gaman að þessu. Mér fannst hann vera ótrúlega ungur að vera byrjaður á þessu, en eitthvað minntist ég svona leikja á Bjargi í Hrísey fyrir einum fjörutíu árum og þaðan af meira. Ég vil svo aftur taka fram það sem ég sagði í byrjun að þegar þessar myndir voru teknar þá var allt á rúi og stúi þar sem búslóðin var nýkomin inn úr dyrunum. Og í framhaldi af því vil ég segja eitt; Það var eins og hann finndi sig heima þarna á nýja heimilinu fjafnskjótt og hann gekk þar inn í fyrsta skipti.


Svo var auðvitað alveg nauðsynlegt að klípa hann pabba sinn í eyrað og ekki skemmdi það gleðina ef pabbi skrækti svolítið.


En það var ekki allt bara leikur hjá honum kringum þessa flutninga skulið þið vita. Þarna var hann orðinn rauður í kinnum við að hjálpa á sinn hátt en það fólst í því að keyra ferðatöskur fram og til baka um íbúðina upp í Uppsala og það ekki á neinum smá hraða, það var bara á fullri ferð.


Svo að lokum síðsumarmynd frá Sólvöllum þegar mamma og drengur voru í heimsókn. Þarna er meiri afslöppun ríkjandi og þarna er annar blær yfir öllu en nú er í hörku frosti og snjó hér um slóðir.

Öðruvísi dagur

Jahérnanahér! Það hefur ekki verið gert svo mikið á Sólvöllum í dag þar sem við  höfum verið á mannamótum inn í Örebro. Fyrst hittum við íslendinga sem eru staddir í Örebro og komu með sendingu til okkar frá Valgerði og  fjölskyldu. Við hittumst í Sveppinum en Sveppurinn er svamplaga vatnsgeymir norðarlega í Örebro. Hann er 58 metra hár og rýmir 9000 tonn af vatni. En efst upp í Sveppinum er líka veitingahús og þar hittum við Íslendingana til að taka við jólasendingunni frá Eyjum. Það voru teknar nokkrar myndir þarna og ég ætla að láta þær tala.


Hér eru nefnilega þrjár kynslóðir á ferðinni. Ef við byrjum til hægri er jú Valdís fjærst. Síðan kemur Guðbjörg Guðmndsdóttir sem er saumaklúbbsfélagi Valgerðar í Vestmannaeyjum og hún er mamman í hópnum. Við hliðina á henni er svo amman. Á móti þeim sitja börnin hennar Guðbjargar og fjær er Guðmundur sem býr í Örebro það var hann sem fékk þessa stórheimsókn frá fósturlandinu. Nú var það svo óréttlátt að þegar þessi mynd var tekin var amma að hagræða gleraugunum sínum þannig að við birtum aðra mynd.


Hér vantar Guðbjörgu þar sem hún var jú að taka myndina en ég má til með að tala svolítið um ömmu. Þegar við vorum öll komin að borðinu áttaði amma sig á því að hún hafði farið rangt með eitthvað sem hún hafði pantað í afgreiðslunni þannig að hún sneri við og sagðist ætla að segja þeim það. Eitt augnablik hugsaði ég sem svo að hvernig hún ætlaði að gera það. Svo var ekkert meira með það. Síðar í spjalli okkar þarna við borðið fór amma að tala um Stensunds lýðháskóla og þá fór ég nú að sperra eyrun. Það hafa svo margir nemendur frá þessum skóla komið í starfsæfingu í Vornesi. Já, sagði amma, þegar ég innti hana meira eftir þessu, ég var þar við nám. Þessi skóli er skammt frá Trosa við austurströndina og það er afskaplega fallegt þar. Ég kannaðist vel við þetta að skólinn er skammt frá Trosa og það er orðlögð fegurð á þessu svæði.

Það var nú orðið svolítið gaman að þessu og þó að það sé orðin hálf öld eða meira síðan amma var þarna talaði hún nefnilega reiprennandi sænsku. Þar með skildi ég hvernig hún hafði leiðrétt sig við kassann. En hvað sem þessu líður, þá var gaman að hitta þetta fólk og ekki síst vegna þess að Guðbjörg þekkir okkar fólk í Eyjum.


