Kvennaheimsókn á Sólvöllum

Rökkrið er að byrja að leggjast yfir. Skógurinn austan við húsið, beint fyrir utan gluggann þar sem ég sit, er hreint ótrúlega kyrrlátur. Það liggur snjór á hverri grein og jörð er öll snævi þakin. Næst húsinu standa einungis lauftré en fjær er skógurinn blandaður lauf- og grenitrjám. Þar sem blandaði skógurinn byrjar er skyggnið farið að dempast af snævi þöktum greinunum en sums staðar sést lengra inn til grenitrjánna og á einum stað sést langt út milli grenigreina sem hníga undan snjó. Myndin er róandi falleg vetrarmynd og í morgun sagði veðurfræðingurinn Lage að við gætum treyst því að bæði frost og snjór muni aukast fram til jóla.

Frammi við matborðið er mikið talað en þar sem sitja fimm konur sem hittast heima hver hjá annarri á eins mánaðar fresti. Þær eru engir ungdómar lengur. Þær eru búnar að ganga gegnum misjöfn gæði og lífið er búið að taka sinn toll. Þær eru á aldur við okkur Valdísi og aðeins eldri. Þegar þær komu allar saman á bílnum hennar Ghita ætlaði hún að stoppa út við innkeyrsluna en við bentum henni að koma heim tröðina sem búið er að moka heim að húsinu. Þar stoppaði hún svo beint framan við húsið. Svo opnaðist framhurðin farþega megin og út kom fótur sem steig hægt niður á frosinn snjóinn. Svo hagræddi sér í sætinu konan sem átti fótinn og smám saman kom hinn fóturinn einnig. Svo tók hún taki í yfirkantinn á bílhurðinni og rólega kom hún svo öll út. Augnabliki eftir að framhurðin opnaðist opnaðist líka afturhurðin og nákvæmlega það sama endurtók sig þar.

Upphaflega kynntust þessar konur þegar þær hittust á námskeiði fyrir konur sem líða af gigt. Um ári seinna hringdi Valdís í þær og bauð þeim upp á brauðtertu. Þær komu allar fjórar og þar með byrjaði þessi hefð að hittast einu sinni í mánuði og nú eru liðin nokkur ár. Ég hef skrifað um þær áður og þá líka sagt eitthvað svipað og ég hef sagt núna. Svona vetrarheimsókn fer öðruvísi fram en heimsókn að sumri til. Á sumrin eru þær nánast eingöngu úti og þá tína þær ber og eiginlega leika þær sér pínulítið. Þá eru þær hér mestan hluta dagsins og verða stundum þreyttar og fá þá að leggja sig.

Þegar þær voru búnar að borða hádegismatinn settust þær allar inn í stofu og létu fara vel um sig. Þá var ég byrjaður á þessu bloggi. Meðan þær sátu þar heyrði ég allt í einu hvar Leila hin finnska sagði stundarhátt: Það er notalegt að vera hérna. Já, þær voru sammála henni. Þegar þær voru svo að fara sögðu þær að þetta lægi svo notalega og þær ættu eftir að koma aftur skyldum við vita. Svo fylgdum við þeim með vasaljós út að bílnum. Við erum nefnilega ekki farin að nota aðalinnganginn þannig að við þurftum að ganga hálfhring um húsið. Svo óku þær úr hlaði, þrjár finnskar konur og ein sænsk. Eftir sat gestgjafinn, íslenska konan sem lagði land undir fót fyrir sextán árum og fann svo út að það mundi vera gaman fyrir fimm vinnulúnar konur að hittast einu sinni í mánuði, borða saman og tala um lífið og allt mögulegt sem á dagana hefur drifið.


Eftir matinn og spjallið um lífið og tilveruna bauð Valdís þeim upp á kaffi og nýja jólabrauðið sem leynist í dunkum í skápnum sem við köllum búrið. Hún stendur sig vel hún Valdís og hún var búin að undirbúa þetta vel enda tókst henni allt vel til í dag.




Þegar ég nú er búinn að skrifa þetta er rökkrið lagst yfir af fullum þunga. En utan við gluggann bíður sama útsýni og sömu tré eftir nýjum degi.


Kommentarer
Steinar

Falleg saga.

2010-12-09 @ 17:55:22
Valgerður

á Íslandi kallast þetta saumaklúbbur (þó ekkert sé saumað) og það er gott að mamma skyldi stofna einn slíkan í Svíþjóð. Kannski er hún hinn sanni útrásarvíkingur hún móðir mín.

VG

2010-12-09 @ 18:37:33
Rósa

Gaman að heyra af kvennaheimsókninni. Þær eru fínar þessar kéllingar.



Kveðja,



R

2010-12-09 @ 20:24:30
Guðjón Björnsson

Já, hún er sko mikið betri útrásarvíkingur en tussusnúðarnir sem upphaflega fengu þetta nafn og alveg rétt; kéllingarnar eru fínar.



Kveðja,



pabbi

2010-12-09 @ 22:27:33
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0