Svo verð ég auðvitað að birta þokkalega mynd af öllum. Guðmundur er nýlega orðinn pabbi og það hefur líklega verið ástæðan til að systirin, mamman og amman komu í heimsókn einmitt núna. Læt ég þetta hér með nægja um Íslendingamótið í Svampinum í Örebro


Við Valdís fórum beint úr Svampinum og í gömlu kirkjuna okkar á hinn álrega jólakonsert. Þar gleymdi ég gipsplötum, steinull, sög og hamri og hlustaði hugfanginn á tónlistarfólkið með skáröndótta bindið mitt um hálsinn og í dökkbrúna flaujelsjakkanum minum. Það urðu fagnaðarfundir með Valdísi og kórfélögunum hennar, en hún hefur ekki tekið þátt í kórstarfinu síðan við fluttum á Sólvelli. Ég held að þetta hafi hálf kveikt í henni að byrja aftur og ef hún vill gera það sé ég um ferðirnar.

Eftir konsertinn var svo jólaborð í kirkjunni. Ekki fór mikið fyrir hangikjötinu eða ofnsteikta lambshryggnum en það var nóg að borða samt sem áður. Ég byrjaði að vanda á síldinni, graflaxinum og ferska laxinum. Svo fór ég að fá mér meira og fór þá í síldina, graflaxinn og ferska laxinn og eftir það gat ég ekki borðað meira. Svona er það alltaf þegar ég fer á jólaborð, ég fer aftur og aftur í síldarrétti og laxarétti og svo er ég saddur. Kynlegur kvistur ég.

Ég heyri hér fyrir aftan mig að Valdís er komin í félagsskap með Óla Lokbrá og það er best fyrir mig að koma mér þangað líka. Ég er búinn að bursta og pissa svo að það er ekki eftir neinu að bíða enda er klukkan orðin hálf eitt. Takk fyrir stundina í Svampinum þið Íslendingar og eigið góða helgi í Örebro.

Hvíldardagur

Það er orðið langt síðan, mikið langt síðan. Það var síðast í september sem ég gerði ekkert heilan dag. Það var þegar Rósa og fjölskylda fluttu og við vorum hjá þeim til að reyna að hjálpa. Svo þegar allt var komið í hús í Stokkhólmi fóru þær mæðgur út til að kaupa pizzu handa fólkinu en þar sem ég er of fínn til að borða pizzu bað ég um lazanja. Daginn eftir gerði ég ekkert þar sem ég varð veikur af að borða lazanja. Ég fékk að borga hressilega fyrir að vera sérstakur.

Það var búið að standa til um tíma að gera ekkert í dag. Það var vegna heimsóknar sem Valdís fékk í dag og meiningin var að ég mundi vera henni svolítið hjálplegur í heimilishaldi, enda átti hún það skilið af minni hálfu eftir allar þær máltíðir sem hún hefur framreitt handa mér. Nú er ég kannski að gefa í skin að það sé að gera ekki neitt að hjálpa í heimilishaldi, en sannleikurinn er bara sá að Valdís stóð sig svo vel að mitt framlag var hreint ekki neitt -finnst mér svona eftir á.

Annars hef ég unnið ansi sleitulaust við nýbyggingu okkar og stundum ekki alveg laust við að ég hafi hugsað sem svo að ég þurfi að fara að gæta mín. Það var hérna á laugardaginn var að ég var alveg steinhissa á starfsgetu minni. Ég meira að segja bloggaði um það. Svo var það aðfaranótt sunnudags að ég vaknaði um hálffjögurleytið og þá fannst mér sem það væri ekki allt með felldu. Eitthvað sofnaði ég eftir þetta en þegar venjulegur fótaferðatími var gengin í garð var ég ekki nema hálfur maður. Ég fór samt rólega af stað og hélt að ég mundi komast í gang eftir sjónvarpsmessuna en ég hélt samt áfram að vera hálfur maður. Ég var farinn að velta fyrir mér hvort ég væri að verða veikur.

Eftir að hafa gert eitt og annað sem ég hafði verið búinn að skipuleggja daginn áður hætti ég nokkuð snemma og gekk inn til Valdísar og sagðist vera hættur. Ég stóð í sturtunni upp úr klukkan sex og fann að ég hafði gott af því. Ég horfði fram í glerskerminn framan við sturtuna og virti fyrir mér hvernig vatnið speglaðist í glerinu þannig að það var eins og það væri vatn á gólfinu framan við. Skrýtið, hugsaði ég og hélt áfram að slappa af undir sturtunni. Eitthvað fékk mig svo til að líta niður á tærnar á mér og þá sá ég nokkuð sem var alveg skelfilegt. Ég stóð í svo sem tveggja sentimetra djúpu vatni. Nei-nei-nei! Þetta mátti bara alls ekki ske og síst af öllu einmitt núna þar sem ég hafði orðið að gefa mig vegna þess að ég orkaði ekki meir.

Ég kallaði á Valdísi og bað hana að hala niður úr klósettinu. Þá fékk ég staðfestinguna sem ég óttaðist. Loftið bubblaði upp um svelginn í sturtunni. Jú, það var ekki um að villast að frárennslið var stíflað. Þá bað ég æðruleysisbænina. Ég hélt ró minni og þegar ég var búinn að klæða mig -í drullugallan aftur- byrjaði ég á nokkrum tilraunum. Árangur: Enginn. Frárennslið er nýtt hugsaði ég og ég skal aldrei segja frá því að það hafi stíflast. Svoleiðis má bara ekki henda hjá okkur á Sólvöllum og enginn skal fá að vita. Aldrei.

Það var um þrjá staði að ræða. Milli húss og rotþróar, frá rotþró að jarðvegssíu og að lokum á leið frá jarðvegssíu og út í skurð. Til að komast að fyrsta hlekknum var ekkert annað að gera en líta niður í þróna þó að það væri ekkert sem mig langaði til að gera rétt fyrir matinn. Þegar ég hafði hrært með trélista í skítasúpunni niður í þrónni sá ég að það rann glatt frá húsinu. Þar með fékk ég fyrsta svarið, það gat runnið frá húsinu en það rann ekki frá þrónni. Ég vann að því þarna í náttmyrkrinu að halda ró minni og bað æðruleysisbænina aftur. Svo tók ég ákvörðun: Ég hringi í hann Peter gröfumann á morgun og ræði þetta við hann og trúlega mundi niðurstaðan verða að biðja hanna  koma með gröfuna sína og hefja viðgerð í frosti og snjó. Tíu til tuttugu þúsund mun það kosta hugsaði ég og það var bara að sætta sig við það, ég fengi því ekki breytt. Svo -svo undarlegt sem það nú var- svaf ég vel um nóttina og vaknaði sem nýr maður.

Daginn eftir sagði Peter í símann að ég skyldi kíkja niður um loftventilinn á jaðrðvegssíunni og ef það væri vatn þar væri ástæðan að innihald síunnar kæmist ekki frá henni. Oooo, af hverju þurfti ég að láta segja mér þetta. Ég gekk út að loftventlinum og lýsti niður með vasaljósi. Þar stóð uppi vatn. Þar með gekk ég með skófluna út að skurði og mokaði snjónum ofan af útfallsrörinu. Það var ístappi í rörendanum! Takk, takk, takk! Ég fór inn og sótti tíu lítra af heitu vatni, helti niður á rörendann og fylgdist eftirvæntingarfullur með. Ekkert skeði, og þó, jú, víst, það byrjaði að seytla fram vatn. Ég sló með skóflunni í rörið og það seytlaði hraðar. Eftir svolitla stund flaug tappinn út úr rörendanum og ég hefði getað öskrað af gleði. Innihald jarðvegssíunnar streymdi fram í svo miklum mæli sem bara rörið leyfði.

Þetta var mánudagur og þann dag var ég alveg rosalega glaður yfir þessari einföldu lausn og eftir því var ég duglegur líka. Svo kom þriðjudagur. Á miðvikudag ætlaði smiðurinn að koma og ég var ekki nærri tilbúinn með það sem til stóð. Þá fann ég að bæði stress og þreyta ásóttu mig og ég vann að þvi að halda ró minni. Þegar smiðurinn kom á miðvikudagsmorguninn hélt ég áfram við að vinna við það sem átti að vera tilbúið en hann fór í það sem við ætluðum að gera báðir. Það var ekki fyrr en eftir hádegi sem ég var tilbúinn og fór að vinna með honum. Það varð tíu tíma viðstöðulaus vinna en árangurinn var góður. Það er nú meira hvað hús breytast þegar gipsplöturnar koma innan á veggina. Það eru góð verðlaun fyrir vel unnin störf að sjá þá breytingu.


Anders klæddi með 12 mm krossvið þegar ég var tilbúinn með síðasta lagið af einangrun, 45 mm steinull, en það var það sem ég hamaðist við að gera þannig að hann þyrfti aldrei að bíða eftir mér.


Suðurgaflinn klæddur með krossvið og þar undir samtals 19 sm af steinull. Það skal verða hlýtt í okkar húsi.


En sjáið bara hvað skeður þegar gipsplöturnar koma upp. Húsið fær hreinlega annan persónuleika. Valdís var líka ánægð með þetta og sem verðlaun fengum við lummur hjá henni með eftirmiddagskaffinu, en þær bakaði hún úr afganginum af grjónagrautnum sem við fengum í hádeginu. Það var búkonulegt af henni.

Fyrsta frídeginum mínum í mjög langan tíma er lokið og fundurinn með félaga Lokbrá er á næsta leyti. Á morgun verður byggingarvinna á ný og ég býst við að þá muni ég finna að ég hafi haft gott af hvíldardeginum í dag. Einhvern veginn hefur mér fundist í dag sem það væri laugardagur.

Kvennaheimsókn á Sólvöllum

Rökkrið er að byrja að leggjast yfir. Skógurinn austan við húsið, beint fyrir utan gluggann þar sem ég sit, er hreint ótrúlega kyrrlátur. Það liggur snjór á hverri grein og jörð er öll snævi þakin. Næst húsinu standa einungis lauftré en fjær er skógurinn blandaður lauf- og grenitrjám. Þar sem blandaði skógurinn byrjar er skyggnið farið að dempast af snævi þöktum greinunum en sums staðar sést lengra inn til grenitrjánna og á einum stað sést langt út milli grenigreina sem hníga undan snjó. Myndin er róandi falleg vetrarmynd og í morgun sagði veðurfræðingurinn Lage að við gætum treyst því að bæði frost og snjór muni aukast fram til jóla.

Frammi við matborðið er mikið talað en þar sem sitja fimm konur sem hittast heima hver hjá annarri á eins mánaðar fresti. Þær eru engir ungdómar lengur. Þær eru búnar að ganga gegnum misjöfn gæði og lífið er búið að taka sinn toll. Þær eru á aldur við okkur Valdísi og aðeins eldri. Þegar þær komu allar saman á bílnum hennar Ghita ætlaði hún að stoppa út við innkeyrsluna en við bentum henni að koma heim tröðina sem búið er að moka heim að húsinu. Þar stoppaði hún svo beint framan við húsið. Svo opnaðist framhurðin farþega megin og út kom fótur sem steig hægt niður á frosinn snjóinn. Svo hagræddi sér í sætinu konan sem átti fótinn og smám saman kom hinn fóturinn einnig. Svo tók hún taki í yfirkantinn á bílhurðinni og rólega kom hún svo öll út. Augnabliki eftir að framhurðin opnaðist opnaðist líka afturhurðin og nákvæmlega það sama endurtók sig þar.

Upphaflega kynntust þessar konur þegar þær hittust á námskeiði fyrir konur sem líða af gigt. Um ári seinna hringdi Valdís í þær og bauð þeim upp á brauðtertu. Þær komu allar fjórar og þar með byrjaði þessi hefð að hittast einu sinni í mánuði og nú eru liðin nokkur ár. Ég hef skrifað um þær áður og þá líka sagt eitthvað svipað og ég hef sagt núna. Svona vetrarheimsókn fer öðruvísi fram en heimsókn að sumri til. Á sumrin eru þær nánast eingöngu úti og þá tína þær ber og eiginlega leika þær sér pínulítið. Þá eru þær hér mestan hluta dagsins og verða stundum þreyttar og fá þá að leggja sig.

Þegar þær voru búnar að borða hádegismatinn settust þær allar inn í stofu og létu fara vel um sig. Þá var ég byrjaður á þessu bloggi. Meðan þær sátu þar heyrði ég allt í einu hvar Leila hin finnska sagði stundarhátt: Það er notalegt að vera hérna. Já, þær voru sammála henni. Þegar þær voru svo að fara sögðu þær að þetta lægi svo notalega og þær ættu eftir að koma aftur skyldum við vita. Svo fylgdum við þeim með vasaljós út að bílnum. Við erum nefnilega ekki farin að nota aðalinnganginn þannig að við þurftum að ganga hálfhring um húsið. Svo óku þær úr hlaði, þrjár finnskar konur og ein sænsk. Eftir sat gestgjafinn, íslenska konan sem lagði land undir fót fyrir sextán árum og fann svo út að það mundi vera gaman fyrir fimm vinnulúnar konur að hittast einu sinni í mánuði, borða saman og tala um lífið og allt mögulegt sem á dagana hefur drifið.


Eftir matinn og spjallið um lífið og tilveruna bauð Valdís þeim upp á kaffi og nýja jólabrauðið sem leynist í dunkum í skápnum sem við köllum búrið. Hún stendur sig vel hún Valdís og hún var búin að undirbúa þetta vel enda tókst henni allt vel til í dag.




Þegar ég nú er búinn að skrifa þetta er rökkrið lagst yfir af fullum þunga. En utan við gluggann bíður sama útsýni og sömu tré eftir nýjum degi.

Þvílíkur laugardagur

Það er búið að ske mikið á Sólvöllum í dag. Að vísu byrjaði dagurinn seint þar sem okkur ellilífeyrisþegunum þykir vænt um rólegan morgunverð og hann getur dregist á langinn svo um munar. En þrátt fyrir það varð vinnudagurinn heilir átta tímar og allt gekk eftir áætlun. Ég var utandyra og gekk til verks með skemmtilega smíðavinnu sem miðaði að að því að draga fram síðustu línurnar sem gefa húsinu okkar þann arkitektúr sem hugsaður var í upphafi fyrir nánast nákvæmlega ári síðan.

En innan við nýju gluggana var húsmóðir Valdís að vinna við eldhúsbekkinn. Hún var að baka úr degi sem hún gerði klárt í gær en svo þegar til kom fannst henni það ekki nóg svo að hún byrjaði að hnoða ný deig og lét sig ekki fyrr en hún var búin að baka allt sem hún hafði ætlað sér að baka til jólanna. Og þó, að því er ég best veit bakaði hún eina umfram sort sem ekki var með á listanum fyrr en seinni partinn í dag.

Er ekki kaffi núna kallaði hún út þegar eiginlega var matartími. Jú, það er kaffi svaraði ég. Þegar ég kom í dyrnar ilmaði bæði mikið og alveg rosalega gott. Sælkerinn og græðgin alveg sturluðust í mér og ég gerði nokkuð sem ég geri mjög, mjög sjaldan nú orðið. Ég fékk mér mjólk í glas og tók til við að smakka volgar kökur. Það er ekki hægt að hæla fyrir baksturinn nema smakka. Og Valdís hafði sett í sérstakan dunk kökurnar sem ekki voru alveg fyrsta flokks fallegar. Þær byrjaði ég að smakka og þegar ég hafði byrjað smökkunina var ég hreinlega dottinn í það. Svo fékk ég mér meiri mjólk og smakkaði aðeins meira. Svo byrjaði ég að skammast mín.

Ég auðvitað þurfti að bregða mér inn oftar til að smakka og alltaf smakkaðist allt vel. Eftir átta tíma vinnu var ég búinn með nákvæmlega það sem ég hafði sett mér fyrir í morgun og þegar ég kom inn var Valdís líka búin með það sem hún hafði ætlað sér að gera og gott betur. Hún hafði hreinlega farið hamförum allan daginn. Klukkan átta byrjaði vikulegur sjónvarpsþáttur sem ég horfi á. Þátturinn er góður en þó hefur hann einn galla. Það koma auglýsingar með svo sem fimmtán mínútna millibili. Ég notaði tímann meðan auglýsingarnar stóðu yfir og gekk inn að tölvu og þóttist vera að gera eitthvað þar. En sannleikurinn var þó sá að ég brá mér þetta til að éta úr dunknum með kökunum sem voru ekki nógu fallegar.

Á morgun er nýr dagur og sem býður upp á skemmtileg verkefni en líka kökudunk að berjast á móti. En ég veit að þó að mér takist að berjast á móti kökudunknum verð ég jafnframt skyldugur að smakka á brúnu lagtertunni sem Valdís ætlar að setja hvítt krem í á morgun. Tertan býður eftir kreminu hér fram á elhúsborði. En hvað sem því líður ætla ég að ljúka við verkið sem ég hef unnið að í dag og annað kvöld verður Sólvallahúsið búið að fá endanlega svipinn. Ég þarf að byrja snemma og því fer ég snemma til fundar við Óla Lokbrá. Á morgun er líka sjónvarpsmessa sem ég vil ekki missa af.

Hver veit nema við birtum myndir af húsi annað kvöld, húsi sem verður búið að fá þann svip sem það á að bera til frambúðar.

Hvað er sálarró

Það var til umræðu í sjónvarpi um daginn að ótrúlega mörgu gömlu fólki leiddist og það sá engan tilgang með lífinu. Ekki var það nú björgulegt og vera sjálfur að eldast. Ég velti þessu dálítið fyrir mér þangað til eitthvað annað tók yfirhöndina. En áður en þetta eitthvað annað tók yfirhöndina skrifaði ég minnispunkt á umslag sem ég svo lagði til hliðar og hugsaði með mér að ég ætti kannski að takast á við þetta á blogginu mínu. Jafnframt hugsaði ég sem svo að þá hugsanlega tæki ég mér vatnið yfir höfuðið.

Svo var ég eitthvað á ferðinni út og inn seinni partinn í dag og þá var þáttur í sjónvarpinu sem fékk mig til að stoppa aðeins og horfa á stutta stund. Þátturinn fjallaði um það hvað fólk gæti fundið sér til dundurs um jólin. Maður nokkur benti á einhverja kvikmynd um jólasvein sem væri alveg sérstaklega skemmtileg þar sem jólasveinninn var fullur í myndinni allan tímann. Svo kynnti ung kona tölvuspil sem gekk eitthvað út á að dansa eins og Mikael Jackson en meira skildi ég ekki af því.

Í framhaldi af þessu varð mér aftur hugsað til þáttarins um gamla fólkið sem bara leiddist og sá engan tilgang með lífinu. Það var nefnileg þannig að hluti af því sem ég velti fyrir mér eftir þann þátt var hvort óhamingja í ellinni gæti ekki verið afleiðing af því að lífinu væri lifað í andlegri fátækt. Mér fannst það vera innantómt að horfa á jólasvein á löngu fylleríi. Það er einhvern veginn önnur mynd af jólasveinum en sú sem ég hef haft, en hún er að hlutverk jólasveina sé að gleðja börn. Ef það á svo að fara að gleðja börn með því að láta þau horfa á jólasveininn fullan, þá finnst mér sem það sé verið að kenna þeim að fyllerí sé hversu eðlilegt sem helst. Þau geti þá líka farið að venja sig á að það sé hlægilegt þegar mamma eða pabbi eru full. Og svo þetta með tölvuspilið. Ég er svo gamaldags að ég finn að ég á ekki að tjá mig um það.

Þegar ég var smá patti kom verksmiðjuframleiddur leikfangabíll að Kálfafelli. Þetta var vörubíll sem ég get ímyndað mér að hafi verið upp undir hálfur metri að lengd, að miklu leyti rauður og framhjólin gátu tekið beygju. Mikið ef það var ekki hægt að sturta með honum líka. Þessi bíll var á leið austur í Öræfi til stráks sem þá var að alast upp í Skaftafelli. Löngunin eftir svona bíl varð ólýsanleg.

Ég lék mér aldrei með svona bíl og gleymdi honum fljótlega en ég reyndi að smíða bíla og smíðaði reyndar einfalda bíla en þeir nálguðust ekki bílinn sem sendur var í Skaftafell. Ég var oft einn og leið oft mjög vel þegar ég var einn en ég man aldrei eftir því að mér hafi í raun fundist að ég væri einn. Ég á afar fallegar og góðar minningar um þær mörgu ferðir sem ég skokkaði austur ævintýralegan Lambhagann og síðan inn með Djúpá þar sem dulúðin og ósnortin náttúran höfðu fallist í faðma í árdaga. Ég sé enn í dag fyrir mér marga svona staði og finnst sem ég geti fundið hvernig það var að strjúka hendi varlega yfir dýjamosa þar sem vatnsdropi endurkastaði sólarljósinu eins og dýrmæt perla.

Ég upplifi í minningunni að þetta voru mikil andlegheit fyrir mig. Síðar í lifinu leitaði ég andlegheitanna á annan hátt en fann þau ekki. Þegar ég gafst upp á þeirri leit fann ég þau á ný. Það er kannski þess vegna sem ég finn enga þörf fyrir að horfa á kvikmynd um jólasveininn á fylleríi eða dansa í tölvuspili við Mikael Jacksom dauðan um jólin. Kannski lætur þetta hrokafullt og ef ég nefni orðið alvara fer ég kannski að verða leiðinlegur fyrir alvöru. En fyrir mér er alvaran svo mikill þáttur í því að geta lifað góðu lífi. Hugsandi maður sem heitir Martin Lönnebo segir í bók að skammsýni og skortur á alvöru séu hræðilegar dauðasyndir. Svo vil ég segja um andlegheit að þau krefjast ekki alltaf guðstrúar. Heiðarleiki og sannleikur eru líka andlegheit.

Að taka mér vatnið yfir höfuðið sagði ég í byrjun og það hef ég kannski gert, en þá í fyrsta lagi á þann hátt að ætla mér að fjalla um alvarlegt efni í fáeinum orðum. Ég ætla að lokum að nota mér vís orð lífsreynds eftirlaunamanns sem heitir Karl-Erik Elmquist en hann segir:

Ég er kristinn. Að trúa á Guð er eðlilegt og einfalt fyrir mig.
Ég skil ekki allt um Guð og Jesús
og það sem stendur í Biblíunni.
Þess vegna ræði ég oft við sjálfan mig og aðra.
En ég er samt tryggur í minni kristnu trú. Ég tilheyri Guði.
Ég treysti honum. Ég er hans.
Ég er með honum á margan hátt.
Helst vil ég vera einn.

Stundum þegar það er kyrrt á kvöldin, um ellefu leytið,
setst ég við litla fótstigna orgelið.
Það er næstum alltaf dimmt í herberginu og
ég get spilað utan að sjá.
Ég spila oft sönginn
“Enginn þarf að óttast síður
en Guðs barna skarinn fríður”.
Þennan söng lærði ég sem barn.
Hann gefur mér ró og hvíld og gerir mig glaðan.
Einhvern veginn upplifi ég eins og þegar ég var lítill.
Guð kemur til mín áður en ég sofna.
Ég loka augunum. Hvað sem skeður er Guð hjá mér.
Ég vakna kannski ekki næsta morgun. Samt er ég öruggur og
geng rólega með Guði yfir landamærin.

                Þýðingin er mín. Hvað er sálarró ef ekki í þessum línum?

RSS 2.0